Categories
Greinar

Reykir verða áfram miðstöð garðyrkjunáms

Deila grein

23/03/2021

Reykir verða áfram miðstöð garðyrkjunáms

Garðyrkju­skól­inn á Reykj­um hef­ur í rúm 80 ár verið bak­beinið í ís­lensku garðyrkju­námi. Skól­inn hef­ur menntað fólk til starfa í garðyrkju­tengd­um at­vinnu­grein­um og skapað þekk­ingu sem hef­ur sjald­an verið mik­il­væg­ari en nú.

Þegar Land­búnaðar­há­skóli Íslands tók til starfa árið 2005 var starf­semi Garðyrkju­skól­ans færð und­ir hinn nýja skóla, að frum­kvæði Garðyrkju­skóla rík­is­ins. Starf­sem­in hélt áfram á Reykj­um, en yf­ir­stjórn skól­ans færðist til Hvann­eyr­ar. Ætluð sam­legð af há­skóla­starf­semi LBHÍ og fram­halds­skóla­starf­semi Reykja hef­ur hins veg­ar ekki raun­gerst, enda hef­ur komið á dag­inn að þarf­irn­ar eru ólík­ar. Lyk­ilfólk hef­ur talið að skól­arn­ir eigi ekki leng­ur sam­leið og ætlaður ávinn­ing­ur af nánu sam­starfi hef­ur því ekki gengið eft­ir að öllu leyti.

Full­trú­ar garðyrkj­unn­ar hafa kallað eft­ir breyt­ing­um á nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi og því fól ég sér­fræðing­um ráðuneyt­is­ins að kanna málið vand­lega og gera til­lög­ur, ef slíkra reynd­ist þörf. Útgangspunkt­ur­inn var að tryggja sem best starf­sem­ina á Reykj­um, starfs­ör­yggi þeirra sem þar starfa og hags­muni nem­enda. Að vel at­huguðu máli var ákveðið að efla námið á Reykj­um, skilja það frá LBHÍ og vinna með Fjöl­brauta­skóla Suður­lands – ein­um öfl­ug­asta starfs­mennta­skóla lands­ins. Við þá breyt­ingu þarf að huga vel að stjórn­sýslu­regl­um, fag­leg­um kröf­um til mennta­stofn­ana, fjár­veit­ing­um til starf­sem­inn­ar og rétt­ind­um starfs­fólks og nem­enda.

Við und­ir­bún­ing breyt­ing­anna þarf að huga að starfs­ör­yggi og fjölda stöðugilda á Reykj­um og vissa að skap­ast um fjár­mögn­un garðyrkju­náms­ins. Tryggja þarf af­not af jarðnæði og eign­um, bæta aðgengi nem­enda að aðstöðu til verk­legr­ar kennslu og fjár­festa til framtíðar. Þá fel­ast ótelj­andi tæki­færi í sam­starf­inu við aðrar deild­ir Fjöl­brauta­skól­ans, þar sem garðyrkju­nem­ar geta stundað viðbót­ar­nám í öðrum grein­um og öf­ugt. Sam­band Fjöl­brauta­skól­ans við at­vinnu­líf á Suður­landi er sterkt og við blas­ir að nem­end­ur á Reykj­um njóti góðs af frá­bæru starfi og ný­sköp­un einka­rek­inna gróðrar­stöðva á Suður­landi. Und­ir­bún­ing­ur breyt­inga geng­ur vel og þarfagrein­ing­ar skól­anna liggja fyr­ir, en þær hafa m.a. verið unn­ar með full­trú­um Garðyrkju­skól­ans og at­vinnu­lífi garðyrkj­unn­ar.

Nokk­ur umræða hef­ur skap­ast um Reyki á und­an­förn­um miss­er­um og m.a. hafa stjórn­mála­menn kvatt sér hljóðs með greina­skrif­um og fyr­ir­spurn­um. Ég fagna aukn­um áhuga á mál­inu, enda er það mark­mið allra málsaðila að tryggja viðveru og vöxt hins glæsi­lega mennt­a­starfs sem fram fer á Reykj­um. Ábend­ing­ar nem­enda og kenn­ara eru jafn­framt gott inn­legg í sam­vinn­una, sem er í full­um gangi, svo hinir sögu­frægu Reyk­ir muni blómstra um ókomna tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2021.