Categories
Greinar

Tvær leiðir til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar

Deila grein

31/08/2021

Tvær leiðir til að bæta starfsumhverfi lögreglunnar

Mikið mæðir á okk­ar fram­lín­u­starfs­mönn­um þessa dag­ana vegna Covid- far­ald­urs­ins. Þá á ég fyrst og fremst við hjúkr­un­ar­fólk, lækna, sjúkra­flutn­inga­fólk, slökkviliðsmenn og lög­regluþjóna. Hægt væri að skrifa lýs­ing­ar um sér­hverja starfs­grein en ég ætla nú að beina at­hygli minni að okk­ar frá­bæra fólki í lög­regl­unni. Und­an­farna mánuði hef ég átt mörg sam­töl við lög­regluþjóna um hvernig þeir upp­lifa sig í störf­um sín­um.

Fjölg­un lög­regluþjóna

Á vef Alþing­is er til­greint að fjöldi lög­regluþjóna á Íslandi hafi verið 662 þann 1. fe­brú­ar 2020. Þetta sam­svar­ar að á Íslandi er einn lög­regluþjónn á hverja 557 íbúa. Í skýrslu dóms­málaráðherra frá ár­inu 2001 kem­ur fram að fjöldi lög­regluþjóna var þá hlut­falls­lega mest­ur á Íslandi af öll­um Norður­lönd­um eða einn á hvern 441 íbúa, en meðaltalið á Norður­lönd­um var þá 573 íbú­ar á lög­regluþjón. Í dag hef­ur fjöldi lög­regluþjóna á Norður­lönd­um hald­ist óbreytt­ur eða einn á 577 íbúa. Ljóst er að á meðan fjöldi lög­regluþjóna hef­ur staðið í stað á Norður­lönd­um þá hef­ur þeim hlut­falls­lega fækkað veru­lega á Íslandi. Þess­ar töl­ur eru í sam­ræmi við þau sam­töl sem ég hef átt. Jafn­framt hef­ur ný­leg ákvörðun um stytt­ingu vinnu­tíma orðið til þess að vakt­ir eru nú mannaðar með færri lög­reglu­mönn­um, sem eyk­ur enn meira það álag sem fyr­ir er. Þegar tekið er til­lit til auk­inna og nýrra verk­efna lög­regl­unn­ar, tveggja millj­óna ferðamanna, net­glæpa, viðveru af­brota­gengja frá Evr­ópu, fjár­mála­af­brota, man­sals og auk­inna verk­efna varðandi fjöl­skyldu­tengd af­brot, verk­efni sem flest þekkt­ust vart hér á landi fyr­ir 20 árum, er ljóst að ástandið er grafal­var­legt.

Lausn­in er mjög skýr. Það þarf að fara í aðgerðir til að fjölga lög­regluþjón­um á land­inu strax.

End­ur­vakn­ing lög­reglu­skól­ans

Þegar lög­reglu­skól­inn var lagður niður 2016 var það gert skil­yrt að verðandi lög­regluþjón­ar þyrftu að ljúka tveggja ára skóla­námi (diplóma) á há­skóla­stigi og að starfs­náms­hluti yrði síðan í um­sjá mennta- og starfsþró­un­ar­set­urs rík­is­lög­reglu­stjóra sem stofnað var í kjöl­farið. Farið var í þess­ar aðgerðir til að ná fram sparnaði í rík­is­rekstri. Það er gott og vel að reyna að spara þar sem hægt er, en það sem hef­ur skap­ast í kjöl­farið er að praktísk/​raunþjálf­un lög­reglu­nema hef­ur verið minnkuð til muna. Ekki er leng­ur kennt yfir heilt náms­ár eins og var í lög­reglu­skól­an­um hér áður held­ur er þetta nokk­urra vikna nám­skeið sem kem­ur í kjöl­far þess að nem­end­ur ljúka sínu diplóma­námi. Þetta hef­ur leitt til þess að lög­regluþjón­ar eru ekki jafn vel und­ir­bún­ir til að tak­ast á við hin dag­legu vanda­mál sem koma upp í þeirra vinnu. Hvort lausn­in sé að end­ur­vekja starf­semi gamla lög­reglu­skól­ans skal ég ekki segja en það er ein­róma skoðun viðmæl­enda minna að lengja þurfi verk­lega námið til muna, svo að nýliðar í lög­regl­unni séu bet­ur und­ir­bún­ir til að tak­ast á við þær áskor­an­ir sem þeir mæta á hverj­um degi.

Fyr­ir þjóð sem tel­ur aðeins 360 þúsund íbúa og eng­an her er nauðsyn­legt að efla stöðugt og styrkja lög­gæsluaðila rík­is­ins, þannig að ávallt sé vel þjálfað starfs­fólk fyr­ir hendi í lög­regl­unni.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, sit­ur í 2. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2021.

Categories
Greinar

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Deila grein

26/08/2021

At­vinna, at­vinna, at­vinna gegn at­vinnu­leysi

Það er á allra vitorði að atvinnuleysi fór að stóraukast strax í kjölfar komu Covid-19 hingað til lands. Mörg vandamál spruttu í kjölfar komu veirunnar til landsins, en meðal þeirra stærstu var án efa það gífurlega atvinnuleysi sem birtist samfélaginu. Atvinnuleysið hafði vissulega mikil áhrif á ríkissjóð, vinnumarkaðinn, efnahaginn og andlega líðan samfélagsins í heild. Þessum vanda var nauðsynlegt að mæta af ákveðni til að snúa við blaðinu, og þar kom Framsókn sterk inn.

Vinnumarkaðsaðgerðir

Vegna fjölgunar atvinnulausra í kjölfar Covid-19 talaði Framsókn fyrir vinnumarkaðsaðgerðum af hálfu ríkisins til að bregðast við ástandinu og standa vörð um ráðstöfunartekjur heimilanna. Formaður Framsóknar, Sigurður Ingi, stóð á ræðupúlti Alþingis í stefnuræðum og sagði hin fleygu orð:

Við stöndum vörð um störfin og við sköpum ný störf. Það er atvinna, atvinna, atvinna sem málið snýst um.“

Það er rétt. Í þessu ástandi var það mikilvægasta málið að ná vinnumarkaðnum aftur á réttan kjöl með því að sporna við hækkandi atvinnuleysi og standa vörð um lifibrauð fólksins í landinu. Vinnumarkaðsaðgerðir að hálfu ríkisins voru settar á laggirnar, til dæmis átak Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, „Hefjum Störf“. Með því voru sjö þúsund störf sköpuð fyrir þá sem höfðu dottið af atvinnumarkaðinum vegna Covid.

Aðgerðirnar hafa skilað áþreifanlegum árangri

Nú í ágúst hefur Vinnumálastofnun birt nýjustu skýrslu um stöðu atvinnumarkaðsins. Þar sjáum við svart á hvítu að umræddar vinnumarkaðsaðgerðir hafa skilað okkur áþreifanlegum árangri. Tölfræðin segir okkur að aðgerðirnar, ásamt bólusetningum, hafa virkað. Í júlímánuði hafði hlutfall atvinnulausra (6,1%) lækkað um 1,3% milli mánaða og um 3% frá upphafi sumars. Einnig spáir Vinnumálastofnun áframhaldandi minnkun atvinnuleysis á næstu mánuðum, sem hefur lækkað um 6,7% frá upphafi árs.

Höldum áfram

Að sjálfsögðu er það mikið ánægjuefni að sjá atvinnuleysið minnka ört, en ferðinni er ekki lokið. Betur má ef duga skal, og atvinnuleysið þarf að minnka meira. Nú horfum við upp á sóttvarnarráðstafanir innan samfélagsins sem hafa gífurleg áhrif á hinar ýmsu starfsstéttir. Fyrir sumar boða þessar ráðstafanir dauðadóm ef takmörkunum verða ekki aflétt fljótlega. Næsta skrefið er að aðstoða aðila við að byggja upp störfin að nýju. Ferðaþjónustan, skemmtanaiðnaðurinn og fleiri starfsstéttir eiga enn erfitt með að ná endum saman og nú er kominn tími til að standa vörð um þær og veita þeim viðeigandi athygli. Vinnumarkaðurinn á Íslandi má ekki við því að þessar starfstéttir heltast úr lestinni.

Höldum áfram veginn í átt að minnkun atvinnuleysis og tryggjum störf!

Aðalstein Haukur Sverrisson, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Deila grein

08/06/2021

Skipulagt starf um stafræn áhugamál – fjárfesting til framtíðar!

Son­ur minn var fermd­ur síðastliðna helgi í Bú­staðakirkju ásamt skóla­fé­lög­um sín­um. Heil röð af stolt­um for­eldr­um, systkin­um, öfum og ömm­um fylgd­ist með þegar þessi ljúfi, hæg­láti og hjarta­góði strák­ur varð að ung­um manni. Mik­il gleðistund!

Hann var sjö ára þegar hann greind­ist með ódæmi­gerða ein­hverfu, reynd­ar hafði grun­ur um hans rösk­un vaknað fyrst þegar hann var þriggja ára en niðurstaðan, sem lá fyr­ir fjór­um árum seinna, er efni í aðra grein. Eins og marg­ir sem eru greind­ir á ein­hverfuróf­inu á hann erfitt með að halda uppi því sem er skil­greint sem „eðli­leg fé­lags­leg sam­skipti“, hvað svo sem það þýðir. En það hef­ur vissu­lega haft áhrif á getu hans til að rækta og halda vin­skap og valdið ákveðinni fé­lags­legri ein­angr­un, sér­stak­lega síðustu árin þegar krakk­ar hætta að vera krakk­ar og verða ung­ling­ar. Sem bet­ur fer hef­ur þessi fé­lags­lega ein­angr­un ekki þró­ast í að hann hafi lent í einelti eða ein­hverju slíku, það þakka ég fyrst og fremst hon­um sjálf­um og skól­un­um tveim­ur, Breiðagerðis- og Rétt­ar­holts­skól­um, og hvernig var haldið utan um hans mál. Þó hef­ur þessi ein­angr­un auk­ist meira sl. þrjú ár. Sem for­eldr­ar höf­um við skilj­an­lega áhyggj­ur af slíkri þróun og Covid hef­ur sett ákveðið strik í reikn­ing­inn þar sem ekki var mögu­leiki fyr­ir hann að sækja skáta­fundi sem hann hef­ur gert síðan hann var sex ára.

Líkt og marg­ir krakk­ar hef­ur son­ur minn mikið dá­læti á tölvu­leikj­um, hann hef­ur sér­staka ánægju af að spila tölvu­leiki þar sem maður bygg­ir upp borg­ir með allri til­heyr­andi þjón­ustu sem hver borg þarf á að halda. Þegar hann spil­ar sína tölvu­leiki ger­ir hann það yf­ir­leitt í slag­togi við aðra spil­ara, ým­ist á Íslandi eða í út­lönd­um, og þá er oft mikið fjör. Eft­ir að hann fór að eiga sam­skipti við aðra á net­inu fór­um við mamma hans að taka eft­ir því að færni hans til að eiga sam­ræður tók mikl­um fram­förum. Það voru samt erfiðir hlut­ir sem þurfti að tækla sem komu upp í kjöl­far tölvu­notk­un­ar­inn­ar; að fylgj­ast með að ekki væri verið að svíkja þar til gerða samn­inga um skil­greind­an skjá­tíma og tryggja að hann stundaði ein­hverja úti­veru á hverj­um degi. Þó að þetta hafi að mestu gengið vel vild­um við ólm fá hjálp við að styðja bet­ur við þetta áhuga­mál hans.

Fyr­ir rétt rúm­um tveim­ur árum fékk ég boð frá vini mín­um um að mæta á kynn­ingu hjá GMI (Game Makers Ice­land). Þar var há­vax­inn ung­ur maður að nafni Ólaf­ur Hrafn Stein­ars­son sem hélt fyr­ir­lest­ur um ný­stofnuð rafíþrótta­sam­tök og þá sýn sem hann og sam­tök­in höfðu á framtíð tölvu­leikja­áhuga­máls­ins á Íslandi. Í er­indi sínu benti Ólaf­ur á að tölvu­leik­ir ættu snerti­flöt við yfir 90% barna og ung­menna í land­inu, en það var áhuga­mál sem bauð upp á næst­um enga skipu­lagða iðkun eða þjálf­un. Á þessu boðaði hann breyt­ing­ar; með vax­andi rafíþróttaum­hverfi á heimsvísu væru for­send­ur fyr­ir því að færa tölvu­leikja­áhuga­málið í skipu­lagt starf sem und­ir­býr rafíþrótta­menn framtíðar­inn­ar á heild­stæðan hátt fyr­ir að tak­ast á við krefj­andi um­hverfi at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um. Þá væri mik­il­vægt að huga að því að byggja heild­stæðan ramma utan um starfið sem miðaði að því að skila já­kvæðum ávinn­ingi til allra iðkenda en ekki bara af­reks­spil­ara. Til þess boðaði Ólaf­ur skil­grein­ingu Rafíþrótta­sam­taka Íslands á rafíþrótt­um sem „heil­brigða iðkun tölvu­leikja í skipu­lögðu starfi“ og að sú iðkun feli í sér að iðkandi upp­lifi sig sem hluta af liði, taki þátt í lík­am­leg­um og and­leg­um æf­ing­um, fái fræðslu um mik­il­vægi og ávinn­ing heil­brigðra spila­hátta og lífs­stíls, allt hlut­ir sem eru mik­il­væg­ir til að feta veg at­vinnu­manns­ins í rafíþrótt­um.

Þessi fyr­ir­lest­ur bæði heillaði og sann­færði mig um að þessi nálg­un sem Ólaf­ur kynnti væri skyn­sam­leg og rök­rétt leið til að kenna börn­um heil­brigða tölvu­leikjaiðkun. Svo mjög að ég skráði son minn í rafíþrótta­deild Ármanns. Það leið ekki á löngu þar til ég og móðir hans tók­um eft­ir mikl­um fram­förum. Hann var mun ánægðari al­mennt, sam­skipti við hann á heim­il­inu voru auðveld­ari og hann var far­inn að setja sín­ar eig­in regl­ur varðandi skjá­tíma sem upp­fyll­ir þær regl­ur sem við for­eldr­arn­ir höfðum skil­greint. Ekki nóg með það held­ur mætti þessi flotti strák­ur, sem hef­ur aldrei haft áhuga á iðkun hefðbund­inna íþrótta, einn dag­inn með stolt bros á vör og kvartaði yfir því að vera drep­ast úr harðsperr­um eft­ir rafíþróttaæf­ingu. Hann ákvað svo í vik­unni að kaupa sér lóð og upphíf­inga­stöng fyr­ir ferm­ingar­pen­ing­ana. Það var ótrú­legt fyr­ir mig sem for­eldri að sjá barnið mitt loks­ins blómstra í skipu­lögðu starfi, þegar ein­hver var til­bú­inn að mæta hon­um þar sem hann var stadd­ur í sínu áhuga­máli og hvetja hann til þess að gera meira, reyna meira og að hann geti meira. Þetta var ein­mitt það sem heillaði mig við fyr­ir­lest­ur­inn hans Ólafs og það sem ég tel að við þurf­um meira af; ný­stár­leg­ar aðferðir fyr­ir okk­ar ört breyti­lega sam­fé­lag til þess að taka utan um og fjár­festa í ein­stak­lingn­um til framtíðar.

Ég hlakka til að fylgj­ast með framtíð hans í rafíþrótt­um og framtíð okk­ar í sam­fé­lagi þar sem fjár­fest er í fólk­inu!

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, formaður Fram­sókn­ar­fé­lags Reykja­vík­ur og skip­ar 2. sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík suður. adal­steinn@recon.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2021.