Categories
Forsíðuborði Greinar

Lýðræðið

Deila grein

03/10/2017

Lýðræðið

Það er áhyggjuefni að kosningaþátttaka hefur leitað niður á við í kosningum en á sama tíma er vaxandi krafa almennings víða um heim að fá vald til að hafa áhrif á það í hvernig heimi fólk vill búa. Misskipting auðs í heiminum fer vaxandi og óánægja fólks í ólíkum löndum með þá þróun eykst. Alþjóðavæðing og tæknibylting síðasta áratuginn hafa haft margvíslegar en á stundum gjörólíkar afleiðingar á líf almennings. Þessi þróun hefur haft þau áhrif að risavaxin alþjóðafyrirtæki eru smátt og smátt að taka yfir í mjög mörgum geirum. Almenningur upplifir í auknum mæli að ákvarðanir um nærumhverfi þeirra séu teknar í stjórnum stórfyrirtækja án aðkomu almennings eða stjórnvalda á hverjum stað.

Vilji almennings
Krafa almennings kallaði fram vilja Íslendinga í Icesave sem snerist um að verja efnahagslegt fullveldi lands og þjóðar. Skotar greiddu einnig atkvæði um sjálfstæði fyrir nokkrum árum, Bretar um Brexit og nú eru fréttir um löngun íbúa Katalóníu á Spáni til að segja skoðun sína í atkvæðagreiðslu um sjálfstæði. Alveg óháð því hvort stjórnskipun Spánar leyfi slíka kosningu er afar misráðið af þarlendum stjórnvöldum að reyna allt til að koma í veg fyrir að fólk segi sína meiningu. Það er stjórnmálanna að leysa úr mismunandi niðurstöðu, alveg eins og í tilfelli Skota og Breta og hörmulegt að horfa upp á að stjórnvöld Spánar beiti ofbeldi til að koma í veg fyrir að vilji fólksins nái fram að ganga.

Hér heima
Nýlegur íbúafundur á Vestfjörðum staðfestir hvernig íbúarnir krefjast þess að hafa bein áhrif á þróun síns nærsamfélags. Innan stjórnmálaflokkanna verður lýðræði grasrótarinnar að ráða för bæði um stefnu og val á frambjóðendum á lista. Við þurfum traustan þingheim og stjórnmálamenn sem eru traustsins verðir. Nýtum réttinn til að kjósa, hvert atkvæði skiptir máli. Það er lýðræði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. október 2017.