Kæri lesandi.
Fyrr í þessari viku greindi ég frá því á fundi á Akureyri að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun myndi auglýsa fimm stöður sérfræðinga á brunabótasviði sem staðsett er á Akureyri. Fyrir eru 16 starfsmenn stofnunarinnar í höfuðstað Norðurlands. Þetta er því stórt skref fyrir einn vinnustað og einstaklega ánægjulegt að auka við flóru sérfræðistarfa á Akureyri. Forsagan er sú að síðastliðið sumar voru verkefni tengd fasteignaskrá flutt frá Þjóðskrá til HMS. Var það gert til að auka yfirsýn á húsnæðismarkaðinn en það hefur ekki farið fram hjá neinum að eitt stærsta hagsmunamál landsmanna er að ná jafnvægi á honum.
Það er einnig gaman að geta sagt frá því að forsvarsfólk HMS telur að með yfirfærslunni á fasteignaskrá og þeirri endurskipulagningu sem hófst í kjölfarið sé hægt að gera ráð fyrir 300 milljóna króna hagræðingu sem ráðstafað verður í endurnýjun grunnkerfa fasteignaskrár og þannig stutt við stefnu ríkisstjórnarinnar um aukna stafræna þjónustu og rauntímaupplýsingar um húsnæðismarkaðinn.
HMS sinnir fjölmörgum verkefnum. Starfseminni er skipt upp í 16 málefnasvið sem síðan er skipt upp í teymi með skilgreinda viðskiptavini, hlutverk og mælikvarða. Þetta fyrirkomulag, teymisvinnan, gerir HMS kleift að flytja teymi milli starfsstöðva. Reynslan af þessari „dreifðu“ stofnun er góð en HMS er með starfsstöðvar í Reykjavík, Borgarnesi, Sauðárkróki og á Akureyri. Og nú er verið að bæta í starfsemina á Akureyri.
Grundvöllur byggða er atvinna
Ég hef, frá því ég settist fyrst í ráðherrastól fyrir tæpum tíu árum síðan, lagt mikla áherslu á byggðamál í störfum mínum. Það er mín einlæga trú að mikilvægt sé að byggðir landsins séu sterkar og bjóði upp á fjölbreytt tækifæri fyrir íbúa. Grundvöllur byggða er atvinna. Því er mikilvægt að störf ríkisins dreifist betur um landið og því er mikilvægt að ríkið taki þátt í að skapa atvinnutækifæri um allt land. Það getur ríkið gert með stofnunum sínum, eins og raunin er með HMS, það getur ríkið gert með því að styðja við atvinnuuppbyggingu og það getur ríkið gert með störfum óháð staðsetningu.
Stefnan er skýr
Sú stefna, sem birtist í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, bæði varðandi störf óháð staðsetningu og að sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins, er mikilvæg hvað varðar byggðaþróun á Íslandi. Þessi stefna stuðlar að auknu búsetufrelsi; það er að fólk hafi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Heimsfaraldurinn hjálpaði óneitanlega til við að hraða þeirri þróun að fólk geti unnið óháð staðsetningu. Hann opnaði augu okkar fyrir því að það er ekki endilega nauðsynlegt að allir starfsmenn séu í sama póstnúmeri og vinnustaðurinn.
Búsetufrelsi
Byggðastofnun sinnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að greiningu starfa ríkisins og einnig hvað varðar þjónustu þess. Um síðustu áramót voru stöðugildi á vegum ríkisins 26.610. Hlutfall stöðugilda ríkisins á höfuðborgarsvæðinu var 72% sem er öllu hærra en hlutfall landsmanna sem þar býr en það er 64%. Annað mikilvægt verkefni sem Byggðastofnun hefur unnið að er greining á þjónustu ríkisins eftir landsvæðum. Það er líka nátengt hugtakinu búsetufrelsi. Það er ekki aðeins mikilvægt að byggðir hafi tækifæri til atvinnu, það er einnig mikilvægt að þjónusta ríkisins sé sem jöfnust, hvar sem á landinu sem fólk kýs að búa.
Aðdráttarafl byggðanna
Yfirskrift fyrrnefnds fundar var: Þetta er hægt! Var þar vísað í alla þá umræðu sem hefur verið í gegnum tíðina um hvort yfirleitt sé hægt að færa störf frá höfuðborgarsvæðinu út á land. Og það er sannarlega rétt að síðustu áratugina hefur straumurinn verið frá landsbyggðunum á höfuðborgarsvæðið. Það verður þó að taka fram að höfuðborgarsvæðið hefur stækkað mjög á síðustu árum, það er að segja vinnusóknarsvæðið hefur þanist út og nær nú að Hvítánum tveimur, austan fjalls og í Borgarfirði. Sjáum við í þeirri þróun svart á hvítu hversu miklu máli samgöngur skipta á okkar góða landi. Á sama tíma er nauðsynlegt að styðja við önnur svæði svo þau geti dregið til sín ný atvinnutækifæri, nýja íbúa og hlúð vel að þeim sem fyrir eru.
Byggðagleraugun
Ekki er langt síðan byggðagleraugun voru lítið notuð, lágu jafnvel ofan í skúffu. Ég fullyrði að það hefur orðið mikil breyting á þótt alltaf megi gera betur. Ég merki breytingu í umræðu um byggðamál. Fólk er opnara fyrir því að flytja sig um set og á það bæði við um flutning innanlands og til útlanda. Eflaust má tengja það öflugri samskiptatækni og góðum tengingum. Við verðum því að skapa hagstæðar aðstæður fyrir fólk sem vill búa úti á landi, taka vel á móti þeim sem vilja flytja út á land. Skrefið sem HMS stígur, með því að auglýsa fimm sérfræðistörf á Akureyri, er kannski ekki bylting, en eins og við vitum flest eru lítil örugg umbótaskref í rétta átt það sem að lokum skilar okkur mestu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 29. október 2022.