Categories
Greinar

Staðið með menningu

Deila grein

01/02/2022

Staðið með menningu

Með hækkandi sól og skipulögðum skrefum til afléttingar sóttvarnaráðstafana sjáum við nú loks til lands í faraldrinum sem herjað hefur á heim allan í rúm 2 ár. Listamenn og menningarhús hafa svo sannarlega fundið fyrir högginu sem veiran hefur leitt af sér. Strax í upphafi faraldursins einsettu stjórnarflokkarnir sér að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til þess að tryggja öfluga viðspyrnu samfélagsins og það hafa mörg sveitarfélög einnig gert. Sérstök áhersla var lögð á listir og menningu enda er mikilvægi þeirra óumdeilt fyrir samfélagið.

Uppskeran er handan við hornið

Það má einnig reikna fastlega með því að framlag lista og menningar til andlegrar og efnahagslegrar viðspyrnu þjóðarinnar verði þýðingarmikið. Mannsandinn nærist meðal annars á menningu, að skemmta sér í góðra vina hópi, sækja tónleika, leiksýningar eða aðra menningarviðburði. Það styttist óðfluga í að samfélagið lifni við eins og við þekktum það fyrir heimsfaraldur. Uppskeran er handan við hornið og vel undirbyggð viðspyrnan fer að birtast okkur með tilheyrandi ánægju. Við horfum því björtum augum fram á veginn, sannfærð um að íslenskt menningarlíf fari að blómstra sem aldrei fyrr.

Nýjustu viðspyrnuaðgerðirnar, og væntanlega þær síðustu, undirstrika það. Með þeim var 450 milljónum króna varið til tónlistar og sviðslista sem hafa farið sérlega illa út úr heimsfaraldri með allt að 87% tekjufalli. Með aðgerðunum er okkar frábæru listamönnum skapað aukið rými til frumsköpunar, framleiðslu og viðburðahalds ásamt því að styðja þá til sóknar á erlenda markaði með listsköpun sína. Íslensk list og menning á mikið erindi á erlendri grundu. Það höfum við ítrekað séð á undanförnum árum, en íslenskir listamenn hafa margir gert það gott á erlendum mörkuðum. Kynningarverðmæti skapandi greina fyrir land og þjóð er óumdeilt og er mikil­væg­ur þátt­ur í alþjóðlegri markaðssetn­ingu Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn og skapandi fólk. Við viljum halda áfram á þeirri braut.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar – og viðskiptaráðherra

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. febrúar 2022.