Categories
Greinar

Vestnorrænt tungumálasamstarf

Deila grein

01/07/2019

Vestnorrænt tungumálasamstarf

Mennta- og vís­inda­málaráðherra Fær­eyja, Hanna Jen­sen, heim­sótti Ísland í nýliðinni viku. Það var sér­lega ánægju­legt að hitta sam­starfs­ráðherr­ann frá Fær­eyj­um og við átt­um upp­byggi­leg­an fund þar sem fram komu ýms­ar hug­mynd­ir um frek­ara sam­starf á milli land­anna. Okk­ur er báðum um­hugað um stöðu og þróun okk­ar móður­mála, ís­lensk­unn­ar og fær­eysk­unn­ar. Bæði tungu­mál standa frammi fyr­ir sömu áskor­un­um vegna örr­ar tækniþró­un­ar.

Mark­viss­ar aðgerðir

Íslensk stjórn­völd geta miðlað miklu til annarra þjóða þegar kem­ur að því að snúa vörn í sókn fyr­ir tungu­málið. Í þessu sam­hengi höf­um við kynnt heild­stæða áætl­un sem miðar að því að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar og vit­und­ar­vakn­ingu um hana und­ir yf­ir­skrift­inni Áfram ís­lenska! Ný­verið náðist sá ánægju­legi áfangi að Alþingi samþykkti sam­hljóða þings­álykt­un­ar­til­lögu mína um efl­ingu ís­lensku sem op­in­bers máls á Íslandi. Meg­in­inn­tak henn­ar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta m.a. skólastarf, menn­ingu, tækniþróun, ný­sköp­un, at­vinnu­líf og stjórn­sýslu.

Íslensk­an gjald­geng í sta­f­ræn­um heimi

Hanna Jen­sen var mjög áhuga­söm um mál­tækni­áætl­un ís­lenskra stjórn­valda. Með þeirri áætl­un vilja ís­lensk stjórn­völd tryggja að ís­lensk­an verði gjald­geng í sta­f­ræn­um heimi, ra­f­ræn­um sam­skipt­um og upp­lýs­inga­vinnslu sem bygg­ist á tölvu- og fjar­skipta­tækni. Ákveðið hef­ur verið að efna til form­legs sam­starfs ríkj­anna, þar sem rík­in deila sinni reynslu og þekk­ingu á sviði mál­tækni. Auk­in­held­ur samþykkti Alþingi einnig á dög­un­um þings­álykt­un­ar­til­lögu um sam­starf vestn­or­rænu land­anna, Íslands, Fær­eyja og Græn­lands, á sviði tungu­mála og þró­un­ar þeirra í sta­f­ræn­um heimi. Þar er lagt til að full­trú­ar land­anna taki sam­an skýrslu um stöðu og framtíðar­horf­ur tungu­mál­anna þriggja ásamt yf­ir­liti um mál­tækni­búnað sem til staðar er fyr­ir hvert mál­anna.

Stönd­um með móður­mál­un­um

Það rík­ir mik­il póli­tísk samstaða um að vekja sem flesta til vit­und­ar um mik­il­vægi þess að efla móður­málið. Við get­um, hvert og eitt okk­ar, tekið þátt í að þróa tungu­málið okk­ar, móta það og nýta á skap­andi hátt. Það er ánægju­legt að við get­um lagt okk­ar af mörk­um á þeirri veg­ferð til frændþjóða okk­ar – því öll eig­um við það sam­merkt að vilja að móður­mál­in okk­ar dafni og þró­ist til framtíðar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júlí 2019.