Þess er minnst um heim allan að 80 ár eru síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk en hún fól í sér mestu mannfórnir í veraldarsögunni. Víða hefur verið háð stríð eftir seinni heimsstyrjöldina en ekkert í líkindum við hana. Öll vitum við að friður er farsælastur og býr til mesta velmegun í samfélagi manna.
Mikið uppnám hefur ríkt í alþjóðastjórnmálunum eftir öryggisráðstefnuna í München um síðustu helgi. Ýmsir hafa haft á orði að heimsmyndin sé gjörbreytt vegna hvatningar stjórnar Bandaríkjanna um að Evrópa taki á sig auknar byrðar í öryggis- og varnarmálum. En á þessi afstaða Bandaríkjanna að koma á óvart?
Skilaboðin hafa alltaf verið skýr um að Evrópa þyrfti að koma frekar að uppbyggingu í eigin öryggis- og varnarmálum. Í kjölfar stórfelldrar innrásar Rússlands í Úkraínu fyrir þremur árum hefur Evrópu ekki tekist að styrkja varnir sínar í takt við umfang árásar Rússlands, að undanskildum ríkjum á borð við Pólland og Eystrasaltsríkin. Evrópa hefur heldur ekki náð að styðja við Úkraínu í þeim mæli sem þurfti til að stöðva Rússland. Í merkilegu viðtali sem tekið var við Jens Stoltenberg við brotthvarf hans úr stóli framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins lagði hann ríka áherslu á mikilvægi þess að ríki í Evrópu myndu styrkja og auka samstarf í öryggis- og varnarmálum ásamt því að staða Atlantshafsbandalagsins yrði styrkt.
Fyrir Ísland er mikilvægt að vera með sterka bandamenn beggja vegna Atlantsála. Varnarsamstarfið við Bandaríkin hefur aukist undanfarin misseri. Ísland hefur tryggt nauðsynlega varnaraðstöðu og -búnað fyrir loftrýmiseftirlit og aðrar NATO-aðgerðir. Bandaríkin hafa tekið þátt í loftrýmisgæslu og stutt við varnir Íslands. Báðar þjóðir hafa einnig aukið upplýsingaflæði, samráð og sameiginlegar æfingar, m.a. í neyðaraðstoð og tölvuöryggi. Meginmarkmiðið hefur verið að efla tvíhliða varnarsamstarf og tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi.
Ísland er ekki undanskilið í þeim efnum að veita aukinn stuðning til öryggis- og varnarmála. Það er brýnt að við sinnum okkar hlutverki til þess að sinna og efla varnir landsins innan þeirrar getu sem er fyrir hendi. Við höfum átt í farsælu samstarfi og samvinnu við helstu bandalagsþjóðir okkar og mikilvægt er að framhald verði á því til að styðja við sjálfstæði þjóðarinnar.
Áhugi á Grænlandi hefur stóraukist eftir að forseti Bandaríkjanna lýsti yfir vilja sínum til að eignast landið. Mikilvægi Grænlands hefur aukist verulega í breyttri heimsmynd. Auðlindir Grænlands eru afar miklar á sviði málma og steinefna, olíu og gass, vatns, orku, fiskveiða og ferðaþjónustu. Vegna loftslagsbreytinga aukast líkurnar á því að hægt sé að nýta auðlindir Grænlands í meira mæli en síðustu árhundruðin.
Samskipti og saga Íslands og Grænlands er stórmerkileg og er vel skrásett í tengslum við landnám og siglingar milli Íslands, Noregs og Norður-Ameríku.
Nefna má í þessu samhengi; Eiríks sögu rauða, Grænlendingasögu, fornmannasögur og fleiri rit eins og Flateyjarbók.
Í þessum ritum má finna atvinnusögu ríkjanna og hvernig siglingar skipuðu veigamikinn sess í viðskiptum og velsæld þeirra.
Sögunar gefa einstaka innsýn í fyrstu skrásettu viðskiptasamskipti Evrópubúa við frumbyggja Norður-Ameríku og hver ávinningur og áhættan voru í þessum efnum.
Saga ríkjanna er samofin frá landnámsöld fram á 15. öld, en síðustu ritaðar heimildir um norrænt samfélag á Grænlandi eru frá árinu 1408, þegar íslensk hjónavígsla átti sér stað í Hvalseyjarkirkju í Eystribyggð.
Ein stærsta ráðgáta sögu norðurslóða er hvarf þessarar byggðar norræns fólks af Grænlandi. Ýmsar tilgátur hafa verið nefndar og eru þessari sögu, til dæmis, gerð góð skil í bókinni: „Hrun samfélaga – hvers vegna lifa sum meðan önnur deyja“ eftir Jared Diamond prófessor.
Meginástæðurnar fyrir þessari þróun á Grænlandi eru loftslagsbreytingar, það er að kólnandi loftslag hafi gert allan landbúnað erfiðari.
Dregið hafi úr siglingum vegna minna framboðs af rekaviði og öðrum efniviði í skipagerð og því hafi samgöngur minnkað verulega.
Einnig er nefnt að eftirspurn eftir einni aðalútflutningsafurð Grænlands, rostungstönnum, hafi hrunið vegna aukinnar samkeppni frá fílabeinstönnum í Afríku og Asíu ásamt því að svartidauðinn hafi leitt til mikillar fólksfækkunar á Norðurlöndum, sem hafi minnkað Grænlandsviðskiptin verulega.
Grænland er í brennidepli alþjóðastjórnmálanna vegna vaxandi tækifæra til frekari auðlindanýtingar og landfræðilegrar legu, ekki ósvipuð staða og var fyrir um 1000 árum.
Lykilatriði fyrir Ísland er að tryggja greið alþjóðaviðskipti og farsæl samskipti við okkar helstu bandamenn, þar sem lýðræði er helsta grunngildi þjóðarinnar.
Íslensku menningarlífi hlotnaðist enn einn heiðurinn á alþjóðavísu í vikunni þegar Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari vann hin virtu Grammy-tónlistarverðlaun í flokki klassískra einleikshljóðfæraleikara fyrir flutning sinn á Goldberg-tilbrigðum Johanns Sebastians Bachs.
Það fylgir því mikil upphefð að vera tilnefndur til Grammy-tónlistarverðlaunanna en verðlaunin eru af mörgum talin þau eftirsóttustu í tónlistarheiminum. Árangur Íslendinga á undanförnum fimm árum er stórkostlegur, en með verðlaunum Víkings Heiðars hafa íslenskir listamenn hlotið yfir 11 Grammy-tilnefningar, og unnið fimm sinnum; Hildur Guðnadóttir fyrir tónlist í þáttunum Chernobyl og kvikmyndinni Jókernum, Dísella Lárusdóttir fyrir bestu óperuupptökuna í verkinu Akhnaten, Laufey Lín Jónsdóttir fyrir plötu sína Bewitched í flokki hefðbundinnar popptónlistar og nú síðast Víkingur Heiðar. Í heild hafa átta Íslendingar unnið til níu verðlauna en þeir Steinar Höskuldsson, Gunnar Guðbjörnsson, Sigurbjörn Bernharðsson og Kristinn Sigmundsson hafa einnig unnið til verðlaunanna.
Allt eru þetta listamenn sem hafa skarað fram úr á sínu sviði svo að umheimurinn hefur tekið eftir. Á undanförnum árum var ég reglulega spurð að því af erlendu fólki hvaða kraftaverk væru unnin hjá okkar tæplegu 400.000 manna þjóð í þessum efnum. Að mínum dómi er þetta hins vegar engin tilviljun. Að baki þessum glæsilega árangri liggur þrotlaus vinna og metnaður tónlistarmannanna sjálfra ásamt því að hér á landi hefur ríkt eindreginn vilji til þess að styðja við menningu og listir, til dæmis með framúrskarandi tónlistarkennurum sem leggja sig alla fram við að miðla þekkingu sinni og reynslu í kennslustofum landsins, ásamt því að tryggja aðgang fólks að tónlistarnámi.
Sú alþjóðlega braut heimsfrægðar sem Björk ruddi hefur breikkað mjög með vaxandi efniviði og árangri íslenskra tónlistarmanna. Þannig hafa til að mynda hljómsveitir eins og Of Monsters and Men, KALEO og allir Grammy-verðlaunahafarnir okkar tekið þátt í að auka þennan hróður landsins með sköpun sinni og afrekum. Þessi árangur er einnig áminning um að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið af hálfu hins opinbera við að fjárfesta í menningu og listum á undanförnum árum á grundvelli vandaðrar stefnumótunar sem birtist okkur meðal annars í tónlistarstefnu til ársins 2030. Með henni hafa verið stigin stór skref í að styrkja umgjörð tónlistarlífsins í landinu, til að mynda með fyrstu heildarlögunum um tónlist, nýrri tónlistarmiðstöð og nýjum og stærri tónlistarsjóði. Ég er mjög stolt af þessum skrefum sem munu skila sér í enn meiri stuðningi við tónlistarfólkið okkar.
Ég vil óska Víkingi Heiðari og fjölskyldu hans innilega til hamingju með verðlaunin. Þau eru hvatning til yngri kynslóða og enn ein rósin í hnappagat íslenskrar menningar á alþjóðavísu. Fyrir það ber að þakka.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2025.
Alþjóðamálin hafa ekki verið jafn þýðingarmikil í áraraðir og það reynir á ríkisstjórn Íslands að tryggja hagsmuni landsins. Það eru viðsjárverðir tímar. Enn sér ekki fyrir endann á hrikalegu stríði í Úkraínu. Norðurskautið er komið í hringiðu alþjóðaumræðunnar vegna áhuga Bandaríkjaforseta á að styrkja stöðu sína á Grænlandi. Forsætisráðherrar Norðurlandanna funduðu vegna stöðunnar og danski forsætisráðherrann er farinn í ferðalag um Evrópu til að tryggja stuðning við þeirra málstað. Í mínum huga snýst málið um vilja Grænlendinga og sjálfstæði þeirra til framtíðar, sem og virðingu fyrir alþjóðalögum. Landfræðileg staða Íslands og Grænlands er mikilvæg sem fyrr og gott að rifja upp margtilvitnuð orð fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Winstons Churchills: „Hver sá sem hefur yfirráð yfir Íslandi heldur á byssu miðaðri á England, Ameríku og Kanada,‘‘ sagði hann um hernaðarlegt mikilvægi Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Æ síðan hefur lega Íslands skipað grundvallarsess í varnarmálum vestrænna ríkja.
Frelsi og öryggi er grundvallarþáttur í velferð okkar. Það var því framsýni þegar íslensk stjórnvöld ákváðu að Ísland yrði stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu. Þar sem herlaus þjóð gat ekki varið sig fór bandalagið þess á leit við Ísland og Bandaríkin að þjóðirnar gerðu ráðstafanir sín á milli með varnarsamningnum árið 1951. Á þeim tíma var varnarleysi landsins talið stofna öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða eins og það er orðað í samningum. Staðfesta stjórnvalda þá tryggði aðstöðu hér á landi til að sinna vörnum og varðveita þannig frið og öryggi á svæðinu.
Það er því afar brýnt að haldið sé vel utan um stöðu Íslands og tryggt áframhaldandi vestrænt samstarf. Lega Íslands hefur í för með sér að tryggja verður áframhaldandi samstarf við Bandaríkin í samræmi við sögulegan varnarsamning, ásamt því að rækta samstarfið við hinar Norðurlandaþjóðirnar og samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins. Okkar velgengni grundvallast á þessum styrku stoðum í öryggis- og varnarmálum. Ýmsir hafa fært rök fyrir því að nauðsynlegt sé að ganga í Evrópusambandið til að tryggja varnir landsins en það á ekki við. Ég minni á að Finnland og Svíþjóð gerðust aðilar að NATO, einmitt vegna þess að þau töldu að varnir ESB dygðu ekki til. Evrópusambandssinnar á Íslandi telja að best sé fyrir landið okkar að ganga í ESB út af stefnu Trumps og eru þar með tilbúnir til að fórna sjálfstæði þjóðarinnar og eignarhaldi á auðlindum okkar. Ég geld varhug við þessari nálgun, því berin eru súr. Ísland hefur átt í farsælu samstarfi við Bandaríkin allt frá lýðveldisstofnun ásamt því að stunda frjáls viðskipti innan EES. Þessi leið hefur skilað mikilli verðmætasköpun og góðum lífskjörum. Það er afar brýnt að ríkisstjórnin vandi sig og mæti til leiks.
Reglulega verða atburðir sem undirstrika mikilvægi þess að huga vel að varnarmálum. Þá vakt þurfum við ávallt að standa og taka virkan þátt með vinaþjóðum okkar í að standa vörð um þá samfélagsgerð sem við þekkjum. Þrátt fyrir að Ísland sé lítið skiptir framlag okkar miklu máli í þessu samhengi – rétt eins og Winston Churchill benti réttilega á.
Við lifum á einkar áhugaverðum tímum í alþjóðamálum. Valdaskipti í Bretlandi og Bandaríkjunum, yfirvofandi kosningar í Þýskalandi, þrengri efnahagsstaða Evrópusambandsins, áframhaldandi stríðsátök í Úkraínu og stórmerkilegar vendingar í Mið-Austurlöndum skapa flókið og síbreytilegt landslag í alþjóðamálunum. Þjóðríki og ríkjasamtök undirbúa sig fyrir harðnandi samkeppni í alþjóðaviðskiptum, þar sem tolla- og viðskiptahindranir kunna að setja svip sinn á þróunina. Á sama tíma eiga mörg ríki enn í vök að verjast eftir áföllin sem covid-19-heimsfaraldurinn olli í efnahagslífi þeirra, og hefur það haft afgerandi áhrif á ríkisfjármál víða um heim.
Ísland kom hins vegar vel út úr þessum áskorunum og hefur sýnt mikla seiglu í efnahagsstjórn sinni. Lærdómurinn af hagstjórn lýðveldisáranna hefur sannað sig enn á ný: nauðsynlegt er að ríkissjóður sé ávallt vel undirbúinn til að mæta efnahagslegum áföllum, bæði innri og ytri. Þannig nema nú nettóskuldir ríkisins um 30% af vergri landsframleiðslu (VLF), sem er afar hagstæð staða í samanburði við önnur ríki. Til samanburðar nema skuldir ríkja á evrusvæðinu um 90% af VLF og í Bretlandi um 100%, þar sem leitin að sjálfbærum hagvexti er áfram helsta áskorunin.
Eitt af brýnustu verkefnum opinberra fjármála hér á landi er að halda áfram á þeirri braut sem síðasta ríkisstjórn lagði, með það að markmiði að draga úr fjármagnskostnaði ríkissjóðs. Tryggja þarf að lánskjör ríkisins endurspegli hina sterku stöðu landsins á alþjóðavísu. Þessi árangur hefur þegar skilað sér í hækkun lánshæfismats íslenska ríkisins á síðasta ári, sem er vitnisburður um sterka undirliggjandi stöðu hagkerfisins.
Á hinn bóginn standa mörg lönd frammi fyrir miklum áskorunum. Í Bretlandi er hagvöxtur hægur á sama tíma og skuldir aukast. Alþjóðlegir fjárfestar, eins og Ray Dalio, stofnandi fjárfestingasjóðsins Bridgewater, hafa lýst yfir áhyggjum af stöðu breskra ríkisfjármála og bent á að landið gæti lent í neikvæðum skuldaspíral. Slík þróun gæti þýtt sívaxandi lánsfjárþörf til að standa straum af vöxtum. Dalio bendir á hækkandi ávöxtun á 30 ára ríkisskuldabréfum og veikt pund sem merki um aukna erfiðleika í ríkisfjármálum Bretlands. Við þetta bætist að fjárlagahallinn þar nemur rúmum 4% af landsframleiðslu, sem dregur úr fjárhagslegu svigrúmi stjórnvalda.
Á þessum tímamótum skiptir höfuðmáli að íslensk stjórnvöld taki skynsamlegar og framsýnar ákvarðanir í ríkisfjármálum. Mikilvægt er að viðhalda þeim góða árangri sem þegar hefur náðst og stuðla að áframhaldandi stöðugleika. Forðast þarf allar ákvarðanir sem gætu ógnað lækkunarferli vaxta Seðlabankans eða skapað neikvæðan þrýsting á atvinnulífið.
Lykillinn að farsælli framtíð er að lækka fjármagnskostnað ríkissjóðs, skapa aukið svigrúm til uppbyggingar og tryggja að fyrirtæki og einstaklingar hafi góðar aðstæður til að skapa verðmæti og stuðla að hagvexti.
Samvinnuhugsjónin á rætur að rekja til Bretlands árið 1844 og barst til Íslands á 19. öld. Grunnhugmyndin er einföld: með sameiginlegu átaki ná menn lengra en í einangruðum verkefnum.
Þetta viðhorf hefur aldrei verið mikilvægara en nú í krefjandi alþjóðlegu samhengi. Samvinna er ómissandi þáttur í stjórnun lands, og Framsókn hefur beitt henni til að ná árangri fyrir íslenskt samfélag í yfir heila öld.
Leið að sjálfbærum hagvexti
Einn áhrifamesti hagfræðingur sögunnar, Alfred Marshall (1842-1924), sem er talinn einn af feðrum nútímahagfræði, lagði mikla áherslu á samvinnu og gerði rannsóknir á efnahagslegum ávinningi samvinnufélaga.
Niðurstaða hans var að samvinnufélög gætu aukið framleiðni og bætt lífskjör með því að sameina hagsmuni vinnuafls og stjórnenda. Hann benti einnig á að samvinna og sérhæfing innan ákveðinna landfræðilegra svæða gætu aukið framleiðni.
Áhugavert er einnig að skoða hagfræðikenningar nóbelsverðlaunahafans Edmunds Phelps en hann hefur bent á mikilvægi samvinnu fyrir sjálfbæran hagvöxt. Kenningar hans leggja áherslu á tengsl nýsköpunar, menningar og efnahagslegs vaxtar.
Hagvöxtur byggist ekki eingöngu á fjárfestingu og vinnuafli heldur einnig á hugviti, sköpunargáfu og þátttöku einstaklinga. Samvinna auðveldar miðlun hugmynda og þróun lausna, sem er undirstaða nýsköpunar. Í markaðshagkerfi verður samvinna milli einstaklinga og fyrirtækja að afli sem stuðlar að framleiðniaukningu og tækniþróun.
Samkvæmt hagrannsóknum eykur félagslegt traust skilvirkni í framleiðsluferlum og skapar sameiginleg markmið og verðmæti sem gagnast samfélaginu. Sérstaklega á tímum tækniþróunar er samvinna milli ríkis, fyrirtækja og rannsókna lykill að stöðugum hagvexti.
Án hennar hættir hagkerfum til að staðna, en með henni verður til umhverfi sem hvetur til nýsköpunar og hagsældar fyrir alla.
Hugsjón sem höfð verður í brennidepli
Samvinnuhugsjónin er því grundvallaratriði, bæði í stjórnmálum og efnahagslífi, þar sem hún leggur grunn að nýjum lausnum og sjálfbærri þróun. Samvinna er hugmyndafræði sem á erindi við samtímann og mun Framsókn leggja áherslu á að sú hugsjón haldi áfram að skapa félagslegan og efnahagslegan auð á Íslandi.
Samtalið við kjósendur er það skemmtilegasta við stjórnmálin. Komandi kosningar skipta miklu máli fyrir næstu fjögur ár. Kannanir helgarinnar sýna að Framsókn á á brattann að sækja. Við frambjóðendur flokksins finnum hins vegar fyrir mjög hlýjum straumum og trúum því að okkar fjölmörgu verk í þágu samfélagsins nái í gegn fyrir kosningarnar hinn 30. nóvember.
Við finnum að fólk kann einmitt að meta að Framsókn hafi frekar einbeitt sér að því að klára verkefnin í stað þess að taka þátt í reglulegum deilum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Því fylgir ábyrgð að stjórna landi.
Við heyrum líka að mörgum hrýs hugur við að upp úr kjörkössunum komi hrein hægristjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Miðflokks með tilheyrandi sveltistefnu, niðurskurði og vanhugsaðri einkavæðingu ríkiseigna.
Nú eða hrein ESB-stjórn Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar, sem mun hækka skatta og leggja gjörvallt stjórnkerfið undir aðlögunarferli að Evrópusambandinu næstu árin með tilheyrandi átökum í þjóðfélaginu.
Aðild að ESB mun leiða af sér minni hagvöxt og framsal á fullveldi Íslands, þar með talið í auðlindamálum. Það eru staðreyndir.
Við þurfum ekki fleira til þess að ala á ósætti og óvissu í samfélaginu. Eini valkosturinn til þess að koma í veg fyrir fyrrnefnd stjórnarmynstur er að kjósa Framsókn, flokkinn á miðjunni, sem hefur einn stjórnmálaflokka fylgt þjóðinni samfellt í meira en heila öld. Það er engin miðja án Framsóknar, og engin framsókn án miðju.
Mikilvægasta verkefnið fram undan er áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu.
Því er ekki að neita að verðbólga í kjölfar fordæmalauss heimsfaraldurs og stríðsins í Evrópu hefur tekið á. Þá missti 1% þjóðarinnar húsnæði sitt vegna jarðhræringanna í Grindavík. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun að gera meira en minna til þess að styðja við samfélagið í kjölfar heimsfaraldursins, þegar 20.000 störf hurfu og margs konar starfsemi lagðist í dvala. Það kostaði, en skilaði sér í samfélagi sem lenti á báðum fótum.
Það er hins vegar ánægjulegt að markvissar og samþættar aðgerðir opinberra aðila og aðila vinnumarkaðarins séu farnar að skila sér í lækkun stýrivaxta, sem hafa lækkað um 75 punkta síðan í október. Árangur í þessa veru gerist ekki af sjálfu sér og verður ekki til í tómarúmi kosningaloforða. Þetta er staðfesting á að stefna okkar virkar sem miðar að því að ná niður vöxtum og verðbólgu. Við erum með ábyrga efnahagsstefnu og með nægjanlegt aðhald og skýra forgangsröðun í ríkisfjármálum. Við í Framsókn viljum halda áfram á þeirri braut og óskum eftir stuðningi í þau verk.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2024.
Kvikmyndagerð á Íslandi hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum. Markviss skref hafa verið stigin til þess að styrkja umgjörð greinarinnar á grundvelli Kvikmyndastefnu til ársins 2030 en þar á meðal hefur aðgerðum verið hrint í framkvæmd sem snúa að:
hækkun endurgreiðsluhlutfalls í kvikmyndagerð úr 25% í 35% fyrir stærri verkefni,
1,3 milljarða kr. viðbótarframlögum í Kvikmyndasjóð,
kvikmyndanámi á háskólastigi sem sett var á laggirnar við Listaháskóla Íslands,
hækkun framlaga til kennslu í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi,
nýjum starfslaunasjóði kvikmyndahöfunda sem tekur til starfa 2025, samkvæmt breytingum á lögum um starfslaun listamanna,
lögfestingu nýs fjárfestingasjóðs fyrir sjónvarpsefni.
Þá munu 1. desember nk. taka gildi breyttar reglur, sem unnið hefur verið að, sem heimila framleiðendum að fá helming endurgreiðslu sinnar þegar verk er hálfnað til að draga megi úr fjármögnunarkostnaði þeirra.
Kvikmyndagerð allt árið
Stefnumótun í kvikmyndagerð, sem unnin var í náinni samvinnu við geirann sjálfan, er þegar farin að skila okkur eftirtektarverðum árangri, m.a. í þeirri táknrænu staðreynd að kvikmyndagerð hér á landi er orðin heilsársatvinnugrein. Verkefnum, stórum sem smáum, hefur fjölgað og dýrmæt sérþekking aukist á öllum sviðum kvikmyndagerðar. Þá hefur umsóknum í Kvikmyndasjóð fjölgað verulega.
4.200 störf í kvikmyndagerð á Íslandi
Í nýlegri úttekt breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg SPI kom fram að um 4.200 bein, óbein og afleidd störf hefðu orðið til vegna kvikmyndagerðar hér á landi árið 2022 og að heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu við kvikmyndaverkefni hér á landi hafi numið 48,9 milljörðum kr. á árunum 2019-2022. Þá er gríðarlega ánægjulegt að sjá stór verkefni í kvikmyndagerð raungerast á landsbyggðinni, það styrkir stoðir greinarinnar og eflir smærri byggðir á landinu.
Sameinar listgreinar
Við í Framsókn höfum einlæga trú á kvikmyndagerð sem atvinnu- og listgrein og ekki síður okkar frábæra kvikmyndagerðarfólki, sem rutt hefur brautina gegnum áratugina og lagt grunn að þeim mikla árangri sem náðst hefur í greininni. Kvikmyndagerð er sérstök atvinnugrein að því leyti að hún þverar og sameinar mikinn fjölda listgreina. Þannig samanstendur kvikmynd gjarnan af skrifuðu handriti eða bók, leikurum, tónlist og hljóði, myndlist í einhverju formi, myndatöku, hönnun, leikmynda- og líkanasmíði og jafnvel hreyfimyndagerð, auk þess sem hún krefst stuðnings frá miklum fjölda margvíslegra iðngreina.
Kvikmyndagerð er arðbær, umhverfisvæn og hugvitsdrifin atvinnugrein sem fellur einkar vel að þeim áherslum sem við höfum lagt á uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar á Íslandi. Úttektir á efnahagslegum umsvifum greinarinnar staðfesta að framlag hennar til hagkerfisins er verulegt og þar verða til fjölbreytt og eftirsóknarverð störf. Kvikmyndaverkefni hafa átt stóran þátt í að koma Íslandi á kortið sem spennandi áfangastað fyrir erlenda gesti, en mikilvægast af öllu er að íslensk kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð nærir og miðlar menningu sem sameinar þjóðina og styður við samtíð og framtíð íslenskrar tungu.
Megináherslur næstu fjögur árin
Ef við í Framsókn hljótum til þess brautargengi í komandi Alþingiskosningum, þá viljum við meðal annars koma eftirfarandi aðgerðum til framkvæmda til að efla enn frekar kvikmyndagerð á Íslandi:
1) Efla Kvikmyndasjóð, sem komið var á laggirnar af Framsóknarflokknum árið 1978, með því að festa hækkun framlaga hans í sessi og tryggja jafnframt aukinn fyrirsjáanleika í vaxandi fjármögnun fyrir sjóðinn með fjögurra ára samkomulagi fyrir árin 2026-2030. Þá yrði nýr styrkjaflokkur, fjárfestingasjóður sjónvarpsefnis sem unnið hefur verið að á síðasta kjörtímabili, virkjaður. Hann mun efla sjóðinn enn fremur þar sem hann opnar möguleikann á að fjármagn skili sér aftur til sjóðsins þegar slík sjónvarpsverkefni skila ákveðnum hagnaði samkvæmt settum viðmiðum styrkjanna. Öflugur Kvikmyndasjóður mun geta veitt fleiri vilyrði til íslenskra verkefna sem aftur auðveldar þeim að sækja sér fjármögnun utan landssteinanna.
2) Klára löggjöf um menningarframlag streymisveitna sem skyldar erlendar streymisveitur sem starfa hér á landi til að veita fé í innlenda kvikmyndagerð í gegnum Kvikmyndasjóð, eða fjárfesta beint í innlendum kvikmyndaverkefnum. Málið var langt komið innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins en náði ekki að klárast í ljósi aðstæðna.
3) Sterkara endurgreiðslukerfi fyrir innlend verkefni með þremur breytingum.35% endurgreiðsluþrepið yrði eina endurgreiðsluþrepið. Sú breyting mun sérstaklega gagnast innlendum sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum á sama tíma og samkeppnishæfni Íslands fyrir stór alþjóðleg verkefni er viðhaldið. Þá yrði afnumið að styrkir Kvikmyndasjóðs dragist frá stofni endurgreiðslunnar, líkt og tíðkast í öðrum ríkjum í Evrópu ásamt því stuttmyndir yrðu felldar undir endurgreiðslukerfið, meðal annars til að styðja við upprennandi kvikmyndagerðafólk.
Frá því að endurgreiðslukerfinu var komið á af Framsóknarflokknum árið 1999 hefur það stutt verulega við kvikmyndagerð og hvatt til aukinnar verðmætasköpunar hérlendis með endurgreiðslu á kostnaði sem fellur til innanlands. Endurgreiðslukerfið er góður mælikvarði á umsvif í greininni; séu umsvifin mikil, endurgreiðir ríkið eðlilega hærri krónutölu og öfugt. Kerfið þykir skilvirkt og fyrirsjáanlegt í alþjóðlegum samanburði. Við viljum standa vörð um það eins og kemur fram í kosningavita Viðskiptaráðs og sést á meðfylgjandi mynd sem sýnir afstöðu stjórnmálaflokka til fyrirkomulagsins.
Kosningaviti Viðskiptaráðs: Afstaða stjórnmálaflokka til þess hvort draga eigi úr kostnaði ríkissjóðs vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar.
4) Árið 2028 hefjist undirbúningur við mótun nýrrar kvikmyndastefnu fyrir Ísland fyrir árin 2030-2040. Við teljum brýnt að horfa til langrar framtíðar þegar kemur að því byggja upp kvikmyndagerð hér á landi sem enn öflugri atvinnuveg í góðri samvinnu við haghafa í greininni.
Hverjum treystir þú?
Á þessum fyrstu fjórum árum sem kvikmyndastefna hefur verið í gildi höfum við unnið ötullega að því með kvikmyndageiranum að efla þessa mögnuðu list- og atvinnugrein. Verkin tala. Nú eru sex ár eftir af gildistíma stefnunnar og við viljum halda áfram. Við höfum skýra framtíðarsýn fyrir greinina; viljum auka verðmætasköpun í henni og skapa fleiri störf, en síðast en ekki síst efla íslenska menningu og tungu.
Það er viðvarandi verkefni að sækja fram í þágu menningarmála og ég er stolt af þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum árum. Afstaða mín og okkar í Framsókn er skýr; við stöndum með menningu og skapandi greinum. Því viljum við koma ofangreindum aðgerðum til framkvæmda í þágu íslenskrar kvikmyndagerðar á Íslandi, verðum við í aðstöðu til þess.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík suður.
Greinin birtist fyrst á visir.is 24. nóvember 2024.
Ísland stendur frammi fyrir miklum tækifærum á komandi áratugum. Að tryggja sjálfbæra þróun landsins, bæði efnahagslega og samfélagslega, krefst skýrrar stefnumörkunar sem byggist á verðmætasköpun, nýtingu landfræðilegrar legu landsins og að sjálfstæði þjóðarinnar verði tryggt ásamt áframhaldandi yfirráðum yfir auðlindum þjóðarinnar.
Verðmætasköpun undirstaða velferðar
Efnahagsleg velgengni Íslands hefur ávallt byggst á verðmætasköpun, sem í sögulegu samhengi hefur verið drifin áfram af sjávarútvegi, iðnaði, landbúnaði og orkuframleiðslu. Seinna meir hafa ferðaþjónusta, þekkingargreinar og skapandi greinar sótt fram og skapað ný verðmæti. Stoðum íslenska hagkerfisins hefur fjölgað verulega síðustu misseri og því hefur landsframleiðslan vaxið og gjaldmiðillinn verið nokkuð stöðugur. Smæð hagkerfisins gerir það að verkum að við framleiðum ekki alla hluti. Af þeim sökum þarf Ísland að reiða sig á útflutningsgreinar og frjáls alþjóðaviðskipti. Af þeim ástæðum má búast við því að sveiflur verði meiri hér en hjá stærri ríkjum og verðum við að búa við það. Það er því mikilvægt að skuldir hins opinbera séu minni en algengt er í nágrannaríkjunum og gjaldeyrisforði meiri. Á síðasta áratug hefur þjóðin náð að snúa viðskiptajöfnuði og erlendri skuldastöðu við útlönd í jákvæða stöðu. Hér hefur hagvöxtur verið umtalsvert meiri en í nágrannaríkjunum, sem hefur skilað sér til hagsældar fyrir almenning.
Nýtum tækifærin í landfræðilegri legu okkar
Það felast bæði tækifæri og áskoranir í landfræðilegri legu okkar. Ísland gegndi lykilhlutverki í viðskiptum á milli Grænlands og nágranna okkar á þjóðveldistímanum. Á þessum tíma má leiða líkur að því að á Íslandi hafi ríkt velmegun og bera merkar bókmenntir þjóðarinnar klárlega þess vitni. Um miðbik síðustu aldar hafði lega landsins afgerandi áhrif í átökum stórveldanna og tengdist Ísland með miklum hraða í atburðarás heimsmála og þessi tenging markaði afdrifarík spor á atvinnu- og menningarlíf þjóðarinnar. Með því að nýta þessa staðsetningu markvisst getur Ísland vaxið og orðið miðstöð samgönguflutninga, gagnavera og skapandi greina. Flug- og hafnarmannvirki landsins eru lykillinn að þessari þróun og beintengja okkur við markaði og menningu beggja vegna Atlantsála. Með því að fjárfesta í samgönguinnviðum þjóðarinnar getur Ísland orðið frekari samgöngumiðstöð út frá landfræðilegri legu sinni. Mikilvægi norðurslóða er að aukast vegna loftslagsbreytinga og því eru að opnast nýjar siglingaleiðir sem gætu sett Ísland í lykilstöðu fyrir norðurslóðaviðskipti. Stafrænn heimur skapar einnig möguleika. Ísland býr yfir kaldri veðráttu og umhverfisvænni orku, sem gerir landið að kjörlendi fyrir gagnaver. Með því að styrkja netinnviði okkar og efla alþjóðlega samvinnu um gagnatengingar getur Ísland orðið miðstöð fyrir stafræna þjónustu í framtíðinni.
Fullveldis- og sjálfstæðissaga Íslands einkennist af framförum og lífskjarasókn. Sjálfstæð nýting auðlinda okkar er grundvöllurinn fyrir áframhaldandi vexti þjóðarinnar. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi sjálfstæði Íslands á sviði orkumála, sjávarútvegs og annarra náttúruauðlinda. Í sjávarútvegi er það forsenda sjálfbærni að nýting sé byggð á vísindalegum rannsóknum og að arðurinn nýtist samfélaginu sem heild. Á sama hátt þarf að stýra orkuframleiðslu þannig að hún tryggi hagkvæmni og umhverfisvernd í senn. Regluverk í þessum efnum má ekki verða til þess að ákvörðunarferli í málaflokknum verði svo þungt að það fari að bitna á tækifærum landsins til frekari sóknar. Að sama skapi þarf að tryggja að Landsvirkjun verði áfram að fullu í opinberri eigu. Hugmyndir sem reglulega hefur verið fleygt fram af hægri væng stjórnmálanna um að selja hlut í fyrirtækinu eru til þess fallnar að raska hinni breiðu samfélagslegu sátt um eignarhald í fyrirtækinu.
ESB-aðild styður ekki íslenska hagsmuni
Hagsæld fæst ekki með umfangsmikilli skattlagningu eða með því að fela stjórn mála í hendur annarra. Enn verra er að blanda þessu tvennu saman. Samkvæmt gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur hagvöxtur hér verið meira en helmingi hærri frá aldamótum en á evrusvæðinu. Atvinnuleysi hefur jafnframt verið hér helmingi minna og atvinnutekjur að meðaltali einna hæstar innan evrópska efnahagssvæðisins. Verðbólga hefur að vísu verið hér helmingi hærri, en búast má við því að verðlag og vextir verði hér hærri, jafnvel í myntsamstarfi, vegna smæðar hagkerfisins. Í Evrópusambandinu yrði Ísland einn hæsti nettógreiðandinn í sameiginlega sjóði og í myntsamstarfi gæti Ísland verið að taka á sig ábyrgð á skuldbindingum þjóða sem ekki hafa verið jafn ráðdeildarsamar og Ísland í söfnun sameiginlegra sjóða og skulda hins opinbera. Í vikunni birti Evrópski seðlabankinn einmitt árlegt yfirlit um fjármálastöðugleika þar sem varað var við fjárlagahalla og háum skuldahlutföllum innan svæðisins í samhengi við neikvæða þróun hagvaxtar og framtíðarhorfum í ljósi stefnumótunar á þessu sviði. Bankinn gaf jafnframt til kynna að ef ekki yrði stefnubreyting væru horfur á skuldakreppu hjá einstökum ríkjum. Evrópusambandið stendur í leitinni að hagvexti, á meðan því hefur ekki verið til að dreifa á Íslandi. Við eigum að halda áfram því góða samstarfi sem við eigum við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins en ekki fara að leggja íslenska stjórnkerfið undir í margra ára aðlögunarviðræður við ESB vitandi að aðild þjónar ekki íslenskum hagsmunum. Okkur farnast best með því að stjórna okkur sjálf.
Framtíð Íslands er björt
Framtíð Íslands byggist á því hvernig við nýtum auðlindir okkar, landfræðilega stöðu og mannauð. Með skýrri stefnu sem tryggir verðmætasköpun, nýtingu landfræðilegra tækifæra og verndun sjálfstæðis og auðlinda getum við tryggt að Ísland verði áfram öflug, sjálfbær og framsækin þjóð í síbreytilegum heimi. Þannig tryggjum við að velferð og sjálfstæði verði hornsteinar íslensks samfélags um ókomin ár.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og oddviti Framsóknar í Reykjavík suður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2024.
Stýrivextir voru lækkaðir um 50 punkta í morgun. Þeir hafa lækkað um 75 punkta síðan í október. Hvað þýðir þetta? Heimili með 30 m.kr. húsnæðislán eykur ráðstöfunartekjur sínar um 190 þúsund á ári.
Að sama skapi hefur því verið spáð að verðbólga lækki úr 5,1% í 4,5% hinn 28. nóvember næstkomandi – sem greiðir götu enn frekari vaxtalækkana í þágu heimila og fyrirtækja.
Ábyrgð og forgangsröðun skilar sér
Vaxtalækkanir sem þessar eru auðvitað afskaplega ánægjulegur árangur af markvissum og samþættum aðgerðum opinberra aðila og aðila vinnumarkaðarins. Þetta gerist ekki af sjálfu sér og verður ekki til í tómarúmi kosningaloforða. Þetta er staðfesting á að stefna okkar virkar sem miðar að því að ná niður vöxtum og verðbólgu. Við erum með ábyrga efnahagsstefnu og með aðhald í ríkisfjármálum. Í ríkisfjármálunum er meðal annars forgangsraðað í þágu þeirra mikilvægu langtímakjarasamninga sem gerðir voru á milli aðila vinnumarkaðarins. Verðbólguvæntingar eru að lækka og hafa ekki verið lægri síðan 2021!
Kanínur upp úr hatti
Nú sigla með himinskautum flokkar, Samfylking og Viðreisn, sem tala digurbarkalega um að það þurfi að „negla niður vexti“ og „lækka þessa vexti“. Hafa þeir flokkar í engu sagt hvað þeir myndu gera öðruvísi en Framsókn er nú þegar að gera í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Staðreyndin er sú að okkar plan er að virka eins og lagt var upp með. Því er ekki að neita að verðbólga í kjölfar fordæmalauss heimsfaraldurs og stríðsins í Evrópu hefur tekið á. Þá missti 1% þjóðarinnar húsnæði sitt vegna jarðhræringanna í Grindavík. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun að gera meira en minna til þess að styðja við samfélagið í kjölfar heimsfaraldursins, þegar 20.000 störf hurfu og margs konar starfsemi lagðist í dvala. Það kostaði, en skilaði sér í samfélagi sem lenti á báðum fótum.
Flokkarnir sem gleymdu að byggja
Það sem hefur fyrst og síðast haldið lífi í verðbólgunni er framboðsskortur á húsnæði. Samfylkingin og Viðreisn geta ekki litið fram hjá ábyrgð sinni á lóðaskortstefnu í borginni til ársins 2022. Eins og alþjóð veit sváfu þessir flokkar á verðinum í húsnæðismálum í Reykjavík, langstærsta sveitarfélagi landsins. Á þetta bentu meðal annars Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Íslands og Samtök iðnaðarins. Það þýðir hins vegar ekki að gráta Björn bónda, heldur líta fram á veginn og gera betur. Framsókn með borgarstjóra í fylkingarbrjósti hefur tekið þessi mál föstum tökum með því að ryðja nýtt land og skipuleggja ný hverfi, en þau nýmæli urðu að borgin skuldbatt sig til að byggja 16.000 nýjar íbúðir á næstu 10 árum, t.d í Úlfarsárdal og Kjalarnesi, en þar er nú verið að úthluta lóðum í fyrsta sinn í áraraðir. Það eru markverðar breytingar.
Áfram veginn
Ég er sannfærð um að við munum sjá vexti lækka skarpt með áframhaldandi ábyrgð af leiðarljósi. Við þurfum ekki á kollsteypum eða auknum byrðum á fólk og fyrirtæki að halda. Hér bjóða fram flokkar sem vilja hækka skatta á fólk og fyrirtæki, skera niður hið opinbera um 20% eða ganga í Evrópusambandi með tilheyrandi atvinnuleysi og fullveldisframsali í auðlindamálum. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Við þurfum frekar að tryggja að atvinnulífið okkar geti haldið áfram að skapa hér verðmæti til að undirbyggja hér aukna lífskjarasókn til framtíðar – og við erum fullfær um það sjálf. Við í Framsókn vinnum vinnuna sem þarf að vinna og óskum eftir þínum stuðningi í því verkefni. Setjum við X við B!
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og oddviti Framsóknar í Reykjavík suður.
Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.