Unglingsárin eru tímabil spennandi breytinga. Líkami og sál þroskast, vinahópur og nærumhverfi breytast, með tilfærslu ungmenna milli skólastiga. Unglingar í dag lifa á tímum samfélagsmiðla og í því felast tækifæri en einnig áskoranir. Flæði af upplýsingum krefst þess að ungmenni séu gagnrýnni en fyrri kynslóðir á það efni sem fyrir þau er lagt. Þörfin fyrir skilmerkilegri og öflugri kynfræðslu, kennslu í samskiptum og lífsleikni hefur því aldrei verið meiri.
Kynfræðsla er hluti af aðalnámskrá og því hefur það verið skólanna að fræða ungmennin okkar. Flestir virðast þó vera sammála því, að í breyttum heimi þurfi að gera betur. Síðastliðið vor ályktaði Alþingi um mikilvægi skipulagðra forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Tryggja þurfi að inntak kennslunnar verði að meginstefnu til þríþætt. Í fyrsta lagi að almennar forvarnir stuðli að sterkri sjálfsmynd og þekkingu á mörkum og markaleysi, þar á meðal í samskiptum kynjanna og samskiptum milli fullorðinna og barna. Í öðru lagi að auka fræðslu um kynheilbrigði og kynhegðun, einkum í grunnskólum og framhaldsskólum. Í þriðja lagi þarf að halda áfram opinskárri umfjöllun um eðli og birtingarmyndir kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni. Til framtíðar þarf einnig að undirbúa starfsfólk sem starfar með börnum og ungmennum til að sjá um forvarnir, fræðslu og viðbrögð við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.
Í liðinni viku átti ég áhugaverðan fund með Sólborgu Guðbrandsdóttur, baráttukonu og fyrirlesara, og Sigríði Dögg Arnardóttur kynfræðingi um þessi málefni. Báðar hafa þær unnið með ungu fólki, hvor á sinn hátt, og þekkja vel þörfina á skilmerkilegum aðgerðum. Niðurstaða fundarins var að fela sérstökum starfshópi að taka út kynfræðslukennslu í skólum og gera tillögur að úrbótum í samræmi við ofangreinda þingsályktun. Sú vitundarvakning sem orðið hefur um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni er geysilega mikilvæg fyrir samfélagið, en það er brýnt að þekkingin skili sér markvisst inn í skólakerfið.
Aðkoma barna og ungmenna er lykilatriði til að ná samstöðu og sátt um málefni sem þeim tengjast. Þess vegna hefur ráðuneytið haldið samráðsfundi með samtökum nemenda, til að heyra þeirra skoðanir og viðhorf varðandi ákvarðanatöku í heimsfaraldrinum. Þetta hefur gefið mjög góða raun.
Komi í ljós að fræðslan sé óviðunandi mun ég leggja mitt af mörkum svo menntakerfið sinni þessari skyldu. Í mínum huga er þetta eitt mikilvægasta baráttumálið til að auka velferð ungmenna á Íslandi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2020.