Eftir áskoranir undanfarinna ára erum við farin að hefja okkur til flugs í ferðaþjónustunni á ný. Seigla íslenskrar ferðaþjónustu og stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa gert það að verkum að endurreisn greinarinnar með sjálfbærni að leiðarljósi er möguleg. Og um leið endurreisn efnahagslífsins og bættra lífskjara hér á landi. Tíminn í faraldrinum var vel nýttur, bæði hjá stjórnvöldum sem og hjá fyrirtækjunum sjálfum.
Hvað varðar aðgerðir stjórnvalda ber til dæmis að nefna stofnun áfangastaðastofa í hverjum landshluta, stór auknar fjárfestingar í innviðum, bæði samgönguinnviðum og innviðum á ferðamannastöðum svo þeir verði betur í stakk búnir til að taka á móti auknum fjölda gesta á ný.
Ferðaþjónusta er burðarás í íslensku efnahagslífi og er atvinnugrein sem getur skapað mikil útflutningsverðmæti á skömmum tíma. Eitt helsta markmið stjórnvalda á sviði ferðaþjónustu er að árið 2030 eyði ferðamenn 700 milljörðum króna hér á landi. Eitt helsta forgangsverkefnið nú í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er að klára vinnu við að móta nýja aðgerðaáætlun á sviði ferðamála á grunni Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni á öllum sviðum. Mikilvægt er að leggja áherslu á ávinning heimamanna um allt land, í því sambandi er dreifing ferðamanna lykilatriði. En ójöfn dreifing ferðamanna um landið hefur verið ein mesta áskorun íslenskrar ferðaþjónustu frá upphafi. Mikið er í húfi, t.a.m. betri nýting innviða, bætt búsetuskilyrði og lífsgæði heimamanna, betri rekstrar- og fjárfestingarskilyrði fyrirtækja og fjölbreyttara atvinnulíf um land allt. Greitt millilandaflug skiptir í þessu samhengi miklu máli og hafa ánægjulegar fréttir borist af því að undanförnu með stofnun flugfélagsins Niceair sem mun fljúga beint frá Akureyri.
Aðgerðir á fyrstu mánuðum hins nýja ráðuneytis hafa meðal annars einkennst af ofantöldu. Tíminn hefur verið vel nýttur og meðal annars aukinn slagkraftur var settur með 550 m.kr framlagi í alþjóðlega markaðsverkefnið „Saman í sókn“ sem hafur það að markmiði að styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar. Samningur var gerður um markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum fyrir beint millilandaflug. Tæpum 600 m.kr. úthlutað úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta innviði og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamannamönnum, tvær reglugerðir undirritaðar til að koma móts við erfiða lausafjárstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu vegna afleiðinga heimsfaraldurs. Þá mælti ég í vikunni einnig fyrir breytingu á lögum um Ferðaábyrgðasjóð en með breytingunni verður lánstími lána sjóðsins lengdur úr 6 árum í 10 ár sem auðveldar ferðaskrifstofum að standa við afborganir, nú þegar viðspyrna ferðaþjónustunnar er hafin af fullu krafti.
Það er ánægjulegt að heyra þá bjartsýni sem ríkir víða í ferðaþjónustunni, bókunarstaðan er góð og mikill áhugi er á því að heimsækja landið okkar. Íslensk ferðaþjónusta er á heimsmælikvarða og þar viljum við styrkja hana enn frekar í sessi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir
ferðamálaráðherra og varaformaður Framsókar
Greinin birtist fyrst á mbl.is 27. maí 2022