Categories
Fréttir Greinar

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Deila grein

27/03/2025

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Ein helsta frétt síðustu viku á Íslandi var sú að frjó­semi hef­ur aldrei verið lægri frá upp­hafi mæl­inga árið 1853. Yf­ir­leitt er miðað við að frjó­semi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mann­fjölda til lengri tíma litið. Árið 2024 var frjó­semi kvenna bú­settra á Íslandi kom­in niður í 1,56.

Svipaða þróun má sjá víða á Norður­lönd­um. Árið 2023 var fjöldi lif­andi fæddra barna á hverja konu rúm­lega 1,4 í Svíþjóð, Nor­egi og Dan­mörku, en í Finn­landi fór tal­an niður í 1,26. Enn verri er staðan í Suður-Kór­eu, þar sem frjó­semi mæld­ist 0,75 – þó með ör­lít­illi hækk­un árið 2024.

Lækk­andi fæðing­artíðni er mikið áhyggju­efni og veld­ur marg­vís­leg­um áskor­un­um fyr­ir sam­fé­lagið. Færri eru á vinnu­markaðnum og það dreg­ur úr hag­vexti og ný­sköp­un. Að sama skapi eykst hlut­fall eldri borg­ara, sem býr til þrýst­ing á vel­ferðar­kerfið. Inn­lend eft­ir­spurn minnk­ar, sér­stak­lega í þjón­ustu­geir­an­um og á fast­eigna­markaði. Staðan er sú að ef ekki tekst að mæta þess­ari þróun, þá get­ur skap­ast nei­kvæð hringrás sem leiðir til lak­ari lífs­gæða.

Ísland hef­ur lengi haft stefnu sem styður við barneign­ir, t.d. með öfl­ugu leik­skóla­kerfi, fæðing­ar­or­lofi fyr­ir báða for­eldra og barna­bót­um. En sam­kvæmt nýj­ustu lýðfræðigögn­um duga þessi úrræði ekki leng­ur til. Leik­skóla­kerfið ræður ekki leng­ur við eft­ir­spurn­ina og önn­ur úrræði hafa dreg­ist sam­an. Þetta er al­var­legt og brýnt er að finna nýj­ar leiðir til að bregðast við.

Í áhuga­verðum grein­ing­um mann­fjölda­fræðings­ins Lym­ans Stones kem­ur fram að hús­næðismál skipta sköp­um þegar kem­ur að lækk­andi fæðing­artíðni í Banda­ríkj­un­um. Hús­næði veit­ir ákveðinn stöðug­leika og er oft for­senda fjöl­skyldu­mynd­un­ar. Ef ungt fólk á erfitt með að kom­ast inn á hús­næðismarkað – eða ef láns­kjör eru óhag­stæð – minnka lík­urn­ar á því að fólk stofni fjöl­skyld­ur. Þetta á ekki síður við hér á Íslandi.

Eitt mik­il­væg­asta verk­efni okk­ar til framtíðar er að stíga ákveðnari skref í að gera Ísland að fjöl­skyldu­vænu sam­fé­lagi. Stjórn­völd og at­vinnu­líf þurfa að vinna sam­an að því mark­miði, því framtíð lífs­kjara þjóðar­inn­ar er í húfi.

Svarið við spurn­ing­unni hér að ofan er ein­falt: Já!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sýnum yfirvegun

Deila grein

20/03/2025

Sýnum yfirvegun

Sjálf­stæði, sterk staða Íslands í alþjóðakerf­inu og mik­il verðmæta­sköp­un hafa frá stofn­un lýðveld­is­ins tryggt þjóðinni góð lífs­kjör. Mik­il­vægt skref var stigið árið 1949 þegar Ísland gerðist stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Þar sem Ísland er herlaust ríki og gat ekki varið sig sjálft, leiddi aðild­in meðal ann­ars til varn­ar­samn­ings Íslands og Banda­ríkj­anna árið 1951.

Á þeim tíma var varn­ar­leysi lands­ins talið ógna ekki aðeins ör­yggi þess sjálfs held­ur einnig friði og stöðug­leika í ná­granna­ríkj­um, eins og fram kem­ur í samn­ingn­um. Með festu og fram­sýni tryggðu ís­lensk stjórn­völd að hér á landi væri aðstaða til að sinna vörn­um og þannig varðveita frið og ör­yggi á svæðinu. Í ljósi þeirr­ar óvissu sem rík­ir í alþjóðamál­um þessi dægrin hafa ýms­ir haldið því fram að flýta eigi þjóðar­at­kvæðagreiðslu um að end­ur­vekja aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Sum­ir telja að Ísland þurfi á aðild að halda til að tryggja varn­ir sín­ar.

Þessi rök stand­ast ekki og eru vara­söm. Ég minni á að ESB-rík­in, Finn­land og Svíþjóð, gerðust ný­verið aðilar að Atlants­hafs­banda­lag­inu vegna þess að þau töldu varn­ir Evr­ópu­sam­bands­ins ófull­nægj­andi. Þeir sem vilja Ísland inn í Evr­ópu­sam­bandið telja að slík aðild sé nauðsyn­leg vegna stefnu Banda­ríkj­anna, en með því eru þeir reiðubún­ir að fórna sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og yf­ir­ráðum henn­ar yfir eig­in auðlind­um. Ég vara ein­dregið við þess­ari nálg­un. Óvissa í alþjóðakerf­inu er vissu­lega óþægi­leg og krefst þess að stjórn­völd leggi mikið á sig til að tryggja stöðu þjóðar­inn­ar. Hins veg­ar er ekki ástæða til þess að gera rót­tæk­ar breyt­ing­ar á ut­an­rík­is­stefnu Íslands. Þessi ákvörðun, ef til henn­ar kæmi, yrði sú stærsta sem Íslend­ing­ar hafa tekið í ut­an­rík­is­mál­um frá lýðveld­is­stofn­un.

Slíkt skref ber að stíga af yf­ir­veg­un og með heild­ar­hags­muna­mat að baki, ekki í fljót­færni vegna von­andi tíma­bund­inn­ar óvissu í alþjóðastjórn­mál­um. Þeir sem vilja hraða at­kvæðagreiðslu án nauðsyn­legr­ar umræðu og grein­ing­ar virða ekki lýðræðis­legt fyr­ir­komu­lag, spor­in hræða svo sann­ar­lega. Evr­ópu­sam­bands­sinn­ar eru hér að nýta sér óvissu vegna Trump-stjórn­ar­inn­ar, en við eig­um hvorki að láta Banda­rík­in né Evr­ópu stýra stefnu Íslands.

Hags­mun­ir Íslands eiga að vera í for­gangi. Rök­semd­ir Evr­ópu­sam­bands­sinna byggj­ast því miður á því að ala á ótta og óör­yggi. Slík nálg­un hef­ur aldrei skilað góðum ár­angri þegar mikl­ir þjóðar­hags­mun­ir eru í húfi, sér­stak­lega varðandi yf­ir­ráð yfir auðlind­um Íslands. Ísland hef­ur átt far­sælt sam­starf við Banda­rík­in allt frá stofn­un lýðveld­is­ins, auk þess sem frjáls viðskipti okk­ar inn­an EES-samn­ings­ins hafa skilað mik­illi verðmæta­sköp­un og góðum lífs­kjör­um. Það er skyn­sam­leg­asta leiðin áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tollastríð er tap allra

Deila grein

13/03/2025

Tollastríð er tap allra

Eft­ir hag­stjórn­ar­villu mill­i­stríðsár­anna var lagt upp með að eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina grund­vallaðist alþjóðaviðskipta­kerfið á frjáls­um viðskipt­um. Rík­ur vilji var fyr­ir því að gera þjóðir háðari hver ann­arri, þar sem það minnkaði lík­urn­ar á átök­um og stríðum. Kenn­ing­ar breska hag­fræðings­ins Dav­id Ricar­do um frjáls viðskipti hafa verið leiðarljós í þess­ari heims­skip­an. Helstu rök­in fyr­ir frjáls­um viðskipt­um eru að þau stuðla að auk­inni fram­leiðni ríkja, lækka vöru­verð, auka fram­boð af vör­um og skila meiri hag­vexti fyr­ir þau ríki sem taka þátt í þeim. Hag­vöxt­ur á heimsvísu tók ekki að aukast að ráði fyrr en eft­ir seinni heims­styrj­öld, sér­stak­lega á tíma­bil­inu 1945-1973, sem hef­ur verið kallað „gull­öld markaðshag­kerf­is­ins“. Meðal þeirra þátta sem stuðluðu að þess­um hag­vexti voru stöðug­leik­inn sem skapaðist með Brett­on-Woods kerf­inu, end­ur­reisn efna­hags­lífs­ins eft­ir stríð og af­nám hafta­bú­skap­ar og lækk­un tolla. Í kjöl­farið hef­ur vel­sæld og hag­vöxt­ur auk­ist veru­lega með opn­un viðskipta við ríki á borð við Kína og Ind­land.

En skjótt skip­ast veður í lofti. Nú er hafið tolla­stríð. For­seti Banda­ríkj­anna hef­ur hrint í fram­kvæmd efna­hags­stefnu sinni, sem geng­ur út á að Banda­rík­in end­ur­heimti auð sem þau telja sig eiga um all­an heim, meðal ann­ars með því að setja tolla á helstu viðskipta­ríki sín og jafn­vel nán­ustu banda­menn! Með þessu ætl­ar hann sér að leiðrétta viðvar­andi viðskipta­halla Banda­ríkj­anna og nota fjár­magnið til að lækka skuld­ir. Af­leiðing­arn­ar eru vel þekkt­ar í hag­fræðinni og má lýsa sem „tapi allra“. Í fyrsta lagi verður óvissa og órói á fjár­mála­mörkuðum. Stefn­an skap­ar mikla óvissu, sem veld­ur óstöðug­leika á öll­um fjár­mála­mörkuðum og hluta­bréfa­verð í Banda­ríkj­un­um féll um tæp 3% á mánu­dag. Í öðru lagi hækk­ar verðlag og verðbólga eykst. Öll ríki hafa þegar átt í bar­áttu við verðbólgu eft­ir covid og hætta er á að þessi stefna ýti und­ir frek­ari verðhækk­un. Í þriðja lagi minnka alþjóðaviðskipti og hag­vöxt­ur. Þetta er sér­stak­lega slæmt núna, þar sem mörg ríki eru skuld­sett eft­ir gríðarleg út­gjöld á covid-tíma­bil­inu og þurfa hag­vöxt til að draga úr fjár­mögn­un­ar­kostnaði. Í fjórða lagi minnka gjald­eyris­tekj­ur og gjald­miðlar veikj­ast. Að lok­um tap­ast traust og sam­skipti ríkja versna.

Fyr­ir lítið og opið hag­kerfi eins og Ísland er þessi þróun afar nei­kvæð. Mik­il­væg­ustu viðbrögð ís­lenskra stjórn­valda ættu nú að vera að vinna í nánu sam­starfi við at­vinnu­lífið til að tryggja að ís­lensk­ir markaðir hald­ist opn­ir og verði ekki fyr­ir þess­um nýju álög­um. Vel­meg­un Íslands er ná­tengd alþjóðaviðskipt­um og út­flutn­ings­tekj­um þjóðarbús­ins. Við verðum öll að standa vörð um hags­muni Íslands í þessu nýja og krefj­andi viðskiptaum­hverfi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hugum að sameiginlegum gildum

Deila grein

06/03/2025

Hugum að sameiginlegum gildum

Alþjóðamál hafa ekki verið jafn þýðing­ar­mik­il í ára­tugi. Það er brýnt að tryggja hags­muni Íslands með skyn­sam­legri og mark­vissri stefnu. Í sí­breyti­legu alþjóðlegu um­hverfi, þar sem efna­hags­leg, póli­tísk og ör­yggis­tengd mál þró­ast hratt, skipt­ir sköp­um að ís­lensk stjórn­völd og fyr­ir­tæki séu vel und­ir­bú­in til að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir. Staða Íslands á alþjóðavett­vangi er sterk vegna þess að stjórn­völd frá lýðveld­is­stofn­un hafa valið far­sæla veg­ferð. Til að mynda var Ísland stofnaðili að Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum, Alþjóðabank­an­um, Atlants­hafs­banda­lag­inu og Norður­landaráði. Seinna meir var ákveðið að ger­ast stofnaðili að Efna­hags- og fram­fara­stof­un­inni og Evr­ópska efna­hags­svæðinu. Þátt­taka Íslands hef­ur reynst vera giftu­rík og það er afar mik­il­vægt fyr­ir lítið opið hag­kerfi að vera virk­ur þátt­tak­andi á alþjóðavett­vangi. Það rík­ir í dag nokkuð góð sátt um þátt­töku í of­an­greind­um alþjóðastofn­un­um. Mest­ur styr stóð um aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu og seinna meir svo gerð tví­hliða varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in árið 1951. Þegar ákv­arðanir voru tekn­ar á sín­um tíma, þá vildu stjórn­völd vera í banda­lagi með lýðræðisþjóðum og þeim sem deildu sams­kon­ar heims­sýn. Þessi saga þjóðar­inn­ar á upp­hafs­ár­um lýðveld­is­ins eld­ist vel.

Ýmsir meta stöðuna í heims­mál­um á þann veg að brýnt sé að flýta skoðun á kost­um og göll­um þess að Ísland ger­ist aðili að Evr­ópu­sam­band­inu og að þjóðar­at­kvæðagreiðsla um fram­hald viðræðna fari fram sem allra fyrst. Þetta séu hrein­lega þjóðar­hags­mun­ir! Mér finnst afar brýnt að öll stærri hags­muna­mál Íslands fari í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Var­ast skal þó að flýta þessu máli, áður en heild­ar­hags­muna­mat hef­ur verið gert. Skömmu eft­ir efna­hags­hrunið ákvað rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, þegar Ísland og öll þjóðin var í mikl­um sár­um. Ekki var hugað að því, því nota átti ferðina til að koma land­inu í Evr­ópu­sam­bandið. Öll sú veg­ferð var mis­lukkuð, þar sem þjóðin var ekki spurð og ekki ríkti ein­ing um málið í rík­is­stjórn­inni. Allt eitt bjölluat. Ég vara ein­dregið við því að hefja nýja ESB-veg­ferð, þegar mik­il óvissa rík­ir í alþjóðastjórn­mál­um. Íslandi hef­ur farn­ast vel að velja trausta banda­menn og ég hef fulla trú á því að svo verði áfram, ef við höf­um þjóðar­hags­muni að leiðarljósi. Evr­ópu­sam­bandið er ekki varn­ar­banda­lag og hef­ur ekki sam­eig­in­leg­an her. Fram­kvæmda­stjóri banda­lags­ins hef­ur vissu­lega til­kynnt um stór­auk­in fram­lög til ör­ygg­is- og varn­ar­mála vegna þeirr­ar stöðu sem uppi er í Evr­ópu. Hins veg­ar rík­ir enn mik­il óvissa og við verðum að sjá hvernig mál­in þró­ast. Að þessu sögðu er afar mik­il­vægt að móta þver­póli­tíska ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu. Þeirri vinnu ber að flýta og einnig meta hin þjóðhags­legu áhrif af breyttri stöðu. „Veg þú aldrei meir í hinn sama knérunn en um sinn, og rjúf aldrei sætt þá er góðir menn gera meðal þín og annarra og þó síst á því máli.“ Þetta voru ráð Njáls til Gunn­ars á Hlíðar­enda um mik­il­vægi þess að rjúfa ekki traust og trúnað við ætt Ot­kels. Auðvitað eru breytt­ir tím­ar í dag á Íslandi en það sem er sam­eig­in­legt er að það ber ekki að efna til ófriðar um Evr­ópu­mál­in á þess­um óvissu­tím­um. Mik­il­væg­ast fyr­ir stjórn­mál líðandi stund­ar er að for­gangsraða rétt í þágu þjóðar­inn­ar og að breið sátt ná­ist um þá stefnu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Efnahagsleg staða Íslands er sterk

Deila grein

28/02/2025

Efnahagsleg staða Íslands er sterk

Rík­is­stjórn Íslands hef­ur í hyggju að efna til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að hefja að nýju aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Fram kem­ur reynd­ar í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­flokk­anna að at­kvæðagreiðslan snú­ist um fram­hald viðræðna við ESB. Ég á erfitt með að sjá að þetta sé fram­hald, þar sem hvert og eitt ríki Evr­ópu­sam­bands­ins verður að samþykkja aft­ur að aðild­ar­viðræður hefj­ist að nýju. Þannig að erfitt er að halda því fram að þetta sé beint fram­hald enda er hag­kerfi Íslands búið að breyt­ast mikið frá því að rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur sett­ist við samn­inga­borðið árið 2009. Fernt í hag­kerf­inu okk­ar hef­ur tekið mikl­um um­skipt­um til batnaðar síðasta ára­tug eða svo: Lands­fram­leiðsla á mann, hag­vöxt­ur, staða krón­unn­ar og skuld­ir þjóðarbús­ins.

Ragn­ar Árna­son, pró­fess­or emer­it­us í hag­fræði við Há­skóla Íslands, varpaði ljósi á þessa stöðu nú á dög­un­um og staðfest­ir þær hag­töl­ur sem liggja fyr­ir og hafa gert í nokk­urn tíma. Í fyrsta lagi er lands­fram­leiðsla á mann í aðild­ar­ríkj­um ESB mun lægri en á Íslandi og hef­ur verið í nokk­urn tíma. Bilið á lands­fram­leiðslu á mann á Íslandi ann­ars veg­ar og evru­ríkj­um hins veg­ar hef­ur auk­ist stöðugt frá því að evr­an var tek­in upp um alda­mót­in. Árið 2023 var lands­fram­leiðsla á mann á Íslandi 19% meiri en á evru­svæðinu og 24% meiri en hjá ESB. Í öðru lagi hef­ur hag­vöxt­ur á Íslandi verið meiri á ár­un­um 2000-2023 eða um 1,5% meðan vöxt­ur­inn á evru­svæðinu er 0,9%. Hér er um­tals­verður mun­ur á og skipt­ir öllu máli þegar horft er til framtíðar. Í þriðja lagi hef­ur krón­an verið að styrkj­ast frá 2010-2024 miðað við SDR-mæli­kv­arðann en evr­an hef­ur veikst. Það ber hins veg­ar að hafa í huga að krón­an er ör­mynt og get­ur hæg­lega sveifl­ast ef hag­stjórn­in er ekki í föst­um skorðum og veg­ur út­flutn­ings­greina þjóðarbús­ins sterk­ur. Að lok­um, þá hef­ur skuld­astaða Íslands verið að styrkj­ast og nema heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs um 40% af lands­fram­leiðslu. Þetta sama hlut­fall hjá Frakklandi er 110% og hjá Þýskalandi 63%.

Sök­um þess að Íslandi hef­ur vegnað vel í efna­hags­mál­um mun það einnig þýða að Ísland þurfi að greiða meira til sjóða Evr­ópu­sam­bands­ins en þegar síðast var sótt um. Pró­fess­or Ragn­ar Árna­son hef­ur reiknað út að þetta geti numið á bil­inu 35-50 millj­örðum eða um 100 þúsund krón­um á hvern lands­mann. Rík­is­stjórn Gro Har­lem Brund­t­land sótti um aðild að ESB árið 1992 og svo höfnuðu Norðmenn því að ganga inn í ESB árið 1994. Ein megin­á­stæða þess var ná­kvæm­lega þessi, að kostnaður við ESB-þátt­töku væri þjóðarbú­inu mun meiri en ávinn­ing­ur­inn.

Rík­is­stjórn­in hef­ur boðað að í upp­hafi kjör­tíma­bils­ins verði óháðum er­lend­um sér­fræðing­um falið að vinna skýrslu um kosti og galla krón­unn­ar og val­kosti Íslands í gjald­miðlamál­um. Ég hvet rík­is­stjórn­ina til að vanda veru­lega til þess­ar­ar vinnu, opna fyr­ir þátt­töku inn­lendra aðila og meta einnig efna­hags­leg­an ávinn­ing Íslands í heild sinni og út frá lyk­il­mæli­kvörðum hag­kerf­is­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Friður felst í því að efla varnir

Deila grein

20/02/2025

Friður felst í því að efla varnir

Þess er minnst um heim all­an að 80 ár eru síðan seinni heims­styrj­öld­inni lauk en hún fól í sér mestu mann­fórn­ir í ver­ald­ar­sög­unni. Víða hef­ur verið háð stríð eft­ir seinni heims­styrj­öld­ina en ekk­ert í lík­ind­um við hana. Öll vit­um við að friður er far­sæl­ast­ur og býr til mesta vel­meg­un í sam­fé­lagi manna.

Mikið upp­nám hef­ur ríkt í alþjóðastjórn­mál­un­um eft­ir ör­ygg­is­ráðstefn­una í München um síðustu helgi. Ýmsir hafa haft á orði að heims­mynd­in sé gjör­breytt vegna hvatn­ing­ar stjórn­ar Banda­ríkj­anna um að Evr­ópa taki á sig aukn­ar byrðar í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. En á þessi afstaða Banda­ríkj­anna að koma á óvart?

Skila­boðin hafa alltaf verið skýr um að Evr­ópa þyrfti að koma frek­ar að upp­bygg­ingu í eig­in ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Í kjöl­far stór­felldr­ar inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu fyr­ir þrem­ur árum hef­ur Evr­ópu ekki tek­ist að styrkja varn­ir sín­ar í takt við um­fang árás­ar Rúss­lands, að und­an­skild­um ríkj­um á borð við Pól­land og Eystra­salts­rík­in. Evr­ópa hef­ur held­ur ekki náð að styðja við Úkraínu í þeim mæli sem þurfti til að stöðva Rúss­land. Í merki­legu viðtali sem tekið var við Jens Stolten­berg við brott­hvarf hans úr stóli fram­kvæmda­stjóra Atlants­hafs­banda­lags­ins lagði hann ríka áherslu á mik­il­vægi þess að ríki í Evr­ópu myndu styrkja og auka sam­starf í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um ásamt því að staða Atlants­hafs­banda­lags­ins yrði styrkt.

Fyr­ir Ísland er mik­il­vægt að vera með sterka banda­menn beggja vegna Atlantsála. Varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in hef­ur auk­ist und­an­far­in miss­eri. Ísland hef­ur tryggt nauðsyn­lega varn­araðstöðu og -búnað fyr­ir loft­rýmis­eft­ir­lit og aðrar NATO-aðgerðir. Banda­rík­in hafa tekið þátt í loft­rým­is­gæslu og stutt við varn­ir Íslands. Báðar þjóðir hafa einnig aukið upp­lýs­ingaflæði, sam­ráð og sam­eig­in­leg­ar æf­ing­ar, m.a. í neyðaraðstoð og tölvu­ör­yggi. Meg­in­mark­miðið hef­ur verið að efla tví­hliða varn­ar­sam­starf og tryggja ör­yggi á Norður-Atlants­hafi.

Ísland er ekki und­an­skilið í þeim efn­um að veita auk­inn stuðning til ör­ygg­is- og varn­ar­mála. Það er brýnt að við sinn­um okk­ar hlut­verki til þess að sinna og efla varn­ir lands­ins inn­an þeirr­ar getu sem er fyr­ir hendi. Við höf­um átt í far­sælu sam­starfi og sam­vinnu við helstu banda­lagsþjóðir okk­ar og mik­il­vægt er að fram­hald verði á því til að styðja við sjálf­stæði þjóðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Saga Íslands og Grænlands samofin

Deila grein

13/02/2025

Saga Íslands og Grænlands samofin

Áhugi á Græn­landi hef­ur stór­auk­ist eft­ir að for­seti Banda­ríkj­anna lýsti yfir vilja sín­um til að eign­ast landið. Mik­il­vægi Græn­lands hef­ur auk­ist veru­lega í breyttri heims­mynd. Auðlind­ir Græn­lands eru afar mikl­ar á sviði málma og steinefna, olíu og gass, vatns, orku, fisk­veiða og ferðaþjón­ustu. Vegna lofts­lags­breyt­inga aukast lík­urn­ar á því að hægt sé að nýta auðlind­ir Græn­lands í meira mæli en síðustu ár­hundruðin.

Sam­skipti og saga Íslands og Græn­lands er stór­merki­leg og er vel skrá­sett í tengsl­um við land­nám og sigl­ing­ar milli Íslands, Nor­egs og Norður-Am­er­íku.

Nefna má í þessu sam­hengi; Ei­ríks sögu rauða, Græn­lend­inga­sögu, forn­manna­sög­ur og fleiri rit eins og Flat­eyj­ar­bók.

Í þess­um rit­um má finna at­vinnu­sögu ríkj­anna og hvernig sigl­ing­ar skipuðu veiga­mik­inn sess í viðskipt­um og vel­sæld þeirra.

Sög­un­ar gefa ein­staka inn­sýn í fyrstu skrá­settu viðskipta­sam­skipti Evr­ópu­búa við frum­byggja Norður-Am­er­íku og hver ávinn­ing­ur og áhætt­an voru í þess­um efn­um.

Saga ríkj­anna er samof­in frá land­náms­öld fram á 15. öld, en síðustu ritaðar heim­ild­ir um nor­rænt sam­fé­lag á Græn­landi eru frá ár­inu 1408, þegar ís­lensk hjóna­vígsla átti sér stað í Hvals­eyj­ar­kirkju í Eystri­byggð.

Ein stærsta ráðgáta sögu norður­slóða er hvarf þess­ar­ar byggðar nor­ræns fólks af Græn­landi. Ýmsar til­gát­ur hafa verið nefnd­ar og eru þess­ari sögu, til dæm­is, gerð góð skil í bók­inni: „Hrun sam­fé­laga – hvers vegna lifa sum meðan önn­ur deyja“ eft­ir Jared Diamond pró­fess­or.

Megin­á­stæðurn­ar fyr­ir þess­ari þróun á Græn­landi eru lofts­lags­breyt­ing­ar, það er að kóln­andi lofts­lag hafi gert all­an land­búnað erfiðari.

Dregið hafi úr sigl­ing­um vegna minna fram­boðs af rekaviði og öðrum efniviði í skipa­gerð og því hafi sam­göng­ur minnkað veru­lega.

Einnig er nefnt að eft­ir­spurn eft­ir einni aðal­út­flutn­ingsaf­urð Græn­lands, rost­ung­stönn­um, hafi hrunið vegna auk­inn­ar sam­keppni frá fíla­bein­stönn­um í Afr­íku og Asíu ásamt því að svarti­dauðinn hafi leitt til mik­ill­ar fólks­fækk­un­ar á Norður­lönd­um, sem hafi minnkað Græn­landsviðskipt­in veru­lega.

Græn­land er í brenni­depli alþjóðastjórn­mál­anna vegna vax­andi tæki­færa til frek­ari auðlinda­nýt­ing­ar og land­fræðilegr­ar legu, ekki ósvipuð staða og var fyr­ir um 1000 árum.

Lyk­il­atriði fyr­ir Ísland er að tryggja greið alþjóðaviðskipti og far­sæl sam­skipti við okk­ar helstu banda­menn, þar sem lýðræði er helsta grunn­gildi þjóðar­inn­ar.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fimm Grammy-verðlaun á fimm árum

Deila grein

06/02/2025

Fimm Grammy-verðlaun á fimm árum

Íslensku menn­ing­ar­lífi hlotnaðist enn einn heiður­inn á alþjóðavísu í vik­unni þegar Vík­ing­ur Heiðar Ólafs­son pí­anó­leik­ari vann hin virtu Grammy-tón­list­ar­verðlaun í flokki klass­ískra ein­leiks­hljóðfæra­leik­ara fyr­ir flutn­ing sinn á Gold­berg-til­brigðum Johanns Sebastians Bachs.

Það fylg­ir því mik­il upp­hefð að vera til­nefnd­ur til Grammy-tón­list­ar­verðlaun­anna en verðlaun­in eru af mörg­um tal­in þau eft­ir­sótt­ustu í tón­list­ar­heim­in­um. Árang­ur Íslend­inga á und­an­förn­um fimm árum er stór­kost­leg­ur, en með verðlaun­um Vík­ings Heiðars hafa ís­lensk­ir lista­menn hlotið yfir 11 Grammy-til­nefn­ing­ar, og unnið fimm sinn­um; Hild­ur Guðna­dótt­ir fyr­ir tónlist í þátt­un­um Cherno­byl og kvik­mynd­inni Jókern­um, Dísella Lár­us­dótt­ir fyr­ir bestu óperu­upp­tök­una í verk­inu Ak­hna­ten, Lauf­ey Lín Jóns­dótt­ir fyr­ir plötu sína Bewitched í flokki hefðbund­inn­ar popp­tón­list­ar og nú síðast Vík­ing­ur Heiðar. Í heild hafa átta Íslend­ing­ar unnið til níu verðlauna en þeir Stein­ar Hösk­ulds­son, Gunn­ar Guðbjörns­son, Sig­ur­björn Bern­h­arðsson og Krist­inn Sig­munds­son hafa einnig unnið til verðlaun­anna.

Allt eru þetta lista­menn sem hafa skarað fram úr á sínu sviði svo að um­heim­ur­inn hef­ur tekið eft­ir. Á und­an­förn­um árum var ég reglu­lega spurð að því af er­lendu fólki hvaða krafta­verk væru unn­in hjá okk­ar tæp­legu 400.000 manna þjóð í þess­um efn­um. Að mín­um dómi er þetta hins veg­ar eng­in til­vilj­un. Að baki þess­um glæsi­lega ár­angri ligg­ur þrot­laus vinna og metnaður tón­list­ar­mann­anna sjálfra ásamt því að hér á landi hef­ur ríkt ein­dreg­inn vilji til þess að styðja við menn­ingu og list­ir, til dæm­is með framúrsk­ar­andi tón­list­ar­kenn­ur­um sem leggja sig alla fram við að miðla þekk­ingu sinni og reynslu í kennslu­stof­um lands­ins, ásamt því að tryggja aðgang fólks að tón­list­ar­námi.

Sú alþjóðlega braut heims­frægðar sem Björk ruddi hef­ur breikkað mjög með vax­andi efniviði og ár­angri ís­lenskra tón­list­ar­manna. Þannig hafa til að mynda hljóm­sveit­ir eins og Of Mon­sters and Men, KAL­EO og all­ir Grammy-verðlauna­haf­arn­ir okk­ar tekið þátt í að auka þenn­an hróður lands­ins með sköp­un sinni og af­rek­um. Þessi ár­ang­ur er einnig áminn­ing um að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hef­ur verið af hálfu hins op­in­bera við að fjár­festa í menn­ingu og list­um á und­an­förn­um árum á grund­velli vandaðrar stefnu­mót­un­ar sem birt­ist okk­ur meðal ann­ars í tón­list­ar­stefnu til árs­ins 2030. Með henni hafa verið stig­in stór skref í að styrkja um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins í land­inu, til að mynda með fyrstu heild­ar­lög­un­um um tónlist, nýrri tón­list­armiðstöð og nýj­um og stærri tón­list­ar­sjóði. Ég er mjög stolt af þess­um skref­um sem munu skila sér í enn meiri stuðningi við tón­listar­fólkið okk­ar.

Ég vil óska Vík­ingi Heiðari og fjöl­skyldu hans inni­lega til ham­ingju með verðlaun­in. Þau eru hvatn­ing til yngri kyn­slóða og enn ein rós­in í hnappagat ís­lenskr­ar menn­ing­ar á alþjóðavísu. Fyr­ir það ber að þakka.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Raunsæis þörf í öryggismálum

Deila grein

30/01/2025

Raunsæis þörf í öryggismálum

Alþjóðamál­in hafa ekki verið jafn þýðing­ar­mik­il í ár­araðir og það reyn­ir á rík­is­stjórn Íslands að tryggja hags­muni lands­ins. Það eru viðsjár­verðir tím­ar. Enn sér ekki fyr­ir end­ann á hrika­legu stríði í Úkraínu. Norður­skautið er komið í hringiðu alþjóðaum­ræðunn­ar vegna áhuga Banda­ríkja­for­seta á að styrkja stöðu sína á Græn­landi. For­sæt­is­ráðherr­ar Norður­land­anna funduðu vegna stöðunn­ar og danski for­sæt­is­ráðherr­ann er far­inn í ferðalag um Evr­ópu til að tryggja stuðning við þeirra málstað. Í mín­um huga snýst málið um vilja Græn­lend­inga og sjálf­stæði þeirra til framtíðar, sem og virðingu fyr­ir alþjóðalög­um. Land­fræðileg staða Íslands og Græn­lands er mik­il­væg sem fyrr og gott að rifja upp margtil­vitnuð orð fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, Winst­ons Churchills: „Hver sá sem hef­ur yf­ir­ráð yfir Íslandi held­ur á byssu miðaðri á Eng­land, Am­er­íku og Kan­ada,‘‘ sagði hann um hernaðarlegt mik­il­vægi Íslands í seinni heims­styrj­öld­inni. Æ síðan hef­ur lega Íslands skipað grund­vall­arsess í varn­ar­mál­um vest­rænna ríkja.

Frelsi og ör­yggi er grund­vall­arþátt­ur í vel­ferð okk­ar. Það var því fram­sýni þegar ís­lensk stjórn­völd ákváðu að Ísland yrði stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu. Þar sem herlaus þjóð gat ekki varið sig fór banda­lagið þess á leit við Ísland og Banda­rík­in að þjóðirn­ar gerðu ráðstaf­an­ir sín á milli með varn­ar­samn­ingn­um árið 1951. Á þeim tíma var varn­ar­leysi lands­ins talið stofna ör­yggi þess sjálfs og friðsamra ná­granna þess í voða eins og það er orðað í samn­ing­um. Staðfesta stjórn­valda þá tryggði aðstöðu hér á landi til að sinna vörn­um og varðveita þannig frið og ör­yggi á svæðinu.

Það er því afar brýnt að haldið sé vel utan um stöðu Íslands og tryggt áfram­hald­andi vest­rænt sam­starf. Lega Íslands hef­ur í för með sér að tryggja verður áfram­hald­andi sam­starf við Banda­rík­in í sam­ræmi við sögu­leg­an varn­ar­samn­ing, ásamt því að rækta sam­starfið við hinar Norður­landaþjóðirn­ar og sam­starfið inn­an Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins. Okk­ar vel­gengni grund­vall­ast á þess­um styrku stoðum í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Ýmsir hafa fært rök fyr­ir því að nauðsyn­legt sé að ganga í Evr­ópu­sam­bandið til að tryggja varn­ir lands­ins en það á ekki við. Ég minni á að Finn­land og Svíþjóð gerðust aðilar að NATO, ein­mitt vegna þess að þau töldu að varn­ir ESB dygðu ekki til. Evr­ópu­sam­bands­sinn­ar á Íslandi telja að best sé fyr­ir landið okk­ar að ganga í ESB út af stefnu Trumps og eru þar með til­bún­ir til að fórna sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og eign­ar­haldi á auðlind­um okk­ar. Ég geld var­hug við þess­ari nálg­un, því ber­in eru súr. Ísland hef­ur átt í far­sælu sam­starfi við Banda­rík­in allt frá lýðveld­is­stofn­un ásamt því að stunda frjáls viðskipti inn­an EES. Þessi leið hef­ur skilað mik­illi verðmæta­sköp­un og góðum lífs­kjör­um. Það er afar brýnt að rík­is­stjórn­in vandi sig og mæti til leiks.

Reglu­lega verða at­b­urðir sem und­ir­strika mik­il­vægi þess að huga vel að varn­ar­mál­um. Þá vakt þurf­um við ávallt að standa og taka virk­an þátt með vinaþjóðum okk­ar í að standa vörð um þá sam­fé­lags­gerð sem við þekkj­um. Þrátt fyr­ir að Ísland sé lítið skipt­ir fram­lag okk­ar miklu máli í þessu sam­hengi – rétt eins og Winst­on Churchill benti rétti­lega á.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Deila grein

23/01/2025

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Við lif­um á einkar áhuga­verðum tím­um í alþjóðamál­um. Valda­skipti í Bretlandi og Banda­ríkj­un­um, yf­ir­vof­andi kosn­ing­ar í Þýskalandi, þrengri efna­hags­staða Evr­ópu­sam­bands­ins, áfram­hald­andi stríðsátök í Úkraínu og stór­merki­leg­ar vend­ing­ar í Mið-Aust­ur­lönd­um skapa flókið og sí­breyti­legt lands­lag í alþjóðamál­un­um. Þjóðríki og ríkja­sam­tök und­ir­búa sig fyr­ir harðnandi sam­keppni í alþjóðaviðskipt­um, þar sem tolla- og viðskipta­hindr­an­ir kunna að setja svip sinn á þró­un­ina. Á sama tíma eiga mörg ríki enn í vök að verj­ast eft­ir áföll­in sem covid-19-heims­far­ald­ur­inn olli í efna­hags­lífi þeirra, og hef­ur það haft af­ger­andi áhrif á rík­is­fjár­mál víða um heim.

Ísland kom hins veg­ar vel út úr þess­um áskor­un­um og hef­ur sýnt mikla seiglu í efna­hags­stjórn sinni. Lær­dóm­ur­inn af hag­stjórn lýðveld­is­ár­anna hef­ur sannað sig enn á ný: nauðsyn­legt er að rík­is­sjóður sé ávallt vel und­ir­bú­inn til að mæta efna­hags­leg­um áföll­um, bæði innri og ytri. Þannig nema nú nettóskuld­ir rík­is­ins um 30% af vergri lands­fram­leiðslu (VLF), sem er afar hag­stæð staða í sam­an­b­urði við önn­ur ríki. Til sam­an­b­urðar nema skuld­ir ríkja á evru­svæðinu um 90% af VLF og í Bretlandi um 100%, þar sem leit­in að sjálf­bær­um hag­vexti er áfram helsta áskor­un­in.

Eitt af brýn­ustu verk­efn­um op­in­berra fjár­mála hér á landi er að halda áfram á þeirri braut sem síðasta rík­is­stjórn lagði, með það að mark­miði að draga úr fjár­magns­kostnaði rík­is­sjóðs. Tryggja þarf að láns­kjör rík­is­ins end­ur­spegli hina sterku stöðu lands­ins á alþjóðavísu. Þessi ár­ang­ur hef­ur þegar skilað sér í hækk­un láns­hæf­is­mats ís­lenska rík­is­ins á síðasta ári, sem er vitn­is­b­urður um sterka und­ir­liggj­andi stöðu hag­kerf­is­ins.

Á hinn bóg­inn standa mörg lönd frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um. Í Bretlandi er hag­vöxt­ur hæg­ur á sama tíma og skuld­ir aukast. Alþjóðleg­ir fjár­fest­ar, eins og Ray Dalio, stofn­andi fjár­fest­inga­sjóðsins Bridgewater, hafa lýst yfir áhyggj­um af stöðu breskra rík­is­fjár­mála og bent á að landið gæti lent í nei­kvæðum skulda­spíral. Slík þróun gæti þýtt sí­vax­andi láns­fjárþörf til að standa straum af vöxt­um. Dalio bend­ir á hækk­andi ávöxt­un á 30 ára rík­is­skulda­bréf­um og veikt pund sem merki um aukna erfiðleika í rík­is­fjár­mál­um Bret­lands. Við þetta bæt­ist að fjár­laga­hall­inn þar nem­ur rúm­um 4% af lands­fram­leiðslu, sem dreg­ur úr fjár­hags­legu svig­rúmi stjórn­valda.

Á þess­um tíma­mót­um skipt­ir höfuðmáli að ís­lensk stjórn­völd taki skyn­sam­leg­ar og fram­sýn­ar ákv­arðanir í rík­is­fjár­mál­um. Mik­il­vægt er að viðhalda þeim góða ár­angri sem þegar hef­ur náðst og stuðla að áfram­hald­andi stöðug­leika. Forðast þarf all­ar ákv­arðanir sem gætu ógnað lækk­un­ar­ferli vaxta Seðlabank­ans eða skapað nei­kvæðan þrýst­ing á at­vinnu­lífið.

Lyk­ill­inn að far­sælli framtíð er að lækka fjár­magns­kostnað rík­is­sjóðs, skapa aukið svig­rúm til upp­bygg­ing­ar og tryggja að fyr­ir­tæki og ein­stak­ling­ar hafi góðar aðstæður til að skapa verðmæti og stuðla að hag­vexti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2025.