Categories
Greinar

Samkeppnismál eru stórt efnahagsmál

Deila grein

29/04/2022

Samkeppnismál eru stórt efnahagsmál

Virk sam­keppni er einn af horn­stein­um efna­hags­legr­ar vel­gengni. Efna­hags­leg áhrif virkr­ar sam­keppni hafa verið rann­sökuð ít­ar­lega af fjöl­mörg­um hag­fræðing­um víðs veg­ar um heim­inn og meðal ann­ars hef­ur Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­in OECD haldið vel utan um niður­stöður þeirra. Reynsl­an hef­ur sýnt að virk sam­keppni hef­ur hvetj­andi áhrif á fyr­ir­tæki til þess að auka skil­virkni og hag­kvæmni í rekstri sín­um, draga úr sóun og stuðla að bættri þjón­ustu fyr­ir viðskipta­vini sína. Í slíku um­hverfi kepp­ast fyr­ir­tæki einnig við að laða að sér hæf­asta mannauðinn með til­heyr­andi já­kvæðum áhrif­um á hag launa­fólks. Þá leiðir virk sam­keppni ótví­rætt til lægra vöru­verðs og auk­ins vöru­fram­boðs og heil­brigðari viðskipta­hátta til hags­bóta fyr­ir neyt­end­ur.

Hlut­verk stjórn­valda er að skapa skil­yrði fyr­ir virka sam­keppni. Stjórn­völd reglu­setja at­vinnu­lífið með ít­ar­leg­um hætti á hverju ári og hags­muna­sam­tök fyr­ir­tækja og neyt­enda eru dug­leg í að halda stjórn­völd­um við efnið. Slíkt aðhald er mik­il­vægt. Það þarf að huga sér­stak­lega vel að því við und­ir­bún­ing lög­gjaf­ar og annarr­ar reglu­setn­ing­ar at­vinnu­lífs­ins að áhrif regln­anna á at­vinnu­lífið, neyt­end­ur og skil­yrði fyr­ir virka sam­keppni séu met­in, og til þess nýtt meðal ann­ars hug­mynda­fræði OECD um sam­keppn­ismat. Í skýrslu stofn­un­ar­inn­ar eru fjöl­marg­ar til­lög­ur til breyt­inga á gild­andi reglu­verki til að draga úr duld­um og lítt duld­um sam­keppn­is­hindr­un­um sem af því leiða og efla þannig sam­keppni.

Skil­virkni í eft­ir­liti með sam­keppni og starfs­hátt­um fyr­ir­tækja er mik­il­væg­ur þátt­ur í að tryggja að ábati sam­keppn­inn­ar skili sér til neyt­enda. Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar kem­ur fram að stefnt skuli að sam­ein­ingu Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins og Neyt­enda­stofu og að kannaðir verði mögu­leik­ar á sam­ein­ingu við aðrar stofn­an­ir eft­ir at­vik­um sem get­ur aukið sam­legðaráhrif og skil­virkni í op­in­beru eft­ir­liti. Meg­in­mark­miðið er að styrkja sam­keppni inn­an­lands, tryggja stöðu neyt­enda bet­ur í nýju um­hverfi netviðskipta og efla alþjóðlega sam­keppn­is­hæfni ís­lensks at­vinnu­lífs. Leiðbein­andi hlut­verk eft­ir­lits­stofn­ana verður skýrt til að tryggja betri eft­ir­fylgni.

Sam­keppn­is- og neyt­enda­mál eru kannski ekki fyrsta umræðuefnið á kaffi­stof­unni á hverj­um degi en þau breyta svo sann­ar­lega miklu fyr­ir dag­legt líf okk­ar. Sér í lagi á þeim tím­um sem við lif­um á um þess­ar mund­ir þar sem hrávöru­skort­ur og hækk­andi vöru­verð eru staðreynd um heim all­an. Við þurf­um ávallt að vera á tán­um og tryggja bestu mögu­legu um­gjörð utan um virka sam­keppni, sam­fé­lag­inu öllu til hags­bóta.

Ágúst Bjarni Garðsson, þingmaður Fram­sókn­ar og fyrsti vara­formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2022.