Categories
Greinar

Loftbrú

Deila grein

12/09/2020

Loftbrú

Þann 9. sept­em­ber sl. kynnti sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra hina skosku leið, sem hef­ur fengið nafnið Loft­brú hér á landi. Að láta skosku leiðina verða að veru­leika var eitt stærsta kosn­ing­ar­loforð Fram­sókn­ar­flokks­ins fyr­ir þetta kjör­tíma­bil. Skoska leiðin er hluti af stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar og fór inn í sam­göngu­áætlun við gerð henn­ar. Málið var síðan samþykkt á Alþingi og er nú orðið að veru­leika. Það er mikið fagnaðarefni að okk­ur hafi tek­ist að upp­fylla þetta lof­orð að fullu, en Fram­sókn hef­ur þurft að hoppa yfir ýms­ar hindr­an­ir til að ná þessu bar­áttu­máli í gegn.

Loft­brú ger­ir inn­an­lands­flugið að enn fýsi­legri kosti fyr­ir íbúa lands­byggðar­inn­ar, þ.e. fyr­ir fólk sem býr á bil­inu 200-300 km akst­urs­fjar­lægð frá höfuðborg­ar­svæðinu. Þetta á líka við íbúa Vest­manna­eyja. Þeir sem geta nýtt sér Loft­brúna fá 40% af­slátt af heild­arfar­gjaldi inn­an­lands­flugs fyr­ir allt að 6 flug­leggi á ári til og frá höfuðborg­ar­svæðinu. Alls ná af­slátt­ar­kjör­in til rúm­lega 60 þúsund íbúa lands­byggðar­inn­ar.

Gert er ráð fyr­ir und­an­tekn­ing­um fyr­ir skil­yrði um bú­setu á lands­byggðinni. Þær und­an­tekn­ing­ar gilda fyr­ir fram­halds­skóla­nema af lands­byggðinni sem fært hef­ur fært lög­heim­ili sitt tíma­bundið á höfuðborg­ar­svæðið vegna náms og börn sem eru með lög­heim­ili á höfuðborg­ar­svæðinu en eiga for­eldra eða for­ráðamenn sem hafa bú­setu á lands­byggðinni. Unnið er að út­færslu á þess­um und­anþágum.

Mark­mið verk­efn­is­ins er að efla inn­an­lands­flug og stuðla að betri teng­ingu lands­ins með upp­bygg­ingu al­menn­ings­sam­gangna. Á lands­byggðinni er oft skort­ur á aðgengi að mik­il­vægri þjón­ustu, en þeir sem bú­sett­ir eru langt utan höfuðborg­ar­svæðis­ins þurfa oft að ferðast lang­an veg til að nýta sér þjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu sem er jafn­vel bara í boði þar. Með Loft­brú er verið að tryggja greiðara aðgengi íbúa á lands­byggðinni að þjón­ustu á höfuðborg­ar­svæðinu. Þess­ar aðgerðir stuðla að því að þeir sem búa langt frá höfuðborg­ar­svæðinu sitji ekki á hak­an­um vegna bú­setu sinn­ar. Einnig er vert að nefna að nýta megi þessa af­slætti í þeim til­gangi að sækja menn­ingu á höfuðborg­ar­svæðinu og til að heim­sækja ætt­ingja og vini sem bú­sett­ir eru þar.

Þarna er verið að auka aðgengi að þjón­ustu sem ekki er til staðar í heima­byggð, t.a.m. kon­ur sem eru að fara í són­ar­skoðun og það hafa ekki all­ir aðgengi að tann­læknaþjón­ustu í heima­byggð svo fátt eitt sé nefnt. Síðan verður leiðin styttri í leik­hús okk­ar þjóðar­inn­ar því höfuðborg­in er okk­ar allra, hér er því verið að stuðla að frek­ara jafn­rétti fólks, óháð bú­setu, og mik­il­vægt byggðar­mál.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2020.

Categories
Greinar

Friðhelgi Dynjandisheiðar rofin

Deila grein

07/09/2020

Friðhelgi Dynjandisheiðar rofin

Í haust verða göng milli Dýra­fjarðar og Arn­ar­fjarðar vígð. Þar eygj­um við gríðarlega sam­göngu­bót á Vest­fjörðum. Heils­árs­sam­göng­ur milli norður- og suður­svæðis eru að verða að veru­leika. Vega­gerðin hef­ur boðið út tvo fyrstu kafl­ana í end­ur­nýj­un veg­ar­ins um Dynj­and­is­heiði, sam­tals um tíu kíló­metra langa. Veg­ur var lagður yfir heiðina fyr­ir 61 ári og hef­ur það verið þrek­virki á sín­um tíma, veg­ur­inn hef­ur líka notið friðhelgi síðan. Það má líka kalla það þrek­virki Vest­f­irðinga að mega bíða eft­ir sam­göngu­bót­um á þessu svæði í svo lang­an tíma, svo ekki sé talað um sam­göngu­bæt­ur á suður­fjörðum og suður í Dali. Dynj­and­is­heiðin er löng en frem­ur snjólétt miðað við vest­firsk­ar heiðar og með bætt­um vegi ætti ekki að vera erfitt að þjón­usta heiðina yfir vetr­ar­tím­ann á vest­firsk­an mæli­kv­arða.

Nú hef­ur Vega­gerðin sett í útboð 10 km kafla á Dynj­and­is­heiðinni sem eru tveir kafl­ar við heiðarsporð hvor­um meg­in; ann­ars veg­ar fyr­ir Meðal­nesið og svo upp frá Vatns­firði upp á heiðina að sunn­an­verðu. Verk­in hæf­ust í haust og ætti að vera lokið fyr­ir lok næsta árs og verður unnið svo áfram með upp­bygg­ingu heiðar­inn­ar sem skipu­lag og hönn­un veg­ar­ins leyf­ir. Hver áfangi er mik­il­væg­ur og þótt við vild­um sjá hraðari fram­vindu þá er verkið hafið og það er fyr­ir mestu. Upp­bygg­ing veg­ar­ins bæt­ir einnig aðstæður til vetr­arþjón­ustu og því mik­il­vægt að leiðinni frá heiðinni niður Arn­ar­fjörðinn til Bíldu­dals verði hraðað enda mikl­ir flutn­ing­ar frá Bíldu­dal og suður vegna fisk­eld­is­ins.

Vetr­arþjón­usta fimm daga vik­unn­ar

Vetr­arþjón­usta á Dynj­and­is­heiði hef­ur fylgt G-reglu Vega­gerðar­inn­ar. Þessi regla end­ur­spegl­ar þá órjúf­an­legu leið sem þær syst­ur Dynj­and­is- og Hrafns­eyr­ar­heiðar byggðu. Aðstæður á Hrafns­eyr­ar­heiðinni hafa stýrt þess­ari reglu, eðli­lega. Nú skil­ur leiðir þess­ara fjall­vega og hinn erfiði fjall­veg­ur yfir Hrafns­eyr­ar­heiðina verður ekki til staðar eft­ir opn­un ganga. Vega­gerðin hef­ur þegar ráðgert að halda uppi þjón­ustu fimm daga vik­unn­ar í vet­ur eins og mögu­legt er. Vetr­arþjón­usta er nauðsyn­leg og auka þarf þjón­ust­una strax til að fá reynslu af því hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni. Öryggi veg­far­enda er höfð að leiðarljósi við fram­kvæmd­ir og þjón­ustu á veg­um lands­ins, því er góð vetr­arþjón­usta lyk­il­atriði fyr­ir þá sam­fé­lags­mynd sem rík­ir.

Halla Signý Kristjásdóttir, alþingismaður Fram­sókn­ar­ í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2020.

Categories
Greinar

Hlutdeildarlán að skoskri fyrirmynd

Deila grein

03/09/2020

Hlutdeildarlán að skoskri fyrirmynd

Frum­varp félags- og barna­mála­ráð­herra um hlut­deild­ar­lán hefur legið til sam­þykktar þessa dag­ana á Alþingi í þing­stubbi. Um er að ræða nýjan lána­flokk til kaupa á hús­næði. Hlut­deild­ar­lánin eru teg­und lána sem veitt eru með þeim skil­málum að lánað er til til­tek­ins hlut­falls af verði íbúð­ar­hús­næðis við fast­eigna­kaup.

Þetta frum­varp er í sam­ræmi við stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­innar og lífs­kjara­samn­inga á almennum vinnu­mark­aði frá liðnu ári. Hlut­deild­ar­lán­unum er ætlað að bæta stöðu ungra sem og tekju­lágra ein­stak­linga á hús­næð­is­mark­aði að upp­fylltum ákveðnum skil­yrð­um. Þannig getur þessi mark­hópur brúað kröfur um eigið fé til íbúð­ar­kaupa. 

Einnig ættu þau að nýt­ast þeim sem hafa misst hús­næðið sitt og hafa ekki verið í eigin hús­næði í a.m.k. fimm ár. Hlut­deild­ar­lánin skapa einnig auk­inn hvata fyrir bygg­ing­ar­að­ila til að byggja hag­kvæmt íbúð­ar­hús­næði sem hentar tekju­lægri hópum sam­fé­lags­ins.

Hafa gefið góða raun

Hug­myndin að hlut­deild­ar­lánum er fengin frá Skotlandi, en þar hafa þau gefið góða raun og leitt til auk­ins fram­boðs af hag­kvæmu hús­næði. Reynsla Skota sýnir einnig að upp­bygg­ing hefur auk­ist í dreif­býl­inu, sem væri jákvæð þróun í rétta átt hér á landi. Það er tölu­vert dýr­ara að festa kaup í nýbygg­ingum úti á landi í stað eldra hús­næðis á sama svæði, enda ríkir mark­aðs­brestur á fast­eigna­mark­aði úti á landi.

Með því að beina hlut­deild­ar­lánum að hag­kvæmum nýbygg­ing­um, skap­ast auk­inn hvati til þess að byggja í hinum dreifðu byggð­um.

Sveigj­an­leik­inn í fyr­ir­rúmi

Gagn­rýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjár­mála­stofn­anir hafa verið tregar til að lána fyrir íbúð­ar­kaupum á köldum svæð­um. Önnur úrræði sem félags- og barna­mála­ráð­herra hefur ráð­ist í á lands­byggð­inni svara þeirri gagn­rýni mál­efna­lega. Sér­stakur lána­flokkur hjá Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un, bæði til íbúð­ar­kaupa og fram­kvæmda, hefur nú þegar nýst í Blöndu­ós­bæ, Dala­byggð, Akur­eyr­ar­bæ, Norð­ur­þingi, Súð­ar­vík­ur­hreppi, Borg­ar­byggð, Árborg og Ísa­fjarð­ar­bæ. Fjöldi ann­arra slíkra verk­efna eru í píp­un­um.

Und­ir­rituð hefur verið fram­sögu­maður máls­ins í vel­ferð­ar­nefnd Alþing­is, og hefur málið tekið jákvæðum breyt­ingum í umfjöllun nefnd­ar­inn­ar. Má þar m.a. nefna veit­ingu hlut­deild­ar­lána til kaupa á hag­kvæmum íbúðum í eldra hús­næði á lands­byggð­inni ásamt hús­næðis sem hefur verið breytt í íbúðir sem áður hýsti atvinnu­starf­semi og hlotið hefur gagn­gerar end­ur­bæt­ur, enda sé ástand þeirra þannig að jafna megi til nýrrar íbúð­ar. Auk þess hefur verið fallið frá því að leggja vexti á hlut­deild­ar­lánin á láns­tím­anum en hlut­deildin héldi sér á fast­eigna­verði hús­næð­is­ins.

Það er ljóst að ekki gilda sömu við­mið um fast­eign­ar­markað á stór-höf­uð­borg­ar­svæð­inu og á köldum svæð­um. Sveigj­an­leiki í kerf­inu verður að vera til staðar til að koma til móts við sér­stakar aðstæður þar. Lyk­ill­inn að góðri nið­ur­stöðu í hús­næð­is­málum er sam­vinna milli Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un­ar, sveit­ar­fé­laga, bygg­ing­ar­fyr­ir­tækja og fjár­mála­stofn­ana. Með góðu sam­tali næst við­un­andi jafn­vægi milli eft­ir­spurnar og fram­boðs á hús­næð­is­mark­aði og á sama tíma eykur það mögu­leika tekju­lágra að eign­ast eigið hús­næði.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingis­maður Fram­sókn­ar­ í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 3. september 2020.