Nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna felur í sér grundvallarbreytingu á stuðningi við námsmenn. Það mun leiða til betri fjárhagsstöðu námsmanna og skuldastaða þeirra að námi loknu mun síður ráðast af fjölskylduaðstæðum, þar sem foreldrar í námi fá fjárstyrk en ekki lán til að framfleyta börnum sínum. Þá er innbyggður í kerfið mikill hvati til bættrar námsframvindu, með 30% niðurfærslu á höfuðstól og verðbótum ef námi er lokið innan tiltekins tíma. Það stuðlar að betri nýtingu fjármuna, aukinni skilvirkni og þjóðhagslegum ávinningi fyrir samfélagið. Ennfremur munu námsmenn njóta bestu lánskjara ríkissjóðs Íslands hjá Menntasjóði námsmanna og námsaðstoðin, lán og styrkir, verður undanþegin lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Með frumvarpi um Menntasjóð námsmanna er brugðist við þeim umfangsmiklu breytingum sem orðið hafa á íslensku menntakerfi, námsumhverfi og samfélaginu öllu. Nýtt kerfi miðar að því að jafna stuðning og dreifingu styrkja ríkisins til námsmanna sem taka námslán, með félagslegum stuðningssjóði. Sérstaklega verður hugað að hópum sem reynst hefur erfiðara að sækja nám s.s. einstæðum foreldrum, fjölskyldufólki og námsmönnum utan höfuðborgarsvæðisins. Með þessari kerfisbreytingu viljum við auka gagnsæi, fyrirsjáanleika og skipta gæðum með jafnari og réttlátari hætti milli námsmanna.
Þá er leitast við að bæta þjónustu við námsmenn í nýju kerfi með því að heimilt verður að greiða út námslán mánaðarlega, lánþegar geta þar valið við námslok hvort þeir endurgreiði lán sín með verðtryggðum eða óverðtryggðum skuldabréfum og valið að endurgreiða námslán með tekjutengdum afborgunum séu námslok lánþega áður eða á því ári er þeir ná 35 ára aldri.
Menntun er lykillinn að framtíðinni. Á okkur hvílir sú skylda að horfa fram á við, setja metnaðarfull markmið og tryggja að námsstuðningur hins opinbera stuðli að jafnrétti til náms. Ég trúi því að með frumvarpi um Menntasjóð námsmanna sé stigið mikið framfaraskref, sem eigi eftir að nýtast námsmönnum vel, atvinnulífinu og samfélaginu öllu.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2019.