Samtalið við kjósendur er það skemmtilegasta við stjórnmálin. Komandi kosningar skipta miklu máli fyrir næstu fjögur ár. Kannanir helgarinnar sýna að Framsókn á á brattann að sækja. Við frambjóðendur flokksins finnum hins vegar fyrir mjög hlýjum straumum og trúum því að okkar fjölmörgu verk í þágu samfélagsins nái í gegn fyrir kosningarnar hinn 30. nóvember.
Við finnum að fólk kann einmitt að meta að Framsókn hafi frekar einbeitt sér að því að klára verkefnin í stað þess að taka þátt í reglulegum deilum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Því fylgir ábyrgð að stjórna landi.
Við heyrum líka að mörgum hrýs hugur við að upp úr kjörkössunum komi hrein hægristjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Miðflokks með tilheyrandi sveltistefnu, niðurskurði og vanhugsaðri einkavæðingu ríkiseigna.
Nú eða hrein ESB-stjórn Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar, sem mun hækka skatta og leggja gjörvallt stjórnkerfið undir aðlögunarferli að Evrópusambandinu næstu árin með tilheyrandi átökum í þjóðfélaginu.
Aðild að ESB mun leiða af sér minni hagvöxt og framsal á fullveldi Íslands, þar með talið í auðlindamálum. Það eru staðreyndir.
Við þurfum ekki fleira til þess að ala á ósætti og óvissu í samfélaginu. Eini valkosturinn til þess að koma í veg fyrir fyrrnefnd stjórnarmynstur er að kjósa Framsókn, flokkinn á miðjunni, sem hefur einn stjórnmálaflokka fylgt þjóðinni samfellt í meira en heila öld. Það er engin miðja án Framsóknar, og engin framsókn án miðju.
Mikilvægasta verkefnið fram undan er áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu.
Því er ekki að neita að verðbólga í kjölfar fordæmalauss heimsfaraldurs og stríðsins í Evrópu hefur tekið á. Þá missti 1% þjóðarinnar húsnæði sitt vegna jarðhræringanna í Grindavík. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun að gera meira en minna til þess að styðja við samfélagið í kjölfar heimsfaraldursins, þegar 20.000 störf hurfu og margs konar starfsemi lagðist í dvala. Það kostaði, en skilaði sér í samfélagi sem lenti á báðum fótum.
Það er hins vegar ánægjulegt að markvissar og samþættar aðgerðir opinberra aðila og aðila vinnumarkaðarins séu farnar að skila sér í lækkun stýrivaxta, sem hafa lækkað um 75 punkta síðan í október. Árangur í þessa veru gerist ekki af sjálfu sér og verður ekki til í tómarúmi kosningaloforða. Þetta er staðfesting á að stefna okkar virkar sem miðar að því að ná niður vöxtum og verðbólgu. Við erum með ábyrga efnahagsstefnu og með nægjanlegt aðhald og skýra forgangsröðun í ríkisfjármálum. Við í Framsókn viljum halda áfram á þeirri braut og óskum eftir stuðningi í þau verk.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2024.
Kvikmyndagerð á Íslandi hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum. Markviss skref hafa verið stigin til þess að styrkja umgjörð greinarinnar á grundvelli Kvikmyndastefnu til ársins 2030 en þar á meðal hefur aðgerðum verið hrint í framkvæmd sem snúa að:
hækkun endurgreiðsluhlutfalls í kvikmyndagerð úr 25% í 35% fyrir stærri verkefni,
1,3 milljarða kr. viðbótarframlögum í Kvikmyndasjóð,
kvikmyndanámi á háskólastigi sem sett var á laggirnar við Listaháskóla Íslands,
hækkun framlaga til kennslu í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi,
nýjum starfslaunasjóði kvikmyndahöfunda sem tekur til starfa 2025, samkvæmt breytingum á lögum um starfslaun listamanna,
lögfestingu nýs fjárfestingasjóðs fyrir sjónvarpsefni.
Þá munu 1. desember nk. taka gildi breyttar reglur, sem unnið hefur verið að, sem heimila framleiðendum að fá helming endurgreiðslu sinnar þegar verk er hálfnað til að draga megi úr fjármögnunarkostnaði þeirra.
Kvikmyndagerð allt árið
Stefnumótun í kvikmyndagerð, sem unnin var í náinni samvinnu við geirann sjálfan, er þegar farin að skila okkur eftirtektarverðum árangri, m.a. í þeirri táknrænu staðreynd að kvikmyndagerð hér á landi er orðin heilsársatvinnugrein. Verkefnum, stórum sem smáum, hefur fjölgað og dýrmæt sérþekking aukist á öllum sviðum kvikmyndagerðar. Þá hefur umsóknum í Kvikmyndasjóð fjölgað verulega.
4.200 störf í kvikmyndagerð á Íslandi
Í nýlegri úttekt breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg SPI kom fram að um 4.200 bein, óbein og afleidd störf hefðu orðið til vegna kvikmyndagerðar hér á landi árið 2022 og að heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu við kvikmyndaverkefni hér á landi hafi numið 48,9 milljörðum kr. á árunum 2019-2022. Þá er gríðarlega ánægjulegt að sjá stór verkefni í kvikmyndagerð raungerast á landsbyggðinni, það styrkir stoðir greinarinnar og eflir smærri byggðir á landinu.
Sameinar listgreinar
Við í Framsókn höfum einlæga trú á kvikmyndagerð sem atvinnu- og listgrein og ekki síður okkar frábæra kvikmyndagerðarfólki, sem rutt hefur brautina gegnum áratugina og lagt grunn að þeim mikla árangri sem náðst hefur í greininni. Kvikmyndagerð er sérstök atvinnugrein að því leyti að hún þverar og sameinar mikinn fjölda listgreina. Þannig samanstendur kvikmynd gjarnan af skrifuðu handriti eða bók, leikurum, tónlist og hljóði, myndlist í einhverju formi, myndatöku, hönnun, leikmynda- og líkanasmíði og jafnvel hreyfimyndagerð, auk þess sem hún krefst stuðnings frá miklum fjölda margvíslegra iðngreina.
Kvikmyndagerð er arðbær, umhverfisvæn og hugvitsdrifin atvinnugrein sem fellur einkar vel að þeim áherslum sem við höfum lagt á uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar á Íslandi. Úttektir á efnahagslegum umsvifum greinarinnar staðfesta að framlag hennar til hagkerfisins er verulegt og þar verða til fjölbreytt og eftirsóknarverð störf. Kvikmyndaverkefni hafa átt stóran þátt í að koma Íslandi á kortið sem spennandi áfangastað fyrir erlenda gesti, en mikilvægast af öllu er að íslensk kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð nærir og miðlar menningu sem sameinar þjóðina og styður við samtíð og framtíð íslenskrar tungu.
Megináherslur næstu fjögur árin
Ef við í Framsókn hljótum til þess brautargengi í komandi Alþingiskosningum, þá viljum við meðal annars koma eftirfarandi aðgerðum til framkvæmda til að efla enn frekar kvikmyndagerð á Íslandi:
1) Efla Kvikmyndasjóð, sem komið var á laggirnar af Framsóknarflokknum árið 1978, með því að festa hækkun framlaga hans í sessi og tryggja jafnframt aukinn fyrirsjáanleika í vaxandi fjármögnun fyrir sjóðinn með fjögurra ára samkomulagi fyrir árin 2026-2030. Þá yrði nýr styrkjaflokkur, fjárfestingasjóður sjónvarpsefnis sem unnið hefur verið að á síðasta kjörtímabili, virkjaður. Hann mun efla sjóðinn enn fremur þar sem hann opnar möguleikann á að fjármagn skili sér aftur til sjóðsins þegar slík sjónvarpsverkefni skila ákveðnum hagnaði samkvæmt settum viðmiðum styrkjanna. Öflugur Kvikmyndasjóður mun geta veitt fleiri vilyrði til íslenskra verkefna sem aftur auðveldar þeim að sækja sér fjármögnun utan landssteinanna.
2) Klára löggjöf um menningarframlag streymisveitna sem skyldar erlendar streymisveitur sem starfa hér á landi til að veita fé í innlenda kvikmyndagerð í gegnum Kvikmyndasjóð, eða fjárfesta beint í innlendum kvikmyndaverkefnum. Málið var langt komið innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins en náði ekki að klárast í ljósi aðstæðna.
3) Sterkara endurgreiðslukerfi fyrir innlend verkefni með þremur breytingum.35% endurgreiðsluþrepið yrði eina endurgreiðsluþrepið. Sú breyting mun sérstaklega gagnast innlendum sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum á sama tíma og samkeppnishæfni Íslands fyrir stór alþjóðleg verkefni er viðhaldið. Þá yrði afnumið að styrkir Kvikmyndasjóðs dragist frá stofni endurgreiðslunnar, líkt og tíðkast í öðrum ríkjum í Evrópu ásamt því stuttmyndir yrðu felldar undir endurgreiðslukerfið, meðal annars til að styðja við upprennandi kvikmyndagerðafólk.
Frá því að endurgreiðslukerfinu var komið á af Framsóknarflokknum árið 1999 hefur það stutt verulega við kvikmyndagerð og hvatt til aukinnar verðmætasköpunar hérlendis með endurgreiðslu á kostnaði sem fellur til innanlands. Endurgreiðslukerfið er góður mælikvarði á umsvif í greininni; séu umsvifin mikil, endurgreiðir ríkið eðlilega hærri krónutölu og öfugt. Kerfið þykir skilvirkt og fyrirsjáanlegt í alþjóðlegum samanburði. Við viljum standa vörð um það eins og kemur fram í kosningavita Viðskiptaráðs og sést á meðfylgjandi mynd sem sýnir afstöðu stjórnmálaflokka til fyrirkomulagsins.
4) Árið 2028 hefjist undirbúningur við mótun nýrrar kvikmyndastefnu fyrir Ísland fyrir árin 2030-2040. Við teljum brýnt að horfa til langrar framtíðar þegar kemur að því byggja upp kvikmyndagerð hér á landi sem enn öflugri atvinnuveg í góðri samvinnu við haghafa í greininni.
Hverjum treystir þú?
Á þessum fyrstu fjórum árum sem kvikmyndastefna hefur verið í gildi höfum við unnið ötullega að því með kvikmyndageiranum að efla þessa mögnuðu list- og atvinnugrein. Verkin tala. Nú eru sex ár eftir af gildistíma stefnunnar og við viljum halda áfram. Við höfum skýra framtíðarsýn fyrir greinina; viljum auka verðmætasköpun í henni og skapa fleiri störf, en síðast en ekki síst efla íslenska menningu og tungu.
Það er viðvarandi verkefni að sækja fram í þágu menningarmála og ég er stolt af þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum árum. Afstaða mín og okkar í Framsókn er skýr; við stöndum með menningu og skapandi greinum. Því viljum við koma ofangreindum aðgerðum til framkvæmda í þágu íslenskrar kvikmyndagerðar á Íslandi, verðum við í aðstöðu til þess.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík suður.
Greinin birtist fyrst á visir.is 24. nóvember 2024.
Ísland stendur frammi fyrir miklum tækifærum á komandi áratugum. Að tryggja sjálfbæra þróun landsins, bæði efnahagslega og samfélagslega, krefst skýrrar stefnumörkunar sem byggist á verðmætasköpun, nýtingu landfræðilegrar legu landsins og að sjálfstæði þjóðarinnar verði tryggt ásamt áframhaldandi yfirráðum yfir auðlindum þjóðarinnar.
Verðmætasköpun undirstaða velferðar
Efnahagsleg velgengni Íslands hefur ávallt byggst á verðmætasköpun, sem í sögulegu samhengi hefur verið drifin áfram af sjávarútvegi, iðnaði, landbúnaði og orkuframleiðslu. Seinna meir hafa ferðaþjónusta, þekkingargreinar og skapandi greinar sótt fram og skapað ný verðmæti. Stoðum íslenska hagkerfisins hefur fjölgað verulega síðustu misseri og því hefur landsframleiðslan vaxið og gjaldmiðillinn verið nokkuð stöðugur. Smæð hagkerfisins gerir það að verkum að við framleiðum ekki alla hluti. Af þeim sökum þarf Ísland að reiða sig á útflutningsgreinar og frjáls alþjóðaviðskipti. Af þeim ástæðum má búast við því að sveiflur verði meiri hér en hjá stærri ríkjum og verðum við að búa við það. Það er því mikilvægt að skuldir hins opinbera séu minni en algengt er í nágrannaríkjunum og gjaldeyrisforði meiri. Á síðasta áratug hefur þjóðin náð að snúa viðskiptajöfnuði og erlendri skuldastöðu við útlönd í jákvæða stöðu. Hér hefur hagvöxtur verið umtalsvert meiri en í nágrannaríkjunum, sem hefur skilað sér til hagsældar fyrir almenning.
Nýtum tækifærin í landfræðilegri legu okkar
Það felast bæði tækifæri og áskoranir í landfræðilegri legu okkar. Ísland gegndi lykilhlutverki í viðskiptum á milli Grænlands og nágranna okkar á þjóðveldistímanum. Á þessum tíma má leiða líkur að því að á Íslandi hafi ríkt velmegun og bera merkar bókmenntir þjóðarinnar klárlega þess vitni. Um miðbik síðustu aldar hafði lega landsins afgerandi áhrif í átökum stórveldanna og tengdist Ísland með miklum hraða í atburðarás heimsmála og þessi tenging markaði afdrifarík spor á atvinnu- og menningarlíf þjóðarinnar. Með því að nýta þessa staðsetningu markvisst getur Ísland vaxið og orðið miðstöð samgönguflutninga, gagnavera og skapandi greina. Flug- og hafnarmannvirki landsins eru lykillinn að þessari þróun og beintengja okkur við markaði og menningu beggja vegna Atlantsála. Með því að fjárfesta í samgönguinnviðum þjóðarinnar getur Ísland orðið frekari samgöngumiðstöð út frá landfræðilegri legu sinni. Mikilvægi norðurslóða er að aukast vegna loftslagsbreytinga og því eru að opnast nýjar siglingaleiðir sem gætu sett Ísland í lykilstöðu fyrir norðurslóðaviðskipti. Stafrænn heimur skapar einnig möguleika. Ísland býr yfir kaldri veðráttu og umhverfisvænni orku, sem gerir landið að kjörlendi fyrir gagnaver. Með því að styrkja netinnviði okkar og efla alþjóðlega samvinnu um gagnatengingar getur Ísland orðið miðstöð fyrir stafræna þjónustu í framtíðinni.
Fullveldis- og sjálfstæðissaga Íslands einkennist af framförum og lífskjarasókn. Sjálfstæð nýting auðlinda okkar er grundvöllurinn fyrir áframhaldandi vexti þjóðarinnar. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi sjálfstæði Íslands á sviði orkumála, sjávarútvegs og annarra náttúruauðlinda. Í sjávarútvegi er það forsenda sjálfbærni að nýting sé byggð á vísindalegum rannsóknum og að arðurinn nýtist samfélaginu sem heild. Á sama hátt þarf að stýra orkuframleiðslu þannig að hún tryggi hagkvæmni og umhverfisvernd í senn. Regluverk í þessum efnum má ekki verða til þess að ákvörðunarferli í málaflokknum verði svo þungt að það fari að bitna á tækifærum landsins til frekari sóknar. Að sama skapi þarf að tryggja að Landsvirkjun verði áfram að fullu í opinberri eigu. Hugmyndir sem reglulega hefur verið fleygt fram af hægri væng stjórnmálanna um að selja hlut í fyrirtækinu eru til þess fallnar að raska hinni breiðu samfélagslegu sátt um eignarhald í fyrirtækinu.
ESB-aðild styður ekki íslenska hagsmuni
Hagsæld fæst ekki með umfangsmikilli skattlagningu eða með því að fela stjórn mála í hendur annarra. Enn verra er að blanda þessu tvennu saman. Samkvæmt gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur hagvöxtur hér verið meira en helmingi hærri frá aldamótum en á evrusvæðinu. Atvinnuleysi hefur jafnframt verið hér helmingi minna og atvinnutekjur að meðaltali einna hæstar innan evrópska efnahagssvæðisins. Verðbólga hefur að vísu verið hér helmingi hærri, en búast má við því að verðlag og vextir verði hér hærri, jafnvel í myntsamstarfi, vegna smæðar hagkerfisins. Í Evrópusambandinu yrði Ísland einn hæsti nettógreiðandinn í sameiginlega sjóði og í myntsamstarfi gæti Ísland verið að taka á sig ábyrgð á skuldbindingum þjóða sem ekki hafa verið jafn ráðdeildarsamar og Ísland í söfnun sameiginlegra sjóða og skulda hins opinbera. Í vikunni birti Evrópski seðlabankinn einmitt árlegt yfirlit um fjármálastöðugleika þar sem varað var við fjárlagahalla og háum skuldahlutföllum innan svæðisins í samhengi við neikvæða þróun hagvaxtar og framtíðarhorfum í ljósi stefnumótunar á þessu sviði. Bankinn gaf jafnframt til kynna að ef ekki yrði stefnubreyting væru horfur á skuldakreppu hjá einstökum ríkjum. Evrópusambandið stendur í leitinni að hagvexti, á meðan því hefur ekki verið til að dreifa á Íslandi. Við eigum að halda áfram því góða samstarfi sem við eigum við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins en ekki fara að leggja íslenska stjórnkerfið undir í margra ára aðlögunarviðræður við ESB vitandi að aðild þjónar ekki íslenskum hagsmunum. Okkur farnast best með því að stjórna okkur sjálf.
Framtíð Íslands er björt
Framtíð Íslands byggist á því hvernig við nýtum auðlindir okkar, landfræðilega stöðu og mannauð. Með skýrri stefnu sem tryggir verðmætasköpun, nýtingu landfræðilegra tækifæra og verndun sjálfstæðis og auðlinda getum við tryggt að Ísland verði áfram öflug, sjálfbær og framsækin þjóð í síbreytilegum heimi. Þannig tryggjum við að velferð og sjálfstæði verði hornsteinar íslensks samfélags um ókomin ár.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og oddviti Framsóknar í Reykjavík suður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2024.
Stýrivextir voru lækkaðir um 50 punkta í morgun. Þeir hafa lækkað um 75 punkta síðan í október. Hvað þýðir þetta? Heimili með 30 m.kr. húsnæðislán eykur ráðstöfunartekjur sínar um 190 þúsund á ári.
Að sama skapi hefur því verið spáð að verðbólga lækki úr 5,1% í 4,5% hinn 28. nóvember næstkomandi – sem greiðir götu enn frekari vaxtalækkana í þágu heimila og fyrirtækja.
Ábyrgð og forgangsröðun skilar sér
Vaxtalækkanir sem þessar eru auðvitað afskaplega ánægjulegur árangur af markvissum og samþættum aðgerðum opinberra aðila og aðila vinnumarkaðarins. Þetta gerist ekki af sjálfu sér og verður ekki til í tómarúmi kosningaloforða. Þetta er staðfesting á að stefna okkar virkar sem miðar að því að ná niður vöxtum og verðbólgu. Við erum með ábyrga efnahagsstefnu og með aðhald í ríkisfjármálum. Í ríkisfjármálunum er meðal annars forgangsraðað í þágu þeirra mikilvægu langtímakjarasamninga sem gerðir voru á milli aðila vinnumarkaðarins. Verðbólguvæntingar eru að lækka og hafa ekki verið lægri síðan 2021!
Kanínur upp úr hatti
Nú sigla með himinskautum flokkar, Samfylking og Viðreisn, sem tala digurbarkalega um að það þurfi að „negla niður vexti“ og „lækka þessa vexti“. Hafa þeir flokkar í engu sagt hvað þeir myndu gera öðruvísi en Framsókn er nú þegar að gera í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Staðreyndin er sú að okkar plan er að virka eins og lagt var upp með. Því er ekki að neita að verðbólga í kjölfar fordæmalauss heimsfaraldurs og stríðsins í Evrópu hefur tekið á. Þá missti 1% þjóðarinnar húsnæði sitt vegna jarðhræringanna í Grindavík. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun að gera meira en minna til þess að styðja við samfélagið í kjölfar heimsfaraldursins, þegar 20.000 störf hurfu og margs konar starfsemi lagðist í dvala. Það kostaði, en skilaði sér í samfélagi sem lenti á báðum fótum.
Flokkarnir sem gleymdu að byggja
Það sem hefur fyrst og síðast haldið lífi í verðbólgunni er framboðsskortur á húsnæði. Samfylkingin og Viðreisn geta ekki litið fram hjá ábyrgð sinni á lóðaskortstefnu í borginni til ársins 2022. Eins og alþjóð veit sváfu þessir flokkar á verðinum í húsnæðismálum í Reykjavík, langstærsta sveitarfélagi landsins. Á þetta bentu meðal annars Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Íslands og Samtök iðnaðarins. Það þýðir hins vegar ekki að gráta Björn bónda, heldur líta fram á veginn og gera betur. Framsókn með borgarstjóra í fylkingarbrjósti hefur tekið þessi mál föstum tökum með því að ryðja nýtt land og skipuleggja ný hverfi, en þau nýmæli urðu að borgin skuldbatt sig til að byggja 16.000 nýjar íbúðir á næstu 10 árum, t.d í Úlfarsárdal og Kjalarnesi, en þar er nú verið að úthluta lóðum í fyrsta sinn í áraraðir. Það eru markverðar breytingar.
Áfram veginn
Ég er sannfærð um að við munum sjá vexti lækka skarpt með áframhaldandi ábyrgð af leiðarljósi. Við þurfum ekki á kollsteypum eða auknum byrðum á fólk og fyrirtæki að halda. Hér bjóða fram flokkar sem vilja hækka skatta á fólk og fyrirtæki, skera niður hið opinbera um 20% eða ganga í Evrópusambandi með tilheyrandi atvinnuleysi og fullveldisframsali í auðlindamálum. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Við þurfum frekar að tryggja að atvinnulífið okkar geti haldið áfram að skapa hér verðmæti til að undirbyggja hér aukna lífskjarasókn til framtíðar – og við erum fullfær um það sjálf. Við í Framsókn vinnum vinnuna sem þarf að vinna og óskum eftir þínum stuðningi í því verkefni. Setjum við X við B!
Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og oddviti Framsóknar í Reykjavík suður.
Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.
Á mánudaginn voru fyrstu handritin flutt úr Árnagarði, sem verið hefur heimili þeirra síðan 1971, í Eddu þar sem þeirra bíður varanlegt heimili. Meðal handrita sem flutt voru í Eddu var Konungsbók eddukvæða, stærsta framlag Íslands til heimsmenningarinnar. Hún hefur að geyma elsta og merkasta safn eddukvæða skrifað á síðari hluta 13. aldar af óþekktum skrifara. Eddukvæði geyma sögur af heiðnum goðum, Völuspá sem geymir heimssögu ásatrúar og Hávamál sem miðla lífsspeki Óðins.
Tilhugsunin um það ef þessi merka bók hefði glatast er skrítin. Enginn Óðinn, Þór eða Loki, engin Frigg eða Freyja, engin Hávamál. Chris Hemsworth hefði aldrei klæðst búningi Þórs þar sem engar Marvel-myndir um norræna goðafræði hefðu verið gerðar. Þetta er menning sem allur heimurinn þekkir – menning okkar og hluti af sjálfsmynd okkar, sem hefur varðveist í handritunum í gegnum aldirnar. Meðal annarra handrita sem flutt voru í Eddu eru Flateyjarbók, Möðruvallabók og handrit að Margrétarsögu sem ljósmæður fyrri tíma höfðu í fórum sínum til að lina þrautir sængurkvenna. Handritin varpa ljósi á þann sköpunarkraft sem hefur alltaf ríkt á okkar góða landi, en Ísland sker sig úr á Norðurlöndum þegar kemur að bókmenntaarfi. Árið 2009 voru handritin okkar til að mynda sett á sérstaka varðveisluskrá UNESCO. Tilgangur varðveislulistans er að vekja athygli á mikilvægi þess að varðveita andlegan menningararf veraldar með því að útnefna einstök söfn með sérstakt varðveislugildi.
Handritin varðveita einnig grunninn í tungumáli okkar sem hefur þróast hér á landi í um 1.150 ár. Á undanförnum árum hef ég lagt allt kapp á að setja íslenskuna í öndvegi andspænis áskorunum samtímans sem snúa að tungumálinu. Fjölmargt hefur verið gert til þess að styrkja stöðu hennar, allt frá því að herja á Disney+ um að bjóða upp á talsett barnaefni á íslensku til að gera íslenskuna gjaldgenga í hinum stafræna heimi, en nú er svo komið að snjalltæki og forrit geta skilið, skrifað og talað hágæðaíslensku eftir samstarf við alþjóðleg tæknifyrirtæki á borð við OpenAI og Microsoft. Það eitt og sér eru þýðingarmestu vatnaskil fyrir íslenskuna til framtíðar, og er svo komið að Ísland er orðið fyrirmynd annarra fámennra málsvæða í heiminum. Ég fyllist miklu stolti yfir þessum árangri sem náðst hefur á undanförnum sjö árum.
Klukkan 14 í Eddu í dag verður tungumálinu okkar og handritunum lyft upp þegar sýningin Heimur í orðum verður opnuð. Með henni verður þessi merkilegi menningararfur okkar loksins aðgengilegur þjóð sinni. Einnig verða verðlaun Jónasar Hallgrímssonar veitt í Eddu klukkan 16 við hátíðlega athöfn auk þess sem veitt verður sérstök viðurkenning fyrir stuðning við íslenska tungu. Ég hvet fólk til að fjölmenna í Eddu í dag, enda er um að ræða okkar Monu Lisu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. nóvember 2024.
Stærsta verkefni efnahagsstjórnarinnar er að ná niður vöxtum og verðbólgu. Það hefur verið ánægjulegt að sjá aðgerðir til að ná niður verðbólgu skila árangri. Þannig hefur hún lækkað úr 10,2% þegar hún mældist hæst, niður í 5,1%. Síðasta vaxtaákvörðun Seðlabankans var jákvætt skref í átt að lægri vöxtum, en lægri vextir eru stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Það hefur engum dulist að húsnæðisliðurinn hefur vegið þungt í verðbólgumælingum undanfarin misseri en vísitala neysluverðs án húsnæðis var um 2,8% í síðustu mælingu.
Ýmsu hefur verið komið til leiðar á undanförnum árum í húsnæðismálum. Þannig hefur ríkið til dæmis stutt myndarlega við uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með stofnframlögum sem eru ætluð til að treysta húsnæðisöryggi og tryggja viðráðanlegan húsnæðiskostnað tekjulægri heimila. Hlutdeildarlánunum var einnig komið á, sem nýtast til dæmis fyrstu kaupendum. Húsnæðisstuðningur fyrir foreldra í leiguhúsnæði var aukinn. Sérstakur vaxtastuðningur, samtals upp á 5,5 ma. kr., var greiddur út 2024 vegna vaxtagjalda af íbúðalánum 2023, en stuðningurinn náði til 56 þúsund einstaklinga. Heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði voru rýmkaðar verulega. Húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda var aukin með breytingu á húsaleigulögum. Sveitarfélög fengu auknar heimildir til að tímabinda uppbyggingarheimildir til að tryggja að byggingaráform gangi eftir. Rekstrarleyfisskyld gisting í íbúðarhúsnæði var gerð óheimil og eftirlit með heimagistingu aukið.
Þrátt fyrir að mikið hafi verið byggt á undanförnum árum og hlutfall þeirra sem eiga eigið húsnæði aldrei verið hærra, þarf að byggja meira. Þar skiptir höfuðmáli að tryggja nægar byggingarhæfar lóðir í sveitarfélögum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ríki og sveitarfélög hafa verið að taka höndum saman með þetta að markmiði. Má þar nefna að Reykjavík reið á vaðið og undirritaði tímamótasamning við ríkið um húsnæðisuppbyggingu um 16.000 íbúða á næstu 10 árum, eða allt að 2.000 íbúða á ári næstu fimm árin. Í borginni hafa húsnæðis- og lóðamál verið sett í forgang með Framsókn í broddi fylkingar, meðal annars með því að ryðja nýtt land. Má til dæmis nefna nýjar lóðir sem unnið er að á Kjalarnesi og í Úlfarsárdal ásamt Keldnalandinu, sem er í umhverfismati, en um 2.600 íbúðir eru í byggingu í borginni og um 12.000 íbúðir eru á lóðum sem eru í skipulagsferli. Slík skipulagsvinna á hendi sveitarfélaganna verður að ganga smurt fyrir sig enda er verkefnið fram undan að tryggja að uppbyggingaráform raungerist. Hagstæðari fjármögnunarkostnaður sem mun fylgja lækkandi stýrivöxtum skiptir einnig höfuðmáli í því samhengi. Húsnæðismál eru stórt hagstjórnarmál og á húsnæðismarkaði þarf að ríkja heilbrigt jafnvægi. Aukið framboð á húsnæði er lykillinn að auknu jafnvægi á markaðnum í dag.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024.
Heimshagkerfið hefur sýnt umtalsverðan viðnámsþrótt, þrátt fyrir óvenjumikla áraun síðustu ár. Fremst ber þar að nefna farsótt og stríðsrekstur í Evrópu. Því til viðbótar hafa vaxandi viðskiptadeilur á milli stærstu efnahagskerfanna markað mikil umskipti á gangverki heimsviðskipta. Ísland er að mörgu leyti í góðri stöðu. Mikill hagvöxtur, hátt atvinnustig, sterk erlend staða þjóðarbúsins og verðbólgan fer nú lækkandi. Stærsta viðfangsefni hagstjórnarinnar á næstunni verður að lækka hinn háa fjármagnskostnað sem hefur verið einkennandi fyrir íslenska hagkerfið. Forsendur eru að skapast fyrir lækkun vaxta og þar af leiðandi fjármagnskostnaðar vegna aukins sparnaðar. Mikilvægt er að hagstjórnin styðji við áframhaldandi hagvöxt, lækkun skulda og að ná mun betri tökum á húsnæðismarkaðnum.
Hagvöxtur forsenda velferðar
Hagvöxtur er viðvarandi aukning efnahagslegrar hagsældar sem mæld er í heildarframleiðslu á vörum og þjónustu í hagkerfinu. Hagvöxtur skiptir miklu máli til að auka velferð þjóða. Hagvöxtur á Íslandi hefur á síðustu áratugum verið þróttmikill og atvinnuleysi lítið. Hagvöxtur síðustu fimm ár hefur að meðaltali verið rúm 2,5% og fjöldi nýrra starfa hefur orðið til á öllum sviðum samfélagsins. Til samanburðar hefur hagvöxtur í Bandaríkjunum verið 2% og á evrusvæðinu 1%. Flest ríki vilja vera í stöðu Íslands, þar sem hagvaxtarhorfur eru góðar. Lykillinn að slíku umhverfi er að samkeppnisstaða atvinnulífsins sé sterk og umgjörðin traust og fyrirsjáanleg. Framsókn horfir til þess að auka tekjuöflun ríkisins með auknum vexti og verðmætasköpun fremur en með aukinni skattheimtu á fólk og fyrirtæki. Horfa þarf til þess að fjölga enn stoðum hagkerfisins, en á undanförnum áratugum hefur þeim fjölgað úr einni í fjórar. Það þarf áfram að horfa til skapandi greina og hugvits til að tryggja vaxandi hagsæld. Í því samhengi skiptir meðal annars sköpum að fyrirsjáanleg, fjármögnuð og skilvirk hvatakerfi til aukinnar verðmætasköpunar verði fest í sessi og má þar nefna endurgreiðslur vegna rannsókna, þróunar og kvikmyndagerðar. Það er þó ekki síður mikilvægt að styðja áfram vöxt þeirra atvinnugreina sem fyrir eru, enda hafa þær lagt grunninn að einum bestu lífskjörum meðal ríkja heims. Stærð og gerð hagkerfisins gerir það að verkum að utanríkisviðskipti eru afar mikilvæg og tryggja þarf samkeppnishæfni atvinnuveganna í samanburði við helstu viðskiptalönd. Áhersla skal lögð á virka þátttöku í alþjóðastofnunum og að rækta sambönd við nágrannalöndin beggja vegna Atlantsála.
Áframhaldandi lækkun skulda
Framsókn hefur lagt mikla áherslu á lækkun skulda ríkissjóðs og ber aðhaldssamt fjárlagafrumvarp þess merki. Ein stór breyta í því að lækka verðbólgu er að ríkisfjármálin styðji við peningastefnu, en það er kjarninn í svokallaðri ríkisfjármálakenningu, sem gengur út á að verðþróun hagkerfisins ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefna, þar með talið útgjalda- og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs, sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bills Clintons í Bandaríkjunum, en þar var slagorðið: „Minni fjárlagahalli býr til störf“! Á þeim tíma lækkuðu skuldir verulega og fóru niður í 30% af vergri landsframleiðslu (VLF), sem leiddi til þess að vaxtaálag lækkaði og á sama tíma var verðbólga lág. Skuldir ríkissjóðs Íslands mælast nú einmitt 30% af VLF, hafa lækkað á undanförum árum og eru lágar í alþjóðlegum samanburði. Hins vegar er fjármagnskostnaður ríkissjóðs áfram hár og það er lykilatriði að hann lækki til að hægt sé að styðja enn frekar við heilbrigðis- og menntakerfið. Við útfærslu á þeirri vegferð þarf að tryggja að hið opinbera geti áfram fjárfest í fólki og innviðum um allt land með ábyrgum og skynsamlegum hætti. Viðfangsefnið fram undan er að lækka fjármagnskostnað ríkis, heimila og fyrirtækja. Lækkandi verðbólga og stýrivextir skipta þar sköpum en horfa þarf til fleiri þátta í þeim efnum. Framsókn leggur áherslu á að skuldahlutföll verði lækkuð enn frekar til framtíðar ásamt því að markvisst verði unnið að því að bæta lánshæfi ríkissjóðs. Þá þarf til að horfa til kerfisbreytinga sem gera kleift að lækka fjármagnskostnað.
Húsnæðismarkaðurinn er eitt stærsta efnahagsmálið
Mikið hefur verið byggt á undanförnum árum og aldrei hefur hlutfall þeirra sem eiga eigið húsnæði verið hærra. Vegna mikilla umsvifa í hagkerfinu hefur húsnæðismarkaðurinn hins vegar ekki náð að anna eftirspurninni. Þessi skortur hefur leitt til verulegrar hækkunar á húsnæðisverði og leigu, sem hefur haft áhrif á lífskjör almennings og stöðugleika á húsnæðismarkaði ásamt því að verðbólgan hefur mælst hærri en ella. Þetta er stórmál í efnahagsstjórninni og þarf að ná enn betur utan um. Farsælasta leiðin er að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, mæti þessari eftirspurnin sameiginlega, auki lóðaframboð verulega og stuðli að hagkvæmu regluverki á húsnæðismarkaði. Aukið lóðaframboð dregur úr verðhækkunum á húsnæði og yngra fólk á auðveldara með að komast inn á markaðinn. Einnig hefur það jákvæð áhrif á hagvöxt, þar sem byggingariðnaðurinn skapar fjölda starfa ásamt því að koma meira jafnvægi á húsnæðismarkaðinn. Fyrr á þessu ári var samþykkt frumvarp mitt um að draga verulega úr framboði íbúða í heimagistingu (Airbnb) án þess að gengið yrði á eignarétt fólksins í landinu. En þrátt fyrir að aldrei í Íslandssögunni hafi verið byggt meira en á árunum 2019-2024 þarf að byggja meira. Framsókn leggur mikla áherslu á að tryggt verði nægt magn af byggingarhæfum lóðum til hraðrar uppbyggingar og þarf að setja enn meiri kraft í samstarf ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum til að auka framboðið.
Þar skiptir höfuðmáli að stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi öll getu til að taka þátt í þeirri nauðsynlegu uppbyggingu sem fram undan er. Það þarf að stíga varleg skref til baka þegar kemur að lánþegaskilyrðum með lækkandi vöxtum, sérstaklega með fyrstu kaupendur í huga, en hátt vaxtastig og tregleiki á fasteignamarkaði vegna lánþegaskilyrða getur dregið úr framkvæmdarvilja. Síðast en ekki síst þarf að halda áfram að styðja áfram við þau úrræði sem stjórnvöld hafa komið fram með á síðustu árum, s.s. almenna íbúðakerfið og hlutdeildarlánakerfið.
Við erum að ná árangri
Í nýjustu verðbólgumælingu Hagstofunnar lækkaði verðbólgan niður í 5,1%, það lægsta í 3 ár. Dregið hefur úr hækkun á húsnæði en verðbólga án húsnæðis mælist 2,8% annan mánuðinn í röð. Síðasta vaxtaákvörðun Seðlabankans til lækkunar var jákvætt skref og endurspeglar að þær aðgerðir sem við höfum gripið til í ríkisfjármálunum og þeir langtímakjarasamningar sem gerðir voru á vinnumarkaði eru að skila sér. Viðfangsefnið fram undan er að tryggja að þessi þróun haldi áfram, enda er lækkun verðbólgu og vaxta stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja í landinu. Við erum að ná árangri og við hvikum hvergi frá því verkefni að ná enn frekari árangri í þessum efnum.
Lilja Dögg Alfeðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. nóvember 2024.
Ég er fullviss um að tæknin muni á næstu árum færa okkur lausnir við ýmsum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag í dag. Ísland hefur staðið sterkt á ýmsum sviðum tækniþróunar og þar hefur þróun í máltækni staðið upp úr. Sá árangur sem við höfum náð fyrir tungumálið okkar í heimi tækninnar hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og veitir Ísland öðrum fámennum málsvæðum nú innblástur. Ýmsar þjóðir sem eru í svipaðri stöðu og við vorum í fyrir nokkrum árum, leita reglulega til okkar og stærstu tæknifyrirtæki heims hafa heillast af starfi okkar og innleitt þær lausnir sem við höfum þróað í sína tækni.
Þess vegna er hægt að nota ChatGPT á íslensku í dag. Þess vegna eru lausnir Microsoft svo góðar á íslensku og þess vegna eru flest helstu forrit sem Íslendingar nota daglega aðgengileg á íslensku viðmóti.
Og við höfum verið að gefa í. Annarri máltækniáætlun var hrint af stað í ráðuneyti mínu fyrir nokkrum vikum og undir henni verður gríðarlegur kraftur settur í hagnýtingu íslenskrar máltækni, meðal annars með styrkjum fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja nýta sér þá tækni og áhersla lögð á að koma íslenskunni að í fleiri erlendum lausnum.
Tækni sem þýðir og talsetur barnaefni með eins röddum og í upphaflegri útgáfu þess er rétt handan við hornið. Fleiri tæknilausnir sem auðvelda innflytjendum að læra íslensku eiga eftir að koma út. Nýjustu lausnir frá Microsoft og Google og fleiri tæknirisum verða aðgengilegar á íslensku. iPhone-síminn þinn mun á endanum geta talað íslensku. Ég er viss um það. En þetta gerist hins vegar ekki af sjálfu sér.
Uppbygging í gervigreind verður að byggja á máltækni
Máltækniþróun á Íslandi hefur gengið frábærlega og vakið athygli víða um heim. Við eigum að byggja framtíðartækniþróun í gervigreind á Íslandi á þeim frábæra grunni, enda er tungumálið og máltækni orðið aðaláhersluefni í gervigreindarþróun eftir tilkomu risamállíkana.
Við verðum að tryggja áframhaldandi þróun í íslenskri máltækni og gervigreind og að málaflokkar þessir tali saman. Þetta er eitt helsta áherslumál máltækniáætlunar þar er kynnt sú sýn að Ísland verði að koma á fót öflugri einingu, helst í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs, sem færi með málefni bæði gervigreindar og máltækni. Slík eining myndi vinna stöðugt að eflingu þessara greina á Íslandi, tryggja nýsköpun innan þeirra, hagnýtar rannsóknir háskóla sem gagnast íslenskum fyrirtækjum og framsókn í tækniiðnaðinum sem verður leiðandi iðnaður næstu áratugi.
Lögðum til nýja miðstöð gervigreindar og máltækni
Ísland hefur alla burði til að standa undir slíku starfi. Græn orka og náttúrulegar aðstæður eru fullkomnar fyrir framleiðslu á reikniafli, sem getur umbylt tækniiðnaði og rannsóknarstarfi á Íslandi. Íslenskt hugvit og tækni geta staðið stolt á meðal fremstu þjóða heims og efling þessi verður reist á grundvelli menningar og tungumáls Íslendinga.
Við höfum lagt til að ráðast í samstarf við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um að gera þessa framtíðarsýn að veruleika og ég vonast til að við getum hafið þessa uppbyggingu sem fyrst. Mín von er að slík gervigreindar- og máltæknimiðstöð verði rekin í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs með ekki ósvipuðu fyrirkomulagi og Íslandsstofa. Hægt væri að sameina ýmsar smærri stofnanir og einingar í máltækni, gervigreind og nýsköpun undir einum hatti og auka hagræði í málaflokkunum báðum á sama tíma og starf innan þeirra verður eflt. Tilkoma gervigreindar- og máltæknimiðstöðvar Íslands verður lykilatriði til að tryggja velferð og hagvöxt á Íslandi komandi áratugi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst á visir.is 1. nóvember 2024.
Framsókn kynnti lista sína um allt land um liðna helgi. Þá skipar öflugt og vinnusamt fólk með mikla reynslu og ólíkan bakgrunn sem vill láta gott af sér leiða fyrir samfélagið. Að sama skapi er ánægjulegt að sjá nýtt fólk bætast í hópinn og efla flokkinn enn frekar, en mikil ásókn var í að komast á lista flokksins fyrir komandi kosningar til að veita samvinnustefnunni brautargengi.
Það er heiður að fá að starfa fyrir Ísland á þessum vettvangi, en því fylgir einnig mikil ábyrgð. Í 108 ár hefur Framsókn, elsti stjórnmálaflokkur landsins, lagt sitt af mörkum við að stýra landinu og auka hér lífsgæði. Það er ekki sjálfgefið að stjórnmálaafl nái svo háum aldri. Að baki honum liggur þrotlaus vinna grasrótar og kjörinna fulltrúa flokksins í gegnum áratugina, sem hafa haldið stefnu flokksins á lofti. Kosningar eftir kosningar hafa kjósendur treyst flokknum til góðra verka fyrir land og þjóð, enda þekkir þjóðin Framsókn og Framsókn þekkir þjóðina.
Í því meirihlutasamstarfi sem liðið er einblíndi flokkurinn á verkefnin sem voru fram undan frekar en að taka þátt í opinberum erjum milli annarra flokka. Fyrir komandi kosningar munum við halda áfram að tala fyrir þeim brýnu verkefnum sem vinna þarf að á næstu misserum, enda skipta þau máli fyrir þjóðina. Þar ber fyrst að nefna lækkun verðbólgu og vaxta, sem er stærsta einstaka hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Það voru jákvæð teikn á lofti er Seðlabankinn lækkaði stýrivexti með síðustu ákvörðun sinni. Algjört grundvallarmál er að búa svo um hnútana að sú þróun haldi áfram en verði ekki tafin vegna einhverra loftfimleika í stjórnmálunum. Samþykkt ábyrgra fjárlaga, líkt og þeirra sem liggja fyrir þinginu, er lykilatriði. Í þeim er ráðist í aukna forgangsröðun í opinberum fjármálum sem kallast á við aðgerðir stjórnvalda í þágu langtímakjarasamninga á vinnumarkaði. Á sama tíma og unnið er að því að ná auknu jafnvægi í rekstri ríkisins með hallalausum rekstri og að skuldahlutföll verði lækkuð enn frekar verður að tryggja að hið opinbera geti áfram fjárfest í fólki og innviðum um allt land með ábyrgum og skynsamlegum hætti.
Nú þegar 32 dagar eru til kosninga liggur fyrir að mikið líf á eftir að færast í leikinn. Það skemmtilegasta við stjórnmálin er samtalið við kjósendur í landinu um verk okkar og framtíðarsýn. Margt gott hefur áunnist á undanförnum árum, og ýmis tækifæri eru til þess að gera betur. Þannig er gangur lífsins. Við höfum ekki veigrað okkur við því að vera á skóflunni og vinna vinnuna af fullum krafti til þess að bæta samfélagið okkar, enda eiga stjórnmál að snúast um það. Við í Framsókn erum klár í bátana og hlökkum til komandi vikna.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. október 2024.
Frjáls og virk skoðanaskipti eru grundvöllur hins sterka lýðræðisþjóðfélags sem við búum í. Í gær birtist einmitt áhugaverð skoðanagrein eftir Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmann undir yfirskriftinni Þingmenn verða að vita að Lilja segir ekki satt. Björn fer þar mikinn í umræðunni um Kvikmyndasjóð og meintrar ,,slátrunar‘‘ undirritaðar á sjóðnum þar sem hann rekur hvernig framlög ríkisins til Kvikmyndasjóðs hafa lækkað að undanförnu. Um er að ræða lækkun sem skýrist að stærstum hluta af því að tímabundin framlög sem sett voru í sjóðinn vegna Covid heimsfaraldurs, á grundvelli kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030, eru fallinn niður, líkt og önnur slíkt Covid framlög í öðrum málaflokkum.
Tímabundin framlög eru tímabundin
Björn virðist ekki meðtaka það að tímabundin framlög vegna heimsfaraldurs eru tímabundin framlög ef marka má orð hans: ,,Lilja segir að þessi niðurskurður sé vegna þess að framlög í sjóðinn á árunum 2020 og 2021 hafi verið tímabundin framlög vegna covid. En þetta er því miður ekki satt. Aukin framlög í kvikmyndasjóð á þessum árum komu til vegna nýrrar kvikmyndastefnu sem ætlað var að stórefla greinina – eins og Lilja sagði margoft á þessum tíma í ræðum og riti. Hvergi sagði hún einu orði að þessi framlög væru tímabundin og vegna kóvid – og hvergi er stafkrókur um slíkt í opinberum skjölum.‘‘
Það er hinn eðlilegasti hlutur að berjast fyrir hagsmunum sínum í ræðu og riti, en það hlýtur að vera sanngjörn krafa að fara ekki með staðlausa stafi á þeirri vegferð – sér í lagi áður en menn fara að ásaka aðra um slátranir og lygar. Má ég því til með að benda Birni á þessa fréttatilkynningu frá ráðuneyti mínu þann 8. október 2020 svo dæmi sé tekið, þar sem farið var yfir hluta af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs. Þar stendur skýrum stöfum:
,,Samkvæmt nýrri Kvikmyndastefnu verður 412 milljónum kr. varið til að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð en alls nema framlög vegna nýrrar kvikmyndastefnu 550 milljónum kr. í frumvarpinu. Framlagið er liður í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar.‘‘
Birni hefði verið í lófa lagið að nenna að leita stundarkorn eftir staðreyndum áður en hann reisti hús sitt á sandi, nema hann hafi einfaldlega kosið að líta fram hjá staðreyndum málsins. Leiðréttist þessi misskilningur og yfirsjón Björns hér með.
Hefur eitthvað verið gert fyrir kvikmyndagerð á Íslandi?
Af lestri greina eins og Björn ritar mætti halda að íslensk menning væri í dauðateygjunum. Því fer víðsfjarri. Staðreynd málsins er sú að mjög margt hefur áunnist á síðastliðnum árum til þess að efla kvikmyndagerð á Íslandi og er ég verulega stolt af því. Raunar er staðan sú að mörgum af þeim aðgerðum sem kynntar voru í kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030 hefur verið hrint til framkvæmdar, og enn eru 6 ár eftir af líftíma hennar. Hér eru nokkur dæmi um það sem hefur verið áorkað.
1,3 milljarði króna, eitt þúsund og þrjú hundruð milljónum króna, hefur verið veitt í tímabundin viðbótarframlög í kvikmyndasjóð frá árinu 2020.
Endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð var hækkað úr 25% í 35%
Velta í kvikmyndagerð hefur stóraukist
Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar. Þar er nú boðið upp á 180 eininga BA nám með kjörsvið í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni.
Framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi voru hækkuð
Starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda verður að veruleika á næsta ári eftir breytingar á lögum um starfslaun listamanna
Löggjöf um nýjan fjárfestingarsjóð sjónvarpsefnis ( framleiðslustyrki til lokafjármögnunar) var kláruð
Frumvarp um menningarframlag sem unnið hefur verið að er á lokametrunum. Með því yrði lögfest ný skylda á hendur streymisveitum til að greiða fjárframlag, sem rennur til Kvikmyndasjóðs (áætlað allt að 260 m.kr. á ári) eða skyldu til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni.
Efnahagslegt mikilvægi kvikmyndagerðar á Íslandi kortlagt, sbr. úttekt Olsberg
Stutt hefur verið sérstaklega við að varðveislu og stafvæðingu á íslenskum kvikmyndaarfi
Stutt hefur verið myndarlega við sjálfsprottin verkefni eins og kynningu á íslenskum myndum erlendis, innlendar kvikmyndahátíðir og menningarleg kvikmyndahús
Stutt hefur Kvikmyndatengda fræðslu, til dæmis fyrir ungt fólk
Sjálfbærni í kvikmyndagerð hefur verið stutt með gerð handbókar þar um
Rúmir 7 milljarðar áætlaðir til kvikmyndamála árið 2025
Áætluð fjárframlög til þeirra kvikmyndatengdu mála sem heyra undir menningar- og viðskiptaráðuneytið eru áætluð rúmir 7 milljarðar á næsta ári. Fellur þar undir, Kvikmyndasjóður, Kvikmyndamiðstöð, Kvikmyndasafn Íslands og endurgreiðslukerfi kvikmynda. Endurspeglar upphæðin þau auknu umsvif sem orðið hafa í kvikmyndagerð hér á landi á undanförnum árum, sem birtast meðal annars í hækkun á endurgreiðslum. Á undanförnum árum hafa upphæðir úr þeim skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna.
Lægri verðbólga stærsta forgangsmál samfélagsins
Lækkun verðbólgu og þar með vaxta er stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Jákvæð teikn eru á lofti þar en til að ná markmiði um lækkun verðbólgu þarf aðhald í ríkisfjármálum. Fyrir næsta ár birtist þetta meðal annars í sértæku aðhaldi á samkeppnissjóði hjá öllum ráðuneytum. Kvikmyndasjóður er var þar ekki undanskilinn, en hann er einn af 14 sjóðum á sviði menningarmála. Framlög í hann á næsta ári munu nema rúmum milljarði en áform um menningarframlag streymisveita er meðal annars ætlað að efla hann inn til framtíðar.
Þegar til framtíðar er litið, og þegar efnahagsástand og fjármál hins opinbera leyfa, hljótum við að líta til þess að bæta í Kvikmyndasjóð að nýju, enda er sjóðurinn einn af burðarásum íslenskrar menningar. Ég sé fyrir mér að fyrirsjáanleiki í fjármögnun sjóðsins yrði aukin, til að mynda með samkomulagi til fjögurra ára í senn. Slíkt yrði þó alltaf háð fjárveitingu hvers árs.
Kvikmyndagerð orðin heilsárs atvinnugrein
Meiri háttar breyting sem hefur orðið á kvikmyndagerð hér á landi er að hún er orðin heilsársatvinnugrein og verkefnum, stórum sem smáum, hefur fjölgað. Hér hefur byggst upp dýrmæt sérþekking á öllum sviðum kvikmyndagerðar, hvort sem það snýr að listræna þættinum eða hinum tæknilega og umsóknum í kvikmyndasjóð hefur fjölgað verulega. Í úttekt breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg kom til að mynda fram að 4.200 bein, óbein og afleidd störf hefðu verið til vegna kvikmyndagerðar hér á landi árið 2022 og að heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu við kvikmyndaverkefni hér á landi hafi numið 48,9 milljörðum króna á árunum 2019 -2022Þá er gríðarlega ánægjulegt að sjá stór verkefni í kvikmyndagerð raungerast á landsbyggðinni sem styrkir stoðir greinarinnar og smærri byggðir á landinu. Þá hafa upphæðir úr endurgreiðslukerfinu skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna undanförnum árum, eins og rakið er í úttekt Olsberg.
Ég hef lagt mig alla fram við að efla menningarlífið á Íslandi og umhverfi kvikmyndagerðar þar á meðal. Í virkilega góðu samráði við haghafa greinarinnar höfum við náð að stíga stór framfaraskref skömmum tíma. Ég vil meina að ekki hefur jafnmikið gerst á jafn stuttum tíma frá því að Kvikmyndasjóður var settur á laggirnar árið 1979 og endurgreiðslukerfinu í kvikmyndagerð var komið á fót árið 1999. Til gamans má geta var hvorug tveggja komið á fót af ráðherrum úr Framsóknarflokknum, sem segir kannski ákveðna sögu. Það breytir því ekki að við viljum sjá enn frekari árangur, og kvikmyndasjóð eflast út líftíma kvikmyndastefnunnar til ársins 2030 og enn lengra inn framtíðar. Íslensk kvikmyndagerð getur treyst því að undirrituð verði áfram góður liðsmaður í því verkefni, sama hvað rangfærslum Björns B. Björnssonar líður.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2024.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.