Categories
Greinar

Þakkir fyrir liðið ár

Deila grein

02/01/2023

Þakkir fyrir liðið ár

Nú hefur árið 2022 runnið sitt skeið. Það hefur svo sannarlega verið viðburðaríkt ár, bæði fyrir mig persónulega og í pólitíkinni. Það er ávallt sérstök stund í lok árs hvers árs að setjast niður og hugsa um árið sem er að líða, sum ár eru viðburðaríkari en önnur og það má með sanni segja að þetta ár hafi verið eitt af þeim viðburðaríku. Í upphafi árs var enn heimsfaraldur í gangi sem við höfum sem betur fer náð kveðja að mestu. Nýjar áskoranir dundu yfir með innrás Rússa í Úkraínu sem enn sér ekki fyrir endann á. Við búum því enn við ákveðið óvissustig en af öðrum toga að þessu sinni. Þá voru haldnar sveitarstjórnarkosningar í maí og var ánægjulegt að sjá gott gengi Framsóknar víða um land. Ég er þakklát fyrir það traust sem okkur í Framsókn er sýnt og við ætlum okkur, hvort sem það er á Alþingi eða í sveitarstjórnum víða um land, að standa undir þeirri ábyrgð og trausti sem okkur er falin.

Við byggjum á góðum grunni

Þrátt fyrir að ríkið þurfti að sæta þungum höggum vegna heimsfaraldurs höfum við náð góðum árangri á nýliðnu ári. Þau fjárlög, sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir hátíðirnar, gefa góða mynd af stöðu efnahagsmála. Á sama tíma og mikilvægt er auka fjármagn til tiltekinna verkefna þurfum einnig við að halda í til þess að auka ekki við þenslu og verðbólgu. Forgangsraða þarf fjármunum í rétta átt og það hefur verið gert eftir fremsta megni. Aukin áhersla er lögð á heilbrigðiskerfið í fjárlögum fyrir árið 2023 en efling heilbrigðiskerfisins er eitt af aðalstefnumálum Framsóknar á þessu kjörtímabili.  Styrkja á rekstrargrunn Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslnanna en þá fer einnig fjármagn til annarra mikilvægra verkefna í heilbrigðisþjónustunni. Ætlunin er að tryggja öllum sem bestu þjónustu óháð stöðu og efnahag. Auk þessa höldum við áfram að byggja upp innviði, bæta samgöngur ásamt því að fjölga íbúðum og tryggja húsnæðisöryggi þjóðarinnar.

Íslenskt samfélag stendur svo sannarlega á traustum grunni, það sést svo vel þegar við sjáum samfélagið færast aftur í fyrra horf eftir heimsfaraldur. Þrátt fyrir smæð sína býr Ísland við sterkari stöðu en margar aðrar Evrópuþjóðir, fyrir það getum við verið þakklát. Við höfum öll tækifæri til að búa okkur gott samfélag en þurfum að gæta þess að spila rétt úr þeim spilum sem okkur er gefið. Við búum við lítið atvinnuleysi, höfum öflug fyrirtæki og góða innviði. Þá eru starfrækt á Íslandi máttug fyrirtæki sem sækja ótrauð áfram og eru leiðandi í nýsköpun. Ísland er fallegt land sem ferðamenn vilja sækja heim, tekjur af ferðamönnum eru nú orðnar meiri en árið 2019 og til landsins streyma stór kvikmyndaverkefni sem eflaust munum koma til með að auka enn á vinsældir landsins. Við erum lánsöm þjóð.

Tækifæri til að gera betur

Síðustu dagar hafa farið í það að njóta hátíðanna með fjölskyldu og vinum en hugur þingmannsins reikar þó ávallt að þeim verkefnum sem bíða okkur á komandi ári. Það verður aldrei þannig að við getum sagt að við séum búin að öllu í pólitík, líkt og við segjum oft í undirbúningi jóla. Verkefnin eru fjölmörg, hvort sem er hér í Norðausturkjördæmi eða á landinu öllu. Efling ferðaþjónustunnar hér á Norðurlandi eystra hefur verið mikil og tækifærin henni tengd fjölmörg. Til að auka enn frekar samkeppnishæfni svæðisins þurfum við að halda áfram að bæta flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum í millilandaflugi. Verkefninu að fjölga aðlaðandi störfum á Norðausturlandi, bæði opinberum og innan einkageirans, er aldrei lokið. Efling landsbyggðanna og atvinnulífs þeirra er alltaf okkur kjörnum fulltrúum ofarlega í huga.

Öflugra heilbrigðiskerfi

Þá hafa heilbrigðismálin á svæðinu verið mér ofarlega í huga. Það er mikilvægt er að styrkja enn frekar heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og bæta þannig þjónustu við íbúa. Þá höfum við gríðarlega góð tækifæri til þess að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu með því að efla Sjúkrahúsið á Akureyri. Með því að efla sjúkrahúsið  á Akureyri getum við veitt betri heilbrigðisþjónustuþjónustu á Norður og Austurlandi þar sem sérfræðingar af sjúkrahúsinu starfa náið með öðrum starfsstöðvum heilbrigðisstofnana á svæðinu. Góð og metnaðarfull heilbrigðisþjónusta eins og Sjúkrahúsið á Akureyri hefur möguleika á að veita ef rétt er gefið bætir búsetuskilyrði á svæðum sem sum eiga undir högg að sækja.

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni hefur átt undir höggi að sækja síðustu ár sökum lítillar nýliðunar auk samningsleysis og nú er staðan sú að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að langstærstu leyti að sækja þjónustu sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðið. Undirrituð telur mikilvægt að kortleggja og greina þörf eftir sérfræðilæknum á landsbyggðinni meðal annars eftir fólksfjölda og aldursgreiningu og gera heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni mögulegt að bjóða upp á sérfræðiþjónustu í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilbrigðisumdæmi. Það er mikilvægt að aðstæður líkt og þær sem sköpuðust fyrir austan um hátíðirnar endurtaki sig ekki, það verður að tryggja þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni.  Þá er það lykilatriði að ná samningum við sérfræðilækna en það er eitt að aðaláherslumálum Willum Þórs heilbrigðisráðherra.

Sjálfbærni í orkumálum

Við eigum margt ógert í orkumálum hér á landi, en á nýliðnu ári höfum við enn á ný séð mikilvægi tryggra orkuinnviða. Halda þarf áfram að styrkja og efla dreifikerfi raforku um allt land. Síðastliðið vor náðum við að losa um áralanga stöðnun þegar ramminn var samþykktur, en betur má ef duga skal. Samkvæmt orkustefnu Íslands er markmiðið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þetta er loftslagsvænt og efnahagslegt markmið. Hvernig ætlum við að ná þeim markmiðum og hvernig við ætlum að ná í þá orku sem þarf til er enn ósvarað. Mikilvægt er að árið 2023 verði nýtt vel til þess að svara þessum spurningum. Samkvæmt núverandi raforkuspá fyrir Ísland er gert ráð fyrir að orkuþörf hér á landi geti aukist um tæplega 60% til ársins 2040 í stærstu sviðsmyndinni. Stoðir samfélagsins, atvinnulífið sem og heimilin í landinu, munu áfram þurfa græna orku. Þar að auki þarf orku í orkuskiptin. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Skuldbindingar Íslands til loftslagsmála eru ríkar og til að fylgja þeim eftir þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Staðreyndin er sú að okkur vantar meiri orku til að uppfylla markmið okkar, og það er ekki svo einfalt að við drögum hana upp úr hatti.  Þvert á móti þarf að sýna mikla framsýni við öflun endurnýjanlegrar orku því það tekur mörg ár. Við sjáum fyrir okkur að í framtíðinni munu orkuskipti ekki einungis verða á einkabílnum heldur sjáum við að atvinnulífið er að bregðast við með eftirtektarverðum hætti. Ætlunin er að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti í framtíðinni sem er handan við hornið. Við þurfum að virkja meira og sækja þessa grænu orku sem við búum að hér á landi. En þess ber þó að geta að það þarf að gerast í sátt og samlyndi og með virðingu fyrir náttúru landsins. Framtíðarsýnin á að vera sú að við verðum sjálfbær, hættum að kaupa olíu og bensín frá útlöndum og framleiðum í samræmi við orkuþörf Íslands. Það er okkar stærsta framlag til loftslagsmála og sjálfbærni.  Það er líka eina leiðin til að tryggja orkusjálfstæði landsins.

Verkefnin verða ávallt til staðar

Í hverjum mánuði og á hverjum degi eru ólík verkefni og viðfangsefni sem alþingismenn þurfa að takast á við. Sagan hefur sýnt okkur að öll heimsmyndin getur breyst á einu andartaki og þá skiptir máli að hafa sterkar stoðir og skýra framtíðarsýn. Þrátt fyrir sviptivinda þá stöndum við saman á sterkum grunni og þennan grunn þarf að sífellt að hlúa að, það er verkefni okkar á Alþingi. Ég er meðvituð um að það er íbúum Norðausturkjördæmis að þakka að ég fái tækifæri til þess að koma áfram öllum þeim málum sem ég ber í brjósti. Ég vil því þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið árið 2022 en ekki síst fyrir traustið. Það er sannur heiður að fá að vinna í ykkar þágu á Alþingi á hverjum degi.

Ég vona svo sannarlega að árið sem er að líða hafi verið ykkur gott og að nýtt ár færi okkur öllum gæfu og gleði. Bestu óskir um gleðilegt nýtt ár 2023!

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 31. desember 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Þakkir fyrir liðið ár

Deila grein

31/12/2022

Þakkir fyrir liðið ár

Nú hefur árið 2022 runnið sitt skeið. Það hefur svo sannarlega verið viðburðaríkt ár, bæði fyrir mig persónulega og í pólitíkinni. Það er ávallt sérstök stund í lok árs hvers árs að setjast niður og hugsa um árið sem er að líða, sum ár eru viðburðaríkari en önnur og það má með sanni segja að þetta ár hafi verið eitt af þeim viðburðaríku. Í upphafi árs var enn heimsfaraldur í gangi sem við höfum sem betur fer náð kveðja að mestu. Nýjar áskoranir dundu yfir með innrás Rússa í Úkraínu sem enn sér ekki fyrir endann á. Við búum því enn við ákveðið óvissustig en af öðrum toga að þessu sinni. Þá voru haldnar sveitarstjórnarkosningar í maí og var ánægjulegt að sjá gott gengi Framsóknar víða um land. Ég er þakklát fyrir það traust sem okkur í Framsókn er sýnt og við ætlum okkur, hvort sem það er á Alþingi eða í sveitarstjórnum víða um land, að standa undir þeirri ábyrgð og trausti sem okkur er falin.

Við byggjum á góðum grunni

Þrátt fyrir að ríkið þurfti að sæta þungum höggum vegna heimsfaraldurs höfum við náð góðum árangri á nýliðnu ári. Þau fjárlög, sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir hátíðirnar, gefa góða mynd af stöðu efnahagsmála. Á sama tíma og mikilvægt er auka fjármagn til tiltekinna verkefna þurfum einnig við að halda í til þess að auka ekki við þenslu og verðbólgu. Forgangsraða þarf fjármunum í rétta átt og það hefur verið gert eftir fremsta megni. Aukin áhersla er lögð á heilbrigðiskerfið í fjárlögum fyrir árið 2023 en efling heilbrigðiskerfisins er eitt af aðalstefnumálum Framsóknar á þessu kjörtímabili. Styrkja á rekstrargrunn Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslnanna en þá fer einnig fjármagn til annarra mikilvægra verkefna í heilbrigðisþjónustunni. Ætlunin er að tryggja öllum sem bestu þjónustu óháð stöðu og efnahag. Auk þessa höldum við áfram að byggja upp innviði, bæta samgöngur ásamt því að fjölga íbúðum og tryggja húsnæðisöryggi þjóðarinnar.

Íslenskt samfélag stendur svo sannarlega á traustum grunni, það sést svo vel þegar við sjáum samfélagið færast aftur í fyrra horf eftir heimsfaraldur. Þrátt fyrir smæð sína býr Ísland við sterkari stöðu en margar aðrar Evrópuþjóðir, fyrir það getum við verið þakklát. Við höfum öll tækifæri til að búa okkur gott samfélag en þurfum að gæta þess að spila rétt úr þeim spilum sem okkur er gefið. Við búum við lítið atvinnuleysi, höfum öflug fyrirtæki og góða innviði. Þá eru starfrækt á Íslandi máttug fyrirtæki sem sækja ótrauð áfram og eru leiðandi í nýsköpun. Ísland er fallegt land sem ferðamenn vilja sækja heim, tekjur af ferðamönnum eru nú orðnar meiri en árið 2019 og til landsins streyma stór kvikmyndaverkefni sem eflaust munum koma til með að auka enn á vinsældir landsins. Við erum lánsöm þjóð.

Tækifæri til að gera betur

Síðustu dagar hafa farið í það að njóta hátíðanna með fjölskyldu og vinum en hugur þingmannsins reikar þó ávallt að þeim verkefnum sem bíða okkur á komandi ári. Það verður aldrei þannig að við getum sagt að við séum búin að öllu í pólitík, líkt og við segjum oft í undirbúningi jóla. Verkefnin eru fjölmörg, hvort sem er hér í Norðausturkjördæmi eða á landinu öllu. Efling ferðaþjónustunnar hér á Norðurlandi eystra hefur verið mikil og tækifærin henni tengd fjölmörg. Til að auka enn frekar samkeppnishæfni svæðisins þurfum við að halda áfram að bæta flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum í millilandaflugi. Verkefninu að fjölga aðlaðandi störfum á Norðausturlandi, bæði opinberum og innan einkageirans, er aldrei lokið. Efling landsbyggðanna og atvinnulífs þeirra er alltaf okkur kjörnum fulltrúum ofarlega í huga.

Öflugra heilbrigðiskerfi

Þá hafa heilbrigðismálin á svæðinu verið mér ofarlega í huga. Það er mikilvægt er að styrkja enn frekar heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og bæta þannig þjónustu við íbúa. Þá höfum við gríðarlega góð tækifæri til þess að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu með því að efla Sjúkrahúsið á Akureyri. Með því að efla sjúkrahúsið á Akureyri getum við veitt betri heilbrigðisþjónustuþjónustu á Norður og Austurlandi þar sem sérfræðingar af sjúkrahúsinu starfa náið með öðrum starfsstöðvum heilbrigðisstofnana á svæðinu. Góð og metnaðarfull heilbrigðisþjónusta eins og Sjúkrahúsið á Akureyri hefur möguleika á að veita ef rétt er gefið bætir búsetuskilyrði á svæðum sem sum eiga undir högg að sækja.

Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni hefur átt undir höggi að sækja síðustu ár sökum lítillar nýliðunar auk samningsleysis og nú er staðan sú að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að langstærstu leyti að sækja þjónustu sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðið. Undirrituð telur mikilvægt að kortleggja og greina þörf eftir sérfræðilæknum á landsbyggðinni meðal annars eftir fólksfjölda og aldursgreiningu og gera heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni mögulegt að bjóða upp á sérfræðiþjónustu í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilbrigðisumdæmi. Það er mikilvægt að aðstæður líkt og þær sem sköpuðust fyrir austan um hátíðirnar endurtaki sig ekki, það verður að tryggja þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni. Þá er það lykilatriði að ná samningum við sérfræðilækna en það er eitt að aðaláherslumálum Willum Þórs heilbrigðisráðherra.

Sjálfbærni í orkumálum

Við eigum margt ógert í orkumálum hér á landi, en á nýliðnu ári höfum við enn á ný séð mikilvægi tryggra orkuinnviða. Halda þarf áfram að styrkja og efla dreifikerfi raforku um allt land. Síðastliðið vor náðum við að losa um áralanga stöðnun þegar ramminn var samþykktur, en betur má ef duga skal. Samkvæmt orkustefnu Íslands er markmiðið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þetta er loftslagsvænt og efnahagslegt markmið. Hvernig ætlum við að ná þeim markmiðum og hvernig við ætlum að ná í þá orku sem þarf til er enn ósvarað. Mikilvægt er að árið 2023 verði nýtt vel til þess að svara þessum spurningum. Samkvæmt núverandi raforkuspá fyrir Ísland er gert ráð fyrir að orkuþörf hér á landi geti aukist um tæplega 60% til ársins 2040 í stærstu sviðsmyndinni. Stoðir samfélagsins, atvinnulífið sem og heimilin í landinu, munu áfram þurfa græna orku. Þar að auki þarf orku í orkuskiptin. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Skuldbindingar Íslands til loftslagsmála eru ríkar og til að fylgja þeim eftir þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Staðreyndin er sú að okkur vantar meiri orku til að uppfylla markmið okkar, og það er ekki svo einfalt að við drögum hana upp úr hatti. Þvert á móti þarf að sýna mikla framsýni við öflun endurnýjanlegrar orku því það tekur mörg ár. Við sjáum fyrir okkur að í framtíðinni munu orkuskipti ekki einungis verða á einkabílnum heldur sjáum við að atvinnulífið er að bregðast við með eftirtektarverðum hætti. Ætlunin er að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti í framtíðinni sem er handan við hornið. Við þurfum að virkja meira og sækja þessa grænu orku sem við búum að hér á landi. En þess ber þó að geta að það þarf að gerast í sátt og samlyndi og með virðingu fyrir náttúru landsins. Framtíðarsýnin á að vera sú að við verðum sjálfbær, hættum að kaupa olíu og bensín frá útlöndum og framleiðum í samræmi við orkuþörf Íslands. Það er okkar stærsta framlag til loftslagsmála og sjálfbærni. Það er líka eina leiðin til að tryggja orkusjálfstæði landsins.

Verkefnin verða ávallt til staðar

Í hverjum mánuði og á hverjum degi eru ólík verkefni og viðfangsefni sem alþingismenn þurfa að takast á við. Sagan hefur sýnt okkur að öll heimsmyndin getur breyst á einu andartaki og þá skiptir máli að hafa sterkar stoðir og skýra framtíðarsýn. Þrátt fyrir sviptivinda þá stöndum við saman á sterkum grunni og þennan grunn þarf að sífellt að hlúa að, það er verkefni okkar á Alþingi. Ég er meðvituð um að það er íbúum Norðausturkjördæmis að þakka að ég fái tækifæri til þess að koma áfram öllum þeim málum sem ég ber í brjósti. Ég vil því þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið árið 2022 en ekki síst fyrir traustið. Það er sannur heiður að fá að vinna í ykkar þágu á Alþingi á hverjum degi.

Ég vona svo sannarlega að árið sem er að líða hafi verið ykkur gott og að nýtt ár færi okkur öllum gæfu og gleði. Bestu óskir um gleðilegt nýtt ár 2023!

Ingibjörg Isaksen, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 31. desember 2022.

Categories
Greinar

Aukin lífsgæði á landsbyggðinni

Deila grein

10/12/2022

Aukin lífsgæði á landsbyggðinni

Síðastliðin ár höfum við séð mikla fjölgun heimsókna ferðamanna til Íslands. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll, en með tilkomu nýrra flugfélaga í millilandaflug hafa nýjar gáttir opnast inn í landið. Félögin fljúga bæði frá Akureyri og Egilsstöðum, sem skapar mikil tækifæri í ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Einnig höfum við séð stóraukningu í framboði á veitingastöðum, gistirýmum, afþreyingu og verslunum á svæðinu okkar. Þessi stóraukning hefur vissulega orðið vegna mikils áhuga ferðamanna á svæðinu. Staðreyndin er að Norðausturland hefur mikið aðdráttarafl, býr yfir mikilli fegurð og það er frábært að vera þar. Það er nefnilega ekki bara fólkið á hverjum stað fyrir sig sem hefur ávinninginn af fjölgun ferðamanna á landsbyggðinni því þjónustustig á landsbyggðinni eflist með sterkari innviðum. Við þurfum að grípa tækifærin þegar þau birtast okkur, finna leiðir að betri og sanngjarnari dreifingu ferðamanna á milli landshluta og efla á sama tíma samgöngur um svæðið okkar. Það er okkur öllum og samfélaginu til heilla.

Aðstöðumunur flugvalla

Í kjölfarið sjáum við aðstöðumun millilandaflugvalla landsins á skýrari máta. Hann er margvíslegur, en nýlegar greiningar sýna fram á töluverðan kostnaðarmun á flugvélaeldsneyti milli flugvalla. Þar er flugvélaeldsneyti áberandi ódýrara á Keflavíkurflugvelli. Þá sérstaklega ef miðað er við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Þessi munur felst helst í stórauknum flutningskostnaði þegar eldsneytið er flutt á Norðausturland. Sérfræðingar hafa bent á ýmsar mögulegar leiðir til að jafna kostnaðarmuninn. Allt frá niðurgreiðslu kostnaðar að hálfu ríkisins, fjárfestingu í betri innviðum fyrir afgreiðslu og geymslu birgða til stofnunar óhagnaðardrifna afgreiðslufélaga.

Jöfnun kostnaðar og neyðarvörn

Ljóst er að ýmsar leiðir eru til staðar svo hægt sé að ná því markmiði að jafna kostnað á flugsteinolíu og afgreiðslu hennar á milli millilandaflugvalla hérlendis. Hér væri einnig um að ræða mikilvæga aðgerð til jöfnunar atvinnutækifæra á Akureyri og Egilsstöðum. Það er mikilvægt að við finnum leið til jafna kostnað á flugvélaeldsneyti og með því gera flugvellina okkar á Akureyri og Egilsstöðum samkeppnishæfari í móttöku ferðamanna.

Í því samhengi er einnig talið mikilvægt að komið verði fyrir neyðarbirgðum af flugvélaeldsneyti meðfram lausnum á ofangreindum aðstöðumuni, sem gætu verið geymdar á fleiri en einum stað. Slík fyrirbyggjandi aðgerð getur skipt sköpum ef nauðsynlegt væri að grípa til neyðarráðstafana.

Finnum leið

Undirrituð hefur lagt fram beiðni um skýrslu frá innviðaráðherra um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í samanburði við Keflavíkurflugvöll. Óskað er þess að í skýrslunni verði kveðið á um hugsanlegar aðgerðir sem hægt er að grípa til svo möguleiki sé á að ná framangreindum markmiðum á sem hagkvæmasta máta.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur

Deila grein

28/10/2022

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur

Fyrir okkur sem samfélag er mikilvægt að huga að með sem allra besta móti að eldri þegnum þessa lands. Eldra fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum. Þá þarf samfélagið einnig að vera tilbúið til þess að takast á við sístækkandi hóp eldra fólks með það að markmiði að koma til móts við þeirra þarfir. Svo hægt sé að greina stöðu eldra fólks með markvissum og skilvirkum hætti er nauðsynlegt að hafa við höndina rétt tól og tæki. Af því tilefni hef ég lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi sem snýr að um markvissri öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks.

Líðan velferð og efnahagur eldra fólks

Í tillögunni er lagt lag til að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að útbúa mælaborð með það að markmiði að halda utan um og safna tölfræðilegum upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks og ná þannig fram heildarmynd af almennri stöðu eldra fólks í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við. Í dag liggja ekki fyrir markvissar, samræmdar og tímanlegar upplýsingar um líðan, stöðu og velferð eldra fólks á hverjum tíma. Við þurfum að huga að framsetning upplýsinga sé samræmd, aðeins þannig getum við náð fram heildarmynd af stöðu eldra fólks á hverjum tíma fyrir sig. Þegar við höfum aðgang að slíkum gagnabanka geta stjórnvöld beint sjónum sínum að þeim verkefnum sem brýnast liggja við og forgangsraðað í rétta átt.

Önnur lönd hafa sum hver sett upp rafræn mælaborð eða gagnvirkar heimasíður sem birta tölfræði um ýmsa þætti er varða eldra fólk, velferð þess og líðan. Meðal þess sem slíkar upplýsingaveitur varpa ljósi á eru fjöldatölur, kynjahlutfall í hverjum aldurshópi, hve margir búa einir eða með öðrum, í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði, fjöldi og aldur þeirra sem leita á bráðamóttökur, fjöldi þeirra sem fá tiltekna aðstoð eða þjónustu hjá sveitarfélagi sínu og svo mætti lengi telja.

Nýtum reynsluna

Sem liður í því að endurskoða félagslega umgjörð barna á Íslandi þróaði Kópavogsbær mælaborð í samstarfi við UNICEF og félagsmálaráðuneytið í tengslum við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og verkefnið barnvænt sveitarfélag. Markmiðið með mælaborðinu var að halda utan um helstu tölfræðigögn er varpa ljósi á líðan, velferð og réttindi barna á Íslandi. Mælaborðið hefur hlotið mikið lof og sýnt að það varpar góðu ljósi á stöðu barna á Íslandi. Horfa má til þess mælaborðs og útbúa sérstakt mælaborð sem hefur það að markmiði að kortleggja líðan, stöðu og velferð aldraðra. Með mælaborði sem þessu má svo greina líðan og velferð eldra fólks og ná fram heildarmynd af almennri stöðu aldraðra í samfélaginu með það að markmiði að beina sjónum stjórnvalda að þeim verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða hverju sinni. Með nýju rafrænu mælaborði um líðan og velferð aldraðra mætti gera ráð fyrir að almenningur, notendur og stjórnvöld hafi betra aðgengi að raunupplýsingum um það sem er að gerast og hvað kallar á rétta úrlausn samfélagsins á hverjum tíma. Þá samdi Félags- og barnamálaráðuneytið í lok árs 2020 við Akureyrarbæ um þróunarverkefni við að undirbúa og kortleggja uppsetningu á mælaborði á líðan og velferð aldraðra, með hliðsjón af mælaborði barna. Mikilvægt er að taka þetta verkefni áfram og upp á næsta stig.

Stefna til framtíðar

Við þurfum að geta mælt aðstæður eldra fólks og við þurfum að nýta mælingarnar til að marka stefnuna til framtíðar, vinna að aðgerðaráætlun og úthluta fjármagni. Þá skiptir einnig verulegu máli að geta fylgst með hvort þær aðgerðir sem ráðist er í beri tilætlaðan árangur. Með öðrum orðum við verðum að geta mælt til að geta bætt. Það er staðreynd að breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar er ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Þessi tillaga er ein varða í leiðinni að bættri stöðu eldra fólks á Íslandi.

Ingibjörg Isaksen, Þingflokksformaður Framsóknar.

Categories
Greinar

Þakkir til eldra fólks

Deila grein

28/10/2022

Þakkir til eldra fólks

Þau sem á undan okkur hafa gengið hafa lagt grunninn að því góða samfélagi sem við búum í dag. Ef ekki væri fyrir fórnir og vinnandi hendur þeirra sem eldri eru þá er nokkuð víst að samfélagið okkar væri með öðru móti.

Öfugt við okkar kynslóð þá heyrist ekki hátt í eldra fólki. Upp til hópa er eldra fólk nægjusamt enda alið upp við erfiðari aðstæður en mörg hver okkar sem yngri erum. En hvers vegna er ég að velta þessu hér upp?

Jú, það er vegna þess að það gleymist oft að þakka fyrir það sem vel er gert, við tökum lífinu og samfélaginu eins og sjálfsögðum hlut.

Fjölbreyttur hópur

Til þess að sýna þakklæti er það skylda okkar sem samfélags og þeirra sem eru við stjórnvölinn að huga með sem allra besta móti að eldri þegnum þessa lands.

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og það sem hentar einum þarf ekki endilega að henta öðrum. Við þurfum að varast það að tala um eldra fólk sem einn og sama hópinn þegar rætt er um aðgerðir til að bæta stöðu þess.

Verkefni okkar

Okkar verkefni er að leggja áherslu á að ná saman upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks og ná þannig fram heildarmynd af almennri stöðu eldra fólks í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við.

Samhliða því þarf fjölbreytta og ólíka þjónustu fyrir eldra fólk og mikilvægt er að það fái að vera þátttakendur í öllum málum sem það snertir.

Tryggjum áhyggjulaust ævikvöld

Ég vil þakka þeim sem eldri eru fyrir þeirra hlutverk við að skapa það góða samfélag sem við búum við á Ísland í dag.

Verkefni okkar á Alþingi er nú eftir sem áður að vinna að verkefnum í þágu

eldra fólks og tryggja því áhyggjulaust ævikvöld.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, Alþingismaður og þingfloksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 28. október 2022.

Categories
Greinar

Fólk færir störf

Deila grein

25/10/2022

Fólk færir störf

Fyrr í dag var haldinn fundur á starfsstöð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Akureyri þar sem tilkynnt var að fimm sérfræðistörf á sviði brunabótamats yrðu auglýst. Verða þau störf staðsett á Akureyri. Með því mun starfsmönnum HMS á Akureyri fjölga úr 16 í 21. Það má með sanni segja að starfstöð HMS á Akureyri hafi sannað gildir sitt hvað varðar flutning starfa út á land. Með tilkomu þessara starfa er ekki verið að flytja neina starfsmenn út á land heldur er verið að auglýsa fimm ný sérfræðistörf við brunabótamat og þar af eitt stjórnandastarf.

Þessi breyting er í anda stefnu stjórnvalda um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og styrkir um leið svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni. Síðustu ár hefur hugsun og menning þeirra sem ákveða hvar störf eru unnin tekið miklum breytingum. Við vitum að það er ekki nóg að búa til stefnur og aðgerðaráætlanir því á endanum þarf fólk til þess að færa störf og hér hefir það tekist með góðum hætti. Við vinnum eftir nýjum gildum, staðbundin störf þurfa ekki að vera staðbundin við höfuðborgarsvæðið, með tilkomu rafrænnar stjórnsýslu vitum við að það er hægt að byggja upp og byggja undir starfstöðvar víða um land.

Mikilvægi sérfræðistarfa á landsbyggðinni er augljóst. Sérfræðistörf eru hvort tveggja mikilvæg fyrir samfélagið sem starfið er í sem og landsbyggðina í heild sinni. Við viljum að fólk eigi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Landsbyggðina hefur vantað opinber störf, sérfræðistörf og vel borgandi störf. Fleiri sérfræðistörf á landsbyggðinni stuðla að aukinni menntun á hverju svæði fyrir sig og þannig vex þekking hjá allri þjóðinni. Margir hverjir sem flytja á höfuðborgarsvæðið til náms eiga örðugt með að snúa aftur heim að námi loknu vegna skorts á góðum störfum. Með aukinni áherslu á óstaðbundin störf og flutning starfa sem þurfa ekki að vera staðbundin á höfuðborgarsvæðinu gefum við fólki aukin starfstækifæri í heimabyggð. Einstaklingar sem snúa aftur í heimahagana eða flytja í fyrsta sinn út á land auðga samfélagið á hverjum stað með margvíslegum hætti. Þannig samfélag viljum við skapa.

Á fyrrnefndum fundi á Akureyri sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra einnig frá því að vinna starfshóps um borgarstefnu væri að hefjast. Í vinnu hópsins er það ekki aðeins höfuðborgin sem er undir heldur einnig svæðisborgin Akureyri. Þótt einhverjir hafi glott þegar við hér fyrir norðan byrjuðum að tala um Akureyri sem borg þá hefur umræðan þróast á þá leið að svæðisborgarhugtakið getur hjálpað okkur mjög við skilgreiningu á hlutverki Akureyrar og skyldum við nágrannasamfélögin. Ég hlakka til að fylgjast með þessari vinnu á næstu mánuðum.

Við í Framsókn eigum okkur sterkar rætur um allt land. Það er í kjarna okkar sem Framsóknarfólks að vilja að byggðirnar hringinn í kringum landið fái að blómstra. Það verður gert með stefnumótun sem unnin er í góðri samvinnu við heimafólk og markvissum aðgerðum sem skapa blómlegar byggðir.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst visir.is 25. október 2022.

Categories
Greinar

Tíma henti­stefnu í orku­málum er lokið

Deila grein

21/10/2022

Tíma henti­stefnu í orku­málum er lokið

Fögur orð duga skammt ef hugur fylgir ekki með. Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og for­maður Vinstri grænna, kynnti upp­færð mark­mið Ís­lands í lofts­lags­málum á leið­toga­fundi í desember 2020. Upp­færð mark­mið kveða á um 55% sam­drátt í losun gróður­húsa­loft­tegunda fyrir árið 2030 í sam­floti með Noregi og ESB. Þessi mark­mið eru göfug og góð en svo það verði raun­hæft að ná þeim verður að huga að orku­öflun með grænni orku.

Við höfum verk að vinna

Sam­hliða því að draga úr losun gróður­húsa­loft­tegunda bíður okkur verðugt verk­efni við að byggja upp flutnings­kerfi raf­orku í landinu á­samt því að sjá til þess að orku­þörf sam­fé­lagsins sé upp­fyllt. Þrátt fyrir ótal við­varanir og á­köll eru ein­staklingar hér á landi sem neita að horfast í augu við sann­leikann þegar kemur að stöðunni í orku­málum hér á landi. Það dugar ekki að vera tví­ráð í skoðunum og vona það besta ef við ætlum okkur að ná þeim mark­miðum sem við höfum sett um losun gróður­húsa­loft­tegunda og um orku­skipti í sam­göngum. Við höfum verk að vinna og við þurfum að gera það með virku sam­tali og sáttar­leiðum í málum sem þykja erfiðari en önnur.

Fram­tíð í vindorku

Mikil fram­þróun hefur orðið í vindorku­tækni á síðustu árum, það mikil að nú fyrst er hægt fyrir al­vöru að ræða um upp­byggingu vindorku­vera á Ís­landi. En því miður er um­ræða um vindorku strax komin í skot­grafirnar og farið að tala um gull­grafara­æði, lukku­riddara og á­hlaup á svæði, í stað þess að taka vandaða um­ræðu um kosti og galla þess að fram­leiða endur­nýjan­lega orku með því að beisla vindinn. Allar hug­myndir um nýtingu vindorku eru skotnar niður áður en sam­talið hefst. Það er nauð­syn­legt geta tekið sam­talið svo hægt sé að komast að niður­stöðu hvaða leið við getum verið sam­mála um að fara. Við eigum gnægð af vindi til þess að virkja hér á Ís­landi og það er ó­skyn­sam­legt að taka ekki sam­talið um hvernig hægt sé að nýta þá auð­lind til að mæta fram­tíðar­þörf fyrir græna orku.

Smá­virkjanir gegna mikil­vægu hlut­verki

Þá hefur frétta­flutningur ný­verið og um­ræður í kjöl­farið um smá­virkjanir snúist í sömu átt og um­ræðan um vindorkuna. Hugsan­lega gera fæstir sér grein fyrir mikil­vægi smá­virkjana hér á landi þegar ó­veður geisar yfir landið með til­heyrandi raf­magns­leysi. Um daginn héldu smá­virkjanir uppi raf­magni víða á Norð­austur­landi þegar stærri raf­línur slógu út. Þá eru smá­virkjanir einnig mikil­vægar til þess að styrkja dreifi­kerfi raf­orku um landið en allt að fimmtungur allrar raf­orku sem RA­RIK dreifir til við­skipta­vina kemur frá smá­virkjunum víða um land.

Raf­orku­kerfið okkar þarf að vera á­falla­þolið en góðir inn­viðir eru undir­staða öflugs sam­fé­lags. Mikil­vægt er að hlúa að inn­viðum, styrkja og endur­nýja þegar við á. Horfa þarf til mis­munandi lausna til að efla raf­orku­öryggi landsins. Ljúka þarf endur­nýjun megin­flutnings­kerfisins sem liggur í kringum landið (byggða­línan) enda er hún orðin hálfrar aldar gömul og raf­orku­notkun hefur marg­faldast frá því að hún var byggð. Fyrstu á­fangar á þeirri veg­ferð komust í gagnið í sumar eftir tíu ára undir­búning. Þá þarf að flýta jarð­strengja­væðingu dreifi­kerfisins og tryggja að vara­afl sé til staðar þar sem þörf krefur. Tryggja þarf nægt fram­boð á raf­orku en fjöl­breytt orku­fram­leiðsla víða um land stuðlar að auknu orku­öryggi. Þetta er verk­efni sem leysir sig ekki sjálft.

Við þurfum að tala saman

Enn og aftur höfum við verið minnt á hvað orku­inn­viðirnir okkar eru mikil­vægir fyrir heilsu, öryggi og lífs­viður­væri fólks. Í af­taka­veðrinu sem gekk yfir landið um daginn varð víð­tækt raf­magns­leysi með til­heyrandi tjóni og ó­þægindum, þrátt fyrir upp­byggingu á kerfinu og um­fangs­mikinn undir­búning og við­búnað þeirra sem stuðla að öryggi og vel­ferð lands­manna. Ef við ætlum okkur að ná árangri í lofts­lags­málum á­samt því að tryggja orku­öryggi allra lands­manna þá er mikil­vægt að öll um­ræða sé hóf­stillt og í sam­ræmi við það verk­efni sem við okkur blasir. Við vitum hvað verk­efnið er og við vitum hvað er í húfi. Tölum saman.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, Alþingismaður og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 21. október 2022.

Categories
Greinar

Hamingjuóskir til Háskólans á Akureyri

Deila grein

13/10/2022

Hamingjuóskir til Háskólans á Akureyri

Mikilvægri vörðu á langri leið háskólans á Akureyri til framtíðar hefur nú verið náð. Það er nokkuð víst að Háskólinn á Akureyri er rétt að byrja sína sókn. Frá stofnun hefur vöxtur háskólans verið hraður. Við höfum fengið að fylgjast með Háskólanum á Akureyri verða að einni helstu mennta- og rannsóknarstofnun landsins sem sýnt hefur fram á hvernig hægt er vaxa í síbreytilegum tækniheimi. Námsframboð hefur aukist jafnt og þétt og nám hefur eflst svo um munar. Nemendafjöldi Háskólans á Akureyri hefur aukist á ári hverju, en það er ekki skrýtið þar sem háskólinn hefur fengið viðurkenningu frá fræðasamsamfélaginu sem og nemum fyrir gæði og þjónustu. Auk þess er Háskólinn á Akureyri brautryðjandi í nýtingu fjarnáms hér á landi og hefur verið fyrirmynd fyrir aðra háskóla og opnað margar dyr fyrir fólk víðsvegar af landinu.

Merkur áfangi

Árið 2009 hófst formlegur undirbúningur á viðurkenningu doktorsnáms við Háskólann á Akureyri og síðan þá hefur það verið eitt af meginmarkmiðum skólans. Undanfarin ár hefur skólinn haft það í stefnu sinni að efla núverandi námsumhverfi, styrkja innviði og auka vægi rannsókna. Nú hefur þessu markmiði verið náð þar sem fyrsta doktorsvörnin fór fram við Háskólann á Akureyri þann 11. október sl. Þar varði Karen Birna Þorvaldsdóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum og má með sanni segja að vörnin hafi ekki aðeins verið merkur áfangi fyrir Karenu Birnu heldur einnig fyrir Háskólann á Akureyri. Þá berast fréttir af því að fyrirhugaðar eru í nánustu framtíð enn fleiri doktorsvarnir. Við vitum öll hversu mikilvægt það er fyrir samfélagið allt að hafa háskóla í þessum gæðaflokki. Mennt er máttur sem sannarlega eflir samfélagið og það er óumdeildur ábati af því að öflugir háskólar séu til staðar þvert yfir landið.

Bættari byggð

Háskólinn á Akureyri er án efa ein öflugasta byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í hér á landi og hefur margsinnis sannað gildi sitt. Mikilvægi háskólans fyrir sitt nærumhverfi er óumdeilt og við erum heppin að hafa svo framsækinn háskóla til staðar í samfélaginu okkar. Þegar einstaklingar geta sótt það nám sem þeir vilja, innan síns sveitarfélags eða í nærliggjandi sveitarfélagi, skiptir það sköpum í byggðamálum. Þannig á það að vera og þannig ætlum við að halda því. Háskólinn á Akureyri dregur einnig að sér nýtt fólk hingað norður sem kemur með nýjar hugsanir og ferska vinda. Þannig vaxa og dafna samfélög.

Til hamingju!

Að endingu vil ég óska Karen Birnu Þorvaldsdóttur innilega til hamingju með doktorsvörnina og starfsfólki Háskólans á Akureyri einnig með þennan merka áfanga. Framtíð Háskólans á Akureyri er svo sannarlega björt.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 13. október 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Deila grein

30/09/2022

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Áskoranir hafa alla tíð fylgt sambúð við náttúruöflin á Íslandi og um nýliðna helgi glímdu landsmenn sannarlega við þau. Illviðri gekk yfir, mikill vindstyrkur sem sumstaðar fylgdi mikil úrkoma og há sjávarstaða. Þetta leiddi til margs konar tjóns s.s. skriðufalla á Vestfjörðum, flóða á Akureyri, skemmda á uppskeru og gríðarlegs foktjóns. Austfirðir urðu hvað verst úti enda náði vindstyrkur þar ótrúlega víða viðmiðum fárviðris. Þegar verðrið stóð sem hæst varð auk þess rafmagnslaust á nálægt helmingi landsins, með tilheyrandi óöryggi, beinu og óbeinu tjóni.

Við getum þakkað fyrir að ekki varð manntjón um liðna helgi. Veðurspár, veðurviðvaranir, lokanir vega og vinna viðbragðsaðila komu í veg fyrir að enn meira tjón hlytist af og fyrir það ber að þakka. Viðbrögð og þrotlaus vinna björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila skiptu sköpum á meðan á veðrinu stóð. Starfsmenn sveitarfélaga brugðust einnig við með fjölbreyttum hætti og mikið mun mæða á sveitarfélögum við hreinsunarstarf næstu daga og vikur.

Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Forvarnir eins og vöktun, spár, lokanir, varnarmannvirki og uppkaup mannvirkja eru dæmi um slíkt. Náttúruhamfaratrygging Íslands gegnir svo lykilhlutverki í tryggingavernd auk þess sem verklag stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu er í stöðugri þróun. Þá spila lögboðnar og valfrjálsar tryggingar sem keyptar eru af tryggingarfélögum inn í verndina.

Orðið náttúruhamfarir samkvæmt lögum hefur ekki endilega sömu merkingu og í daglegu tali. Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir þannig tjón á eignum af völdum jarðskjálfta, eldgosa, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða en ekki foktjón. Húseignir á Íslandi eru vátryggðar, en innbú og lausafé er það aðeins ef það er brunatryggt hjá sjálfstæðu tryggingarfélögunum. Staða atvinnurekanda er mun óljósari bæði hvað varðar lausamuni og framleiðslutjón og sérstaklega þarf að skoða stöðu bænda en 2009 urðu breytingar á Bjargráðasjóði sem veiktu stöðu þeirra.

Verkefni tengd náttúruhamförum falla undir starfsvið margra ráðuneyta t.d. umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, matvælaráðuneytis, innviðaráðuneytis, auk þess sem fleiri ráðuneyti geta komið að málum. Ítrekað hefur verið gagnrýnt að yfirsýn og ábyrgð á samræmi og samhæfingu verkefna tengdri náttúruvá sé óljós.

Tillaga um heildarúttekt á tryggingarvernd

Í kjölfar óveðursins í desember 2019 var ráðist í afar umfangsmiklar aðgerðir til að greina og byggja upp áfallaþol samfélagsins alls. Meta þarf það verklag sem notast hefur verið við á síðustu árum við samhæfingu aðgerða og læra af reynslunni til frekari framfara.

Við álítum mikilvægt og tímabært að gera heildarúttekt á verklagi og aðgerðumog leggjum því í þriðja sinn fram þingsályktunartillögu um að gerð verði úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Meðflutningsmenn koma úr öllum þingflokkum og á síðasta löggjafarþingi bárust 10 umsagnir sem styðja tillöguna og draga fram að fara þarf í aðgerðir sem flýtt geta úrvinnslu eftir tjón, stuðlað að frekara jafnræði og sanngirni og fækkað úrlausnarefnum sem stafa af óljósum reglum.

Samhliða því munum við beita okkur fyrir að samræmi í viðbrögðum við náttúruvá verði bætt og ágallar lagfærðir.

Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar og íbúar í NA kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. september 2022.

Categories
Greinar

Óvissuflugið þarf að enda

Deila grein

16/08/2022

Óvissuflugið þarf að enda

Reykjanesskagi hefur enn á ný bært á sér. Jarðvísindamenn halda því fram að eldgosið í Meradölum og gosið í Geldingardölum gætu verið upphafið að löngu eldgosatímabili á Reykjanesskaga. Ekki er útilokað að þetta gostímabil gæti virkjað eldstöðvar nær Reykjavík þótt litlar líkur séu þó á því. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, en með vitneskju um mögulega ógn af hraunrennsli næstu ár er eðlilegt að við hugum að því hvaða uppbyggingu við viljum fjárfesta í á svæðinu.

Óvissan um Hvassahraun

Síðustu ár hefur mikið verið rætt um uppbyggingu á nýjum flugvelli í Hvassahrauni. Undanfarna daga hefur greinilega komið fram í umræðunni að eldgos á Reykjanesi breytir mati og viðhorfum sérfræðinga og almennings til flugvallarkostsins í Hvassahrauni og enn einu sinni kemur í ljós að Reykjavíkurflugvöllur er afar mikilvægur hvort sem litið er á hann sem varaflugvöll eða almennan flugvöll fyrir innanlandsflug, sjúkraflug, þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar o.fl. Þegar Hvassahraun þótti vænlegasti staðurinn fyrir uppbyggingu flugvallar byggði það á spám um að ekki myndi gjósa á Reykjanesskaga næstu tvær aldir. Nú er komin upp ný staða sem ekki er hægt að líta fram hjá. Veðurstofan hefur það verkefni nú að meta áhættuna og stefnt er að því að hún skili því verkefni af sér á fyrrihluta næsta árs. Ef niðurstaða þess verkefnis leiðir í ljós að Hvassahraun sé ekki vænlegur kostur þarf að skoða hvort og ef annar og betri staður finnst. Slíkt tekur mörg ár, en það tekur um 15-20 ár að meta, hanna og byggja slíkan völl. Á sama tíma eru önnur stór og dýr verkefni framundan s.s. Sundabraut, Borgarlína og Landspítali, ásamt því að bæta þarf og byggja upp flugvelli á Akureyri og Egilsstöðum svo nýta megi þá flugvelli betur þar sem kröfur eru sífellt að aukast, bæði vegna ferðaþjónustu og fraktflutninga á ferskvöru.

Við eigum flugvöll

Styrkur Reykjavíkurflugvallar er gríðarlegur. Mikilvægt er að hefjast handa við að efla hann enn frekar og bæta. Reykjavíkurflugvöllur er samfélagslega mikilvægur, nálægð við miðborg, stjórnsýslu, háskóla og Landspítala spilar þar lykilhlutverk. Í umræðunni um uppbyggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýrinni gleymist oft mikilvægi nálægðar Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann. Samkvæmt lögum eiga allir landsmenn rétt á sömu heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi er mikilvægt að einfalt sé að nálgast þá þjónustu, flugvöllur í Reykjavík tryggir það. Vissulega er nauðsynlegt að bæta heilbrigðisþjónustu út á landi en óraunhæft er að veita alla þá þjónustu þar sem þörf kann að vera á. Þá er völlurinn einnig afar mikilvægur fyrir ferðaþjónustu um allt land. Á næstu árum er fyrirséð að miklar tækniframfarir komi til með að eiga sér stað í fluginu. Rafmagnsflugvélar eru á næsta leiti og Reykjavíkurflugvöllur getur orðið einn af styrkleikum borgarinnar til næstu áratuga með rafmagnsflugvélar í notkun nálægt stærsta atvinnu og háskólasvæði höfuðborgarinnar, vísinda og grósku í nýsköpun í Reykjavík Science City og með Landspítala á sama svæði.

Nú er mál að linni

Ef litið er til skýrslu vinnuhóps sem hét „Flugvallarkostir á suðvesturhluta landsins“ (skýrsla Eyjólfs Árna Rafnssonar frá árinu 2019), er ekkert sem bendir til þess að Reykjavíkurflugvöllur fari næstu 15-20 árin og afar vafasamt að Hvassahraun sé álitlegur kostur, ekki síst í ljósi síðustu atburða, þótt hann komi þar helst til greina. Vegna óvissu hefur Reykjavíkurflugvöllur ekki fengið nauðsynlega yfirhalningu í 20 ár. Beðið hefur verið með viðhald vegna hugmynda um nýjan flugvöll sem nú virðast vera að renna út í sandinn, já eða út í hraun. Við þurfum að hætta þessari óvissu um Reykjavíkurflugvöll og þrengja ekki meir að vellinum. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum, við getum ekki látið önnur 20 ár líða.

Ingibjörg Isaksen,  þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. ágúst 2022.