Categories
Greinar

Lægri flugfargjöld með Loftbrú jafna aðstöðumun íbúa landsins

Það er af­skap­lega ein­falt að nýta sér af­slátt­ar­kjör með Loft­brú. Á Ísland.is auðkenn­ir fólk sig með ra­f­ræn­um skil­ríkj­um og sér þar yf­ir­lit yfir rétt­indi sín. Þeir sem vilja nýta af­slátt­inn sækja sér­stak­an af­slátt­ar­kóða sem nota má á bók­un­ar­síðum flug­fé­laga þegar flug er pantað. Ég hvet ykk­ur til að kynna ykk­ur málið frek­ar á vefn­um Loft­bru.is.

Deila grein

10/09/2020

Lægri flugfargjöld með Loftbrú jafna aðstöðumun íbúa landsins

Íbúar á lands­byggðinni sem búa lengst frá höfuðborg­inni eiga þess nú kost á að fá lægri flug­far­gjöld inn­an­lands. Við höf­um und­ir­búið verk­efnið um nokk­urt skeið und­ir heit­inu skoska leiðin – en skrefið var stigið til fulls í gær, miðviku­dag, þegar ég opnaði Loft­brú með form­leg­um hætti á þjón­ustu­vefn­um Ísland.is. Það var í senn tíma­bært og sér­lega ánægju­legt að koma þessu í loftið.

Loft­brú veit­ir íbú­um með lög­heim­ili á bú­setu­svæðum fjærst höfuðborg­inni 40% af­slátt af heild­arfar­gjaldi í þrem­ur ferðum á ári (sex flug­leggj­um) til og frá höfuðborg­ar­svæðinu. Mark­miðið er mjög skýrt, að jafna aðstöðumun íbúa á land­inu og bæta aðgengi að miðlægri þjón­ustu í höfuðborg­inni. Heil­brigðisþjón­ust­an er sú sem flest­ir þurfa á að halda, en ekki síður mennt­un, menn­ing og afþrey­ing. Með þessu er verið að auka mögu­leika íbúa af lands­byggðinni á fé­lags­legri þátt­töku í borg­ar­sam­fé­lag­inu sem til staðar er á suðvest­ur­horni Íslands.

Í sam­töl­um mín­um við fólk víðs veg­ar um landið hef­ur umræða um ójafnt aðgengi að þjón­ustu oft­ar en ekki skipað stór­an sess í huga fólks. Flest­ir lands­menn búa á suðvest­ur­horn­inu og hef­ur op­in­ber þjón­usta byggst þar upp. Þeir sem búa lengst frá höfuðborg­inni þurfa því að reiða fram hærri fjár­hæðir til að kom­ast á milli landsvæða en þorri lands­manna til að fá aðgang að sömu þjón­ustu. Þetta er skekkja í kerf­inu sem þarf að leiðrétta, ekki síst með það í huga að Reykja­vík er höfuðborg allra lands­manna.

Fyr­ir­mynd­in að Loft­brú er sótt til Skot­lands. Þar hef­ur þessi leið heppn­ast vel og hjálpað til við að halda í og laða að ungt fólk til af­skekktra svæða. Skoska leiðin var eitt af lof­orðum Fram­sókn­ar­flokks­ins fyr­ir síðustu kosn­ing­ar og ein af aðgerðum í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Í mín­um huga er Loft­brú ein af mik­il­væg­ari byggðaaðgerðum sem ráðist hef­ur verið í og með því tekið stórt skref til að koma á móts við grunnþarf­ir fólks sem býr úti á landi. Ísland ljóstengt er annað gott dæmi um vel heppnaða byggðaaðgerð sem legg­ur áherslu á sem mest jafn­ræði lands­manna hvað varðar aðgang að fjar­skiptainnviðum.

Lægri flug­far­gjöld verða liður í að gefa fólki kost á því að velja sér bú­setu óháð starfi og leiða til þess að bú­seta á lands­byggðinni verði auðveld­ari. Bú­seta á lands­byggðinni mun styrkj­ast sem hef­ur já­kvæð áhrif á íbúðaverð. Þá mun leiðrétt­ing þessi hafa víðtæk sam­fé­lags­leg áhrif, auka lífs­gæði fólks sem á þess kost að skreppa til borg­ar­inn­ar fyr­ir lægra far­gjald, nýta ferðina og heim­sækja ætt­ingja og vini.

Í Skotlandi hef­ur flug­ferðum fjölgað og ef greiðsluþátt­taka stjórn­valda með þess­um hætti hjálp­ar flug­fé­lög­um að halda uppi þjón­ustu­stigi er það af hinu góða og stuðlar að ör­ugg­um sam­göng­um. Ein­hverj­ir hafa haft þær áhyggj­ur að flug­fé­lög­in myndu sjá sér leik á borði og hækka far­gjöld­in en mér er það til efs að það væri góð ákvörðun að hækka flug­far­gjöld til allra hinna sem njóta ekki þess­ara mót­vægisaðgerða.

Það er af­skap­lega ein­falt að nýta sér af­slátt­ar­kjör með Loft­brú. Á Ísland.is auðkenn­ir fólk sig með ra­f­ræn­um skil­ríkj­um og sér þar yf­ir­lit yfir rétt­indi sín. Þeir sem vilja nýta af­slátt­inn sækja sér­stak­an af­slátt­ar­kóða sem nota má á bók­un­ar­síðum flug­fé­laga þegar flug er pantað. Ég hvet ykk­ur til að kynna ykk­ur málið frek­ar á vefn­um Loft­bru.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. september 2020.