Categories
Greinar

Samvinna er hugmyndafræði

Deila grein

20/06/2022

Samvinna er hugmyndafræði

Á þess­um hátíðar­degi fögn­um við því að 78 ár eru liðin frá ákvörðun Alþing­is um að stofna lýðveldið Ísland. Hver þjóðhátíðardag­ur mark­ar tíma­mót í sögu lands­ins og veit­ir okk­ur tæki­færi til þess að líta yfir far­inn veg og horfa til framtíðar. Saga ís­lenska lýðveld­is­ins er saga fram­fara. All­ar göt­ur frá stofn­un þess hafa lífs­kjör auk­ist veru­lega og þjóðar­tekj­ur á hvern íbúa eru með þeim mestu í ver­öld­inni. Staða Íslands er sterk í sögu- og alþjóðlegu sam­hengi, þegar flest­ir vel­sæld­ar­mæli­kv­arðar eru kannaðir. Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn, held­ur ligg­ur þrot­laus vinna kyn­slóðanna sem byggt hef­ur landið hon­um að baki.

Mann­gildi ofar auðgildi

Frjáls­ar kosn­ing­ar eru horn­steinn lýðræðis­sam­fé­lags. Virk lýðræðisþátt­taka er eitt af því sem hef­ur ein­kennt ís­lenskt sam­fé­lag. Marg­ir stíga sín fyrstu skref í fé­lags­störf­um með þátt­töku í starfi stjórn­mála­hreyf­inga með það að leiðarljósi að hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið sitt. Í meira en heila öld hef­ur Fram­sókn fylgt þjóðinni og verið far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að taka þátt í stjórn­mála­starfi. Sýn Fram­sókn­ar grund­vall­ast á sam­vinnu­hug­sjón­inni; að fólk geti náð meiri ár­angri með því að vinna sam­an og aukið styrk sinn. Sam­vinna bygg­ist ekki aðeins á trausti milli aðila held­ur einnig á góðum og mál­efna­leg­um umræðum sem leiðar til far­sælla niðurstaða.

Við trú­um því að jöfn tæki­færi séu eina leiðin til tryggja sann­girni í sam­fé­lag­inu. Brýnt er að dreifa valdi, án til­lits til auðs, stétt­ar, kyns eða annarra breyta. Mann­gildi ofar auðgildi. All­ar rann­sókn­ir sýna að öfl­ugt mennta­kerfi tryggi mest­an jöfnuð og það vilj­um við tryggja.

Ræt­ur sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar og frelsið

Fyrstu regn­hlíf­ar sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar, sam­vinnu­fé­lög­in, litu dags­ins ljós á Bretlandi. Það var hóp­ur vefara árið 1844 í bæn­um Rochdale á Norður-Englandi sem kom á lagg­irn­ar fyrsta sam­vinnu­fé­lag­inu. Vefar­arn­ir stóðu frammi fyr­ir lé­leg­um starfsaðstæðum, bág­um kjör­um og háu hrá­efn­is­verði. Í stað þess að starfa hver í sínu horni form­gerðu þeir sam­vinnu sína með sam­vinnu­fé­lagi, sam­nýttu fram­leiðsluþætti og juku þannig slag­kraft sinn til þess til þess að stunda viðskipti. Þeir opnuðu versl­un, eða kaup­fé­lag, og deildu hlut­deild í vel­gengni versl­un­ar­inn­ar með viðskipta­vin­um sín­um sem meðlim­ir í fé­lag­inu. Viðskipta­vin­irn­ir öðluðust jafn­an at­kvæðarétt í fé­lag­inu og áttu þannig sam­eig­in­legra hags­muna að gæta. Sam­vinnu­fé­lög urðu að sam­hjálp til sjálfs­bjarg­ar og höfðu al­mannaþjón­ustu að leiðarljósi með áherslu á nærum­hverfið. Fyrstu kaup­fé­lög­in voru hluti af þjóðfrels­is­bar­áttu okk­ar Íslend­inga. Bænd­ur í Þing­eyj­ar­sýslu voru vel lesn­ir í evr­ópsk­um frels­is­fræðum og árið 1882 stofnuðu þeir fyrsta kaup­fé­lagið til að ráða sjálf­ir versl­un og viðskip­um. Þar voru all­ir jafn­ir og sam­einaði þetta ný­inn­flutta form sjálf­stæði, fram­fara­vilja og lýðræði. Í kjöl­farið óx sam­vinnu­hreyf­ing­unni fisk­ur um hrygg hér­lend­is, sam­vinnu­fé­lög­um fjölgaði ört um allt land og urðu þau fyrstu keppi­naut­ar er­lendra kaup­manna hér á landi.

Kröf­ur tíðarand­ans

Þrátt fyr­ir áskor­an­ir og öldu­dali, sem sam­vinnu­hreyf­ing­in hér­lend­is gekk í gegn­um á árum áður, hef­ur þörf­in fyr­ir sterka sam­vinnu­hug­sjón sjald­an verið jafn rík og nú. Fyr­ir­mynd­ar­sam­vinnu­fé­lög eru rek­in hér á landi og sam­vinnu­hreyf­ing­in hef­ur haldið áfram að dafna er­lend­is, til að mynda í Evr­ópu og vest­an­hafs. Þannig eru Banda­rík­in merki­leg­ur jarðveg­ur ný­sköp­un­ar í sam­vinnu­starfi. Jafn­vel fyr­ir­tæki í tækni­grein­um, hug­búnaði og fjöl­miðlun sækja fyr­ir­mynd­ir í kaup­fé­lög og gera þannig sam­vinnu og lýðræði að horn­stein­um. Ung­ar og upp­lýst­ar kyn­slóðir okk­ar tíma sækja inn­blást­ur í sam­vinnu­formið og álíta það spenn­andi val­kost til að tak­ast á við áskor­an­ir sam­tímas. Klasa­starf­semi og sam­vinnu­hús af ýmsu tagi eru dæmi um það. Krafa tím­ans er enn meira sjálf­stæði, sterk­ari rétt­ur al­menn­ings og sam­fé­lags, fram­far­ir á öll­um sviðum með lýðræði og jafn­rétti að leiðarljósi – rétt eins og í Þing­eyj­ar­sýslu forðum daga.

Fjöl­breytt­ir far­veg­ir til ár­ang­urs

Með of­an­greint í huga mun viðskiptaráðherra meðal ann­ars hrinda af stað end­ur­skoðun á lög­um um sam­vinnu­fé­lög á kjör­tíma­bil­inu til að auðvelda fólki við að vinna að sam­eig­in­leg­um hug­ar­efn­um sín­um. Sam­vinnu­fé­lags­formið get­ur verið hent­ug­ur far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að tak­ast á við áskor­an­ir og bæta sam­fé­lagið. Heim­ur­inn stend­ur frammi fyr­ir fjöl­mörg­um úr­lausn­ar­efn­um sem ekki verða leidd til lykta nema með sam­vinnu, hvort sem um er að ræða í um­hverf­is­mál­um, mennta­mál­um, alþjóðaviðskipt­um eða öðru. Stjórn­völd eiga að tryggja eld­hug­um og hug­sjóna­fólki fjöl­breytta far­vegi til þess að tak­ast sam­eig­in­lega á við slík út­lausn­ar­efni.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Tæp­um 106 árum frá því að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var stofnaður, höld­um við enn tryggð við þá sam­vinnu­hug­sjón sem flokk­ur­inn spratt upp úr. Það er ekki sjálfsagt fyr­ir stjórn­mála­afl að ná svo háum aldri. Fram­sókn er fjölda­hreyf­ing og 13.000 fé­lag­ar í flokkn­um, hring­inn í kring­um landið, eiga það sam­eig­in­legt að vilja vinna sam­vinnu­hug­sjón­inni braut­ar­gengi og stuðla að upp­byggi­leg­um stjórn­mál­um út frá miðjunni. Sem miðju­flokk­ur legg­ur Fram­sókn áherslu á praktísk­ar og öfga­laus­ar lausn­ir sem eru til þess falln­ar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólík­um stjórn­mála­flokk­um til þess að bæta sam­fé­lagið ásamt því að sýna sterka for­ystu í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi. Það hef­ur flokk­ur­inn margoft gert með góðum ár­angri; að brúa bilið milli ólíkra sjón­ar­miða við aðra flokka til þess að ná ár­angri fyr­ir land og þjóð. Við í Fram­sókn segj­um gjarn­an að sam­fé­lag sé sam­vinnu­verk­efni og í því er fólg­inn mik­ill sann­leik­ur.

Vilji fólks­ins

Stjórn­mála­flokk­ur þarf á hverj­um tíma að geta rýnt sjálf­an sig með gagn­rýn­um hætti, aðlag­ast nýj­um áskor­un­um sam­tím­ans, hlustað á grasrót sína og virt vilja fé­lags­manna. Það sama á við um þjóðfé­lag sem vill ná langt. Sú staðreynd að við get­um fjöl­mennt á sam­kom­ur víða um land til þess að fagna þess­um merka áfanga, sem full­veldið er í sögu þjóðar­inn­ar, er ekki sjálf­gefið. Sú elja og þraut­seigja sem forfeður okk­ar sýndu í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar lagði grunn­inn að þeim stað sem við erum á í dag. Lýðveldið Ísland á sér bjarta framtíð og Fram­sókn mun halda áfram að vinna í þágu sam­fé­lags­ins með hug­mynda­fræði sam­vinn­unn­ar að leiðarljósi. Þau tæki­færi sem eru fyr­ir hendi til þess að sækja fram fyr­ir sam­fé­lagið eru fjöl­mörg. Það er okk­ar sam­eig­in­lega verk­efni sem þjóðar að grípa þau og tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð meðal þjóða heims og fagni full­veldi sínu um ókomna tíð. Í þess­um efn­um geym­ir saga sam­vinnu­starfs á Íslandi og víðar um ver­öld­ina dýr­mæta lær­dóma – fjár­sjóð á veg­ferð okk­ar til framtíðar. Við ósk­um lands­mönn­um öll­um gleðilegr­ar þjóðhátíðar.

Sig­urður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra og rit­ari Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 17. júní 2022.