Categories
Greinar

Rangfærslur um kolefnislosun

Deila grein

27/05/2022

Rangfærslur um kolefnislosun


Kolefnislosun í landbúnaði á Íslandi er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar er um að ræða kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar er losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Kolefnislosun frá framræstum jarðvegi hefur verið metin 100% hærri en aðrir þættir innan býlanna og vegur því þungt, svo þungt að margir halda því fram að kolefnisspor íslensks lambakjöts sé meira heldur en innflutts lambakjöts frá Ástralíu, sem er auðvitað fráleitt, enda þarf ekki nema að hugsa það til enda til að sjá að það stenst enga skoðun.

Minni losun en haldið hefur verið fram

Nýlega sendi Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri frá sér skýrslu sem byggir meðal annars á rannsóknum sem gerðar voru á Norðurlandi á kolefnislosun frá framræstu landi. Niðurstöður þeirra rannsókna sýna að fullyrðingar, sem haldið hefur verið á lofti á Íslandi árum saman um losun koltvísýrings og annarra meintra gróðurhúsalofttegunda úr framræstu landi, eru langt frá því að geta staðist. Í skýrslunni segir að losunin sem hér mælist verði að teljast lítil miðað við eldri mælingar sem gerðar hafa verið í framræstum, óræktuðum lífrænum mýrum. Það er full ástæða til að leggja í frekari rannsóknir á þessum málum hér á landi, því það hafa flogið nokkuð háværar fullyrðingar um langtímalosun koltvísýrings úr framræstu landi og mikilvægi þess að endurheimta þau votlendi sem framræst hafa verið á undanförnum áratugum.

Betri kortlagning

Í skýrslunni segir að til að kortleggja sem næst raunverulega langtíma kolefnislosun í framræstu ræktarlandi á Íslandi þurfi að gera átak í að mæla hana skipulega sem víðast. Væntanlega þarf samkvæmt þessi að mæla út frá mismunandi jarðvegi og á mismunandi landsvæðum. Það er mjög mikilvægt að frekari og stöðug vöktun fari fram á þeim þætti um allt land, það er mikilvægt ekki síst til þegar horft er til markmiða stjórnvalda í loftlagsmálum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður

Greinin birtist fyrist í Bændablaðinu 25. maí 2022

Categories
Greinar

Ívilnanir Menntasjóðs vegna skorts á sérmenntuðu fólki

Deila grein

25/05/2022

Ívilnanir Menntasjóðs vegna skorts á sérmenntuðu fólki

Víða um land hefur verið erfitt að manna ákveðnar starfsstéttir, stéttir sem nauðsynlegar eru til að halda uppi ákveðinni grunnþjónustu við íbúa samfélagsins. Ákall er víða á landsbyggðinni eftir heilbrigðismenntuðu fólki, læknum og hjúkrunarfræðingum, sérfræðingum í geðheilsuteymin sem og sérfræðingum á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Ívilnanir Menntasjóðs til sérstakra staða

Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um Menntasjóð námsmanna var samþykkt á Alþingi á vorþingi 2020. Um er að ræða heildarendurskoðun á námslánakerfinu og miðar að því að jafna stuðning ríkisins til námsmanna. Í lögum um Menntasjóð er til staðar heimild um tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána á skilgreindum svæðum. Um er að ræða mikilvægt nýmæli þegar stór svæði eiga í vandræðum með að manna ákveðnar stöður og þörf er á að koma þessu ákvæði í virkni. Til þess að nýta þessa ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi að skortur sé á einstaklingum með menntun í ákveðinni starfsstétt og sá einstaklingur sem þiggur ívilnun þarf að hafa lokið prófgráðu í viðkomandi námsgrein. Þá eru gerðar kröfur um að minnsta kosti 50% starfshlutfall og lengd búsetu að lágmarki tvö ár.

Þörfin er skýr, verkfærið þarf að brýna

Undirrituð lagði fram fyrirspurn til ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um þessar tímabundnu ívilnanir við endurgreiðslu námslána og lagði út frá því hvort komið sé að þeim tímapunkti að auglýsa þessar framangreindu ívilnanir.

Í svari ráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi kemur fram að engin skýrsla sé fyrirliggjandi um viðvarandi skort í starfsstétt. Því sé ekki tilefni til þess að auglýsa tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina enda liggi ekki fyrir hjá Byggðastofnun skilgreining á hvaða svæði væru þarna undir. Af þessu tilefni aflaði ég mér upplýsinga frá Byggðastofnun, þar hefur mér verið sagt að vinna sé að fara af stað um þetta mikilvæga mál og er von mín að innan fárra mánaða verði það komið í framkvæmd.

Mikilvæg byggðaaðgerð

Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvæg byggðaaðgerð þessi heimild er. Hvati fyrir byggðarlög sem eiga í stöðugri baráttu við að ná til sín fólki til að sinna mikilvægum störfum og halda uppi grunnþjónustu ásamt keppninni við að ná til sín sérmenntuðu fólk úr öðrum atvinnugreinum til að halda uppi öflugu samfélagi. Þessar ívilnanir efla samkeppnishæfni sveitarfélaga og mikilvægt er að þær verði nýttar sem fyrst þar sem þeirra er þörf.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á Skessuhorni 24. maí 2022

Categories
Greinar

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri – mikilvægur hornsteinn

Deila grein

06/05/2022

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri – mikilvægur hornsteinn

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að standa vörð um íslenska landbúnaðarframleiðslu á breiðum grunni því við verðum að standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Það höfum við fundið í þeirri stöðu sem uppi hefur verið undanfarin misseri í heimsfaraldri og nú stríði í Evrópu. Þá er það mikilvægt að styrkja íslenska matvælaframleiðslu vegna matvælaheilbrigðis og síðast en ekki síst til að minnka kolefnisspor.

Matvælaöryggið er mikilvægt en einnig hafa loftlagsmál aldrei verið mikilvægari og þar kemur landbúnaðurinn sterkur inn. Þeir sem yrkja landið vita að loftslagsmál eru forsenda þess að líf dafni. Styrkja þarf betur við skógrækt, landgræðslu og fjölbreyttra ræktun til að mæta betur skuldbindingum okkar í loftlagsmálum. Það skiptir máli að allt landið sé í byggð og bændur eru vörslumenn þeirrar auðlindar sem við eigum allt undir. Með styrkum stuðningi við landbúnað eflum við þróun mannlífs og byggð í landi öllu.

Menntun er máttur

Landbúnaðarskólinn á Hvanneyri á sér langa sögu eða allt frá 1889, þar er dágóð reynsla og þekking sem hefur myndast í gegnum árin. Frá árinu 2005 hefur þar verið Landbúnaðarháskóli og fer þar nú fram öflugt rannsóknar- og menntastarf í þágu landbúnaðar á Íslandi. Mikilvægi menntunar og rannsókna á þeim sviðum sem stunduð er á Hvanneyri hefur líklega sjaldan verið mikilvægari, þegar horft er til þeirra þátta sem ég nefndi í innganginum. Sérstaða skólans eru viðfangsefni hans en það eru náttúra landsins, nýting, viðhald og verndun, eins og segir á heimasíðu skólans. Þá er ánægjulegt að fyrirhugað er að stækka jarðræktarmiðstöðina í Hvanneyri, þar eru gerðar mikilvægar tilraunir og rannsóknir sem spila stórt hlutverk inn í framtíðina. Það má svo sannarlega segja að mikil gróska sé á Hvanneyri.

Gildi og markmið

Þegar rennt er yfir gildi og markmið skólans má sjá að horft er til framtíðar og þeirra aðstæðna sem eru og vænta má hér á norðlægum slóðum í samstarfi við alþjóðlegar rannsóknir og stefnur. Það er í samræmi við núverandi stefnumál stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á að byggja upp innlenda þekkingu á sviði sem nýtist okkur í þeim hagsmunamálum þjóðarinnar. Þá er talað um mikilvægi menntunar í landbúnaði sem stuðlar að fræðslu, ráðgjöf, þróun og nýsköpun. Þá er gott að horfa til framtíðarmarkmiða Landbúnaðarháskólans sem er að skólinn stuðli að aukinni verðmætasköpun og fæðuöryggi til framtíðar með sjálfbærri nýtingu auðlinda. Málefni dagsins eru nefnilega loflagsmál og matvælaöryggi.

Við eigum góða skóla

Aðalsmerki Vesturlands eru tveir öflugir háskólar í Borgarfirði. Það er hlutverk bæði heimamanna og stjórnvalda að halda mikilvægi skólanna á lofti. Rúmlega 130 ára saga skólans á Hvanneyri er okkur kraftur til að halda áfram að styrkja öflugt starf á sviði menntunar og rannsóknar á landsbyggðinni.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 5. maí 2022.

Categories
Greinar

Reikult er rótlaust þangið

Deila grein

28/04/2022

Reikult er rótlaust þangið

Allt frá því að land byggðist hefur það verið okkur lífsnauðsynlegt að nýta auðlindir okkar til bjargar, bæði á hafi og á landi. Allt í kringum landið er matarkista sem við höfum nýtt okkur bæði til matar og afkomu. Hafið er svo sannarlega gjöful auðlind. Það hefur þó ekki verið fyrr en á síðust árum sem við höfum farið að þróa nýtingu á fleiri tegundum en þessum hefðbundnu og gróska hefur aukist í rannsóknum og þróun á fullnýtingu sjávarafla.

Aukinn þekking og áhugi

Fullnýting á hefðbundnum sjávarafla hefur aukist og er það vel, enda mikilvægt að nýta allan þann afla sem veiða má og auka virði hans sem mest. Samhliða því verðum við jafnframt að horfa til þess að nýta aðrar tegundir og lífmassa sem finnast við strendur landsins. Rannsóknir hafa aukist á sjávargróðri og sjávardýrum eins og þangi og þara, krabba- og skeldýrum. Aukinn þekking er að byggjast upp enda sífellt fleiri sem hafa menntað sig og vilja sinna bæði rannsóknum og nýtingu. Víða um land hafa sprottið upp nýsköpunarsetur sem sinna þróun og með styrk frá háskólum og stjórnvöldum má tryggja betri nýtingu auðlindarinnar.

Sjálfbær þróun náttúruauðlinda

Sjálfbær þróun náttúruauðlinda er eitt af markmiðum stjórnarsáttmála núverndi ríkisstjórnar og fellur þörungaræktun og nýting sjávarþörunga vel þar að. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu sem skyldar þær 195 þjóðir sem skrifuðu undir það til að vinna saman að því að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum undir 2°C. Samfara fjölgun mannkyns, aukinni neyslu og ósjálfbærum aðferðum í ræktun og veiði hefur álag á vistkerfi jarðarinnar aukist gífurlega á undanförnum áratugum. Við þurfum að finna nýjar og betri leiðir til þess að lifa í sátt með náttúrunni.

Regluverk þarf að styðja við aukna verðmætasköpun

Á yfirstandandi þingi hef ég lagt fram þingsályktunartillögu sem gengur út á að styðja við aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Það er hægt að gera með því að fara yfir lög og reglur til þess að styðja við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxta villtir eða eru ræktaðir í sjó eða á landi. Til þess að ná árangri á þessu sviði er einnig mikilvægt að styðja við rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varðar öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðsetningu á vörum úr þeim. Samhliða því þarf svo að styrkja eftirlitaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnanna.

Mikilvægt er að skapa leiðir fyrir fólk til þess að nýta þörunga til framleiðslu á t.d. lífeldsneyti, matvælum, lífefnavörum eða fóðurbæti fyrir dýr sem og líförvandi efnum til ræktunar Fjölmörg tækifæri eru til nýtingar á þessu sviði en svo hægt sé að grípa þau er nauðsynlegt að hefja vinnu við lagfæringar á regluverkinu. Aukin áhugi og þekking er hér á landi á þessu sviði og löggjafinn þarf að vera tilbúin til þess að aðstoða við þessa þróun.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst Bændablaðinu 28. apríl 2022.

Categories
Greinar

Aldrei fór ég suður

Deila grein

08/04/2022

Aldrei fór ég suður

Við getum örugglega öll verið sammála um mikilvægi þess að um allt land séu blómlegar byggðir með hamingjusömum íbúum. Á landsbyggðinni eru starfandi öflug fyrirtæki sem skapa tekjur inn í þjóðarbúið. Lífið á landsbyggðinni er allskonar og kallar á mismunandi nálganir. En ekkert gerist af sjálfu sér, svo við getum haldið öflugum byggðum allt í kringum landið er nauðsynlegt að hafa raunhæfa byggðaáætlun.

Hvað er byggðaáætlun?

Byggðaáætlun leggur grunn að aðgerðum til að jafna búsetuskilyrði hvað varðar húsnæðismál, heilbrigðisþjónustu, fjarskipta, menntunar og jafnari tækifæri til atvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Með byggðaáætlun má lesa stefna stjórnvalda hverju sinni í byggðamálum. Er hún samhæfing við aðra stefnumótun og áætlunargerð hins opinbera og samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök. Samvinna er lykilinn í að viðhalda sjálfbærni byggða um land allt.

Innviðaráðaherra hefur lagt fram á Alþingi stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Byggðaáætlunin er lögð til grundvallar við gerð fjárlaga og í henni má finna metnaðarfull markmið að því marki að landsbyggðin vaxi og dafni.

Heimsmarkmiðin í byggðaáætlun

Sú byggðastefna sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi styðst við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, enda eru þau mikilvægur vegvísir samfélagsþróunar næstu ára. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þau fela einnig í sér fimm meginþemu sem er mannkyn, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Sem leiða okkur að aðalinntakinu sem er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

Það er þess vegna sem þau falla svo sérstaklega vel við byggðaáætlun. Því það er mikilvægt að þessar stoðir séu virtar sem leiðarljós til að nálgast jafnrétti til búsetu út frá kröfum okkar og viðmiðum við þau byggðarlög sem við berum okkur saman við.

Vegvísir

Að lokum langaði mig að koma inn á sérstaklega skemmtilega nýjung. En fylgjast má með metnaðarfullum markmiðum íslenskra stjórnvalda í byggða- fjarskipta og samgönguáætlunum á nýrri heimasíðu sem haldið er úti af innviðaráðuneytinu.  Vefurinn er undir léninu vegvisir.is og er gagnvirkur upplýsingarvefur þar sem hægt er að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri verkefna og árangursmælikvarða.  

Á vefnum er hægt að skoða allar áætlanir í einu, einstaka áætlun eða tiltekinn hluta af áætlun. Sem dæmi er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlunar á landsvísu, eða aðgerðir byggðaáætlunar eftir landshlutum og til að mynda styrki til verslana eða fjarheilbrigðisþjónustu. Fyrir áhugafólk um stöðu á  byggðastefnu og aðgerða stjórnvalda í þeim efnum er upplagt að nýta sér þennan vef.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á bb.is 8. apríl 2022.

Categories
Greinar

Að vera vinur í raun

Deila grein

07/04/2022

Að vera vinur í raun

Fæst okkar hefðu trúað því að árið 2022 væri stríð í Evrópu og undirbúa þyrfti komu flóttamanna frá Úkraínu til landsins. Í einum vettvangi er lífi fjölda fólks snúið á hvolf. Í upphafi árs áttu þau venjulegt líf, keyptu í matinn, mættu í skóla og vinnu, héldu barnaafmæli, elskuðu og voru elskuð. Hversdagurinn í reynd en nú tilheyrir hann annarri vídd. Í dag eru þau á flótta frá heimalandinu með ekkert nema handfarangur og sorg í hjarta. Borgir hafa verið lagðar í rúst og saklaust fólk tapað lífinu. Á meðan stjórnvöld bregðast við í alþjóðasamvinnu hefur almenningur á Íslandi fylgist sorgmæddur á þróun mála og fyllst vanmætti. Það er erfitt að fylgjast með úr fjarlægð og geta lítið gert.

Stjórnvöld þurfa að bregðast hratt við

Íslensk stjórnvöld tóku strax ákvörðun um að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu, fyrstu hóparnir eru þessar vikurnar að koma til landsins. 4,6 milljónir barna eru á flótta vegna stríðsins í Úkraínu, þessi börn verða fyrir miklu áfalli og óvíst er hvaða áhrif stríðið kemur til með að hafa á þessi börn og þeirra fjölskyldur, hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra hefur sett á laggirnar sérstakt viðbragðsteymi ásamt sérstöku vöktunarteymi vegna þess fjölda barna sem komin er og væntanleg eru til landsins. Mikilvægt er að þær fjölskyldur sem hingað koma geti leitað á einn staða varðandi þjónustu við börn. Þau þurfa að finna að tekið sé utan um þau með öllum mögulegum hætti.

Íslenska þjóðin er með stórt hjarta

Þá fyllist ég stolti þegar ég sé viðbrögð fyrirtækja og almennings á Íslandi. Fljótt var ljóst að útvega þyrfti húsnæði fyrir allan þann fjölda fólks sem væntanlegur er til landsins. Nú þegar er búið er að semja um pláss fyrir tvö þúsund einstaklinga á mismunandi stigum dvalar flóttamanna. Er það vel gert á svo stuttum tíma, en enn er þó þörf fyrir meira húsnæði. Þá er það sérstaklega ánægjulegt að nokkrir aðilar, fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir hafa tekið ákvörðun um að innheimta ekki leigu fyrir húsnæðið sitt.

Síðustu daga hef ég séð inn á hópum á Facebook þar sem unnið er að undirbúningi komu flóttamanna til landsins. Sjálfboðaliðar eru að safna saman fötum, húsgögnum og leikföngum fyrir börn. Allskonar húsbúnaði til þess að búa flóttamönnum fallegt heimili. Þá sá ég að starfsfólk Háskólans á Bifröst ásamt fleiri sjálfboðaliðum gengu úr vinnu til þess að bera inn húsgögn, dusta sængur og búa um rúm. Lítill bangsi var settur ofan á sæng.

Þessi samstaða kemur mér ekki á óvart, en samt sem áður fyllist ég þakklæti að búa í landi sem tekur opnum örmum á móti fólki á flótta og er tilbúið að leggja á sig auka vinnu fyrir aðra. Við erum öll ein stór fjölskylda.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2022.

Categories
Greinar

Lofts­lags­váin kallar á aukna og græna raf­orku­fram­leiðslu

Deila grein

16/03/2022

Lofts­lags­váin kallar á aukna og græna raf­orku­fram­leiðslu

Í síðustu viku kom út skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum. Í henni er gerð grein fyrir orkuþörf þjóðarinnar með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Í skýrslunni er einnig er farið yfir stöðuna á flutningskerfinu og orkumarkaði, framboði og eftirspurn á raforku sem og hvernig fyrirséð er að þau mál geta þróast næstu mánuði og ár.

Skýrslan er ítarleg og við lestur hennar má sjá að lögð er til grundvallar vinna sem fram kom í Orkustefnu Íslands til ársins 2050 sem unnin var af þverpólitískri nefnd á síðastliðnu kjörtímabili. Þar kemur fram að það sé mikilvægt markmið í baráttunni við loftslagsvánna að orkuskipti fari fram í lofti, láði og legi. Við á Íslandi höfum þá sérstöðu að nánast ekkert jarðefnaeldsneyti er notað við raforkuframleiðslu og húshitun. Það er öfundsverð staða sem okkur ber að viðhalda.

Háleit markmið í loftslagsmálum

Til þess að geta staðið við háleit markmið okkar í loftslagsmálum verðum við að skoða af fullri alvöru aukna orkukosti. Þá þurfum við ekki bara að auka framleiðsluna á raforku heldur verðum við einnig að bæta flutningsleiðir þar sem flutningstakmarkanir á raforku eru verulegar á milli landsvæða. Staðan í þeim efnum er sérstaklega slæm á Vestfjörðum og á norðausturhorni landsins. Þegar horft er til kerfisáætlunar Landsnets um styrkingu meginflutningskerfis á Vestfjörðum er hún á langtímaáætlun en í allt of fjarlægri framtíð. Þá er betra að huga frekar að valkostum á virkjunum innan svæðis til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Orkuskipti á Vestfjörðum

Árið2017 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun um orkuskipti. Þar er vörðuð leið með það að markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. Með orkuskiptum verði enn fremur stuðlað að aukinni nýsköpun og sjálfbærri þróun. Í aðgerðaáætluninni er talað um hagræna hvata fyrir neytendur og fyrirtæki við val á vistvænni tækni og orkugjöfum.

Verkefnið Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Markmið Bláma er að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar, eins og segir á heimasíðu verkefnisins. Ýmsar raunhæfar hugmyndir hafa litið dagsins ljós. Orkuskipti í sjávarútvegi er enn á hugmyndastigi því eru tækifærin mörg.

Smábátaútgerð á Vestfjörðum er tilvalin til að ýta á stað tilraunaverkefni í orkuskiptum. Yfirleitt er stutt á miðin og úthaldið því styttra í hverjum róðri. Hægt væri að beita hagrænum hvötum í þessum efnum. Línuívilnun hefur dregist verulega saman á Vestfjörðum og hægt væri að hugsa sér orkuívilnun þess í stað sem rynni til þeirra sem nýttu vistvæna orku. Þeir fengju aflaívilnun sem byggði á svipuðum grunni og línuívilnun. Þá má hugsa fleiri hagræna hvata til að flýta fyrir orkuskiptum rétt eins og er verið að gera í orkuskiptum í samgöngum.

Það þarf að framleiða meiri raforku

En staðreyndin er sú að til þess að hægt sé að fara í orkuskipti af alvöru þá vantar rafmagn inn á svæðið, það verður að auka raforkuframleiðslu. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Án þess getur fjórðungurinn ekki tekið þátt í loftslagsmarkmiðum stjórnvalda.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. mars 2022

Categories
Greinar

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Deila grein

28/02/2022

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Þrátt fyrir gríðarlega aukningu á innflutningi landbúnaðarafurða síðustu ára, sérstaklega mjólkurafurða, hefur eftirlit með innflutningi ekki aukist að sama skapi, því miður. Þó þessi mál hafi verið nokkuð í kastljósinu undan farin misseri virðist sem ekkert hafi verið reynt til að bæta úr né að gera hana skilvirkari. Ríkisendurskoðandi birti á mánudaginn skýrslu um úttekt á tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða þar sem segja má að eftirlit með tollaframkvæmd landbúnaðarafurða hafi fengið falleinkunn. Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við tollaframkvæmd hér á landi. Úttektin staðfestir því sem haldið hefur verið fram um allnokkurt misræmi í útflutningstölum Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í tilviki ákveðinna landbúnaðarvara.

Staðfest misræmi

Í grein hér á Vísi fer formaður Félags atvinnurekanda mikinn og talar um að ásakanir Bændasamtaka Íslands og MS á hendur innflutningsfyrirtækjum um stórfellt svindl við innflutning og að úttekt Ríkisendurskoðanda hafi hrakið það þær ásakanir. Ég veit ekki með hvaða gleraugum hann las skýrsluna en í raun staðfestir hún það misræmi sem Bændasamtökin og fleiri hafa haldið fram og misræmið er verulegt. Hver ber ábyrgðina ? Framkvæmd tollflokkunar er að Tollurinn eða Skatturinn núna, tollflokkar vöruna í samræmi við upplýsingar frá innflytjendum. Í skýrslu Ríkisendurskoðenda kemur fram að Tollurinn hafi farið í sérstakt verkefni að greina áreiðanleika tollskýrslna og í ljós kom að í 23% tollskrýslna finnast misræmi eða villur og þá er ekki laust við að það vakni grunur um að einbeittur brotavilji sé hér um að ræða. Það þarf ekki fleiri vitnanna við, og nægir að vísa í dóma Landsréttar og Hæstaréttar og bindandi álit um þessi mál. Innflutningsaðili ber ábyrgð á tollskýrslu sem skilað er inn til Skattsins þar sem hann hefur leyfi til rafrænna tollflokkunnar.

Undanskot við innflutning

Ríkisendurskoðun fullyrðir að möguleg misflokkun eða undanskot á landbúnaðarafurðum geti numið háaum fjárhæðum sem ríkissjóður verður af auk þess að með misflokkun varðað mikilvæga hagsmuni um heilbrigði manna, dýra og plantna.

Samræmt flokkunarkerfi

Nú vinnum við eftiralþjóðlegu flokkunarkerfi yfir vörur sem samin er af Tollasamvinnuráðinu í Brussel, því ætti samræming tolleftirlits ekki að vera nein stjarneðlisfræði. Þá komum við að mikilvægi eftirlitsins. Það er nauðsynlegt að Skatturinn sem sér um tollaframkvæmd, sé í betri samvinnu við aðrar tollastofnanir erlendis. Eftirgrennslan Ríkisendurskoðenda leiddi af sér niðurstöður um að setja þurfi gæði gagna í forgrunn þar sem áræðanleiki og nákvæmni tollskrýslna sé enn ábótavant. Eftirlit og tollendurskoðun þurfi að efla því endurskoðun á innflutningi sé bæði veikburða og ómarkviss. Ríkisendurskoðun telur að endurskipuleggja og efla þurfi tollsvið Skattsins svo unnt sé að sinna því lögbundna hlutverki sem henni er ætlað. Þangað til að úr því verður bætt munu áfram eiga sér stað ósanngjarnir viðskiptahættir hér á landi og fjárhagstap fyrir ríkissjóð

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Sam­fylkingin á villi­götum

Deila grein

04/02/2022

Sam­fylkingin á villi­götum

Verðtrygging er mannanna verk, ekki náttúrleg þótt hún virðist haga sér þannig. Þegar henni var komið á hér á landi var um neyðarástand um að ræða. Það átti að tryggja sparifé landsmanna, lánsfé og laun. Vextir voru ekki frjálsir og vandinn óx, en núna erum við á öðrum stað á öðrum tíma.

Því hefur verið gert hérlendum stjórnvöldum skóna að verðbólguskotið núna sé þeim að kenna. Það heyrist talað um óstjórn og ráðaleysi. Samfylkingin rýkur í fjölmiðla með bundið fyrir augun án þess að líta til hvað sé að gerast í öðrum löndum í kringum okkur þar sem verðbólgan rís jafnvel hærra en hérlendis. Hér er um að ræða kostnaðarverðbólga því verðlag og heildareftirspurn hefur aukist umfram þjóðarframleiðslu. Það má gera ráð fyrir að hrávara til framleiðslu haldi áfram að hækka tímabundið bæði til matvælaframleiðslu og í iðnaði, þetta er að gerast út um allan heim. Það er þó von til að síðar á árinu lægi öldur og jafnvægi aukist.

Endurmeta forsendur

Nei, verðtrygging er ekki óklífanlegt fjall. Við getum nefnilega haft áhrif á gang mála. Það er nauðsynlegt að endurmeta forsendur og útreikninga verðbólgu og verðtryggingar. Framsókn hefur ítrekað kallað eftir því að stjórnvöld beiti sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar verði hér eftir reiknuð án húsnæðisliðar. Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og af þeim sökum hafa stýrivextir og höfuðstólar verðtryggðra lána verið hærri en í nágrannalöndum þar sem stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs.

Húsnæðismarkaðurinn óútreiknanleigur

Sá darraðadans sem hefur átt sér stað á húsnæðismarkaði landsmanna hefur skapað óyndi verðbólgu og hún vex vegna aukinnar eftirspurnar. Þetta hófst á höfuðborgarsvæðinu þar sem eftirspurn eftir húsnæði er umfram framboðinu. Höfuðborgin hefur alls ekki staðið sig undanfarin áratug í framboði á lóðum heldur einblínt á þéttingu byggðar og því fer sem fer. Vaxtasvæði í kringum höfuðborgina hefur staðið sig betur með að bregðast við eftirspurninni. Nágrannalönd okkar nota aðrar forsendur við útreikninga verðbólgu og þar sem húsnæðismarkaðurinn er lítill og auðhreyfður verðum við í alvöru að skoða hvort ekki sé komin tími til að horfa fram hjá honum.

Nú þegar vorar verðum við að líta til sólar. Stjórnvöld hafa borið gæfu til að leggja fram efnahagslegar mótvægisaðgerðir til að minnka þau efnahagslegu áhrif sem heimsfaraldurinn hefur hrundið af stað. Mótvægisaðgerðir eru komnar á þriðja tug. Nú þurfum við enn frekar að horfa til fjölskyldna í landinu.

Afnemum húsnæðisliðinn úr vísitölunni.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Deila grein

02/02/2022

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Þann 14. maí nk. verður kosið til sveitarstjórna í landinu. Í dag eru nærri 70 sveitarfélög í landinu, og þau eru grundvallareining í stjórnskipan landsins. Stjórnsýsla þeirra er mikilvæg í lýðræðislegri ákvörðun um grunnþjónustu í nærsamfélagi íbúa landsins. Það er því gríðarlega mikilvægt hverju sveitarfélagi að sveitastjórnin endurspegli sem best íbúasamsetningu þess.

Í núgildandi byggðaáætlun kemur fram mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum og að það þurfi að hvetja konur til þátttöku. Í aðgerðaráætlun með byggðaáætlun er lögð áhersla á þennan þátt með því að fara í fræðslu- og auglýsingaherferð með þetta að markmiði.

Hver er staðan?

Eftir síðustu sveitastjórnarkosningar var niðurstaðan ásættanleg því að 47% sveitarstjórnarfólks voru konur og hefur það aldrei verið hærra. Það er brýnt að viðhalda þeirri skiptingu í komandi kosningum.

Listar endurspegli fjölbreytni

Kvenréttindafélag Íslands, Innviðaráðuneytið, Fjölmenningasetrið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa hrint á stað framtaki sem kallast Játak. Játak vekur athygli íbúa sveitarfélaga og þeim sem fara í forsvari til þess að huga að fjölbreytni og að standa vörð um rétt allra kynja og að komandi listar til framboðs í komandi sveitarfélögum spanni litróf mannlífsins í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig þarf að huga að dreifingu fulltrúa í fjölkjarnasveitarfélögum.

Við erum svo heppin að mannlífið er fjölbreytt um allt land. Til þess að nýta kraftinn og sköpunargleðina sem felst í því þarf að tryggja það að þessi atriði skila sér að ákvarðanatöku innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ef þess er ekki gætt fer fljótt að gæta togstreitu mismunandi skoðana og hætt er á að samkeppnisstaða samfélagsins verði ekki eins kröftug og ella. Það er jú vilji allra sveitarfélaga að fólk vilji og geti þrifist í samfélaginu.

Af hverju að taka þátt?

Viltu hafa áhrif á samfélagið þitt? Hefur þú hugmyndir og sýn um uppbyggingu og tækifæri sveitafélagsins? Sveitarstjórnir og nefndir þess eru einmitt vettvangurinn til þess. Það fylgir því mikil ábyrgð að taka þátt í stjórnmálum, en það getur líka verið ótrúlega gaman.

Ef þú hefur áhuga þá hvetjum við þig til að íhuga framboð.

Ef þú situr í uppstillinganefnd eða hyggst kjósa í prófkjöri þá hvetjum við þig til að huga að fjölbreytni á lista.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, eru þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Bæjarins besta 2. febrúar 2022.