Mikilvægt skref fyrir menningu og skapandi greinar var tekið í vikunni á Alþingi Íslendinga er þingmenn samþykktu tillögu mína til þingsályktunar um myndlistarstefnu til ársins 2023. Stefnan hefur verið lengi í farvatninu og því sérlega jákvætt að hún sé komin í höfn.
Myndlistarstefnunni er ætlað að efla myndlistarmenningu landsins ásamt því að stuðla að aukinni þekkingu og áhuga almennings á myndlist. Í henni birtist framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 með meginmarkmiðum um að á Íslandi ríki kraftmikil og andrík myndlistarmenning, stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt og að íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein. Er einnig fjallað sérstaklega um að íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.
Hvert og eitt þessara markmiða skal stuðla að umbótum og jákvæðum breytingum svo framtíðarsýn stefnunnar geti orðið að veruleika.
Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun í 16 liðum, en aðgerðirnar verða endurskoðaðar árlega í tengslum við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga til að greiða götu nýrra verkefna og efla myndlistarstarfsemi hér á landi enn frekar næsta áratug. Menningar- og viðskiptaráðuneyti mun fylgjast með framvindu aðgerða og birta upplýsingar þar að lútandi með reglubundnum hætti. Má þar til dæmis nefna aukið aðgengi að Listasafni Íslands, átaksverkefni í kynningu myndlistar gagnvart almenningi, stofnun Myndlistarmiðstöðvar sem taki við hlutverki Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og fái víðtækara hlutverk, endurskoðun á skattaumhverfi myndlistar og áfram verði unnið að krafti að alþjóðlegu samstarfi á sviði myndlistar.
Myndlistarlíf á Íslandi er í miklum blóma og fram undan er tilefni til að beina sjónum að frekari tækifærum til vaxtar. Ný myndlistarstefna til ársins 2030 er leiðarljósið á þeirri vegferð. Sköpun íslenskra listamanna hefur um langan tíma fangað athygli fólks hér á landi sem og erlendis. Árangurinn birtist í fleiri tækifærum íslenskra listamanna til þátttöku í kraftmikilli safnastarfsemi og vönduðum sýningum um allt land. Einnig endurspeglast árangurinn í þátttöku á virtum alþjóðlegum viðburðum og sýningum. Eftirspurn eftir kaupum á íslenskum listaverkum er umtalsverð. Sífellt fleiri listaverk spretta úr íslenskum veruleika eða af sköpun íslenskra listamanna og fanga athygli fólks hér á landi og erlendis.
Ég vil óska myndlistarsamfélaginu á Íslandi til hamingju með þennan áfanga og vil þakka þeim öfluga hópi fólks sem kom að gerð stefnunnar fyrir vel unnin störf. Ég er staðráðin í því að halda áfram að vinna með hagaðilum að því að tryggja undirstöður menningar og skapandi greina þannig að þær skapi aukin lífsgæði og verðmæti fyrir íslenskt samfélag til framtíðar – ný sókn í þágu myndlistarinnar er hluti af því verkefni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. maí 2023.