Categories
Fréttir Greinar

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Deila grein

30/05/2024

Bílastæðagjöld á Akur­eyri og á Egils­stöðum

Síðustu misseri hef ég bæði í greinum og í fyrirspurnum á Alþingi lýst áhyggjum mínum af síhækkandi verði á innanlandsflugi síðustu misseri. Flugsamgöngur innanlands skipta þá sem búa á landsbyggðinni miklu máli og mikilvægt er að þær séu raunhæfur kostur fyrir þá sem þar búa. Enn á ný berast fregnir af aukinni gjaldtöku sem mun nú fyrst og fremst verða íþyngjandi fyrir íbúa landsbyggðarinnar, það er gjaldtaka á bílastæðum við flugstöðvarnar á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík. Nógur er kostnaðurinn nú fyrir.

Landsbyggðarskattur?

Búið er að setja upp bílastæðakerfi með aðgangsstýringu sem les bílnúmer og stefnt er að því að hefja nýtingu þess á næstunni. Markmiðið er sagt vera að bæta gestum þjónustu og ferðaupplifun, sem er verðugt markmið, en mikilvægt er að gjaldtakan sé hófleg og komi ekki á sama tíma niður á notendum þjónustunnar.

Samkvæmt gjaldskrá eru fyrstu fimm klukkustundirnar fríar en gert er ráð fyrir að dagurinn muni kosta 1750 kr. Þess ber að geta að þeir einstaklingar sem ætla að nýta sér innanlandsflug t.d. vegna heilbrigðisheimsóknar ná í flestum tilfellum ekki fram og til baka á innan við fimm klukkustundum. Fyrstu sjö dagana er gert ráð fyrir að dagurinn muni kosta 1750 kr. næstu sjö daga á eftir 1350 kr. og svo 1200 kr. hver dagur eftir 14 daga. Kostnaður vegna skemmri ferða getur því orðið töluverður, og bitnar einna helst á þeim sem búa utan Akureyri eða Egilsstaða og þurfa að keyra lengri leið á flugvöllinn. Þá þarf að huga að hvernig gjaldtakan mun horfa við bílaleigum og tryggja að kerfið sé skilvirkt fyrir þær og að óþarfa kostnaður lendi ekki á þeim, enda mikilvægur liður í ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Það er þörf á betri útfærslu

Vissulega hafa myndast álagspunktar á bílastæðum við flugstöðvarnar, er það þá einna helst þegar stór millilandaflug eru frá flugstöðvunum. Að mínu mati mætti réttlæta gjaldtöku vegna slíkra ferða, enda væri það í samræmi við það sem gengur og gerist við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að huga betur að útfærslu vegna styttri ferða, sér í lagi þeirra sem eru að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið, en viðbúið er að viðbótarkostnaður komi til með að leggjast á fólk af landsbyggðinni sem þarf að sækja slíka þjónustu.

Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að hægja hér aðeins á ferðinni og skilgreina betur gjaldtöku með þessum hætti. Það er ekki boðlegt leggja á auka kostnað á íbúa landsbyggðarinnar með svona einhliða aðgerð. Því hef ég komið málinu á framfæri í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og beitt mér fyrir því að gjaldtakan verði tekin til skoðunar á vettvangi nefndarinnar.

Ingibjörg Isaksen, er þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Búum til börn

Deila grein

13/05/2024

Búum til börn

Lög um fæðingarorlof tryggja foreldrum rétt til þess að hlúa að nýfæddu barni sínu, í dag lítur fólk á þennan rétt sem sjálfsagðan hlut en hann hefur svo sannarlega ekki alltaf verið það. Fyrir þessum rétti hefur verið barist og þar hefur Framsókn staðið vaktina í gegnum tíðina og tryggt réttindi fyrir foreldra og börn þeirra. Páll Pétursson kom með frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof árið 2000 og Ásmundur Einar Daðason fylgdi því eftir með frumvarpi að nýjum heildarlögum um fæðingarorlof árið 2020.

Aukið jafnrétti

Frá því að lögin voru fyrst sett hafa þau tekið töluverðum breytingum í takt við auknar kröfur í samfélaginu um að koma til móts við fjölskyldur í landinu. Það má með sanni segja að lög um fæðingarorlof hafi verið besta tækið til þess að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og í fjölskyldulífi. Merkja má áhrif laganna á stöðu kvenna á vinnumarkað og þá má segja að fáar aðgerðir stjórnvalda hafa leitt til meira jafnréttis kynjanna en þegar komið var á sjálfstæðum rétti foreldra til orlofs. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig er í dag 6 mánuðir en heimilt er að framselja allt að 6 vikur til hins foreldris. Í dag taka feður fullan þátt í lífi og uppeldi barna sinna og gera má ráð fyrir því að lög um fæðingarorlof eigi ríkan þátt í því.

Hærri greiðslur

Launamunur kynjanna á vinnumarkaði er þó engu að síður staðreynd og hefur haft afleiðingar á jafnrétti kynjanna og töku feðra á fæðingarorlofi. Kallað hefur verið eftir að hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði hækki svo hægt sé í raun að tryggja jafnan rétt kynjanna til orlofs. Því kalli hefur nú verið svarað og er sú aðgerð einn liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að liðka fyrir kjarasamningum. Til að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Greiðslurnar verða hækkaðar úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr. m.v. þann 1. apríl síðastliðinn, aftur verður upphæðin hækkuð 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og svo frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr.

Brjótum múrinn

Ríkisstjórnin hefur með þessum aðgerðum tryggt umgjörð sem tryggir barni samvistir við báða foreldra sína og gera þeim kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf með betri hætti. Nú er það landsmanna að búa til börn. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands erum við Íslendingar rétt tæplega 380 þúsund. Það er verðugt markmið að stefna að því að ná að brjóta 400.000 mannfjölda múrinn sem fyrst.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

GREIÐUM VEGINN

Deila grein

03/04/2024

GREIÐUM VEGINN

Jarðgöng bæta samgöngur

Það má með sanni segja að páskahretið hafi haft mikil áhrif á ferðalög landsmanna síðustu daga. Víða voru vegalokanir með tilheyrandi vandkvæðum fyrir þá sem þurftu að komast leiðar sinnar. Það er mjög skiljanlegt að umræður um jarðgöng verði háværari þegar vegir lokast í lengri tíma. Ég tek undir þá umræðu og tel afar brýnt að ávallt séu í gangi framkvæmdir við jarðgöng á hverjum tíma, ef ekki tvenn. Jarðgöng eru mikilvæg fyrir samfélagsuppbyggingu á hverjum stað, eins og dæmin sanna og geta skipt sköpum fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni svo ekki sé minnst á öryggið.

Beðið er eftir mörgum göngum

Undanfarin fjögur ár hefur ekki verið unnið að neinum göngum og mikilvægt að tímabil stöðnunar verði rofið. Samgönguáætlun er til umfjöllunar hjá Alþingi og viðbúið að það þurfi að hægja á einhverjum framkvæmdum til þess að draga úr þenslu og ná niður verðbólgu. Niðurskurður er ekki í kortunum en áhersla á forgangsröðun verkefna í samgönguáætlun verður í því ljósi.  Þegar því tímabili er lokið, sem verður vonandi sem fyrst er mikilvægt að endurskoða samgönguáætlun og hefja framkvæmdir af fullum krafti. Mikilvægir jarðgangakostir eru víða um land, en óhætt er að fullyrða að þörfin sé brýnust á Tröllaskaga, Austfjörðum og á Vestfjörðum. Um liðna helgi var Öxnadalsheiði lokuð og  umferðinni vísað um Tröllaskaga og umferðarteppa myndaðist við Múlagöng þar sem umferðarstjórn var tekin upp.  Ófært var til Seyðisfjarðar fimm daga í röð, en um er að ræða erfiðan fjallveg sem er í töluverðri hæð yfir sjó. Fjöldi ferðamanna sem kom með Norrænu sat fastur auk þess sem ekki var mögulegt að koma með aðföng til bæjarins. Það er mikil mildi að ekki komu upp alvarleg atvik eða veikindi á þessum tíma þar sem næsta víst er að erfitt hefði verið að bregðast við.  

Það er að mörgu að hyggja en ég fagna því að undirbúningur er hafinn vegna gangna í gegnum Almenninga, frá Siglufirði yfir Fljót þar sem segja má að Siglufjarðarvegur sé ekki á vetur setjandi.  Hér er um að ræða göng sem mikilvægt er að komist sem fyrst í gagnið. Með þeim má koma á góðum og öruggum samgöngum milli Fljóta, Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Til að bæta við óskalistann þá myndi það einnig auka verulega umferðaröryggi ef ráðist yrði í ný göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og undir Öxnadalsheiði. Að mínu mati þarf að huga að því í alvöru hvort setja ætti slíkar framkvæmdir í einkaframkvæmd, með það að markmiði að hraða framkvæmdum.

Gjaldtaka

Til að ná árangri í jarðgangagerð þarf að ráðstafa auknu fjármagni til undirbúnings. Ferlið er flókið og tekur langan tíma. Til þess að hraða uppbyggingu og viðhald samgönguinnviða þarf nýja nálgun. Nú er unnið að greiningu á gjaldtöku í vegasamgöngum og beðið er eftir tekjumódeli fyrir jarðgöng á Íslandi frá verkefnastofu sem er á vegum fjármálaráðuneytisins og innviðaráðuneytisins. Það er hægt að færa rök fyrir því að það sé réttlætanlegt að hafa hófsama gjaldtöku í jarðgöngum á Íslandi, við þekkjum það hér á svæðinu. Með þeim hætti er hægt að hraða uppbyggingu jarðganga en hafa sanngirni fyrir íbúa að leiðarljósi og haga gjaldtöku þannig að þeir sem þurfa að fara oftar greiði lægra gjald en hinn almenni ferðamaður.

Svo er rétt að minnast á það að enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra undirritaði viljayfirlýsingu í fyrra við bandaríska fyrirtækið EarthGrid um möguleika á notkun kyndilborunar á Íslandi, m.a. á jarðgöngum fyrir umferð. Mikilvægt er að kanna hvort slík tækni er raunhæfur kostur á Íslandi en prófanir á tækninni standa nú yfir.

Það sem mestu munar er að við þurfum að halda áfram við að bæta vegakerfið, með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 3. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Kröfur ríkisins til þing­lýstra eigna

Deila grein

02/04/2024

Kröfur ríkisins til þing­lýstra eigna

Það er óhætt að segja að framkomnar þjóðlendukröfur fjármála- og efnahagsráðherra í allar eyjar og sker umhverfis landið sem eru ofan sjávar á stórstraumsfjöru hafi vakið gríðarlega mikil viðbrögð almennings. Sveitarstjórnarfólk víða um land hefur verulegar áhyggjur af málinu og segir kröfulýsinguna vera gríðarstórt inngrip í mat á eignarrétti og framtíðarsýn fjölmargra íbúa og landeigenda um land allt. Auk þess hefur borið á gagnrýni að ekkert samráð hafi verið haft við eigendur þessara eyja. Í staðinn fyrir samráð eða póst frá óbyggðanefnd fréttu eigendur af kröfunni í gegnum fjölmiðla. Þá eru flestar eyjar sem kröfurnar beinast að þinglýstar eignir einstaklinga, sveitarfélaga og annarra aðila og í sumum tilvikum hefur ríkið selt eyjar sem það ætlar nú að taka aftur til sín.

Hefði þurft grófara sigti

Upphaflegur tilgangur með setningu laga um þjóðlendur var að leysa úr ágreiningi sem ríkt hafði í áratugi um eignarhald á hálendisvegum landsins eða þau svæði sem lengst hafa verið nefnd afréttir og almenningar. Þvert á upphaflegar áætlanir eru þessar kröfulýsingar ríkisins nú að skapa óvissu þar sem engin óvissa var fyrir, auk þess sem þær leggja stein í götu hugmynda einkaframtaks um framkvæmdir og sköpun, enda ná þessar kröfur inn á byggð svæði. Þessi mál taka öllu jafnan tvö ár hjá óbyggðanefnd og eftir það er hægt að skjóta úrskurðinum til dómstóla með tilheyrandi töfum til jafnvel fjölda ára. Það segir sig sjálft að öll fjárfesting á þessum svæðum er í uppnámi á meðan.

Að mínu mati er nú fulllangt seilst frá upphaflegum markmiðum laganna. Nú þegar er verið að sækjast eftir landsvæðum þar sem nú eru m.a. fasteignir. Svæði sem rúmast innan deiliskipulags sveitarfélaga. Það er eðlilegt að fólk sé ósátt því að ljóst er að þetta mun hafa töluverðan kostnað í för með sér fyrir sveitarstjórnir og eigendur þessara landsvæða. Þessar hugmyndir óbyggðanefndar hefðu þurft að fara í gegnum mun grófara sigti auk þess sem horfa hefði mátt á gömul skjöl sem nú þegar eru til staðar. Þannig hefði mátt koma í veg fyrir óþarfaupphlaup. Hér er jafnvel um að ræða eyjar þar sem búseta var eða hefur verið um margar aldir og flestar metnar til fasteignaverðs.

Kröfur að ósekju?

Á sama tíma kemur fram í fréttum að ríkið hafi í tæp tíu ár reynt að hafa þinglýstar eignir af bændum í Syðri – Fljótum, en samkvæmt opinberum kortasjám er ríkið búið að eigna sér stóran hlut af þeirri jörð og ber fyrir sig að Landgræðslan eigi landið. Þessai deila auk þeirra varna sem eigendur eyja og skerja þurfa nú að há við ríkið sæta furðu. Í öllum slíkum málum er mikilvægt að gætt sé að jafnvægi og að ríkið fari ekki fram með offorsi gagnvart einstaklingum. Ég tek undir áhyggjur landeiganda á þessari þróun og tel mikilvægt að staldrað verði við og verklagið endurskoðað.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Akureyri – næsta borg Íslands

Deila grein

21/03/2024

Akureyri – næsta borg Íslands

Áhrifasvæði Akureyrar er stórt en það nær um allan Eyjafjörð og að einhverju marki austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar. Svæðið hefur vaxið hratt á síðustu árum og nú búa þar um 8% þjóðarinnar. Vöxturinn hefur verið með svipuðum hætti og á höfuðborgarsvæðinu enda hafa sveitarfélögin í nágrenni Akureyrar einnig verið í miklum vexti og mikilvægi sterkra byggða í nágrenninu er gífurlegt, því þær styrkja Akureyri og hlutverk hennar enn frekar.

Akureyri státar af sterku og fjölbreyttu atvinnulífi og mikilli þekkingarstarfsemi og er það ekki síst þeim mannauði sem þarna býr að þakka. Mikil gróska hefur einnig verið í menningartengdri starfsemi á svæðinu og sér ekki fyrir endann á þeim vexti, sem er vel. Við finnum það vel sem búum á svæðinu hversu mikið fjölbreytt menningarstarfsemi styrkir samfélagið og eflir lífsgæði.

Akureyri og nærsvæði hennar býr einnig við öflugar alþjóðlegar tengingar sem greiða bæði fyrir fólks- og vöruflutningum. Enn frekari tengingum hefur verið komið á undanförnum tveimur árum, bæði með tilkomu Niceair sem var og hét og svo með auknum samningum við stærri erlend flugfélög svo sem EasyJet sem hefur tvímælalaust eflt ferðaþjónustu á öllu svæðinu sem heldur enn áfram að styrkjast.

Nýr tónn í umræðu um byggðamál

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá árinu 2021 kom fram að mótuð yrði stefna um að skilgreina frekar svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni. Nú er búið að skila svokallaðri Borgarstefnu og sem íbúi á Akureyri og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis fagna ég tillögunum sem þar koma fram, en í stefnunni leggur starfshópurinn til að Akureyri verði næsta borg á Íslandi. Þannig verði Akureyri sérstakt byggðastig milli höfuðborgar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðunum og fái þar af leiðandi aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. Með öðru borgarsvæði er möguleiki á dreifðari byggð í landinu, þar sem búseta á áhrifasvæði borga eflist, rétt eins og þekkist frá höfuðborgarsvæðinu.

Eitt af áherslumálum í sóknaráætlun Norðurlands eystra fyrir árin 2020-2024 var, að mótuð yrði Borgarstefna fyrir Akureyri og að svæðisbundið hlutverk bæjarins yrði skilgreint betur, sem stærsta þéttbýlisins utan stórhöfuðborgarsvæðisins. Þessi umræða er því ekki ný af nálinni og hefur skotið upp kollinum nokkrum sinnum á síðustu árum. Mikill metnaður hefur verið lagður í að bærinn okkar verði gerður að borg og því afar jákvætt að þau markmið séu þarna komin í ákveðinn farveg. Með þessum tillögum er verið að slá nýjan tón í umræðunni um byggðamál og því ber að fagna.

Svæðisborgin Akureyri

Samhliða vinnu við mótun Akureyrar sem svæðisborgar þarf áhrifasvæðið að þróast í takt sem mun skila sér í öflugra og stærra atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæðis. Í dag er mikið um að íbúar í sveitarfélögum utan Akureyrar sæki atvinnu eða aðra þjónustu til Akureyrar og hefur sá fjöldi vaxið mikið á síðustu árum. Þá þarf einnig að líta sérstaklega til stöðu samgangna í landshlutanum og frekari uppbyggingu vega. Sér í lagi þeirra sem spila sérstakt hlutverk í styttingu vegalengda á milli atvinnu- og skólasvæða en það er mikilvægur hlekkur í keðjuna hvað varðar áframhaldandi vöxt svæðisins í heild.

Við þurfum áfram að vinna ötulum höndum að eflingu og stækkun áhrifasvæðisins í góðri samvinnu milli ríkis, Akureyris og nærliggjandi sveitarfélaga.

Því þetta er jú sannkallað samvinnuverkefni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 20. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Deila grein

07/03/2024

Hér rís önnur heilsugæslustöð

Það er ekkert launungamál að margir Akureyringar hafa lengi verið án heimilislæknis og má rekja þá staðreynd mörg ár aftur í tímann. Bið eftir tíma hjá heimilislæknum er í dag yfirleitt mjög löng og í sumum tilfellum nær fólk ekki að fá tíma sem verður til þess að álag eykst á öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu. Tel ég það eitt af okkar forgangsmálum að ráða bót þar á. Rannsóknir hafa sýnt hversu mikilvægt það er að allir hafi fastan heimilislækni um lengri tíma auk þess sem sýnt hefur verið fram á að það minnki einnig marktækt vinnuálag á heimilislæknum og í heilbrigðiskerfinu öllu.

Þegar sagan er skoðuð er athyglisvert að sjá að á Akureyri hefur aldrei verið byggð heilsugæsla frá grunni heldur hefur heilsugæslu verið komið fyrir í eldra húsnæði, sbr. í gamla Amarohúsinu og nú í Sunnuhlíð. En það er ekki þar með sagt að ekki geti vel tekist til eins og ný og glæsileg heilsugæslustöð sem var opnuð á þriðjudaginn sl. ber gott vitni um og er mikið fagnaðarefni fyrir íbúa svæðisins.

Á Akureyri þarf tvær heilsugæslustöðvar

Fyrir fimm árum var gerð ítarleg úttekt á svæðinu sem leiddi í ljós að bærinn þyrfti tvær heilsugæslustöðvar. Þörfin í dag er brýnni ef eitthvað er þar sem íbúum svæðisins hefur farið fjölgandi á síðustu árum. Yfir 20.000 manns eru skráðir á heilsugæslustöðina í Sunnuhlíð sem er töluvert meiri fjöldi en gengur og gerist í höfuðborginni. Heilbrigðisráðherra hefur sjálfur sagt að rýna þurfi hvernig stöðin í Sunnuhlíð muni nýtast og hvar þurfi svo að bæta í. En fyrirætlanir um aðra heilsugæslustöð hafi ekkert breyst á þessum tímapunkti.

Ríkiskaup fh. Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna og Heilbrigðisráðuneytið hafa auglýst eftir aðilum til að hanna og byggja nýja heilsugæslu, í tvígang.  Því miður skiluðu tilraunirnar ekki tilætluðum árangri þar sem enginn aðili sá sér fært um að taka þátt.

Vangaveltur um hvort hin heilsugæslustöðin verður ríkis- eða einkarekin er síðan framtíðarmúsík sem verður að koma í ljós með tíð og tíma. Þar þarf áfram að horfa til þarfa samfélagsins, fyrst og fremst snýst þetta um að þjónusta íbúana sem hér eru. Það má aldrei gleymast að heilbrigðisþjónusta þarf fyrst og fremst að snúast um fólkið okkar sem þangað leitar.

Að lokum get ég svo ekki annað gert en að benda á að góðir stjórnmálamenn kynna sér málin vandlega áður en þeir fara að básúna illa ígrundaðar ályktanir. Það er að mínu mati algjört lágmark að vera með allar staðreyndir á hreinu áður en maður setur fram fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast.

Við munum byggja aðra heilsugæslustöð, þau áform hafa ekki breyst!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 7. mars 2024.

Categories
Fréttir

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

26/02/2024

Á ferð um landið – Kjördæmavika Framsóknar

Þingmenn og ráðherrar Framsóknar verða á ferð og flugi um land allt næstu daga. Þingflokknum er mikilvægt að heyra raddir kjósenda með reglubundnum hætti. Áhersla verður á heimsóknir í bland við opna fundi.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir alla opna fundi, en einnig má nálgast viðburðina á Facebook: https://fb.me/e/3vOUaC0mJ

Mánudagur 26. febrúar:
Reykjavík – Sykursalnum Grósku, kl. 20.00.
Suðurnesjabær – Samkomuhúsinu Sandgerði, kl. 20.00.

Þriðjudagur 27. febrúar:
Mosfellsbær – Skátaheimili Mosverja, kl. 20.00.
Bláskógabyggð – Efsti Dalur, kl. 20.00.
Borgarbyggð – Landnámssetrinu, kl. 20.00.

Miðvikudagur 28. febrúar:
Kópavogur – Siglingafélaginu Ými, Naustavör 14, kl. 20.00.
Akranes – Dalbraut 4, kl. 20.00.
Vopnafjörður – Safnaðarheimilinu, kl. 18.00.

Fimmtudaginn 29. febrúar:
Reyðarfjörður – Þórðarbúð, Austurvegi 39, kl. 17.30.
Sauðárkrókur – Kaffi Krók, kl. 20:15.
Egilsstaðir – Tehúsið, kl 20.00.
Árborg – Hótel Selfoss, kl 20.00.

Föstudagur 1. mars:
Húsavík – Félagsheimili eldri borgara, Hlyn, kl. 16.00.

Laugardagur 2. mars:
Hafnarfjörður – Kiwanissalnum, Helluhrauni 22, kl. 11.00.

Á næstu vikum munu þingmenn og ráðherrar heimsækja Höfn, Vestmannaeyjar, Vestfirði, en nánari upplýsingar verða birtar síðar.

ATH. að dagskráin kann að taka breytingum með skömmum fyrirvara.

Við erum Framsókn!

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi.

Í meira en öld höfum við unnið að framfaramálum fyrir Ísland með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Við í Framsókn trúum því að yfirvegað samtal skili samfélaginu meiri árangri en upphrópanir.
Við setjum manngildi ofar auðgildi.

Categories
Fréttir Greinar

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Deila grein

19/02/2024

Við þurfum á Reykja­víkur­flug­velli að halda

Hvort sem okkur líkar betur eða verr er staðreyndin sú að eldgosatímabil er hafið á Reykjanesskaga, tímabil sem talið er að geti staðið í upp undir 400 ár. Þessi breytta sviðsmynd neyðir okkur til þess að breyta fyrri plönum og taka nýjar ákvarðanir. Síðustu ár hefur mikið verið rætt um uppbyggingu á nýjum flugvelli og ber þar einna hæst hugmyndir um uppbyggingu á flugvelli í Hvassahrauni. Undirrituð telur að flestir séu nú sammála um það að sú staðsetning sé líklega ekki vænlegur kostur en rétt er þó að bíða með allar yfirlýsingar. Skýrslan um Hvassahraun er væntanleg í mars og þá fáum við endanlega niðurstöðu. Til þess að sú mikla vinna sem lögð var í skýrsluna komi að fullum notum og að hún er á lokametrunum er auðvitað skynsamlegast að sjá hvað hún hefur að segja.

Við getum ekki beðið í 20 ár

Það er þó ljóst er að það tekur um 15 til 20 ár að hanna og byggja flugvöll sem rúmað getur innanlandsflug, sjúkraflug og þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar. Á sama tíma ekki hægt að una við núverandi aðstæður til flugsamgangna, brýn þörf er á úrbótum. Sú sem hér skrifar telur að við höfum góðan flugvöll sem getur þjónustað okkur áfram um ókomin ár, Reykjavíkurflugvöll, en hann þarf að efla og bæta. Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti á síðasta ári um uppbyggingu á nýrri flugstöð, hér er um að ræða uppbyggingu sem lengi hefur verið beðið eftir enda þjónar núverandi flugstöð illa nútíma þörfum. Þá ber að halda því til haga að það er Reykjavíkurborg sem fer með skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni og mikilvægt er að það skipulag komi ekki til með að draga úr flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Hlutverk höfuðborgar

Það gleymist oft í umræðunni hversu Reykjavíkurflugvöllur er samfélagslega mikilvægur, nálægð við miðborg, stjórnsýslu, háskóla og Landspítala spilar þar lykilhlutverk. Eins gleymist í umræðunni um uppbyggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Samkvæmt lögum eiga allir landsmenn rétt á sömu heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að einfalt sé að nálgast þá þjónustu, flugvöllur í Reykjavík tryggir það. Það má ekki gleyma að Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna og tryggja verður að allir landsmenn geti sótt þangað þá þjónustu sem þar er veitt.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Orkumál í stóra samhenginu

Deila grein

29/01/2024

Orkumál í stóra samhenginu

Síðastliðinn þriðju­dag voru orku­mál lands­ins sér­stak­lega rædd á Alþingi. Umræðan fór fram fyr­ir til­stilli und­ir­ritaðrar og var um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra til andsvara. Ásamt okk­ur mættu full­trú­ar allra þing­flokka til að út­skýra af­stöðu sína varðandi orkuþörf lands­ins og orku­ör­yggi okk­ar til framtíðar. Umræðan var líf­leg og áhuga­verð og kom væg­ast sagt á óvart á köfl­um.

Er orku­skort­ur á Íslandi?

Þrátt fyr­ir að sér­fræðing­ar inn­an orkuiðnaðar­ins hafi lengi bent á aukna orkuþörf þjóðar­inn­ar og yf­ir­vof­andi orku­skort hér á landi þá eru greini­lega aðilar sem enn eru ekki sann­færðir um vand­ann.

Eft­ir­spurn eft­ir raf­orku hér á landi er orðin meiri en fram­boð og sam­fé­lagið er hvatt til þess að spara orku, hvort sem um er að ræða fyr­ir­tæki eða heim­ili. Æ oft­ar ger­ist það að fyr­ir­tæki neyðast til þess að brenna olíu til að halda dag­legri starf­semi sinni gang­andi í sam­ræmi við samn­inga vegna ótryggr­ar orku, sem mik­il­væg­ir eru til að full­nýta kerfið. Í þessu felst kostnaður fyr­ir okk­ur öll ásamt þeim nei­kvæðu um­hverf­isáhrif­um sem slík brennsla hef­ur í för með sér.

Heim­il­in í for­gangi

Í nú­ver­andi ástandi hef­ur rík­is­stjórn­in sett það í al­gjör­an for­gang að yf­ir­vof­andi orku­skort­ur hafi lít­il sem eng­in áhrif á heim­ili fólks né lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki.

Þingið hef­ur nú til meðferðar frum­varp um raf­orku­ör­yggi, en þar kem­ur fram að not­end­ur sem kaupa raf­orku til heim­il­is­nota, mik­il­væg­ir sam­fé­lags­innviðir og fyr­ir­tæki með færri en 50 starfs­menn og ár­sveltu eða efna­hags­reikn­ing sem er ekki yfir 1,5 millj­örðum kr. og hafa ekki samið sér­stak­lega um skerðan­lega notk­un skuli njóta for­gangs ef skerðing á raf­orku á sér stað. Miðað við ræðurn­ar í fram­an­greind­um umræðum býst ég ekki við öðru en að all­ir þing­menn, þvert á flokka, ýti á græna takk­ann þegar frum­varpið fer í at­kvæðagreiðslu.

Stöðnun at­vinnu­lífs­ins vegna skerðinga

Þó svo að heim­ili og lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki verði að mestu óhult ef til skömmt­un­ar á raf­orku kem­ur þá þurf­um við að horfa á stóru mynd­ina. Ef við öfl­um ekki meiri raf­orku og dreif­um henni á sem best­an máta þá mun það hafa tals­verð áhrif á at­vinnu­líf hér á landi. Stór­not­end­ur raf­orkunn­ar okk­ar bera þung­ann af skerðing­um á raf­orku. Um er að ræða þjóðhags­lega mik­il­væg fyr­ir­tæki sem skila sam­fé­lag­inu tals­verðum út­flutn­ings­tekj­um og það kom nokkuð á óvart að tals­menn sumra flokka á Alþingi hefðu tak­markaðar áhyggj­ur af því að slík­ar skerðing­ar eigi sér stað í rekstri þeirra, með til­heyr­andi áhrif­um á vöru þeirra og þjón­ustu.

Þegar öllu er á botn­inn hvolft þá verðum við að ákveða í hvernig sam­fé­lagi við vilj­um búa. Vilj­um við tak­marka orku fyr­ir stór­not­end­ur og þar með gera þá nauðbeygða til að nýta óhreina raf­orku­kosti í sín­um rekstri eða vilj­um við tryggja að stór og stönd­ug fyr­ir­tæki hafi nægj­an­lega orku fyr­ir hendi til að skapa út­flutn­ings­tekj­ur, sem skila sér til fram­kvæmda á mik­il­væg­um innviðum og í vel­ferð sam­fé­lags­ins? Hér er átt við öfl­ug fyr­ir­tæki sem flokk­ast sem stór­not­end­ur og bjóða upp á hald­bær­ar vör­ur og/​eða þjón­ustu. Hér þurf­um við að gera grein­ar­mun á milli slíkra fyr­ir­tækja og annarra stór­not­enda á borð við raf­mynta­gröft, en ekki setja alla stór­not­end­ur und­ir sama hatt.

Auk­in öfl­un í þágu um­hverf­is­sjón­ar­miða

Í umræðunni um orku­mál virða sum­ir áhyggj­ur um orku­skort að vett­ugi. Al­mennt er sagt að við eig­um nóg af hreinni raf­orku í dag og að auk­in eft­ir­spurn þýði ekki endi­lega að orku­skort­ur sé yf­ir­vof­andi.

Sú út­breidda skoðun að við eig­um nóg stenst ekki þegar um 40% af þeirri orku sem við not­um í dag til verðmæta­sköp­un­ar kem­ur í formi inn­fluttr­ar olíu líkt og Sig­urður Hann­es­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðnaðar­ins, seg­ir í viðtali við Morg­un­blaðið 24. janú­ar sl. Það get­ur varla tal­ist já­kvætt með til­heyr­andi um­hverf­isáhrif og mark­mið Íslands í loft­lags­mál­um til hliðsjón­ar. Það er um­hugs­un­ar­vert að höfuðáhersla er lögð á að fólk fari frek­ar á raf­magns­bíl­um og breyti dag­leg­um neyslu­venj­um þegar skerðing­ar verða fleiri og óhrein­ir orku­gjaf­ar eru notaðir í tals­verðu magni.

Niðurstaðan hlýt­ur að vera sú að auk­in virkj­un og fram­leiðsla á raf­orku ásamt betra dreifi­kerfi þjóni hags­mun­um okk­ar allra í stóra sam­heng­inu.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.