Categories
Greinar

Jákvæð áhrif samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Deila grein

02/09/2021

Jákvæð áhrif samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Stuttu eft­ir að ég tók til starfa sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra blossaði #églíka-bylt­ing­in upp, bet­ur þekkt sem #met­oo. Kyn­ferðis­leg áreitni og of­beldi er sam­fé­lags­mein, og hug­rakk­ir hóp­ar ein­stak­linga stigu fram, sögðu sög­ur sín­ar og vöktu okk­ur öll til um­hugs­un­ar. Kon­ur í íþrótta­hreyf­ing­unni létu einnig há­vært í sér heyra, og ég boðaði full­trúa þeirra strax á fund til að ræða mögu­leg­ar aðgerðir til úr­bóta.

Í kjöl­farið skipaði ég starfs­hóp sem vann bæði hratt og ör­ugg­lega til að tryggja að raun­veru­leg­ur ár­ang­ur næðist. Öryggi iðkenda og annarra þátt­tak­enda var sett í önd­vegi við alla vinnu hóps­ins sem taldi mik­il­vægt að til­lög­urn­ar næðu einnig til æsku­lýðsstarfs utan skóla. Hóp­ur­inn skilaði afar grein­argóðu yf­ir­liti og gagn­leg­um til­lög­um sem við unn­um áfram, og út frá þeim til­lög­um lagði ég síðan fram ný lög um sam­skiptaráðgjafa íþrótta- og æsku­lýðsstarfs.

Mark­miðið var að bjóða upp á ör­uggt um­hverfi þar sem börn, ung­ling­ar og full­orðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geta stundað íþrótt­ir eða æsku­lýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða rétt­ar síns vegna kyn­ferðis­legr­ar áreitni og of­beld­is sem þar koma upp án ótta við af­leiðing­arn­ar.

Sam­skiptaráðgjaf­inn tók til starfa í fyrra og þar er öll­um ábend­ing­um um einelti, áreitni og of­beldi tekið al­var­lega og þær kannaðar, öll mál eru unn­in eft­ir ákveðnu verklagi með trúnað og skiln­ing að leiðarljósi. Auk þess get­ur sam­skiptaráðgjafi veitt fé­lög­um og sam­tök­um leiðbein­ing­ar varðandi slík mál og ger­ir til­lög­ur til úr­bóta þegar við á. Á fyrsta starfs­ár­inu fékk sam­skiptaráðgjaf­inn 24 mál á sitt borð, þar af átta tengd kyn­ferðis­legri áreitni eða of­beldi. Mik­il­vægi ráðgjaf­ans er því byrjað að sanna sig.

Íþrótta­hreyf­ing­in er mik­il­vægt afl í ís­lensku sam­fé­lagi. Þar fer fram öfl­ugt starf á hverj­um degi, sem styrk­ir og mót­ar ein­stak­linga á öll­um aldri. For­varn­ar­gildi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs er ótví­rætt. Því er brýnt að til staðar séu skýr­ir ferl­ar, virk upp­lýs­inga­gjöf og hlut­leysi í mál­um af þess­um toga, sem oft eru viðkvæm og flók­in. Þessi lög voru tíma­móta­skref, sem sendu skýr skila­boð um að áreitni og of­beldi sé ekki liðið í íþrótta- og æsku­lýðsstarfi. Það hef­ur jafn­framt glatt mig í þessu ferli hve vel for­ysta ÍSÍ og UMFÍ hef­ur unnið með okk­ur, og það eru all­ir á sömu blaðsíðunni; að upp­ræta þessa mein­semd og bæta um­hverfi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs á Íslandi.

Enn í dag er ég gríðarlega þakk­lát þeim þolend­um sem stigið hafa fram. Þeirra hug­rekki hef­ur skilað var­an­leg­um breyt­ing­um sem ég er sann­færð um að muni styrkja íþrótta- og æsku­lýðsstarf um land allt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2021.