Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Evran stóðst ekki væntingar um aukinn hagvöxt

Deila grein

19/08/2025

Evran stóðst ekki væntingar um aukinn hagvöxt

Þegar evr­an var tek­in í notk­un árið 1999 voru von­irn­ar mikl­ar og sögu­leg­ar. Sam­eig­in­legi gjald­miðill­inn átti að binda álf­una nán­ar sam­an, stuðla að öfl­ug­um hag­vexti með auk­inni efna­hags­legri samþætt­ingu. Rök­semd­irn­ar fyr­ir evr­unni byggðust á tveim­ur meg­in­stoðum. Í fyrsta lagi að efna­hags­leg samþætt­ing myndi auka hag­vöxt með því að fjar­lægja efna­hags­leg­ar hindr­an­ir. Í öðru lagi að fjár­magns­kostnaður myndi minnka vegna stærri gjald­miðils. Vand­inn er að for­send­urn­ar voru veik­ar í upp­hafi. Hinn sam­eig­in­legi markaður hafði þegar tryggt hið svo­kallaða fjór­frelsi, þ.e. frjálsa för vöru, þjón­ustu, fjár­magns og vinnu­afls inn­an innri markaðar EES. Gjald­miðlamun­ur var vissu­lega óþægi­leg­ur, sér­stak­lega fyr­ir ferðamenn, en í dag er það lít­il efna­hags­leg hindr­un á tím­um ra­f­ræns fjár­magns.

Fjár­magns­kostnaður þjóðríkja end­ur­spegl­ast iðulega í því vaxta­álagi sem rík­is­sjóðir þeirra bera, sem gef­ur svo mynd af grunnþátt­um viðkom­andi hag­kerf­is. Vext­ir á grísk­um rík­is­skulda­bréf­um urðu 22,5% árið 2012 og á tíma­bili gátu mörg evru­ríki ekki gefið út rík­is­skulda­bréf. Á sama tíma voru vext­ir á þýsk­um rík­is­skulda­bréf­um um 1%. Evr­an hef­ur til að mynda ekki end­ur­speglað sterka efna­hags­lega stöðu Þýska­lands und­an­far­in miss­eri. Þýska­land hef­ur haft gjald­miðil sem er veik­ari en efni standa til, sem hef­ur svo bætt sam­keppn­is­stöðu lands­ins, en á sama tíma hef­ur Grikk­land haft mun sterk­ari gjald­miðil en hag­kerfið þolir, sem hef­ur veikt veru­lega sam­keppn­is­stöðu lands­ins, og aðlög­un­in hef­ur komið í gegn­um vinnu­markaðinn.

At­vinnu­leysi ungs fólks í Grikklandi náði allt að 50%, þegar verst lét. Vinnu­málaráðherra Grikk­lands, Niki Kera­meus, fer nú um alla Evr­ópu til að hvetja vel menntaða brott­flutta Grikki til að snúa aft­ur til lands­ins með skatta­leg­um hvöt­um. Um 600 þúsund vel menntaðir Grikk­ir yf­ir­gáfu landið í efna­hagsþreng­ing­um þeirra. Sum­ir myndu segja að þarna væri hinn sam­eig­in­legi markaður að virka. Það er rétt, en her­kostnaður­inn fyr­ir marg­ar kyn­slóðir er ómet­an­leg­ur vegna spekilek­ans sem á sér stað.

Vöxt­ur lands­fram­leiðslu í Evr­ópu er mun minni en í Banda­ríkj­un­um. Sam­kvæmt Drag­hi-skýrsl­unni hef­ur mun­ur­inn á fram­leiðslu svæðanna auk­ist enn frek­ar eft­ir að evr­an var tek­in upp. Árið 2002 var fram­leiðsla Banda­ríkj­anna 17% meiri en á evru­svæðinu, en árið 2023 var mun­ur­inn orðinn 31% og hef­ur því auk­ist um 82% á tíma­bil­inu! Evr­an átti að vera svar Evr­ópu við Banda­ríkj­un­um. Eitt öfl­ugt markaðssvæði með eina rödd, einn markað og eina mynt. Hug­mynda­smiðir evr­unn­ar reru þó á ókunn mið. Niðurstaðan er skýr: Evr­an hef­ur ekki staðið und­ir vænt­ing­um um auk­inn hag­vöxt og vel­sæld.

Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óvissuferð

Deila grein

12/08/2025

Óvissuferð

Staða efna­hags­mála í sum­ar­lok ein­kenn­ist af mik­illi óvissu og stór­um áskor­un­um. Í fyrsta lagi hef­ur verðbólga ekki lækkað eins og von­ir stóðu til. Í öðru lagi hef­ur um­hverfi ut­an­rík­is­viðskipta versnað veru­lega, sem dreg­ur úr sam­keppn­is­hæfni. Að lok­um skort­ir skýra og gagn­sæja stefnu í rík­is­fjár­mál­um.

Verðbólga mæl­ist 4% á árs­grund­velli og hækk­an­ir mæl­ast á breiðum efna­hags­leg­um grunni. Á sama tíma hef­ur ávöxt­un­ar­krafa verðtryggðra rík­is­skulda­bréfa til lengri tíma hækkað um­tals­vert. Vænt­ing­ar markaðar­ins um þróun verðbólgu og raun­vaxta til lengri tíma hafa einnig auk­ist. Þetta þýðir að vext­ir til heim­il­anna verða einnig hærri til lengri tíma, þar sem fjár­mögn­un­ar­kostnaður rík­is­ins er grunn­ur að verðlagn­ingu alls kerf­is­ins. Þótt styrk­ing krón­unn­ar ætti að vega á móti verðbólguþrýst­ingi hef­ur sterk­ara gengi ekki enn skilað sér til al­menn­ings. Margt bend­ir til þess að krón­an geti veikst í haust vegna auk­ins viðskipta­halla og mik­ill­ar óvissu á alþjóðamörkuðum.

Óviss­an hef­ur sjald­an verið meiri í alþjóðahag­kerf­inu. Tolla­stríðið sem nú geis­ar í alþjóðaviðskipt­um er án for­dæma. Fyr­ir­séð var að banda­rísk stjórn­völd myndu hefja tíma­bil ný-kaupauðgis­stefnu, sem fel­ur í sér að auka út­flutn­ing Banda­ríkj­anna, draga úr inn­flutn­ingi og hækka tolla til að auka tekj­ur rík­is­sjóðs. Hér er um nýja efna­hags­stefnu að ræða, þar sem ut­an­rík­is­viðskipti eiga að koma með bein­um hætti að hag­stjórn í aukn­um mæli. Á sama tíma hef­ur for­seti Banda­ríkj­anna verið að styrkja laga­lega um­gjörð raf­mynta, og verður fróðlegt að fylgj­ast með sam­spili þess og hvort eft­ir­spurn auk­ist að nýju eft­ir banda­rísk­um rík­is­skulda­bréf­um. Mark­mið efna­hags­stefn­unn­ar er að minnka þrálát­an viðskipta­halla og auka fjár­fest­ing­ar inn­an­lands. Það sem hef­ur komið á óvart eru fyr­ir­hugaðir refsitoll­ar Evr­ópu­sam­bands­ins á fram­leiðslu kís­il­málma og að þeim skuli verða beitt gagn­vart EES-ríkj­um. Ólík­legt þykir að Evr­ópu­sam­bandið haldi sig við þessa stefnu til lengri tíma og virði ekki EES-samn­ing­inn. Mikið er í húfi fyr­ir þjóðarbúið að EES-samn­ing­ur­inn sé virt­ur.

Fyrsta fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar verður kynnt í sept­em­ber. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in hef­ur verið samþykkt og þar er gert ráð fyr­ir auknu aðhaldi, en út­færsla þess hef­ur ekki verið kynnt og eyk­ur því óvissu. Vantað hef­ur upp á ákveðin gögn og fyr­ir­sjá­an­leik­inn því minnkað.

Efna­hags­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar er óvissu­ferð. Brýnt er að for­gangsraða í þágu verðlags­stöðug­leika og hags­muna­gæslu fyr­ir land og þjóð. Allt stefn­ir í auk­inn viðskipta­halla ef rík­is­stjórn­in hug­ar ekki bet­ur að sam­keppn­is­hæfni og að efla ís­lenska fram­leiðslu. Efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar eru þekkt­ar. Lífs­kjör þjóðar­inn­ar ráðast af því hvernig til tekst!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hetjan mín

Deila grein

05/08/2025

Hetjan mín

Guðný Jóns­dótt­ir langamma mín fædd­ist 5. ág­úst 1910 og því eru liðin 115 ár frá fæðingu henn­ar. Hún fædd­ist á Mel­um í Fljóts­dal og bjó þar fyrstu ævi­ár­in. For­eldr­ar henn­ar, Jón Mika­el­son og Arn­fríður Eðvalds­dótt­ir, reistu sér síðar bú á Una­ósi ásamt sex börn­um sín­um. Þegar langamma var tíu ára lést faðir henn­ar. Langamma var næ­stelst í hópi systkin­anna. Heim­ilið leyst­ist upp og börn­in voru send hvert í sína átt. Móðir henn­ar tók eitt barn­anna með sér, og langamma tók yngsta bróður sinn með sér í vinnu­mennsku og sá fyr­ir hon­um.

Snemma var hún far­in að axla ábyrgð, og sagt var að hún hefði ekki aðeins hlúð að yngsta bróður sín­um, held­ur verið vak­in og sof­in yfir aðbúnaði hinna systkin­anna. Hrepp­ur­inn vildi styrkja hana til náms, en hún þurfti að hafna því vegna skyldna sinna, þá ekki nema tólf ára göm­ul.

Fljótt komu í ljós þeir eig­in­leik­ar sem ein­kenndu hana: sjálfs­bjarg­ar­viðleitn­in og hjálp­sem­in. Þeir urðu síðar marg­ir sem hún tók upp á arma sína og skaut skjóls­húsi yfir, skyld­ir og óskyld­ir. Ekki er ólík­legt að kröpp kjör í bernsku hafi gert lang­ömmu mína að þeirri fé­lags­hyggju­konu sem hún varð. Hún hafði mik­inn áhuga á stjórn­mál­um og skipaði sér í sveit með þeim sem börðust fyr­ir rétt­ind­um verka­fólks og annarra sem minna máttu sín í sam­fé­lag­inu. Á kreppu­ár­un­um voru síld­artunn­ur notaðar sem ræðustól­ar til að vekja at­hygli á rétt­ind­um verka­fólks. Langamma fór síðar meir út í veit­ing­a­rekst­ur. Hún keypti og rak mat­sölu um ára­bil í Aðalstræti 12. Sá rekst­ur gekk vel, enda var hún út­sjón­ar­söm. Mat­ur­inn þótti heim­il­is­leg­ur og meðal fastak­únna voru oft fá­tæk­ir skóla­pilt­ar og verka­menn. Marga þeirra annaðist hún eins og þeir væru úr henn­ar eig­in fjöl­skyldu.

Á aðfanga­dags­kvöld­um var mat­sal­an jafn­an opin og þá margt um mann­inn. Marg­ir áttu sín einu jól hjá lang­ömmu. Hún tók þátt í starfi fé­lags starfs­fólks á veit­inga­hús­um. Hún varð formaður þess árið 1956 og gegndi for­mennsku til 1962. Mat­sölustaðinn seldi hún árið 1966 og keypti þá jörðina Vatns­enda í Vill­inga­holts­hreppi. Þar stundaði hún bú­skap næstu árin af mikl­um mynd­ar­brag. Mjólk­ur­fram­leiðsla henn­ar þótti jafn­an til fyr­ir­mynd­ar og hlaut viður­kenn­ingu frá Mjólk­ur­búi Flóa­manna.

Fram­far­irn­ar sem orðið hafa á ís­lensku sam­fé­lagi frá þess­um tíma eru fá­heyrðar í hag­sögu þjóða. Tæki­fær­in eru gjör­ólík þeim sem voru við upp­haf síðustu ald­ar. Ég velti því oft fyr­ir mér, sem ráðherra, hvar lang­ömmu hefði þótt skór­inn helst kreppa. Ávallt kemst ég að sömu niður­stöðu: Staða mennta­kerf­is­ins. Við þurf­um að efla það áfram og veita öll­um börn­um tæki­færi til mennt­un­ar.

Krafta­verk­in í líf­inu eru mörg og mis­stór, og stund­um eru þau unn­in af ein­stak­ling­um sem lyfta björg­um. Langamma mín var slík kona og hetj­an mín.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Fór sleggjan af skaftinu?

Deila grein

28/07/2025

Fór sleggjan af skaftinu?

,,Verðbólga hef­ur ekki lækkað eins og von­ir stóðu til um og er 4% á árs­grund­velli. Skila­boð Seðlabanka Íslands í maí voru skýr: Það verða eng­ar frek­ari lækk­an­ir nema verðbólg­an fær­ist nær 2,5% mark­miðinu. Má því telj­ast ólík­legt að al­menn­ing­ur og at­vinnu­líf sjái vexti lækka á næst­unni. Þetta eru mjög slæm tíðindi fyr­ir efna­hags­fram­vind­una og það sem meira er að hækk­an­ir á vísi­töl­u­neyslu­verðs eru á breiðum grunni. Verðbólga hafði farið ört lækk­andi frá júlí 2024 og vaxta­lækk­un­ar­ferlið komið af stað. Þróun verðbólg­unn­ar eru verstu tíðindi sem heim­ili lands­ins hafa fengið í lang­an tíma. Að sama skapi virðist lána­markaður­inn að þró­ast til hins verra og svo hæg­ist veru­lega á bygg­ing­ar­markaðnum.

Lang­tíma­vext­ir hafa hækkað á þessu ári ásamt því að ávöxt­un­ar­krafa verðtryggðra rík­is­skulda­bréfa til lengri tíma hef­ur hækkað um­tals­vert. Vænt­ing­ar markaðar­ins um þróun verðbólgu og raun­vaxta hafa hækkað til lengri tíma. Hærri raun­vext­ir eru fyr­ir­séðir næstu árin sam­kvæmt markaðsaðilum. Þetta þýðir að vext­ir til heim­il­anna verða einnig hærri til lengri tíma, þar sem fjár­mögn­un­ar­kostnaður rík­is­ins er grunn­ur að verðlagn­ingu alls kerf­is­ins. Kostnaður rík­is­sjóðs vegna hærri verðbólgu er að aukast ásamt því að heim­il­in bera hærri vexti. Þetta þýðir að hag­vöxt­ur verður minni en ella, af því að rík­is­stjórn­in hef­ur sofið á verðinum gagn­vart verðbólg­unni.

Sam­drátt­ar á heild­ar­fjölda íbúða í bygg­ingu hef­ur gætt síðan síðasta haust í töl­um hjá Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un. Lóðaút­hlut­an­ir hafa verið tals­verðar en dreg­ist hef­ur að koma fram­kvæmd­um af stað vegna þrálátr­ar verðbólgu og aðstæðna á fjár­mála­markaði. Ef þetta verður raun­in næsta árið, þá mun skort­ur mynd­ast, sem hækk­ar verðið svo aft­ur og það hef­ur aft­ur áhrif á vísi­töl­u­neyslu­verð.

Það er afar miður að efna­hags­stjórn­in hafi ekki ein­blínt meira á verðbólg­una en raun ber vitni. Rík­is­stjórn­in hef­ur í stað þess boðið at­vinnu­líf­inu upp á óvissu í formi fyr­ir­hugaðra skatta­hækk­ana og ekki látið laun sín taka mið af verðbólgu­mark­miðinu eða kjara­samn­ing­um á al­menn­um markaði. Rík­is­stjórn­in hef­ur ít­rekað verið vöruð við því að hún væri á rangri leið í efna­hags­mál­um, sem mun bitna á hag­vexti og vel­sæld fyr­ir þjóðina.

Rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur hef­ur mistek­ist að halda áfram á þeirri veg­ferð að lækka verðbólgu, sem síðasta rík­is­stjórn lagði of­urkapp á og var far­in að ná ár­angri eins og þróun vísi­töl­u­neyslu­verðs sýn­ir frá júlí 2024. Hag­sag­an sýn­ir okk­ur að ef stjórn­völd sýna linkind gagn­vart verðbólg­unni, þá verður hún þrálát og erfiðari viður­eign­ar. Því er ljóst að sleggj­an hef­ur farið af skaft­inu!”

Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. júlí 2025

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Hagvöxtur er minni á evrusvæðinu

Deila grein

21/07/2025

Hagvöxtur er minni á evrusvæðinu

Evr­ópu­sam­bandið er komið aft­ur á dag­skrá ís­lenskra stjórn­mála. Stjórn­völd hafa til­kynnt að fyr­ir­huguð sé þjóðar­at­kvæðis­greiðsla um hvort Íslandi eigi að hefja að nýju viðræður um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. At­kvæðagreiðslan fer fram á ár­inu 2027. Það er mik­il­vægt að þjóðin geti kosið um þetta mik­il­væga mál.

Hag­vöxt­ur skipt­ir miklu máli til að auka vel­ferð þjóða og til að hægt sé að fjár­festa í mennt­un og heil­brigðisþjón­ustu. Evr­an átti að efla hag­vöxt og efna­hags­leg­an stöðug­leika inn­an þess efna­hags­svæðis. Reynsl­an hef­ur hins veg­ar sýnt að hag­vöxt­ur er mun minni í sam­an­b­urði við önn­ur ríki. Hag­vöxt­ur á Íslandi hef­ur á síðustu ára­tug­um verið þrótt­mik­ill og at­vinnu­leysi lítið. Hag­vöxt­ur síðustu fimm ár hef­ur að meðaltali verið rúm 2,5% og fjöldi nýrra starfa hef­ur orðið til á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins. Til sam­an­b­urðar hef­ur hag­vöxt­ur í Banda­ríkj­un­um verið 2% og á evru­svæðinu 1%. Hálf­gerður þoku­hjúp­ur er yfir hag­vexti á evru­svæðinu. Flest ríki vilja vera í stöðu Íslands, þar sem hag­vaxt­ar­horf­ur eru góðar og at­vinnu­leysi er lítið.

Efna­hags­leg frammistaða evru­svæðis­ins hef­ur verið lak­ari en Banda­ríkj­anna. Töl­urn­ar tala sínu máli. „Evr­ópa hef­ur farið úr því að vera 90 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu Banda­ríkj­anna niður í 65 pró­sent á 10 til 15 árum. Það er ekki góð þróun,“ sagði Jaime Dimon, banka­stjóri JP­Morg­an Chase, á ráðstefnu í Dublin nú á dög­un­um. Um­mæli Dimons end­ur­spegla þá miklu áskor­un sem Evr­ópu­sam­bandið stend­ur frammi fyr­ir í að örva hag­vöxt og auka sam­keppn­is­hæfni álf­unn­ar. Dimon bætti við að álf­an hefði mjög stórt markaðssvæði og einkar öfl­ug fyr­ir­tæki með alþjóðleg um­svif. Hins veg­ar væri staðreynd­in sú að þau væru sí­fellt færri og sam­keppn­is­hæfni þeirra hefði beðið hnekki með ári hverju. Mest fer fyr­ir fram­förum í gervi­greind og há­tækni í Banda­ríkj­un­um og Kína. Ísland á að nýta sér land­fræðilega legu sína til að geta stundað frjáls viðskipti við sem flest ríki.

Á síðasta ári kallaði Mario Drag­hi, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Evr­ópu, eft­ir nýrri iðn- og fjár­fest­ing­ar­stefnu fyr­ir álf­una sem myndi krefjast 800 millj­arða evra ár­legra fjár­fest­inga til að viðhalda sam­keppn­is­hæfni gagn­vart Banda­ríkj­un­um og Kína. Í Drag­hi-skýrsl­unni kem­ur skýrt fram að efla verði stöðu Evr­ópu ef álf­an á ekki eft­ir að drag­ast enn meira aft­ur úr.

Það er sam­dóma álit einna virt­ustu hag­fræðinga ver­ald­ar­inn­ar að meg­in­or­sök þess­ar­ar þró­un­ar sé hin sam­eig­in­lega mynt. Evr­an er ekki sú töfra­lausn sem marg­ir boða. Fórn­ar­kostnaður­inn við evr­una er lægri hag­vöxt­ur og aukið at­vinnu­leysi. Höld­um staðreynd­um til haga í kom­andi umræðu, svo að far­sæl­asta leiðin verði val­in fyr­ir okk­ar góða land. Mikið er í húfi fyr­ir framtíðarkyn­slóðir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júlí 2025.

Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Virkt lýðræði tryggir velsæld

Deila grein

14/07/2025

Virkt lýðræði tryggir velsæld

,,Ísland skip­ar efsta sæti á lífs­kjaralista Sam­einuðu þjóðanna. Þetta er mik­il viður­kenn­ing á stöðu Íslands í sam­fé­lagi þjóðanna. Við get­um öll verið stolt af þess­um ár­angri, sem hef­ur tekið ára­tugi að ná með mik­illi vinnu og elju­semi þjóðar­inn­ar. Efna­hags­staða þjóðarbús­ins er nokkuð góð um þess­ar mund­ir, þótt vissu­lega séu blik­ur á lofti. At­vinnu­leysi er lítið og hag­vöxt­ur hef­ur verið stöðugur. Hins veg­ar er einnig ástæða til að staldra við og ígrunda stöðu Íslands í breiðara sam­hengi, ekki síst eft­ir ný­lega ákvörðun for­seta Alþing­is að beita 71. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar til slíta umræðum á þingi.

Í bók sinni Tíu regl­ur vel­meg­un­ar þjóðríkja (e. The 10 Ru­les of Success­ful Nati­ons) lýs­ir höf­und­ur­inn Ruchir Sharma tíu lyk­ilþátt­um sem ein­kenna þjóðríki sem ná ár­angri til lengri tíma. Þeir eru ekki bara efna­hags­leg­ir, held­ur líka póli­tísk­ir og sam­fé­lags­leg­ir. Aflvaki fram­fara eru friður, virkt lýðræði, traust stofn­ana­kerfi og aðhald með vald­höf­um. Þjóðir sem standa vörð um þess­ar stoðir eru lík­legri til að vaxa og dafna til lengri tíma.

Í ljósi þessa vek­ur beit­ing 71. grein­ar stjórn­ar­skrár­inn­ar spurn­ing­ar. Grein­in heim­il­ar for­seta þings­ins að ljúka umræðum um þing­mál og krefjast at­kvæðagreiðslu án þess að frek­ari umræða fari fram. Þótt þessi heim­ild sé stjórn­ar­skrár­bund­in og lög­mæt, þá hef­ur hún hingað til verið nýtt með mik­illi var­færni, enda snert­ir hún sjálf­an kjarna þing­ræðis og lýðræðis­legr­ar umræðu.

Sam­kvæmt Sharma eru það ein­mitt þjóðríki sem leyfa gagn­rýna umræðu, þola deil­ur og leiða deil­ur til lykta sem búa við vel­sæld. Lýðræðis­leg umræða er ekki hindr­un held­ur styrk­ur enda var Alþingi Íslend­inga stofnað árið 930, þannig að hin lýðræðis­lega hefð hef­ur mjög sterk­ar og djúp­ar ræt­ur. For­dæmið sem skap­ast með virkj­un 71. grein­ar­inn­ar get­ur smám sam­an veikt þá lýðræðis­legu hefð sem þingloka­samn­ing­ar gegna á Alþingi, sem hafa verið und­ir­staða póli­tísks stöðug­leika milli stjórn­ar og stjórn­ar­and­stöðu. Þetta er ekki spurn­ing um laga­leg­an rétt held­ur siðferðis­legt og lýðræðis­legt mat hverju sinni. Þegar meiri­hluti beit­ir valdi sínu til að þrengja að þing­legri umræðu án þingloka­samn­inga, þá fer allt traust inn­an þings­ins. Niðurstaða þessa þing­vetr­ar er rauna­leg, þar sem til­tölu­lega fá frum­vörp náðu fram­göngu vegna hug­ar­fars­ins sem rík­ir nú á Alþingi.

Ísland stend­ur sterkt að vígi hvað varðar hag­sæld en póli­tísk festa og virðing fyr­ir lýðræðis­leg­um leik­regl­um er ekki sjálf­gef­in.

Vel­sæld þjóðríkja bygg­ist á sam­ræðu, sam­vinnu og virðingu fyr­ir and­stæðum sjón­ar­miðum. Brýnt er að þessi lýðræðis­hefð okk­ar sé virt til að tryggja áfram­hald­andi ár­ang­ur þjóðar­inn­ar og vöxt til framtíðar.”

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. júlí 2025.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Óperustarfsemi eflist til framtíðar

Deila grein

07/07/2025

Óperustarfsemi eflist til framtíðar

Á Alþingi, þann 5. júlí 2025, voru samþykkt lög um stofnun Þjóðaróperu.

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, ritaði grein í Morgunblaðið 7. júlí 2025 af því tilefni.

„Íslensk menn­ing og list­ir eru meðal þess sem skil­grein­ir þjóð okk­ar ásamt stór­brot­inni nátt­úru. Það er ein­stakt hvað Ísland á af öfl­ugu lista­fólki sem hef­ur aukið hróður þjóðar­inn­ar langt út fyr­ir land­stein­ana, hvort sem litið er til miðalda- eða sam­tíma­bók­mennta, mynd­list­ar, tón­list­ar, kvik­mynda eða sviðslista.

Um helg­ina urðu tíma­mót þegar ára­tuga­löng vinna söngv­ara og annarra sviðslista­manna bar loks ár­ang­ur. Alþingi samþykkti þá frum­varp menn­ing­ar­málaráðherra um stofn­un óperu á Íslandi. Með þessu er óper­unni tryggð sam­bæri­leg staða og öðrum sviðslist­um og verður hún kjarna­stofn­un óperu­list­ar á sama hátt og Þjóðleik­húsið í leik­list og Íslenski dans­flokk­ur­inn í danslist. Þetta er stórt skref fyr­ir ís­lenska óperu­list, en Íslend­ing­ar eiga marga framúrsk­ar­andi söngv­ara sem fá nú aukið svig­rúm til að starfa við list sína og þróa þetta mik­il­væga list­form á Íslandi.

Nýja óper­an verður rek­in sem hluti af Þjóðleik­hús­inu og mun hafa aðset­ur í Hörpu. Hún mun njóta góðs af öfl­ug­um innviðum Þjóðleik­húss­ins, ein­stakri sérþekk­ingu og traustu sam­bandi þess við þjóðina. Óper­an get­ur þannig nýtt stoðstarf­semi Þjóðleik­húss­ins á sviðum eins og rekstri, leik­muna­gerð, lýs­ingu, hljóðvinnslu, bún­ing­um og leik­gerv­um.

Sjálf hef ég alla tíð haft mikla ánægju af óperu­list­inni og átti þess kost að kynn­ast henni í gegn­um góða vin­konu mína, Mar­gréti Pét­urs­dótt­ur Jóns­son, sem fædd var í Bremen árið 1928. Hún var dótt­ir Pét­urs Á. Jóns­son­ar óperu­söngv­ara, sem fyrst­ur Íslend­inga söng inn á plöt­ur og átti far­sæl­an óperu­fer­il í Þýskalandi. Pét­ur stundaði nám í óperu­skóla Kon­ung­lega leik­húss­ins í Kaup­manna­höfn og starfaði víða í Þýskalandi, meðal ann­ars í Berlín, Kiel og Darmsta­dt. Hann endaði fer­il sinn við Deutsches Opern­haus í Berlín, eitt stærsta óperu­hús lands­ins, sann­ar­lega glæsi­leg­ur fer­ill. Pét­ur flutti fyrr heim til Íslands með fjöl­skyldu sína en stóð til. Helgaðist það af stöðunni í Þýskalandi og upp­gangi nas­isma. Mikið af lista­fólki flutti sig frá Þýskalandi vegna þessa og í aðdrag­anda seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Sam­töl mín við Mar­gréti um fer­il föður henn­ar og þróun óperu­list­ar opnuðu augu mín fyr­ir mik­il­vægi þess að efla óperu­starf­semi á Íslandi.

Það skipt­ir máli að skapa lista­fólki okk­ar um­gjörð þar sem það get­ur unnið að list sinni og glatt okk­ur hin. Einn mesti vaxt­ar­sproti okk­ar sam­fé­lags er í gegn­um skap­andi grein­ar. Við höf­um séð þær efl­ast veru­lega og sí­fellt fleiri starfa í þeim geira skap­andi greina til heilla fyr­ir sam­fé­lagið. Til ham­ingju, kæru lands­menn, með nýja óperu! Megi starf­semi henn­ar vaxa og dafna okk­ur öll­um til heilla.”

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Steingrímur Hermannsson var brúarsmiður íslenskra stjórnmála

Deila grein

30/06/2025

Steingrímur Hermannsson var brúarsmiður íslenskra stjórnmála

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, ritaði grein í Morgunblaðið í dag:

,,Íslenska sum­arið birt­ist okk­ur í öllu sínu veldi þessa dag­ana. Lang­ar og bjart­ar sum­ar­næt­ur, iðandi fugla­líf og ís­lensk nátt­úra í full­um skrúða. Á fimmtu­dag­inn 3. júlí á Þing­völl­um mun­um við minn­ast eins af okk­ar ást­sæl­ustu stjórn­mála­mönn­um, Stein­gríms Her­manns­son­ar, fv. for­sæt­is­ráðherra og for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins. Það er vel við hæfi að minn­ast nátt­úru­unn­and­ans Stein­gríms Her­manns­son­ar á Þing­völl­um um há­sum­ar.

Stein­grím­ur Her­manns­son er einn af ris­um ís­lenskr­ar stjórn­mála­sögu á 20. öld­inni. Hann lagði áherslu á frjáls­lynda um­bóta­stefnu og staðsetti flokk­inn á miðju stjórn­mál­anna. Hann sótti fersk sjón­ar­mið og nýj­ar hug­mynd­ir að utan, þar sem hann lærði í Banda­ríkj­un­um sem ung­ur maður. Á sama tíma var hann mik­ill sjálf­stæðis- og full­valdasinni.

Bein af­skipti Stein­gríms af stjórn­mál­um hóf­ust er hann varð formaður Fé­lags ungra fram­sókn­ar­manna í Reykja­vík 1962. Hann var kjör­inn alþing­ismaður fyr­ir Vest­fjarðakjör­dæmi í kosn­ing­un­um 1971 og var þingmaður Vest­f­irðinga í 16 ár, allt þar til hann fór í fram­boð í heima­kjör­dæmi sínu á Reykja­nesi. Sama árið og Stein­grím­ur varð alþing­ismaður, árið 1971, var hann kos­inn rit­ari Fram­sókn­ar­flokks­ins, og skömmu eft­ir að hann varð ráðherra var hann kos­inn formaður flokks­ins, vorið 1979, og gegndi því embætti til 1994.

Stein­grím­ur Her­manns­son var for­sæt­is­ráðherra á mikl­um um­brota­tím­um. Með yf­ir­veg­un og lausnamiðaðri hugs­un leiddi hann flokk sinn í gegn­um átök og breyt­ing­ar. Með góðri mennt­un, alþjóðlegri reynslu og per­sónu­legri nálg­un bjó hann til traust, bæði inn­an flokks og utan. Í tíð hans sat flokk­ur­inn í rík­is­stjórn nær sam­fleytt í ell­efu ár.

Eitt mesta póli­tíska af­rek rík­is­stjórn­ar hans var svo­kölluð þjóðarsátt árið 1990. Þar náði hann að byggja brýr milli launa­fólks, at­vinnu­lífs og stjórn­valda og stemma stigu við langvar­andi verðbólgu. Þjóðars­átt­in skilaði raun­veru­leg­um stöðug­leika og markaði tíma­mót í efna­hags­stjórn lands­ins. Stein­grím­ur lagði einnig grunn að nýj­um áhersl­um í stjórn­sýslu með stofn­un um­hverf­is­ráðuneyt­is­ins og embætt­is Umboðsmanns Alþing­is. Þar var hann langt á und­an sinni samtíð. Þá sýndi hann skýra póli­tíska sýn í ut­an­rík­is­mál­um. Hann kom Íslandi á kortið á alþjóðavett­vangi með gest­gjafa­hlut­verki í Höfðafund­in­um 1986 og með því að viður­kenna sjálf­stæði Eystra­salts­ríkj­anna fyrst allra ríkja árið 1991.

Ég hvet alla áhuga­sama um ís­lenska stjórn­mála­sögu til að mæta á Þing­velli við Hakið á fimmtu­dag­inn, klukk­an 20:00. Guðni Ágústs­son, fv. ráðherra, stýr­ir hátíðinni og munu gest­ir hans flytja er­indi til heiðurs Stein­grími Her­manns­syni. Karla­kór­inn Fóst­bræður mun syngja af sinni al­kunnu snilli. Hlakka til að sjá ykk­ur sem flest.”

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. júní 2025

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Ísland er fjarri vígaslóðum

Deila grein

23/06/2025

Ísland er fjarri vígaslóðum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, ritaði grein í Morgunblað dagsins um stöðuna í Mið-Austurlöndum:

„Friðsemd hef­ur ekki ein­kennt stöðuna í Mið-Aust­ur­lönd­um svo ára­tug­um skipt­ir. Ófriður­inn hef­ur komið í veg fyr­ir að vel­sæld og hag­sæld nái fót­festu. Líkt og dæmi eru um í mörg­um ríkj­um í Asíu, sem hafa kosið lýðræði sem sitt stjórn­ar­far.

Hörku­stríð hef­ur geisað í Mið-Aust­ur­lönd­um í að verða tvö ár og mann­fallið er gríðarlegt. Stig­mögn­un hef­ur átt sér stað og átök­in hafa breiðst út til Írans, þar sem Ísra­el gerði árás á kjarn­orku­rann­sókn­ar­miðstöðvar með það að mark­miði að koma í veg fyr­ir þróun kjarn­orku­vopna hjá klerka­stjórn­inni. Banda­rík­in hafa fylgt í kjöl­farið og varpað svo­kölluðum byrg­is­bresta-sprengj­um á þrjár kjarn­orku­rann­sókn­ar­miðstöðvar í Íran. Sér­fræðing­ar telja að meiri lík­ur en minni séu á að búið sé að stöðva þróun kjarn­orku­vopna í Íran að sinni. Tím­inn mun leiða í ljós hvort aðgerð Banda­ríkj­anna hafi heppn­ast og leiði til þess að það molni und­an klerka­stjórn­inni. Sag­an kenn­ir okk­ur hins veg­ar að breyt­ing­ar þurfi að koma að inn­an, þ.e. fólkið í land­inu þarf að vilja breyt­ing­ar og hafa aðstöðu til þess að knýja þær fram.

Saga þess svæðis sem til­heyr­ir Íran í dag er afar merk og var það miðpunkt­ur menn­ing­ar, trú­ar og heimsvelda í meira en 2.500 ár. Mik­ill menn­ing­ar­auður hef­ur orðið til á þessu svæði og mennt­un hef­ur verið í há­veg­um höfð. Frá valda­töku klerka­stjórn­ar­inn­ar hafa millj­ón­ir Írana hins veg­ar yf­ir­gefið landið sitt í leit að betra lífi. Spekilek­inn er mæld­ur í tonn­um. Far­sæl­ast væri ef fólkið í Íran bæri gæfu til þess að stuðla að lýðræðis­leg­um um­bót­um og væri í aðstöðu til að berj­ast fyr­ir slíku.

For­seti Banda­ríkj­anna tek­ur áhættu með þess­ari aðgerð gagn­vart helsta stuðnings­fólki sínu, sem er upp til hópa and­snúið hernaðaraðgerðum Banda­ríkj­anna á er­lendri grundu. Maga-hóp­ur­inn með Steven Bannon, fyrr­ver­andi ráðgjafa Trumps, fremst­an í flokki hef­ur lýst því yfir að Trump eigi ekki að fylgja Ísra­el að mál­um í ut­an­rík­is­stefnu. Ljóst er að Trump hef­ur ákveðið að verða ekki við þess­ari ósk og hef­ur tekið af­ger­andi ákvörðun með því að reyna að koma í veg fyr­ir þróun kjarn­orku­vopna í Íran. Ten­ing­un­um er kastað. Sagt er að Júlí­us Ses­ar hafi mælt þessi orð við her­menn sína þegar hann hélt suður yfir fljótið Rúbí­kon í átt­ina til Róm­ar árið 49 f.Kr. Áhætt­an sem Ses­ar tók var mik­il en aðgerðin heppnaðist. Óvissa rík­ir sann­ar­lega í Mið-Aust­ur­lönd­um og óljóst er á þessu stigi hvort áhætt­an sé þess virði fyr­ir for­seta Banda­ríkj­anna.

Spenn­an í heims­mál­un­um hef­ur sjald­an verið jafn­mik­il. Ísland er fjarri víga­slóðum og við eig­um að ein­beita okk­ur að því að halda okk­ur frá ófriði eins og þjóð okk­ar er frek­ast unnt. Við erum herlaus þjóð og staða okk­ar grund­vall­ast á því.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. júní 2025

Categories
Fréttir Greinar

Fögnum sjálfstæði Íslands

Deila grein

16/06/2025

Fögnum sjálfstæði Íslands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra ritaði grein í Morgunblaðið 16. júní 2025.

„Þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga er á morgun, 17. júní. Á þessum degi minnumst við þess þegar Ísland varð sjálfstætt lýðveldi árið 1944 – eftir nær 700 ára erlend yfirráð. Setjum okkur í spor forfeðra og formæðra okkar á þessum sögulega degi fyrir rúmum 80 árum. Þið getið ímyndað ykkur andrúmsloftið í þjóðfélaginu: fögnuður og bjartsýni ríktu, því loks var sjálfstæði þjóðarinnar komið í höfn eftir langvarandi og erfiða baráttu. Öllu var tjaldað til á Þingvöllum, 1.500 tjaldstæðum úthlutað og 6.000 manns fluttir með leigu bílum og fullt af fánum pantað! Kvikmyndasafn Íslands á mikilvægt efni frá þessum merka degi.

Það er ekki tilviljun að 17. júní, afmælisdagur Jóns Sigurðssonar, leiðtoga þjóðfrelsisbaráttunnar, var valinn sem þjóðhátíðardagur. Jón var tákn um þrautseigju, rökhugsun og trú á mátt lýðræðis og sjálfstæðis. Þjóðin hafði gengið í gegnum margvíslegar þrautir á umliðnum öldum: Litlu-ísöld, Svarta dauða, erfið siðaskipti, einokunarverslun, einveldi Dana, móðuharðindi og fjöldaflutninga fólks vestur um haf. Samt varð baráttan fyrir sjálfstæði að veruleika og þegar þjóðin kaus sögðu 97% já við sambandsslitunum við Danmörk og stofnun lýðveldis. Kosningaþátttakan var 98%, sem sýnir hve mikið Íslendingar þráðu að ráða sér sjálfir.

Ísland hefur síðan þá tekið stórstígum framförum. Árið 2024 var Ísland í efsta sæti á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Það er erfitt að trúa öðru en að þessi þróun hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra sem börðust fyrir sjálfstæðinu. Árangurinn sýnir hverju smá þjóð með skýra sýn og sterka sjálfsmynd getur áorkað. Lykilatriði í áframhaldandi sjálfstæði þjóðarinnar er full yfirráð yfir auðlindum Íslands til að tryggja velsæld á Íslandi. Frá lýðveldisstofnun hefur verið mikil áhersla á þennan þátt og að gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins standi undir innflutningi.

Þrátt fyrir árangurinn eru blikur á lofti. Núverandi ríkisstjórn undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hefur sett Evrópusambandsaðild aftur á dagskrá. Verja á tugi milljóna króna í verkefnið. Slík ákvörðun í þeirri alþjóðlegri óvissu sem ríkir um þessar mundir vekur upp áleitnar spurningar.

Ísland hefur á lýðveldistímanum tryggt sér trausta stöðu í alþjóðakerfinu með EES-samningnum, stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin. Staða Íslands er sterk í alþjóðlegu samhengi ásamt því að full yfirráð yfir auðlindum okkar eru tryggð. Í þeirri óvissu sem ríkir er brýnt að stjórnvöld sýni stjórnkænsku, þrautseigju og hyggindi. Sjálfstæði þjóðarinnar skiptir öllu máli til að tryggja góð lífskjör; höfnum Evrópusambandsvegferð ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Fögnum sjálfstæði þjóðarinnar á þjóðhátíðardeginum 17. júní!“