Categories
Greinar

Það sem skiptir okkur máli í lífinu

Deila grein

15/03/2020

Það sem skiptir okkur máli í lífinu

Frá því íslenskt efnahagslíf fór að rétta úr sér eftir hrun með fordæmalausri kaupmáttaraukningu sem skilað hefur lægri vöxtum og auknum stöðugleika hafa landsmenn gert tilraun til þess að vinna upp hrunið svo um munar. Efnahagur ríkis og sveitarfélaga hefur batnað hratt. Ytri aðstæður hafa verið hagfeldar, sjávarútvegur skilað góðum arði og vöxtur í ferðaþjónustu hafði verið ævintýri líkastur þar til WOW air féll í fyrra með tilheyrandi kólnun. Viðsnúningurinn er fordæmalaus og landsmenn hafa tekið auknum tækifærum fegins hendi eftir erfið ár hrunsins. Það er mín skoðun að magir hafi farið framúr sér í þessari vegferð og sést það best á aukinni ásókn í sjúkrasjóði stéttarfélaga og einkennum kulnunar hjá starfsfólki á vinnumarkaði. Við Íslendingar erum vertíðarþjóð og þegar vel gefur fellur engum verk úr hendi. Nú þegar gefur á bátinn er mikilvægt að við lærum af reynslunni, ríki og sveitarfélög dragi ekki úr umsvifum heldur efli nýsköpun og forgangsraði til þess að bregðast við samdrætti með markvissum aðgerðum.

Mikilvægt að almenningur fylgi forvarnarleiðbeiningum yfirvalda

Nú er ljóst að COVID 19 kórónuveiran verður innan skamms að heimsfaraldri. Samkvæmt alþjóða heilbrigðisstofnuninni hefur faraldur af þessari stærðargráðu ekki geysað á okkar tímum áður og má segja að bættar samgöngur og alþjóðavæðing geri veirunni mun auðveldar með að ná heimshorna á milli. Mikil óvissa fylgir í kjölfarið og eðlilegt að ótti og kvíði grípi um sig fyrir vikið. Óþarfi er að fjölyrða um mikilvægi þess að almenningur fylgi forvarnarleiðbeiningum yfirvalda og fagfólks við þessar aðstæður en hér á landi eru heilbrigðisinnviðir með þeim bestu í heiminum og smæð þjóðarinnar gerir boðleiðir einfaldari og skilvirkari. Allar aðgerðir miða nú að því að hægja verulega á faraldrinum en miðað við þekkingu okkar á faraldsfræði er óumflýgjanldegt að á þessu ári verði veiran kominn um allan heim með sérstaklega alvarlegum afleiðingum fyrir þau samfélög þar sem inniviðir eru veikburða. Líklegt er að áhrifin á ferðamannaiðnað verði veruleg hér á landi um stundarsakir og verðum við sem samfélag að undirbúa okkur undir þá sviðsmynd.

Þörf á veigamiklum og afgerandi mótvægisaðgerðum

Ég hef fulla trú á því að í hverri áskorun felist tækifæri og kannski er aðsteðjandi ógn heimsfaraldurs einmitt sú áminning sem okkur hefur skort til þess að ná okkur niður á jörðina og endurmeta vegferð okkar. Íslensk þjóð er að mörgu leyti mjög vel í stakk búin til þess að mæta áskorunum. Landsmenn eru vel upplýstir, samkennd er hér mikil og saga okkar einkennist af dugnaði og elju. Þósvo við missum okkur í lífsgæðakapphlaupinu endrum og sinnum vitum við þó vel hvað það er sem skiptir máli í lífinu og nú er rétti tíminn til þess að stíga aðeins útúr dægurþrasinu og forgangsraða. Þörf er á veigamiklum og afgerandi mótvægisaðgerðum sem líklegar eru til þess að efla innviði samfélagsins til lengri og skemmri tíma. Látum því ekki hræðsluna bera okkur ofurliði heldur bregðumst hratt við og mætum mótlæti með yfirvegum og bjartsýni að leiðarljósi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, bæjarfulltrúi Framsóknar og forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 10. mars 2020