Heimsbyggðin hefur ekki tekist á við sambærilegan faraldur og kórónuveirufaraldurinn í heila öld. Viðbrögð til þess að hefta útbreiðslu faraldursins eiga sér ekki samsvörun og efnahagslegar afleiðingar eru taldar verða meiri en sést hafa frá kreppunni miklu sem hófst árið 1929.
Faraldurinn hefur mismunandi áhrif á þjóðfélagshópa og ljóst er að menning og listir munu koma sérstaklega illa undan þessum óvissutímum. Samkomubönn og takmarkanir setja þessum greinum miklar skorður og því eru tekjumöguleikar nær engir.
Samkvæmt gögnum Bandalags háskólamanna frá því í júlí hefur atvinnuleysi aukist mikið innan aðildarfélaga bandalagsins í list- og menningargreinum. Sé horft til hlutfalls bótaþega af heildarfjölda félagsmanna má sjá að umsóknir hafa áttfaldast innan Félags íslenskra hljómlistarmanna, þrefaldast innan Félags íslenskra leikstjóra og ferfaldast í Leikarafélagi Íslands. Þá sýna gögn BHM og Vinnumálastofnunar að fjöldi atvinnulausra einstaklinga með listmenntun á háskólastigi hafi aukist um 164% milli ára, og sé því um 30% meira en á atvinnumarkaðnum í heild.
Niðurstöður úr könnuninni benda til þess að einungis einn af hverjum fjórum hafi fengið úrræði sinna mála þrátt fyrir mikinn tekjusamdrátt. Ástæður þessa eru margvíslegar, en helst má nefna miklar tekjusveiflur hópsins í hefðbundnu árferði og hindranir sem hópurinn hefur mætt sökum samsetts rekstrarforms.
Stærstur hluti menningar- og listgreina á Íslandi samanstendur af minni fyrirtækjum og sjálfstætt starfandi listamönnum. Því þurfti að finna leiðir til að mæta þessum hópi. Ákveðið var að fara í tíu aðgerðir, sem eru bæði umfangsmiklar og fjölþættar. Það sem vegur þyngst í þeim aðgerðum eru tekjufallsstyrkir sem einyrkjar og smærri rekstraraðilar munu geta sótt um. Ráðgert er að heildarfjármunir sem varið verður til almenns tekjufallsstuðnings stjórnvalda geti numið rúmum 14 milljörðum kr.
Aðgerðirnar tíu sem voru kynntar í gær eru afrakstur vinnu samráðshóps sem settur var á laggirnar í ágúst. Ég vil þakka BHM, Bandalagi íslenskra listamanna, ÚTÓN, félagsmálaráðuneytinu og Vinnumálastofnun fyrir þeirra framlag.
Öflugt menningarlíf hefur einkennt íslenska þjóð frá upphafi. Við erum söngva-, sagna- og bókaþjóð. Listsköpun Íslendinga hefur ítrekað vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi. Ég tel að við getum öll verið stolt af aðgerðum okkar í þágu menningar og lista, enda vitum við að efnahagsleg og félagsleg áhrif af lömuðu menningarlífi mun kosta samfélagið margfalt meira, til framtíðar litið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. október 2020.