Categories
Greinar

Loksins leið af leigumarkaði

Hlutdeildarlánum er ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd. Hægt verður að sækja um lánin frá 1. nóvember nk. Með hlutdeildarlánum veitir ríkið 20% viðbótarlán fyrir húsnæðiskaup sem endurgreitt er við sölu eignarinnar. Kaupandi þarf aðeins að leggja út eigið fé sem nemur að lágmarki 5%. Hér er því verið að brúa bil á milli lána sem veitt eru af fjármálafyrirtækjum eða lífeyrissjóðum og kaupverðs. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum heldur fylgja þau fasteigninni og endurgreiðast við sölu eða 25 árum frá lántöku, og er þá miðið við sama hlutfall af verðmæti eignarinnar og upphafleg lánveiting hljóðaði uppá.

Deila grein

10/09/2020

Loksins leið af leigumarkaði

Að búa við húsnæðisöryggi er okkur öllum mikilvægt. Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð lagt mikla áherslu á fjölbreytt úrræði á húsnæðismarkaði því þarfir okkar eru ólíkar. Fyrir skömmu samþykkti Alþingi eitt af áherslumálum félags- og barnamálaráðherra Ásmundar Einars Daðasonar um hlutdeildarlán. Þessi breyting mun skipta sköpum fyrir stóran hóp fólks sem hefur hingað til talið langsótt að komast í eigið húsnæði.

Aðeins 5% eigið fé

Hlutdeildarlánum er ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd. Hægt verður að sækja um lánin frá 1. nóvember nk. Með hlutdeildarlánum veitir ríkið 20% viðbótarlán fyrir húsnæðiskaup sem endurgreitt er við sölu eignarinnar. Kaupandi þarf aðeins að leggja út eigið fé sem nemur að lágmarki 5%. Hér er því verið að brúa bil á milli lána sem veitt eru af fjármálafyrirtækjum eða lífeyrissjóðum og kaupverðs. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum heldur fylgja þau fasteigninni og endurgreiðast við sölu eða 25 árum frá lántöku, og er þá miðið við sama hlutfall af verðmæti eignarinnar og upphafleg lánveiting hljóðaði uppá.

Skilyrðin

Með hlutdeildarlánum er Húsnæðis-og mannvirkjastofnun (HMS) veitt heimild að veita lán fyrir fyrstu kaupendur og kaupendur sem ekki hafa átt fasteign sl. 5 ár og hafa tekjur undir 7.560.000 kr. á ári miðað við einstakling eða 10.560.000 kr. samanlagt fyrir hjón á ári miðað við sl. 12 mánuði. Við þá fjárhæð bætast 1.560.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni fram að 20 ára sem býr á heimilinu. Aðeins er lánað fyrir nýjum íbúðum en heimilað verður að veita hlutdeildarlán til kaupa á hagkvæmum íbúðum í eldra húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins sem hlotið hefur gagngerar endurbætur, enda sé ástand þeirra þannig að jafna megi til nýrrar íbúðar. Með þessari leið skapast aukin hvati til þess að byggja hagkvæmar og góðar íbúðir sem henta fyrir þennan hóp. HMS telur þessa leið ekki þess valdandi að lækka húsnæðisverð þar sem áætlað er að um 4 milljörðum kr. verði varið árlega við kaup á 400-500 íbúðum.

Raunveruleg kjarabót

Tekjulágir einstaklingar hafa of lengi verið fastir á leigumarkaði en tölurnar sýna okkur að stór hluti þeirra vill komast í eigi húsnæði. Nú er ríkið að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða fólk því það er ekki sanngjarnt að aðeins þeir sem eru með sterkt bakland geti eignast eigið húsnæði. Hlutdeildarlánin eru raunveruleg kjarabót.

Framsókn fyrir heimilin!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 9. september 2020.