Virk samkeppni er einn af hornsteinum efnahagslegrar velgengni. Efnahagsleg áhrif virkrar samkeppni hafa verið rannsökuð ítarlega af fjölmörgum hagfræðingum víðs vegar um heiminn og meðal annars hefur Efnahags- og framfarastofnunin OECD haldið vel utan um niðurstöður þeirra. Reynslan hefur sýnt að virk samkeppni hefur hvetjandi áhrif á fyrirtæki til þess að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri sínum, draga úr sóun og stuðla að bættri þjónustu fyrir viðskiptavini sína. Í slíku umhverfi keppast fyrirtæki einnig við að laða að sér hæfasta mannauðinn með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á hag launafólks. Þá leiðir virk samkeppni ótvírætt til lægra vöruverðs og aukins vöruframboðs og heilbrigðari viðskiptahátta til hagsbóta fyrir neytendur.
Hlutverk stjórnvalda er að skapa skilyrði fyrir virka samkeppni. Stjórnvöld reglusetja atvinnulífið með ítarlegum hætti á hverju ári og hagsmunasamtök fyrirtækja og neytenda eru dugleg í að halda stjórnvöldum við efnið. Slíkt aðhald er mikilvægt. Það þarf að huga sérstaklega vel að því við undirbúning löggjafar og annarrar reglusetningar atvinnulífsins að áhrif reglnanna á atvinnulífið, neytendur og skilyrði fyrir virka samkeppni séu metin, og til þess nýtt meðal annars hugmyndafræði OECD um samkeppnismat. Í skýrslu stofnunarinnar eru fjölmargar tillögur til breytinga á gildandi regluverki til að draga úr duldum og lítt duldum samkeppnishindrunum sem af því leiða og efla þannig samkeppni.
Skilvirkni í eftirliti með samkeppni og starfsháttum fyrirtækja er mikilvægur þáttur í að tryggja að ábati samkeppninnar skili sér til neytenda. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefnt skuli að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu og að kannaðir verði möguleikar á sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum sem getur aukið samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti. Meginmarkmiðið er að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Leiðbeinandi hlutverk eftirlitsstofnana verður skýrt til að tryggja betri eftirfylgni.
Samkeppnis- og neytendamál eru kannski ekki fyrsta umræðuefnið á kaffistofunni á hverjum degi en þau breyta svo sannarlega miklu fyrir daglegt líf okkar. Sér í lagi á þeim tímum sem við lifum á um þessar mundir þar sem hrávöruskortur og hækkandi vöruverð eru staðreynd um heim allan. Við þurfum ávallt að vera á tánum og tryggja bestu mögulegu umgjörð utan um virka samkeppni, samfélaginu öllu til hagsbóta.
Ágúst Bjarni Garðsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2022.