Categories
Greinar

Vefjagigt – heildræn meðferð

Deila grein

23/03/2021

Vefjagigt – heildræn meðferð

Á haustþingi 2019 var samþykkt þings­álykt­un­ar­til­laga sem und­ir­rituð lagði fram. Með til­lög­unni var heil­brigðisráðherra falið að beita sér fyr­ir fræðslu til al­menn­ings um vefjagigt og láta fara fram end­ur­skoðun á skip­an sér­hæfðrar end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu. Mark­miðið með sér­hæfðri end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu er að styrkja grein­ing­ar­ferlið og geta boðið upp á heild­ræna meðferð byggða á niður­stöðum gagn­reyndra rann­sókna.

Það er ánægju­legt að sjá að heil­brigðisráðuneytið hef­ur brugðist við þess­ari til­lögu með ýms­um hætti. Ráðuneytið end­ur­nýjaði samn­ing við Þraut – miðstöð vefjagigt­ar og tengdra sjúk­dóma. Við end­ur­nýj­un samn­ings­ins var lögð sér­stök áhersla á þrennt, þar á meðal var fræðsla til al­menn­ings og starfs­fólks heilsu­gæslu um vefjagigt og er gert ráð fyr­ir að sú vinna hefj­ist á þessu ári. Þá var einnig lögð áhersla á að stytta biðlista eft­ir grein­ing­armati þannig að hefja megi end­ur­hæf­ing­armeðferð fyrr ásamt snemm­tæk­um inn­grip­um til að fyr­ir­byggja fram­gang sjúk­dóms­ins og koma í veg fyr­ir ör­orku.

End­ur­hæf­ing­ar­stefna var sett á síðasta ári og í fram­haldi lögð fram aðgerðaráætl­un til fimm ára. Í aðgerðaráætl­un­inni má finna áhersl­ur um að styrkja þátt end­ur­hæf­ing­ar í grunn­námi heil­brigðis­stétta. Þá er lögð áhersla á stofn­un end­ur­hæf­ing­ar­t­eyma í hverju heil­brigðisum­dæmi sem leggja áherslu á að beita heild­rænni nálg­un við end­ur­hæf­ingu og fyrst um sinn þjón­usta ein­stak­linga með þráláta verki vegna stoðkerf­is­vanda.

Það skipt­ir máli að bjóða upp á heild­ræna meðferð við vefjagigt. Síðastliðið haust var skipaður þverfag­leg­ur starfs­hóp­ur um lang­vinna verki. Hlut­verk hóps­ins er að taka sam­an tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar um fjölda, ald­ur og kyn skjól­stæðinga; meðferðir sem veitt­ar eru, hvar og af hverj­um og gera til­lög­ur að úr­bót­um í þjón­ustu og skipu­lagi sem auðveld­ar aðgengi og ferli sjúk­linga í kerf­inu. Það stend­ur til að starfs­hóp­ur­inn muni skila stöðuskýrslu í næsta mánuði sem mun verða inn­legg í frek­ari vinnu við sér­hæfðari end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu vegna lang­vinnra verkja, þ.m.t. þjón­ustu vegna vefjagigt­ar.

Vefjagigt­ar­grein­ing var tal­in meðvirk­andi þátt­ur í 75% ör­orku hjá 14% allra kvenna sem voru á ör­orku. Örorka vefjagigt­ar­sjúk­linga or­sak­ast oft af sam­verk­andi þátt­um vefjagigt­ar, annarra stoðkerf­is­sjúk­dóma og geðsjúk­dóma. Þetta er lang­vinn­ur sjúk­dóm­ur sem ekki lækn­ast og því fjölg­ar í hópi vefjagigt­ar­sjúk­linga með hækk­andi aldri. Því skipt­ir máli að bregðast við með heild­rænni meðferð sem held­ur sjúk­ling­um virk­ari eins lengi og hægt er.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2021.