Categories
Greinar

Jólakveðja frá Framsókn

Það eru að koma jól. Og eins og alltaf fyrir jólin síðustu ár, í ati þingsins, verður mér hugsað til þess þegar dýralæknirinn Sigurður Ingi fékk símtal seint að kvöldi aðfangadags um að lítil tík ætti í erfiðleikum með fæðingu. Á þessum tíma var ég ekki með fullkomna aðstöðu fyrir skurðaðgerðir þannig að ég bað fólkið um að koma með hundinn heim til mín. Síðar um nóttina framkvæmdi ég keisaraskurð á tíkinni sem fæddi heilbrigða hvolpa. Þessi minning frá jólanótt er mér alltaf kær.

Deila grein

18/12/2020

Jólakveðja frá Framsókn

Það eru að koma jól. Og eins og alltaf fyrir jólin síðustu ár, í ati þingsins, verður mér hugsað til þess þegar dýralæknirinn Sigurður Ingi fékk símtal seint að kvöldi aðfangadags um að lítil tík ætti í erfiðleikum með fæðingu. Á þessum tíma var ég ekki með fullkomna aðstöðu fyrir skurðaðgerðir þannig að ég bað fólkið um að koma með hundinn heim til mín. Síðar um nóttina framkvæmdi ég keisaraskurð á tíkinni sem fæddi heilbrigða hvolpa. Þessi minning frá jólanótt er mér alltaf kær.

Það líður að lokum þessa árs, sem betur fer, myndi einhver segja. Það er ljóst að það verður lengi í minnum haft. Ekki hefur aðeins geisað heimsfaraldur heldur hafa náttúruöflin verið okkur erfið; síðasti vetur með sín vályndu veður og jarðskjálftar sunnanlands og norðan. Maður finnur fyrir þreytu í kringum sig og sér á samfélaginu að fólk er komið með nóg af þessu ástandi. Það er skiljanlegt. Maður finnur til með þeim sem hafa misst ástvini og strítt við erfið veikindi og þeim sem hafa misst vinnuna vegna faraldursins. Við í ríkisstjórninni höfum lagt mikla áherslu á að milda höggið með fjölbreyttum aðgerðum eins og hlutabótaleiðinni, lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, viðspyrnustyrkja og svo mætti lengi telja. Og áfram munum við leita leiða til að brúa bilið þangað til bóluefni tryggir hjarðónæmi þjóðarinnar. Þegar því verður náð hef ég trú á því að efnahagslífið nái hröðum bata. Verkefnið er, eins og ég hef áður sagt, að standa vörð um störf og skapa störf. Atvinna, atvinna, atvinna.

Þótt ég sé kannski ekki mjög aldraður maður, hef ég lifað þá tíð að horfa upp á íslenskt efnahagslíf rísa og hníga til skiptis. Það mun halda áfram. En ég er búinn að átta mig á því að það er beinlínis óskynsamlegt að treysta of mikið á eitthvað eitt. Við þurfum fjölbreytt atvinnulíf. Við þurfum að styðja við nýjar greinar en hlúa áfram að rótgrónari atvinnuvegum. Eitt á ekki að útiloka annað. Við verðum að byggja á samvinnu, málamiðlunum og árangri. Við finnum leiðir.

Mér þykir það augljóst að styðja verður dyggilega við íslenska matvælaframleiðslu, hvort heldur hún felst í því að yrkja jörðina, rækta búpening eða veiða eða ala fisk. Það er mikilvægt að standa vörð um matvælaöryggi og þá framleiðslu sem er hér á landi. Það er ekki síður mikilvægt að við breikkum þann grundvöll sem verðmætasköpun á Íslandi stendur á.

Við þekkjum öll mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir atvinnu um allt land. Hún er augljóslega lykillinn að hraðri viðspyrnu. Við sáum það í ferðum okkar um landið í sumar hversu metnaðarfull uppbygging ferðaþjónustunnar hefur verið. Nú standa flest hótel tóm og tækifæri þeirra sem störfuðu í ferðaþjónustu fá og jafnvel engin. En, og þetta er mikilvægt en, allir þeir glæstu innviðir sem byggðir hafa verið upp, hvort heldur í samgöngum eða gistingu, öll sú þekking sem ferðaþjónustufólk hefur öðlast og síðast en ekki síst náttúran, landið sjálft, er enn til og bíður þess að ferðalangar leggi leið sína að nýju til okkar. Því hingað mun fólk vilja koma. Þá mun aftur lifna yfir landinu.

Við eigum eftir að minnast þessara jóla lengi vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum við. Veturinn verður erfiður fyrir marga en með krafti samfélagsins, með krafti samvinnunnar þá mun hann verða auðveldari. Og eftir vetur kemur vor og þá verðum við vonandi aftur farin að faðma fólkið okkar og getum horft grímulaus fram á veginn.

Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegra jóla.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 17. desember 2020.