Categories
Fréttir Greinar

Byggðir í sókn í 10 ár

Deila grein

10/10/2023

Byggðir í sókn í 10 ár

Í síðustu viku fór fram kjördæmavika og þingmenn voru á ferð og flugi að heimsækja fyrirtæki, fólk og stofnanir. Margt stendur upp úr en sérstaklega ánægjulegt var að taka þátt í afmælismálþingi um byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir sem var haldið á Raufarhöfn. Verkefnið stendur á þeim tímamótum að fagna tíu ára starfsafmæli. 

Jákvæðni og samheldni

Allt frá fyrstu skrefum vakti verkefnið athygli stjórnvalda og hefur öðlast fastan sess í stefnu ríkisins í byggðamálum. Verkefnið er fjármagnað sem ein af 44 aðgerðum byggðaáætlunar sem ætlað er að styðja við blómleg byggðarlög um land allt. Það má með sanni segja að margt hafi breyst á áratug og mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að meta árangurinn og halda áfram að finna leiðir til að efla smærri þorp og sveitir landsins. Hugmyndafræðin og vinnulagið sem unnið er eftir hefur hins vegar unnið sér verðskuldaðan sess. Sú hugmyndafræði gengur út á að efla þátttöku og frumkvæði íbúa. Á Norðausturlandi höfum við séð hvernig verkefni Brothættra byggða getur ýtt undir jákvæðni og samheldni íbúa. Byggðarlögin eru ólík að stærð og gerð, atvinnuvegirnir geta verið ólíkir en alltaf eru það íbúarnir sjálfir sem vita best á hverju skal byggja. 

Næg verkefni fram undan

Landsbyggðirnar eiga mikið inni og víða eru fræ í jörðu sem geta sprottið með næringu og alúð. Fjórtán byggðarlög hafa tekið þátt í Brothættum byggðum frá upphafi og í gegnum þetta átak hafa um 650 frumkvæðisverkefni íbúa fengið stuðning við að verða að veruleika. Þessir styrkir hafa hvatt fólk til dáða og leitt af sér alls kyns framtak sem hefur ekki bara auðgað nærsamfélögin, heldur auðgað íslenska menninguog sannarlega átt þátt í því að gera hvern landshluta enn skemmtilegri heim að sækja. 

Það eru næg verkefni eftir þegar horft er fram á við, verkefni sem stjórnvöld þurfa að koma að með einum eða öðrum hætti. Sameiginlegt viðfangsefni í öllum byggðum, svo eitthvað sé nefnt, eru húsnæðismálin. Þar er þörf á átaki svo húsnæðisskortur standi ekki uppbyggingu fyrir þrifum, hvorki í þessum landshluta né annars staðar. Samgöngur og aðrir innviðir eru grunnstoð samfélaga og forsenda uppbyggingar atvinnulífs. Núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu í þessum málaflokki en margt óunnið enn. Eins þurfum við að skipuleggja fiskveiðar við landið þannig að þær styðji við atvinnulíf og uppbyggingu sem víðast. Þessi og mörg önnur verkefni eru fram undan, og gott að hafa í huga nú þegar við fögnum þessum tímamótum. Brothættar byggðir eru frábært verkfæri og nú þurfum við bara að bæta í verkfærakistuna.

Til hamingju – byggðir í sókn í 10 ár!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður NA.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 10. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Deila grein

19/09/2023

Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Íbúar landsbyggðarinnar eru nánast farnir að taka því sem sjálfsögðum hlut að leggja land undir fót með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn til þess að sækja sér sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur. Greiningar hafa sýnt að fólk á landsbyggðinni er ólíklegra til þess að sækja sér þjónustu sérfræðilækna heldur en fólk af höfuðborgarsvæðinu og er ólíklegt að það sé vegna þess að fólk á landsbyggðinni sé hraustara heldur fyrir sunnan. Staðreyndin er sú að oft er um langan veg að fara og aðgengi að þjónustu er ekki jafnt.

Það þarf að fjölga ferðum

Líkt og staðan er í dag getur það verið verulega kostnaðarsamt fyrir þá sem eru búsettir á landsbyggðinni að sækja sér heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í kostnaði við tvær ferðir sjúkratryggðs á 12 mánaða tímabili, þegar um er að ræða nauðsynlega ferð og þjónustan er ekki í boði í heimabyggð. Undirrituð telur það jafnréttismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar að endurgreiðslum vegna slíkra ferða verði fjölgað og jafna með þeim hætti aðgengi íbúa landsins að heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi þyrfti í auknum mæli að horfa til þarfa hvers og eins. Rétt er þó að geta þess til að koma í veg fyrir misskilning að ef um alvarlega sjúkdóma er að ræða þá endurgreiða Sjúkratryggingar ferðakostnaði vegna fleiri ferða.

Jafnt aðgengi að sérfræðingum

Með nýjum samningum við sérgreinalækna var stigið mikilvægt skref í átt að betri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn. Að ná samningunum var meðal mikilvægustu verkefna ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili og það var virkilega ánægjulegt að heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hafi náð að landa þeim. Tækifærin eru til staðar, verkefnið er að halda áfram á sömu leið. Markmið stjórnvalda er að halda markvisst áfram að bæta heilbrigðiskerfið, tryggja öfluga heilbrigðisþjónustu og jafna aðgengi.

Sú sem hér skrifar telur þörf á að efla enn frekar þjónustu sérfræðilækna við íbúa landsbyggðarinnar. Þónokkrir sérfræðilæknar leggja land undir fót og þjónusta fólk í hinum ýmsu byggðum um land allt. Í því ljósi telur undirrituð það ákjósanlegra að fækka markvisst ferðum fólks af landsbyggðinni þar sem því verður við komið og efla enn frekar ferðir sérfræðinga út á land.

Sérfræðilæknar eru takmörkuð auðlind og því er erfitt að gera kröfu um að þeir hafi fasta starfstöðvar á hverjum degi á landsbyggðinni. En það er mögulegt að auka samstarf milli sérfræðilækna og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og nýta þá aðstöðu sem víða er til staðar. Sú sem hér skrifar telur mikilvægt að gengið verði til samræðna við sérfræðilækna með það að markmiði að færa þjónustu þeirra nær fólkinu. Með því að fjölga ferðum sérfræðinganna út á land fyrir tilstilli ríkisins til að sinna þjónustunni í heimabyggð er það ekki bara hagræði fyrir þá sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu heldur kæmi það einnig til með að spara ríkissjóði talsverðar fjárhæðir. Með einni ferð sérfræðingsins er tugum annarra sparað sömu ferð. Þá eru ótalin jákvæð umhverfisáhrif vegna minni ferðalaga.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Raf­magns­leysi

Deila grein

05/09/2023

Raf­magns­leysi

Rafmagn er grundvallarorkugjafi okkar. Það lýsir upp heimili okkar og án þess gæti verið flókið að elda kvöldmatinn, þvo þvott og geyma matvæli. Þá er rafmagn mikilvægt í heilbrigðisþjónustu þar sem það knýr áfram lífsnauðsynleg lækningatæki. Sífellt fleiri rafmagnsbílar koma á göturnar, jafnvel rafmagnsflutningabílar.

Auk þess er rafmagn notað á öllum sviðum atvinnulífsins. Ekkert okkar gæti hugsað sér að lifa lífi án rafmagns líkt og forfeður okkar gerðu áður fyrr. Rafmagnið er okkur í dag jafn mikilvægt og vatnið.

Hvað þarf til?

Hreyfiafl breytinga eru af ýmsum toga en oftar en ekki eru það bæði innri ytri áhrifaþættir sem skapa nýjar þarfir og hraða þróun. Við höfum á undanförnum árum heyrt rætt um framtíðarþarfir á sviði orkumála, hugsanlegan orkuskort, sem í huga margra Íslendinga hljómar sem fjarlægur veruleiki.

En er hann svo fjarlægur?

Við erum lánsöm að búa í landi sem framleiðir endurnýjanlega græna orku. Jafnt og þétt bætist í orkuþörf, ekki bara hér á landi heldur alls staðar í heiminum. Sérfræðingar hafa bent á aukna orkuþörf hér á landi í takt við aukinn fjölda íbúa og vaxandi atvinnulíf. Tryggja þarf að á hverjum tíma sé næg græn orka í boði fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Ég þarf ekki að tíunda í þessari grein hvaða afleiðingar orkuskortur kann að hafa fyrir atvinnuuppbyggingu og fyrirhuguð orkuskipti í landinu.

Að vinna bug á orkuskorti krefst margvíslegra aðgerða. Ekki bara það að virkja meira. Til dæmis þarf að draga úr sóun á orkunni okkar með öflugra dreifikerfi og horfa þarf til notkunar á fleiri nýtingarvalmöguleikum, þ.e. orkukosta á borð við vind, sjávarfall og jafnvel fleiri sem koma til með að vera nýttir í meiri mæli í framtíðinni.

Höfum við brugðist við?

Yfirstandandi stríð og heimsfaraldur hafa hvort á sinn hátt fært okkur nær því að horfast í augu við mikilvægi sjálfbærni þjóðarinnar m.a. í orkumálum. Þannig þurfum við að horfa á heildarþarfir landsins, en um leið að horfa á öryggi innan hvers landshluta og svæðis. Þegar betur er að gáð sjáum við að það búa ekki allir við sömu gæði og öryggi í orkumálum.

Við þurfum bæði að hugsa til lengri og skemmri tíma þegar við horfum til breytinga. Þá bæði hvað varðar alla heildina og möguleika í stærri og smærri einingum. Það er mitt mat að tækifærin leynast víða, tækifæri sem við eigum að nýta til lengri og skemmri tíma. Hugsanlega getum við einnig styrkt innviði fyrr með breyttu verklagi og betri nýtingu á því sem fyrir er.

Nauðsynlegar úrbætur stjórnvalda

Það skiptir miklu máli að uppbygging raforkukosta og dreifingu raforkunnar geti haldið áfram í takt við stórauknar þarfir. Viðbrögð og geta innra stjórnkerfis okkar er of hægfara og þung. Lagaumhverfi rammaáætlunar þarf að endurskoða því eins og staðan er í dag líða mörg ár frá umsókn um leyfi þar til að rafmagnið skilar sér til notanda. Því þurfum við að kappkosta að vinda ofan af þeim flækjum við ákvarðanatöku, en ekki síður að minnka kostnað við umsýslu þegar við tökum ákvarðanir um orkunýtingu. Þó þannig að ekki verði á nokkurn hátt minnkuð krafa um rannsóknir og náttúruvernd. Löng og farsæl virkjanasaga síðustu 100 ára segir okkur að vernd og nýting geta haldist í hendur.

Einnig er kallað eftir skýrari afstöðu ríkisins til nýtingar á eigin vatnsréttindum. Ég tek heilshugar undir að mikilvægt er skýra þá afstöðu, bæði til lengri og skemmri tíma. Samningaferlið við landeigendur og vatnsréttarhafa er langt og stundum erfiðasti hjallurinn í virkjunarmálum. Í flestum tilfellum þarf að ræða við og ná saman við stóran hóp með ólíkar skoðanir og samningsmarkmið. En það eitt að hefja viðræður við landeigendur um nýtingu orku gæti flýtt nýjum og smærri virkjanakostum til muna. Ríkisvaldið hefur fram til þessa ekki viljað ræða við rekstraraðila um leigu á vatnsréttindum og landnotkun fyrr en verkefni hefur verið samþykkt í nýtingarflokk af Alþingi. Þessu væri hægt að breyta auðveldlega og þar með stytta heildarvinnslutímann á þann hátt að hefja samningaviðræður samhliða ferli rammaáætlunar með fyrirvara um að viðkomandi verkefni verði samþykkt í nýtingarflokk.

Þó að við viljum flýta okkur hægt og vinna eftir vel ígrunduðu ferli vil ég þó í lokin staldra við tímamörk, því vissulega þarf fleira að koma til. Þar vil ég benda á möguleika sem við höfum til að bæta gæði stjórnsýslu er varðar lögbundnar umsagnir, en þar koma fjölmargir aðilar að. Frestir eru langir í ferlinu en þrátt fyrir það þarf ítrekað að lengja tímafresti vegna umsagnaraðila á ýmsum vinnslustigum. Hver frestur hefur mikil áhrif á þann tíma sem ferlið tekur og vinnur gegn okkar markmiðum um frekari orkuöflun. Við þessu þarf að bregðast.

Allt þetta hafa sérfræðingar ítrekað bent á. Orkuþörfin er áríðandi og það blasir við að alvarlegur orkuskortur muni raungerast ef engu er breytt. Umræðan hefur átt sér stað meðal þeirra sem starfa við raforkuframleiðslu og dreifingu og víðar í langan tíma. Það er þó löngu tímabært að ganga í aðgerðir og láta hugmyndir okkar verða að veruleika.

Þörfin varðar ekki einungis atvinnulífið heldur heimilin okkar líka. Við þurfum að nýta orkuna og innviðina skynsamlega, finna leiðir að settu marki og tryggja öllum örugga orku hvar sem þeir búa á landinu. Það hlýtur að vera réttlætismál sem knýr okkur öll áfram. Enginn vill vera rafmagnslaus í miðju óveðri aftur.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Loft­brú – já­kvæðar fjár­festingar í þágu barna

Deila grein

31/08/2023

Loft­brú – já­kvæðar fjár­festingar í þágu barna

Við Íslendingar leggjum mikla áherslu á öflugt íþróttastarf. Það stuðlar að aukinni heilsu, öflugum forvörnum auk þess sem það eflir félagslegan þroska, og er börnum og ungmennum sérstaklega jákvæð reynsla. Nær öll ungmenni hér á landi stunda einhverja íþrótt og sum jafnvel fleiri en eina. Við sjáum þau jákvæðu áhrif sem virk þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur á börnin okkar, áhrif sem fylgja þeim út í lífið.

Íþróttaiðkun getur þó verið kostnaðarsöm. Foreldrar og forráðamenn greiða æfingagjöld auk þess sem annar kostnaður fellur til líkt og kaup á viðeigandi búnaði, keppnis- og/eða æfingaferðir til að tryggja að börn þeirra eflist áfram í þeirri íþrótt sem það kýs. Af augljósum ástæðum hafa ríkið og sveitarfélög reynt að styrkja áframhaldandi iðkun barna og ungmenna, en kostnaður fjölskyldna er þó alltaf til staðar. Öll viljum við að börn og ungmenni geti stundað sína íþrótt eða tómstund óháð efnahag eða búsetu.

Íþróttaferðir um landið

Staðsetning íþróttamóta barna og ungmenna dreifist um allt land. Hlutfallslega eiga þau þó flest sér stað innan höfuðborgarsvæðisins. Þetta á við um flestar íþróttir hvort sem um er að ræða fótbolta, handbolta, sund, körfubolta o.s.frv. Margar þessar íþróttaferðir kosta sitt, og aðstæður fjölskyldna eru mismunandi. Þá á það sérstaklega við um fjölskyldur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem ungmenni ferðast reglulega vegna íþróttaiðkunar sinnar. Þessi kostnaður vindur oft upp á sig og getur reynst íþyngjandi. Sem dæmi kostar keppnisferð ungrar stúlku frá Akureyri til Reykjavíkur um 30.000 kr. og geta ferðirnar verið allt að 5-7 yfir keppnistímabilið, jafnvel fleiri.

Rannsóknir á íþróttastarfi víða um heim hafa sýnt að íslensk lið keppa sjaldnar miðað við það sem tíðkast í öðrum löndum. Til að tryggja samkeppnishæfni á alþjóðarskala er stefna sérsambandanna nú orðin sú að fjölga leikjum og lengja keppnistímabil í samræmi við það sem tíðkast erlendis. Þetta er ánægjuleg þróun og mun efla ungmennin okkar enn frekar í sinni iðkun. Hins vegar fylgir þessu gríðarlegur kostnaður en sem dæmi hafa KSÍ og HSÍ fjölgað leikjum um allt að sjö á hverju tímabili.

Frekari útvíkkun Loftbrúarinnar

Með tilkomu Loftbrúarinnar var fólki sem býr á landsbyggðinni gert kleift að sækja höfuðborgarsvæðið heim á lægri fluggjöldum en ella með veitingu 40% afsláttar af fargjaldi fyrir áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Með því bættist aðgengi landsbyggðar að miðlægri þjónustu í höfuðborginni til muna.

En eru fleiri tækifæri falin í Loftbrúnni? Undirrituð vill sjá úrræðið útvíkkað frekar á þann veg að Loftbrúin verði nýtt til handa íþróttafólki til að lækka þann kostnað sem felst í íþróttaferðum barna og ungmenna sem skilar sér í lægri ferða- og keppniskostnaði barnsins, fjölskyldunni í hag, ásamt styttri ferðatíma og auknu öryggi iðkenda. Þannig stuðlum við að því að fleiri geti sótt slíkar ferðir og náð frekari árangri á sínu sviði.

Styrkjum jákvæð áhrif

Við í Framsókn höfum ávallt talað fyrir mikilvægi þess að íþrótta- og tómstundariðkun sé aðgengileg öllum börnum og ungmennum óháð búsetu, fjárhag eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, enda er hún mikilvægur þáttur í þroska og uppvexti þeirra.

Með frekari útvíkkun Loftbrúar í þágu barna og ungmenna sem ferðast um landið til að keppa höldum við áfram að styðja við það frábæra starf sem á sér stað innan íþróttafélaganna okkar. Fjárfesting í íþróttastarfi barna og ungmenna er fjárfesting í forvörnum, heilsueflingu og félagslegum þroska þeirra. Slík fjárfesting skilar sér margfalt til baka.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Afl til allra átta

Deila grein

16/08/2023

Afl til allra átta

Margs konar tækifæri og áskoranir fylgja aukinni ferðaþjónustu. Áherslur hafa breyst og uppbygging hefur á sér ýmsar myndir líkt og fjölbreytt verkefni hringinn í kringum landið bera með sér. Við getum nú skoðað fleiri minjar, höfum aðgengi að nýjum stöðum og aðkoma að dýrmætum náttúruperlum hefur bæst til muna. Ásamt þessu hefur aðstaða fyrir gesti aldrei verið betri.

Mikilvægt er að brugðist sé við óskum um innspýtingu vegna uppbyggingar efnislegra innviða á ferðamannastöðum í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna. Frá árinu 2018 hefur yfir 4,7 milljörðum verið veitt úr landsáætlun til uppbyggingar í fjölmörgum verkefnum. Því fjármagni hefur verið skipt á um 170 staði um allt land. Umsjónaraðilar hafa unnið vel að því undirbúa svæðin betur svo þau geti tekið á móti þeim aukna gestafjölda sem framtíðin ber í skauti sér. Það er því gott að sjá að gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára, en betur má ef duga skal.

Mikilvægt fjármagn

Þann 11. ágúst sl. bárust fréttir frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um að 908 milljónum króna yrði úthlutað úr Landsáætlun til uppbyggingar innviða á þessu ári skv. úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Fjármagnið veitir mikilvæg tækifæri til að setja fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, eflingu öryggis, skipulag og hönnun við ferðamannastaði. Hins vegar er þörf á endurskoðun á skiptingu þess milli landshluta.

Þörf á jafnri skiptingu

Þegar litið er til úthlutunar fjármagns úr Landsáætlun eftir landshlutum kemur í ljós að veruleg misskipting er milli landsvæða. Bróðurpartur fjármagnsins, 71%, hefur farið í eina átt, þ.e. til Suðurlands. Þetta er annað árið í röð sem meirihluti fjármagnsins er úthlutað til Suðurlands. Árið 2022 fór rétt um 50% af 908 milljónum króna í verkefni tengd uppbygginu innviða á Suðurlandi.

Barist er fyrir stöndugri ferðaþjónustu um allt land, en á mörgum stöðum er nauðsynlegt að frekari uppbygging innviða eigi sér stað á fjölförnum stöðum svo að það gangi upp. Það á við á allri landsbyggðinni þar sem auðlindir eru víða og tækifæri í ferðaþjónustu eru fjölmörg en að mörgu leyti vanýtt. Tenging milli úthlutunarinnar og stefnu stjórnvalda um dreifingu ferðamanna er ekki auðsýnileg. Sérstaklega ekki þegar kemur að þeim verkefnum, sem finnast um land allt og kalla á frekari uppbyggingu. Fjölmörg verkefni bíða okkar og ákallið kemur úr öllum áttum. Það skiptir sköpum að fjármunir séu nýttir með þeim hætti að þeir efli spennandi uppbyggingu í öllum landshlutum á jafnan máta.

Samfélagið, þingmenn og ráðherrar þurfa að átta sig á að misskipting fjármagns á milli landshluta af þessu tagi ýtir sannarlega ekki undir það markmið að allir hafi jöfn tækifæri óháð búsetu.

Þarna þurfum við að gera betur.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Langþráðir samningar fyrir fólkið í landinu

Deila grein

29/06/2023

Langþráðir samningar fyrir fólkið í landinu

Í vikunni bárust þau gleðilegu tíðindi að Sjúkratryggingar Íslands og Læknafélag Reykjavíkur hafi náð samkomulagi um þjónustu sérgreinalækna. Hér er um að ræða langtímasamning til 5 ára og mun hann taka að fullu gildi þann 1. september næstkomandi. Samningurinn markar tímamót sem tryggir gott og jafnt aðgengi að mikilvægri læknisþjónustu óháð efnahag í samræmi við stefnu stjórnvalda. Það má með sanni segja að hér hafi verið lyft grettistaki en líkt og flestir vita hafa sérgreinalæknar verið samningslausir síðan í janúar 2019. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur lagt ríka áherslu á að finna samningsgrundvöll við sérfræðilækna og það hefur nú tekist með góðum árangri. Það að samningar hafi náðst er farsælt fyrir alla er koma að borðinu, þó sérstaklega fólkið í landinu.

Ávinningur fyrir samfélagið allt

Einn helsti ávinningur samningsins sem nú hefur verið undirritaður er umtalsverð lækkun á greiðsluþátttöku almennings í þjónustu sérfræðilækna. Ætla má að með nýjum samningi muni greiðsluþátttaka almennings lækka um allt að 3 milljarða króna á ári. Hér er um að ræða mikilvægt skref í þá átt að stuðla að heilbrigðisjöfnuði og tryggja að allir hafi jafnan aðgang að sérfræðilæknum. Þess utan verður komið á fót samráðsnefnd aðila frá Sjúkratryggingum Íslands og Læknafélagi Reykjavíkur sem mun vinna í sameiningu að heildstæðri þjónustu- og kostnaðargreiningu og reglulegri endurskoðun gjaldskrár. Auk þess myndar samningurinn sterka umgjörð utan um starfsemi sérfræðilækna sem mun aftur stuðla að framþróun og nýsköpun þjónustunnar. Það er óhætt að segja að þessir samningar marki nýtt upphaf frá stöðnun síðustu ára.

Aukið aðgengi að þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni

Í kjölfarið á þessum samningum telur undirrituð afar brýnt að áfram verði haldið í samningagerð við sérfræðilækna svo þeir sjái hag sinn í því að sinna þjónustu einnig út á land. Markmiði með þeim samningum ætti að vera að jafna aðgengi að þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni þannig að treysta megi að þjónusta þeirra sé einnig hluti af heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi. Þá þarf að skilgreina hvaða þjónusta eigi að vera hluti af nærumhverfi og efla þjónustuna í samvinnu við lækna, sjúkratryggingar og heilbrigðisumdæmi á hverjum stað.

Staðreyndin er sú að þjónusta sérfræðilækna á landsbyggðinni hefur átt undir högg að sækja síðustu ár sökum lítillar nýliðunar og óhagstæðra skilyrða. Staðan er nú þannig að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að miklu leyti að sækja sér þjónustu sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðið. Undirrituð telur afar mikilvægt að skoða verði af fullri alvöru hvort færa megi þjónustu sérfræðilækna í auknum mæli á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni einhverja daga á ári, vikur eða mánuði, allt eftir eðli og þörf þjónustunnar á hverjum stað fyrir sig. Þannig má spara bæði ferðalög sjúklinga, ferðakostnað og kolefnisspor ásamt því að bæta þjónustu.

Svo það sé mögulegt að veita þjónustu með þessum hætti þarf að kortleggja og greina þörf eftir þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni meðal annars eftir fólksfjölda og aldursgreiningu og gera heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni færi á að bjóða upp á þjónustu sérfræðilækna í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilbrigðisumdæmi. Má í því samhengi nefna aðgengi að barnalæknum, geðlæknum, háls- nef- og eyrnalæknum, fæðingar- og kvensjúkdómalæknum, öldrunarlæknum, hjartalæknum og innkirtlalæknum. Er hér ekki tæmandi talið. Miklir möguleikar eru fólgnir í fjarheilbrigðisþjónustu en sumt er þó þess eðlis að best væri ef þjónustan væri veitt í nærumhverfi.

Sparnaður fyrir samfélagið

Víða í kringum landið eru heilbrigðisstofnanir þar sem sérfræðilæknar gætu nýtt aðstöðu til þess að taka á móti sjúklingum í viðtöl eða eftir atvikum í aðgerðir. Þá mætti einnig byggja upp skilgreinda sérfræðiklasa á landsbyggðinni þar sem þjónusta sérfræðilækna færi fram t.d. fyrir vestan, austan og norðan. Sú sem hér skrifar leggur ekki mat á það hverslags rekstrarform væri ákjósanlegast fyrir klasa sem þessa. Mestu máli skiptir að þjónustan sé til staðar á hverjum stað og skapaður sé hvati fyrir sérfræðilækna til þess að bjóða upp á þjónustu sína á landsbyggðinni.

Með því að auka aðgengi að þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni bætum við þjónustu við íbúa á stóru svæði sem og búsetuskilyrði. Það er bæði hagræði fyrir sjúkratryggingar sem og sjúklingana sjálfa að flytja frekar þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðina þar sem því verður við komið í stað þess að flytja fjölda sjúklinga á höfuðborgarsvæðið.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Stór­felld upp­bygging hag­kvæmra í­búða

Deila grein

23/06/2023

Stór­felld upp­bygging hag­kvæmra í­búða

Miklar áskoranir hafa verið á húsnæðismarkaði síðustu misseri meðal annars vegna mikillar fólksfjölgunar og nú síðast vegna samdráttar á markaði vegna verðbólgu. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti fyrr í vikunni áætlun um stórfellda uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni. Um er að ræða aðgerðir sem hafa það að markmiði að bregðast við krefjandi stöðu sem skapast hafa vegna verðbólgu. Fyrirhugað er að byggja töluvert fleiri íbúðir á árunum 2023-2025 frá því sem áður var áætlað eða alls 2.800 íbúðir í stað 1.250 og af þeim verða byggðar 800 íbúðir strax á þessu ári. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að tvöfalda framlög til stofnlána til leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána til íbúðarkaupa. Fjármögnun hefur verið tryggð með svigrúmi í fjármálaáætlun og hliðrun annarra verkefna, því ekkert til fyrirstöðu en að taka fram verkfærin og fara af stað.

Stofnframlög og hlutdeildarlán

Stofnlánakerfið hefur þann tilgang að styðja við uppbyggingu leiguíbúða með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum við uppbyggingu leiguíbúða innan almenna húsnæðiskerfisins. Þegar ríki og sveitarfélög leggja fram stofnframlag til uppbyggingar á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga er mögulegt að skapa grunn fyrir lægra leiguverði. Markmiðið með stofnlánakerfinu er að leigufjárhæð sé í samræmi við greiðslugetu og að hún fari að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Stofnlánakerfið hefur reynst vel og það er sérstakt fagnaðarefni hvernig verið er með þessum aðgerðum að stórauka fjármagn til bygginu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni. Undirrituð telur þessa leið vera bæði skynsamlega og góða.

Þá hefur reglugerð um hlutdeildarlán verið breytt með það að markmiði að auðvelda fólki að kaupa íbúðir. Um er að ræða lánafyrirkomulag þar sem ríkið fjárfestir 20% í eigninni á móti kaupanda. Þetta eru lán sem eru aðeins í boði fyrir fyrstu kaupendur og þá sem hafa ekki átt íbúð undanfarið fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláni og þegar eignin er seld þá fær ríkið sinn 20% hluta til baka. Með breytingum á reglugerðinni nú hefur hámarksverð íbúða verið hækkað, verðflokkar sveitarfélaga endurskoðaðir og tekjumörk lántaka uppfærð. Þess utan verða hlutdeildarlánum úthlutað mánaðarlega í stað annan hvers mánuð líkt og áður var. Hlutdeildarlán er góður kostur fyrir þá einstaklinga sem vilja eignast eigið húsnæði í stað þess að vera á leigumarkaði.

Samfélagslega mikilvægt

Stjórnvöld og sveitarfélög hafa mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að uppbyggingu húsnæðis fyrir tekjulægri hópa samfélagsins og eru þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar liður í því að minnka ójöfnuð í samfélaginu. Hér er verið að tryggja húsnæði fyrir þann hóp sem annars ætti erfitt með að koma sér upp heimili og það er næsta víst að það kemur til með að hafa jákvæð áhrif á samfélagið í heild hvort sem er til skemmri eða lengri tíma litið. Með uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir tekjulága eru skapaðar aðstæður fyrir einstaklinga að bæta lífskjör sín og stöðu í samfélaginu. Þannig getum við betur stuðlað að því sem samfélag að allir hafi jöfn tækifæri til þess að vaxa og dafna.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. júní 2023.

Categories
Greinar

Eldra fólk – stefna til framtíðar

Deila grein

15/06/2023

Eldra fólk – stefna til framtíðar

Á nýliðnu þingi var samþykkt þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun um þjónustu við eldra fólk til fjögurra ára, árin 2023-2027. Áætlunin hefur fengið nafnið Gott að eldastog er á ábyrgð heilbrigðisráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Tilgangurinn með áætluninni er að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. Á tímabilinu verður farið í þróunarverkefni og prófanir semkoma til með að nýtast til ákvarðanatöku um þjónustu við eldra fólk til framtíðar. Nú þegar hafa ráðuneytin auglýst eftir samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir sem vilja vinna að þróunarverkefnum um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. 

Ólíkar þarfir

Breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar er ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum auk þess sem eldra fólk lifir lengur með betri heilsu. Kröfur eldra fólks til þjónustu hafa að sama skapi breyst verulega frá því sem áður var því er þörf er á breyttum viðhorfum í þjónustu við eldra fólk með áherslu á aldursvænt, heilsueflandi og styðjandi samfélag. Eldra fólk er fjölbreyttur hópur, það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum. Það er afar mikilvægt að geta mætt einstaklingum á þeim stað þar sem þeir eru og þróa úrræði til þess að mæta mismunandi þörfum eldra fólks. Markmið allra aðgerða ætti ávallt að vera að bæta lífsgæði ásamt því að viðhalda færni og virkni einstaklingsins en forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stóran þátt í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar. 

Gagnvirkt mælaborð

Í haust mælti undirrituð fyrir þingsályktunartillögu um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks eða svokallað gagnvirkt mælaborð. Það er ánægjulegt að sú hugmynd hafi nú verið tekin upp sem hluti af þessari áætlun. Gagnvirkt mælaborð hefur það að markmiði að halda utan um og safna tölfræðilegum upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks og ná þannig fram heildarmynd af almennri stöðu eldra fólks í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við. Hingað til hafa ekki legið fyrir markvissar, samræmdar og tímanlegar upplýsingar um líðan, stöðu og velferð eldra fólks á hverjum tíma. Með mælaborði sem þessu getum við náð fram heildarmynd af stöðu eldra fólks á hverjum tíma fyrir sig og þannig geta stjórnvöld beint sjónum sínum að þeim verkefnum sem brýnast liggja við og forgangsraðað í rétta átt. 

Ég fagna því góða verkefni sem hér er farið af stað með Gott að eldast og er viss um að það sé heillaspor til framtíðar. Eldra fólk þarf fjölbreytta og ólíka þjónustu og það er mikilvægt að þau fái að vera þátttakendur í öllum málum sem þau snerta.

Ingibjörg Isaksen Þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á vikurbladid.is 14. júní 2023.

Categories
Greinar

Verið undir­búin fyrir flug­tak

Deila grein

13/06/2023

Verið undir­búin fyrir flug­tak

Það er fagnaðarefni að eitt af þeim málum sem varð að lögum á Alþingi Íslendinga í síðustu viku hafi verið frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um varaflugvallagjald. Í því felst að lagðar eru 200 krónur á flugfargjöld og munu þær renna til uppbyggingar varaflugvalla landsins. Alls er búist við því að gjaldið skili 1,3 milljörðum króna í ríkissjóð á næsta ári sem mun nýtast vel í brýna uppbyggingu flugvallanna á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík.

Fjármögnun nauðsynlegra framkvæmda

Uppbygging varaflugvalla á Íslandi hafa ekki verið í samræmi við vöxt alþjóðaflugs síðustu misseri. Það liggur fyrir að ráðast þarf í nauðsynlegar framkvæmdir svo flugvellirnir geti sinnt hlutverki sínu sem mikilvægar gáttir inn í landið. Þessi skref sem stigin eru með bættri fjármögnun eru mikilvæg og leggja grunninn að því sem lengi hefur verið talað um, það er að opna fleiri gáttir inn til landsins og dreifa þannig ferðamönnum víðar um landið okkar. Á Egilsstöðum er stærsta framkvæmdin uppbygging á flughlaði og akbraut. Á Akureyri verður framkvæmdum lokið við stækkun flugstöðvar og í Reykjavík verður ráðist í endurbyggingu flugstöðvar. Framlög til viðhalds flugvalla um land allt aukast með þessu til muna.

Skynsamleg gjaldtaka

Ísland er eitt af fáum ríkjum í heiminum sem hefur ekki lagt neinn skatt á flugferðir, en skattheimta sem þessi er mjög sambærileg í flestum öðrum ríkjum innan EES. Það er mikilvægt að við nýtum skynsamlegar leiðir til þess að fjármagna uppbygging á nauðsynlegum innviðum. Undirrituð telur afar skynsamlegt að fara í gjaldtöku sem þessa og tryggja þannig fjármagn til þess að fara í nauðsynlega uppbyggingu á innanlandsflugvöllum. Í stóra samhenginu er þetta afskaplega hóflegt gjald á hvern farþega, minna en ígildi kaffibolla.

Stuðningur við ferðaþjónustu

Fyrir utan að varaflugvellir eru mikilvægir í tillit til öryggissjónarmiða, opna þeir einnig möguleika á að fjölga farþegum til landsins, auknir farþegar þýða auknar tekjur til landsins. Flugvellir á landsbyggðinni styðja við ferðaþjónustu og fyrirtæki. Innviðaráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra hafa lagt mikla áherslu á það í sínum störfum að opna gáttirnar á Akureyri og Egilsstöðum fyrir beinu flugi frá Evrópu, bæði með markvissri uppbyggingu og með stuðningi Flugþróunarsjóðs. Heimafólk á Norðausturlandi hafa sýnt ótrúlega framsýni og dugnað í störfum sínum og við sjáum árangurinn koma í ljós smátt og smátt.

Það er bjart fram undan í fluginu. Þau skref sem stigin hafa verið leggja grunninn að fjölbreyttara og öflugra atvinnulífi á Norðausturlandi.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verðum að taka afstöðu

Deila grein

11/05/2023

Verðum að taka afstöðu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að „Sett verða metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla til að treysta fæðuöryggi.“ Síðastliðin ár hefur áskrifendum hugmyndafræðinnar um fæðuöryggi fjölgað. Við sjáum þau áhrif sem utanaðkomandi aðstæður geta skapað, þá til dæmis heimsfaraldur COVID og stríð í Evrópu. Atburðir sem Íslendingar hafa engin völd yfir en aðstæðurnar hafa þó áhrif hér á landi. Það verður sífellt mikilvægara að við tryggjum það að við séum sjálfum okkur næg til framtíðar og tryggjum fæðuöryggi landsins með hollu og næringarríku fæði.

Fæðuöryggi byrjar hjá bændum

Öflugur landbúnaður er þýðingarmikill fyrir fæðuöryggi í heimi þar sem aðfangakeðjur eru ótryggar auk þess sem ýmsar aðrar ógnir steðja að. Ef við ætlum að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla þá verðum við að tryggja bændum landsins viðunandi rekstrargrundvöll og afkomu. Keðjan hefst þar. Ef starfsskilyrði bænda eru þess fallin að hrekja fólk úr stéttinni og hafa letjandi áhrif á nýliðun þá munum við væntanlega horfast í augu við talsvert brottfall.

Þrotlaus vinna bænda er ekki sjálfgefin þó svo að margir hafi tekið henni sem sjálfsögðum hlut of lengi. Mikilvægi stuðnings ríkisins til innlendrar matvælaframleiðslu er óumdeilt. Stuðningurinn er ýmist beint eða óbeinn. Sem dæmi má nefna aukna tollvernd á innfluttum afurðum og greiðslumark lögbýla. Þar eigum við langt í land. Innflutningur matvælaafurða hefur stóraukist á síðustu árum og virðist ekki linna, en hann hefur haft lamandi áhrif á innlenda matvælaframleiðslu, sem getur ekki keppt við risavaxinn verksmiðjubúskap sem uppfyllir ekki sömu kröfur og staðla og íslensk framleiðsla stenst. Þá til dæmis hvað varðar sýklalyfjaónæmi. Aukin tollvernd myndi bæði tryggja ríkinu auknar tekjur ásamt því að jafna aðstöðumun innlendrar og erlendrar matvælaframleiðslu.

Alvarleg staða

Við sjáum þá stöðu sem er við líði í innlendri matvælaframleiðslu. Nú berast fregnir að því að innlend kjötframleiðsla hopi mjög skart og jafnframt að miklir rekstrarerfiðleikar séu í mörgum búgreinum. Því er spáð að innlend kjötsala dragist mikið saman á næstu árum. Framangreindur innflutningur og dvínandi rekstrargrundvöllur veldur því að framleiðsla á innlendri kjötafurð stenst ekki undir nauðsynlegri fjárfestingu. Með þessu áframhaldi munum við horfast í augu við gríðarlegan samdrátt í íslenskum landbúnaði, með tilheyrandi skorti á svína-, nauta- og lambakjöti, ef ekki verður gripið til aðgerða. Mörg býli berjast í bökkum og sumir kjósa að hætta. Kynslóðaskipti og nýliðun eru varla möguleg í núverandi rekstar- og skuldaumhverfi.

Þetta er þeim mun sorglegra þar sem mannauðurinn er til staðar. Fullt af áhugasömu og kraftmiklu fólki vill vinna við landbúnað og viðhalda hefðinni, sögunni og hugsjóninni. Íslenskur landbúnaður er nefnilega svo mikið meira en matvælin. Hann er samofinn sögu okkar og hefðum. Gegnum landbúnaðinn miðlum við menningu og sögu landsins. Landbúnaðurinn leggur í raun til litina, lyktina og leiktjöldin á því leiksviði sem innlendir og erlendir ferðamenn sjá. Án landbúnaðarins verður dauflegt um að litast í sveitum. Að mínu viti lýsir það hnípinni þjóð sem nærir ekki þann jarðveg sem landbúnaðinum eru lífsnauðsynlegur.

Hvernig land viljum við byggja?

Málefni landbúnaðarins og fæðuöryggi eru neytendamál, lýðheilsumál og byggðamál og Íslendingar þurfa að taka afstöðu. Við þurfum að ákveða hvernig land við viljum byggja til framtíðar. Hvort við viljum viðhalda núverandi stöðu og stefna í átt að tómlegri matvælaframleiðslu, en þá er það tímaspursmál hvenær við þurfum að reiða okkur að fullu á innflutning erlendis frá. Eða viljum við byggja upp land þar sem tækifærin eru til staðar, byggðir blómstra og bændur viðhalda gæða framleiðslu með þá sérstöðu sem við Íslendingar þekkjum svo vel.

Ef við veljum seinni afstöðuna þá þurfum við að grípa til alvöru aðgerða eins fljótt og auðið er og bæta rekstrarumhverfi bænda. Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi þann 2. maí sl. vakti ég athygli á umræddu ástandi og benti forsætisráðherra á mikilvægi þess að stofnaður verði starfshópur sem fer ítarlega yfir núverandi stöðu og leggur til aðgerðir sem myndu rétta úr kútnum og koma innlendri matvælaframleiðslu aftur í réttan farveg. Ég bind miklar vonir við að slíkur starfshópur verði stofnaður og að þeim aðgerðum, sem hann leggur til, verði fylgt af stjórnvöldum. Þannig tökum við alvöru afstöðu og tryggjum fæðuöryggi landsins, sérstöðu Íslands og tryggjum blómlega byggð um allt land.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greini birtist fyrst í Bændablaðinu 11. maí 2023.