Categories
Fréttir Greinar

Jól í orðum og tónum

Deila grein

23/12/2025

Jól í orðum og tónum

Þorláksmessa er runnin upp og styttist óðfluga í stærstu hátíð kristins fólks um veröld alla. Dagurinn ber nafn Þorláks Þórhallssonar biskups í Skálholti. Þorlákur fékk snemma orð á sig fyrir að vera helgur maður sem gott væri að heita á. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur verið tekinn í dýrlingatölu en það gerði Jóhannes Páll II hinn 14. janúar 1984. Þetta er jafnframt dagur eftirvæntingar og lokaundirbúnings: síðustu erindin, síðustu kveðjurnar, síðustu pakkarnir áður en hátíðin tekur við.

Þorláksmessa minnir okkur á að jólin eru líka menningarhátíð. Það er ekki tilviljun að Ísland skuli vera þekkt sem menningarland vegna þeirrar grósku sem ríkir á því sviði. Sköpunarkrafturinn skilar sér jafnan með sérstöku móti um jólin, þegar „uppskeran“ kemur í hús.

Jólabókaflóðið er árleg staðfesting á því að við höfum enn trú á orðum og frásögn. Bækur eru ekki aðeins afþreying heldur einnig vettvangur nýsköpunar og símenntunar og kynslóðabrú sem heldur menningararfi á loft. Þegar við gefum bók í jólapakka erum við um leið að gefa gæðatíma, orðaforða og tækifæri til samtals. Úrval íslenskra bóka fyrir alla aldurshópa er einstakt og þetta árið er engin undantekning.

Það sama á við um tónlistina. Aðventan er hálfgerður hljóðfæraskápur landsins, þar sem tónleikahald er einkar fjölbreytt: kirkjutónlist, sinfóníur, kammermúsík, djasstónleikar, popp, pönk o.s.frv. Kórar, stórir sem smáir, fylla hús og helgidóma og minna á að röddin er elsta hljóðfæri mannsins. Öflug umgjörð tónlistarnáms og menningarhúsa skiptir þar miklu og skilar sér í fagmennsku sem við njótum dag hvern.

Sviðslistir blómstra einnig. Leikhúsin bjóða jafnt upp á ný verk og sígildar sögur, sem laða sífellt til sín fjölbreyttan hóp fólks. Á nýju ári verður starfsemi um þjóðaróperu komin í fastari skorður en áður þekkist, sem hefur verið draumur margra í sviðslistum í áratugi. Flutningur starfsemi óperunnar inn í Þjóðleikhúsið er táknrænt framhald af skapandi Íslandi, þar sem við þorum að setja metnaðinn í forgrunn og skapa einstakan vettvang fyrir okkar fremsta sviðslistafólk og þjóðin öll nýtur góðs af.

Allt þetta á sér þó sameiginlega rót: tungumálið. Íslenskan er ekki aðeins miðill heldur uppspretta sköpunar; hún geymir blæbrigði og hugtök sem gera okkur kleift að semja, syngja, leika og ræða heiminn á okkar eigin forsendum. Höldum áfram að hlúa að henni í daglegu lífi okkar, í skólum og í hinum stafræna heimi. Höfum það ávallt hugfast að „á íslensku má alltaf finna svar“, eins og fram kemur í ljóði Þórarins Eldjárns. Hátíðin sem nú er að ganga í garð er allra hugljúfasti tími ársins vegna þeirra orða og tóna sem við njótum.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtit fyrst í Morgunblaðinu 23. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sundlaugamenning fær æðstu alþjóðlegu viðurkenningu

Deila grein

16/12/2025

Sundlaugamenning fær æðstu alþjóðlegu viðurkenningu

Greiður aðgangur að heitu vatni á Íslandi frá landnámi hefur haft mikil mótandi áhrif á þróun menningar okkar. Við höfum öll notið góðs af heita vatninu og hefur það verið okkar lífsbjörg í gegnum aldirnar. Heitu laugarnar okkar hafa sannarlega mótað menningu okkar. Margar Íslendingasögur geta um baðferðir og heitar laugar, sem gefur vísbendingu um að baðmenning hafi verið í hávegum höfð. Í Laxdælu er Sælingsdalslaug í Dölunum vettvangur örlagaríkra stefnumóta, en þar segir: „Kjartan fór oft til Sælingsdalslaugar. Jafnan bar svo til að Guðrún var að laugu. Þótti Kjartani gott að tala við Guðrúnu því hún var bæði vitur og málsnjöll.“ Þessi frásögn sýnir hvernig fólk nýtti sér náttúrulaugar til samskipta og laugin verður táknræn fyrir eitt þekktasta ástarsamband Íslendingasagna.

Í kjölfar hitaveituvæðingar þjóðarinnar risu manngerðar sundlaugar vítt og breitt um landið. Sundlaugamenning þróaðist og varð að ríkum þætti í daglegu lífi Íslendinga. Vegna þessarar ríku sögu lauga á Íslandi var ákveðið í mars 2024 að tilnefna sundlaugamenningu á Íslandi á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Í kjölfarið hófst 18 mánaða matsferli, sem lauk formlega með fundi þar sem staðfest var að sundlaugamenning Íslands skyldi hljóta þessa æðstu viðurkenningu á sviði lifandi hefða í heiminum. Þetta er fyrsta sjálfstæða skrásetning Íslands á listann. Í tilnefningunni var lögð áhersla á sundlaugar sem almenningsrými, þar sem kynslóðir koma saman til að synda, spjalla við vini eða ókunnuga og njóta vatns. Að baki skrásetningunni liggur mikil undirbúningsvinna í höndum menningar- og viðskiptaráðuneytis, Þjóðminjasafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar. Tíu sveitarfélög sendu skriflega stuðningsyfirlýsingu, þar á meðal Reykjavíkurborg sem hafði veg og vanda af gerð myndbands um sundlaugamenningu sem fylgdi tilnefningunni. Fjölmargir sundlaugargestir um allt land lögðu tilnefningunni lið með því að deila reynslu sinni og undirstrika mikilvægi þessarar menningarhefðar. Það má með sanni segja að viðurkenningin sé afrakstur mikillar samvinnu ólíkra einstaklinga, stofnana og stjórnvalda.

Frá náttúrulaugum landnámsmanna til nútímasundlauga hefur heita vatnið verið rauði þráðurinn í íslenskri menningu. Fortíðin sýnir okkur hvernig vatnið skapaði tengsl, byggði samfélög og varð vettvangur samskipta. Laugarnar eru í dag einn stærsti vettvangur samskipta þjóðarinnar, þar sem kynslóðir koma saman dag hvern. Með skráningu UNESCO er ekki aðeins verið að heiðra þessa sögu, heldur líka verið að vernda hana til framtíðar. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu verkefni og óska okkur til hamingju með þessa viðurkenningu!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Veikar forsendur fjárlagafrumvarpsins

Deila grein

09/12/2025

Veikar forsendur fjárlagafrumvarpsins

Flestir þekkja söguna af manninum í Biblíunni sem reisti húsið sitt á sandi. Allt var í himnalagi þar til óveðrið skall á og leiddi í ljós að grunnurinn var veikur og húsið hrundi. Fjárlög sem byggjast á veikum forsendum eru af sama toga.

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 virðist vera að lenda í sömu vandræðunum og hús mannsins sem reist var á sandi. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir mun minni hagvexti í ár eða 0,9% í stað 2,3%. Við blasir hagkerfi þar sem umsvif dragast saman og viðvarandi slaki hefur tekið við af tímabundinni kólnun. Fyrri forsendur um hagvöxt eru brostnar.

Röð áfalla í útflutningsdrifnum atvinnugreinum þjóðarbúsins hefur dunið á okkur, ásamt nýjum tollum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Þessi staða hefur rýrt horfur um vöxt og tekjuöflun. Afleiðingin er sú að tekjustofnar ríkisins eru líklegir til að þróast með öðrum hætti en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Á sama tíma bendir Seðlabankinn á að árið 2026 geti orðið enn erfiðara, með minni fjárfestingu, auknu atvinnuleysi og slaka í þjóðarbúinu. Þetta hefur bæði áhrif á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs og kallar á meiri varfærni.

Óvissa er einkennandi fyrir flesta þætti efnahagskerfisins og nær ekki bara til útflutnings heldur einnig lánamarkaða, verðbólguvæntinga og gengisþróunar. Í slíkum aðstæðum ætti fjárlagagerð að byggjast á varfærnum forsendum og traustri áhættustýringu. Þrátt fyrir það er almennur varasjóður ríkissjóðs skorinn niður í 1% af heildarútgjöldum, sem er aðeins lögbundið lágmark. Í ljósi þess óvissustigs sem nú ríkir er eðlilegt að varasjóður sé frekar á bilinu 1,5-2% til að mæta þeim áföllum sem fyrirsjáanlegt er að geti átt sér stað.

Niðurstaðan er sú að forsendur fjárlaga næsta árs eru byggðar á of veikum grunni. Fjármálastefna sem miðast við þróttmikinn hagvöxt og öflugan útflutning endurspeglar ekki lengur efnahagslegan veruleika. Trúverðugleiki ríkisfjármála er forsenda þess að heildstæð efnahagsstefna njóti trausts. Þegar tekjuáætlanir byggjast á bjartsýni frekar en raunsæi, þá er hætt við að traustið minnki.

Ég hvet ríkisstjórnina til að sýna meiri fyrirhyggju, skerpa forgangsröðun og tryggja að opinber fjármál standist raunsæispróf. Að öðrum kosti má segja að verið sé byggja hús ríkisfjármálanna á sandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fullveldið á tímum gervigreindarinnar

Deila grein

02/12/2025

Fullveldið á tímum gervigreindarinnar

107 ár eru liðin frá því að deilum um fullveldi Íslands lauk með undirritun sambandslagasamningsins, sem tók gildi 1. desember 1918. Frelsisþráin var drifkrafturinn, að Íslendingar réðu sínum málum sjálfir og mótuðu framtíð barna sinna. Saga fullveldisins er saga framfara. Á rúmri öld hefur okkur tekist að byggja upp afar öflugt velferðarsamfélag, nýta auðlindir landsins af ábyrgð og skapa list sem dáðst er að um heim allan. Allir Íslendingar hafa lagt sig fram við að móta samfélagið okkar með þessum hætti.

Ein af mikilvægustu stoðunum í samheldni þjóðarinnar og framgangi hennar er tungumálið okkar, íslenskan. Þjóðin hefur ætíð verið stolt af tungumálinu sínu og hverju það hefur áorkað. Jónas Hallgrímsson skáld var fremstur í flokki að lyfta okkar ástkæra og ylhýra máli. Allt bendir til þess að þær þjóðfélagsbreytingar sem fram undan eru vegna innreiðar gervigreindar séu ámóta miklar og íslenskt samfélag upplifði á 20. öld, ef ekki umfangsmeiri. Í mínum huga skiptir öllu að íslenskan sjálf, tungumálið okkar, haldi áfram að vera framsækin í heimi gervigreindar með tilkomu öflugrar máltækni. Íslensk máltækni er ekki munaður heldur nauðsyn. Við verðum að tryggja að hægt sé að tala við símann, tölvuna og bílinn á íslensku. Þetta krefst áframhaldandi skýrrar stefnu, fjárfestinga og samstöðu fræðasamfélags, atvinnulífs og stjórnvalda.

Um leið og við erum í sókn fyrir íslenskuna, þá verðum við að horfa til þeirra tækifæra sem felast í gervigreindinni sjálfri. Sé gervigreindin innleidd af ábyrgð og sanngirni, þá getur hún aðstoðað okkur við ýmsar meiriháttar framfarir í atvinnulífinu. Til þess verðum við þó að tryggja að ávinningurinn nái til allra, óháð aldri, búsetu eða bakgrunni. Gervigreind má hvorki verða tæki til að auka misskiptingu né grafa undan trausti á lýðræði. Hún á að vera þjónn samfélagsins, ekki húsbóndi þess. Þess vegna þarf að byggja upp stafræna hæfni og gagnalæsi frá grunnskóla og upp í háskóla ásamt símennt.

En tæknin leysir okkur ekki undan ábyrgð þess að tryggja bjarta framtíð íslenskunnar. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð með því hvaða mál við veljum í snjalltækjum, í merkingum í verslunum, í tungumáli vinnustaða, í því hvaða efni við búum til og deilum. Við getum aldrei sætt okkur við að framtíðarsaga fullveldis Íslands verði ekki sögð á íslensku.

Markmiðið hlýtur að vera að næstu hundrað ár fullveldis verði ekki síður farsæl en þau sem að baki eru. Að sama skapi skal sagan áfram verða skrifuð á íslensku. Fullveldið á tímum gervigreindarinnar felst í því að við ráðum sjálf ferðinni, nýtum tæknina í okkar þágu og tryggjum að hún styrki íslenska tungu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menningarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sækjum áfram fram í þágu menntunar

Deila grein

25/11/2025

Sækjum áfram fram í þágu menntunar

Íslenska menntakerfið stendur á ákveðnum krossgötum. Margt hefur áunnist að undanförnu en ráðist hefur verið í fjölmargar mikilvægar aðgerðir: Heildstæð menntastefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi, átakinu „Fjölgum kennurum“ var hrint í framkvæmd með góðum árangri, Menntafléttan og sérstakur sjóður fyrir menntarannsóknir voru sett á laggirnar og unnið var að skýrari matsviðmiðum í íslensku og stærðfræði, brotthvarf á framhaldsskólastiginu minnkaði, hálftómar verknámsstofur urðu yfirfullar í kjölfar róttækra breytinga, matsferill þróaður til að meta betur árangur barna í menntakerfinu ásamt ýmsum öðrum aðgerðum. Samt blasir við að betur má ef duga skal. Alþjóðlega PISA-menntarannsóknin sýnir svart á hvítu að ungmennin okkar eru að halda áfram að dragast aftur úr jafnöldrum sínum og árangurinn því nú orðinn lakari en meðaltal OECD-ríkja.

En hvers vegna er staðan þessi? Eitt af því sem við vitum er að fagorðaforði barnanna er lakari en í samanburðarríkjum – en hvers vegna? Við vitum að í löndum eins og Svíþjóð og Eistlandi fá nemendur á miðstigi fleiri kennslustundir í móðurmáli og náttúruvísindum. Hins vegar þurfum við frekari menntarannsóknir til þess að skýra þessa þróun betur og vera í stakk búin til þess að bæta stefnuna. Næsta rökrétta skref er því ítarleg, óháð samanburðarrannsókn á íslenska menntakerfinu og þeim kerfum í Evrópu sem ná góðum árangri. Slík rannsókn þarf að fara ofan í saumana á helstu lykilþáttum menntakerfa eins og fjölda kennslutíma í grunnfögum, námsefni, námsgagnagerð, námsmati, umfangi snemmtækrar íhlutunar, kennaramenntun, starfsumhverfi kennara og skólastjórnenda, forgangsröðun fjármuna og hlutverki ríkis og sveitarfélaga.

Til að þessi vegferð verði trúverðug þurfum við þjóðarsátt um mikilvægi menntunar. Menntun þarf í auknum mæli að verða forgangsmál þvert á flokka í samstarfi við kennara, skólastjórnendur, atvinnulíf og verkalýðshreyfinguna. Menntastefnan til 2030 getur veitt skýra sýn um vegferðina, en samanburðarrannsóknin og mælanleg markmið verða að vera til að tryggja að breytingarnar sjáist inni í kennslustofunni, ekki aðeins í skýrslum. Framtíðarsókn í menntamálum snýst um að öll börn á Íslandi fái raunveruleg tækifæri til að láta ljós sitt skína í skólanum. Öflugt menntakerfi er ekki aukaatriði heldur forsenda velferðar og verðmætasköpunar. Framtíð Íslands ræðst af því hvort okkur takist að fylgja þessari sýn eftir. Um leið verðum við að tryggja að hvert barn finni nám við hæfi. Við höfum alla burði til að sækja fram í menntamálum; kennararnir eru öflugir en til að styrkja menntakerfið okkur þurfum við betri samanburð og vera tilbúin að ráðast í róttækari breytingar í þágu samfélags.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Deila grein

18/11/2025

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Yfirmaður Evrópudeildar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alfred Kammer, hélt upplýsandi fyrirlestur hjá Evrópska seðlabankanum hinn 4. nóvember sl. og bar hann heitið: „Hvernig getur Evrópa borgað fyrir hluti sem hún hefur ekki efni á?“ Ljóst er að fyrirsögnin er sláandi og ekki sett fram í pólitískum tilgangi, heldur eru staðreyndir kynntar til leiks ásamt því að koma með tillögur að umbótum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á heimshagkerfinu á þessu ári. Evrópa hefur staðið í ströngu og þurft að glíma við heimsfaraldur, innrás Rússa í Úkraínu og versnandi horfur í heimsbúskapnum. Að mörgu leyti hefur Evrópa undangengin ár staðið af sér verstu efnahagsskellina, hins vegar er nú ljóst að horfur til lengri tíma eru þungar þar sem gert er ráð fyrir litlum hagvexti. Ástæðurnar eru margar: flókið regluverk innri markaðarins, hækkandi orkuverð, stöðnun í framleiðni og versnandi samkeppnishæfni.

Heildarskuldir Evrópuríkja árið 2040 gætu að meðaltali náð 130% af landsframleiðslu, allt yfir 90% skuldir er talið ósjálfbært til lengri tíma. Til að snúa þessari þróun við þyrftu ýmis ríki að hagræða í rekstri sínum um 1% af landsframleiðslu í fimm ár! Til samanburðar við Ísland þá væru þetta rúmir 50 ma.kr. eða um 3% af heildarútgjöldum ríkissjóðsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir Evrópu og líka Ísland. Utanríkisviðskipti við Evrópu skipta okkur miklu máli og að innri markaðurinn sé sterkur. Fram kemur í erindi Kammers að ef ekkert verði gert séu skuldir sumra ríkja ósjálfbærar og að velferðarkerfi margra ríkja sé í hættu. Lausnin að hans mati liggur ekki aðeins í hagræðingu hjá hinu opinbera heldur fremur í að efla hagvöxt. Með hóflegum en markvissum umbótum, líkt og einföldun regluverks, meiri samruna innri markaðarins og auknum sameiginlegum fjárfestingum ásamt umbótum á lífeyriskerfum, gætu mörg Evrópuríki komist á beinu brautina. Skilaboð Kammers eru skýr. Það eru engar skyndilausnir og ráðast verður í verulegar kerfisbreytingar sem stuðla að auknum hagvexti.

Þessi þróun hefur farið fram hjá ríkisstjórn Íslands og hún eyðir miklum tíma í frekari aðlögun að Evrópusambandinu. Vegna þessarar forgangsröðunar hefur efnahagsstjórnin verið ómarkviss. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabanka Íslands í að lækka verðbólguna. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna lækkaði verulega í fjárlagafrumvarpinu 2026 frá fyrri ríkisstjórn. Ef ríkisstjórnin hefði haldið sig við fjárlögin 2025 þá væri ríkissjóður að skila afgangi. Í staðinn var allur tekjuaukinn, eða um 80 ma.kr., settur út í hagkerfið. Byrjum á því að ráðast í breytingar hér heima og náum tökum á verðbólgu og vöxtum, sem skiptir mestu máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grindavík og samstaða þjóðar

Deila grein

11/11/2025

Grindavík og samstaða þjóðar

Tvö ár eru liðin frá því að Grindavík var rýmd vegna jarðhræringa. Föstudagskvöldið stendur ljóslifandi í minni flestra Íslendinga, en þá þurftu íbúar bæjarins að yfirgefa heimili sín. Slíkir atburðir eru afar þungbærir en sem betur fer fátíðir í sögulegu samhengi. Íbúar Grindavíkur hafa sýnt einstaka þrautseigju og seiglu í þessum aðstæðum, bæði í því að finna sér nýjan samastað en um leið að huga að framtíð síns bæjar. Samstarf og samvinna við íbúa Grindavíkur var afar mikilvæg í öllum þessum hremmingum. Margt gekk vel en sumt hefði verið hægt að gera betur. Aðalatriðið er að þegar vá stendur fyrir dyrum er brýnt að við stöndum saman og setjum okkur í spor annarra.

Saga Grindavíkur er merk en byggð hefur verið þar frá landnámi. Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru þeir Molda-Gnúpur Hrólfsson og Þórir Vígbjóðsson. Þrátt fyrir hrjóstrugt og vatnssnautt land í gegnum aldirnar, þá nýttu Grindvíkingar sér auðlindir sjávar og fjörunnar til matar og fóðurs. Fiskur, söl, þang, fjörugrös og selir veittu mikilvægan viðbótarafla þegar hey og bithagar brugðust. Með dugnaði gátu Grindvíkingar lifað af í harðbýlu landi. Atvinnulífið hefur ávallt verið öflugt í Grindavík og sést það einna skýrast á öflugum fyrirtækjum bæjarins.

Jarðhræringarnar samtímans eru ekki eina áfallið sem íbúar Grindavíkur hafa þurft að lifa með. Um Jónsmessuleytið árið 1627 varð sá atburður sem lengi sat í minni Grindvíkinga en það var Tyrkjaránið svonefnda. Þá gerðu sjóvíkingar frá Alsír strandhögg á Íslandi, og bar eitt af fjórum skipum þeirra að landi í Grindavík. Talið er að sjóvíkingarnir hafi numið á brott um tólf einstaklinga frá Grindavík, en alls er talið að 400 manns hafi verið rænt af landinu öllu. Framsæknir einstaklingar í Grindavík og víðar á landinu standa fyrir því að minnast þessara atburða á næsta ári.

Þessi misserin er líf smám saman aftur að fæðast í hinum merka bæ Grindavík. Endurreisnin er hafin og afar ánægjulegt sjá dugnaðinn sem er þar á ferð. Ljóst er í mínum huga að fólkið frá Grindavík þurfti að fást við aðstæður sem reyndu gríðarlega á þrek þeirra og sálu. Við sem búum á þessu gjöfula landi en erfiða verðum ávallt að hafa það hugfast að hugsa um náunga okkar og sérstaklega þegar neyð blasir við. Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá þessum náttúruhamförum eru þau líklega sem heil eilífð í huga þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín. Ljóð Einars Benediktssonar á vel við:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Deila grein

04/11/2025

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Upptaka evru sem gjaldmiðils þýðir ekki að sömu húsnæðisvextir séu á öllu evrusvæðinu. Þrátt fyrir meira en tuttugu ára myntbandalag standa íbúðakaupendur á evrusvæðinu enn frammi fyrir mjög mismunandi íbúðalánsvöxtum.

Seðlabanki Evrópu (e. ECB) setur stýrivexti fyrir allt evrusvæðið, sem ákvarða vaxtakjör lána hjá ECB. Hins vegar þegar kemur að íbúðalánum, þá eru það viðskiptabankarnir, ekki ECB, sem ákveða raunverulega vexti sem heimilin greiða. Bankarnir taka mið af sínum eigin fjármögnunarkostnaði, samkeppni á heimamarkaði, mati sínu á áhættu í viðkomandi landi og síðast en ekki síst langtímavöxtum ríkisskuldabréfa viðkomandi ríkis.

Efnahagskerfi evrusvæðisins eru gjörólík. Banki í Þýskalandi býr oft við lægri fjármagnskostnað og stöðugra umhverfi en banki í Grikklandi. Þess vegna þurfa lántakendur í Suður-Evrópu oft að greiða hærri vexti, ekki vegna þess að evran sé öðruvísi þar, heldur vegna þess að bankarnir starfa við erfiðari skilyrði og meiri áhættu. Síðan er það húsnæðismarkaðurinn sjálfur. Eftirspurn og fasteignaverð eru afar ólík eftir löndum. Ofhitnaður spænskur markaður í kringum 2005 var allt annar markaður en hinn varfærni og stöðugi þýski markaður. Þegar eftirspurn eykst eða hætta á vanskilum vex, bregðast bankar við með því að hækka vexti.

Evran er vissulega sameiginlegur gjaldmiðill, en hún býr ekki til sameiginlegan húsnæðismarkað. Jafnvel með sömu stýrivexti frá ECB geta íbúðalánsvextir verið afar mismunandi. Allar líkur eru á því að fjölskylda sem kaupir heimili í München fái betri kjör en sú sem kaupir í Aþenu.

Sá mikli galli er á málflutningi þeirra sem vilja að Ísland taki upp evruna að ekki er rætt um ókostina og heildaráhrifin á hagstjórn. Þetta minnir á grísku goðsögnina um Mídas konung en hann óskaði sér þess að hann gæti breytt öllu í gull sem hann snerti. Guðinn Díonýsos uppfyllti ósk Mídasar og allt varð að gulli sem hann snerti. Hann faðmaði dóttur og hún breyttist samstundis í gull. Mídas komst þess vegna fljótt að því að óskin var honum ekki til heilla. Allt sem hann snerti breyttist í gull, líka matur og drykkur. Mídas grátbað því Díonýsos um að taka aftur óskina svo að hann dæi ekki úr hungri og þorsta. Það sama á við um íslenska evrusinna, þeir átta sig ekki á því að það eru líka ókostir sem fylgja því að afnema sjálfstæða og sveigjanlega peningastefnu, eins og aukið atvinnuleysi.

Er ég að segja að húsnæðislánakerfið á Íslandi sé í lagi? Nei. Við þurfum að fara í kerfisbreytingar á því sem hafa það að markmiði að lækka langtímahúsnæðisvexti heimilanna og að þeir endurspegli betur sterkan efnahag og langtímahorfur Íslands. Þetta er hægt! Vilji er allt sem þarf!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tími kerfisbreytinga á lánamarkaði

Deila grein

28/10/2025

Tími kerfisbreytinga á lánamarkaði

Nýlegur dómur Hæstaréttar Íslands hefur blásið nýju lífi í umræðuna um lánakjör heimilanna. Í svokölluðu vaxtamáli komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að óverðtryggð lán yrðu að miðast við stýrivexti Seðlabankans. Þessi tímamótaniðurstaða afhjúpar galla í núverandi fyrirkomulagi og kallar á heildarendurskoðun.

Hollt er að rifja upp uppruna verðtryggingar í þessu samhengi. Verðtrygging var lögleidd með Ólafslögum árið 1979, þegar efnahagslegt ófremdarástand réð ríkjum. Á þeim tíma geisaði óðaverðbólga, raunvextir voru neikvæðir og sparifé í lágmarki. Innstæður voru komnar í sögulegt lágmark og lánsfé þraut. Því var gripið til róttækra ráðstafana: vísitölubinding lána og innlána var tekin upp til að verja sparnað og lán gegn verðbólgu og koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað.

Nú, nærri hálfri öld síðar, eru efnahagsaðstæður gjörbreyttar. Verðbólgan er vissulega enn til staðar en stöðugleiki er miklu meiri. Skyldusparnaður í gegnum lífeyrissjóði tryggir að fjármagn safnist fyrir framtíðina, og almenningur hefur fleiri leiðir til ávöxtunar sparnaðar en að geyma fé á bankareikningum. Í stuttu máli: neyðarráðstafanirnar frá 1979 eiga ekki lengur við.

Þrátt fyrir þessar breyttu aðstæður sitjum við enn uppi með úrelt lánakerfi. Ísland er meðal auðugustu landa veraldar. Lífeyrissjóðirnir geyma mikið fjármagn og ríkissjóður er tiltölulega skuldalítill. Samt eru lánakjör þannig að venjulegar fjölskyldur þurfa að skuldbinda sig til 40 ára í mikilli óvissu. Í samfélagi sem býr svo vel ættu landsmenn að geta fengið sanngjarnari og traustari lán til húsnæðiskaupa. Lausnin felst í heildarendurskoðun lánakerfisins. Boða þarf alla hagaðila að borðinu með það eina markmið að bjóða upp á fasteignalán sem endurspegla betur góða stöðu þjóðarbúsins. Hvernig mætti bæta kerfið? Í fyrsta lagi, endurskoða þarf lífeyrissjóðakerfið með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á samfélaginu okkar. Í öðru lagi, auka þarf valkosti lántakenda. Fastvaxtalán til 10 eða 20 ára ættu að vera raunhæfur kostur hérlendis líkt og í nágrannalöndum. Lífeyrissjóðir gætu stutt slíkar lánveitingar þannig að bankar bjóði fasta vexti á samkeppnishæfum kjörum, án þess að taka á sig óbærilega áhættu. Í þriðja lagi, markvisst þarf að draga úr vægi verðtryggingarinnar en það verður ekki hægt að gera nema að aðrir raunhæfir kostir fyrir heimilin séu í boði. Umbætur á þessu kerfi eru eitt mesta hagsmunamál samfélagsins og tilvalið samvinnuverkefni. Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins óskaði nýlega eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til að ræða alvarlega stöðu lánamarkaðarins. Vonandi næst pólitísk samstaða um nauðsynlegar kerfisbreytingar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 28. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tækifærin liggja í að efla Ísland

Deila grein

21/10/2025

Tækifærin liggja í að efla Ísland

Evrópa hefur sýnt mikla seiglu í gegnum áföll síðustu ára, þ.e. frá heimsfaraldrinum til orkuskortsins sem fylgdi innrás Rússlands í Úkraínu. Engu að síður dregur nýjasta skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um álfuna (e. Regional Economic Outlook: Europe) upp dökka mynd. Evrópa virðist vera að sigla inn í tímabil lítils hagvaxtar og stöðnunar. Stjórnvöld um alla Evrópu átta sig á vandanum en hafa ekki náð að grípa til aðgerða sem gætu snúið þessari þróun við.

Skýrsla AGS gagnrýnir þann hægagang sem virðist vera ráðandi. Viðskiptaerjur við Bandaríkin, styrking evrunnar og viðvarandi pólitísk óvissa hafa dregið úr útflutningi og fjárfestingum. Þrátt fyrir að vaxtalækkanir og aukin ríkisútgjöld ættu að örva eftirspurn atvinnulífsins hefur hagvöxtur ekki tekið við sér. Framleiðni efnahagskerfisins er stöðnuð og Evrópa heldur áfram að dragast aftur úr Bandaríkjunum.

Aðgerðaleysi er rót vandans og er ekki best geymda leyndarmálið í Brussel. Viljann til verka virðist skorta til að efla samkeppnishæfni. Atriði sem nefnd hafa verið í þessu samhengi eru kerfisumbætur á fjármálamarkaði og aukinn hreyfanleiki vinnuafls. Ásamt því að draga úr íþyngjandi og flóknu regluverki. Evrópusambandinu hefur ekki tekist að hrinda þessu í framkvæmd og því hefur framleiðnin dregist saman.

Efnahagslegar afleiðingar þessa stefnuleysis eru augljósar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að skuldabyrði Evrópuríkja geti hækkað í allt að 130 prósent af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2040, ef hagvöxtur tekur ekki við sér. Á sama tíma er mikill útgjaldaþrýstingur á ríkisfjármál ESB-ríkja, sem er tilkominn vegna öldrunar samfélaga og kallar á aukin útgjöld til heilbrigðis- og lífeyrismála. Einnig hafa útgjöld til varnarmála og loftslagsaðgerða vaxið mikið. Án aukinnar framleiðni munu tekjur hins opinbera einfaldlega ekki standa undir nýjum skuldbindingum.

Það eru hagsmunir Íslands að Evrópa standi traustum fótum efnahagslega. Ef Evrópa stendur veikt, þá minnkar það möguleika Íslands til útflutnings á matvælum og þjónustu.

Þess vegna er mikilvægt að ráðist verði í langtíma kerfisumbætur og einföldun regluverks. Evrópusambandið þarf að ráðast í miklar kerfisbreytingar. Ísland á ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu þegar staðan er með þessum hætti.

Undirstaða tækniframfara og atvinnusköpunar er hagvöxtur. Ísland á að bæta sína eigin samkeppnisstöðu með því að efla nýsköpun, bæta framleiðni og treysta undirstöður hagkerfisins. Þannig getum við tryggt áframhaldandi vöxt og stöðugleika, óháð því hvernig vindar blása á meginlandinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2025.