Alþingi samþykkti fjárlög fyrir árið 2021 og eitt af einkennum þeirra er mikill stuðningur við menntun og menningu. Ríkisstjórn Íslands hefur tekið ákvörðun um að styðja við grunnkerfi þess og fjárfesta í mannauðinum. Það eru forréttindi fyrir þjóð að vera í þeirri stöðu að geta náð utan um þá fordæmalausu stöðu sem upp er komin í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Framúrskarandi menntun er ein meginforsenda þess að Ísland verði samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. Verðmætasköpun næstu áratuga mun í auknum mæli byggjast á hæfni, hugviti, rannsóknum og nýsköpun.
Framhaldsskólastigið hækkar um 9%
Menntun og aukin hæfni er undirstaða sjálfbærni, framfara og aukinna lífsgæða. Mikil aðsókn var í nám í haust og ákvað ríkisstjórnin að framhaldsskólum og háskólum yrði tryggt nægt fjármagn til að mæta eftirspurninni. Það hefur tekist með nýjum fjárlögum. Fjárveitingar til framhaldsskólanna aukast um 9% milli ára og verða 40,4 milljarðar kr. Um helgina eru fjölmargir framhaldsskólar að útskrifa nemendur sína, vissulega með breyttu sniði vegna takmarkana. Við útskriftarnemendur vil ég því segja til hjartans hamingju!
Háskólastigið hækkar um 14%
Fjárlagafrumvarpið í ár sýnir glögglega mikilvægi menntakerfisins og hvernig er forgangsraðað í þágu þessa. Um 40% af fjárveitingum ráðuneytisins renna til háskólastarfsemi, sem er stærsti einstaki málaflokkur ráðuneytisins. Framlög til háskóla- og rannsóknastarfsemi aukast um 14% milli ára, þar sem bæði er um að ræða aukinn beinan stuðning við skólastarfið og fjárveitingar til einstakra verkefna. Eitt af fyrirheitum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var að framlög til háskólastigsins næðu meðaltali ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Það hefur tekist og er það fagnaðarefni.
Fjárlög marka tímamót
Þetta frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 markar tímamót í sögu landsins og einkennist af miklu hugrekki og framsýni. Markmið frumvarpsins er skýrt: Að gera það sem þarf til að koma Íslandi út úr kórónuveirunni. Við erum að ná utan um fólkið okkar, heilbrigðis- og menntakerfi. Við ætlum að koma Íslandi í gegnum þetta og ljóst að nokkrar lykilþjóðhagsstærðir eins og samneysla, einkaneysla og fjárfesting líta nokkuð vel út.
Stærsta áskorunin er að skapa atvinnu og er ég sannfærð um að um leið og við náum utan um kórónuveiruna, þá verður mikill viðsnúningur og hann verður einna kröftugastur hér á Íslandi. Af hverju? Vegna þess að við höfum myndað efnahagslega loftbrú í faraldrinum og notað krafta hins opinbera til að ná utan um samfélagið okkar. Hugrekki hefur stýrt för í aðgerðum stjórnvalda og vil ég þakka fjárlaganefnd kærlega fyrir vel unnin störf og sérstaklega formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir einstaka forystu. Við höfum gert það sem þarf og höldum áfram.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. desember 2020.