Sonur minn var fermdur síðastliðna helgi í Bústaðakirkju ásamt skólafélögum sínum. Heil röð af stoltum foreldrum, systkinum, öfum og ömmum fylgdist með þegar þessi ljúfi, hægláti og hjartagóði strákur varð að ungum manni. Mikil gleðistund!
Hann var sjö ára þegar hann greindist með ódæmigerða einhverfu, reyndar hafði grunur um hans röskun vaknað fyrst þegar hann var þriggja ára en niðurstaðan, sem lá fyrir fjórum árum seinna, er efni í aðra grein. Eins og margir sem eru greindir á einhverfurófinu á hann erfitt með að halda uppi því sem er skilgreint sem „eðlileg félagsleg samskipti“, hvað svo sem það þýðir. En það hefur vissulega haft áhrif á getu hans til að rækta og halda vinskap og valdið ákveðinni félagslegri einangrun, sérstaklega síðustu árin þegar krakkar hætta að vera krakkar og verða unglingar. Sem betur fer hefur þessi félagslega einangrun ekki þróast í að hann hafi lent í einelti eða einhverju slíku, það þakka ég fyrst og fremst honum sjálfum og skólunum tveimur, Breiðagerðis- og Réttarholtsskólum, og hvernig var haldið utan um hans mál. Þó hefur þessi einangrun aukist meira sl. þrjú ár. Sem foreldrar höfum við skiljanlega áhyggjur af slíkri þróun og Covid hefur sett ákveðið strik í reikninginn þar sem ekki var möguleiki fyrir hann að sækja skátafundi sem hann hefur gert síðan hann var sex ára.
Líkt og margir krakkar hefur sonur minn mikið dálæti á tölvuleikjum, hann hefur sérstaka ánægju af að spila tölvuleiki þar sem maður byggir upp borgir með allri tilheyrandi þjónustu sem hver borg þarf á að halda. Þegar hann spilar sína tölvuleiki gerir hann það yfirleitt í slagtogi við aðra spilara, ýmist á Íslandi eða í útlöndum, og þá er oft mikið fjör. Eftir að hann fór að eiga samskipti við aðra á netinu fórum við mamma hans að taka eftir því að færni hans til að eiga samræður tók miklum framförum. Það voru samt erfiðir hlutir sem þurfti að tækla sem komu upp í kjölfar tölvunotkunarinnar; að fylgjast með að ekki væri verið að svíkja þar til gerða samninga um skilgreindan skjátíma og tryggja að hann stundaði einhverja útiveru á hverjum degi. Þó að þetta hafi að mestu gengið vel vildum við ólm fá hjálp við að styðja betur við þetta áhugamál hans.
Fyrir rétt rúmum tveimur árum fékk ég boð frá vini mínum um að mæta á kynningu hjá GMI (Game Makers Iceland). Þar var hávaxinn ungur maður að nafni Ólafur Hrafn Steinarsson sem hélt fyrirlestur um nýstofnuð rafíþróttasamtök og þá sýn sem hann og samtökin höfðu á framtíð tölvuleikjaáhugamálsins á Íslandi. Í erindi sínu benti Ólafur á að tölvuleikir ættu snertiflöt við yfir 90% barna og ungmenna í landinu, en það var áhugamál sem bauð upp á næstum enga skipulagða iðkun eða þjálfun. Á þessu boðaði hann breytingar; með vaxandi rafíþróttaumhverfi á heimsvísu væru forsendur fyrir því að færa tölvuleikjaáhugamálið í skipulagt starf sem undirbýr rafíþróttamenn framtíðarinnar á heildstæðan hátt fyrir að takast á við krefjandi umhverfi atvinnumannsins í rafíþróttum. Þá væri mikilvægt að huga að því að byggja heildstæðan ramma utan um starfið sem miðaði að því að skila jákvæðum ávinningi til allra iðkenda en ekki bara afreksspilara. Til þess boðaði Ólafur skilgreiningu Rafíþróttasamtaka Íslands á rafíþróttum sem „heilbrigða iðkun tölvuleikja í skipulögðu starfi“ og að sú iðkun feli í sér að iðkandi upplifi sig sem hluta af liði, taki þátt í líkamlegum og andlegum æfingum, fái fræðslu um mikilvægi og ávinning heilbrigðra spilahátta og lífsstíls, allt hlutir sem eru mikilvægir til að feta veg atvinnumannsins í rafíþróttum.
Þessi fyrirlestur bæði heillaði og sannfærði mig um að þessi nálgun sem Ólafur kynnti væri skynsamleg og rökrétt leið til að kenna börnum heilbrigða tölvuleikjaiðkun. Svo mjög að ég skráði son minn í rafíþróttadeild Ármanns. Það leið ekki á löngu þar til ég og móðir hans tókum eftir miklum framförum. Hann var mun ánægðari almennt, samskipti við hann á heimilinu voru auðveldari og hann var farinn að setja sínar eigin reglur varðandi skjátíma sem uppfyllir þær reglur sem við foreldrarnir höfðum skilgreint. Ekki nóg með það heldur mætti þessi flotti strákur, sem hefur aldrei haft áhuga á iðkun hefðbundinna íþrótta, einn daginn með stolt bros á vör og kvartaði yfir því að vera drepast úr harðsperrum eftir rafíþróttaæfingu. Hann ákvað svo í vikunni að kaupa sér lóð og upphífingastöng fyrir fermingarpeningana. Það var ótrúlegt fyrir mig sem foreldri að sjá barnið mitt loksins blómstra í skipulögðu starfi, þegar einhver var tilbúinn að mæta honum þar sem hann var staddur í sínu áhugamáli og hvetja hann til þess að gera meira, reyna meira og að hann geti meira. Þetta var einmitt það sem heillaði mig við fyrirlesturinn hans Ólafs og það sem ég tel að við þurfum meira af; nýstárlegar aðferðir fyrir okkar ört breytilega samfélag til þess að taka utan um og fjárfesta í einstaklingnum til framtíðar.
Ég hlakka til að fylgjast með framtíð hans í rafíþróttum og framtíð okkar í samfélagi þar sem fjárfest er í fólkinu!
Aðalsteinn Haukur Sverrisson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík suður. adalsteinn@recon.is
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2021.