Categories
Greinar

Riðuveiki blossar upp að nýju

Nauðsynlegt er að hafa viðbragðsáætlanir á hreinu vegna alvarlegra búfjársjúkdóma. Við vitum aldrei hvar eða hvenær þeir banka upp á. Matvælastofnun heldur utan um viðbragðsáætlun við helstu dýrasjúkdómum. Í áætluninni er að finna það ferli sem unnið er eftir við uppkomu þeirra sjúkdóma sem áætlunin tekur til. Ákvarðanir um aðgerðir byggjast á fjölmörgum þáttum sem geta verið ólíkir í hverju tilfelli, leiðbeiningar um viðbrögð eru sem betur fer í stöðugri endurskoðun og miðað er að því að þeim fjölgi jafnt og þétt. Matvælastofnun heldur reglulega viðbragðsæfingar til þess að kanna og aðlaga viðbragðsáætlanir. Það er mikilvægt að byggja upp þekkingu og viðhalda henni til að takast á við margslungnar hættur sem geta læðst upp að okkur.

Deila grein

18/12/2020

Riðuveiki blossar upp að nýju

Nú á haustmánuðum var staðfest riðuveiki á nokkrum sauðfjárbúum í Skagafirði. Við finnum öll til með þeim bændum sem lenda í áfalli sem þessu, áfallið er bæði tilfinningalegt sem og fjárhagslegt. Samkvæmt reglugerð þarf að skera niður allt búfé þar sem riða hefur komið upp og má því segja að fótunum sé kippt undan ævistarfi þeirra bænda sem lenda í þessum hremmingum. Fyrir utan að missa allt sitt fé þurfa bændur einnig að rífa allt innan úr fjárhúsum, sótthreinsa og skipa um jarðveg, það er mikil og erfið vinna fram undan.

Tilfinningalegt tjón bænda verður seint bætt en ríkið hefur og þarf að stíga inn í og koma til móts við þá aðila sem hafa misst allt sitt fé vegna riðu. Nú stendur yfir vinna við að reikna bætur sem bændur í Skagafirði fá greiddar úr ríkissjóði en frummat hefur farið fram vegna áætlaðs kostnaðar bóta. Áætlað er að heildarbætur muni nema um 200 millj. kr. sem fyrirhugað er að verði mætt með sérstöku viðbótarframlagi úr ríkissjóði.

Fyrirbyggjandi ráðstafanir

Þegar þessi alvarlega staða kom upp í Skagafirði innti ég landbúnaðarráðherra eftir svörum hvort búið væri að móta stefnu varðandi rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum vegna riðuveiki í sauðfé hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá ráðherra er hafin vinna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við Matvælastofnun við að meta og endurskoða reglur og stjórnsýslu hvað varðar málefni riðuveiki, varnalínu búfjár, bótafyrirkomulags vegna búfjársjúkdóma og niðurskurðar auk endurskoðunar á regluverki dýraheilbrigðis. Ég fagna því að rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum gegn riðuveiki sé hluti af þeim þáttum sem eru til skoðunar og þá sérstaklega að tekið verði til skoðunar hvort til staðar séu aðrar aðgerðir sem feli í sér minna inngrip, röskun og kostnað en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarna áratugi ef riðuveiki hefur greinst í fé.

Smit getur borist úr jarðvegi þar sem fé hefur verið urðað

Riða er bráðsmitandi og því þarf að huga vel að því hvernig smitað fé er urðað, dæmi er um að smit hafi borist úr jarðvegi þar sem riðuveikt fé hefur verið urðað. Samkvæmt reglugerð á að farga riðusmituðum úrgangi með brennslu. Riðusmitið sem greindist í Skagafirði nú í haust var gríðarlega umfangsmikið og magn úrgangs sem til féll við niðurskurð var meira en tiltækur brennsluofn réð við. Vegna þessara sérstöku aðstæðna var í samráði atvinnuvegaog nýsköpunarráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar tekin ákvörðun um að urða það magn sem ekki var unnt að brenna. Úrgangur var urðaður á aflögðum urðunarstað í nágrenni við þau sauðfjárbú þar sem framkvæma þurfti niðurskurð vegna riðuveiki. Þessi staða sem þarna kom upp kalla á skoðun á því hvort nauðsynlegt sé að tryggja að fyrir hendi séu innviðir sem gera þar til bærum yfirvöldum kleift að fara að reglum við eyðingu á úrgangi sem þessum. Auk þess verður að tryggja eftirlit með urðunarstöðum lengur en nú ert gert ráð fyrir því þessi óboðni gestur getur legið í leyni í marga áratugi.

Viðbragðsáætlanir alvarlegra búfjársjúkdóma

Nauðsynlegt er að hafa viðbragðsáætlanir á hreinu vegna alvarlegra búfjársjúkdóma. Við vitum aldrei hvar eða hvenær þeir banka upp á. Matvælastofnun heldur utan um viðbragðsáætlun við helstu dýrasjúkdómum. Í áætluninni er að finna það ferli sem unnið er eftir við uppkomu þeirra sjúkdóma sem áætlunin tekur til. Ákvarðanir um aðgerðir byggjast á fjölmörgum þáttum sem geta verið ólíkir í hverju tilfelli, leiðbeiningar um viðbrögð eru sem betur fer í stöðugri endurskoðun og miðað er að því að þeim fjölgi jafnt og þétt. Matvælastofnun heldur reglulega viðbragðsæfingar til þess að kanna og aðlaga viðbragðsáætlanir. Það er mikilvægt að byggja upp þekkingu og viðhalda henni til að takast á við margslungnar hættur sem geta læðst upp að okkur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 17. desember 2020.