Frumvarpsdrög til nýrra laga um námsstyrkjakerfi Stuðningssjóðs íslenskra námsmanna (SÍN) hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Að þeim hefur verið unnið á vettvangi mennta- og menningarmálaráðuneytisins um hríð, í góðu samstarfi við helstu hagsmunaaðila. Markmiðið nýs kerfis er aukið jafnrétti til náms, jafnari styrkir til námsmanna, betri nýting opinbers fjár og aukinn stuðningur við fjölskyldufólk. Þetta er róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi sem mun stuðla að betri stöðu námsmanna að námi loknu. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að bæta kjör og aðstæður námsmanna líkt og fjallað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Skýrari stuðningur
Grundvallarbreyting með nýju frumvarpi er að lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta framvegis fengið námsstyrk sem nemur 30% af höfuðstóli námsláns þeirra. Það er mikil kjarabót fyrir námsmenn en styrkurinn er í formi niðurfellingar sem kemur til framkvæmda að námi loknu. Þá verður veittur námsstyrkur vegna framfærslu barna lánþega og veittar heimildir til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána, t.d. vegna lánþega sem stunda ákveðnar tegundir náms og þeirra sem búa og starfa í brothættum byggðum.
Aukið jafnræðiog frelsi
Nýtt námsstyrkjakerfi mun stuðla að bættri námsframvindu háskólanema og þar með betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirki. Breytingarnar munu meðal annars hafa í för með sér að námsaðstoð ríkisins verður gagnsærri, staða þeirra námsmanna sem þurfa á frekari styrkjum að halda sökum félagslegra aðstæðna verður efld og aukið jafnræði verður milli námsmanna. Þá veitir nýja fyrirkomulagið lánþegum meira frelsi til þess að velja hvernig þeir haga sínum lánamálum, til dæmis með því að lánþegar geta við námslok valið hvort þeir endurgreiði námslán sín með óverðtryggðu eða verðtryggðu skuldabréfi.
Tímabærar breytingar
Staða Lánasjóðs íslenskra námsmanna er sterk og skapar kjöraðstæður til að ráðast í kerfisbreytingar sem lengi hafa verið í farvatninu. Nýtt styrkja- og námslánakerfi er að fullu fjármagnað en að auki verða framlög til sjóðsins endurskoðuð árlega miðað við fjölda lánþega hverju sinni. Ég þakka námsmannahreyfingunni og þeim fjölmörgu sem komið hafa að undirbúningi þessa tímamótafrumvarps og hvet áhugasama til þess að kynna sér frumvarpsdrögin sem nú eru aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí 2019.