Categories
Greinar

Hver er Akureyri framtíðar?

Deila grein

13/09/2024

Hver er Akureyri framtíðar?

Akureyri er blómlegur bær, með öll lífsins gæði; er mikilvæg miðstöð þjónustu og skýr valkostur fyrir þau okkar sem vilja búa í þægilegu borgarumhverfi á þessu landshorni frekar en öðru. Þannig viljum við örugglega öll hafa það og á þeim forsendum viljum við, held ég flest, að bærinn haldi áfram að vaxa og dafna. En hvað þarf til, og hvað getur komið í veg fyrir að bærinn sé og verði besta útgáfan af sjálfum sér?

Allskonar

Hæfir stjórnendur vita það mæta vel að alls konar er ekki stefna, og án stefnu er harla erfitt að örva vöxt og bæta samkeppnishæfni. Samfélög lúta alveg sömu lögmálum. Þau samfélög sem móta sér skýra sýn á hvernig þau vilja þróast áfram, og hvers konar bæjarlíf þau vilja skapa sér, sjá undantekningarlaust aukinn árangur af sinni vinnu. Það sem meira er, þegar vel er haldið á málum þá þróast atvinnulífið iðulega eftir slíkri sameiginlegri sýn. Þá þarf að vera til leiðarvísir og aðgerðaráætlun, sem tengja saman auðlindir, stefnu og frumkvæði til að nýta staðbundinn styrkleika, takast á við áskoranir og fanga tækifærin.

Þurfum við að gera eitthvað?

Ég staðhæfði hér fyrir ofan að alls konar er ekki stefna. Að vona það besta er sannarlega alls engin stefna. Góðir hlutir gerast hægt og við þurfum að hafa fyrir þeim. Eða, kannski gerast þeir hratt en undirbúningurinn er langur. Millilandaflug frá Akureyri er gott dæmi um ávextina sem spretta þegar jarðvegurinn er undirbúinn af kostgæfni. Sveitarfélög og ferðaþjónustufyrirtæki  landshlutans settu sér það metnaðarfulla markmið fyrir allnokkrum árum að hér skyldi hefjast millilandaflug og stofnuðu, af töluverðri forsjálni, flugklasa um það verkefni. Með dugnaði og þrautseigju hefur tekist að koma Akureyrarflugvelli á kortið, með tilheyrandi lífsgæðum fyrir íbúa og ótöldum tækifærum fyrir atvinnulífið. Vegalaus staður hefur upp á lítið að bjóða í alþjóðlegri samkeppni. Verkefninu er hvergi nærri lokið og sannarlega ekki tímabært að nema staðar og kasta frá sér verkfærunum.

Þetta á aldrei eftir að raungerast

Ég er afskaplega hræddur um að þetta sé of algengt viðhorf og auðvelt fyrir kjörna fulltrúa að falla í gryfju sem þessa. Slíkt hugarfar er augljóslega aldrei gagnlegt og sem betur fer hefur þróun bæjarins ekki stjórnast af þannig sofandahætti. Hefði það verið raunin, þá væri Akureyri tæplegast sá blómlegi háskólabær sem hann er í dag. Bærinn væri þá ekki heldur jafn aðlaðandi fyrir þau mörgu þekkingarfyrirtæki sem starfa hér í dag, eða önnur öflug fyrirtæki sem þurfa á fjölbreyttu vinnuafli og þekkingu að halda. Atvinnulífið okkar er sannarlega ekki þjakað af þessu hugarfari. Við sjáum það glöggt á fyrirtækjum eins og Slippnum, sem hefur verið í stöðugri framþróun síðustu ár og sækir stíft ný tækifæri og nýja markaði. Kjörnir fulltrúar eiga að sjálfsögðu að taka atvinnulífið sér til fyrirmyndar og temja sér jákvætt hugarfar gagnvart uppbyggingu og sköpun verðmæta.

Þarf bærinn  að stækka?

Hugarfar sem ég hef reyndar skilning á. Ef allt er gott, hvers vegna þá að breyta nokkru – og vill maðurinn í fúlustu alvöru breyta bænum í Reykjavík? Það held ég nú ekki! Auðvitað á Akureyri að þróast á sínum forsendum. Atvinnuvegir eru hins vegar ekki ónæmir fyrir breytingum og þróun bæjarlífs ekki heldur. Breytingar eru óhjákvæmilegar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Svipull er sjávarafli, síldin kemur og síldin fer, eins og sagt er og nágrannar okkar þekkja svo mætavel. Ef við horfum ekki fram á veginn og sjáum sóknarfærin þegar þau gefast, þá er stöðnun næsta vís og hún er helst til gjörn á að bjóða heim hnignuninni. Og það er nú ekki gestur sem við viljum fá í bæinn okkar, því hún er nær alltaf þaulsetin.

Framtíðin ræðst af forsjálni

Framtíðin ræðst af forsjálni. Við þurfum að rýna til framtíðar og móta hana strax á okkar eigin forsendum. Tæknibreytingar eru hraðar, samkeppnin um auðlindir hörð, miklar umbreytingar eru að verða á vinnumarkaði og svo mætti lengi telja. Við eigum að setja okkur vandaða og metnaðarfulla atvinnu- og framtíðarstefnu, með skýrum markmiðum sem byggja á styrkleikum sveitarfélagsins.

Hvar liggja möguleikarnir og hvernig viljum við að bærinn okkar þróist?

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 13. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bjart fram undan í ferða­þjónustu á Norður- og Austur­landi

Deila grein

31/10/2023

Bjart fram undan í ferða­þjónustu á Norður- og Austur­landi

Í dag lenti fyrsta flugvél EasyJet á Akureyrarflugvelli og hóf þar með vikulegt áætlunarflug í vetur. Þetta er stórmerkur áfangi og vart hægt að hugsa sér betri leið til að fagna vetrarkomunni. EasyJet er eitt öflugasta flugfélag Evrópu sem getur, ef vel gengur, gjörbreytt öllum forsendum fyrir heilsársferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Þennan fyrsta vetur eru áætlaðar 44 ferðir, eða yfir 8.000 ný flugsæti sem ferja hingað til lands ferðaþyrsta gesti sem munu án efa fara vítt og breitt um landshlutana. Þessar ferðir bætast við það framboð sem erlendar ferðaskrifstofur hafa þegar boðað. Eftir jól heldur Voigt Travel áfram með vetrarferðir frá Amsterdam, og svissneska ferðaskrifstofan Kontiki býður upp á ferðir til Akureyrar frá Zurich í febrúar og mars. Allt spennandi áfangastaðir fyrir okkur heimafólkið sömuleiðis. Þetta er stórkostleg framför og ljóst að það góða uppbyggingar- og kynningarstarf sem hefur verið leitt í gegnum markaðsstofurnar er að skila okkur markverðum árangri.

Aukin fjárfesting í hótelrekstri

Lenging ferðamannatímabilsins er forsenda þess að áfangastaðir geti vaxið og dafnað. Aukinn stöðugleiki og minni árstíðarsveiflur gera fjárfestingar í ferðaþjónustu meira aðlaðandi fyrir erlenda sem innlenda fjárfesta. Stórfelld uppbygging við Grenivík, yfirstandandi og fyrirhuguð uppbygging við Hafnarstræti á Akureyri og við Skógarböðin í Eyjafirði – og svo mætti áfram telja – er vonandi vitnisburður um töluverða bjartsýni þegar kemur að áframhaldandi vexti í landshlutanum. Slíkar fjárfestingar skila sér ekki bara til þeirra aðila sem standa að hótelrekstrinum, heldur til ótal ferðaþjónustuaðila sem selja þjónustu, vörur og veitingar til ferðamanna. Þar með talin einstök náttúruböð og laugar sem hafa glatt bæði heimamenn og gesti.

Varaflugvallagjald grundvöllur frekari vaxtar

Ferðaþjónustan hefur vaxið og dafnað sem mikilvæg stoð í innlendum efnahag en innviðirnir þurfa að sjálfsögðu að fylgja þeirri þróun. Það er því ekki síður ástæða til að fagna góðum gangi í framkvæmdum á flughlaðinu á Akureyri sem kemst í gagnið fljótlega á nýju ári. Viðbyggingin við flugstöðina er risin og þá verður farið í breytingar á eldri byggingum og framkvæmdum þar lokið næsta sumar. Stækkun flugstöðvarinnar er lykilatriði í uppbyggingu ferðaþjónustu og mun gera völlinn betur í stakk búinn til þess að þjóna alþjóðaflugi. Hér erum við að sjá í verki aukna áhersla á uppbyggingu innanlandsflugvalla en alls fara um 1.350 m.kr. til þeirra verkefna með tilkomu varaflugvallagjalds þar sem lögð verður áhersla á uppbyggingu varaflugvallanna í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Sé horft til næstu skrefa er mikilvægt að hraða vinnu við GPS aðflug, sem getur bætt öryggi og nýtingarmöguleika, og jafna eldsneytiskostnað milli landshluta. Með samhentu átaki getum við aukið samkeppnishæfni flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, styrkt stöðu ferðaþjónustu á bæði Norður- og Austurlandi og ýtt undir betri dreifingu ferðamanna.

Uppbygging sem auðveldar markaðssetningu á Íslandi öllu

Öll þessi uppbygging eru góð tíðindi ekki bara fyrir landshlutana tvo heldur landið allt. Fjöldi ferðamanna er nú svipaður og fyrir heimsfaraldur og allt útlit fyrir áframhaldandi aukningu næstu ár. Einhverjir þessara ferðamanna hafa komið áður og eru að snúa aftur til landsins – og einhver hluti þeirra sem eru að koma í fyrsta skipti munu vilja koma aftur, ef við tökum vel á móti gestunum. Það er þó nokkuð ljóst að við ýtum ekki undir áhuga þeirra með því að selja sömu vöruna tvisvar. Ef við ætlum að gera sem mest úr ferðaþjónustu, til hagsbóta fyrir nærsamfélögin okkar um allt land, þá verðum við að skapa spennandi áfangastaði, með öfluga innviði og góðar gáttir til landsins.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis og Gunnar M. Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. október 2023.

Categories
Greinar

Bann við símanotkun í grunnskólum Akureyrarbæjar?

Deila grein

15/10/2023

Bann við símanotkun í grunnskólum Akureyrarbæjar?

Mikil umræða hefur verið undanfarið um símanotkun barna- og ungmenna í grunnskólum og skort á stafrænu læsi. Það er frábært þegar þjóðþekktur aðili eins og Þorgrímur Þráinsson leggur orð í belg því þá virðist þjóðin hlusta en þá þarf líka að bregðast við og grípa til aðgerða.

Barna- og menntamálaráðherra hefur sett af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Við bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri viljum bregðast strax við og munum leggja fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi næstkomandi þriðjudag:

Fræðslu- og lýðheilsuráði er falið í samstarfi við ungmennaráð og fulltrúum skólasamfélagsins, skólastjórnendum, kennurum og nemendaráðum grunnskóla, að setja reglur um notkun síma í grunnskólum Akureyrarbæjar. Reglurnar eiga að taka gildi í síðasta lagi um næstu áramót og gilda þar til barna- og menntamálaráðherra hefur lokið vinnu við mótun reglna um notkun síma í grunnskólum landsins.

Skilja börn og ungmenni orðið bergmálshellir?

Einnig munum við leggja fram fyrirspurn um stöðu vinnu við að efla stafrænt læsi barna- og ungmenna en undirrituð skrifaði grein um eflingu stafræns læsis fyrir ári síðan, Smá veröld í risaheimi stafrænnar tækni, og lagði svo fram eftirfarandi tillögu í bæjarstjórn sem var samþykkt: Bæjarstjórn telur mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á stafrænt læsi barna og ungmenna í nýrri lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar og í framhaldinu í aðgerðaáætlun forvarnastarfs sem tæki þá ekki aðeins á notkun og samskiptum á miðlunum heldur einnig markaðsstarfi þeirra.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson eru bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 14. október 2023.

Categories
Greinar

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Deila grein

17/08/2023

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Framtíð háskólamenntunar felst ekki í nafnlausum nemendum sem einangrast bak við skjáinn. Framtíð háskólamenntunar utan höfuðborgarsvæðisins verður ekki tryggð nema með því að nýta tæknina og bjóða upp á öflugt og fjölbreytt fjarnám. Þessar tvær fullyrðingar eru ekki í trássi hver við aðra en við þurfum að finna stofnunum okkar form þar sem sá sannleikur sem er fólginn í þeim báðum nær að raungerast og, allt í senn, treysta búsetu, efla samfélög og auka lífsgæði yngri kynslóða.

Horfum til reynslunnar

Ein best heppnaða tilraun síðustu ára til að skapa lifandi náms- og rannsóknarumhverfi á forsendum nærsamfélagsins er í mínum huga Háskólasetur Vestfjarða. Setrið er markverð miðstöð fyrir fjölda nemenda og starfsmanna, er segull fyrir erlenda gesti frá háskólasamfélögum víða um heim, sinnir áríðandi rannsóknum í samstarfi við stofnanir innan og utan Vestfjarða, og stendur fyrir merkilegri húsnæðisuppbyggingu heima í héraði í formi stúdentagarða. Háskólinn á Akureyri er að sjálfsögðu dæmi um aðra framúrskarandi vel heppnaða byggðaaðgerð, enda var skólinn brautryðjandi í að færa námstækifæri nær íbúum landsbyggðanna. Skólinn hefur haft afgerandi áhrif á framtíðarbúsetu og búsetuþróun í krafti þeirra tækniframfara sem hafa gert fjarnám mögulegt. Ekki aðeins á Akureyri heldur mun víðar. Þannig naut Austurland t.a.m. góðs af vaxandi fjölda hjúkrunarfræðinga og kennara sem voru staðráðin í að lifa, læra og starfa í sinni heimabyggð. Það er mikilvægt að halda upp á þessa sögu, horfa til reynslunnar og byggja á henni til framtíðar.

Vert er að geta þess að fyrrnefndar stofnanir eiga í gjöfulu samstarfi um sjávartengt meistaranám á Vestfjörðum. Fjölmargar aðrar mennta- og rannsóknastofnanir víða um land koma með einum eða öðrum hætti að námi á háskólastigi. Við eigum að leiða krafta þeirra saman undir því sameiginlega markmiði að fjölga tækifærum til náms, og því höfuðmarkmiði að gera ungu fólki um allt land kleift að starfa í lifandi, frjóu og skemmtilegu námsumhverfi. Okkur sem þjóð hefur hingað ekki borið sú gæfa að ná þessu markmiði nema að takmörkuðu leyti, enda hafa tilraunir til þess verið brotakenndar enn sem komið er. Háskóli Íslands hefur ekki sinnt þessu hlutverki og ef til vill eigum við ekki að gera slíka kröfu til stofnunarinnar. Þau verkefni, og með þeim það hlutverk, sem við ætlum Háskóla Íslands eru ærin og má vel vera að byggðaleg sjónarmið samræmist ekki að öllu leyti starfsemi skólans. Stofnun rannsóknasetra HÍ um allt land er sannarlega viðleitni í þá átt en þrátt fyrir gott starf er ljóst að tækifæri hafa líka glatast allt of víða.

Landsbyggðarháskóli með víðfeðmt starfssvæði

Það er af þessari ástæðu sem ég fagna ekki að öllu leyti nýjustu fregnum af hugsanlegri sameiningu Háskóla Íslands og Hólaskóla, þótt eflaust megi finna í því skrefi samlegð og tækifæri til eflingar. Og af þessari ástæðu sömuleiðis sem ég spyr mig, hvort ekki hefði verið nær að fela stjórnendum Hólaskóla táknrænt umboð þess efnis að leiða samtal mennta- og rannsóknastofnana sem flestra landshluta utan höfuðborgarsvæðisins? Stofnun sérstaks landsbyggðarháskóla myndi skerpa á markmiðum sem eru, eða ættu að vera, sameiginleg. Háskóli sem hefði víðfeðmt starfssvæði og tengdi saman starfsemi fjölbreyttra stofnana, stuðlaði að auknu framboði fjarnáms, gerði það aðgengilegra og ýtti undir virkara rannsóknasamstarf.

Hólaskóli – Háskóli landsbyggðanna er ef til vill ekki verra nafn en hvað annað, með vísan í merka sögu sem hægt er að sameinast um. Leiðandi og framsækin stofnun, drifkraftur heima í héraði – sem víðast!

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og sérfræðingur á sviði byggðaþróunar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Húsnæðismál eldri borgara á Akureyri

Deila grein

09/03/2023

Húsnæðismál eldri borgara á Akureyri

Að tryggja rétt okkar allra til farsællar öldrunar er stórt og mikilvægt verkefni, ekki síst í ljósi þess að hlutfall eldra fólks fer hækkandi hér á landi rétt eins og annarsstaðar í heiminum. Akureyrarbær hefur sett sér aðgerðaáætlun í málefnum aldraðra sem unnið er eftir og tekur á heilsueflingu, félagsstarfi og upplýsingagjöf. Veigamiklir póstar eru hins vegar eftir í þeirri vegferð bæjarins að verða aldursvænt samfélag þar sem er gott að eldast. Húsnæðis- og skipulagsmál eru þar á meðal.

Húsnæðisþarfir, skipulag og farsæl öldrun

Aldursvænt bæjarfélag tryggir öllum hópum húsnæði á viðráðanlegu verði, sem er vel hannað og öruggt. Í aldursvænum hverfum er gott að rækta og efla andlega heilsu jafnt á við þá líkamlegu og félagslegu. Þar er því stutt í fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf og umhverfið er aðlaðandi og aðgengilegt. Skipulagið tekur mið af þörfum og ferðavenjum eldri borgara og dregur þannig úr félagslegri einangrun. Allt eru þetta undirstöður að farsælli öldrun.

Það á að vera sameiginlegt markmið okkar að tryggja fjölþætta búsetuvalkosti sem henta þörfum aldraðra og gera fólki kleift að lifa sjálfbjarga og sjálfstæðu lífi lengur. Árið 2038 verður hlutfall þeirra sem eru eldri en 65 ára yfir 20% mannfjöldans og árið 2064 yfir 25%. Nú er það 14%. Gott er að hafa í huga að megnið af því húsnæði sem verður í boði árið 2038 er nú þegar búið að byggja þetta herrans ár 2023, og drjúgur hluti þess er eldra húsnæði sem fyrir margar sakir hentar illa þeim markmiðum að fólk geti búið sem lengst á eigin vegum. Þessu húsnæði er dýrt að breyta og þess vegna verðum við að horfa til uppbyggingar á nýjum hverfum og tryggja að þar séum við að skapa húsnæðislausnir sem eru sveigjanlegri og taka mið af breytilegum þörfum einstaklinga.

Hvar er svigrúm fyrir aldursvæn hverfi þegar minnka á við sig?

Framundan er vinna við breytingu á aðalskipulagi bæjarins og viljum við í Framsókn horfa til heildstæðrar uppbyggingar á húsnæði og þjónustu fyrir eldri borgara. Við þurfum að leyfa okkur að hugsa stórt og til lengri framtíðar ef við ætlum okkur að ná öllum markmiðum okkar í málefnum eldri borgara. Á bæjarstjórnarfundi 4. október síðastliðinn lögðum við til við bæjarstjórn að sveitarfélagið myndi hefja samtal og samráð við öldungaráð og Félag eldri borgara á Akureyri um hvernig gera megi Nausta- og Hagahverfi að aldursvænni hverfum með tilliti til þjónustu og samkomustaða. Þessi tillaga var samþykkt samhljóða. Hvers vegna ekki þá að taka skrefið til fulls og skipuleggja sérstakt svæði fyrir eldri borgara í Hagahverfi? Nógu stórt í sniðum þannig að þar sé bæði grundvöllur og aðstaða fyrir margvíslega þjónustu, bæði sérsniðna fyrir eldri borgara en líka þjónustu sem gæti nýst öðrum íbúum í hverfunum.

Langlífi og aðrar samfélagsbreytingar kalla á breytt viðhorf gagnvart skipulagi og þjónustu við eldra fólk. Við þurfum meira en bara aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara á Akureyri – við þurfum framtíðarsýn um hvernig aldursvæn Akureyrarborg lítur út.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 8. mars 2023.

Categories
Greinar

Við getum gert betur í verðmætasköpun

Deila grein

10/12/2022

Við getum gert betur í verðmætasköpun

Það virðist vera lítill áhugi hjá meirihlutanum á Akureyri að vinna að framtíðarsýn sem skilar sér í aukinni verðmætasköpun og í tekjum sveitarfélagsins til lengri tíma. Í seinni umræðum um fjárhagsáætlun lögðu bæjarfulltrúar Framsóknar eftirfarandi tillögu fram til afgreiðslu:

Mikilvægt er að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna, menningarstofnanir og ferðaþjónustuaðila. Lagt er til að bæjarstjórn samþykki viðbótarfjármagn í mótun framtíðarsýnar um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu. 

Þessari tillögu var hafnað. Rökin sem voru gefin fyrir því að hafna þessari tillögu voru að taka ætti upp aðalskipulagið og fara í vinnu við svæðisskipulag. Þetta eru sannarlega mikilvæg verkefni en stefna sem þessi ætti einmitt að vera undirbúningur fyrir slíka vinnu.

Það er á  starfsáætlun Akureyrarbæjar að fara í endurskoðun á síðustu atvinnumálastefnu, sem er runnin út, en við viljum útvíkka vinnuna. Í samtölum okkar við áhugasama bæjarbúa um aukna verðmætasköpun í bænum höfum við fundið fyrir því að það vantar sárlega þennan sameiginlega samræðugrundvöll sem við teljum að sveitarfélagið eigi að hafa forystu um að koma af stað. Auk þess teljum við mikilvægt að gera unga fólkinu okkar kleift að setjast hér að í framtíðinni og þá þarf að huga sérstaklega að fjölbreytni í atvinnulífi og aðstöðu til fjarvinnu.

Það eru einkum þrír þættir sem kalla á nýja atvinnustefnu Akureyrar og að vinna að mótun hennar hefjist án tafar.

Fyrir það fyrsta, ferðaþjónustan og þróun mála í flugsamgöngum

Okkur miðar vel áfram við að markaðssetja Akureyrarflugvöll fyrir beint flug og Norðurland er að verða sífellt eftirsóknarverðari áfangastaður erlendra ferðamanna. Það er hins vegar alls ekki ljóst að við séum í stakk búin til að taka á móti þessum vaxandi fjölda ferðamanna – og við verðum að geta gert okkur betur grein fyrir því hvað vöxtur þessarar atvinnugreinar getur þýtt fyrir almennan vöxt bæjarins og skipulag allrar þjónustu. Í þessu tilliti má einnig nefna íþróttatengda ferðamennsku.

Annar þáttur eru orkumálin

Með endurnýjun byggðarlínunnar er að verða til mjög frjór jarðvegur fyrir orkutengdan iðnað og starfsemi, og eru aðstæður hvað orkuafhendingu varðar að verða betri hér í Eyjafirðinum en víða annars staðar. Þessi staða varir hins vegar ekki að eilífu og mikilvægt að bregðast hratt og örugglega við. Auk þess þarf að vinna að framgangi Blöndulínu 3 hratt og örugglega.

Fyrirtæki eru í auknum mæli að velja sér staðsetningu út frá forsendum sjálfbærni og nýjar atvinnugreinar eru að verða til á þeim sömu forsendum. Atvinnuvegir sem eru nú þegar í vexti víða um land eru m.a.:

● Ýmis konar grænn iðnaður sem er háður orkunýtingu, t.d. framleiðsla rafeldsneytis sem margir sjá sem lykilinn að því að leysa af hólmi jarðefnaeldsneyti.

● Umhverfisvæn gagnaver sem ýta undir aukna stafsemi upplýsinga- og hátæknifyrirtækja á svæðinu.

● Og síðast en ekki síst matvælanýsköpun, þar sem við erum að sjá nýjar framleiðsluaðferðir sem miða að minnkandi kolefnisspori, svo sem þörungaræktun o.s.frv.

Það er nauðsynlegt að vera búin að greina þessi tækifæri til hlítar og jafnvel vera tilbúin með tillögu að forgangsröðun á nýtingu orkunnar – í samvinnu við önnur sveitarfélög á svæðinu.

Þeim mun betur undirbúin sem við erum, þeim mun betur erum við líka í stakk búin til að keppa um og draga að þau fyrirtæki sem við höfum áhuga á að komi hingað. Oft þurfa fyrirtæki að hreyfa sig hratt og geta ekki beðið eftir löngum og þyngslalegum úrvinnslutíma, ekki síst minni- eða meðalstóru fyrirtækin eða fyrirtæki á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi.

Þriðji þátturinn er vaxandi hlutverk Akureyrar sem stjórnsýslu- og þjónustumiðstöð fyrir stóran landshluta

Akureyrarbær er að hefja þátttöku í gerð nýrrar borgarstefnu þar sem m.a. verður horft til uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Ný, metnaðarfull atvinnustefna er okkar framlag inn í það samtal og sýnir að við erum tilbúin í aukinn vöxt og verðmætasköpun á svæðinu til framtíðar.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 9. desember 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

Er ástæða til að lækka fasteignaskatta?

Deila grein

03/11/2022

Er ástæða til að lækka fasteignaskatta?

Fasteignagjöld sveitarfélaganna hafa verið mikið til umræðu undanfarna daga og ekki að ósekju. Fasteignamat fyrir árið 2023 hefur hækkað um tugi prósenta um allt land og miðað við óbreytt álagningarhlutfall þá leiðir hækkun fasteignamats sjálfkrafa til aukinnar skattheimtu óháð öðrum þáttum, s.s. launaþróun á viðkomandi svæði, íbúaþróun eða hvort þjónustuþörf hefur aukist að ráði. Þetta er óheppilegt fyrirkomulag þegar sveiflur eru miklar og fyrirsjáanleikinn lítill sem enginn, hvorki fyrir íbúa sem skattgreiðendur eða fyrir sveitarfélögin sem þurfa að skipuleggja sín útgjöld.

Álögur á húseigendur og fyrirtæki aukast um 400 milljónir

Milli áranna 2022 og 2023 hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á Akureyri um 11,7% og íbúðarhúsnæðis um 25,6%. Miðað við óbreytta álagningarprósentu má gera ráð fyrir að tekjur Akureyrarbæjar gætu aukist um tæpar 400 milljónir króna vegna fasteignaskatts á árinu 2023 frá árinu í ár. Með öðrum orðum, heimilin taka á sig aukna og ófyrirséða byrði og fjölskyldur greiða hærra hlutfall af tekjum sínum í fasteignaskatt. Skattbyrði fyrirtækjanna hér í bæ þyngist að sama skapi og fátt sem kemur á móti í rekstrarumhverfi þeirra sem auðveldar þeim að standa undir þessari auknu byrði.

Eiga heimili inni lækkun hjá Akureyrarbæ?

Þegar borin eru saman átta fjölmennustu sveitarfélögin, með 10.000 íbúa eða fleiri, kemur í ljós að Akureyri trónir á toppnum með hæstu álagningarprósentu fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis. Sé horft til síðustu fimm ára og skoðað hver þróunin hefur verið þá er ljóst að hún miðar heilt yfir í sömu átt og þá að sveitarfélögin hafa verið að lækka fasteignaskattsálagninguna. Akureyrarbær rekur hins vegar lestina hvað þessa þróun varðar, þ.e.a.s. fyrir utan Reykjavíkurborg sem hefur framan af verið með lægsta álagningarhlutfallið. Meðaltalslækkun álagningarhlutfalls á 5 ára tímabili hjá hinum sveitarfélögunum er 17,8% en hjá Akureyrarbæ er lækkunin á sama tíma aðeins 5,7%.

Ef við setjum okkur í hóp með fjórum fjölmennustu sveitarfélögunum (Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ) þá hefur álagður fasteignaskattur hlutfallslega hækkað mest hjá Akureyrarbæ á þessu sama tímabili. Tekjur vegna fasteignaskatta hafa með öðrum orðum aukist meira hér þrátt fyrir þá staðreynd að fólksfjölgun hefur verið hægari en í hinum sveitarfélögum, ef frá er talinn Hafnarfjörður, sem gerir samanburðinn enn óhagstæðari fyrir Akureyri. Ef við horfum til næstu þriggja sveitarfélaga á eftir okkur í stærð (Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Árborgar) þá hafa tekjur þeirra vegna fasteignaskatta aukist meira í samanburði við Akureyri, en þar hefur fólksfjölgun hins vegar verið mun hraðari, sem skýrir að stórum hluta auknar tekjur.

Við skerum okkur því sannarlega úr og ekki víst að það sé jákvæður samanburður. Það er vissulega einn af grunnþáttum í starfi bæjarstjórnar að ábyrg fjármálastjórn sé höfð að leiðarljósi. Það ætti þó ekki síður að vera kappsmál bæjarfulltrúa að gæta hófs í gjaldtöku og skattheimtu á íbúa – og á einhverjum tímapunkti hlýtur það að vera sanngirnismál að sækja ekki síauknar tekjur frá heimilum og fyrirtækjum frá ári til árs. Við vitum ekki enn hvaða ákvörðun önnur fjölmennari sveitarfélög koma til með að taka í sinni fjárhagsáætlanagerð en kjörnir fulltrúar flestra þeirra sveitarfélaga sem hér hafa verið nefnd gáfu það þó út í vor að álagningarprósentan yrði lækkuð í takt við hækkun fasteignamats.

Getum við lækkað fasteignaskatta?

Ein stærsta áskorunin í þeirri fjárhagsáætlanagerð sem nú stendur yfir er vaxtaumhverfi núlíðandi stundar. Rétt viðbrögð við þeirri áskorun er hins vegar að fara varlega í fjárfestingar sem kalla á miklar lántökur, aukinn rekstrarkostnað og aukinn fjármagnskostnað. Rétt viðbrögð, gagnvart íbúum okkar, er að horfa til mótvægisaðgerða sem verja lífskjör heimilanna. Í núverandi vaxta- og verðbólguumhverfi þá eigum við að horfa til þess hvort við getum lækkað álagningarhlutfall fasteignagjalda til móts við hækkun fasteignamats, þannig að álagningin, að teknu tilliti til verðlags, hækki ekki milli ára.

Í vikunni var fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2023 – 2026 lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir óbreyttri álagningarprósentu fasteignaskatts og þar með auknum útgjöldum heimila og fyrirtækja. Við bæjarfulltrúar Framsóknar lögðum hins vegar til að þetta yrði endurskoðað áður en fjárhagsáætlunin er lögð fram til seinni umræðu. Ég á raunar ekki von á öðru en að meirihlutinn skoði það vel og leiti leiða til þess að lækka álögur á bæjarbúa, enda gefur málefnasamningurinn frá í vor ekki tilefni til annars en bjartsýni í þeim efnum.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Hvert hverfi er þorp

Deila grein

20/10/2022

Hvert hverfi er þorp

Hvert hverfi er þorp – samfélag innan samfélagsins. Vel heppnað skipulag getur af sér byggð þar sem gott er að búa, starfa, fara um og njóta umhverfisins. Slíkt skipulag horfir til félagslegra þátta ekki síður en umhverfislegra eða fagurfræðilegra. Gott skipulag er grunnurinn en samfélag verður auðvitað ekki til á teikniborðinu, og ekki á einni nóttu, heldur með hversdagslegum athöfnum yfir lengri tíma. Það verður ekki til af sjálfu sér og allra síst í tómarúmi. Til þess að hverfi ali af sér samfélagslegan anda verða að vera til staðar rými fyrir íbúa til að koma saman, deila upplýsingum, stofna til og rækta félagstengsl, slaka á, hafa gaman. Í hverju skólahverfi eru skólarnir og leikskólarnir dæmi um slíka staði, fyrir hluta íbúanna í það minnsta. Fyrir yngstu meðlimina, að sjálfsögðu, en líka fyrir foreldrana sem hittast þar á vettvangi foreldrasamstarfs og einnig í gegnum tómstundir barna sinna. Sá hópur sem má hins vegar ekki gleymast eru eldri íbúar bæjarins, þau okkar sem eru hætt að vinna en vilja hafa eitthvað fyrir stafni og eyða hversdeginum í góðu nærumhverfi.

Í Aðalskipulagi Akureyrar 1998 – 2018 voru settar fram hugmyndir um endurnýjun bæjarrýmisins, þar sem blöndun íbúðar- og þjónustuhúsnæðis og grunneiningarnar, götur og torg, áttu að móta umgjörð mannlífs. Nýtt hverfi var að byggjast upp sem átti að anna þörf á húsnæði næstu tvo áratugina. Lífæð þessa nýja hverfis, nefnt eftir bænum Naust, var (og er) samkvæmt skipulagi ‘bæjargatan’ sem þræðir sig í gegnum byggðina frá norðri til suðurs og bindur hana þannig saman. Hjörtu þessa hverfis og Hagahverfisins, sem enn er í uppbyggingu, áttu hins vegar að slá við þrjú torg, þaðan og þangað sem göngustígar kvísluðust milli húsa. Í skipulaginu afmörkuðust torgin af verslunar- og íbúðarhúsum, skólastofnunum og öðrum miðstöðvum sem gera áttu torgin lífleg allan daginn. Þannig var í upphafi gert ráð fyrir hverfisþjónustu innan um íbúðarhúsnæði, svo þjónustan mætti byggjast jafnt og þétt upp, samhliða vaxandi íbúðarbyggð.

Nausta- og Hagahverfi … hvernig hámörkum við lífsgæði íbúa í sátt við náttúruna?

Nausta- og Hagahverfi eru um margt vel heppnuð hverfi þar sem stutt er í fallega náttúru og vinsæl útivistarsvæði, bæði um sumar og vetur. Skólalóðin við Naustaskóla er án efa ein sú líflegasta í gervöllum bænum og sjaldgæft að hún standi auð. Sú framtíðarsýn sem dregin var upp í skipulaginu frá árinu 2018 hefur hins vegar ekki orðið að veruleika og enn í dag er engin þjónusta í hverfunum ef frá eru taldar matvöruverslanir nyrst og vestast í Naustahverfi. Engar aðrar verslanir, bakarí eða hárgreiðslustofur. Engar skrifstofur eða önnur fyrirtæki. Engin heilsugæslustöð og engir kjarnar þar sem boðið er upp á margvíslega þjónustu við eldri íbúa. Fyrir vikið eru þessi tvö nýjustu hverfi bæjarins að flestu leyti úthverfi, með takmarkað aðgengi að þjónustu og fáa staði þar sem íbúar geta komið saman á.

Það er ekki of seint að snúa þessari þróun við. Hverfin tvö, tekin sem heild, eru enn í mótun og jafnvel gróin hverfi þróast og þroskast löngu eftir að síðasti byggingarkraninn hverfur á brott. Til þess að byggðin í Nausta- og Hagahverfi dafni og verði að lifandi og sjálfstæðu samfélagi þar sem er gott að búa, teljum við bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri mikilvægt að:

  • Stuðla að því að verslun og þjónusta færist inn í nýbyggt Hagahverfi. Í núgildandi deiliskipulagi er t.d. gert ráð fyrir verslun og þjónustu á mótum Kjarnagötu og Naustagötu. Þar teljum við að breytinga sé þörf á skipulagi svo verktakar sjái sér hag í að byggja upp á viðkomandi lóð.
  • Horfa sérstaklega til þarfa eldri íbúa og hefja samráð og samtal við Félag eldri borgara á Akureyri um hvernig gera megi hverfin að aldursvænni byggð með tilliti til þjónustu og samkomustaða.
  • Klára sem fyrst frágang á leik- og útivistarsvæðum í Hagahverfi.

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 1. október 2022.

Categories
Greinar

Er innanlandsflugið rúið trausti?

Deila grein

08/09/2022

Er innanlandsflugið rúið trausti?

Mikil röskun hefur verið á innanlandsfluginu í sumar og fram á haustið. Flug hafa verið felld niður með stuttum fyrirvara og of mikið um seinkanir. Óánægju íbúa á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum hefur verið gerð skil í fjölmiðlum landsins og heitar umræður átt sér stað í hópnum Dýrt innanlandsflug á Facebook. Bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri hafa skoðað þetta mál síðustu vikuna og meðal annars sett sig í samband við fyrirtæki og stofnanir á Akureyri til að kanna víðtæk áhrif þessara raskana.

Það er nokkuð ljóst að áhrifanna gætir víða og þá sérstaklega hjá stofnunum og fyrirtækjum sem sinna heilbrigðisþjónustu hér í Eyjafirði og nærsvæðum. Sú röskun á starfi sem verður þegar sérfræðilæknar geta ekki reitt sig á flugsamgöngur var sérstaklega nefnd í þessu samhengi. Í samtölum okkar við forsvarsfólk fyrirtækja í einkageiranum kom einnig fram að minnkandi traust til innanlandsflugsins hefur í einhverjum tilvikum leitt til neikvæðra breytinga á starfsemi þeirra á Norðurlandi. Dæmi um slík raunveruleg áhrif er þegar fyrirtæki sjá sig tilneydd að fjölga frekar í starfsmannahópum fyrir sunnan eða þegar norðlensk fyrirtæki hika við að bjóða í verk fyrir sunnan. Auk þess nefndu fyrirtæki aukinn kostnað við launagreiðslur vegna seinkana á flugi.

Við óskuðum eftir tölum frá samskiptasviði Icelandair um seinkanir og niðurfellingu á flugi og fengum sendan samanburð frá fyrstu 6 mánuðum ársins í samanburði við sama tímabil 2019. Til Akureyrar voru 965 flug á tíma árið 2022, 410 með seinkun upp á 15 mínútur eða meira og 143 flug felld niður. Árið 2019 voru hins vegar 1481 á tíma, 119 með seinkum og aðeins 75 felld niður.

Því miður átti flugfélagið ekki tölur fyrir tvo síðustu mánuði. Ástandið lagaðist í ágúst en svo hefur aftur orðið röskun í byrjun september, samkvæmt upplýsingum starfsmanns samskiptasviðs og eins og bæjarbúar hafa vissulega fundið á eigin skinni. Það sem hins vegar birtist líklega ekki í þessum tölum er sú skerðing sem verður á þjónustunni þegar flugfélagið sendir minni vélar norður vegna bilana eða viðhalds og endurbókar þá hluta farþega á aðrar vélar.

Gríðarlega mikilvægt byggðamál fyrir landsbyggðirnar

Flug til Akureyrar er rekið á markaðslegum forsendum og ekki niðurgreitt af ríkinu nema til neytenda gegnum Loftbrú og sjúkratryggingar. Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1008/2008 er ríkinu aðeins heimilt að styrkja flugleið ef ekki er tryggt að annars konar flutningsmáti geti tryggt órofna þjónustu a.m.k. tvisvar á dag. Þessi þjónusta er þó vissulega ekki sveitarfélögunum og ríkinu óviðkomandi og er lífsspursmál fyrir landsbyggðirnar.

Ef við ætlum að byggja upp á Akureyri samfélag með fjölbreyttum atvinnutækifærum, halda uppi öflugri ferðaþjónustu, að hér geti fólk unnið störf án staðsetningar en geti jafnframt flogið suður vegna vinnu sinnar og að íbúar geti auðveldlega leitað sér þjónustu á höfuðborgarsvæðinu þá verða flugsamgöngur að vera í lagi og endurvekja þarf traust almennings til flugfélagsins.

Bæjarfulltrúar Framsóknar hafa óskað eftir því að þetta mál verði tekið upp á næsta bæjarstjórnarfundi og tekin umræða um hvernig okkar aðkoma að þessu máli gæti verið. Auðvitað koma tímar þar sem flugáætlun stenst að mestu en reksturinn er greinilega viðkvæmur og lítið má út af bera. Traust til flugfélagsins hefur því miður beðið hnekki sem veldur því að fólk veigrar sér við að nota þjónustuna eða pantar flug á tíma sem annars hefði ekki hentað til að komast örugglega á áfangastað á tíma.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 8. september 2022.

Categories
Greinar

Leikskólarnir og lífsgæðin

Deila grein

04/05/2022

Leikskólarnir og lífsgæðin

Það er fátt sem skiptir jafn miklu máli fyrir lífsgæði ungra barnafjölskyldna en metnaðarfull stefna sveitarfélaga í málefnum leikskóla og dagvistunar. Að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla svo foreldrar komist aftur út á vinnumarkaðinn byggir undir öryggi þeirra og sjálfstæði og eykur lífsgæðin. Lág leikskólagjöld eykur ráðstöfunartekjur foreldra og þar með lífsgæðin. Framsækið og vandað starf í góðu húsnæði eykur lífsgleði og lífsgæði barna og eflir þau til framtíðar. Ef við ætlum að auka lífsgæði foreldra og ungra barna þá byrjum við á leikskólunum.

Kostnaðarþátttaka foreldra

Á síðastliðnum áratug hefur kostnaðarþátttaka foreldra farið  úr því að vera 23% af kostnaðinum og niður í 15%. Þetta skiptir máli ekki bara fyrir efnaminni fjölskyldur heldur allt barnafólk sem er að koma undir sig fótunum. Við viljum leita leiða til að lækka þetta hlutfall enn frekar, einkum og sér í lagi fyrir efnaminni fjölskyldur. Gjaldfrír leikskóli á að vera markmið til framtíðar. Við gerum okkur hins vegar líka grein fyrir því að leikskólarnir hafa fengið ærin verkefni á síðustu árum. Við verðum fyrst að klára að brúa bilið og bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks. Við verðum að finna leiðir til að sinna þeim verkefnum vel sem við höfum þegar tekið okkur fyrir hendur.

Á að lögbinda leikskólana?

Við gerum miklar kröfur til leikskólanna enda hefur faglegt starf þeirra blómstrað. Starfsfólk leikskólanna býr yfir mikilli þekkingu, reynslu og menntun. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og þar fer fram mikilvægur undirbúningur fyrir það sem tekur við. Framsókn vill í samvinnu við skólasamfélagið skoða kosti og galla þess að gera elsta árganginn í  leikskólum að skyldubundnu skólastigi. Sérstaklega nú þegar þróunin er sú að það fækkar í árgöngum og pláss skapast í grunnskólum bæjarins. Þetta pláss getum við t.d. nýtt til að taka á móti elstu börnunum í leikskólunum og skapað þannig forskólastig sem undirbýr öll börn jafnt áður en eiginlegt grunnskólanám hefst. Slíkt stig, ef við horfum til framtíðar, yrði að sjálfsögðu gjaldfrjálst. Um leið rýmkar plássið hjá leikskólunum og ávinningurinn því talsverður fyrir bæinn.

Leikskólarnir og farsæld barna

Öll börn eiga að fá að njóta sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins. Ásmundur Einar Daðason, skóla og barnamálaráðherra, hefur unnið mikið og gott starf fyrir farsæld barna og fjölskyldna. Á síðasta ári samþykkti Alþingi frumvarp til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þetta framfaraskref miðar að snemmtækum stuðningi við börn til að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn. Lögin taka að sjálfsögðu til þeirrar þjónustu sem veitt er í leikskólum rétt eins og öðrum skólastigum. Það er gríðarlega þýðingarmikið að þeim breytingum sem lögin fela í sér verði komið til framkvæmda sem fyrst og innleiðingu lokið.

Það er nefnilega staðreynd, hvernig sem á það er litið, að lífsgæðin byrja á góðum leikskólum.

Gunnar Már Gunnarsson, fulltrúi Framsóknar í fræðslu- og lýðheilsuráði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 4. maí 2022.