Á haustþingi 2019 var samþykkt þingsályktunartillaga sem undirrituð lagði fram. Með tillögunni var heilbrigðisráðherra falið að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu. Markmiðið með sérhæfðri endurhæfingarþjónustu er að styrkja greiningarferlið og geta boðið upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.
Það er ánægjulegt að sjá að heilbrigðisráðuneytið hefur brugðist við þessari tillögu með ýmsum hætti. Ráðuneytið endurnýjaði samning við Þraut – miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma. Við endurnýjun samningsins var lögð sérstök áhersla á þrennt, þar á meðal var fræðsla til almennings og starfsfólks heilsugæslu um vefjagigt og er gert ráð fyrir að sú vinna hefjist á þessu ári. Þá var einnig lögð áhersla á að stytta biðlista eftir greiningarmati þannig að hefja megi endurhæfingarmeðferð fyrr ásamt snemmtækum inngripum til að fyrirbyggja framgang sjúkdómsins og koma í veg fyrir örorku.
Endurhæfingarstefna var sett á síðasta ári og í framhaldi lögð fram aðgerðaráætlun til fimm ára. Í aðgerðaráætluninni má finna áherslur um að styrkja þátt endurhæfingar í grunnnámi heilbrigðisstétta. Þá er lögð áhersla á stofnun endurhæfingarteyma í hverju heilbrigðisumdæmi sem leggja áherslu á að beita heildrænni nálgun við endurhæfingu og fyrst um sinn þjónusta einstaklinga með þráláta verki vegna stoðkerfisvanda.
Það skiptir máli að bjóða upp á heildræna meðferð við vefjagigt. Síðastliðið haust var skipaður þverfaglegur starfshópur um langvinna verki. Hlutverk hópsins er að taka saman tölulegar upplýsingar um fjölda, aldur og kyn skjólstæðinga; meðferðir sem veittar eru, hvar og af hverjum og gera tillögur að úrbótum í þjónustu og skipulagi sem auðveldar aðgengi og ferli sjúklinga í kerfinu. Það stendur til að starfshópurinn muni skila stöðuskýrslu í næsta mánuði sem mun verða innlegg í frekari vinnu við sérhæfðari endurhæfingarþjónustu vegna langvinnra verkja, þ.m.t. þjónustu vegna vefjagigtar.
Vefjagigtargreining var talin meðvirkandi þáttur í 75% örorku hjá 14% allra kvenna sem voru á örorku. Örorka vefjagigtarsjúklinga orsakast oft af samverkandi þáttum vefjagigtar, annarra stoðkerfissjúkdóma og geðsjúkdóma. Þetta er langvinnur sjúkdómur sem ekki læknast og því fjölgar í hópi vefjagigtarsjúklinga með hækkandi aldri. Því skiptir máli að bregðast við með heildrænni meðferð sem heldur sjúklingum virkari eins lengi og hægt er.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2021.