Categories
Greinar

Það er vegið að bændum þessa lands

Deila grein

16/05/2023

Það er vegið að bændum þessa lands

Öll þekkj­um við til ís­lenskra mat­ar­hefða sem fylgt hafa okk­ur í gegn­um tíðina og þjóð okk­ar í ára­tugi, eitt það besta sem hægt er að bera á borð á ís­lensk­um heim­il­um eru ís­lensk­ar hrein­ar afurðir sem ald­ar eru á okk­ar ein­staka landi, þar má nefna sjáv­ar­af­urðir og afurðir land­búnaðar­ins.

Flest­ir vita að notk­un sýkla­lyfja í ís­lensk­um land­búnaði er með því minnsta sem ger­ist í heim­in­um, sauðkind­in drekk­ur tært lind­ar­vatn og bít­ur gras við jök­ul­rönd, heil­næmi ís­lenskra afurða er ein­stakt á heimsvísu.

Á þeim tím­um sem við lif­um nú í dag á land­búnaður­inn á Íslandi und­ir högg að sækja, það er sótt að ís­lensk­um bænd­um víðast hvar, að mínu mati þurf­um við að styðja bet­ur við ís­lenska bænd­ur og auka greiðslur til þeirra í gegn­um bú­vöru­samn­inga. En hver er í raun stefna mat­vælaráðherra í þess­um efn­um? Ætlar ráðherra að auka enn frek­ar inn­flutn­ing á er­lendu lamba­kjöti? Fjög­ur fyr­ir­tæki skiptu með sér toll­kvóta fyr­ir inn­flutn­ing á 345.000 kg af kinda- eða geita­kjöti á tíma­bil­inu 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Á tíma­bil­inu frá júlí 2022 til og með fe­brú­ar 2023 hafa 14.606 kg af kinda- eða geita­kjöti verið flutt hingað til lands, lang­mest, eða 14.209 kg, frá Spáni.

Nú ryðjast þess­ir inn­flutn­ingsaðilar með spænsk­ar dilka­af­urðir inn í mat­vöru­versl­an­ir og á stór­eld­húsamarkað, með aðeins eitt mark­mið, að und­ir­bjóða afurðir ís­lenskra bænda, það er vegið að fæðuör­yggi ís­lensku þjóðar­inn­ar með þess­ari fram­göngu. Því eitt er víst, að ef við höld­um áfram að flytja inn land­búnaðar­af­urðir á verði sem er ekki sam­keppn­is­hæft fyr­ir ís­lenska bænd­ur, þá mun þetta bara enda á einn veg. Þetta er ekki það sem ís­lensk­ir bænd­ur þurfa á að halda á krefj­andi tím­um. Styðjum við bænd­ur þessa lands og velj­um ís­lenskt.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2023.