Nú hefur eldgosið á Reykjanesi staðið í hátt á fjórða mánuð. Það hefur tekið sér nokkrar kúnstpásur upp á síðkastið en fremur en fyrr þá getum við lítið sagt um hvernig það á eftir að haga sér. Lýkur því á morgun? Stendur það í 50 ár? Hvar kemur það upp næst? Eitt er víst að allt er breytt. Eldstöð á Reykjanesskaganum hefur rumskað af löngum svefni og við vitum ekki hvert framhaldið verður. Samgönguráðherra hefur rætt um að það þurfi að fara að huga að nýrri flóttaleið af Suðurnesjum þar sem hraun gæti mögulega lokað Suðurstrandarvegi á næstu vikum.
Við þurfum fleiri flugvelli
Við þurfum að vera meðvituð um mikilvægi þess að byggja upp annan alþjóðaflugvöll í nálægð við Reykjavík. Í nóvember 2019 kom út skýrsla um flugvallakosti á suðvesturhorni landsins. Sú skýrsla var unnin fjarri hugmyndum um jarðhræringar eða eldgos á Reykjanesi. Í skýrslunni kemur fram sú meginforsenda að á suðvesturhorni landsins verði tveir flugvellir sem séu bæði fyrir millilanda- og innanlandsflug. Það er talið mikilvægt upp á samkeppnishæfni landsbyggðar og höfuðborgar. Þá segir í skýrslunni að það styrki viðskiptatækifæri og þjónustu við landsmenn. Þá er tæpt á í skýrslunni að það þurfi varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll, hann getur lokast, ýmist vegna veðurs, náttúruhamfara eða slysa. Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur hafa verið notaðir sem varaflugvellir og mikilvægi þeirra dregur enginn í efa í þeim efnum. Þá þarf áfram að styrkja í framhaldinu á þeim atburðum sem hafa orðið á Reykjanesi.
Ísland er eldfjallaeyja, eldstöðin á Reykjanesi hefur rumskað, hvað er þá til ráða? Það er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við eins og samgönguráðherra hefur nú þegar gert með því að hugsa um nýja flóttaleið fyrir íbúa Reykjaness vegna yfirvofandi atburða. Nú þarf að horfa til framtíðar og við verðum að undirbúa okkur undir að finna nýja staðsetningu á alþjóðlegum flugvelli. Núverandi staðsetning er frábær við þær aðstæður sem hafa verið uppi á suðvesturhorninu en það þarf að hugsa upp nýjar sviðsmyndir. Með fjölgun ferðamanna og auknu millilandaflugi er ekki óraunhæft að hafa tvo alþjóðaflugvelli á suðvesturhorninu, hvort sem er fyrir eldsumbrot eða ekki.
Svæðið í kringum Borgarnes er aðlaðandi
Loks er farið að hilla undir stórhuga framkvæmd við Sundabraut sem bætir tengingu milli höfuðborgarsvæðis, Vesturlands og Norðurlands. Unnið er að tvöföldun Vesturlandsvegar upp í Borgarnes. Sundabraut gæti verið lokið árið 2030 ef allt gengur eftir og opnar möguleika á greiðar og góðar heilsárssamgöngur, þá sér í lagi við allt Vesturland. Við þessar samgöngubætur er ný staðsetningin fyrir alþjóðaflugvöll á Vesturlandi raunhæfur kostur. Kannski er hentugt að setja niður nýjan alþjóðarflugvöll vestur á Mýrum? Einhverjir hrökkva kannski við vegna þessara skrifa. Eitt er víst, við verðum að þora að setjast niður og horfa til framtíðar út frá nýjum en reyndar aldagömlum staðreyndum um náttúru landsins. Orð eru til alls fyrst.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí 2021.