Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lækkað hagvaxtarspá sína lítilsháttar á heimsvísu árin 2020-2021 og spáir nú rúmlega 3% hagvexti. Lækkunin á einkum við um evrusvæðið en einnig hefur hægt á hagvexti í þróuðum hagkerfum í Asíu. Í Kína hefur hagvöxtur ekki mælst minni í langan tíma, ekki síst vegna viðskiptadeilna milli Bandaríkjanna og Kína.
Á árinu verða þrír meginstraumar ráðandi í alþjóðahagkerfinu. Í fyrsta lagi verður fyrirkomulag og umgjörð heimsviðskipta áfram háð nokkurri óvissu, þrátt fyrir tollasamkomulag sem Kínverjar og Bandaríkjamenn gerðu um miðjan mánuðinn. Í öðru lagi munu þjóðir heims áfram þurfa að laga sig að lágvaxtaumhverfi vegna minnkandi hagvaxtar og í þriðja lagi munu tækniframfarir og sjálfvirknivæðing hafa mikil áhrif á vinnumarkaði. Straumarnir vega hver annan að einhverju leyti upp, því á sama tíma og viðskiptadeilur drógu úr þrótti hagkerfa á síðasta ári ýttu lágir stýrivextir undir hagvöxt. Þá hafa tækniframfarir dregið úr kostnaði og verðbólga verið tiltölulega lág, jafnvel í hagkerfum sem hafa notið mikils vaxtar.
Ísland er gott dæmi um þjóðríki sem hefur notið góðs af greiðum viðskiptum á milli þjóða. Það er skylda okkar að greiða fyrir frjálsum viðskiptum og hlúa í leiðinni að hagsmunum þjóðarinnar. Að undanförnu hefur dregið úr hagvexti í mörgum lykilviðskiptaríkjum Íslands. Iðnframleiðsla í Þýskalandi hefur dregist saman og hagvöxtur hefur minnkað í Frakklandi og Ítalíu. Þannig hafa viðskiptakjör Íslands versnað vegna minnkandi hagvaxtar. Hins vegar brugðust fjármálamarkaðir vel við fréttum um tímabundið samkomulag bandarískra og kínverskra stjórnvalda. Áhættuálag á skuldabréfamörkuðum lækkaði og verð á hlutabréfamörkuðum hækkaði. Það eru góðar fréttir fyrir Ísland, sem nýtur góðs af auknum fyrirsjáanleika um umgjörð heimsviðskipta.
Staðan í alþjóðakerfinu er án fordæma í nútímahagsögunni, þar sem hátt atvinnustig hefur jafnan verið ávísun á aukna verðbólgu. Víðast hvar eru stjórnvöld mjög meðvituð um stöðuna og líklega verður hagstjórn í auknum mæli í höndum þeirra, þar sem hagkerfi verða örvuð í niðursveiflu. Mikilvægt er að halda áfram að fjárfesta í mannauði. Sú verður a.m.k. raunin á Íslandi, þar sem hagstjórn mun taka mið af aðstæðum og innviðafjárfestingar munu aukast. Skýrari leikreglur í samskiptum viðskiptastórveldanna munu hafa jákvæð gáruáhrif um allan heim, sem og framkvæmd löngu boðaðrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu nú um mánaðamótin.
Óvissa er óvinur bæði þjóða og fyrirtækja en um leið og aðstæður breytast til hins betra taka þau fljótt við sér. Það er mikilvægt fyrir almenning hvar í heiminum sem er.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2020.