Öll þekkjum við til íslenskra matarhefða sem fylgt hafa okkur í gegnum tíðina og þjóð okkar í áratugi, eitt það besta sem hægt er að bera á borð á íslenskum heimilum eru íslenskar hreinar afurðir sem aldar eru á okkar einstaka landi, þar má nefna sjávarafurðir og afurðir landbúnaðarins.
Flestir vita að notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði er með því minnsta sem gerist í heiminum, sauðkindin drekkur tært lindarvatn og bítur gras við jökulrönd, heilnæmi íslenskra afurða er einstakt á heimsvísu.
Á þeim tímum sem við lifum nú í dag á landbúnaðurinn á Íslandi undir högg að sækja, það er sótt að íslenskum bændum víðast hvar, að mínu mati þurfum við að styðja betur við íslenska bændur og auka greiðslur til þeirra í gegnum búvörusamninga. En hver er í raun stefna matvælaráðherra í þessum efnum? Ætlar ráðherra að auka enn frekar innflutning á erlendu lambakjöti? Fjögur fyrirtæki skiptu með sér tollkvóta fyrir innflutning á 345.000 kg af kinda- eða geitakjöti á tímabilinu 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Á tímabilinu frá júlí 2022 til og með febrúar 2023 hafa 14.606 kg af kinda- eða geitakjöti verið flutt hingað til lands, langmest, eða 14.209 kg, frá Spáni.
Nú ryðjast þessir innflutningsaðilar með spænskar dilkaafurðir inn í matvöruverslanir og á stóreldhúsamarkað, með aðeins eitt markmið, að undirbjóða afurðir íslenskra bænda, það er vegið að fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar með þessari framgöngu. Því eitt er víst, að ef við höldum áfram að flytja inn landbúnaðarafurðir á verði sem er ekki samkeppnishæft fyrir íslenska bændur, þá mun þetta bara enda á einn veg. Þetta er ekki það sem íslenskir bændur þurfa á að halda á krefjandi tímum. Styðjum við bændur þessa lands og veljum íslenskt.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2023.