Categories
Fréttir Greinar

Gullið tækifæri látið úr greipum ganga

Deila grein

09/09/2025

Gullið tækifæri látið úr greipum ganga

Mikilvægasta fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar var kynnt í gær. Framganga fjármála- og efnahagsráðherra bar þess merki að hann væri búinn að ná tökum á ríkisfjármálunum og þess mæti vænta að verðbólguvæntingar myndu lækka í kjölfarið. Hins vegar þegar rýnt er í frumvarpið þá vekur það undrun að meiri metnaður skuli ekki hafa ráðið för og að hallalaus ríkisfjármál hafi ekki litið dagsins ljós. Allar forsendur eru fyrir hendi og áföll síðustu ára að baki. Í slíku efnahagsumhverfi hefði verið eðlilegt að fjárlagafrumvarpið 2026 sýndi meiri festu.

Mikil tekjuaukning verður á árinu 2025 eða um 80 ma.kr. Af einstökum sköttum er mesta breytingin í virðisaukaskatti, eða um 20 ma.kr. Gert er ráð fyrir að tekjur af fjármagnstekjuskatti hækki ásamt vaxtatekjum. Áætlaðar arðgreiðslur ríkisfyrirtækja eru einnig töluvert hærri. Stærstur hluti af þessari jákvæðu þróun er sú áhersla sem fyrri ríkisstjórn lagði á verðmætasköpun. Þessu ber að fagna. Því hefði hiklaust verið hægt að ná hallalausum fjárlögum árið 2026. Hins vegar ákveður ríkisstjórnin að almenna aðhaldskrafan sé 1% á stofnanir hins opinbera en hún nær ekki til heilbrigðis- og öldrunarstofnana, skóla og löggæslu. Fljótt á litið nemur heildaraðhaldið um 15 ma.kr. og er mun lægra hlutfallslega en á milli áranna 2024 og 2025.

Megináherslur ríkisstjórnarinnar birtast skýrt í frumvarpi til fjárlaga. Í samanburði milli samþykktra fjárlaga 2025 og frumvarpsins fyrir 2026 má sjá að ákveðin málefnasvið fá verulega aukið vægi. Hlutfallslega hækkar fjárveiting til utanríkismála mest eða um 17% og langt umfram verðbólgumarkmið. Næstmesta hækkunin er til örorkumála og málefna fatlaðs fólks eða um 15%. Samtals nemur aukningin til þessara málaflokka mun meiru en aðhaldsaðgerðirnar. Aukningin til utanríkismála og örorkumála nemur um 25 ma.kr. meðan aðhaldsaðgerðir nema 15,1 ma.kr.

Þetta fjárlagafrumvarp mun ekki ná niður verðbólguvæntingum, sem er lykilatriði í því að Seðlabankinn geti lækkað stýrivexti. Meira þarf til á þessum tímapunkti. Ef fjárlögin hefðu beinst að því að örva framboð á húsnæði og skila hallalausum fjárlögum hefði skapast sterkari grundvöllur fyrir lægri verðbólgu og verðbólguvæntingar lækkað.

Miklar væntingar voru bundnar við fjárlagafrumvarpið 2026. Eftir tímabil erfiðra áfalla í efnahagsmálum á borð við heimsfaraldurinn og jarðhræringar á Reykjanesi var ég þess fullviss að fjármála- og efnahagsráðherra myndi nota tækifærið og skila hallalausum ríkisfjármálum, sérstaklega þegar tekjuaukinn nemur 80 ma.kr. Er þetta virkilega planið?

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hús þarf traustar undirstöður

Deila grein

02/09/2025

Hús þarf traustar undirstöður

Þegar hin sam­eig­in­lega mynt, evr­an, var tek­in upp árið 1999 gerðu hug­mynda­fræðing­ar henn­ar sér í hug­ar­lund að hún myndi stuðla að aukn­um hag­vexti og vel­sæld fyr­ir álf­una.

Rúm­um 25 árum seinna hef­ur evr­an ekki skilað þeim ár­angri sem von­ir stóðu til. Nicholas Kaldor, hag­fræðing­ur við Cambridge-há­skóla, kom strax með gagn­rýni á hug­mynd­ir um sam­eig­in­lega mynt í mars árið 1971. Kaldor sagði þá að leiðtog­ar Evr­ópu væru að stór­lega van­meta efna­hags­leg áhrif þess að taka upp sam­eig­in­lega mynt og sagði að ef þetta ætti að tak­ast, þá þyrftu efna­hags­lega sterk­ari ríki að fjár­magna þau sem stæðu verr meira og minna til fram­búðar. Hann varaði jafn­framt við því að hin sam­eig­in­lega mynt myndi sundra Evr­ópu­bú­um, og minnt­ist á fræg orð for­seta Banda­ríkj­anna, Abra­hams Lincolns, um að: „Hús sem er klofið gegn sjálfu sér get­ur ekki staðið.“

Kaldor hef­ur að mínu mati rétt fyr­ir sér. Ef hin sam­eig­in­lega mynt á að skila þeim ár­angri sem upp­hafs­menn henn­ar vildu, þá þarf að setja á lagg­irn­ar sam­eig­in­leg­an rík­is­sjóð evru­ríkj­anna, sem hef­ur sams kon­ar hlut­verk og rík­is­sjóður Banda­ríkj­anna. Eins og staða er í dag, þá nema sam­eig­in­leg fjár­lög ESB-ríkj­anna um 1% af lands­fram­leiðslu þeirra, meðan um­fang rík­is­sjóðs Banda­ríkj­anna er um 20%. Rík­is­sjóður Banda­ríkj­anna hef­ur það hlut­verk meðal ann­ars að sjá um skatt­heimtu, móta efna­hags­stefnu fyr­ir al­ríkið, styðja við fá­tæk­ari fylki lands­ins og fjár­magna her­inn. Veg­ferð fylg­is­manna evr­unn­ar og aðild­arsinna er að mynda svipað ríkja­sam­band, líkt og Banda­rík­in. Mario Drag­hi, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri, sagði á dög­un­um að til að Evr­ópa gæti brugðist við þeim efna­hags­legu áskor­un­um sem blasa við henni, þá þurfi ESB að koma fram meira eins og eitt ríki.

Ef við lít­um á þau ríki sem vegn­ar einna best í Evr­ópu um þess­ar mund­ir, þá eru það ríki sem hafa sinn eig­in gjald­miðil. Þetta eru ríki á borð við Sviss, Ísland og Nor­eg. Megin­á­stæða þess að marg­ir hag­fræðing­ar vara við sam­eig­in­leg­um gjald­miðli á borð við evru fyr­ir Ísland og Nor­eg er sú staðreynd að hagsveifl­ur þess­ara ríkja eru ekki í takt við evru­rík­in. Þannig tek­ur hag­stjórn­in ekki mið af þeirri efna­hags­legri stöðu sem þau ríki búa við.

Íslandi hef­ur vegnað vel og séð mik­il um­skipti á vel­sæld þjóðar­inn­ar og lands­fram­leiðsla vaxið mikið. Þegar Norðmenn höfnuðu aðild að ESB árið 1994, þá voru það efna­hags­leg­ir hags­mun­ir þjóðar­inn­ar sem réðu mestu. Efna­hags­leg grein­ing á sín­um tíma leiddi í ljós að Norðmenn myndu greiða mun meira til ESB en þjóðin fengi í staðinn. Reikn­ing­ur­inn hef­ur hækkað veru­lega síðan þá. Það ná­kvæm­lega sama á við í til­felli Íslands og því eig­um við áfram að vera í EES-sam­starfi en ekki fara í Evr­ópu­sam­bandið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tæknikapphlaupið og staða Íslands

Deila grein

26/08/2025

Tæknikapphlaupið og staða Íslands

All­ar þjóðir heims eru í óðaönn að und­ir­búa sig und­ir gjör­breytt lands­lag efna­hags­mála með til­komu gervi­greind­ar. Leiðandi ríki á þess­um vett­vangi eru Banda­rík­in, Kína og Bret­land. For­ystu­fólk hjá Evr­ópu­sam­band­inu hef­ur haft mikl­ar áhyggj­ur af því að sam­bandið væri að drag­ast aft­ur úr í tæknikapp­hlaup­inu. Þess vegna var fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Evr­ópska seðlabank­ans, Mario Drag­hi, feng­inn til að gera út­tekt á sam­keppn­is­hæfni álf­unn­ar. Fram kom í út­tekt Drag­his að á sviði tækni og ný­sköp­un­ar væri bilið milli Evr­ópu og Banda­ríkj­anna orðið sér­stak­lega áber­andi. Aðeins fjög­ur af 50 stærstu tæknifyr­ir­tækj­um heims eru evr­ópsk. Ekk­ert fyr­ir­tæki sem stofnað hef­ur verið á síðustu 50 árum og starfað í Evr­ópu hef­ur náð yfir 100 millj­arða evra markaðsvirði. Árið 2021 fjár­festu evr­ópsk fyr­ir­tæki um 270 millj­örðum evra minna í rann­sókn­um og þróun en banda­rísk fyr­ir­tæki. Vand­inn að mati Drag­his er ekki skort­ur á frum­kvöðlum eða getu inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins held­ur frem­ur að innri markaður­inn sé ekki nægi­lega sam­keppn­is­hæf­ur. Nefn­ir hann nokkra þætti máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi er orku­kostnaður þre­falt hærri hjá ríkj­um ESB en í Banda­ríkj­un­um og Kína. Í öðru lagi er skort­ur á fjár­fest­ingu í ný­sköp­un og tækni. Á ár­un­um 2008-2021 fluttu nærri 30 pró­sent evr­ópskra sprota­fyr­ir­tækja höfuðstöðvar sín­ar til Banda­ríkj­anna vegna þessa. Í þriðja lagi hef­ur mik­ill fjöldi af­bragðsnem­enda haldið til Banda­ríkj­anna og stofnað þar fyr­ir­tæki. Hag­kerfi Evr­ópu­sam­bands­ins hef­ur því orðið fyr­ir ákveðnum spekileka. Vöxt­ur fram­leiðni í Evr­ópu hef­ur því ekki verið eins mik­ill og von­ir stóðu til.

Á sama tíma hafa orðið al­gjör um­skipti í há­tækni- og hug­verkaiðnaði á Íslandi. Útflutn­ings­tekj­urn­ar nema 17% af heild­ar­út­flutn­ingi og hafa vaxið um 190% á tíu árum. Stjórn­völd mörkuðu afar skýra stefnu í þess­um mál­um og unnu þétt með at­vinnu­líf­inu. Fjár­fest­ing­ar í ný­sköp­un juk­ust mikið með bein­um stuðningi og skattafrá­drætti. Ísland er vegna þessa mun bet­ur í stakk búið til að tak­ast á við þær miklu breyt­ing­ar sem við stönd­um frammi fyr­ir í tækni og gervi­greind.

Ísland þarf ekki að ger­ast aðili að Evr­ópu­sam­band­inu til þess að vaxa og dafna. Eyðum tím­an­um frek­ar í að gera Ísland sam­keppn­is­hæf­ara. Leiðandi fyr­ir­tæki í gervi­greind hafa í aukn­um mæli sýnt Íslandi áhuga vegna hag­felldra skil­yrða fyr­ir gagna­ver. Við eig­um að sækja fram og nýta okk­ur hag­stætt orku­verð og góða legu lands­ins. Tími er tak­mörkuð auðlind og því mik­il­vægt að hann sé nýtt­ur vel. Í þeirri óvissu sem rík­ir í alþjóðaviðskipt­um er afar brýnt að sú leið sem Ísland vel­ur sé vel vörðuð. Ákvarðanir í ut­an­rík­is­mál­um þurfa að byggj­ast á staðreynd­um en ekki ósk­hyggju um ver­öld sem aldrei varð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Evran stóðst ekki væntingar um aukinn hagvöxt

Deila grein

19/08/2025

Evran stóðst ekki væntingar um aukinn hagvöxt

Þegar evr­an var tek­in í notk­un árið 1999 voru von­irn­ar mikl­ar og sögu­leg­ar. Sam­eig­in­legi gjald­miðill­inn átti að binda álf­una nán­ar sam­an, stuðla að öfl­ug­um hag­vexti með auk­inni efna­hags­legri samþætt­ingu. Rök­semd­irn­ar fyr­ir evr­unni byggðust á tveim­ur meg­in­stoðum. Í fyrsta lagi að efna­hags­leg samþætt­ing myndi auka hag­vöxt með því að fjar­lægja efna­hags­leg­ar hindr­an­ir. Í öðru lagi að fjár­magns­kostnaður myndi minnka vegna stærri gjald­miðils. Vand­inn er að for­send­urn­ar voru veik­ar í upp­hafi. Hinn sam­eig­in­legi markaður hafði þegar tryggt hið svo­kallaða fjór­frelsi, þ.e. frjálsa för vöru, þjón­ustu, fjár­magns og vinnu­afls inn­an innri markaðar EES. Gjald­miðlamun­ur var vissu­lega óþægi­leg­ur, sér­stak­lega fyr­ir ferðamenn, en í dag er það lít­il efna­hags­leg hindr­un á tím­um ra­f­ræns fjár­magns.

Fjár­magns­kostnaður þjóðríkja end­ur­spegl­ast iðulega í því vaxta­álagi sem rík­is­sjóðir þeirra bera, sem gef­ur svo mynd af grunnþátt­um viðkom­andi hag­kerf­is. Vext­ir á grísk­um rík­is­skulda­bréf­um urðu 22,5% árið 2012 og á tíma­bili gátu mörg evru­ríki ekki gefið út rík­is­skulda­bréf. Á sama tíma voru vext­ir á þýsk­um rík­is­skulda­bréf­um um 1%. Evr­an hef­ur til að mynda ekki end­ur­speglað sterka efna­hags­lega stöðu Þýska­lands und­an­far­in miss­eri. Þýska­land hef­ur haft gjald­miðil sem er veik­ari en efni standa til, sem hef­ur svo bætt sam­keppn­is­stöðu lands­ins, en á sama tíma hef­ur Grikk­land haft mun sterk­ari gjald­miðil en hag­kerfið þolir, sem hef­ur veikt veru­lega sam­keppn­is­stöðu lands­ins, og aðlög­un­in hef­ur komið í gegn­um vinnu­markaðinn.

At­vinnu­leysi ungs fólks í Grikklandi náði allt að 50%, þegar verst lét. Vinnu­málaráðherra Grikk­lands, Niki Kera­meus, fer nú um alla Evr­ópu til að hvetja vel menntaða brott­flutta Grikki til að snúa aft­ur til lands­ins með skatta­leg­um hvöt­um. Um 600 þúsund vel menntaðir Grikk­ir yf­ir­gáfu landið í efna­hagsþreng­ing­um þeirra. Sum­ir myndu segja að þarna væri hinn sam­eig­in­legi markaður að virka. Það er rétt, en her­kostnaður­inn fyr­ir marg­ar kyn­slóðir er ómet­an­leg­ur vegna spekilek­ans sem á sér stað.

Vöxt­ur lands­fram­leiðslu í Evr­ópu er mun minni en í Banda­ríkj­un­um. Sam­kvæmt Drag­hi-skýrsl­unni hef­ur mun­ur­inn á fram­leiðslu svæðanna auk­ist enn frek­ar eft­ir að evr­an var tek­in upp. Árið 2002 var fram­leiðsla Banda­ríkj­anna 17% meiri en á evru­svæðinu, en árið 2023 var mun­ur­inn orðinn 31% og hef­ur því auk­ist um 82% á tíma­bil­inu! Evr­an átti að vera svar Evr­ópu við Banda­ríkj­un­um. Eitt öfl­ugt markaðssvæði með eina rödd, einn markað og eina mynt. Hug­mynda­smiðir evr­unn­ar reru þó á ókunn mið. Niðurstaðan er skýr: Evr­an hef­ur ekki staðið und­ir vænt­ing­um um auk­inn hag­vöxt og vel­sæld.

Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óvissuferð

Deila grein

12/08/2025

Óvissuferð

Staða efna­hags­mála í sum­ar­lok ein­kenn­ist af mik­illi óvissu og stór­um áskor­un­um. Í fyrsta lagi hef­ur verðbólga ekki lækkað eins og von­ir stóðu til. Í öðru lagi hef­ur um­hverfi ut­an­rík­is­viðskipta versnað veru­lega, sem dreg­ur úr sam­keppn­is­hæfni. Að lok­um skort­ir skýra og gagn­sæja stefnu í rík­is­fjár­mál­um.

Verðbólga mæl­ist 4% á árs­grund­velli og hækk­an­ir mæl­ast á breiðum efna­hags­leg­um grunni. Á sama tíma hef­ur ávöxt­un­ar­krafa verðtryggðra rík­is­skulda­bréfa til lengri tíma hækkað um­tals­vert. Vænt­ing­ar markaðar­ins um þróun verðbólgu og raun­vaxta til lengri tíma hafa einnig auk­ist. Þetta þýðir að vext­ir til heim­il­anna verða einnig hærri til lengri tíma, þar sem fjár­mögn­un­ar­kostnaður rík­is­ins er grunn­ur að verðlagn­ingu alls kerf­is­ins. Þótt styrk­ing krón­unn­ar ætti að vega á móti verðbólguþrýst­ingi hef­ur sterk­ara gengi ekki enn skilað sér til al­menn­ings. Margt bend­ir til þess að krón­an geti veikst í haust vegna auk­ins viðskipta­halla og mik­ill­ar óvissu á alþjóðamörkuðum.

Óviss­an hef­ur sjald­an verið meiri í alþjóðahag­kerf­inu. Tolla­stríðið sem nú geis­ar í alþjóðaviðskipt­um er án for­dæma. Fyr­ir­séð var að banda­rísk stjórn­völd myndu hefja tíma­bil ný-kaupauðgis­stefnu, sem fel­ur í sér að auka út­flutn­ing Banda­ríkj­anna, draga úr inn­flutn­ingi og hækka tolla til að auka tekj­ur rík­is­sjóðs. Hér er um nýja efna­hags­stefnu að ræða, þar sem ut­an­rík­is­viðskipti eiga að koma með bein­um hætti að hag­stjórn í aukn­um mæli. Á sama tíma hef­ur for­seti Banda­ríkj­anna verið að styrkja laga­lega um­gjörð raf­mynta, og verður fróðlegt að fylgj­ast með sam­spili þess og hvort eft­ir­spurn auk­ist að nýju eft­ir banda­rísk­um rík­is­skulda­bréf­um. Mark­mið efna­hags­stefn­unn­ar er að minnka þrálát­an viðskipta­halla og auka fjár­fest­ing­ar inn­an­lands. Það sem hef­ur komið á óvart eru fyr­ir­hugaðir refsitoll­ar Evr­ópu­sam­bands­ins á fram­leiðslu kís­il­málma og að þeim skuli verða beitt gagn­vart EES-ríkj­um. Ólík­legt þykir að Evr­ópu­sam­bandið haldi sig við þessa stefnu til lengri tíma og virði ekki EES-samn­ing­inn. Mikið er í húfi fyr­ir þjóðarbúið að EES-samn­ing­ur­inn sé virt­ur.

Fyrsta fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar verður kynnt í sept­em­ber. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in hef­ur verið samþykkt og þar er gert ráð fyr­ir auknu aðhaldi, en út­færsla þess hef­ur ekki verið kynnt og eyk­ur því óvissu. Vantað hef­ur upp á ákveðin gögn og fyr­ir­sjá­an­leik­inn því minnkað.

Efna­hags­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar er óvissu­ferð. Brýnt er að for­gangsraða í þágu verðlags­stöðug­leika og hags­muna­gæslu fyr­ir land og þjóð. Allt stefn­ir í auk­inn viðskipta­halla ef rík­is­stjórn­in hug­ar ekki bet­ur að sam­keppn­is­hæfni og að efla ís­lenska fram­leiðslu. Efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar eru þekkt­ar. Lífs­kjör þjóðar­inn­ar ráðast af því hvernig til tekst!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hetjan mín

Deila grein

05/08/2025

Hetjan mín

Guðný Jóns­dótt­ir langamma mín fædd­ist 5. ág­úst 1910 og því eru liðin 115 ár frá fæðingu henn­ar. Hún fædd­ist á Mel­um í Fljóts­dal og bjó þar fyrstu ævi­ár­in. For­eldr­ar henn­ar, Jón Mika­el­son og Arn­fríður Eðvalds­dótt­ir, reistu sér síðar bú á Una­ósi ásamt sex börn­um sín­um. Þegar langamma var tíu ára lést faðir henn­ar. Langamma var næ­stelst í hópi systkin­anna. Heim­ilið leyst­ist upp og börn­in voru send hvert í sína átt. Móðir henn­ar tók eitt barn­anna með sér, og langamma tók yngsta bróður sinn með sér í vinnu­mennsku og sá fyr­ir hon­um.

Snemma var hún far­in að axla ábyrgð, og sagt var að hún hefði ekki aðeins hlúð að yngsta bróður sín­um, held­ur verið vak­in og sof­in yfir aðbúnaði hinna systkin­anna. Hrepp­ur­inn vildi styrkja hana til náms, en hún þurfti að hafna því vegna skyldna sinna, þá ekki nema tólf ára göm­ul.

Fljótt komu í ljós þeir eig­in­leik­ar sem ein­kenndu hana: sjálfs­bjarg­ar­viðleitn­in og hjálp­sem­in. Þeir urðu síðar marg­ir sem hún tók upp á arma sína og skaut skjóls­húsi yfir, skyld­ir og óskyld­ir. Ekki er ólík­legt að kröpp kjör í bernsku hafi gert lang­ömmu mína að þeirri fé­lags­hyggju­konu sem hún varð. Hún hafði mik­inn áhuga á stjórn­mál­um og skipaði sér í sveit með þeim sem börðust fyr­ir rétt­ind­um verka­fólks og annarra sem minna máttu sín í sam­fé­lag­inu. Á kreppu­ár­un­um voru síld­artunn­ur notaðar sem ræðustól­ar til að vekja at­hygli á rétt­ind­um verka­fólks. Langamma fór síðar meir út í veit­ing­a­rekst­ur. Hún keypti og rak mat­sölu um ára­bil í Aðalstræti 12. Sá rekst­ur gekk vel, enda var hún út­sjón­ar­söm. Mat­ur­inn þótti heim­il­is­leg­ur og meðal fastak­únna voru oft fá­tæk­ir skóla­pilt­ar og verka­menn. Marga þeirra annaðist hún eins og þeir væru úr henn­ar eig­in fjöl­skyldu.

Á aðfanga­dags­kvöld­um var mat­sal­an jafn­an opin og þá margt um mann­inn. Marg­ir áttu sín einu jól hjá lang­ömmu. Hún tók þátt í starfi fé­lags starfs­fólks á veit­inga­hús­um. Hún varð formaður þess árið 1956 og gegndi for­mennsku til 1962. Mat­sölustaðinn seldi hún árið 1966 og keypti þá jörðina Vatns­enda í Vill­inga­holts­hreppi. Þar stundaði hún bú­skap næstu árin af mikl­um mynd­ar­brag. Mjólk­ur­fram­leiðsla henn­ar þótti jafn­an til fyr­ir­mynd­ar og hlaut viður­kenn­ingu frá Mjólk­ur­búi Flóa­manna.

Fram­far­irn­ar sem orðið hafa á ís­lensku sam­fé­lagi frá þess­um tíma eru fá­heyrðar í hag­sögu þjóða. Tæki­fær­in eru gjör­ólík þeim sem voru við upp­haf síðustu ald­ar. Ég velti því oft fyr­ir mér, sem ráðherra, hvar lang­ömmu hefði þótt skór­inn helst kreppa. Ávallt kemst ég að sömu niður­stöðu: Staða mennta­kerf­is­ins. Við þurf­um að efla það áfram og veita öll­um börn­um tæki­færi til mennt­un­ar.

Krafta­verk­in í líf­inu eru mörg og mis­stór, og stund­um eru þau unn­in af ein­stak­ling­um sem lyfta björg­um. Langamma mín var slík kona og hetj­an mín.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Fór sleggjan af skaftinu?

Deila grein

28/07/2025

Fór sleggjan af skaftinu?

,,Verðbólga hef­ur ekki lækkað eins og von­ir stóðu til um og er 4% á árs­grund­velli. Skila­boð Seðlabanka Íslands í maí voru skýr: Það verða eng­ar frek­ari lækk­an­ir nema verðbólg­an fær­ist nær 2,5% mark­miðinu. Má því telj­ast ólík­legt að al­menn­ing­ur og at­vinnu­líf sjái vexti lækka á næst­unni. Þetta eru mjög slæm tíðindi fyr­ir efna­hags­fram­vind­una og það sem meira er að hækk­an­ir á vísi­töl­u­neyslu­verðs eru á breiðum grunni. Verðbólga hafði farið ört lækk­andi frá júlí 2024 og vaxta­lækk­un­ar­ferlið komið af stað. Þróun verðbólg­unn­ar eru verstu tíðindi sem heim­ili lands­ins hafa fengið í lang­an tíma. Að sama skapi virðist lána­markaður­inn að þró­ast til hins verra og svo hæg­ist veru­lega á bygg­ing­ar­markaðnum.

Lang­tíma­vext­ir hafa hækkað á þessu ári ásamt því að ávöxt­un­ar­krafa verðtryggðra rík­is­skulda­bréfa til lengri tíma hef­ur hækkað um­tals­vert. Vænt­ing­ar markaðar­ins um þróun verðbólgu og raun­vaxta hafa hækkað til lengri tíma. Hærri raun­vext­ir eru fyr­ir­séðir næstu árin sam­kvæmt markaðsaðilum. Þetta þýðir að vext­ir til heim­il­anna verða einnig hærri til lengri tíma, þar sem fjár­mögn­un­ar­kostnaður rík­is­ins er grunn­ur að verðlagn­ingu alls kerf­is­ins. Kostnaður rík­is­sjóðs vegna hærri verðbólgu er að aukast ásamt því að heim­il­in bera hærri vexti. Þetta þýðir að hag­vöxt­ur verður minni en ella, af því að rík­is­stjórn­in hef­ur sofið á verðinum gagn­vart verðbólg­unni.

Sam­drátt­ar á heild­ar­fjölda íbúða í bygg­ingu hef­ur gætt síðan síðasta haust í töl­um hjá Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un. Lóðaút­hlut­an­ir hafa verið tals­verðar en dreg­ist hef­ur að koma fram­kvæmd­um af stað vegna þrálátr­ar verðbólgu og aðstæðna á fjár­mála­markaði. Ef þetta verður raun­in næsta árið, þá mun skort­ur mynd­ast, sem hækk­ar verðið svo aft­ur og það hef­ur aft­ur áhrif á vísi­töl­u­neyslu­verð.

Það er afar miður að efna­hags­stjórn­in hafi ekki ein­blínt meira á verðbólg­una en raun ber vitni. Rík­is­stjórn­in hef­ur í stað þess boðið at­vinnu­líf­inu upp á óvissu í formi fyr­ir­hugaðra skatta­hækk­ana og ekki látið laun sín taka mið af verðbólgu­mark­miðinu eða kjara­samn­ing­um á al­menn­um markaði. Rík­is­stjórn­in hef­ur ít­rekað verið vöruð við því að hún væri á rangri leið í efna­hags­mál­um, sem mun bitna á hag­vexti og vel­sæld fyr­ir þjóðina.

Rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur hef­ur mistek­ist að halda áfram á þeirri veg­ferð að lækka verðbólgu, sem síðasta rík­is­stjórn lagði of­urkapp á og var far­in að ná ár­angri eins og þróun vísi­töl­u­neyslu­verðs sýn­ir frá júlí 2024. Hag­sag­an sýn­ir okk­ur að ef stjórn­völd sýna linkind gagn­vart verðbólg­unni, þá verður hún þrálát og erfiðari viður­eign­ar. Því er ljóst að sleggj­an hef­ur farið af skaft­inu!”

Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. júlí 2025

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Hagvöxtur er minni á evrusvæðinu

Deila grein

21/07/2025

Hagvöxtur er minni á evrusvæðinu

Evr­ópu­sam­bandið er komið aft­ur á dag­skrá ís­lenskra stjórn­mála. Stjórn­völd hafa til­kynnt að fyr­ir­huguð sé þjóðar­at­kvæðis­greiðsla um hvort Íslandi eigi að hefja að nýju viðræður um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. At­kvæðagreiðslan fer fram á ár­inu 2027. Það er mik­il­vægt að þjóðin geti kosið um þetta mik­il­væga mál.

Hag­vöxt­ur skipt­ir miklu máli til að auka vel­ferð þjóða og til að hægt sé að fjár­festa í mennt­un og heil­brigðisþjón­ustu. Evr­an átti að efla hag­vöxt og efna­hags­leg­an stöðug­leika inn­an þess efna­hags­svæðis. Reynsl­an hef­ur hins veg­ar sýnt að hag­vöxt­ur er mun minni í sam­an­b­urði við önn­ur ríki. Hag­vöxt­ur á Íslandi hef­ur á síðustu ára­tug­um verið þrótt­mik­ill og at­vinnu­leysi lítið. Hag­vöxt­ur síðustu fimm ár hef­ur að meðaltali verið rúm 2,5% og fjöldi nýrra starfa hef­ur orðið til á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins. Til sam­an­b­urðar hef­ur hag­vöxt­ur í Banda­ríkj­un­um verið 2% og á evru­svæðinu 1%. Hálf­gerður þoku­hjúp­ur er yfir hag­vexti á evru­svæðinu. Flest ríki vilja vera í stöðu Íslands, þar sem hag­vaxt­ar­horf­ur eru góðar og at­vinnu­leysi er lítið.

Efna­hags­leg frammistaða evru­svæðis­ins hef­ur verið lak­ari en Banda­ríkj­anna. Töl­urn­ar tala sínu máli. „Evr­ópa hef­ur farið úr því að vera 90 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu Banda­ríkj­anna niður í 65 pró­sent á 10 til 15 árum. Það er ekki góð þróun,“ sagði Jaime Dimon, banka­stjóri JP­Morg­an Chase, á ráðstefnu í Dublin nú á dög­un­um. Um­mæli Dimons end­ur­spegla þá miklu áskor­un sem Evr­ópu­sam­bandið stend­ur frammi fyr­ir í að örva hag­vöxt og auka sam­keppn­is­hæfni álf­unn­ar. Dimon bætti við að álf­an hefði mjög stórt markaðssvæði og einkar öfl­ug fyr­ir­tæki með alþjóðleg um­svif. Hins veg­ar væri staðreynd­in sú að þau væru sí­fellt færri og sam­keppn­is­hæfni þeirra hefði beðið hnekki með ári hverju. Mest fer fyr­ir fram­förum í gervi­greind og há­tækni í Banda­ríkj­un­um og Kína. Ísland á að nýta sér land­fræðilega legu sína til að geta stundað frjáls viðskipti við sem flest ríki.

Á síðasta ári kallaði Mario Drag­hi, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Evr­ópu, eft­ir nýrri iðn- og fjár­fest­ing­ar­stefnu fyr­ir álf­una sem myndi krefjast 800 millj­arða evra ár­legra fjár­fest­inga til að viðhalda sam­keppn­is­hæfni gagn­vart Banda­ríkj­un­um og Kína. Í Drag­hi-skýrsl­unni kem­ur skýrt fram að efla verði stöðu Evr­ópu ef álf­an á ekki eft­ir að drag­ast enn meira aft­ur úr.

Það er sam­dóma álit einna virt­ustu hag­fræðinga ver­ald­ar­inn­ar að meg­in­or­sök þess­ar­ar þró­un­ar sé hin sam­eig­in­lega mynt. Evr­an er ekki sú töfra­lausn sem marg­ir boða. Fórn­ar­kostnaður­inn við evr­una er lægri hag­vöxt­ur og aukið at­vinnu­leysi. Höld­um staðreynd­um til haga í kom­andi umræðu, svo að far­sæl­asta leiðin verði val­in fyr­ir okk­ar góða land. Mikið er í húfi fyr­ir framtíðarkyn­slóðir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júlí 2025.

Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Virkt lýðræði tryggir velsæld

Deila grein

14/07/2025

Virkt lýðræði tryggir velsæld

,,Ísland skip­ar efsta sæti á lífs­kjaralista Sam­einuðu þjóðanna. Þetta er mik­il viður­kenn­ing á stöðu Íslands í sam­fé­lagi þjóðanna. Við get­um öll verið stolt af þess­um ár­angri, sem hef­ur tekið ára­tugi að ná með mik­illi vinnu og elju­semi þjóðar­inn­ar. Efna­hags­staða þjóðarbús­ins er nokkuð góð um þess­ar mund­ir, þótt vissu­lega séu blik­ur á lofti. At­vinnu­leysi er lítið og hag­vöxt­ur hef­ur verið stöðugur. Hins veg­ar er einnig ástæða til að staldra við og ígrunda stöðu Íslands í breiðara sam­hengi, ekki síst eft­ir ný­lega ákvörðun for­seta Alþing­is að beita 71. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar til slíta umræðum á þingi.

Í bók sinni Tíu regl­ur vel­meg­un­ar þjóðríkja (e. The 10 Ru­les of Success­ful Nati­ons) lýs­ir höf­und­ur­inn Ruchir Sharma tíu lyk­ilþátt­um sem ein­kenna þjóðríki sem ná ár­angri til lengri tíma. Þeir eru ekki bara efna­hags­leg­ir, held­ur líka póli­tísk­ir og sam­fé­lags­leg­ir. Aflvaki fram­fara eru friður, virkt lýðræði, traust stofn­ana­kerfi og aðhald með vald­höf­um. Þjóðir sem standa vörð um þess­ar stoðir eru lík­legri til að vaxa og dafna til lengri tíma.

Í ljósi þessa vek­ur beit­ing 71. grein­ar stjórn­ar­skrár­inn­ar spurn­ing­ar. Grein­in heim­il­ar for­seta þings­ins að ljúka umræðum um þing­mál og krefjast at­kvæðagreiðslu án þess að frek­ari umræða fari fram. Þótt þessi heim­ild sé stjórn­ar­skrár­bund­in og lög­mæt, þá hef­ur hún hingað til verið nýtt með mik­illi var­færni, enda snert­ir hún sjálf­an kjarna þing­ræðis og lýðræðis­legr­ar umræðu.

Sam­kvæmt Sharma eru það ein­mitt þjóðríki sem leyfa gagn­rýna umræðu, þola deil­ur og leiða deil­ur til lykta sem búa við vel­sæld. Lýðræðis­leg umræða er ekki hindr­un held­ur styrk­ur enda var Alþingi Íslend­inga stofnað árið 930, þannig að hin lýðræðis­lega hefð hef­ur mjög sterk­ar og djúp­ar ræt­ur. For­dæmið sem skap­ast með virkj­un 71. grein­ar­inn­ar get­ur smám sam­an veikt þá lýðræðis­legu hefð sem þingloka­samn­ing­ar gegna á Alþingi, sem hafa verið und­ir­staða póli­tísks stöðug­leika milli stjórn­ar og stjórn­ar­and­stöðu. Þetta er ekki spurn­ing um laga­leg­an rétt held­ur siðferðis­legt og lýðræðis­legt mat hverju sinni. Þegar meiri­hluti beit­ir valdi sínu til að þrengja að þing­legri umræðu án þingloka­samn­inga, þá fer allt traust inn­an þings­ins. Niðurstaða þessa þing­vetr­ar er rauna­leg, þar sem til­tölu­lega fá frum­vörp náðu fram­göngu vegna hug­ar­fars­ins sem rík­ir nú á Alþingi.

Ísland stend­ur sterkt að vígi hvað varðar hag­sæld en póli­tísk festa og virðing fyr­ir lýðræðis­leg­um leik­regl­um er ekki sjálf­gef­in.

Vel­sæld þjóðríkja bygg­ist á sam­ræðu, sam­vinnu og virðingu fyr­ir and­stæðum sjón­ar­miðum. Brýnt er að þessi lýðræðis­hefð okk­ar sé virt til að tryggja áfram­hald­andi ár­ang­ur þjóðar­inn­ar og vöxt til framtíðar.”

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. júlí 2025.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Óperustarfsemi eflist til framtíðar

Deila grein

07/07/2025

Óperustarfsemi eflist til framtíðar

Á Alþingi, þann 5. júlí 2025, voru samþykkt lög um stofnun Þjóðaróperu.

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, ritaði grein í Morgunblaðið 7. júlí 2025 af því tilefni.

„Íslensk menn­ing og list­ir eru meðal þess sem skil­grein­ir þjóð okk­ar ásamt stór­brot­inni nátt­úru. Það er ein­stakt hvað Ísland á af öfl­ugu lista­fólki sem hef­ur aukið hróður þjóðar­inn­ar langt út fyr­ir land­stein­ana, hvort sem litið er til miðalda- eða sam­tíma­bók­mennta, mynd­list­ar, tón­list­ar, kvik­mynda eða sviðslista.

Um helg­ina urðu tíma­mót þegar ára­tuga­löng vinna söngv­ara og annarra sviðslista­manna bar loks ár­ang­ur. Alþingi samþykkti þá frum­varp menn­ing­ar­málaráðherra um stofn­un óperu á Íslandi. Með þessu er óper­unni tryggð sam­bæri­leg staða og öðrum sviðslist­um og verður hún kjarna­stofn­un óperu­list­ar á sama hátt og Þjóðleik­húsið í leik­list og Íslenski dans­flokk­ur­inn í danslist. Þetta er stórt skref fyr­ir ís­lenska óperu­list, en Íslend­ing­ar eiga marga framúrsk­ar­andi söngv­ara sem fá nú aukið svig­rúm til að starfa við list sína og þróa þetta mik­il­væga list­form á Íslandi.

Nýja óper­an verður rek­in sem hluti af Þjóðleik­hús­inu og mun hafa aðset­ur í Hörpu. Hún mun njóta góðs af öfl­ug­um innviðum Þjóðleik­húss­ins, ein­stakri sérþekk­ingu og traustu sam­bandi þess við þjóðina. Óper­an get­ur þannig nýtt stoðstarf­semi Þjóðleik­húss­ins á sviðum eins og rekstri, leik­muna­gerð, lýs­ingu, hljóðvinnslu, bún­ing­um og leik­gerv­um.

Sjálf hef ég alla tíð haft mikla ánægju af óperu­list­inni og átti þess kost að kynn­ast henni í gegn­um góða vin­konu mína, Mar­gréti Pét­urs­dótt­ur Jóns­son, sem fædd var í Bremen árið 1928. Hún var dótt­ir Pét­urs Á. Jóns­son­ar óperu­söngv­ara, sem fyrst­ur Íslend­inga söng inn á plöt­ur og átti far­sæl­an óperu­fer­il í Þýskalandi. Pét­ur stundaði nám í óperu­skóla Kon­ung­lega leik­húss­ins í Kaup­manna­höfn og starfaði víða í Þýskalandi, meðal ann­ars í Berlín, Kiel og Darmsta­dt. Hann endaði fer­il sinn við Deutsches Opern­haus í Berlín, eitt stærsta óperu­hús lands­ins, sann­ar­lega glæsi­leg­ur fer­ill. Pét­ur flutti fyrr heim til Íslands með fjöl­skyldu sína en stóð til. Helgaðist það af stöðunni í Þýskalandi og upp­gangi nas­isma. Mikið af lista­fólki flutti sig frá Þýskalandi vegna þessa og í aðdrag­anda seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Sam­töl mín við Mar­gréti um fer­il föður henn­ar og þróun óperu­list­ar opnuðu augu mín fyr­ir mik­il­vægi þess að efla óperu­starf­semi á Íslandi.

Það skipt­ir máli að skapa lista­fólki okk­ar um­gjörð þar sem það get­ur unnið að list sinni og glatt okk­ur hin. Einn mesti vaxt­ar­sproti okk­ar sam­fé­lags er í gegn­um skap­andi grein­ar. Við höf­um séð þær efl­ast veru­lega og sí­fellt fleiri starfa í þeim geira skap­andi greina til heilla fyr­ir sam­fé­lagið. Til ham­ingju, kæru lands­menn, með nýja óperu! Megi starf­semi henn­ar vaxa og dafna okk­ur öll­um til heilla.”