Categories
Greinar

Uppkaup á landi

Deila grein

06/08/2019

Uppkaup á landi

Síðastliðna daga hef ég sem sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar fengið upphringingar frá blaðamönnum vegna sölu á jörðinni Atlastöðum í Svarfaðardal til fyrirtækis í eigu erlendra aðila. Spurt er hvort sveitarfélagið hafi áhyggjur af sölunni og innt er eftir viðbrögðum.

Sveitarfélagið hefur ekki forkaupsrétt að jörðum í sveitarfélaginu og því kom salan ekki inn á borð sveitarstjórnar. Aukin heldur er það ekki á stefnuskrá sveitarstjórnar að kaupa jarðir. Því getur sveitarstjórn ekki annað en setið hjá og vonað að nýir eigendur muni rækta sína jörð, standa við þær skuldbindingar sem felast í jarðareign í sveit og verði virkir þátttakendur í samfélagi sveitarinnar.

Hins vegar hefur þetta mál vakið mig til enn frekari umhugsunar um jarðasölur almennt. Hér bæði austan og vestan við eru dæmi þar sem stórfelld uppkaup á jörðum hafa átt sér stað og eru að eiga sér stað. Þar erum við að tala um uppkaup eignamanna ótengdum búskap. Margar jarðir safnast á fárra hendur og falla í flestum tilfellum úr hefðbundnum búskap. Þetta er ógn við byggðir landsins, við atvinnuuppbyggingu í sveitum og við sjálfstæði þjóðar.

Tilraunir ráðamanna til að koma lagasetningu á þessar gjörðir spannar nú nokkur ár. Við höfum dæmi frá nágrannaþjóðum um það hvernig þær hafa brugðist við og sett reglur og lög sem ætti að vera styðjast við eða heimfæra með einhverjum hætti upp á okkur hér á landi. Að jarðir þurfi að vera í ákveðnum búskap eða nýtingu, að einn og sami aðili og tengdir aðilar megi ekki eiga fleiri en X jarðir, að eigandi þurfi að vera með lögheimili á jörðinni o.s.frv.

Hversu erfiða ætlum við að gera okkur þessa lagasetningu og hversu langt ætlum við að láta málið ganga áður en gripið verður í taumana? Hversu illa ætlum við að láta vaða yfir sjálfstæði okkar áður en við spyrnum við fótum? Eða ætlum við yfirleitt ekki neitt að gera?

Ég er ein af þeim sem þoli illa að sitja hjá og horfa á þetta gerast fyrir framan nefið á mér. Ég veit að þannig er með margan Íslendinginn. Því hvet ég núverandi ríkisstjórn til lagasetningar á haustþingi sem vonandi tekur fyrir uppkaup á landi með þeim hætti sem er að gerast í dag. Ég bind vonir við samstarf sem samgöngu– og sveitarstjórnarráðherra segir komið á undir forystu forsætisráðuneytis sem á að leita að ásættanlegri lausn í málinu fyrir komandi kynslóðir.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð og formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.