Categories
Greinar

Verðmæti menningar og lista er mikið

Öflugt menn­ing­ar­líf hef­ur ein­kennt ís­lenska þjóð frá upp­hafi. Við erum söngva-, sagna- og bókaþjóð. List­sköp­un Íslend­inga hef­ur ít­rekað vakið at­hygli á alþjóðleg­um vett­vangi. Ég tel að við get­um öll verið stolt af aðgerðum okk­ar í þágu menn­ing­ar og lista, enda vit­um við að efna­hags­leg og fé­lags­leg áhrif af lömuðu menn­ing­ar­lífi mun kosta sam­fé­lagið marg­falt meira, til framtíðar litið.

Deila grein

18/10/2020

Verðmæti menningar og lista er mikið

Heims­byggðin hef­ur ekki tek­ist á við sam­bæri­leg­an far­ald­ur og kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn í heila öld. Viðbrögð til þess að hefta út­breiðslu far­ald­urs­ins eiga sér ekki sam­svör­un og efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar eru tald­ar verða meiri en sést hafa frá krepp­unni miklu sem hófst árið 1929.

Far­ald­ur­inn hef­ur mis­mun­andi áhrif á þjóðfé­lags­hópa og ljóst er að menn­ing og list­ir munu koma sér­stak­lega illa und­an þess­um óvissu­tím­um. Sam­komu­bönn og tak­mark­an­ir setja þess­um grein­um mikl­ar skorður og því eru tekju­mögu­leik­ar nær eng­ir.

Sam­kvæmt gögn­um Banda­lags há­skóla­manna frá því í júlí hef­ur at­vinnu­leysi auk­ist mikið inn­an aðild­ar­fé­laga banda­lags­ins í list- og menn­ing­ar­grein­um. Sé horft til hlut­falls bótaþega af heild­ar­fjölda fé­lags­manna má sjá að um­sókn­ir hafa átt­fald­ast inn­an Fé­lags ís­lenskra hljómlist­ar­manna, þre­fald­ast inn­an Fé­lags ís­lenskra leik­stjóra og fer­fald­ast í Leik­ara­fé­lagi Íslands. Þá sýna gögn BHM og Vinnu­mála­stofn­un­ar að fjöldi at­vinnu­lausra ein­stak­linga með list­mennt­un á há­skóla­stigi hafi auk­ist um 164% milli ára, og sé því um 30% meira en á at­vinnu­markaðnum í heild.

Niður­stöður úr könn­un­inni benda til þess að ein­ung­is einn af hverj­um fjór­um hafi fengið úrræði sinna mála þrátt fyr­ir mik­inn tekju­sam­drátt. Ástæður þessa eru marg­vís­leg­ar, en helst má nefna mikl­ar tekju­sveifl­ur hóps­ins í hefðbundnu ár­ferði og hindr­an­ir sem hóp­ur­inn hef­ur mætt sök­um sam­setts rekstr­ar­forms.

Stærst­ur hluti menn­ing­ar- og list­greina á Íslandi sam­an­stend­ur af minni fyr­ir­tækj­um og sjálf­stætt starf­andi lista­mönn­um. Því þurfti að finna leiðir til að mæta þess­um hópi. Ákveðið var að fara í tíu aðgerðir, sem eru bæði um­fangs­mikl­ar og fjölþætt­ar. Það sem veg­ur þyngst í þeim aðgerðum eru tekju­falls­styrk­ir sem ein­yrkj­ar og smærri rekstr­araðilar munu geta sótt um. Ráðgert er að heild­ar­fjármun­ir sem varið verður til al­menns tekju­fallsstuðnings stjórn­valda geti numið rúm­um 14 millj­örðum kr.

Aðgerðirn­ar tíu sem voru kynnt­ar í gær eru afrakst­ur vinnu sam­ráðshóps sem sett­ur var á lagg­irn­ar í ág­úst. Ég vil þakka BHM, Banda­lagi ís­lenskra lista­manna, ÚTÓN, fé­lags­málaráðuneyt­inu og Vinnu­mála­stofn­un fyr­ir þeirra fram­lag.

Öflugt menn­ing­ar­líf hef­ur ein­kennt ís­lenska þjóð frá upp­hafi. Við erum söngva-, sagna- og bókaþjóð. List­sköp­un Íslend­inga hef­ur ít­rekað vakið at­hygli á alþjóðleg­um vett­vangi. Ég tel að við get­um öll verið stolt af aðgerðum okk­ar í þágu menn­ing­ar og lista, enda vit­um við að efna­hags­leg og fé­lags­leg áhrif af lömuðu menn­ing­ar­lífi mun kosta sam­fé­lagið marg­falt meira, til framtíðar litið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. október 2020.