Categories
Greinar

Nú er öldin önnur

Deila grein

20/11/2020

Nú er öldin önnur

Við megum vera þakklát fyrir að lifa á árinu 2020, einhverjir eru ekki sammála mér um að árið 2020 sé endilega gott ár og það er ég heldur ekki að segja. En farsóttir hafa áður gengið yfir heimsbyggðina, við getum verið þakklát fyrir að það sé ekki árið 1918 þegar spænska veikinn gekk yfir Ísland. Í spænsku veikinni létust um 490 Íslendingar fólk á öllum aldri. Vanmáttugt heilbrigðiskerfi ásamt því að lyf og sóttvarnarráðstafanir voru að skornum skammti.

Sóttvörnum sem þá var beitt var meðal annars að setja á samgöngubann milli landshluta, bæði þekking og úrræði voru veik. Þegar leið á farsóttina var það gagnrýnt að almennir samkomustaðir hafi ekki verið lokaðir þegar í byrjun farsóttarinnar. Í dag árið 2020 höfum við meiri þekkingu og reynslu, ásamt tækninýjungum sem hjálpar okkur að berjast við hinn ósýnilega vágest.

Tækninýjungar og þétt samfélag

Fyrir réttri öld var auðvelt að beita þeirri aðferð að stöðva ferðir fólks milli landshluta og einhver samfélög fóru í sjálfskipaða sóttkví til að varna því að sjúkdómurinn næði inn. Í dag er erfiðra að nota þá aðferð þar sem samfélagsgerðin er ólík. En hún kallar á aðrar leiðir.

Smitrakningarappið er ein af þeim tækninýjungum sem við höfum nýtt okkur í baráttunni við dreifingu kórónuverunnar. Það voru íslensk fyrirtæki og forritarar frá íslenskri erfðagreiningu sem buðu fram aðstoð sýna við uppbyggingu forritsins án endurgjalds. Það ber að þakka. Þessi íslenska uppfinning hefur komið sér vel við að rekja smitleiðir og mögulega komið í veg fyrir einhver hópsmit sem og varpað ljósi á þá snertifleti veirunnar sem annars hefði tekið drjúgan tíma að finna.

Smitrakningarteymi almannavarna hefur unnið mikið og þarft verk við að greina og finna ferðir veirunnar um samfélagið og stjórnvöld hafa brugðist við með snöggum hætti með að setja upp varnir sem hafa sýnt að duga. Þó er það alltaf einstaklingurinn sem ber mesta ábyrgð við að halda niðri útbreiðslu sjúkdómsins. Það hefur gengið alla vega að fara eftir tilmælum en heilt yfir stöndum við okkur vel.

Við skrifum söguna

Atferli okkar og viðbrögð skrifa söguna og með hverjum degi aukum við þekkingabrunninn sem kynslóðir framtíðar leita í, í sínum verkefnum. Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvort við höfum brugðist rétt við í öllum þeim áskorunum sem við höfum staðið fyrir í þessu faraldri. En við erum að gera okkar besta.

Sóttvarnir og einstaklingsfrelsið

Nokkrir hafa stigið fram og mótmælt sóttvarnarráðstöfum stjórnvalda. Telja það sé verið að hefta einstaklingsfrelsið og það sé einfaldlega hægt að beina vörnum einungis að viðkvæmum hópum en aðrir geti um frjálst höfuð strokið í samfélaginu. Frelsið er yndislegt en því fylgir ábyrgð. Hvað með frelsi þess hóps sem telja má til viðkvæmra hópa í samfélaginu? Því hafa frjálshyggjupostularnir ekki svarað. Með þeirra hugmyndum yrði frelsi þess hóps ekkert auk þess sem líkur eru á að okkar góða heilbrigðiskerfi standist ekki þá raun og þá á eftir að sinna öðrum sjúkdómum og slys sem tíðkast samhliða heimsfaraldrinum.

Hvernig við högum okkur hvert og eitt í sóttvörnum er mikilvægt í þessari baráttu. En ábyrgð okkar í stjórnsýslunni er ekki síður mikilvæg og því ættum við haga orðræða okkar í samræmi við það.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Lifandi vísinda­skáld­saga og við­brögð við henni

Deila grein

06/11/2020

Lifandi vísinda­skáld­saga og við­brögð við henni

Um þessar mundir eru um þrjú ár síðan sitjandi ríkistjórn tók við völdum. Þetta hafa verið þrjú viðburðarík ár. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á gott jafnvægi í ríkisfjármálum, að efnahagur vænkist hratt og að gæta þurfi að jafnvægi meðal allra sem landið byggja. Auk þess að þar kemur fram að óvenjulegar aðstæður kalli á breytt vinnubrögð, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum.

Breytt sviðsmynd

Við upphaf ríkisstjórnarsamstarfsins hefði engin getað gert sér í hugarlund hvað myndi bíða okkar á árinu 2020, enda hefur árið verið líkt og vísindaskáldsaga. Covid 19 skall á okkur með gríðarlegum verkefnum og breytti heildar myndinni. Sú framtíð sem við okkur blasir er líkt og 5000 mynda púsluspil sem ekki hefur verið raðað saman og enginn fyrirmynd gefin til að byggja á. Enginn sá fyrir þetta ástand, en það var sem og hugað fyrir þeim. Nú er gott að hafa breiddina við ríkistjórnarborðið og víðan sjóndeildarhring. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið margvísleg, unnið hefur verið að mörgum stórum og óvæntum verkefnum ávallt með það að leiðarljósi að tryggja afkomu fólks, og sérstaklega hefur verið horft til viðkvæmra hópa í samfélaginu.

Aðgerðir til þess að halda samfélaginu gangandi

Það reynir á sveitafélög í þessum aðstæðum og grunnþjónustu sem þau þurfa að veita. Sveitarfélög eru misvel undir það búnir að taka á sig þann kostnað sem þessar breyttu aðstæður valda. Því skipta þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í miklu máli fyrir rekstur sveitarfélaga um allt land. Nú þegar eru félagslegar aðgerðir einar metnar á 24 milljarða kr. Í þeim felast m.a. úrræði á vegum stjórnvalda til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þá hefur um 1,6 milljarður kr. runnið til beinna félagslegra aðgerða til að tryggja þjónustu og stuðning til viðkvæmra hópa. Ef litið er til þeirra aðgerða sem eru á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins er að finna gríðarmargar aðgerðir sem stuðla að því að halda atvinnulífinu gangandi. Aðgerðir sem skila sér til baka með útsvari og sköttum sem halda svo hjólum samfélagsins gangandi.

Beinir félagslegir styrkir

Undir félagslegum aðgerðum er líka að finna beina styrki fyrir hópa sem eru sérstaklega viðkvæmir í þessari stöðu sem nú hefur skapast, þar má til dæmis nefna að sveitarfélögum gafst í sumar kostur á að sækja um styrk vegna viðbótarverkefna sem tengdust frístundastarfi barna í viðkvæmri stöðu. Þá var einnig möguleiki að sækja um fjárframlag vegna sérstakra viðbótarverkefna í félagsstarfi fullorðinna. Alls 39 sveitarfélög, sem í búa 93% allra 67 ára og eldri á landinu, fengu úthlutað 75 m.kr. til fjölbreyttra verkefna. Einnig var veitt fjármagn í verkefni handa börnum og ungmennum með fötlun og/eða sérþarfir svo hægt væri að bjóða upp á afþreyingu og rjúfa félagslega einangrun þeirra.

Aðgerðir skila árangri

Þeir styrkir og þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í skipta gríðarlega miklu máli, með þeim er fólki haldið í virkni sem og þær auka umsvif í nærsamfélaginu. Staðan er enn óljós og enginn veit hversu lengi við þurfum að lifa á þessum vísindaskáldsögulega tíma. Því verða stjórnvöld áfram að standa vaktina og á því er enginn bilbugur. Nú þegar hefur verið ákveðið að lengja hlutabótaleiðina og á Alþingi er verið að vinna að frumvarpi um tekjufallsstyrki. Allt þetta hjálpar til við að skerpa á framtíðar myndinni og styrkir þá vissu að við komum standandi niður úr þessum aðstæðum. Sumar aðgerðir taka lengri tíma en aðrar en eitt er víst að allri eru að reyna að vinna eins hratt og mögulegt er í þeim aðstæðum sem eru uppi, þjóðinni allri til heilla. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. nóvember 2020.

Categories
Greinar

DÝRAFJARÐARGÖNG OPNUÐ

Deila grein

27/10/2020

DÝRAFJARÐARGÖNG OPNUÐ

Langþráð stund rann upp í gær þegar Dýrafjarðargöngin voru opnuð fyrir umferð. Hér er um að ræða gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis verða að veruleika. Göngin leysa af Hrafnseyrarheiðina sem hefur verið mikill farartálmi stóran hluta ársins, þótt hún hafi verið þrekvirki og mikil bót á sínum tíma þá var löngu kominn tími á bættar samgöngur. Vestfirðingar hafa verið langeygir eftir heilsárssamgöngum á milli svæða.

Göngin eiga eftir að breyta miklu fyrir okkur og ég efast ekki að með tilkomu þeirra verða til ný tækifæri. Á meðan Dýrafjarðargöng hafa verið í vinnslu þá hefur mikilvæg atvinnugrein verið að vaxa hér fyrir vestan sem er fiskeldið. Við tilkomu ganganna verða samlegðaráhrif þeirrar greinar meiri fyrir samfélögin sem kúra hér á norðan- og sunnanverðum.  Göngin koma líka til með að styrkja ferðaþjónustu, menningu og menntun. Þau tækifæri sem þessi samgöngubót greiðir fyrir er ekki í öllu fyrirsjáanleg en eitt er víst að þau munu nýtast á marga vegu.

Tækifæri til framtíðar

Á næsta ári verða 25 ár síðan fyrstu jarðgöngin voru opnuð á Vestfjörðum undir Breiðadals- og Botnsheiði. Þegar þau voru tekin í notkun opnaðist ný vídd í samgöngum í fjórðungnum. Við vinnslu þeirra lágu margvíslegir útreikningar á áhrifum og arðsemi þeirra. Nú er það ljóst að áhrif þeirra ná langt út fyrir þær mælistikur sem þá lágu til grundvallar. Jarðgöng er mannvirki sem standa um aldir. Nú hefur komið í ljós að þessi göng anna ekki þeirri umferð sem um þau fara, enn á umferðin eftir að aukast með áhrifum frá opnun Dýrafjarðarganga. Fyrir 25 árum síðan hefði það ekki hvarflað að okkur að göngin myndu ekki duga. Ég nefni þetta hér til að minna á að við sjáum ekki endilega í dag öll þau tækifæri sem Dýrafjarðargöng móta inn í framtíðina.

Áfram veginn

Framundan er uppbygging á Dynjandisheiðinni. Hafin er vinna á tveimur köflum við heiðarsporð hvoru megin annarsvegar fyrir Meðalnesið og svo upp frá Vatnsfirði upp á heiðina að sunnanverðu. Því ætti að vera lokið  næsta ár og  verður unnið svo áfram með uppbyggingu heiðarinnar sem skipulag og hönnun vegarins leyfir. Hver áfangi er mikilvægur þótt við viljum sjá hraðari framvindu þá er verkið hafið og það er fyrir mestu. Uppbygging vegarins bætir einnig aðstæður til vetrarþjónustu og því mikilvægt að leiðin frá heiðinni niður Arnarfjörðinn til Bíldudals verði hraðað enda miklir flutningar frá Bíldudal og suður vegna fiskeldisins.

Vetrarþjónusta

Vetrarþjónusta á Dynjandisheiði hefur fylgt G- reglu Vegagerðarinnar. Þessi regla endurspeglar þá órjúfanlegu leið sem þær systur  Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar byggðu. Vegagerðinn hefur þegar ráðgert að halda uppi þjónustu 5 daga vikunnar í vetur eins og mögulegt er. Vetrarþjónusta er nauðsynleg, að auki þarf þjónustuna strax til að fá reynslu hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni. Öryggi vegfaranda er höfð að leiðarljósi við framkvæmdir og þjónustu á vegum landsins því er góð vetrarþjónusta lykilatriðið fyrir þá samfélagsmynd sem ríkir. 

Til hamingju Vestfirðingar og aðrir landsmenn með þessa mikla samgöngumannvirki.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á bb.is 26. október 2020.

Categories
Greinar

Með ást og kærleik

Deila grein

16/10/2020

Með ást og kærleik

Í þessu því ólíkindina ástandi sem nú ríkir hefur Þríeykið okkar sinnt sínu starfi af kærleik og trausti og hefur gert í marga mánuði. Hálft ár í hringiðju heimsfaraldurs er farið að taka á. Því skiptir traustið miklu máli, hvernig skilaboðunum er komið á framfæri og hvernig við tölum hvert við annað. Traust er byggt upp meðal annars á kærleik og umhyggju.

Ástarvika

Nú stendur yfir ástarvika í Bolungarvík, ein vika á ári sem áhersla er lögð á kærleik og ást. Þessi vika hefur átt sér stað og stund í Bolungarvík síðan árið 2004. Hún byggir á hugmynd sem kemur frá Soffíu Vagnsdóttur. Í gegnum árin hefur þessari viku fylgt menningardagskrá með tónleikum, ljóðalestri og góðum mat því það er svo auðveld leið að flytja kærleik áfram með þeim hætti. Markmiðið með því að leggja áherslu á kærleikann í eina viku er einfalt og því auðvelt að tileinka sér það.

Ástarvikan ætti að vera haldin á landsvísu á þessum skrýtnu tímum. Það er nefnilega hægt að sýna fólki kærleika þrátt fyrir að það standi að lágmarki í tveggja metra fjarlægð því hann á sér ekki landamæri.

Hamingjunefnd

Í Skútustaðahreppi við Mývatn starfar hamingjunefnd á vegum sveitarfélagsins, nefnd sem sveitastjórnin ákvað að setja á fót með það að markmiði að auka vellíðan og hamingju íbúa með stefnumiðuðum hætti. Það eitt að setja af stað nefnd gerir okkur ekki hamingjusöm en hún beinir athygli okkar að því að það er skylda samfélagsins að sinna lýðheilsu og geðheilbrigði íbúanna.

Í Reykjavík var tendrað ljós á friðarsúlunni í sl. viku, ljós friðar og líka tákn vonar eins og borgarstjóri kom inn á þegar hann kveikti og því mjög viðeigandi á þessum tímum. Það eru því tákn um allt land sem minnir okkur á að sýna hvert öðru kærleika og friðarsúlan og ástarvikan er tákn sem telur. Kærleikurinn birtist með ýmsum hætti en talar alltaf sama tungumáli.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2020.

Categories
Greinar

Treystum innlenda matvælaframleiðslu – nú verður að grípa inn í!

Deila grein

09/10/2020

Treystum innlenda matvælaframleiðslu – nú verður að grípa inn í!

Það hefur verið ákall um að bændur búi við frelsi og starfi á samkeppnismarkaði með vörur sínar svo við neytendur getum haft val. En umhverfið og leikreglurnar sem þeim standa til boða gerir þeim nær ókleift að starfa á jafnréttisgrundvelli á markaði.

Þegar maður velur sér atvinnu, þá höfuð við ákveðið frelsi til að fara eftir áhugasviði, möguleikum og færni. Væntingar okkar til starfsins eru fyrst og fremst að geta framfært sér og sínum auk þess að starfið færi manni þá lífshamingju sem allir sækjast eftir. Sauðfjárbúskapur sem og annar búskapur er fjölbreytt starf og felur í sér ólík viðfangsefni eftir árstíðum, Þetta er ekki einungis bundið við að rækta sauðfé og framleiða matvæli, heldur er bóndinn líka landvörslumaður sem bæði græðir landið og nýtir. Þetta kallar á fjölbreytta hæfileika og útsjónarsemi. En afkoman skiptir máli og þegar afurðaverð hefur lækkað um tugi prósenta síðustu fimm ár fer gamanið að grána.

Tollaglæpir og lögbrot

Íslenskir bændur keppa á sama samkeppnismarkaði og iðnaðarbúskapur í Evrópu, með því verða starfsskilyrði þeim erfið. Ákall um virka samkeppni er krafa okkar neytenda til að njóta gæða og betra verðs, leikreglur eru settar en hver er niðurstaðan?

Samkeppnisstaða innlendrar matvælaframleiðslu má sín lítils á móti erlendri iðnaðarframleiðslu sem nýtur mikilla niðurgreiðsla í sínu heimalandi sem og verndartolla. Sá tollasamningur sem var gerður árið 2016 fól í sér minni tollaálagningu á landbúnaðarvörum til landsins á ákveðnum matvælum, á móti því að við gætum flutt út kjöt- og mjólkurafurðir til Evrópusambandsins á lægri tollum. Tollverndin er fyrir hendi og samningurinn er skýr en hver er raunveruleikinn? Staðreyndin er sú að verið er að brjóta lög, innflutningsaðilar komast upp með að skipta um tollflokka út á miðju Atlandshafi til þess eins að greiða lægri tolla eða sleppa alveg við þá. Njóta neytendur þess? Ég efa það stórlega. Tapið er allra, bænda og neytanda! Hvað er gert, við skipum nefnd til að fara yfir málið! Hér er um að ræða gífurlegar fjárhæðir fyrir ríkissjóð. Ef hinn sami innflytjenda myndi svíkja undan skatti þá yrði hann umsvifalaust kærður.

Vonlaus samkeppnisskilyrði – grípum inn í

Samkeppnislögin sem gilda hér á landi eiga við um milljóna þjóðir og innan þeirra eiga íslenskir bændur að starfa. Framsóknarmenn hafa lagt fram frumvarp sem veitir afurðastöðvum í kjötiðnaði undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga. Með frumvarpinu er tilgangurinn að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða í þágu neytanda og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði geta nú mjög takmarkað sameinast eða unnið saman þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lægri afurðaverði til bænda.

Hvað er í pakkanum?

Nú þegar hefur verið opnað á aukinn innflutning á ferskum matvælum hingað. Það er eðlileg krafa ekki bara bænda heldur neytenda, að farið sé eftir ströngum reglum heilbrigðis og gæðakröfum. Til að mæta þeim áskorunum á innflutning á ferskum matvælum lagði atvinnuveganefnd Alþingis fram aðgerðaráætlun sem var samþykkt á vordögum 2019. Aðgerðaráætlunin miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Innflutningur hrárra matvæla þarf að vera undir ströngu eftirliti og þar má ekki gefa neinn afslátt. Sagt er frá því í síðasta Bændablaði að í fyrra mánuði hafi fyrsta tilfelli afrískar svínapestar greinst í Þýskalandi. Íslenskir bændur og neytendur verða að geta treyst því að eftirlitið sé virkt hér þar sem innlend framleiðsla er viðkvæm og opin fyrir útbreiðslu alls kyns dýrasjúkdóma og fæðuöryggi okkar ógnað.

Treystum starfskilyrði bænda

Sauðfjárbændur og aðrir bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur sem vilja athafna sig í eðlilegu umhverfi. Það er skylda stjórnvalda að byggja undir innlenda matvælaframleiðslu og auka þar með fæðuöryggi landsins þannig náum við meira jafnvægi og komum í veg fyrir að þessi framleiðsla leggist af. Við eigum ekki að hræðast að móta starfsskilyrði bænda með eðlilegum hætti, það verða allir að sníða sér stakk eftir vexti. Þannig er hag íslenskra bænda og neytenda best borgið. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. október 2020.

Categories
Greinar

Innflutningur landbúnaðarvara – Hvað er í gangi?

Deila grein

24/09/2020

Innflutningur landbúnaðarvara – Hvað er í gangi?

Komið hefur í ljós að ósamræmi er milli talna um útflutning landbúnaðarvara frá ESB til landsins og tölum um innflutning í gögnum Hagstofu Íslands. Þessi munur kallar á skýringar og er í raun mjög alvarlegur ef satt reynist.

Samkvæmt opinberum gögnum frá ESB virðast tölur um útflutning landbúnaðarvara frá ESB til Ísland hærri en kemur fram í innflutningsgögnum Hagstofunnar. Hér er um töluverðan mun að ræða sem telst jafnvel í hundruðum tonna í ákveðnum tollflokkum á þriggja ára tímabili. Til dæmis er misræmið á innflutningi á unnum kjötvörum 1.673 tonn. Hér eru að rísa heilu fjallgarðarnir á milli þess traust sem ætti að ríkja á milliríkjasamningum og eftirliti með þeim. Þetta misræmi á ekki að vera til staðar, í milliríkjasamningum um landbúnaðarvörur eru allar reglur skýrar hvað varðar innflutning á lægri eða engum tollum, hvað er því í gangi? Hér eru miklir hagsmunir í húfi, störf innanlands auk tapaðra tekna fyrir ríkissjóð. Það eru sameiginlegir hagsmunir bænda, neytenda og innflutningsaðila að það ríki heiðarleiki um viðskipti sem þegar hefur verið samið um. Rétt skal vera rétt það er óásættanlegt að hér sé verið að brjóta þær leikreglur sem eiga að ríkja og bæði lög og reglur eru skýr með það

Herða þarf eftirlit

Íslenskir bændur verða hér fyrir miklu tjóni og má það rekja til skorts á eftirliti með innflutningi. Slakt eftirlit veldur einnig tekjutapi fyrir ríkissjóð. Óvissan skapar tortryggni og því verður varla séð að ástæða sé til að slaka á frekari tollvernd á landbúnaðarvörum. Því eru allir að tapa og ekki síst neytendur.

Tollfrjáls frjálshyggja

Tollar á matvælum og umræða um þá er reglulega tekin upp. Valinkunnir talsmenn frjálshyggjunnar bera sig aumlega undan tollvernd á íslenskum landbúnaðarafurðum og má skilja að hér sé um séríslenska tegund um að ræða líkt og íslenska sauðkindin. Það þurfi bara að spýta í lófana og fara í markaðsátak og nýsköpun og þá sé fullkomnum markaðsheimi borgið. Það er staðreynd að síðan tollar voru lækkaðir eða felldir niður á innfluttu grænmeti þá hefur markaðshlutdeild íslensks grænmetis minnkað hér innanlands þrátt fyrir markaðsátak íslenskra grænmetisbænda.

Ástæða tollverndar

Tollar á landbúnaðarvörum þekkjast út um allan heim og þjóðir setja toll á til að vernda sína framleiðslu. Það er engum sama um hvort að innlend matvælaframleiðsla á sér stað eða ekki. Til að mynda er Evrópusambandið mikið tollabandalag þar sem innri markaðurinn er eitt svæði og lönd utan hans annað. Íslendingar hafa ákveðna tollfrjálsa innflutningskvóta inn á ESB-markaðinn fyrir skyr, lambakjöt, unninn lax og fleira. Tollar á vörur umfram kvótana eru settir af ESB til að verja eigin framleiðslu, hagkerfi og tryggja að bændur og úrvinnslugeirinn á þessu svæði hafi ákveðið öryggi fyrir sína framleiðslu. Ísland hefur svo samið um aðra kvóta á móti. Til viðbótar er almennt tollfrelsi á vörum hingað inn mun umfangsmeira en inn til Evrópusambandsins. Íslenskar landbúnaðarvörur eru í mörgum tilvikum að keppa við vörur sem njóta hárra styrkja í framleiðslulandinu og einnig tollverndar þeim megin. Það er rangtúlkun að halda því fram að tollvernd hérlendis sé eitthvað séríslenskt fyrirbæri.

Mikilvægi tollverndar fyrir íslenska framleiðslu

Tollvernd er íslenskri framleiðslu mikilvæg og er stuðningur til að standast samkeppni við innflutningi frá löndum sem fá jafnvel mikinn stuðning í öðru formi við sína framleiðslu. Hún er til að jafna aðstöðuna. Tollar eru og verða til staðar á meðan við lifum ekki í hinum fullkomna heimi frjálsra viðskipta. Sá tími mun seint koma því að samkeppnishæfni þjóða og hlutfallslegir yfirburðir þeirra eru mjög ólík. Á Íslandi vinna þúsundir við matvælaframleiðslu. Fólk sem skilar sköttum og skyldum til þjóðarbúsins auk fyrirtækjanna sem eru innan þessa geira. Á komandi mánuðum þurfum við sem aldrei fyrr að verja störf og skapa ný störf og huga að nýsköpun í innlendri matvælaframleiðslu. Auka ætti því tollvernd á íslenskri framleiðslu og standa svo við hana fremur en að horfa upp á þessi vinnubrögð sem enginn græðir á.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. september 2020.

Categories
Greinar

Fram­sókn í efna­hags­málum

Deila grein

18/09/2020

Fram­sókn í efna­hags­málum

Bjartar sumarnætur eru að baki og bláberin komin í hús. Þá njótum við hvítra fjallatoppa nú í byrjun september sem eru sem upptaktur fyrir komandi vetur. Allt bendir til þess að við séum að ganga inn í djúpa efnahagslægð vegna heimsfaraldurs Covid-19. Í upphafi árs var staða ríkissjóðs sterk og á þeim grunni getum við nú byggt þegar bregðast þarf við því ástandi sem blasir við okkur. Við erum að horfa fram á alvarlegt atvinnuleysi sem vonandi verður tímabundið. Í þessu ástandi er mikilvægt að nýta þau tækifæri sem koma okkur fyrr á þurrt land auk þess að byggja til framtíðar.

Þegar við stöndum föst í miðju kófinu þá er freistandi að leita gamalla leiða en happadrýgst er að finna nýjar leiðir og halda áfram. Okkar litla hagkerfi gruggast auðveldlega en er því fljótar að kyrrast. Okkar sterku innviðir hafa þegar sannað sig eins og okkar öfluga heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Með slíkar grunnstoðir höldum við örugg áfram. Þá hafa viðbrögð og ákvarðanir stjórnvalda verið fumlaus að bregðast við nýjum verkefnum hverju sinni. Sú gagnrýni sem hefur heyrst frá stjórnarandstöðunni um stefnuleysi stjórnvalda verður fremur andstutt og á við lítil rök að styðjast. Leiðin áfram er að halda þann takt sem í upphafi var sleginn og snúa sér í strauminn með því að halda samfélagslegri virkni gangandi.

Verjum störfin með ábyrgð

Verkefni stjórnvalda er margþætt. Það snýr að einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu öllu. Heildaratvinnuleysi er komið upp í 10% og enn erum við ekki farin að sjá toppinn. Mörg fyrirtæki eiga í rekstrarerfiðleikum og tryggja þarf rekstrarstöðu þeirra til að halda störfum og afla þjóðfélaginu tekna. Verkefnið er að spyrna íslensku efnahagslífi aftur af stað fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Samfélagið þarf á virkri atvinnuþróun og nýsköpun að halda. Vandamál lítilla og meðalstórra fyrirtækja er að þau hafa alltaf minni aðgang að lánsfjármagni til að vaxa og bregðast við ástandinu. Hérna þurfa stjórnvöld að stíga fram með leið til að efla vöxt og samkeppnishæfni fyrirtækja með því að búa til hvata fyrir þá sem ráða fjármagninu til að lána í gjaldeyrisskapandi verkefni. Með þeim skilaboðum minnkum við sveifluna og aukum líkur á því að við náum fyrr til lands.

Víða leynast tækifærin

Mikil gróska hefur verið í nýjum atvinnugreinum sem hafa byggst upp víða um land. Ferðaþjónustan á undir högg að sækja en það er mikilvægt að sú þekking og reynsla sem byggst hefur upp á undanförnum árum glatist ekki. Fiskeldið er ný atvinnugrein sem hefur verið að byggjast upp á undanförnum áratug. Talið er að ef að framleiðslan fari í það magn sem burðaþolsgeta þeirra svæða sem fiskeldinu er afmarkað segir til um verði útflutningsverðmætið nær 65 ma. kr. Þá væri einnig hægt að auka umsvif og verðmæti fiskeldisins með því auka fullvinnslu aflans og fjölga þar með þeim störfum sem snúa að þessari atvinnugrein líkt og Færeyingum hefur tekist. Fullvinnsla matvæla bæði í landbúnaði og sjávarútvegi er mikilvæg. Mörg fyrirtæki á því sviði bíða eftir tækifæri til að vaxa og eru þegar komin á stað með góðar vörur.

Með samvinnu og festu finnum við öflugar leiðir til að halda atvinnulífinu gangandi sem skilar sér í öflugu samfélagi til framtíðar. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. september 2020.

Categories
Greinar

Loftbrú

Deila grein

12/09/2020

Loftbrú

Þann 9. sept­em­ber sl. kynnti sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra hina skosku leið, sem hef­ur fengið nafnið Loft­brú hér á landi. Að láta skosku leiðina verða að veru­leika var eitt stærsta kosn­ing­ar­loforð Fram­sókn­ar­flokks­ins fyr­ir þetta kjör­tíma­bil. Skoska leiðin er hluti af stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar og fór inn í sam­göngu­áætlun við gerð henn­ar. Málið var síðan samþykkt á Alþingi og er nú orðið að veru­leika. Það er mikið fagnaðarefni að okk­ur hafi tek­ist að upp­fylla þetta lof­orð að fullu, en Fram­sókn hef­ur þurft að hoppa yfir ýms­ar hindr­an­ir til að ná þessu bar­áttu­máli í gegn.

Loft­brú ger­ir inn­an­lands­flugið að enn fýsi­legri kosti fyr­ir íbúa lands­byggðar­inn­ar, þ.e. fyr­ir fólk sem býr á bil­inu 200-300 km akst­urs­fjar­lægð frá höfuðborg­ar­svæðinu. Þetta á líka við íbúa Vest­manna­eyja. Þeir sem geta nýtt sér Loft­brúna fá 40% af­slátt af heild­arfar­gjaldi inn­an­lands­flugs fyr­ir allt að 6 flug­leggi á ári til og frá höfuðborg­ar­svæðinu. Alls ná af­slátt­ar­kjör­in til rúm­lega 60 þúsund íbúa lands­byggðar­inn­ar.

Gert er ráð fyr­ir und­an­tekn­ing­um fyr­ir skil­yrði um bú­setu á lands­byggðinni. Þær und­an­tekn­ing­ar gilda fyr­ir fram­halds­skóla­nema af lands­byggðinni sem fært hef­ur fært lög­heim­ili sitt tíma­bundið á höfuðborg­ar­svæðið vegna náms og börn sem eru með lög­heim­ili á höfuðborg­ar­svæðinu en eiga for­eldra eða for­ráðamenn sem hafa bú­setu á lands­byggðinni. Unnið er að út­færslu á þess­um und­anþágum.

Mark­mið verk­efn­is­ins er að efla inn­an­lands­flug og stuðla að betri teng­ingu lands­ins með upp­bygg­ingu al­menn­ings­sam­gangna. Á lands­byggðinni er oft skort­ur á aðgengi að mik­il­vægri þjón­ustu, en þeir sem bú­sett­ir eru langt utan höfuðborg­ar­svæðis­ins þurfa oft að ferðast lang­an veg til að nýta sér þjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu sem er jafn­vel bara í boði þar. Með Loft­brú er verið að tryggja greiðara aðgengi íbúa á lands­byggðinni að þjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu. Þess­ar aðgerðir stuðla að því að þeir sem búa langt frá höfuðborg­ar­svæðinu sitji ekki á hak­an­um vegna bú­setu sinn­ar. Einnig er vert að nefna að nýta megi þessa af­slætti í þeim til­gangi að sækja menn­ingu á höfuðborg­ar­svæðinu og til að heim­sækja ætt­ingja og vini sem bú­sett­ir eru þar.

Þarna er verið að auka aðgengi að þjón­ustu sem ekki er til staðar í heima­byggð, t.a.m. kon­ur sem eru að fara í són­ar­skoðun og það hafa ekki all­ir aðgengi að tann­læknaþjón­ustu í heima­byggð svo fátt eitt sé nefnt. Síðan verður leiðin styttri í leik­hús okk­ar þjóðar­inn­ar því höfuðborg­in er okk­ar allra, hér er því verið að stuðla að frek­ara jafn­rétti fólks, óháð bú­setu, og mik­il­vægt byggðar­mál.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2020.

Categories
Greinar

Friðhelgi Dynjandisheiðar rofin

Deila grein

07/09/2020

Friðhelgi Dynjandisheiðar rofin

Í haust verða göng milli Dýra­fjarðar og Arn­ar­fjarðar vígð. Þar eygj­um við gríðarlega sam­göngu­bót á Vest­fjörðum. Heils­árs­sam­göng­ur milli norður- og suður­svæðis eru að verða að veru­leika. Vega­gerðin hef­ur boðið út tvo fyrstu kafl­ana í end­ur­nýj­un veg­ar­ins um Dynj­and­is­heiði, sam­tals um tíu kíló­metra langa. Veg­ur var lagður yfir heiðina fyr­ir 61 ári og hef­ur það verið þrek­virki á sín­um tíma, veg­ur­inn hef­ur líka notið friðhelgi síðan. Það má líka kalla það þrek­virki Vest­f­irðinga að mega bíða eft­ir sam­göngu­bót­um á þessu svæði í svo lang­an tíma, svo ekki sé talað um sam­göngu­bæt­ur á suður­fjörðum og suður í Dali. Dynj­and­is­heiðin er löng en frem­ur snjólétt miðað við vest­firsk­ar heiðar og með bætt­um vegi ætti ekki að vera erfitt að þjón­usta heiðina yfir vetr­ar­tím­ann á vest­firsk­an mæli­kv­arða.

Nú hef­ur Vega­gerðin sett í útboð 10 km kafla á Dynj­and­is­heiðinni sem eru tveir kafl­ar við heiðarsporð hvor­um meg­in; ann­ars veg­ar fyr­ir Meðal­nesið og svo upp frá Vatns­firði upp á heiðina að sunn­an­verðu. Verk­in hæf­ust í haust og ætti að vera lokið fyr­ir lok næsta árs og verður unnið svo áfram með upp­bygg­ingu heiðar­inn­ar sem skipu­lag og hönn­un veg­ar­ins leyf­ir. Hver áfangi er mik­il­væg­ur og þótt við vild­um sjá hraðari fram­vindu þá er verkið hafið og það er fyr­ir mestu. Upp­bygg­ing veg­ar­ins bæt­ir einnig aðstæður til vetr­arþjón­ustu og því mik­il­vægt að leiðinni frá heiðinni niður Arn­ar­fjörðinn til Bíldu­dals verði hraðað enda mikl­ir flutn­ing­ar frá Bíldu­dal og suður vegna fisk­eld­is­ins.

Vetr­arþjón­usta fimm daga vik­unn­ar

Vetr­arþjón­usta á Dynj­and­is­heiði hef­ur fylgt G-reglu Vega­gerðar­inn­ar. Þessi regla end­ur­spegl­ar þá órjúf­an­legu leið sem þær syst­ur Dynj­and­is- og Hrafns­eyr­ar­heiðar byggðu. Aðstæður á Hrafns­eyr­ar­heiðinni hafa stýrt þess­ari reglu, eðli­lega. Nú skil­ur leiðir þess­ara fjall­vega og hinn erfiði fjall­veg­ur yfir Hrafns­eyr­ar­heiðina verður ekki til staðar eft­ir opn­un ganga. Vega­gerðin hef­ur þegar ráðgert að halda uppi þjón­ustu fimm daga vik­unn­ar í vet­ur eins og mögu­legt er. Vetr­arþjón­usta er nauðsyn­leg og auka þarf þjón­ust­una strax til að fá reynslu af því hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni. Öryggi veg­far­enda er höfð að leiðarljósi við fram­kvæmd­ir og þjón­ustu á veg­um lands­ins, því er góð vetr­arþjón­usta lyk­il­atriði fyr­ir þá sam­fé­lags­mynd sem rík­ir.

Halla Signý Kristjásdóttir, alþingismaður Fram­sókn­ar­ í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2020.

Categories
Greinar

Hlutdeildarlán að skoskri fyrirmynd

Deila grein

03/09/2020

Hlutdeildarlán að skoskri fyrirmynd

Frum­varp félags- og barna­mála­ráð­herra um hlut­deild­ar­lán hefur legið til sam­þykktar þessa dag­ana á Alþingi í þing­stubbi. Um er að ræða nýjan lána­flokk til kaupa á hús­næði. Hlut­deild­ar­lánin eru teg­und lána sem veitt eru með þeim skil­málum að lánað er til til­tek­ins hlut­falls af verði íbúð­ar­hús­næðis við fast­eigna­kaup.

Þetta frum­varp er í sam­ræmi við stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­innar og lífs­kjara­samn­inga á almennum vinnu­mark­aði frá liðnu ári. Hlut­deild­ar­lán­unum er ætlað að bæta stöðu ungra sem og tekju­lágra ein­stak­linga á hús­næð­is­mark­aði að upp­fylltum ákveðnum skil­yrð­um. Þannig getur þessi mark­hópur brúað kröfur um eigið fé til íbúð­ar­kaupa. 

Einnig ættu þau að nýt­ast þeim sem hafa misst hús­næðið sitt og hafa ekki verið í eigin hús­næði í a.m.k. fimm ár. Hlut­deild­ar­lánin skapa einnig auk­inn hvata fyrir bygg­ing­ar­að­ila til að byggja hag­kvæmt íbúð­ar­hús­næði sem hentar tekju­lægri hópum sam­fé­lags­ins.

Hafa gefið góða raun

Hug­myndin að hlut­deild­ar­lánum er fengin frá Skotlandi, en þar hafa þau gefið góða raun og leitt til auk­ins fram­boðs af hag­kvæmu hús­næði. Reynsla Skota sýnir einnig að upp­bygg­ing hefur auk­ist í dreif­býl­inu, sem væri jákvæð þróun í rétta átt hér á landi. Það er tölu­vert dýr­ara að festa kaup í nýbygg­ingum úti á landi í stað eldra hús­næðis á sama svæði, enda ríkir mark­aðs­brestur á fast­eigna­mark­aði úti á landi.

Með því að beina hlut­deild­ar­lánum að hag­kvæmum nýbygg­ing­um, skap­ast auk­inn hvati til þess að byggja í hinum dreifðu byggð­um.

Sveigj­an­leik­inn í fyr­ir­rúmi

Gagn­rýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjár­mála­stofn­anir hafa verið tregar til að lána fyrir íbúð­ar­kaupum á köldum svæð­um. Önnur úrræði sem félags- og barna­mála­ráð­herra hefur ráð­ist í á lands­byggð­inni svara þeirri gagn­rýni mál­efna­lega. Sér­stakur lána­flokkur hjá Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un, bæði til íbúð­ar­kaupa og fram­kvæmda, hefur nú þegar nýst í Blöndu­ós­bæ, Dala­byggð, Akur­eyr­ar­bæ, Norð­ur­þingi, Súð­ar­vík­ur­hreppi, Borg­ar­byggð, Árborg og Ísa­fjarð­ar­bæ. Fjöldi ann­arra slíkra verk­efna eru í píp­un­um.

Und­ir­rituð hefur verið fram­sögu­maður máls­ins í vel­ferð­ar­nefnd Alþing­is, og hefur málið tekið jákvæðum breyt­ingum í umfjöllun nefnd­ar­inn­ar. Má þar m.a. nefna veit­ingu hlut­deild­ar­lána til kaupa á hag­kvæmum íbúðum í eldra hús­næði á lands­byggð­inni ásamt hús­næðis sem hefur verið breytt í íbúðir sem áður hýsti atvinnu­starf­semi og hlotið hefur gagn­gerar end­ur­bæt­ur, enda sé ástand þeirra þannig að jafna megi til nýrrar íbúð­ar. Auk þess hefur verið fallið frá því að leggja vexti á hlut­deild­ar­lánin á láns­tím­anum en hlut­deildin héldi sér á fast­eigna­verði hús­næð­is­ins.

Það er ljóst að ekki gilda sömu við­mið um fast­eign­ar­markað á stór-höf­uð­borg­ar­svæð­inu og á köldum svæð­um. Sveigj­an­leiki í kerf­inu verður að vera til staðar til að koma til móts við sér­stakar aðstæður þar. Lyk­ill­inn að góðri nið­ur­stöðu í hús­næð­is­málum er sam­vinna milli Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un­ar, sveit­ar­fé­laga, bygg­ing­ar­fyr­ir­tækja og fjár­mála­stofn­ana. Með góðu sam­tali næst við­un­andi jafn­vægi milli eft­ir­spurnar og fram­boðs á hús­næð­is­mark­aði og á sama tíma eykur það mögu­leika tekju­lágra að eign­ast eigið hús­næði.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingis­maður Fram­sókn­ar­ í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 3. september 2020.