Categories
Greinar

Þjóðarleikvangar fyrir þjóðina

Um ára­tuga­skeið hef­ur þjóðin átt sér þann draum að byggja þjóðarleik­vanga fyr­ir íþrótt­astarf í land­inu. Slíkt er löngu tíma­bært, enda nú­ver­andi mann­virki úr sér geng­in og stand­ast ekki kröf­ur alþjóðlegra íþrótta­sam­banda. Þannig upp­fyll­ir ekk­ert íþrótta­hús hér­lend­is lág­marks­kröf­ur sem gerðar eru í alþjóðakeppn­um í hand­knatt­leik eða körfuknatt­leik.

Deila grein

23/09/2020

Þjóðarleikvangar fyrir þjóðina

Tími innviðafjár­fest­inga er runn­inn upp. Slík­ar fjár­fest­ing­ar snú­ast um fleira en vegi og brýr, því innviðir sam­fé­lags­ins eru marg­ir og sam­fléttaðir. Hug­mynd­ir um langþráðar fram­kvæmd­ir við Mennta­skól­ann í Reykja­vík eru loks­ins að raun­ger­ast, grein­ing á hús­næðisþörf fyr­ir iðn- og tækni­mennt­un er á loka­metr­un­um og und­ir­bún­ing­ur vegna nýs Lista­há­skóla er í full­um gangi. Unnið er að framtíðar­skip­an Nátt­úru­m­inja­safns Íslands og Hús ís­lensk­unn­ar hef­ur þegar tekið á sig mynd.

Um ára­tuga­skeið hef­ur þjóðin átt sér þann draum að byggja þjóðarleik­vanga fyr­ir íþrótt­astarf í land­inu. Slíkt er löngu tíma­bært, enda nú­ver­andi mann­virki úr sér geng­in og stand­ast ekki kröf­ur alþjóðlegra íþrótta­sam­banda. Þannig upp­fyll­ir ekk­ert íþrótta­hús hér­lend­is lág­marks­kröf­ur sem gerðar eru í alþjóðakeppn­um í hand­knatt­leik eða körfuknatt­leik. Laug­ar­dals­höll­in kemst næst því, en þar er gólf­flöt­ur of lít­ill, rými fyr­ir áhorf­end­ur of smátt og auka­rými fyr­ir ýmsa þjón­ustu ekki til staðar. Alþjóðasam­bönd hafa þegar gefið okk­ur gula spjaldið vegna aðstöðuleys­is, og ef ekk­ert verður að gert gæti það rauða fylgt í kjöl­farið.

Svipaða sögu er að segja um Laug­ar­dalsvöll­inn, sem er einn elsti þjóðarleik­vang­ur í Evr­ópu. Líkt og hand­bolta- og körfu­bolta­fólkið okk­ar hef­ur knatt­spyrnu­landsliðið náð undra­verðum ár­angri, bæði í kvenna- og karla­flokki. Það er þó ekki vell­in­um að þakka, sem líkt og Laug­ar­dals­höll­in stenst ekki kröf­ur sem gerðar eru í alþjóðleg­um mót­um. Aðfinnsl­urn­ar eru svipaðar; völl­ur­inn er lít­ill, áhorf­endaaðstaða óviðun­andi og skort­ur er á rým­um fyr­ir ýmsa þjón­ustu. Þá hafa keppn­is­tíma­bil í alþjóðleg­um mót­um lengst og þörf­in fyr­ir góðan völl því brýnni en nokkru sinni fyrr.

Eft­ir ára­tuga draum­far­ir sést nú til lands. Tveir starfs­hóp­ar – ann­ar vegna inn­iíþrótta og hinn vegna knatt­spyrnuiðkun­ar – hafa skilað grein­ingu á ólík­um sviðsmynd­um, kost­um, göll­um, ávinn­ingi og áhættu af ólík­um leiðum. Þannig er stór hluti und­ir­bún­ings­vinn­unn­ar kom­inn vel á veg og hægt er að taka næstu skref. Fram und­an er að tryggja fjár­mögn­un, ráðast í hönn­un og grípa skófl­una og byggja framtíðarleik­vanga fyr­ir landslið Íslend­inga.

Þótt meg­in­mark­miðið sé að byggja utan um og yfir íþrótt­a­starfið er mik­il­vægt að þjóðin öll finni sig í nýj­um þjóðarmann­virkj­um. Að hún sé vel­kom­in í mann­virk­in árið um kring, en þau standi ekki tóm og safni bæði kostnaði og ryki. Það má gera með ýms­um hætti; 1) bjóða sér­sam­bönd­um, stök­um fé­lög­um og skól­um vinnu- og æf­ingaaðstöðu, 2) hugsa fyr­ir viðburðahaldi strax á hönn­un­arstigi og tryggja að al­menn­ing­ur, sér í lagi börn, geti notið og prófað ólík­ar íþrótt­ir. Þjóðarleik­vang­ar eiga að iða af lífi frá morgni til kvölds, eigi þeir að standa und­ir nafni.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. september 2020.