Categories
Fréttir Greinar

Til hvers var barist?

Deila grein

25/05/2025

Til hvers var barist?

Til að auka hag­sæld og bæta lífs­kjör á Íslandi voru háð þrjú erfið þorska­stríð við Bret­land. Með þraut­seigju, sam­vinnu og framtíðar­sýn tókst að stækka land­helg­ina í 200 míl­ur. Þetta var gert í fjór­um áföng­um. Fyrst úr 3 í 4 sjó­míl­ur árið 1952, 12 míl­ur (1958), 50 míl­ur (1972) og svo loks 200 míl­ur (1976). Þessi sókn Íslend­inga varð að einni mestu lífs­kjara­bót sem ein þjóð hef­ur upp­lifað á svo skömm­um tíma. Allt til árs­ins 2000 komu yfir 60% af gjald­eyris­tekj­um þjóðarbús­ins frá sjáv­ar­út­vegi, sem gegndi lyk­il­hlut­verki í efna­hags­legu sjálf­stæðu þjóðar­inn­ar. Hæst fór hlut­deild sjáv­ar­út­vegs í vöru­út­flutn­ingi í rúm 97% árið 1949.

Á síðustu 50 árum hef­ur sam­setn­ing út­flutn­ings breyst tölu­vert, og nú koma um 22% gjald­eyristekna frá sjáv­ar­út­vegi. Það hef­ur fært þjóðarbú­inu aukið jafn­vægi og minni sveifl­ur, en um leið sýn­ir þetta hversu mik­il áhrif sjáv­ar­út­veg­ur­inn hef­ur enn. Gjald­miðill­inn var háður gengi sjáv­ar­af­urða, og sam­keppn­is­hæfni lands­ins réðst að stór­um hluta af af­komu grein­ar­inn­ar. Þær kerf­is­breyt­ing­ar sem gerðar voru á sín­um tíma til að styrkja meg­in­út­flutn­ings­grein þjóðar­inn­ar urðu einnig grunn­ur að því að skapa um­gjörð fyr­ir ný­sköp­un og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf.

Í vik­unni var kynnt­ur nýr samn­ing­ur Evr­ópu­sam­bands­ins við Bret­land. ESB-rík­in hafa áfram aðgang að fiski­miðum Bret­lands næstu tólf árin, sem er veru­leg stefnu­breyt­ing. Bret­ar vildu upp­haf­lega tak­marka aðgang­inn við fjög­ur til fimm ár. Sjáv­ar­út­vegs­stefna ESB hef­ur verið gagn­rýnd og hef­ur skaðað bresk­an sjáv­ar­út­veg veru­lega. For­sæt­is­ráðherra Bret­lands hef­ur sætt harðri gagn­rýni fyr­ir að hafa gefið eft­ir kröf­una um full yf­ir­ráð yfir fiski­miðunum, þó að í staðinn hafi Bret­land fengið aukið aðgengi að mörkuðum fyr­ir vör­ur og þjón­ustu. Fram­lag sjáv­ar­út­vegs í lands­fram­leiðslu Breta er ekki nema 0,14% sam­an­borið við 6% á Íslandi. Mik­il­vægi sjáv­ar­út­vegs fyr­ir ís­lenskt efna­hags­líf er marg­falt og því hags­mun­ir sam­kvæmt því.

Helstu út­flutn­ings­grein­ar okk­ar búa nú við mikla óvissu. Í fyrsta lagi er stefnt að veru­legri skatta­hækk­un án þess að nægi­legt sam­tal eða grein­ing fari fram. Í öðru lagi rík­ir alþjóðleg óvissa vegna nýrr­ar viðskipta­stefnu Banda­ríkj­anna, þar sem erfitt er að sjá fyr­ir þróun mála. Í þriðja lagi hef­ur rík­is­stjórn­in sett það á stefnu­skrá að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Öll þessi óvissa dreg­ur úr fjár­fest­ingu, minnk­ar hag­vöxt og eyk­ur áhættu í at­vinnu­líf­inu. Tveir af þess­um óvissuþátt­um, skatta­hækk­an­ir og ESB-veg­ferð, eru sjálf­skapaðir og vekja að mörgu leyti undr­un. Gleym­um því ekki að öll hag­sæld þjóðar­inn­ar grund­vall­ast á verðmæta­sköp­un, dugnaði og far­sælli framtíðar­sýn. Evr­ópu­för rík­is­stjórn­ar­inn­ar er ekki leiðin til hag­sæld­ar og við get­um spurt okk­ur, til hvers var bar­ist á dög­um þorska­stríðanna?

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. ut­an­rík­is­ráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ísland er efst á lífskjaralista SÞ

Deila grein

19/05/2025

Ísland er efst á lífskjaralista SÞ

Á sól­rík­um og björt­um dög­um á Íslandi finnst okk­ur flest­um ástæða til að gleðjast yfir land­inu okk­ar og þeim gæðum sem það hef­ur upp á að bjóða. Sjálf hef ég ávallt verið stolt af Íslandi, þeim ár­angri sem náðst hef­ur og þeim tæki­fær­um sem sam­fé­lagið býður upp á. Við búum í öfl­ugu og fram­sæknu sam­fé­lagi sem hef­ur lagt hart að sér við að skapa þau lífs­kjör sem við njót­um í dag. Efna­hags­leg­ar fram­far­ir síðustu ald­ar vekja at­hygli á heimsvísu.

Ný­verið birti Þró­un­ar­áætl­un Sam­einuðu þjóðanna lífs­kjaralista sinn, þar sem horft er til lífs­líka, mennt­un­ar og þjóðartekna á mann. Þar kem­ur fram að Ísland trón­ir nú á toppi list­ans, efst allra ríkja heims. Sam­kvæmt skýrsl­unni hef­ur lífs­kjara­vísi­tala Íslands hækkað um tæp 16%, sem má einkum rekja til auk­inna lífs­líka, lengri skóla­göngu og hækk­un­ar þjóðartekna um 77,3%. Sér­stök áhersla er lögð á áhrif gervi­greind­ar í skýrsl­unni og bent á að hún muni umbreyta nán­ast öll­um þátt­um sam­fé­lags­ins. Há­tekju­ríki, þar á meðal Ísland, eru sögð hafa for­skot vegna þróaðra sta­f­rænna innviða. Þetta set­ur Ísland í ein­stak­lega sterka stöðu til að nýta mögu­leika gervi­greind­ar til sam­fé­lags­legr­ar upp­bygg­ing­ar – með skýrri sýn á þær kerf­is­breyt­ing­ar sem eru fram und­an, meðal ann­ars á vinnu­markaði.

Þessi ár­ang­ur Íslands á lífs­kjaralist­an­um gef­ur til­efni til að staldra við og meta hvað hef­ur verið gert vel. Eitt af því sem skipt­ir sköp­um er öfl­ug þróun mennta­kerf­is­ins, einkum á fram­halds­skóla­stig­inu, þar sem brott­hvarf nem­enda hef­ur dreg­ist veru­lega sam­an á und­an­förn­um árum. Fram kem­ur í skýrsl­unni að þar stend­ur Ísland fram­ar en til að mynda Nor­eg­ur. Síðasta rík­is­stjórn lagði ríka áherslu á að efla fram­halds­skóla­stigið og fjár­festi mark­visst í því – meðal ann­ars með sér­stakri fjár­veit­ingu upp á tæp­an millj­arð króna til að fjár­festa í því að minnka brott­hvarfið í sam­starfi við okk­ar öfl­uga skóla­sam­fé­lagið. Sam­starfið skilaði því að brott­hvarf hef­ur aldrei mælst lægra á Íslandi.

Það er þó ekki síður mik­il­vægt að horfa fram á við. Nú­ver­andi fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar ger­ir ráð fyr­ir veru­leg­um niður­skurði til mennta­mála, einkum á fram­halds­skóla­stigi. Sá ár­ang­ur sem náðst hef­ur, bæði í að draga úr brott­hvarfi og efla verk­nám, stend­ur því tæpt – og þar með einnig þau lífs­kjör sem gera okk­ur kleift að skara fram úr á heimsvísu.

Rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur virðist ekki hafa metnað til að styrkja mennta­kerfið á þeim tím­um þegar mik­il­vægi mennt­un­ar er hvergi meira – á tím­um gervi­greind­ar og tækni­breyt­inga. Verk­stjórn­in geng­ur í það að brjóta niður þann markverða ár­ang­ur sem náðst hef­ur. Fram­sókn legg­ur áherslu á að með öfl­ugu, aðgengi­legu og metnaðarfullu mennta­kerfi tryggj­um við að Ísland verði áfram land tæki­fær­anna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Samvinnuhreyfingin á Íslandi

Deila grein

10/05/2025

Samvinnuhreyfingin á Íslandi

Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa helgað þetta ár sam­vinnu­hreyf­ing­um um all­an heim und­ir yf­ir­skrift­inni „Sam­vinna um betri heim“. Þar er horft til já­kvæðra sam­fé­lags­legra áhrifa sam­vinnu­fé­laga og hvernig þau hafa leyst marg­ar áskor­an­ir sam­tím­ans, einkum á sviði efna­hags- og fé­lags­mála.

Sam­vinnu­hreyf­ing­in á Íslandi á ræt­ur að rekja til árs­ins 1882, þegar Kaup­fé­lag Þing­ey­inga var stofnað. Á þess­um tíma höfðu kjör bænda versnað veru­lega, einkum vegna hás vöru­verðs og ein­ok­un­ar kaup­manna. Bænd­ur vildu tryggja sér betri viðskipta­kjör með því að sam­ein­ast um vöru­kaup og sam­eig­in­lega sölu afurða. Stofn­un fé­lags­ins markaði upp­haf nýrr­ar fjölda­hreyf­ing­ar meðal Íslend­inga og inn­an fárra ára­tuga spruttu kaup­fé­lög upp víða um land.

Fyrstu kaup­fé­lög­in voru hluti af þjóðern­is­vakn­ingu og sjálf­stæðis­bar­áttu 19. ald­ar. Fjöldi sam­vinnu­fé­laga var stofnaður, einkum á Norður­landi og Aust­ur­landi. Þar má nefna Kaup­fé­lag Eyf­irðinga (KEA), stofnað 1886, og Kaup­fé­lag Skag­f­irðinga (KS), stofnað 1889, auk fjöl­margra smærri fé­laga um land allt. Áhrif hreyf­ing­ar­inn­ar voru víðtæk og um tíma var þriðjung­ur þjóðar­inn­ar fé­lag­ar í sam­vinnu­fé­lög­um.

Fram­gang­ur sam­vinnu­hreyf­ing­ar­inn­ar skipti sköp­um fyr­ir efna­hags­lega þróun Íslands á 20. öld. Efna­hags­leg framþróun Íslands varð hraðskreiðari og bjó til meiri jöfnuð vegna sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar. Sam­vinnu­hreyf­ing­in kom að mörg­um mik­il­væg­um fé­lags­leg­um verk­efn­um, til dæm­is í hús­næðismál­um, þar sem bygg­ing­ar­sam­vinnu­fé­lög reistu fjöl­býl­is­hús víða um þétt­býli. Þannig ruddi hreyf­ing­in braut­ina fyr­ir at­vinnuþróun og innviðaupp­bygg­ingu í fjöl­mörg­um byggðarlög­um, oft í sam­starfi við bænda- og verka­lýðshreyf­ing­ar.

Sam­vinnu­fé­lög eru stofnuð af ein­stak­ling­um til að vinna að sam­eig­in­leg­um hags­mun­um og eru jafn­an rek­in á lýðræðis­leg­um grunni. Hagnaði þeirra er ráðstafað til sam­eig­in­legra sjóða og upp­bygg­ing­ar frem­ur en að vera greidd­ur út sem arður. Meg­in­mark­miðið er að byggja upp nærsam­fé­lagið og veita fé­lags­mönn­um hag­kvæma þjón­ustu. Níu kaup­fé­lög eru starf­andi í dag og eru öll að efla nærsam­fé­lag sitt.

Sam­vinnu­formið á enn fullt er­indi í nú­tíma­legt ís­lenskt rekstr­ar­um­hverfi. Með samþykkt nýrr­ar lög­gjaf­ar á síðasta þingi hef­ur stofn­un sam­vinnu­fé­laga verið ein­földuð; lág­marks­fjöldi stofn­enda var lækkaður úr 15 í 3 aðila. Á sama tíma og gervi­greind mun hafa djúp­stæð áhrif á vinnu­markaðinn gef­ast ný tæki­færi til ný­sköp­un­ar og at­vinnu­upp­bygg­ing­ar með aðstoð sam­vinnu­fé­laga.

Stærstu breyt­ing­ar á vinnu­markaði í ára­tugi eru fram und­an. Ísland býr yfir öll­um for­send­um til að nýta gervi­greind­ina til að auka hag­vöxt og vel­sæld. Til þess þarf sam­vinnu­hug­sjón­ina – nú meira en nokkru sinni fyrr.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Samvinnuhreyfingin á alþjóðavísu

Deila grein

05/05/2025

Samvinnuhreyfingin á alþjóðavísu

Árið 2025 hjá Sam­einuðu þjóðunum er til­einkað sam­vinnu­hreyf­ing­um um heim all­an und­ir yf­ir­skrift­inni: „Sam­vinna um betri heim“. Lögð er áhersla á já­kvæð áhrif sam­vinnu­fé­laga og hvernig þeim hef­ur tek­ist að koma lausn­ir á mörg­um áskor­un­um sam­tím­ans.

Sam­vinnu­hreyf­ing­in á ræt­ur sín­ar að rekja til þess upp­róts sem kom í kjöl­far iðnbylt­ing­ar­inn­ar. Mestu efna­hags­legu fram­far­ir hag­sög­unn­ar eiga upp­runa sinn að rekja til iðnbylt­ing­ar­inn­ar en þar fer hag­vöxt­ur sam­fé­laga fyrst af stað. Hins veg­ar voru vinnuaðstæður og kjör verka­fólks­ins oft afar bág­bor­in og sem svar við þessu ástandi tók fólk sig sam­an og stofnaði sam­vinnu­fé­lög, þ.e. fyr­ir­tæki í eigu og und­ir stjórn fé­lag­anna, sem tóku ákv­arðanir og deildu jafnt arði fé­lags­ins. Fæðing­arstaður sam­vinnu­hreyf­ing­ar­inn­ar er í Rochdale á Eng­land en árið 1844 stofnaði hóp­ur 28 vefara og hand­verks­manna versl­un sem seldi gæðavör­ur á sann­gjörnu verði. Í Frakklandi boðaði Char­les Fourier sam­fé­lags­lega sam­hjálp og sam­vinnu. Í Þýskalandi störfuðu Friedrich Raif­feisen og Her­mann Schulze-Delitzsch að stofn­un lána­sam­vinnu­fé­laga til stuðnings bænd­um og hand­verks­mönn­um. Í Banda­ríkj­un­um voru sett á lagg­irn­ar sam­vinnu­fé­lög í tengsl­um við land­búnað, þar sem bænd­ur tóku sig sam­an til að fá betra verð á vör­um sín­um og samn­inga um inn­kaup og dreif­ingu. Sam­vinnu­hreyf­ing­in á Íslandi á ræt­ur sín­ar að rekja til árs­ins 1882, þegar stofnað var Kaup­fé­lag Þing­ey­inga. Kjör bænda höfðu farið versn­andi, og ein­kennd­ust af háu vöru­verði og ein­ok­un kaup­manna. Sam­vinnu­hreyf­ing­in á Íslandi hef­ur verið veiga­mik­ill þátt­ur í at­vinnu- og fé­lags­mál­um þjóðar­inn­ar í yfir eina og hálfa öld. Níu kaup­fé­lög eru starf­rækt á Íslandi í dag.

Um 3 millj­ón­ir sam­vinnu­fé­laga eru starf­andi í heim­in­um í dag. Allt frá stór­fyr­ir­tækj­um í vel­ferðarsam­fé­lög­um til sam­yrkju­fé­laga í fá­tæk­um lönd­um. Fé­lags­menn eru um 1,2 millj­arðar og starfs­fólk er um 280 millj­ón­ir. Til hins fé­lags­lega hag­kerf­is telj­ast svo marg­vís­leg önn­ur fé­lags­drif­in fyr­ir­tæki og óhagnaðardrif­in fé­lög sem sam­an­lagt eru veru­leg­ur hluti af efna­hags­um­svif­um heims­ins.

Sam­vinnu­formið má nýta mun bet­ur. Á síðasta þing­vetri var samþykkt lög­gjöf um sam­vinnu­fé­lög. Þetta er fyrsta heild­ar­end­ur­skoðunin á lög­un­um í ára­tugi. Ein veiga­mesta breyt­ing­in var að auðvelda stofn­un sam­vinnu­fé­lags. Lág­marks­fjöldi stofn­enda var lækkaður í þrjá úr 15. Þessi breyt­ing end­ur­spegl­ar að sum verk­efni nú­tím­ans geta haf­ist með fá­menn­um hópi sem þó hef­ur þörf fyr­ir sam­vinnu­formið. Ég hvet lands­menn til að kynna sér sam­vinnu­hreyf­ing­una bet­ur á ári henn­ar hjá Sam­einuðu þjóðunum og hvaða tæki­færi fel­ast í henni. Sam­einuðu þjóðirn­ar leggja mikið upp úr getu sam­vinnu­fé­laga til að stuðla að vel­sæld sem flestra í sam­fé­lag­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

140 ára fæðingarafmæli Jónasar Jónssonar frá Hriflu

Deila grein

01/05/2025

140 ára fæðingarafmæli Jónasar Jónssonar frá Hriflu

Við minn­umst 140 ára fæðing­araf­mæl­is Jónas­ar Jóns­son­ar frá Hriflu, sem var einn áhrifa­mesti stjórn­mála­maður og hugsuður Íslands á sinni tíð. Jón­as frá Hriflu, eins og hann er jafn­an kallaður, var leiðandi afl í Fram­sókn­ar­flokkn­um og gegndi lyk­il­hlut­verki á um­brota­tím­um ís­lenskr­ar þjóðar. Jón­as var tákn og and­lit flokks­ins í huga Íslend­inga á 20. öld­inni.

Jón­as frá Hriflu

Jón­as Jóns­son fædd­ist í Bárðar­dal árið 1885, 1. maí. Hann ólst upp við sveita­störf á bæn­um Hriflu, æsku­heim­ili sínu, og kynnt­ist þar af eig­in raun þeim lífs­kjör­um og áskor­un­um sem ís­lensk­ir bænd­ur og alþýða stóðu frammi fyr­ir á þess­um tíma. Þrátt fyr­ir bág kjör sótt­ist Jón­as eft­ir mennt­un. Hann stundaði nám bæði í Dan­mörku og Englandi. Mennta­veg­ur hans var nokkuð óhefðbund­inn en mótaði hann og varð til þess að hann fékk brenn­andi áhuga á upp­bygg­ingu ís­lensks sam­fé­lags. Að námi loknu sneri Jón­as aft­ur heim upp­full­ur af hug­mynd­um um fé­lags­leg­ar fram­far­ir og fram­sókn. Hann hóf störf sem kenn­ari og fræðimaður og lét strax að sér kveða í umræðu um þjóðfé­lags­mál.

Stofn­un Fram­sókn­ar­flokks­ins og póli­tísk­ar lín­ur lagðar

Póli­tísk arf­leifð Jónas­ar frá Hriflu spann­ar marga þætti sam­fé­lags­ins og má skil­greina hann sem rót­tæk­an um­bóta­mann. Jón­as Jóns­son fæðist um svipað leyti og sam­vinnu­hug­sjón­in festi hér ræt­ur. Hann lagðist snemma á sveif með henni. Sam­vinnu­hreyf­ing­in var í hans aug­um meg­in­stoð fé­lags­hyggjuþjóðfé­lags­ins. „Stofn­un Fram­sókn­ar­flokks­ins var bein­lín­is skipu­lögð af hon­um,“ sagði Jón Sig­urðsson í Ysta­felli um Jón­as Jóns­son frá Hriflu. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var stofnaður 16. des­em­ber árið 1916. Að auki var hann einn af frum­kvöðlun­um að stofn­un Alþýðusam­bands Íslands og Alþýðuflokks­ins haustið 1916. Jón­as hafði mjög skýra sýn á það hvernig hið póli­tíska lands­lag ætti að vera á Íslandi á þess­um tíma. Hann taldi að það sem myndi henta Íslandi best væri „eðli­leg flokka­skipt­ing“, þ.e. þrískipt­ing í íhalds­flokk, frjáls­lynd­an flokk og jafnaðarmanna­flokk.

Póli­tísk­ur fer­ill Jónas­ar

Jón­as fer að starfa með Fram­sókn­ar­flokkn­um og var driffjöðrin að stofn­un dag­blaðsins Tím­ans, 17. mars 1917. Jón­as var kjör­inn á Alþingi fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn árið 1922. Jón­as var þekkt­ur fyr­ir skel­egg viðhorf sín og kröft­ug­ar ræður þar sem hann mælti fyr­ir fé­lags­legu rétt­læti, mennt­un al­menn­ings og fullu sjálf­stæði Íslands. Árið 1927 varð hann dóms- og kirkju­málaráðherra í rík­is­stjórn og gegndi því embætti til 1932. Sem for­ystumaður í Fram­sókn­ar­flokkn­um mótaði Jón­as stefn­una á þess­um um­brota­tím­um. Hann var formaður flokks­ins árin 1934 til 1944 og stýrði Fram­sókn í gegn­um kreppu­ár­in og síðari heims­styrj­öld­ina. Á þeim tíma festi flokk­ur­inn sig í sessi sem einn af burðarás­um ís­lenskra stjórn­mála.

Mennt­un þjóðar­inn­ar

Mennta­mál þjóðar­inn­ar voru Jónasi einkum hug­leik­in og upp­bygg­ing mennta­kerf­is­ins. Hann átti stór­an þátt í stofn­un og efl­ingu margra mennta­stofn­ana. Má þar nefna Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri, Mennta­skól­ann á Laug­ar­vatni, Sam­vinnu­skól­ann og Héraðsskól­ann á Laug­um. Þá gegndi hann um tíma starfi skóla­stjóra Sam­vinnu­skól­ans, fræðslu­stofn­un sam­vinnu­hreyf­ing­ar­inn­ar. Hús­næðismál Há­skóla Íslands voru hon­um einnig mik­il­væg og í byrj­un fjórða ára­tug­ar­ins beitti hann sér fyr­ir setn­ingu laga sem heim­iluðu bygg­ingu nýs há­skóla­húss. Með þessu lagði Jón­as sitt af mörk­um til að auka mennt­un bæði í þétt­býli og dreif­býli, í sam­ræmi við þá sann­fær­ingu sína að þekk­ing og fram­far­ir ættu að ná til allra lands­manna.

Menn­ing­ar­mál ætíð veiga­mik­il

Menn­ing­ar­mál þjóðar­inn­ar voru hon­um ætíð of­ar­lega í huga. Hann var ein­dreg­inn talsmaður ís­lenskr­ar tungu, bók­mennta og lista og lagði áherslu á að menn­ing þjóðar­inn­ar byggðist á þjóðleg­um grunni. Oft var Jón­as gagn­rýn­inn á lista­menn eða strauma í menn­ingu sem hon­um þóttu of fram­andleg­ir eða í and­stöðu við hefðir þjóðar­inn­ar. Deil­ur hans við ýmsa fræðimenn og rit­höf­unda vöktu tals­verða at­hygli á sín­um tíma, enda þótti sum­um sem Jón­as gengi of langt í menn­ing­ar­mál­um. Hins veg­ar beitti hann sér öt­ul­lega fyr­ir því að styrkja um­gjörð menn­ing­ar­mála og má nefna Menn­ing­ar­sjóð, stofn­un Rík­is­út­varps­ins, styrki til lista­manna úr rík­is­sjóði og að reist yrði Þjóðleik­hús.

Loka­orð

Nú, 140 árum eft­ir fæðingu Jónas­ar frá Hriflu, má sjá að margt í framtíðar­sýn hans hef­ur orðið að veru­leika og var til þess fallið að efla ís­lenskt sam­fé­lag. Auðvitað hef­ur tím­inn einnig fært sam­fé­lag­inu breyt­ing­ar sem Jón­as gat vart séð fyr­ir, en grunn­stef hans um mennt­un, sam­vinnu og þjóðlega sjálfs­virðingu má enn greina víða. Arf­leifð Jónas­ar lif­ir þannig góðu lífi og minn­ir okk­ur á mik­il­vægi framtíðar­sýn­ar og hug­sjóna við upp­bygg­ingu þjóðar. Segja má að áhrif Jónas­ar á ís­lenskt sam­fé­lag á mik­il­vægu mót­un­ar­skeiði eigi sér fáar hliðstæður.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Spá 15% samdrætti í hagvexti 2025

Deila grein

26/04/2025

Spá 15% samdrætti í hagvexti 2025

Alþjóðamarkaðir ein­kenn­ast nú af mikl­um sveifl­um og tauga­titr­ingi. Helsta ástæða er ný og óstöðug tolla­stefna Banda­ríkja­stjórn­ar, ásamt óvissu í efna­hags­stjórn og stjórn­festu. Af­leiðing­arn­ar eru víðtæk­ar, enda hef­ur heims­mynd alþjóðaviðskipta verið gjör­bylt á fáum vik­um og í raun 100 ár aft­ur í tím­ann.

Í þess­um aðstæðum fer fram vor­fund­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins (AGS), þar sem kynnt var ný hag­vaxt­ar­spá. AGS spá­ir nú að hag­vöxt­ur á heimsvísu verði 2,8% árið 2025 og 3,0% árið 2026 – niður úr 3,3%. Þetta jafn­gild­ir sam­tals 0,8 pró­sentu­stiga lækk­un, eða um 15% sam­drætti, sem er veru­lega und­ir meðaltali ár­anna 2000-2019, sem nam 3,7%. Þetta eru mik­il tíðindi, einkum í kjöl­far efna­hags­legs áfalls covid-19 og stríðsins í Úkraínu.

Krist­al­ina Georgieva fram­kvæmda­stjóri AGS nefndi þrjár megin­á­stæður þessa sam­drátt­ar:

Í fyrsta lagi, þá er óvissa kostnaðar­söm. Nú­tíma­fram­leiðsla bygg­ist á flókn­um virðiskeðjum, þar sem inn­flutt hrá­efni og hlut­ir koma frá mörg­um ríkj­um. Verð á einni vöru get­ur ráðist af toll­um í tug­um landa. Þegar toll­ar hækka eða lækka fyr­ir­vara­laust verður skipu­lagn­ing erfið. Skip á hafi úti vita jafn­vel ekki í hvaða höfn þau eiga að leggj­ast. All­ir verða óör­ugg­ir, fjár­fest­ar fresta ákvörðunum og all­ur viðnámsþrótt­ur er auk­inn.

Í öðru lagi, þá hafa aukn­ar viðskipta­hindr­an­ir strax nei­kvæð áhrif á hag­vöxt. Toll­ar, líkt og aðrir skatt­ar, afla tekna en minnka fram­leiðslu. Hag­sag­an sýn­ir að toll­ar bitna ekki aðeins á viðskipta­lönd­um held­ur einnig á inn­flytj­end­um og neyt­end­um, þ.e. með lægri hagnaði og hærra vöru­verði. Þegar kostnaður aðfanga hækk­ar minnk­ar hag­vöxt­ur.

Í þriðja lagi, þegar fram­leiðsla fær skjól fyr­ir sam­keppni minnka hvat­ar til hagræðing­ar og ný­sköp­un­ar. Frum­kvöðla­starf­semi vík­ur fyr­ir beiðnum um und­anþágur, rík­isaðstoð og vernd. Þetta bitn­ar sér­stak­lega á litl­um, opn­um hag­kerf­um, eins og Íslandi. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hvet­ur aðild­ar­rík­in sín að greiða fyr­ir alþjóðaviðskipt­um, tryggja efna­hags­leg­an og fjár­mála­leg­an stöðug­leika og hrinda af stað um­bót­um sem stuðla að hag­vexti.

Ég hvet for­sæt­is­ráðherra til að taka mið af þess­ari ráðgjöf Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins og gjör­breyttu lands­lagi heimsviðskipta. Nauðsyn­legt er að minnka þá óvissu sem rík­ir í lyk­ilút­flutn­ings­grein­um þjóðar­inn­ar. Eðli­legt er að auðlinda­gjöld séu sann­gjörn en um­gjörðin verður að byggj­ast á gagn­sæi og fyr­ir­sjá­an­leika. Far­sæl­ast er að vinna með fólki og aðilum vinnu­markaðar­ins. Þannig er hægt að ná sam­eig­in­leg­um mark­miðum sam­fé­lags­ins um að auka vel­sæld á Íslandi.

Þessi heima­til­búna óvissa rík­is­stjórn­ar­inn­ar mun draga úr fjár­fest­ingu og minnka hag­vöxt, því geta tekj­ur rík­is­sjóðs lækkað í stað þess að hækka. Hið fornkveðna á hér við: „Í upp­hafi skal end­inn skoða.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Passíusálmarnir eru þjóðarauður

Deila grein

19/04/2025

Passíusálmarnir eru þjóðarauður

Ísland er auðugt land. Ríki­dæmi okk­ar felst meðal ann­ars í tungu­mál­inu okk­ar sem sam­ein­ar þjóðina og varðveit­ir heims­bók­mennt­ir miðalda. Þessi stór­brotni menn­ing­ar­arf­ur hef­ur lagt grunn að þeirri vel­sæld og vel­ferð sem við njót­um í dag. Það er lofs­vert að sjá hversu mikla rækt Íslend­ing­ar leggja við skap­andi grein­ar og hvað við njót­um þeirra ríku­lega í okk­ar dag­lega lífi. Einnig er til­komu­mikið að fylgj­ast með lista­mönn­um okk­ar ná góðum ár­angri á sínu sviði, hvort held­ur hér heima eða á heimsvísu. All­ar list­grein­ar okk­ar eiga framúrsk­ar­andi ein­stak­linga – hvort sem um er að ræða mynd­list, tónlist, bók­mennt­ir, kvik­mynd­ir eða hönn­un.

Páska­hátíðin er kjör­inn tími fyr­ir sam­vist­ir við sína nán­ustu og njóta þess sem er í boði á vett­vangi hinna skap­andi greina. Vita­skuld er þetta einnig til­val­inn tími til að íhuga boðskap þess­ar­ar trú­ar­hátíðar. Pass­íusálm­ar Hall­gríms Pét­urs­son­ar eru órjúf­an­lega tengd­ir pásk­um og hafa fylgt ís­lensku þjóðinni um ald­ir. Að mínu mati eru þetta feg­urstu sálm­ar sem ort­ir hafa verið. Ég les þá ávallt í aðdrag­anda hátíðar­inn­ar, enda fjalla þeir um síðustu daga Jesú Krists – píslar­sög­una, dauðann og upprisuna.

Eitt af því sem heill­ar mig við sálm­ana er hversu per­sónu­leg­ir þeir eru. Það er eins og höf­und­ur­inn vefji eig­in ör­lög og reynslu inn í text­ann. Í Pass­íusálm­un­um öðlast ís­lenskt mál nýj­ar vídd­ir feg­urðar og næmni, sem skýr­ir djúp áhrif þeirra á þjóðarsál­ina. Orð eins og ást­vina­hugg­un, hjarta­geð, dá­semd­ar­kraft­ur, kær­leiks­hót og hryggðarspor fylla text­ann af hlýju og von um betri tíð.

Pass­íusálm­arn­ir eru mikið verk. Í fimm­tíu sálm­um er dreg­in upp drama­tísk mynd af síðustu dög­um Jesú Krists. Hápunkt­ur verks­ins er í 25. sálm­in­um, þar sem Jesús er leidd­ur út og Pílatus legg­ur til að hann verði náðaður, en mann­fjöld­inn heimt­ar að hann verði kross­fest­ur. Þetta er jafn­framt talið eitt feg­ursta versið í öll­um sálm­un­um og dreg­ur það sam­an meg­in­boðskap verks­ins – að mann­kynið allt hlaut þá gjöf að vera leitt inn til Guðs með fórn son­ar­ins. Hér kem­ur 25. sálm­ur­inn, 10. vers:

Út geng ég ætíð síðan

í trausti frels­ar­ans

und­ir blæ him­ins blíðan

blessaður víst til sanns.

Nú fyr­ir nafnið hans

út borið lík mitt liðið

leggst og hvíl­ist í friði,

sál fer til sælu­ranns.

Við erum rík sem þjóð að geta hallað okk­ur aft­ur um páska­hátíðina og notið þessa auðuga menn­ing­ar­arfs. Við erum líka afar lán­söm að búa í landi þar sem friður og frelsi eru ríkj­andi.

Gleðilega páska!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Deila grein

10/04/2025

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Braut­skrán­ing­um úr iðnnámi hjá ein­stak­ling­um yngri en 21 árs hef­ur fjölgað um 150% frá ár­inu 2016, sam­kvæmt töl­fræði Hag­stofu Íslands. Al­gjör straum­hvörf hafa orðið í áhuga á námi í iðngrein­um.

Eitt af áherslu­mál­um síðustu rík­is­stjórn­ar var að efla iðnnám á Íslandi, og því má með sanni segja að það hafi tek­ist í góðu sam­starfi við skóla­sam­fé­lagið, at­vinnu­lífið og sveit­ar­fé­lög­in. Mennta­stefna til árs­ins 2030 legg­ur sér­stak­an metnað í iðnnám og fram­kvæmda­áætl­un um stefn­una. Megin­á­stæða þess að ráðist var í metnaðarfulla stefnu­gerð og aðgerðir var sú staðreynd að mun færri sóttu iðnnám á Íslandi en í öðrum OECD-ríkj­um. Skýr vilji stjórn­valda stóð til þess að fleiri sæktu sér starfs- og tækni­mennt­un til að koma bet­ur til móts við þarf­ir sam­fé­lags­ins.

Stjórn­völd og skóla­sam­fé­lagið gerðu sam­komu­lag árið 2020 við Sam­tök iðnaðar­ins og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um að fara í sam­stillt­ar aðgerðir til að efla iðnnám í fimm liðum: Í fyrsta lagi var ráðist í um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar á iðnnámi með það að mark­miði að ein­falda skipu­lag starfs- og tækni­náms. Ný reglu­gerð var sett um vinnustaðanámið, þar sem helsta breyt­ing­in var að fram­halds­skól­ar báru ábyrgð á gerð og staðfest­ingu vinnustaðanáms­samn­inga fyr­ir iðnnema í gegn­um ra­f­ræna ferl­ibók. Í stuttu máli: Fram­halds­skól­arn­ir tóku í aukn­um mæli ábyrgð á öllu nám­inu – frá inn­rit­un til út­skrift­ar. Í öðru lagi var ráðist í breyt­ing­ar á lög­um um há­skóla­stigið, þannig að iðnmenntaðir skyldu njóta sömu rétt­inda og þeir sem lokið hafa stúd­ents­prófi til að sækja um há­skóla­nám. Í þriðja lagi var mark­visst unnið að því að bæta aðgengi að starfs- og tækni­námi á lands­byggðinni, enda ræður náms­fram­boð í heima­byggð miklu um námsval ung­menna að lokn­um grunn­skóla. Nýr Tækni­skóli er á teikni­borðinu og aðstaða bætt víða um land. Í fjórða lagi skyldi náms- og starfs­ráðgjöf í grunn­skól­um styrkt, bæði fyr­ir ung­menni og for­eldra.

Far­sæl sam­vinna og sam­starf allra lyk­ilaðila skilaði góðum ár­angri fyr­ir land og þjóð. Ég vil þakka öll­um þeim sem lögðu hönd á plóg til að efla iðnnám á Íslandi fyr­ir gott sam­starf.

Í rík­is­fjár­mála­áætl­un nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar er boðaður stór­felld­ur niður­skurður í mennta­mál­um. Sér­stakt áhyggju­efni er fram­halds­skóla­stigið, þar sem veru­lega á að lækka fjár­fram­lög­in. Með þess­um áform­um er hætta á að rík­is­stjórn­in sé að fresta framtíðinni og grafa und­an framtíðar­hag­vexti sem byggður er á mennt­un.

Ljóst er í mín­um huga að ef hand­verk iðnmenntaðra væri ekki til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi væri afar tóm­legt um að lit­ast. Full­yrðing Njáls á Bergþórs­hvoli, um að land vort skuli byggt með lög­um, er ljóðræn og fög­ur – en raun­in er sú að miklu meira en laga­bók­staf­inn þarf til að byggja sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherralilja­alf@gmail.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Verðmætasköpun þjóða ákvarðar lífskjör og hagvöxt

Deila grein

03/04/2025

Verðmætasköpun þjóða ákvarðar lífskjör og hagvöxt

Það sem ræður mestu um lífs­kjör þjóða og getu þeirra til að byggja upp vel­ferðarsam­fé­lög og fjár­festa til framtíðar, er get­an til að skapa verðmæti. Þessi verðmæta­sköp­un er kjarni hag­vaxt­ar, at­vinnu og auk­inna lífs­gæða. Kenn­ing­ar hins skoska hag­fræðings Adams Smith, sem birt­ust árið 1776 í verki hans Auðlegð þjóðanna, leggja grunn­inn að efna­hags­legri hugs­un um hvernig þjóðir auka hag­sæld. Smith lagði mikla áherslu á sér­hæf­ingu og verka­skipt­ingu sem und­ir­stöðu fram­leiðniaukn­ing­ar. Með því að leyfa ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um að sér­hæfa sig í því sem þau gera best og eiga frjáls viðskipti sín á milli skap­ast hvat­ar til ný­sköp­un­ar, auk­inn­ar fram­leiðni og betri nýt­ing­ar auðlinda. Í þessu sam­hengi gegn­ir sam­keppn­is­hæfni þjóðar lyk­il­hlut­verki.

Af hverju að rifja upp þessa klass­ísku hag­fræðikenn­ingu Smiths? Tvennt kem­ur þar til. Ann­ars veg­ar fer Trump-stjórn­in mik­inn þessa dag­ana og hef­ur í hyggju að setja af stað mikið tolla­stríð um heim all­an. Ný-merkan­tíl­ismi Trumps virðist vera að ryðja sér til rúms. Af­leiðing­arn­ar hafa birst okk­ur á öll­um helstu mörkuðum, þar sem hluta­bréfa­verð hef­ur hríðlækkað og gull­verð er í hæstu hæðum. Óvissa á mörkuðum er ráðandi. Af­leiðing­arn­ar fyr­ir ís­lenska hag­kerfið eru óljós­ar en óviss­an dreg­ur úr hag­vexti. Hins veg­ar, þá hef­ur rík­is­stjórn Íslands kynnt aukn­ar álög­ur á okk­ar helstu út­flutn­ings­grein­ar. Mér finnst rétt að greidd séu auðlinda­gjöld í auðlinda­hag­kerfi, en það skipt­ir máli hvernig það er gert og á hvaða tíma­punkti. Eins skipt­ir máli að af­leidd áhrif séu skoðuð gaum­gæfi­lega og ábata­grein­ing sé gerð. Það er ábyrgðarleysi að sinna ekki þess­ari vinnu og líka virðing­ar­leysi gagn­vart þeim sam­fé­lög­um sem reiða sig á af­komu þess­ara at­vinnu­greina. Sam­vinna er lyk­ill­inn að vel­gengni. Ríkið þarf að vera til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Auðlegð Íslands velt­ur á því að sam­keppn­is­staða grunn­atvinnu­greina okk­ar sé sterk. Alþjóðahag­kerfið er á fleygi­ferð þessa dag­ana og óviss­an mik­il. Þess vegna er svo brýnt að vandað sé til verka og ekki sé efnt til óvinafagnaðar. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in sem kynnt var í vik­unni reiðir sig á hóf­leg­an hag­vöxt og lækk­andi verðbólgu. Ef ekki rætt­ist úr hag­vext­in­um, þá er rík­is­fjár­mála­áætl­un­in kom­in í upp­nám.

Vel­sæld á Íslandi hef­ur auk­ist veru­lega síðustu ára­tugi. Allt bygg­ist þetta á því að verðmæta­sköp­un eigi sér stað í vöru- og þjón­ustu­út­flutn­ingi. Ef þreng­ir að út­flutn­ingi þjóðar­inn­ar, þá minnk­ar hag­sæld hratt. Á óvissu­tím­um þarf að þétta raðirn­ar og styðja við ís­lenska hags­muni, ekki skaða þá. Ef Ísland ætl­ar að tryggja áfram­hald­andi vöxt og lífs­gæði þarf að leggja áherslu á aukna verðmæta­sköp­un. Með því að hlúa að sam­keppn­is­hæfni get­ur þjóðin tryggt sér betri framtíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­arlilja­alf@gmail.com

Greinin birtit fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Deila grein

27/03/2025

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Ein helsta frétt síðustu viku á Íslandi var sú að frjó­semi hef­ur aldrei verið lægri frá upp­hafi mæl­inga árið 1853. Yf­ir­leitt er miðað við að frjó­semi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mann­fjölda til lengri tíma litið. Árið 2024 var frjó­semi kvenna bú­settra á Íslandi kom­in niður í 1,56.

Svipaða þróun má sjá víða á Norður­lönd­um. Árið 2023 var fjöldi lif­andi fæddra barna á hverja konu rúm­lega 1,4 í Svíþjóð, Nor­egi og Dan­mörku, en í Finn­landi fór tal­an niður í 1,26. Enn verri er staðan í Suður-Kór­eu, þar sem frjó­semi mæld­ist 0,75 – þó með ör­lít­illi hækk­un árið 2024.

Lækk­andi fæðing­artíðni er mikið áhyggju­efni og veld­ur marg­vís­leg­um áskor­un­um fyr­ir sam­fé­lagið. Færri eru á vinnu­markaðnum og það dreg­ur úr hag­vexti og ný­sköp­un. Að sama skapi eykst hlut­fall eldri borg­ara, sem býr til þrýst­ing á vel­ferðar­kerfið. Inn­lend eft­ir­spurn minnk­ar, sér­stak­lega í þjón­ustu­geir­an­um og á fast­eigna­markaði. Staðan er sú að ef ekki tekst að mæta þess­ari þróun, þá get­ur skap­ast nei­kvæð hringrás sem leiðir til lak­ari lífs­gæða.

Ísland hef­ur lengi haft stefnu sem styður við barneign­ir, t.d. með öfl­ugu leik­skóla­kerfi, fæðing­ar­or­lofi fyr­ir báða for­eldra og barna­bót­um. En sam­kvæmt nýj­ustu lýðfræðigögn­um duga þessi úrræði ekki leng­ur til. Leik­skóla­kerfið ræður ekki leng­ur við eft­ir­spurn­ina og önn­ur úrræði hafa dreg­ist sam­an. Þetta er al­var­legt og brýnt er að finna nýj­ar leiðir til að bregðast við.

Í áhuga­verðum grein­ing­um mann­fjölda­fræðings­ins Lym­ans Stones kem­ur fram að hús­næðismál skipta sköp­um þegar kem­ur að lækk­andi fæðing­artíðni í Banda­ríkj­un­um. Hús­næði veit­ir ákveðinn stöðug­leika og er oft for­senda fjöl­skyldu­mynd­un­ar. Ef ungt fólk á erfitt með að kom­ast inn á hús­næðismarkað – eða ef láns­kjör eru óhag­stæð – minnka lík­urn­ar á því að fólk stofni fjöl­skyld­ur. Þetta á ekki síður við hér á Íslandi.

Eitt mik­il­væg­asta verk­efni okk­ar til framtíðar er að stíga ákveðnari skref í að gera Ísland að fjöl­skyldu­vænu sam­fé­lagi. Stjórn­völd og at­vinnu­líf þurfa að vinna sam­an að því mark­miði, því framtíð lífs­kjara þjóðar­inn­ar er í húfi.

Svarið við spurn­ing­unni hér að ofan er ein­falt: Já!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. mars 2025.