Ein helsta frétt síðustu viku á Íslandi var sú að frjósemi hefur aldrei verið lægri frá upphafi mælinga árið 1853. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Árið 2024 var frjósemi kvenna búsettra á Íslandi komin niður í 1,56.
Svipaða þróun má sjá víða á Norðurlöndum. Árið 2023 var fjöldi lifandi fæddra barna á hverja konu rúmlega 1,4 í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, en í Finnlandi fór talan niður í 1,26. Enn verri er staðan í Suður-Kóreu, þar sem frjósemi mældist 0,75 – þó með örlítilli hækkun árið 2024.
Lækkandi fæðingartíðni er mikið áhyggjuefni og veldur margvíslegum áskorunum fyrir samfélagið. Færri eru á vinnumarkaðnum og það dregur úr hagvexti og nýsköpun. Að sama skapi eykst hlutfall eldri borgara, sem býr til þrýsting á velferðarkerfið. Innlend eftirspurn minnkar, sérstaklega í þjónustugeiranum og á fasteignamarkaði. Staðan er sú að ef ekki tekst að mæta þessari þróun, þá getur skapast neikvæð hringrás sem leiðir til lakari lífsgæða.
Ísland hefur lengi haft stefnu sem styður við barneignir, t.d. með öflugu leikskólakerfi, fæðingarorlofi fyrir báða foreldra og barnabótum. En samkvæmt nýjustu lýðfræðigögnum duga þessi úrræði ekki lengur til. Leikskólakerfið ræður ekki lengur við eftirspurnina og önnur úrræði hafa dregist saman. Þetta er alvarlegt og brýnt er að finna nýjar leiðir til að bregðast við.
Í áhugaverðum greiningum mannfjöldafræðingsins Lymans Stones kemur fram að húsnæðismál skipta sköpum þegar kemur að lækkandi fæðingartíðni í Bandaríkjunum. Húsnæði veitir ákveðinn stöðugleika og er oft forsenda fjölskyldumyndunar. Ef ungt fólk á erfitt með að komast inn á húsnæðismarkað – eða ef lánskjör eru óhagstæð – minnka líkurnar á því að fólk stofni fjölskyldur. Þetta á ekki síður við hér á Íslandi.
Eitt mikilvægasta verkefni okkar til framtíðar er að stíga ákveðnari skref í að gera Ísland að fjölskylduvænu samfélagi. Stjórnvöld og atvinnulíf þurfa að vinna saman að því markmiði, því framtíð lífskjara þjóðarinnar er í húfi.
Svarið við spurningunni hér að ofan er einfalt: Já!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. mars 2025.