Categories
Greinar

Riðuveiki blossar upp að nýju

Deila grein

18/12/2020

Riðuveiki blossar upp að nýju

Nú á haustmánuðum var staðfest riðuveiki á nokkrum sauðfjárbúum í Skagafirði. Við finnum öll til með þeim bændum sem lenda í áfalli sem þessu, áfallið er bæði tilfinningalegt sem og fjárhagslegt. Samkvæmt reglugerð þarf að skera niður allt búfé þar sem riða hefur komið upp og má því segja að fótunum sé kippt undan ævistarfi þeirra bænda sem lenda í þessum hremmingum. Fyrir utan að missa allt sitt fé þurfa bændur einnig að rífa allt innan úr fjárhúsum, sótthreinsa og skipa um jarðveg, það er mikil og erfið vinna fram undan.

Tilfinningalegt tjón bænda verður seint bætt en ríkið hefur og þarf að stíga inn í og koma til móts við þá aðila sem hafa misst allt sitt fé vegna riðu. Nú stendur yfir vinna við að reikna bætur sem bændur í Skagafirði fá greiddar úr ríkissjóði en frummat hefur farið fram vegna áætlaðs kostnaðar bóta. Áætlað er að heildarbætur muni nema um 200 millj. kr. sem fyrirhugað er að verði mætt með sérstöku viðbótarframlagi úr ríkissjóði.

Fyrirbyggjandi ráðstafanir

Þegar þessi alvarlega staða kom upp í Skagafirði innti ég landbúnaðarráðherra eftir svörum hvort búið væri að móta stefnu varðandi rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum vegna riðuveiki í sauðfé hér á landi. Samkvæmt upplýsingum frá ráðherra er hafin vinna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við Matvælastofnun við að meta og endurskoða reglur og stjórnsýslu hvað varðar málefni riðuveiki, varnalínu búfjár, bótafyrirkomulags vegna búfjársjúkdóma og niðurskurðar auk endurskoðunar á regluverki dýraheilbrigðis. Ég fagna því að rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum gegn riðuveiki sé hluti af þeim þáttum sem eru til skoðunar og þá sérstaklega að tekið verði til skoðunar hvort til staðar séu aðrar aðgerðir sem feli í sér minna inngrip, röskun og kostnað en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarna áratugi ef riðuveiki hefur greinst í fé.

Smit getur borist úr jarðvegi þar sem fé hefur verið urðað

Riða er bráðsmitandi og því þarf að huga vel að því hvernig smitað fé er urðað, dæmi er um að smit hafi borist úr jarðvegi þar sem riðuveikt fé hefur verið urðað. Samkvæmt reglugerð á að farga riðusmituðum úrgangi með brennslu. Riðusmitið sem greindist í Skagafirði nú í haust var gríðarlega umfangsmikið og magn úrgangs sem til féll við niðurskurð var meira en tiltækur brennsluofn réð við. Vegna þessara sérstöku aðstæðna var í samráði atvinnuvegaog nýsköpunarráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar tekin ákvörðun um að urða það magn sem ekki var unnt að brenna. Úrgangur var urðaður á aflögðum urðunarstað í nágrenni við þau sauðfjárbú þar sem framkvæma þurfti niðurskurð vegna riðuveiki. Þessi staða sem þarna kom upp kalla á skoðun á því hvort nauðsynlegt sé að tryggja að fyrir hendi séu innviðir sem gera þar til bærum yfirvöldum kleift að fara að reglum við eyðingu á úrgangi sem þessum. Auk þess verður að tryggja eftirlit með urðunarstöðum lengur en nú ert gert ráð fyrir því þessi óboðni gestur getur legið í leyni í marga áratugi.

Viðbragðsáætlanir alvarlegra búfjársjúkdóma

Nauðsynlegt er að hafa viðbragðsáætlanir á hreinu vegna alvarlegra búfjársjúkdóma. Við vitum aldrei hvar eða hvenær þeir banka upp á. Matvælastofnun heldur utan um viðbragðsáætlun við helstu dýrasjúkdómum. Í áætluninni er að finna það ferli sem unnið er eftir við uppkomu þeirra sjúkdóma sem áætlunin tekur til. Ákvarðanir um aðgerðir byggjast á fjölmörgum þáttum sem geta verið ólíkir í hverju tilfelli, leiðbeiningar um viðbrögð eru sem betur fer í stöðugri endurskoðun og miðað er að því að þeim fjölgi jafnt og þétt. Matvælastofnun heldur reglulega viðbragðsæfingar til þess að kanna og aðlaga viðbragðsáætlanir. Það er mikilvægt að byggja upp þekkingu og viðhalda henni til að takast á við margslungnar hættur sem geta læðst upp að okkur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 17. desember 2020.

Categories
Greinar

Jöfn skipting fæðinga­or­lofs – Jafn­réttis­mál

Deila grein

14/12/2020

Jöfn skipting fæðinga­or­lofs – Jafn­réttis­mál

Fæðingaorlofsfrumvarp félagsmálaráðherra liggur fyrir Alþingi. Frumvarpið boðar 12 mánaða fæðingaorlof með jafna skiptinu milli foreldra og rétturinn skiptist þannig að sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verði sex mánuðir. Hvort foreldri um sig getur svo framselt einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Eitt ár í lífi barns er mikilvægt og fyrsta árið lang mikilvægast. Það er því stórt skref fyrir börn og foreldra að ná þessu marki. Meginmarkmið frumvarpsins er að ryðja úr vegi eldri viðhorfum um að faðirinn beri meginábyrgð á efnahag heimilisins með tekjuöflun sinni. Niðurstöður rannsókna á íslenska fæðingarorlofskerfinu benda meðal annars til að „feðrakvótinn“ svokallaði, eða fæðingarorlofsréttur sem einungis feður geta nýtt, sé rétt stefna til að ná fram markmiðum laganna um fæðingar- og foreldraorlof að tryggja réttindi barna til samvista við báða foreldra og að gera þannig foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Vinnumarkaðsúrræði

Meginmarkmið frumvarpsins er tvíþætt. Annars vegar skal tryggja barni samvistum við foreldra sína í 12 mánuði, og allir eru sammála um það. Svo er það hins vegar að jafna rétt foreldra við töku á fæðingaorlofi. Við eigum auðvelt með að sjá fyrir okkur yndislegar samverustundir foreldra og barna, draga að sér ilm af hvítvoðungnum og styrkja tilfinningatengslin sem lifir út ævina. Við viljum börnum okkar það besta og að einstaklingar af öllum kynjum beri sama rétt í samfélaginu sem og á vinnumarkaði. Fæðingaorlofsrétturinn er mikilvægur fyrir jafnréttisbaráttu á vinnumarkaði. Meðan jafnri skiptingu er ekki náð þá náum við ekki jafnlaunarétti milli kynjanna. Við skulum líka tala um jafnrétti í lífeyrismálum, en þar spilar jafn réttur fæðingaorlofs stóran þátt. Þegar barátta fyrir fæðingaorlofi hófst voru þessir þættir hafðir að leiðarljósi.

Tímamótaáfangi

Að jafna rétt foreldra til töku á fæðingaorlofi er tímamótaáfangi og stórt jafnréttismál. Í sameiginlegri umsögn prófessors í félagsráðgjöf og dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands um frumvarpið kemur meðal annars fram að lengingin á rétti foreldra til fæðingarorlofs sé tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Þar af leiðir að með jafnri skiptingu á fæðingaorlofi komumst við skrefi nær jafnrétti kynja á vinnumarkaði, bæði hvað varðar laun og lífeyrisréttindi. Við eigum ekki að gefa eftir í þeirri baráttu.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. desember 2020.

Categories
Greinar

Einmanaleiki er vandamál

Deila grein

10/12/2020

Einmanaleiki er vandamál

Einmanaleiki er skilgreindur sem hin óþægilega tilfinning sem fylgir því að upplifa að félagsþörf manns er ekki mætt. Rannsóknir hafa sýnt að eldra fólk er oftar einmana en einmanaleiki hefur aukist í öllum aldurshópum. Rannsóknir sýna að vaxandi einmanaleiki er hjá ungu fólki á aldrinum 16-24 ára. Kostnaður samfélagsins og einstaklinga er hár vegna einmanaleika og af margvíslegum hætti. Í nýútkominni skýrslu Rannsóknar og Greiningar um ungt fólk frá október síðastliðnum kemur í ljós að meðal nemenda í 8, 9, 10 bekk hefðu að 39% þeirra upplifað meiri eða aðeins meiri einmanaleika á þessu ári sem nú er að kveðja.

Áhrifin eru margvísleg

Heilsufarsleg áhrif einmanaleika eru mikil en vaxandi fjöldi rannsókna bendir til að einmanaleiki auki líkur á alvarlegum sjúkdómum. Einmanaleiki flýtir fyrir öldrun, tengsl eru við hjarta- og æðasjúkdóma en einnig við vissar tegundir geðsjúkdóma, sjálfsvíga og minni vitsmunalegri getu. Einmanleiki eykur líkur á elliglöpum og Alzheimer. Í einverunni geta ýmsir draugar verið á kreiki. Þeir sem eru einmanna eru líklegri til að verða reiðari, bregðast við erfiðleikum með neikvæðni og kvíða og jafnvel í verstu tilfellum verða jaðarsett í samfélaginu. Því eru þessir einstaklingar líklegri til að styðja íhaldssamari eða öfgakenndar skoðanir í samfélaginu. Þeir sem eru einmanna upplifa samfélagið sem ógnandi og eru því mun stressaðri en aðrir og eiga erfiðara með svefn. Á heildina geta því einstaklingar sem eru einmana upplifað samfélagið sem hættulegt og ógnandi í einangrun sinni. Tækninýjungar og samfélagsmiðlanotkun eykur tilfinningu fólks fyrir því að það sé eitt og ýtir undir að líf þeirra sé ekki eins gott eins og annarra. Félagslegur samanburður og samkeppni hafa aukist sem heftir og kemur í veg fyrir samkennd fólks

Hvað er til ráða?

Hvernig getum við brugðist við þessu vandamáli, nú á aðventunni er auðvelt fyrir þá sem upplifa sig einmana að finnast jólaljósin hjá nágrannanum vera heldur skærari en hann upplifir í eigin ranni, jafnvel svo skær að þau særa. Við sem samfélag getum gert betur með að efla félagslega hæfni fólks með stuðningi og gefa þessu vandamáli athygli.

Árið 2018 var sett á laggirnar í Bretlandi sérstakt ráðuneyti einmanaleika. Þar er félagsleg einangrun umtalsvert vandamál. Talið er að einn af hverju sjö íbúum landsins telja sig vera einmana. Það þýðir að tæplega 10 milljónir manna í Bretlandi upplifi sig einmana. Það er líklega of stuttur tími liðin til að meta áhrif þessar aðgerðar en það er öruggt að slík viðurkenning á vandamálinu skipti miklu máli.

Árið og faraldur hverfur í aldanna skaut

Senn líður þessi erfiði tími undir lok ,en verkefnin eru ærin sem eftir standa við að rétta úr kútnum. Kannski er ekki best að komast á sama stað og áður, heldur á betri stað. Ef okkur tekst að nálgast þetta vandamál þá erum við á betri stað. Við eigum von um aukin samskipti en þeir sem upplifa einmanaleika ganga lengri og þrengri stíg að ná því. Það er þjóðhagslegur ávinningur að ná til þeirra sem upplifa sig einmana því við erum saman en ein í sitt hvoru horninu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. desember 2020.

Categories
Greinar

Höfuðstöðvar RARIK til síns heima

Deila grein

03/12/2020

Höfuðstöðvar RARIK til síns heima

Undirrituð hefur lagt inn þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi álykti að stefna skuli að flutningi höfuðstöðva RARIK á landsbyggðina og að kannað verði á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar RARIK um landið.

Höfuðstöðvar RARIK eru í Reykjavík. Um 90% af dreifikerfi raforku í landinu eru í umsjá RARIK og það í flestum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, Reykjaness og Vestfjarða. Mikilvægi RARIK fyrir samfélagið í heild er óumdeilt, starfsemin er viðamikil og dreifð um allt land. Finna má bækistöðvar félagsins meðal annars á Selfossi, Höfn í Hornafirði, Seyðisfirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Borgarnesi og í Ólafsvík. Meginstarfsemi RARIK fer fram á landsbyggðinni auk þess sem allar virkjanir félagsins eru staðsettar út á landi. Því tel ég að góð rök séu fyrir því að færa höfuðstöðvarnar nær meginstarfsemi félagsins og út á land.

Breyttir tímar

Það ástand sem nú ríkir kallar fólk heim og fjarvinna er orðin staðreynd, störf án staðsetningar er ekki lengur draumsýn heldur viðkennd og jafnvel eftirsótt. Það er ekki langt síðan maður heyrði þau rök að það væri nauðsynlegt að staðsetja svo mikilvægar höfuðstöðvar, líkt og höfuðstöðvar RARIK eru, á höfuðborgarsvæðinu. Þar væri önnur mikilvæg stjórnsýsla sem þyrfti að hafa samskipti við og vegalengdir á milli stjórnsýslustofnana stuttur. En sú viðmiðunarvegalengd hefur heldur betur breyst bara á þessu ári. Flutningur sem þessi gerist þó ekki á einni degi, heldur þarf aðlögunartíma svo vel takist til.

Fjölbreyttari störf á landsbyggðina

Fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins hefur lengi verið meginvandamál samfélaga á landsbyggðinni. Meðal helstu ástæðna fólksfækkunarinnar er skortur á störfum og lítil fjölbreytni starfa. Atvinnuöryggi og fjölbreytni starfa tryggir stöðugleika í íbúafjölda, laðar frekar til sín nýja íbúa og stuðlar að því að ungt fólk snúi heim aftur eftir nám. Skortur á fjölbreytni skekkir hlutfall þeirra aldurshópa sem eru almennt virkastir á vinnumarkaðinum. Þetta leiðir til fækkunar íbúa sem hefur í för með sér skerðingu á útsvarstekjum sveitarfélaga. Samkvæmt nýrri skýrslu frá Byggðastofnun hefur ríkistörfum fjölgað á fimm ára tímabili frá 2013-2019 um 0,8%. Hlutfall stöðugilda ríkistarfa af mannfjölda á vinnualdri er hæst á höfuðborgarsvæðinu, þótt þetta ár gæti birt aðrar tölur en það eru óvenjulegar aðstæður. Það hefur því hallað á landsbyggðina hvað varðar dreifingu ríkisstarfa.

Mikilvægt er að tryggja jöfn búsetuskilyrði um land allt. Með því að dreifa ríkisstörfum jafnt um landið er hægt að nálgast betur markmiðum ríkisstjórnarinnar um að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri ásamt því að halda öllu landinu í blómlegri byggð. Það yrði þó aðeins gert þegar réttu skilyrðin eru fyrir hendi, sem flutningsmenn telja vera fyrir hendi í tilviki flutnings RARIK á landsbyggðina.

Í anda núverndi stjórnarsáttmála

Í sáttmála Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis kemur fram að stefnt sé að því að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri, ásamt því að halda landinu öllu í blómlegri byggð. Þá kemur fram að horft verði m.a. til byggðaaðgerða sem tíðkast í nágrannalöndunum við mótun aðgerða hér á landi. Með því að tryggja landsmönnum jafnan aðgang að atvinnutækifærum og jöfn lífskjör um land allt sköpum við betra samfélag. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 3. desember 2020.

Categories
Greinar

Eitt ár í lífi barns

Deila grein

25/11/2020

Eitt ár í lífi barns

Í gær mælti félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason fyrir frumvarpi um fæðingar- og feðraorlof, þar eru lagðar til breytingar um lengingu á fæðingarorlofi í 12 mánuði. Þau börn sem fæðist núna eftir áramótin eiga rétt að njóta samvista við foreldra sína í heilt ár að jöfnu, eða a.m.k. 5 mánuði og eru 2 mánuðir sem foreldrar geta skipt á milli sín. Einnig eru lagðar fram fleiri breytingar á útfærslu fæðingarorlofsins, þar er að finna tillögur sem komu út úr vinnu nefndar sem félags- og barnamálaráðherra skipaði á síðasta ári og hafði það hlutverk að endurskoða lögin í heild sinni. Sú endurskoðun er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að efla fæðingarorlofskerfið og það hefur tekist því alls er gert ráð fyrir að 19,1 ma. króna verði varið í fæðingarorlof á árinu 2021 sem er tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.

Einstæðir foreldrar

Í frumvarpinu er að finna breytingar sem gefur einstæðum foreldrum tækifæri að nýta sér þann rétt sem foreldris sem af einhverjum ástæðum er ekki til staðar. Líkt og þegar ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum, þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunbann eða þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða hún verulega takmörkuð. Þegar annað foreldrið hefur ekki rétt til töku orlofs í sínu heimaríki er hægt að yfirfæra réttinn milli foreldra.

Fæðingarstyrkur fyrir konur af landsbyggðinni

Það er ekki bara María Mey sem þarf milli byggðarlaga til að eignast barn. Fæðingarstöðum á landinu hefur fækkað á síðustu áratugum og eru nú einungis 8 fæðingardeildir á landinu og ein fæðingarstofa. Konur þurfa ekki lengur að ferðast til fæðingarstaðar á asna en þær þurfa í nokkrum tilfellum að ferðast töluvert. Ef um áhættufæðingu er að ræða þurfa þær að fara til Reykjavíkur og dæmi eru um að konur þurfa að vera fjarri heimili sínu og fjölskyldu jafnvel í nokkrar vikur bæði fyrir og eitthvað eftir fæðingu barns síns. Það er því ánægjulegt að í nýju fæðingarorlofi er gert ráð fyrir fæðingarstyrk í þeim tilvikum og þá er tekið tillit til þess að kona þarf að dvelja í einhvern tíma fyrir áætlaðan fæðingardag fjarri heimili sínu.

Framsókn og fæðingarorlof

Það kemur ekki á óvart að breytingum á fæðingarorlofinu sé komið í framkvæmd á vakt Framsóknarflokksins í ráðuneytinu. Framsóknarflokkurinn hefur á sinni vakt í þessu ráðuneyti stigið stór skref til að bæta réttindi verðandi foreldra, það var Páll Pétursson þáverandi félagsmálaráðherra sem kom því í lög árið 2001 að feður skyldu líka eiga rétt á að taka foreldraorlof. Það þótti mikilvægt að binda í lög rétt barnsins að fá að umgangast báða foreldra sína á fyrstu mánuðum lífs síns.

Tímamótaáfangi

Í sameiginlegri umsögn prófessors í félagsráðgjöf og dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands um frumvarpið kemur meðal annars fram að lengingin á rétti foreldra til fæðingarorlofs sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Jafnframt kemur fram að ítrekaðar kannanir meðal foreldra sýni að sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs sé sérstaklega mikilvægur þegar fjölskyldur deila ekki lögheimili, en stór hluti feðra sem deilir ekki lögheimili með börnum sínum nýtir sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Bilið brúað

Lenging fæðingarorlofs auðveldar foreldrum að brúa bilið eftir að fæðingarorlofi líkur þar til börnin fá leikskólapláss. Þetta bil hefur verið streituvaldandi fyrir foreldra og valdið því að foreldrar og þá sérstaklega konur hafa dottið út af vinnumarkaði um tíma. Víða um land eru sveitarfélögin farin að bjóða upp á leikskólapláss allt niður í 12 mánaða aldur. En fæðingarorlof verður að endurspegla samfélagsgerð á hverjum tíma og því er nauðsynlegt að taka þessi mál upp reglulega til að bæta og aðlaga.

Til hamingju með þetta mikilvæga skref í velferð barna og með því er líka verið að stíga mikilvægt skref í jafnrétti foreldra til að njóta samvista við nýjan fjölskyldumeðlim. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Nú er öldin önnur

Deila grein

20/11/2020

Nú er öldin önnur

Við megum vera þakklát fyrir að lifa á árinu 2020, einhverjir eru ekki sammála mér um að árið 2020 sé endilega gott ár og það er ég heldur ekki að segja. En farsóttir hafa áður gengið yfir heimsbyggðina, við getum verið þakklát fyrir að það sé ekki árið 1918 þegar spænska veikinn gekk yfir Ísland. Í spænsku veikinni létust um 490 Íslendingar fólk á öllum aldri. Vanmáttugt heilbrigðiskerfi ásamt því að lyf og sóttvarnarráðstafanir voru að skornum skammti.

Sóttvörnum sem þá var beitt var meðal annars að setja á samgöngubann milli landshluta, bæði þekking og úrræði voru veik. Þegar leið á farsóttina var það gagnrýnt að almennir samkomustaðir hafi ekki verið lokaðir þegar í byrjun farsóttarinnar. Í dag árið 2020 höfum við meiri þekkingu og reynslu, ásamt tækninýjungum sem hjálpar okkur að berjast við hinn ósýnilega vágest.

Tækninýjungar og þétt samfélag

Fyrir réttri öld var auðvelt að beita þeirri aðferð að stöðva ferðir fólks milli landshluta og einhver samfélög fóru í sjálfskipaða sóttkví til að varna því að sjúkdómurinn næði inn. Í dag er erfiðra að nota þá aðferð þar sem samfélagsgerðin er ólík. En hún kallar á aðrar leiðir.

Smitrakningarappið er ein af þeim tækninýjungum sem við höfum nýtt okkur í baráttunni við dreifingu kórónuverunnar. Það voru íslensk fyrirtæki og forritarar frá íslenskri erfðagreiningu sem buðu fram aðstoð sýna við uppbyggingu forritsins án endurgjalds. Það ber að þakka. Þessi íslenska uppfinning hefur komið sér vel við að rekja smitleiðir og mögulega komið í veg fyrir einhver hópsmit sem og varpað ljósi á þá snertifleti veirunnar sem annars hefði tekið drjúgan tíma að finna.

Smitrakningarteymi almannavarna hefur unnið mikið og þarft verk við að greina og finna ferðir veirunnar um samfélagið og stjórnvöld hafa brugðist við með snöggum hætti með að setja upp varnir sem hafa sýnt að duga. Þó er það alltaf einstaklingurinn sem ber mesta ábyrgð við að halda niðri útbreiðslu sjúkdómsins. Það hefur gengið alla vega að fara eftir tilmælum en heilt yfir stöndum við okkur vel.

Við skrifum söguna

Atferli okkar og viðbrögð skrifa söguna og með hverjum degi aukum við þekkingabrunninn sem kynslóðir framtíðar leita í, í sínum verkefnum. Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvort við höfum brugðist rétt við í öllum þeim áskorunum sem við höfum staðið fyrir í þessu faraldri. En við erum að gera okkar besta.

Sóttvarnir og einstaklingsfrelsið

Nokkrir hafa stigið fram og mótmælt sóttvarnarráðstöfum stjórnvalda. Telja það sé verið að hefta einstaklingsfrelsið og það sé einfaldlega hægt að beina vörnum einungis að viðkvæmum hópum en aðrir geti um frjálst höfuð strokið í samfélaginu. Frelsið er yndislegt en því fylgir ábyrgð. Hvað með frelsi þess hóps sem telja má til viðkvæmra hópa í samfélaginu? Því hafa frjálshyggjupostularnir ekki svarað. Með þeirra hugmyndum yrði frelsi þess hóps ekkert auk þess sem líkur eru á að okkar góða heilbrigðiskerfi standist ekki þá raun og þá á eftir að sinna öðrum sjúkdómum og slys sem tíðkast samhliða heimsfaraldrinum.

Hvernig við högum okkur hvert og eitt í sóttvörnum er mikilvægt í þessari baráttu. En ábyrgð okkar í stjórnsýslunni er ekki síður mikilvæg og því ættum við haga orðræða okkar í samræmi við það.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Lifandi vísinda­skáld­saga og við­brögð við henni

Deila grein

06/11/2020

Lifandi vísinda­skáld­saga og við­brögð við henni

Um þessar mundir eru um þrjú ár síðan sitjandi ríkistjórn tók við völdum. Þetta hafa verið þrjú viðburðarík ár. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á gott jafnvægi í ríkisfjármálum, að efnahagur vænkist hratt og að gæta þurfi að jafnvægi meðal allra sem landið byggja. Auk þess að þar kemur fram að óvenjulegar aðstæður kalli á breytt vinnubrögð, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum.

Breytt sviðsmynd

Við upphaf ríkisstjórnarsamstarfsins hefði engin getað gert sér í hugarlund hvað myndi bíða okkar á árinu 2020, enda hefur árið verið líkt og vísindaskáldsaga. Covid 19 skall á okkur með gríðarlegum verkefnum og breytti heildar myndinni. Sú framtíð sem við okkur blasir er líkt og 5000 mynda púsluspil sem ekki hefur verið raðað saman og enginn fyrirmynd gefin til að byggja á. Enginn sá fyrir þetta ástand, en það var sem og hugað fyrir þeim. Nú er gott að hafa breiddina við ríkistjórnarborðið og víðan sjóndeildarhring. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið margvísleg, unnið hefur verið að mörgum stórum og óvæntum verkefnum ávallt með það að leiðarljósi að tryggja afkomu fólks, og sérstaklega hefur verið horft til viðkvæmra hópa í samfélaginu.

Aðgerðir til þess að halda samfélaginu gangandi

Það reynir á sveitafélög í þessum aðstæðum og grunnþjónustu sem þau þurfa að veita. Sveitarfélög eru misvel undir það búnir að taka á sig þann kostnað sem þessar breyttu aðstæður valda. Því skipta þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í miklu máli fyrir rekstur sveitarfélaga um allt land. Nú þegar eru félagslegar aðgerðir einar metnar á 24 milljarða kr. Í þeim felast m.a. úrræði á vegum stjórnvalda til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þá hefur um 1,6 milljarður kr. runnið til beinna félagslegra aðgerða til að tryggja þjónustu og stuðning til viðkvæmra hópa. Ef litið er til þeirra aðgerða sem eru á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins er að finna gríðarmargar aðgerðir sem stuðla að því að halda atvinnulífinu gangandi. Aðgerðir sem skila sér til baka með útsvari og sköttum sem halda svo hjólum samfélagsins gangandi.

Beinir félagslegir styrkir

Undir félagslegum aðgerðum er líka að finna beina styrki fyrir hópa sem eru sérstaklega viðkvæmir í þessari stöðu sem nú hefur skapast, þar má til dæmis nefna að sveitarfélögum gafst í sumar kostur á að sækja um styrk vegna viðbótarverkefna sem tengdust frístundastarfi barna í viðkvæmri stöðu. Þá var einnig möguleiki að sækja um fjárframlag vegna sérstakra viðbótarverkefna í félagsstarfi fullorðinna. Alls 39 sveitarfélög, sem í búa 93% allra 67 ára og eldri á landinu, fengu úthlutað 75 m.kr. til fjölbreyttra verkefna. Einnig var veitt fjármagn í verkefni handa börnum og ungmennum með fötlun og/eða sérþarfir svo hægt væri að bjóða upp á afþreyingu og rjúfa félagslega einangrun þeirra.

Aðgerðir skila árangri

Þeir styrkir og þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í skipta gríðarlega miklu máli, með þeim er fólki haldið í virkni sem og þær auka umsvif í nærsamfélaginu. Staðan er enn óljós og enginn veit hversu lengi við þurfum að lifa á þessum vísindaskáldsögulega tíma. Því verða stjórnvöld áfram að standa vaktina og á því er enginn bilbugur. Nú þegar hefur verið ákveðið að lengja hlutabótaleiðina og á Alþingi er verið að vinna að frumvarpi um tekjufallsstyrki. Allt þetta hjálpar til við að skerpa á framtíðar myndinni og styrkir þá vissu að við komum standandi niður úr þessum aðstæðum. Sumar aðgerðir taka lengri tíma en aðrar en eitt er víst að allri eru að reyna að vinna eins hratt og mögulegt er í þeim aðstæðum sem eru uppi, þjóðinni allri til heilla. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. nóvember 2020.

Categories
Greinar

DÝRAFJARÐARGÖNG OPNUÐ

Deila grein

27/10/2020

DÝRAFJARÐARGÖNG OPNUÐ

Langþráð stund rann upp í gær þegar Dýrafjarðargöngin voru opnuð fyrir umferð. Hér er um að ræða gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis verða að veruleika. Göngin leysa af Hrafnseyrarheiðina sem hefur verið mikill farartálmi stóran hluta ársins, þótt hún hafi verið þrekvirki og mikil bót á sínum tíma þá var löngu kominn tími á bættar samgöngur. Vestfirðingar hafa verið langeygir eftir heilsárssamgöngum á milli svæða.

Göngin eiga eftir að breyta miklu fyrir okkur og ég efast ekki að með tilkomu þeirra verða til ný tækifæri. Á meðan Dýrafjarðargöng hafa verið í vinnslu þá hefur mikilvæg atvinnugrein verið að vaxa hér fyrir vestan sem er fiskeldið. Við tilkomu ganganna verða samlegðaráhrif þeirrar greinar meiri fyrir samfélögin sem kúra hér á norðan- og sunnanverðum.  Göngin koma líka til með að styrkja ferðaþjónustu, menningu og menntun. Þau tækifæri sem þessi samgöngubót greiðir fyrir er ekki í öllu fyrirsjáanleg en eitt er víst að þau munu nýtast á marga vegu.

Tækifæri til framtíðar

Á næsta ári verða 25 ár síðan fyrstu jarðgöngin voru opnuð á Vestfjörðum undir Breiðadals- og Botnsheiði. Þegar þau voru tekin í notkun opnaðist ný vídd í samgöngum í fjórðungnum. Við vinnslu þeirra lágu margvíslegir útreikningar á áhrifum og arðsemi þeirra. Nú er það ljóst að áhrif þeirra ná langt út fyrir þær mælistikur sem þá lágu til grundvallar. Jarðgöng er mannvirki sem standa um aldir. Nú hefur komið í ljós að þessi göng anna ekki þeirri umferð sem um þau fara, enn á umferðin eftir að aukast með áhrifum frá opnun Dýrafjarðarganga. Fyrir 25 árum síðan hefði það ekki hvarflað að okkur að göngin myndu ekki duga. Ég nefni þetta hér til að minna á að við sjáum ekki endilega í dag öll þau tækifæri sem Dýrafjarðargöng móta inn í framtíðina.

Áfram veginn

Framundan er uppbygging á Dynjandisheiðinni. Hafin er vinna á tveimur köflum við heiðarsporð hvoru megin annarsvegar fyrir Meðalnesið og svo upp frá Vatnsfirði upp á heiðina að sunnanverðu. Því ætti að vera lokið  næsta ár og  verður unnið svo áfram með uppbyggingu heiðarinnar sem skipulag og hönnun vegarins leyfir. Hver áfangi er mikilvægur þótt við viljum sjá hraðari framvindu þá er verkið hafið og það er fyrir mestu. Uppbygging vegarins bætir einnig aðstæður til vetrarþjónustu og því mikilvægt að leiðin frá heiðinni niður Arnarfjörðinn til Bíldudals verði hraðað enda miklir flutningar frá Bíldudal og suður vegna fiskeldisins.

Vetrarþjónusta

Vetrarþjónusta á Dynjandisheiði hefur fylgt G- reglu Vegagerðarinnar. Þessi regla endurspeglar þá órjúfanlegu leið sem þær systur  Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar byggðu. Vegagerðinn hefur þegar ráðgert að halda uppi þjónustu 5 daga vikunnar í vetur eins og mögulegt er. Vetrarþjónusta er nauðsynleg, að auki þarf þjónustuna strax til að fá reynslu hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni. Öryggi vegfaranda er höfð að leiðarljósi við framkvæmdir og þjónustu á vegum landsins því er góð vetrarþjónusta lykilatriðið fyrir þá samfélagsmynd sem ríkir. 

Til hamingju Vestfirðingar og aðrir landsmenn með þessa mikla samgöngumannvirki.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á bb.is 26. október 2020.

Categories
Greinar

Með ást og kærleik

Deila grein

16/10/2020

Með ást og kærleik

Í þessu því ólíkindina ástandi sem nú ríkir hefur Þríeykið okkar sinnt sínu starfi af kærleik og trausti og hefur gert í marga mánuði. Hálft ár í hringiðju heimsfaraldurs er farið að taka á. Því skiptir traustið miklu máli, hvernig skilaboðunum er komið á framfæri og hvernig við tölum hvert við annað. Traust er byggt upp meðal annars á kærleik og umhyggju.

Ástarvika

Nú stendur yfir ástarvika í Bolungarvík, ein vika á ári sem áhersla er lögð á kærleik og ást. Þessi vika hefur átt sér stað og stund í Bolungarvík síðan árið 2004. Hún byggir á hugmynd sem kemur frá Soffíu Vagnsdóttur. Í gegnum árin hefur þessari viku fylgt menningardagskrá með tónleikum, ljóðalestri og góðum mat því það er svo auðveld leið að flytja kærleik áfram með þeim hætti. Markmiðið með því að leggja áherslu á kærleikann í eina viku er einfalt og því auðvelt að tileinka sér það.

Ástarvikan ætti að vera haldin á landsvísu á þessum skrýtnu tímum. Það er nefnilega hægt að sýna fólki kærleika þrátt fyrir að það standi að lágmarki í tveggja metra fjarlægð því hann á sér ekki landamæri.

Hamingjunefnd

Í Skútustaðahreppi við Mývatn starfar hamingjunefnd á vegum sveitarfélagsins, nefnd sem sveitastjórnin ákvað að setja á fót með það að markmiði að auka vellíðan og hamingju íbúa með stefnumiðuðum hætti. Það eitt að setja af stað nefnd gerir okkur ekki hamingjusöm en hún beinir athygli okkar að því að það er skylda samfélagsins að sinna lýðheilsu og geðheilbrigði íbúanna.

Í Reykjavík var tendrað ljós á friðarsúlunni í sl. viku, ljós friðar og líka tákn vonar eins og borgarstjóri kom inn á þegar hann kveikti og því mjög viðeigandi á þessum tímum. Það eru því tákn um allt land sem minnir okkur á að sýna hvert öðru kærleika og friðarsúlan og ástarvikan er tákn sem telur. Kærleikurinn birtist með ýmsum hætti en talar alltaf sama tungumáli.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2020.

Categories
Greinar

Treystum innlenda matvælaframleiðslu – nú verður að grípa inn í!

Deila grein

09/10/2020

Treystum innlenda matvælaframleiðslu – nú verður að grípa inn í!

Það hefur verið ákall um að bændur búi við frelsi og starfi á samkeppnismarkaði með vörur sínar svo við neytendur getum haft val. En umhverfið og leikreglurnar sem þeim standa til boða gerir þeim nær ókleift að starfa á jafnréttisgrundvelli á markaði.

Þegar maður velur sér atvinnu, þá höfuð við ákveðið frelsi til að fara eftir áhugasviði, möguleikum og færni. Væntingar okkar til starfsins eru fyrst og fremst að geta framfært sér og sínum auk þess að starfið færi manni þá lífshamingju sem allir sækjast eftir. Sauðfjárbúskapur sem og annar búskapur er fjölbreytt starf og felur í sér ólík viðfangsefni eftir árstíðum, Þetta er ekki einungis bundið við að rækta sauðfé og framleiða matvæli, heldur er bóndinn líka landvörslumaður sem bæði græðir landið og nýtir. Þetta kallar á fjölbreytta hæfileika og útsjónarsemi. En afkoman skiptir máli og þegar afurðaverð hefur lækkað um tugi prósenta síðustu fimm ár fer gamanið að grána.

Tollaglæpir og lögbrot

Íslenskir bændur keppa á sama samkeppnismarkaði og iðnaðarbúskapur í Evrópu, með því verða starfsskilyrði þeim erfið. Ákall um virka samkeppni er krafa okkar neytenda til að njóta gæða og betra verðs, leikreglur eru settar en hver er niðurstaðan?

Samkeppnisstaða innlendrar matvælaframleiðslu má sín lítils á móti erlendri iðnaðarframleiðslu sem nýtur mikilla niðurgreiðsla í sínu heimalandi sem og verndartolla. Sá tollasamningur sem var gerður árið 2016 fól í sér minni tollaálagningu á landbúnaðarvörum til landsins á ákveðnum matvælum, á móti því að við gætum flutt út kjöt- og mjólkurafurðir til Evrópusambandsins á lægri tollum. Tollverndin er fyrir hendi og samningurinn er skýr en hver er raunveruleikinn? Staðreyndin er sú að verið er að brjóta lög, innflutningsaðilar komast upp með að skipta um tollflokka út á miðju Atlandshafi til þess eins að greiða lægri tolla eða sleppa alveg við þá. Njóta neytendur þess? Ég efa það stórlega. Tapið er allra, bænda og neytanda! Hvað er gert, við skipum nefnd til að fara yfir málið! Hér er um að ræða gífurlegar fjárhæðir fyrir ríkissjóð. Ef hinn sami innflytjenda myndi svíkja undan skatti þá yrði hann umsvifalaust kærður.

Vonlaus samkeppnisskilyrði – grípum inn í

Samkeppnislögin sem gilda hér á landi eiga við um milljóna þjóðir og innan þeirra eiga íslenskir bændur að starfa. Framsóknarmenn hafa lagt fram frumvarp sem veitir afurðastöðvum í kjötiðnaði undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga. Með frumvarpinu er tilgangurinn að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða í þágu neytanda og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði geta nú mjög takmarkað sameinast eða unnið saman þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lægri afurðaverði til bænda.

Hvað er í pakkanum?

Nú þegar hefur verið opnað á aukinn innflutning á ferskum matvælum hingað. Það er eðlileg krafa ekki bara bænda heldur neytenda, að farið sé eftir ströngum reglum heilbrigðis og gæðakröfum. Til að mæta þeim áskorunum á innflutning á ferskum matvælum lagði atvinnuveganefnd Alþingis fram aðgerðaráætlun sem var samþykkt á vordögum 2019. Aðgerðaráætlunin miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Innflutningur hrárra matvæla þarf að vera undir ströngu eftirliti og þar má ekki gefa neinn afslátt. Sagt er frá því í síðasta Bændablaði að í fyrra mánuði hafi fyrsta tilfelli afrískar svínapestar greinst í Þýskalandi. Íslenskir bændur og neytendur verða að geta treyst því að eftirlitið sé virkt hér þar sem innlend framleiðsla er viðkvæm og opin fyrir útbreiðslu alls kyns dýrasjúkdóma og fæðuöryggi okkar ógnað.

Treystum starfskilyrði bænda

Sauðfjárbændur og aðrir bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur sem vilja athafna sig í eðlilegu umhverfi. Það er skylda stjórnvalda að byggja undir innlenda matvælaframleiðslu og auka þar með fæðuöryggi landsins þannig náum við meira jafnvægi og komum í veg fyrir að þessi framleiðsla leggist af. Við eigum ekki að hræðast að móta starfsskilyrði bænda með eðlilegum hætti, það verða allir að sníða sér stakk eftir vexti. Þannig er hag íslenskra bænda og neytenda best borgið. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. október 2020.