Categories
Fréttir Greinar

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Deila grein

18/11/2025

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Yfirmaður Evrópudeildar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alfred Kammer, hélt upplýsandi fyrirlestur hjá Evrópska seðlabankanum hinn 4. nóvember sl. og bar hann heitið: „Hvernig getur Evrópa borgað fyrir hluti sem hún hefur ekki efni á?“ Ljóst er að fyrirsögnin er sláandi og ekki sett fram í pólitískum tilgangi, heldur eru staðreyndir kynntar til leiks ásamt því að koma með tillögur að umbótum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á heimshagkerfinu á þessu ári. Evrópa hefur staðið í ströngu og þurft að glíma við heimsfaraldur, innrás Rússa í Úkraínu og versnandi horfur í heimsbúskapnum. Að mörgu leyti hefur Evrópa undangengin ár staðið af sér verstu efnahagsskellina, hins vegar er nú ljóst að horfur til lengri tíma eru þungar þar sem gert er ráð fyrir litlum hagvexti. Ástæðurnar eru margar: flókið regluverk innri markaðarins, hækkandi orkuverð, stöðnun í framleiðni og versnandi samkeppnishæfni.

Heildarskuldir Evrópuríkja árið 2040 gætu að meðaltali náð 130% af landsframleiðslu, allt yfir 90% skuldir er talið ósjálfbært til lengri tíma. Til að snúa þessari þróun við þyrftu ýmis ríki að hagræða í rekstri sínum um 1% af landsframleiðslu í fimm ár! Til samanburðar við Ísland þá væru þetta rúmir 50 ma.kr. eða um 3% af heildarútgjöldum ríkissjóðsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir Evrópu og líka Ísland. Utanríkisviðskipti við Evrópu skipta okkur miklu máli og að innri markaðurinn sé sterkur. Fram kemur í erindi Kammers að ef ekkert verði gert séu skuldir sumra ríkja ósjálfbærar og að velferðarkerfi margra ríkja sé í hættu. Lausnin að hans mati liggur ekki aðeins í hagræðingu hjá hinu opinbera heldur fremur í að efla hagvöxt. Með hóflegum en markvissum umbótum, líkt og einföldun regluverks, meiri samruna innri markaðarins og auknum sameiginlegum fjárfestingum ásamt umbótum á lífeyriskerfum, gætu mörg Evrópuríki komist á beinu brautina. Skilaboð Kammers eru skýr. Það eru engar skyndilausnir og ráðast verður í verulegar kerfisbreytingar sem stuðla að auknum hagvexti.

Þessi þróun hefur farið fram hjá ríkisstjórn Íslands og hún eyðir miklum tíma í frekari aðlögun að Evrópusambandinu. Vegna þessarar forgangsröðunar hefur efnahagsstjórnin verið ómarkviss. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabanka Íslands í að lækka verðbólguna. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna lækkaði verulega í fjárlagafrumvarpinu 2026 frá fyrri ríkisstjórn. Ef ríkisstjórnin hefði haldið sig við fjárlögin 2025 þá væri ríkissjóður að skila afgangi. Í staðinn var allur tekjuaukinn, eða um 80 ma.kr., settur út í hagkerfið. Byrjum á því að ráðast í breytingar hér heima og náum tökum á verðbólgu og vöxtum, sem skiptir mestu máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grindavík og samstaða þjóðar

Deila grein

11/11/2025

Grindavík og samstaða þjóðar

Tvö ár eru liðin frá því að Grindavík var rýmd vegna jarðhræringa. Föstudagskvöldið stendur ljóslifandi í minni flestra Íslendinga, en þá þurftu íbúar bæjarins að yfirgefa heimili sín. Slíkir atburðir eru afar þungbærir en sem betur fer fátíðir í sögulegu samhengi. Íbúar Grindavíkur hafa sýnt einstaka þrautseigju og seiglu í þessum aðstæðum, bæði í því að finna sér nýjan samastað en um leið að huga að framtíð síns bæjar. Samstarf og samvinna við íbúa Grindavíkur var afar mikilvæg í öllum þessum hremmingum. Margt gekk vel en sumt hefði verið hægt að gera betur. Aðalatriðið er að þegar vá stendur fyrir dyrum er brýnt að við stöndum saman og setjum okkur í spor annarra.

Saga Grindavíkur er merk en byggð hefur verið þar frá landnámi. Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru þeir Molda-Gnúpur Hrólfsson og Þórir Vígbjóðsson. Þrátt fyrir hrjóstrugt og vatnssnautt land í gegnum aldirnar, þá nýttu Grindvíkingar sér auðlindir sjávar og fjörunnar til matar og fóðurs. Fiskur, söl, þang, fjörugrös og selir veittu mikilvægan viðbótarafla þegar hey og bithagar brugðust. Með dugnaði gátu Grindvíkingar lifað af í harðbýlu landi. Atvinnulífið hefur ávallt verið öflugt í Grindavík og sést það einna skýrast á öflugum fyrirtækjum bæjarins.

Jarðhræringarnar samtímans eru ekki eina áfallið sem íbúar Grindavíkur hafa þurft að lifa með. Um Jónsmessuleytið árið 1627 varð sá atburður sem lengi sat í minni Grindvíkinga en það var Tyrkjaránið svonefnda. Þá gerðu sjóvíkingar frá Alsír strandhögg á Íslandi, og bar eitt af fjórum skipum þeirra að landi í Grindavík. Talið er að sjóvíkingarnir hafi numið á brott um tólf einstaklinga frá Grindavík, en alls er talið að 400 manns hafi verið rænt af landinu öllu. Framsæknir einstaklingar í Grindavík og víðar á landinu standa fyrir því að minnast þessara atburða á næsta ári.

Þessi misserin er líf smám saman aftur að fæðast í hinum merka bæ Grindavík. Endurreisnin er hafin og afar ánægjulegt sjá dugnaðinn sem er þar á ferð. Ljóst er í mínum huga að fólkið frá Grindavík þurfti að fást við aðstæður sem reyndu gríðarlega á þrek þeirra og sálu. Við sem búum á þessu gjöfula landi en erfiða verðum ávallt að hafa það hugfast að hugsa um náunga okkar og sérstaklega þegar neyð blasir við. Þrátt fyrir að tvö ár séu liðin frá þessum náttúruhamförum eru þau líklega sem heil eilífð í huga þeirra sem þurftu að yfirgefa heimili sín. Ljóð Einars Benediktssonar á vel við:

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti, sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Deila grein

04/11/2025

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Upptaka evru sem gjaldmiðils þýðir ekki að sömu húsnæðisvextir séu á öllu evrusvæðinu. Þrátt fyrir meira en tuttugu ára myntbandalag standa íbúðakaupendur á evrusvæðinu enn frammi fyrir mjög mismunandi íbúðalánsvöxtum.

Seðlabanki Evrópu (e. ECB) setur stýrivexti fyrir allt evrusvæðið, sem ákvarða vaxtakjör lána hjá ECB. Hins vegar þegar kemur að íbúðalánum, þá eru það viðskiptabankarnir, ekki ECB, sem ákveða raunverulega vexti sem heimilin greiða. Bankarnir taka mið af sínum eigin fjármögnunarkostnaði, samkeppni á heimamarkaði, mati sínu á áhættu í viðkomandi landi og síðast en ekki síst langtímavöxtum ríkisskuldabréfa viðkomandi ríkis.

Efnahagskerfi evrusvæðisins eru gjörólík. Banki í Þýskalandi býr oft við lægri fjármagnskostnað og stöðugra umhverfi en banki í Grikklandi. Þess vegna þurfa lántakendur í Suður-Evrópu oft að greiða hærri vexti, ekki vegna þess að evran sé öðruvísi þar, heldur vegna þess að bankarnir starfa við erfiðari skilyrði og meiri áhættu. Síðan er það húsnæðismarkaðurinn sjálfur. Eftirspurn og fasteignaverð eru afar ólík eftir löndum. Ofhitnaður spænskur markaður í kringum 2005 var allt annar markaður en hinn varfærni og stöðugi þýski markaður. Þegar eftirspurn eykst eða hætta á vanskilum vex, bregðast bankar við með því að hækka vexti.

Evran er vissulega sameiginlegur gjaldmiðill, en hún býr ekki til sameiginlegan húsnæðismarkað. Jafnvel með sömu stýrivexti frá ECB geta íbúðalánsvextir verið afar mismunandi. Allar líkur eru á því að fjölskylda sem kaupir heimili í München fái betri kjör en sú sem kaupir í Aþenu.

Sá mikli galli er á málflutningi þeirra sem vilja að Ísland taki upp evruna að ekki er rætt um ókostina og heildaráhrifin á hagstjórn. Þetta minnir á grísku goðsögnina um Mídas konung en hann óskaði sér þess að hann gæti breytt öllu í gull sem hann snerti. Guðinn Díonýsos uppfyllti ósk Mídasar og allt varð að gulli sem hann snerti. Hann faðmaði dóttur og hún breyttist samstundis í gull. Mídas komst þess vegna fljótt að því að óskin var honum ekki til heilla. Allt sem hann snerti breyttist í gull, líka matur og drykkur. Mídas grátbað því Díonýsos um að taka aftur óskina svo að hann dæi ekki úr hungri og þorsta. Það sama á við um íslenska evrusinna, þeir átta sig ekki á því að það eru líka ókostir sem fylgja því að afnema sjálfstæða og sveigjanlega peningastefnu, eins og aukið atvinnuleysi.

Er ég að segja að húsnæðislánakerfið á Íslandi sé í lagi? Nei. Við þurfum að fara í kerfisbreytingar á því sem hafa það að markmiði að lækka langtímahúsnæðisvexti heimilanna og að þeir endurspegli betur sterkan efnahag og langtímahorfur Íslands. Þetta er hægt! Vilji er allt sem þarf!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tími kerfisbreytinga á lánamarkaði

Deila grein

28/10/2025

Tími kerfisbreytinga á lánamarkaði

Nýlegur dómur Hæstaréttar Íslands hefur blásið nýju lífi í umræðuna um lánakjör heimilanna. Í svokölluðu vaxtamáli komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að óverðtryggð lán yrðu að miðast við stýrivexti Seðlabankans. Þessi tímamótaniðurstaða afhjúpar galla í núverandi fyrirkomulagi og kallar á heildarendurskoðun.

Hollt er að rifja upp uppruna verðtryggingar í þessu samhengi. Verðtrygging var lögleidd með Ólafslögum árið 1979, þegar efnahagslegt ófremdarástand réð ríkjum. Á þeim tíma geisaði óðaverðbólga, raunvextir voru neikvæðir og sparifé í lágmarki. Innstæður voru komnar í sögulegt lágmark og lánsfé þraut. Því var gripið til róttækra ráðstafana: vísitölubinding lána og innlána var tekin upp til að verja sparnað og lán gegn verðbólgu og koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað.

Nú, nærri hálfri öld síðar, eru efnahagsaðstæður gjörbreyttar. Verðbólgan er vissulega enn til staðar en stöðugleiki er miklu meiri. Skyldusparnaður í gegnum lífeyrissjóði tryggir að fjármagn safnist fyrir framtíðina, og almenningur hefur fleiri leiðir til ávöxtunar sparnaðar en að geyma fé á bankareikningum. Í stuttu máli: neyðarráðstafanirnar frá 1979 eiga ekki lengur við.

Þrátt fyrir þessar breyttu aðstæður sitjum við enn uppi með úrelt lánakerfi. Ísland er meðal auðugustu landa veraldar. Lífeyrissjóðirnir geyma mikið fjármagn og ríkissjóður er tiltölulega skuldalítill. Samt eru lánakjör þannig að venjulegar fjölskyldur þurfa að skuldbinda sig til 40 ára í mikilli óvissu. Í samfélagi sem býr svo vel ættu landsmenn að geta fengið sanngjarnari og traustari lán til húsnæðiskaupa. Lausnin felst í heildarendurskoðun lánakerfisins. Boða þarf alla hagaðila að borðinu með það eina markmið að bjóða upp á fasteignalán sem endurspegla betur góða stöðu þjóðarbúsins. Hvernig mætti bæta kerfið? Í fyrsta lagi, endurskoða þarf lífeyrissjóðakerfið með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á samfélaginu okkar. Í öðru lagi, auka þarf valkosti lántakenda. Fastvaxtalán til 10 eða 20 ára ættu að vera raunhæfur kostur hérlendis líkt og í nágrannalöndum. Lífeyrissjóðir gætu stutt slíkar lánveitingar þannig að bankar bjóði fasta vexti á samkeppnishæfum kjörum, án þess að taka á sig óbærilega áhættu. Í þriðja lagi, markvisst þarf að draga úr vægi verðtryggingarinnar en það verður ekki hægt að gera nema að aðrir raunhæfir kostir fyrir heimilin séu í boði. Umbætur á þessu kerfi eru eitt mesta hagsmunamál samfélagsins og tilvalið samvinnuverkefni. Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins óskaði nýlega eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til að ræða alvarlega stöðu lánamarkaðarins. Vonandi næst pólitísk samstaða um nauðsynlegar kerfisbreytingar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 28. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tækifærin liggja í að efla Ísland

Deila grein

21/10/2025

Tækifærin liggja í að efla Ísland

Evrópa hefur sýnt mikla seiglu í gegnum áföll síðustu ára, þ.e. frá heimsfaraldrinum til orkuskortsins sem fylgdi innrás Rússlands í Úkraínu. Engu að síður dregur nýjasta skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um álfuna (e. Regional Economic Outlook: Europe) upp dökka mynd. Evrópa virðist vera að sigla inn í tímabil lítils hagvaxtar og stöðnunar. Stjórnvöld um alla Evrópu átta sig á vandanum en hafa ekki náð að grípa til aðgerða sem gætu snúið þessari þróun við.

Skýrsla AGS gagnrýnir þann hægagang sem virðist vera ráðandi. Viðskiptaerjur við Bandaríkin, styrking evrunnar og viðvarandi pólitísk óvissa hafa dregið úr útflutningi og fjárfestingum. Þrátt fyrir að vaxtalækkanir og aukin ríkisútgjöld ættu að örva eftirspurn atvinnulífsins hefur hagvöxtur ekki tekið við sér. Framleiðni efnahagskerfisins er stöðnuð og Evrópa heldur áfram að dragast aftur úr Bandaríkjunum.

Aðgerðaleysi er rót vandans og er ekki best geymda leyndarmálið í Brussel. Viljann til verka virðist skorta til að efla samkeppnishæfni. Atriði sem nefnd hafa verið í þessu samhengi eru kerfisumbætur á fjármálamarkaði og aukinn hreyfanleiki vinnuafls. Ásamt því að draga úr íþyngjandi og flóknu regluverki. Evrópusambandinu hefur ekki tekist að hrinda þessu í framkvæmd og því hefur framleiðnin dregist saman.

Efnahagslegar afleiðingar þessa stefnuleysis eru augljósar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að skuldabyrði Evrópuríkja geti hækkað í allt að 130 prósent af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2040, ef hagvöxtur tekur ekki við sér. Á sama tíma er mikill útgjaldaþrýstingur á ríkisfjármál ESB-ríkja, sem er tilkominn vegna öldrunar samfélaga og kallar á aukin útgjöld til heilbrigðis- og lífeyrismála. Einnig hafa útgjöld til varnarmála og loftslagsaðgerða vaxið mikið. Án aukinnar framleiðni munu tekjur hins opinbera einfaldlega ekki standa undir nýjum skuldbindingum.

Það eru hagsmunir Íslands að Evrópa standi traustum fótum efnahagslega. Ef Evrópa stendur veikt, þá minnkar það möguleika Íslands til útflutnings á matvælum og þjónustu.

Þess vegna er mikilvægt að ráðist verði í langtíma kerfisumbætur og einföldun regluverks. Evrópusambandið þarf að ráðast í miklar kerfisbreytingar. Ísland á ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu þegar staðan er með þessum hætti.

Undirstaða tækniframfara og atvinnusköpunar er hagvöxtur. Ísland á að bæta sína eigin samkeppnisstöðu með því að efla nýsköpun, bæta framleiðni og treysta undirstöður hagkerfisins. Þannig getum við tryggt áframhaldandi vöxt og stöðugleika, óháð því hvernig vindar blása á meginlandinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Deila grein

14/10/2025

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Heimshagkerfið er á ákveðnum krossgötum vegna mikilla tækniframfara og átaka. Þjóðartekjur á mann hafa þrátt fyrir það aukist á heimsvísu síðustu þrjá áratugi. Margt fólk upplifir þó að það sé skilið eftir og þetta á sérstaklega við um ungt fólk. Frá Reykjavík til Naíróbí hefur gremja aukist vegna skorts á tækifærum til að eignast eigið húsnæði á viðráðanlegu verði. Heimsbúskapurinn hefur engu að síður sýnt óvænta seiglu. Í upphafi árs var spáð efnahagslægð á alþjóðavísu en það hefur ekki ræst. Meginskýringarnar má rekja til þess að viðskiptahindranir urðu minni en óttast var, atvinnulífið hefur náð að aðlagast betur en búist var við og alþjóðavextir hafa lækkað. Heimsmyndin er þó brothætt, svo sem sjá má af vaxandi eftirspurn eftir gulli, óvissu í tollamálum og yfirverðlögðum eignamörkuðum.

Í þessu umhverfi alþjóðlegrar óvissu og óstöðugleika þurfa íslensk stjórnvöld að beina sjónum að þremur markmiðum: Ná tökum á verðbólgu, styrkja opinber fjármál og tryggja langtímahagvöxt. Ráðast verður í meira afgerandi aðgerðir til að ná verðbólgunni niður. Verðbólgan mælist nú á breiðum grunni og hefur verið þrálát um 4%. Engu að síður er hagkerfið að kólna hratt, þrátt fyrir að launahækkanir hafi mælst miklar og að verðbólguvæntingar séu enn yfir markmiði. Ríkisstjórnin tók ekki þessa þrálátu verðbólgu föstum tökum og leiddi sjálf launahækkanir sem voru yfir almenna markaðnum. Að sama skapi er raunútgjaldaaukning í fjárlagafrumvarpinu en ekki það aðhald sem fjármála- og efnahagsráðherra var búinn að boða. Tekjuaukinn í ár nemur 80 mö.kr. og ef aðhalds hefði verið gætt, þá hefði verið hægt að skila afgangi á fjárlögum strax árið 2025. Hefði ríkisstjórnin sýnt slíka væntingakænsku, þá hefði það haft mjög jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar og lækkað ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Skuldir hins opinbera hafa lækkað umtalsvert á Íslandi síðustu tíu ár. Brýnt er að halda áfram á þeirri vegferð til að vaxtagjöldin lækki hraðar. Jákvæður hagvöxtur er einnig mikilvægur fyrir samfélagið, þar sem hann heldur uppi atvinnu og velsæld. Flest ríki í Evrópu eru að leita að hagvexti til að efla samfélögin sín og lífskjör. Afar erfitt er að átta sig á stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Á síðustu árum hefur hátæknigeirinn og ferðaþjónusta skapað þjóðarbúinu miklar tekjur og framtíðarhorfur eru bjartar, að því gefnu að ríkið fari ekki að setja þannig byrðar á atvinnugreinarnar að þær nái ekki að fjárfesta í framtíðinni.

Á þessum óvissutíma hefur styrk hagstjórn aldrei verið mikilvægari. Ég var sannfærð um að ný ríkisstjórn myndi leggja allt sitt undir í því að ná tökum á verðbólgunni, ríkisfjármálum og efla íslenskt efnahagslíf. Það plan hefur enn ekki litið dagsins ljóst.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Deila grein

07/10/2025

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Ísland hefur notið þeirrar gæfu að búa við ríka lýðræðishefð frá stofnun Alþingis árið 930. Stofnun allsherjarþings var merkilegt nýmæli á þeim tíma, án beinnar fyrirmyndar á Norðurlöndum, þar sem þing voru aðeins fyrir afmarkaða landshluta en ekki fyrir heila þjóð. Lögin voru æðsta vald og allir þeim undirgefnir. Alþingi hefur allar götur síðan verið tákn um sjálfsforræði þjóðarinnar og grundvöllur þjóðfrelsisbaráttu. Þessi hefð fyrir lýðræðislegum ákvörðunum og sjálfstæðu réttarkerfi hefur verið burðarás í íslensku þjóðlífi í meira en þúsund ár.

Til að velsæld ríki á Íslandi er nauðsynlegt að efla alþjóðaviðskipti og standa vörð um alþjóðasamvinnu. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er einn mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands frá gildistöku hans árið 1994. Hann tryggir íslenskum almenningi og fyrirtækjum aðgang að innri markaði Evrópu, styrkir neytendavernd og stuðlar að samræmdum leikreglum á mörkuðum. Með samningnum tekur Ísland þátt í sameiginlegum reglum án þess að vera hluti af Evrópusambandinu og heldur þannig stjórn á eigin löggjöf. EES-samstarfið byggist á jafnvægi milli sjálfstæðra ríkja sem skuldbinda sig til samvinnu en framselja ekki alfarið löggjöf sína undir yfirþjóðlegt vald. Það er því mikilvægt að varðveita þetta jafnvægi, þar sem Ísland nýtur ávinnings samstarfsins án þess að fórna fullveldi sínu.

Bókun 35 við EES-samninginn gengur gegn íslenskri lýðræðishefð. Bókun 35 felur í sér að íslensk stjórnvöld viðurkenni forgang EES-réttar fram yfir landslög, sem væri í reynd afsal á löggjafarvaldi Alþingis. Samkvæmt Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, er innleiðing bókunar 35 ekki formsatriði heldur efnislegt inngrip í stjórnarskrárbundið sjálfstæði ríkisins. Núverandi fyrirkomulag, þar sem íslenskir dómstólar túlka lög í samræmi við EES-samninginn, tryggir bæði réttindi borgaranna og virðingu fyrir þjóðréttarlegum skuldbindingum án þess að grafa undan stjórnarskránni. Samþykkt bókunar 35 væri hins vegar pólitísk yfirlýsing um að Ísland undirgangist yfirþjóðlegt vald yfir eigin lögum. Það myndi veikja stöðu Alþingis sem æðsta handhafa löggjafarvalds og brjóta gegn þeirri sömu lýðræðishefð sem hefur varðveitt sjálfstæði þjóðarinnar í meira en árþúsund.

Íslensk stjórnskipan byggist á því að valdið komi frá þjóðinni og sé bundið við lög sem hún setur sér sjálf. Með því að hafna bókun 35 ver Ísland lýðræðislega hefð sína og þá meginreglu að engin yfirþjóðleg löggjöf skuli hafa forgang fram yfir vilja Alþingis. Að standa vörð um þessa grundvallarreglu er ekki andstaða við Evrópusamvinnu heldur trygging þess að þátttaka Íslands í henni verði áfram á forsendum sterkrar lýðræðishefðar og fullveldis þjóðarinnar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Litla gula hænan og Evrópusambandið

Deila grein

30/09/2025

Litla gula hænan og Evrópusambandið

Margir muna eftir sögunni um litlu gulu hænuna sem fann hveitifræ. Hún áttaði sig á því að ef hún myndi sá, slá, þreskja og mala hveitifræið og baka svo brauð, þá væri hægt að njóta ávinningsins. Hún bað önnur dýr á bænum að hjálpa en hundurinn, kötturinn og svínið höfnuðu því öll. Þegar brauðið var loks tilbúið vildu þau þó öll fá sneið, en þá sagði litla gula hænan nei, aðeins hún sem vann verkið ætti rétt á brauðinu.

Fyrirverandi bankastjóri Evrópska seðlabankans og forsætisráðherra Ítalíu, Mario Draghi, er í hlutverki litlu gulu hænunnar. Draghi hefur ítrekað varað við því að Evrópusambandið sé að missa samkeppnishæfni sína vegna aðgerðaleysis. Á síðasta ári lagði hann fram 383 tillögur um umbætur sem gætu aukið framleiðni og hagvöxt, ásamt því að efla ESB-ríkin í tæknikapphlaupinu gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Tillögurnar voru samþykktar en aðeins um 11 prósentum hefur verið hrint í framkvæmd. Afgangurinn af tillögunum er fastur í ágreiningi og skrifræði.

Draghi óskar eftir aðstoð: „Hver vill hjálpa mér að sá, mala og uppskera?“ En svörin eru lítil. Leiðtogar ESB-ríkja viðurkenna vandann, jafnvel framkvæmdastjórinn Ursula von der Leyen, en þegar til kastanna kemur er viljinn ekki nægur. Sagan um litlu gulu hænuna felur í sér ákveðinn boðskap. Ef enginn er tilbúinn að leggja hönd á plóginn, þá verður ekkert brauð til að deila. Hagkerfi margra ESB-ríkja er í þeirri stöðu að verðmætasköpun er að minnka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ESB-ríki geti bakað sitt brauð, en gallinn er að kerfið sem búið er að setja upp dregur úr hvatanum til þess. Gjaldmiðill þeirra hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var í upphafi, fjármögnun erfið, umgjörðin um ríkisfjármálin ekki nægilega sterk og ekki hefur verið ráðist í nauðsynlegar efnahagslegar kerfisbreytingar til að létta róðurinn. Á meðan vex hagkerfi Bandaríkjanna átta sinnum hraðar en hagkerfi Evrópu. Þar hefur fjárfesting í nýsköpun, orkuöryggi og gervigreind skapað mikla framþróun. Kína er á fleygiferð í gervigreindinni, en einnig í innviðum og iðnaði, og styrkir áhrif sín í Asíu og Afríku. Evrópa stendur hins vegar í stað og glímir við að brúa bilið milli háleitra áforma og raunverulegra framkvæmda.

Eins og staðan er í dag, þá á Ísland að tryggja viðskiptakjör sín með alþjóðlegri samvinnu og efla samkeppnishæfni og hagvöxt. Ísland hefur náð miklum framförum síðustu áratugi og gert það í krafti sjálfstæðis með tryggt eignarhald á auðlindum sínum. Ísland á ekki að gerast aðili að ESB, sem er ekki tilbúið að gera það sem þarf til að baka brauðið og njóta síðan ávinningsins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

„Eigi skal höggva“!

Deila grein

23/09/2025

„Eigi skal höggva“!

Aðfaranótt 23. september 1241 riðu sjötíu menn Gissurar Þorvaldssonar ásamt Oddaverjum og konungsmönnum að Reykholti, heimili Snorra Sturlusonar. Samkvæmt frásögn Sturlungu kom fram í bréfi nokkru sem Gissur hafði undir höndum frá Hákoni konungi að hann skyldi láta Snorra fara til Noregs aftur, hvort sem honum líkaði það eður ei. Að öðrum kosti skyldi Gissur tryggja dráp hans. Meginástæða þessarar tilskipunar Hákonar konungs var sú að Snorri hefði farið til Íslands í trássi við vilja hans árið 1239 og því væri hann landráðamaður. Snorri vildi halda heim til Íslands eftir að hann frétti af miklu falli skyldmenna sinna í Örlygsstaðabardaganum árið 1238. Að auki gekk Snorri til liðs við Skúla jarl, sem var óvinveittur konungi. Hákon konungur var staðráðinn í að refsa Snorra fyrir þessi svik. Gissur og menn hans komu Snorra að óvörum og fundu hann í kjallaranum í Reykholti. Í Sturlungu er þessu lýst svo: „Eftir það urðu þeir varir við hvar Snorri var og gengu þeir í kjallarann Markús Marðarson, Símon knútur, Árni beiskur, Þorsteinn Guðinason, Þórarinn Ásgrímsson. Símon knútur bað Árna höggva hann. „Eigi skal höggva,“ sagði Snorri. „Högg þú,“ sagði Símon. „Eigi skal höggva,“ sagði Snorri. Eftir það veitti Árni honum banasár og báðir þeir Þorsteinn unnu á honum.“

Þarna var framið eitt mesta ódæðisverk í sögu þjóðarinnar. Snorri Sturluson var mesta sagnaskáldið í Evrópu og stórbrotinn pólitískur hugmyndafræðingur. Eins og flestir þekkja liggja eftir hann Snorra-Edda og Heimskringla og honum er líka eignuð Egils saga Skallagrímssonar.

Í tilefni dagsins kemur út endurprentun ritsins Stjórnspeki Snorra Sturlusonar í Heimskringlu eftir Sigurð Líndal, gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi, og stendur Miðaldastofa í samstarfi við Lagastofnun HÍ, Bókmenntafélagið og RSE fyrir málstofu í fundarsal Eddu kl. 16.30 í dag. Erindi flytja Ditlev Tamm, prófessor emeritus í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Tom G. Palmer, alþjóðafulltrúi Atlas Network.

Að mínu mati eigum við að halda enn frekar á loft bókmenntasögu miðalda, þar sem hún er eitt það dýrmætasta sem þjóðin hefur skapað. Bókmenntirnar sameina okkur og veita einstaka sýn inn í hugarþel þessa tíma. Því er það vel til fundið að í tilefni dagsins sé verka Snorra Sturlusonar minnst með þessum hætti í Eddu. Húsið er reist til að varðveita þessa merku bókmenntasögu, miðla henni og efla íslensk fræði. Vel hefur tekist til og ánægjulegt að sjá veglega dagskrá vetrarins, sem mun efla vitund landsmanna um hinn merka bókmenntaarf. Mestu skiptir fyrir framtíðina að honum sé miðlað til yngstu kynslóðarinnar og bókmenntirnar haldi áfram að vera ljóslifandi í huga þjóðarinnar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Franskur kanarífugl

Deila grein

16/09/2025

Franskur kanarífugl

Þegar kolanámur voru helsta uppspretta orkuöflunar tóku námuverkamenn með sér litla kanarífugla niður í djúpar og skítugar námur. Fuglarnir voru ekki þar til skrauts, heldur sem viðvörunarkerfi. Ef fuglarnir hættu að syngja eða féllu dauðir til jarðar þá var það merki um ósýnilegan en banvænan gasleka.

Frakkland er forysturíki í Evrópusambandinu, stendur sterkt menningarlega og ein öflugustu fyrirtæki Evrópu eru staðsett þar. Hins vegar ríkir þar nánast stöðug stjórnarkreppa, þar sem skuldir landsins hafa náð hæstu hæðum síðan mælingar hófust. Fjárlagahallinn er meiri en hjá öllum öðrum aðildarríkjum evrusvæðisins. Eins og fuglinn sem hættir að syngja gefa þessar tölur til kynna að mikill kerfisvandi sé til staðar og tímabært að hrinda í framkvæmd neyðaráætlun.

Þegar Emmanuel Macron varð forseti Frakklands árið 2017 lofaði hann að lækka skatta, efla hagvöxt og gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri. Að einhverju leyti hefur þetta gengið eftir, þar sem atvinnuleysi hefur minnkað og fjárfestingar aukist. Hins vegar standa ríkisfjármálin það veikt að tvær ríkisstjórnir hafa fallið í vegferð sinni til að minnka útgjöld ríkissjóðs. Vandinn er ekki nýtilkominn, heldur hefur franski ríkissjóðurinn verið rekinn með halla í áratugi. Staða ríkisfjármála í Frakklandi er ósjálfbær og nú þarf franska ríkið að fjármagna sig á hærri vöxtum en fyrirtækin Airbus og L’Oreal. Matsfyrirtækið Fitch hefur lækkað lánshæfiseinkunn franska ríkissjóðsins og nefndir að skuldir geti hækkað í allt að 121% af landsframleiðslu. Jafnframt er talið að áætlun um að lækka fjárlagahallann sé ótrúverðug.

Kanarífuglinn í kolanámunni gaf vísbendingu um að mikil hætta væri á ferðum. Spurning er hvort franski kanarífuglinn sé að vara við stærri hættu sem nær yfir fleiri ríki Evrópusambandsins, þar sem þau glíma við mikinn fjárlagahalla og miklar skuldir hins opinbera. Þessi slæma staða hjá forysturíki í Evrópusambandinu er ekki góð tíðindi fyrir Ísland. Við eigum í miklum viðskiptum við evrusvæðið og ef dregur úr kaupmætti og hagvexti þá dregur úr utanríkisviðskiptum, sem minnkar verðmætasköpun á Íslandi.

Vegna þess mikla efnahagsvanda sem mörg leiðandi ríki Evrópusambandsins standa frammi fyrir eiga íslensk stjórnvöld ekki að eyða dýrmætum tíma lands og þjóðar í ESB-erindisleysu. Stærsta áskorun þessarar ríkisstjórnar er að ná verðbólgu og vöxtum niður. Hægst hefur verulega á lækkun verðbólgu og því hafa vextir ekki lækkað eins og væntingar stóðu til um. Ég hvet ríkisstjórnina til góðra verka, að standa við gefin loforð um lækkun verðbólgu og nýta tíma okkar allra í að efla verðmætasköpun í þágu aukinnar velsældar fyrir fólkið í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2025.