Í vikunni voru drög að fyrstu opinberu stefnunni á sviði tónlistar á Íslandi, ásamt frumvarpsdrögum um heildarlöggjöf um tónlist, sett í opið samráð. Mikil vinna hefur verið lögð í að kortleggja umhverfi tónlistar í landinu undanfarin misseri og því virkilega ánægjulegt að geta kynnt afrakstur þeirrar vinnu.
Með nýrri löggjöf og stefnu verður umgjörð tónlistar styrkt verulega. Markmið laganna verður að efla tónlistarlíf um land allt, bæta starfsumhverfi tónlistarfólks og styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðar hér á landi. Með lagasetningunni verður settur heildarrammi utan um aðkomu hins opinbera að tónlist og umgjörð sett utan um rekstur og hlutverk nýrrar Tónlistarmiðstöðvar, nýs Tónlistarsjóðs og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í lögunum er einnig ákvæði um nýtt tónlistarráð.
Lögin byggjast á drögum að tónlistarstefnu sem er fyrsta opinbera stefnan um málefni tónlistar á Íslandi. Stefnan inniheldur framtíðarsýn og markmið tónlistar til ársins 2030 auk aðgerða sem mótaðar hafa verið sem liður í að ná tilsettum markmiðum. Aðgerðaáætlun stefnunnar verður í tveimur hlutum. Fyrri hluti gildir fyrir árin 2023-2026 og síðar verður mótuð aðgerðaáætlun fyrir árin 2027-2030. Sérstök áhersla verður lögð á tónlistarmenningu og -menntun, tónlist sem skapandi atvinnugrein sem og útflutning á íslenskri tónlist.
Þá tekur ný Tónlistarmiðstöð við hlutverkum Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og nýr Tónlistarsjóður verður til með sameiningu núverandi Tónlistarsjóðs, Hljóðritasjóðs og Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar. Þetta mun einfalda sjóðafyrirkomulag tónlistar og auka skilvirkni og slagkraft í stuðningi við íslenska tónlist.
Strax á næsta ári verða fjárframlög til tónlistar aukin um 150 m.kr. til að framfylgja nýrri stefnu og árið 2025 er stefnt að því að framlög til tónlistar verði 250 m.kr. hærri en þau eru í ár.
Ofangreint er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þar sem fram kemur að ætlunin sé að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný tækifæri fyrir íslenska listamenn. Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess og máli skiptir að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Íslenskt tónlistarfólk hefur tekið virkan þátt í að móta daglegt líf okkar með verkum sínum. Ég er stolt og þakklát fyrir framlag þeirra til íslenskrar menningar og er sannfærð um að þau skref sem tekin verða með nýrri stefnu og lögum verði til þess að blása enn frekari vindi í segl íslenskrar tónlistar, stuðla að því að fleiri geti starfað við tónlist í fullu starfi og auðgað líf okkar enn frekar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.