Categories
Fréttir Greinar

Notum ís­lensku

Deila grein

05/07/2023

Notum ís­lensku

Ef þér er almennt sama hvort þjónustan sem þú færð er á íslensku eða ensku eru allar líkur á að hún verði til framtíðar á ensku. Við skulum samt hafa það á hreinu að ensk tunga er ekki óvinur íslenskunnar, heldur er það doðinn og andvaraleysið sem skapa ógn við samtíð og framtíð tungumálsins okkar.

Fá málefni eru mér jafn hugleikin og mikilvægi íslenskunnar, hún er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir. Kunnátta og færni í tungumálinu ákvarða oft þau tækifæri og framgang sem börn og ungmenni njóta til framtíðar.

Í ráðherratíð minni hef ég sett málefni íslenskunnar í öndvegi og leitast við að auka samvinnu og samstöðu um aðgerðir sem stuðla að verndun og þróun tungumálsins. Íslenskan er ekkert venjulegt málefni og þróun hennar verður ekki stýrt með ríkisafskiptum. Tungumál eru í senn verk okkar allra og verkfæri, þau hverfast ekki um afskipti – heldur samskipti.

Andófið eykst

Við þurfum alvöru viðhorfsbreytingu gagnvart tungumálinu okkar. Við verðum í sameiningu að vinda ofan af þeim doða og misskildu þjónustulund sem hefur orðið til þess að enska er álitin sjálfsagt mál svo víða í samfélaginu. Þeim fjölgar stöðugt sem stíga fram og andæfa þessari þróun; benda á fáránleika þess að auglýsingum og markaðsefni á ensku sé beint að íslenskumælandi neytendum, að þjónusta sé ekki í boði á íslensku og að almannarými séu uppfull af skilaboðum á ensku og íslenskan sé þar í öðru sæti.

Þetta er líka slæm þróun, sem þarf að stöðva. Þessi framvinda á sér ýmsar skýringar og afsakanir en að mínu mati kristallast í henni blanda af metnaðar- og andvaraleysi varðandi stöðu íslenskunnar. Og mögulega smá Indriði líka, hver á annars að passa upp á íslenskuna? Á ég að gera það?

Brú fortíðar og framtíðar

Tungumálið geymir sjálfsskilning okkar og sögu. Okkur hefur verið treyst fyrir einstakri menningararfleifð og við verðum að standa okkur betur í að varðveita hana og færa áfram til komandi kynslóða. Sá þráður er einna skýrastur í bókmenntunum – frá norrænu goðafræðinni til Njálu og Hávamála – að Ferðalokum, Svartfugli, Sjálfstæðu fólki, Sálminum um blómið, Karitas án titils, Kleifarvatni, Mánasteini, Draumalandinu, Sextíu kílóum af sólskini og Hamingju þessa heims. Við eigum fjársjóð af sögum og heimsmynd í þessu tungumáli. Hefur þú leitt hugann að því hvernig sú heimsmynd liti út ef við hættum að hugsa á íslensku?

Þróun má snúa við

Staðan er flókin en hún er ekki alslæm. Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar til þess að auka veg tungumálsins og árétta mikilvægi þess. Undanfarin misseri hef ég átt ótal uppbyggileg samtöl við fólk úr atvinnulífinu, skólasamfélaginu, stjórnkerfinu, rannsakendur og frumkvöðla um áskoranir íslenskunnar og leiðir til úrbóta – þetta er fólk af ólíkum uppruna og á mismunandi aldri en rauði þráðurinn er sá sami – það er samfélagslegt verkefni að tryggja framtíð íslenskunnar og þar er ekki í boði að skila auðu.

Fyrirtæki í landinu eru afar mikilvæg í því samhengi – þeirra miðlun og samskipti móta samfélag okkar á svo mörgum sviðum og því er ein þeirra 18 aðgerða í þágu tungumálsins sem við kynnum nú til umsagna í Samráðsgátt sérstaklega miðuð að þeim. Ég vonast til góðrar samvinnu við atvinnulíf, sveitarfélög og þriðja geirann í því verkefni sem ber vinnuheitið „Íslenska er sjálfsagt mál“ en markmið þess er að auka sýni- og heyranleika íslensku í almannarýmum í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda.

Verkefni sem þetta vinnst með seiglu, ástríðu og því að vera opin fyrir hugmyndum og samvinnu. Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu höfum við haft ýmsar hugmyndir til skoðunar í vetur, m.a. möguleika þess að hvetja rekstraraðila til þess að skrá heiti sín á íslensku.

Orð til alls fyrst

Umsagnafrestur vegna aðgerðanna 18 er til 10. júlí nk. Drög þeirra eru mótuð samstarfi fimm ráðuneyta en markmið aðgerðaáætlunarinnar er forgangsraða verkefnum stjórnvalda þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins næstu þrjú ár. Ég hvet sem flesta til þess að kynna sér málið og miðla sínum hugmyndum til okkar. Að vinna að framgangi íslenskunnar og tryggja stöðu hennar í heimi örra tæknibreytinga og fólksflutninga er samvinnuverkefni sem kallar ótal hendur til góðra verka.

Fyrir þau sem ekki hafa tíma fyrir Samráðsgáttir og umsagnaskrif vil ég ennfremur árétta: Við höfum val um það á hverjum degi að nota tungumálið okkar og forgangsraða í þágu þess; njótum á íslensku, mótum og nýtum tungumálið á skapandi hátt. Einfaldlega – notum íslenskuna. Og sýnum með því að okkur sé ekki sama.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Skarpleikur hugsunar

Deila grein

30/06/2023

Skarpleikur hugsunar

Það er göm­ul saga og ný að veðurguðirn­ir eigi það til að stríða okk­ur að sum­ar­lagi, þvert á vænt­ing­ar okk­ar um sól­ríka tíð um allt land. Sum­arið 2023 hef­ur ekki skorið sig úr hvað þetta varðar fyr­ir stór­an hluta lands­manna, en þeirr­ar gulu hef­ur verið saknað af mörg­um. Það þýðir þó ekki að láta deig­an síga enda ým­is­legt hægt að gera hér á landi óháð því hvernig viðrar. Á sól­rík­um jafnt sem vot­um degi er til­valið að kíkja á eitt af þeim fjöl­mörgu söfn­um og sýn­ing­um sem eru í land­inu. Heim­sókn á safn eyk­ur skarp­leika hugs­un­ar og and­lega auðlegð.

Á Íslandi eru hátt í 50 viður­kennd söfn starf­rækt, að sýn­ing­um frá­töld­um sem skipta mörg­um tug­um. Í ár höf­um við verið minnt á það hversu sam­gró­in safna­menn­ing er ís­lensku þjóðinni, en fyrr á ár­inu var haldið upp á 160 ára af­mæli Þjóðminja­safns Íslands en safnið telst stofnað 24. fe­brú­ar 1863 og hef­ur í fyll­ingu tím­ans vaxið með þjóðinni og tekið breyt­ing­um. Þjóðminja­safnið gegn­ir lyk­il­hlut­verki sem eitt þriggja höfuðsafna þjóðar­inn­ar, með því að ann­ast söfn­un, skrá­setn­ingu, varðveislu og rann­sókn­ir á menn­ing­ar­arfi þjóðar­inn­ar ásamt því að styðja við byggðasöfn og önn­ur minja­söfn.

Um liðna helgi náði annað safn merk­is­áfanga, þegar Lista­safn Ein­ars Jóns­son­ar fagnaði því að 100 ár voru frá opn­un þess, en það var fyrsta lista­safnið sem opnað var al­menn­ingi hér á landi. All­ar göt­ur síðan hef­ur það sett mark sitt á borg­ar­brag­inn og hleypt gest­um inn í undra­ver­öld Ein­ars.

Söfn eru minni þjóða þar sem nú­tím­inn get­ur speglað sig í fortíðinni og stuðlað þannig að fræðslu, skiln­ingi og vit­und um menn­ing­ar- og nátt­úruarf­inn. Þannig leggja söfn sitt af mörk­um til sam­fé­lags­legr­ar umræðu en sterk tengsl safna, safn­kosts of sam­fé­lags fela í sér drif­kraft og verðmæta­sköp­un. Það er mik­il­vægt að tryggja gott aðgengi fólks að söfn­um og stuðla að því að miðla sög­unni til kom­andi kyn­slóða með skil­merki­leg­um hætti. Á þetta er meðal ann­ars lögð áhersla í stjórn­arsátt­mála rík­i­s­tjórn­ar­inn­ar þar sem fram kem­ur að aðgengi að menn­ingu óháð bú­setu sé lyk­il­atriði og und­ir­strikað að hlut­verk stjórn­valda sé að skapa skil­yrði fyr­ir fjöl­breytni, sköp­un og frum­kvæði á sviði lista og menn­ing­ar­arfs.

Sem mik­il­væg­ir innviðir hafa söfn einnig stutt við ferðaþjón­ust­una og aukið þá afþrey­ingu sem er í boði fyr­ir alla þá er­lendu gesti sem heim­sækja landið okk­ar – og miðlað þannig sögu okk­ar og menn­ingu út fyr­ir land­stein­ana. Það skipt­ir máli fyr­ir okk­ur sem þjóð.

Stjórn­völd eru staðráðin í að halda áfram að stuðla að sterk­ari um­gjörð safn­a­starfs í land­inu, meðal ann­ars með því að fylgja eft­ir stefnu­mörk­un um safn­astarf.

Ég hvet lands­menn til að kíkja við á söfn­un­um okk­ar í sum­ar og njóta þannig þeirr­ar merki­legu menn­ing­ar sem þau hafa að geyma.

Höf­und­ur er menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Höf­und­ur: Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir

Categories
Fréttir Greinar

Björg í þjóðarbú

Deila grein

21/06/2023

Björg í þjóðarbú

Það mun­ar um ferðaþjón­ust­una. Hlut­ur ferðaþjón­ustu í lands­fram­leiðslu árs­ins 2022 nem­ur 7,8% og út­gjöld er­lendra ferðamanna námu 390,4 millj­örðum króna og er áætlað að rúm­lega 18 þúsund ein­stak­ling­ar hafi starfað við ferðaþjón­ustu í fyrra. Það gef­ur auga­leið að fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa öfl­ug­ar út­flutn­ings­stoðir eins og ferðaþjón­ust­una. Eft­ir mik­inn sam­drátt er ferðaþjón­ust­an aft­ur orðin sú at­vinnu­grein sem skap­ar mest­an er­lend­an gjald­eyri fyr­ir þjóðarbúið. Síðustu fjóra árs­fjórðunga skilaði grein­in 411 millj­örðum króna í út­flutn­ings­tekj­ur eða tæp­um fjórðungi heild­ar­út­flutn­ingstekna þjóðarbús­ins. Það ger­ir grein­ina að stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein lands­ins.

Ferðaþjón­ust­an er ein ár­ang­urs­rík­asta byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar – sjálfsprott­in at­vinnu­upp­bygg­ing um allt land. Á ár­un­um 2009-2019 skapaði ferðaþjón­usta að jafnaði 500 ný störf á ári á lands­byggðinni. Það er gríðarlega mik­il­vægt að þessi þróun tap­ist ekki. Ferðaþjón­ust­an hef­ur einnig átt stór­an þátt í að auka lífs­gæði okk­ar með ríku­legra mann­lífi, ný­stár­legu fram­boði af afþrey­ingu og góðum mat og gefið Íslend­ing­um tæki­færi til að víkka út tengslanet sín svo dæmi séu tek­in. Sá aukni áhugi á Íslandi sem fylg­ir ferðaþjón­ust­unni hef­ur einnig aukið skiln­ing lands­manna á eig­in landi – og varpað ljósi á hversu sér­stakt það er fyr­ir margra hluta sak­ir. Það er ánægju­legt að geta tekið á móti fjölda gesta og deilt með þeim nátt­úru okk­ar, sögu og menn­ingu. Það er mik­il­vægt að ferðaþjón­ust­an fái svig­rúm og tæki­færi til að vaxa enn frek­ar en mark­miðið er sjálf­bær upp­bygg­ing ferðaþjón­ustu til lengri tíma í sátt við nátt­úr­una og menn, sem áfram­hald­andi lyk­il­stoð í okk­ar efna­hags­lífi. Sam­hliða end­ur­reisn ferðaþjón­ust­unn­ar hef­ur fyr­ir­komu­lag gjald­töku í grein­inni verið skoðað með það að mark­miði breikka skatt­stofn­inn og tryggja jafn­ræði aðila á markaði, meðal ann­ars fyr­ir­komu­lag gistinátta­gjalds í sam­vinnu við ferðaþjón­ust­una og sveit­ar­fé­lög­in með það að mark­miði að sveit­ar­fé­lög­in njóti góðs af gjald­tök­unni.

Ýmsir í sam­fé­lag­inu hafa talið að allt það sem ferðaþjón­ust­an legg­ur til sam­fé­lags­legr­ar upp­bygg­ing­ar sé ekki um­tals­vert og líta svo á að vas­ar at­vinnu­grein­ar­inn­ar séu óþrjót­andi. Þeir hinir sömu eru jafn­vel til­bún­ir að stíga skref sem ógna sam­keppn­is­hæfni ferðaþjón­ust­unn­ar og átta sig ekki á hinni þjóðhags­legu heild­ar­mynd. Það er úti­lokað í mín­um huga að samþykkja til­lög­ur um aukna gjald­heimtu eins og OECD legg­ur til í nýrri skýrslu, séu þær þess eðlis að þær stefni í hættu sam­keppn­is­hæfni ferðaþjón­ust­unn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Lýðveldið og framtíðin

Deila grein

17/06/2023

Lýðveldið og framtíðin

Það var fram­sýnt og þýðing­ar­mikið skref sem Alþingi Íslend­inga steig fyr­ir 79 árum, þegar tek­in var ákvörðun um stofn­un lýðveld­is­ins Íslands. Þar með lauk bar­áttu þjóðar­inn­ar fyr­ir fullu frelsi og nýr kafli í sögu henn­ar hófst. Það er enn rík ástæða til þess að fagna þess­um tíma­mót­um. Við fögn­um þess­um áfanga í dag en hverj­um þjóðhátíðar­degi má líkja við vörðu á veg­ferð frels­is og fram­fara til þess að gera ís­lenskt þjóðfé­lag betra í dag en það var í gær.

Saga fram­fara

Sum­um þótti það svaðilför og fjar­stæðukennt á sín­um tíma að þjóð sem taldi inn­an við 130 þúsund manns í svo stóru og víðfeðmu landi gæti dafnað og vaxið sem sjálf­stæð þjóð. Þegar litið er yfir tíma­bilið frá lýðveldis­töku þá er niðurstaðan skýr og ótví­ræð. Íslend­ing­um hef­ur farn­ast vel við að reisa þrótt­mikið og öfl­ugt sam­fé­lag sem þykir einkar far­sælt til bú­setu. All­ar göt­ur frá lýðveld­is­stofn­un hafa alþjóðateng­ing­ar verið sterk­ar og þjóðar­tekj­ur á hvern íbúa eru með þeim mestu í ver­öld­inni og lífs­kjör mjög góð í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Staða Íslands er sterk í sögu­legu sam­hengi þegar flest­ir vel­sæld­ar­mæli­kv­arðar eru kannaðir og skap­andi grein­ar blómastra. Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn held­ur ligg­ur að baki þrot­laus vinna kyn­slóðanna sem byggt hef­ur landið.

Ábyrgð stjórn­mál­anna

Stjórn­mála­mönn­um hvers tíma er fal­in mik­il ábyrgð að halda á því fjör­eggi sem stjórn lands­ins er. Her­mann Jónas­son, fyrr­ver­andi formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og for­sæt­is­ráðherra, komst vel að orði í blaðagrein sinni Lýðveldið og framtíðin í 17. júní út­gáfu Tím­ans árið 1944. Þar rit­ar Her­mann; „Í stað bar­átt­unn­ar fyr­ir því að öðlast sjálf­stæðið, hefst ný bar­átta því til varn­ar. Það er sá þátt­ur, sem nú er að hefjast. Það verður meg­in­hlut­verk okk­ar, er nú lif­um, – að tryggja hinu fengna frelsi ör­ugg­an, efna­leg­an og menn­ing­ar­leg­an grund­völl og skila því síðan óskertu til óbor­inna kyn­slóða“. Þetta eru orð að sönnu sem ávallt eiga er­indi við stjórn­mál­in. Að und­an­förnu höf­um við verið minnt á að frjáls sam­fé­lags­gerð er ekki sjálf­gef­in, meðal ann­ars með ófyr­ir­leit­inni og ólög­legri inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. Árás­in vek­ur upp ófriðardrauga fortíðar frá tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar og kalda stríðsins. Þessi ógn­vekj­andi at­b­urðarás alþjóðamál­anna hef­ur sýnt enn frek­ar fram á mik­il­vægi breiðrar sam­vinnu þjóða til að rækta þau grunn­gildi sem mestu máli skipta: Frelsi, lýðræði og mann­rétt­indi.

Aðals­merki þjóðar­inn­ar

Tveir af horn­stein­um lýðræðis­sam­fé­lags­ins eru frjáls­ar kosn­ing­ar og öfl­ug­ir fjöl­miðlar. Það er eng­um vafa und­ir­orpið að öfl­ug­ir fjöl­miðlar skiptu sköp­um í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar. Miðlun frétta á þjóðtung­unni okk­ar, ís­lensku, var ein helsta rök­semd þess að Íslend­ing­ar væru sér­stök þjóð og að sjálf­stæðis­kröf­ur okk­ar væru rétt­mæt­ar. Vék Her­mann Jónas­son einnig að þessu í fyrr­nefndri þjóðhátíðarút­gáfu Tím­ans árið 1944: „Eitt er víst. Blaðakost­ur á Íslandi er til­tölu­lega sterk­ur. Hann mót­ar móður­málið okk­ar, sem er aðals­merki þjóðar­inn­ar og grund­vall­ar­rétt­ur henn­ar til sjálf­stæðis. Það eru og blöðin sem ráða lang­mestu um góðvilja milli manna og flokka. Blöðin ráða miklu um það, hvaða stefnu áhuga­mál al­menn­ings taka. Þau hafa eins, eins og nú er komið, mik­il áhrif á hugs­an­ir alls al­menn­ings, móta þær eða setja á þær sinn blæ viðkom­andi mönn­um og mál­efn­um. Þau eru skóli og upp­eld­is­stofn­un þjóðar – góður eða vond­ur.“ Það er áhuga­vert að lesa þessi orð Her­manns, 79 árum eft­ir að hann ritaði þau, og heim­færa upp á sam­tím­ann þar sem örar tækni­breyt­ing­ar, eins og í gervi­greind, hafa leitt af sér stór­ar áskor­an­ir fyr­ir fjöl­miðla hér á landi sem og tungu­málið okk­ar.

Stærsta sam­vinnu­verk­efni okk­ar kyn­slóða

Það er mik­il­vægt fyr­ir grund­völl lýðræðis­ins að tak­ast á við slík­ar áskor­an­ir af festu. Her­mann Jónas­son gerði sér grein fyr­ir nauðsyn þess að sjá fyr­ir hætt­ur og tak­ast á við þær frá fyrsta degi. Með það fyr­ir aug­um ritaði hann eft­ir­far­andi: „Það er ekki vanda­laust svo fá­mennri þjóð að vernda sjálf­stæði sitt og lifa menn­ing­ar­lífi sem sjálf­stæð þjóð. Þess­um vanda vilj­um við gera okk­ur grein fyr­ir þegar í upp­hafi. Hætt­urn­ar hverfa því aðeins að menn sjái þær nógu snemma til að af­stýra þeim.“ Í þess­um anda hafa þýðing­ar­mik­il skref verið tek­in á und­an­förn­um árum til þess að styðja við rit­stýrða einka­rekna fjöl­miðla til þess að gera þá bet­ur í stakk búna til þess að tak­ast á við hið breytta lands­lag, sinna lýðræðis­legu hlut­verki sínu og miðla efni á ís­lenskri tungu. Fjöl­miðlastefna og aðgerðir henni tengd­ar verða kynnt­ar í haust. Að sama skapi hef­ur ís­lensk tunga verið sett í önd­vegi með marg­háttuðum aðgerðum til þess að snúa vörn í sókn í henn­ar nafni, meðal ann­ars með mál­tækni­áætl­un stjórn­valda sem stuðlar að því að ís­lensk­an verði gerð gjald­geng í heimi tækn­inn­ar. Viðhald og vöxt­ur ís­lensk­unn­ar er um­fangs­mikið verk­efni sem er mik­il­vægt að heppn­ist vel. Ljóst er að það er ekki á færi ör­fárra ein­stak­linga að vinna slíkt verk, held­ur er um að ræða helsta sam­vinnu­verk­efni okk­ar kyn­slóða. Það er mik­il­vægt að vel tak­ist til enda geym­ir ís­lensk tunga sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar og er und­ir­staða lýðræðis­legr­ar umræðu hér á landi.

Lær­dóm­ar forfeðranna

Til­koma lýðveld­is­ins fyr­ir 79 árum síðan var heilla­drjúgt skref og aflvaki fram­fara. Sú staðreynd, að við get­um fjöl­mennt í hátíðarskapi til þess að fagna þess­um merka áfanga í sögu þjóðar­inn­ar, er ekki sjálf­sögð. Það bar­áttuþrek, sú þraut­seigja og bjart­sýni á framtíð Íslands, sem end­ur­speglaðist í orðum og gjörðum forfeðra okk­ar í sjálf­stæðis­bar­átt­unni, geym­ir mik­il­væga lær­dóma. Þar voru öfl­ug­ir fjöl­miðlarn­ir og þjóðtung­an í lyk­il­hlut­verki. Með sam­vinn­una að leiðarljósi ætl­um við í Fram­sókn að halda áfram að leggja okk­ar af mörk­um til þess að treysta stoðir Íslands, líkt og flokk­ur­inn hef­ur gert í tæp 107 ár, enda skipt­ir lýðveldið og framtíðin okk­ur öll miklu máli. Við ósk­um lands­mönn­um öll­um gleðilegr­ar þjóðhátíðar.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir og Ásmund­ur Ein­ar Daðason.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Dýrmætasta auðlind þjóðarinnar

Deila grein

12/06/2023

Dýrmætasta auðlind þjóðarinnar

Íslensk­an er ein dýr­mæt­asta auðlind þjóðar­inn­ar. Fjár­fest hef­ur verið í henni í yfir 1.000 ár og perl­ur heims­bók­mennt­anna ritaðar á ís­lensku.

Stjórn­völd hafa sett mál­efni ís­lenskr­ar tungu á odd­inn á und­an­förn­um árum með marg­háttuðum aðgerðum. Það að vinna að fram­gangi ís­lensk­unn­ar og tryggja stöðu henn­ar í heimi örra tækni­breyt­inga og fólks­flutn­inga er verk­efni sem þarf að sinna af kost­gæfni og atorku. Í vik­unni var ný aðgerðaáætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu sett í Sam­ráðsgátt stjórn­valda til kynn­ing­ar og um­sagn­ar.

Alls er um að ræða 18 aðgerðir sem mótaðar eru í sam­starfi fimm ráðuneyta, en mark­mið þeirra er að for­gangsraða verk­efn­um stjórn­valda árin 2023-2026 þegar kem­ur að vernd­un og þróun tungu­máls­ins. Hef­ur meðal ann­ars verið unnið að þeim á vett­vangi ráðherra­nefnd­ar um ís­lenska tungu sem sett var á lagg­irn­ar í nóv­em­ber 2022 að til­lögu for­sæt­is­ráðherra. Hlut­verk nefnd­ar­inn­ar er að efla sam­ráð og sam­starf milli ráðuneyta um mál­efni ís­lenskr­ar tungu og tryggja sam­hæf­ingu þar sem mál­efni skar­ast.

Hin nýja aðgerðaáætl­un kall­ast á við áhersl­ur stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þar sem lögð er rík áhersla á að styðja við ís­lenska tungu. Börn og ung­menni skipa sér­stak­an sess og stuðning­ur við börn af er­lend­um upp­runa verður auk­inn. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar í sta­f­ræn­um heimi með áherslu á mál­tækni.

Ýmsar lyk­ilaðgerðir í áætl­un­inni und­ir­strika þetta en þær eru meðal ann­ars: starfstengt ís­lensku­nám fyr­ir inn­flytj­end­ur sam­hliða vinnu, auk­in gæði ís­lensku­kennslu fyr­ir inn­flytj­end­ur, inn­leiðing ra­f­rænna stöðuprófa í ís­lensku, sam­eig­in­legt fjar­nám í hag­nýtri ís­lensku sem öðru máli og ís­lenska handa öll­um.

Ný­mæli eru að gerðar verði kröf­ur um að inn­flytj­end­ur öðlist grunn­færni í ís­lensku og hvat­ar til þess efld­ir. Ásamt því verður ís­lensku­hæfni starfs­fólks í leik- og grunn­skól­um og frí­stund­a­starfi efld. Að sama skapi verður gerð ís­lensku­vef­gátt fyr­ir miðlun ra­f­ræns náms­efn­is fyr­ir öll skóla­stig, sam­ræmt verklag um mót­töku, kennslu og þjón­ustu við börn með fjöl­breytt­an tungu­mála- og menn­ing­ar­bak­grunn með sér­stakri áherslu á ís­lensku sem annað mál, og reglu­leg­ar mæl­ing­ar á viðhorfi til tungu­máls­ins.

Við þurf­um mikla viðhorfs­breyt­ingu gagn­vart tungu­mál­inu okk­ar. Íslensk­an er fjör­egg okk­ar og and­leg eign. Tungu­málið er rík­ur þátt­ur í sjálfs­mynd okk­ar, tján­ingu og sögu­skiln­ingi. Með nýrri aðgerðaáætl­un skerp­um við á for­gangs­röðun í þágu ís­lenskr­ar tungu. Ég hvet alla til þess að kynna sér málið í sam­ráðsgátt­inni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Skýr skilaboð í ríkisfjármálum

Deila grein

11/06/2023

Skýr skilaboð í ríkisfjármálum

Al­var­leg­ur heims­far­ald­ur er að baki, en hag­kerfið á Íslandi náði að rétta út kútn­um á skemmri tíma en nokk­ur þorði að vona og það er áfram góður gang­ur í efna­hags­kerf­inu. Hér er mik­ill hag­vöxt­ur og hátt at­vinnu­stig, en hins veg­ar lædd­ist inn óvel­kom­inn gest­ur í formi verðbólgu. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar er að ná tök­um á henni. Þetta er verk­efni núm­er eitt, tvö og þrjú. Mestu máli skipt­ir fyr­ir sam­fé­lagið okk­ar að verðbólg­an lækki.

Sögu­lega skaðleg áhrif verðbólgu

Áhrif mik­ill­ar verðbólgu eru nei­kvæð, kaup­mátt­ur launa dvín­ar og verðskyn dofn­ar. Íslend­ing­ar þurfa ekki að leita langt aft­ur í tím­ann til að rifja upp af­leiðing­ar þess að þjóðfé­lagið missti tök á verðbólg­unni. Fyr­ir fjöru­tíu árum mæld­ist verðbólga á 12 mánaða tíma­bili um 100% með til­heyr­andi geng­is­fell­ing­um og óróa í sam­fé­lag­inu. Tveim­ur árum áður, árið 1981, höfðu farið fram gjald­miðils­skipti þar sem verðgildi krón­unn­ar var hundraðfaldað og ný mynt og seðlar kynnt til sög­unn­ar. Á þess­um tíma horfði al­menn­ing­ur upp á virði þess­ar­ar nýju mynt­ar hverfa hratt. Ég get full­yrt að eng­inn sem man þá tíma vill hverfa þangað aft­ur. Sama ástand er ekki upp á ten­ingn­um núna, en við verðum hins veg­ar að taka á verðbólgu­vænt­ing­um til að vernda heim­il­in. Verðbólg­an mæld­ist 9,5% í síðasta mánuði. Ég er sann­færð um að með aðgerðum Seðlabanka Íslands og stjórn­valda muni draga úr verðbólg­unni. Pen­inga­mál­in og fjár­mál hins op­in­bera eru far­in að vinna bet­ur sam­an. Það styður einnig við þessi mark­mið að rík­is­fjár­mál­in eru þannig hönnuð að þau búa yfir sjálf­virkri sveiflu­jöfn­un og grípa þenn­an mikla hag­vöxt eins og sjá má í aukn­um tekj­um rík­is­sjóðs og vinna þannig á móti hagsveifl­unni og styðja við bar­átt­una við verðbólg­una. Útflutn­ings­at­vinnu­veg­irn­ir hafa staðið sig vel og krón­an hef­ur verið stöðug og með hjaðnandi verðbólgu er­lend­is ætti að nást jafn­vægi og við get­um smám sam­an kvatt þenn­an óvel­komna gest.

Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar styðja við lækk­un verðbólgu

Eitt helsta mark­mið rík­is­stjórn­ar­inn­ar er að auka vel­sæld og ná tök­um á verðbólg­unni. Þess vegna hef­ur verið lagt fram frum­varp þar sem lagt er til að lög­um verði breytt þannig að laun þjóðkjör­inna full­trúa og æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins hækki um 2,5% í stað 6% hinn 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu emb­ætt­is­manna skapi ekki auk­inn verðbólguþrýst­ing, enda miðar breyt­ing­in við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans. Þessi aðgerð er mjög mik­il­væg til að vinna gegn háum verðbólgu­vænt­ing­um. Til að treysta enn frek­ar sjálf­bær­ar verðbólgu­vænt­ing­ar hef­ur verið ákveðið að flýta gildis­töku fjár­mála­regl­unn­ar, sem þýðir að há­mark skulda rík­is­sjóðs get­ur ekki verið meira en 30% og að sama skapi þarf að vera já­kvæður heild­ar­jöfnuður á hverju fimm ára tíma­bili. Skuld­astaða rík­is­sjóðs Íslands hef­ur verið að þró­ast í rétta átt, skuld­ir rík­is­sjóðs eru ekki mikl­ar í sam­an­b­urði við aðrar þjóðir og er það mik­il­vægt fyr­ir láns­hæfið að svo verði áfram.

Auk þessa er verið að bæta af­komu rík­is­sjóðs um 36,2 millj­arða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri rík­is­ins, þar með talið niður­skurði í ferðakostnaði, frest­un fram­kvæmda, nýj­um tekj­um og með því að draga úr þenslu­hvetj­andi skattaí­viln­un­um. Tekj­ur rík­is­sjóðs eru einnig rúm­lega 90 millj­örðum meiri en fyrri áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir. Vegna þessa tekju­auka er aðhalds­stigið að aukast. Í þessu felst meðal ann­ars að fram­kvæmd­um fyr­ir um 3,6 millj­arða króna er frestað til að draga úr þenslu. Sök­um skaðlegra áhrifa mik­ill­ar verðbólgu á okk­ar viðkvæm­ustu hópa ákvað rík­is­stjórn­in að verja kaup­mátt ör­orku- og elli­líf­eyr­isþega og því hef­ur líf­eyr­ir al­manna­trygg­inga verið hækkaður um tæp 10% frá upp­hafi árs. Einnig hef­ur frí­tekju­mark hús­næðis­bóta leigj­enda verið hækkað um 10%. Þess­ar aðgerðir eru afar mik­il­væg­ar til að verja kaup­mátt þeirra sem standa verst.

Mik­il­vægi rík­is­fjár­mála í vænt­inga­stjórn­un

Eitt það markverðasta sem fram hef­ur komið á vett­vangi hag­fræðinn­ar á þessu ári er bók hag­fræðings­ins Johns F. Cochra­nes, en í ný­út­gef­inni bók sinni Rík­is­fjár­mála­kenn­ing­in og verðlag (e. Fiscal Theory and the Price Level) bein­ir hann spjót­um sín­um að verðbólgu­vænt­ing­um á sviði rík­is­fjár­mála. Kjarni rík­is­fjár­mála­kenn­ing­ar­inn­ar er að verðlag ráðist af stefnu stjórn­valda í op­in­ber­um fjár­mál­um. Sam­kvæmt þess­ari kenn­ingu hef­ur rík­is­fjár­mála­stefna, þar með talið út­gjalda- og skatta­stefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á rík­is­rekstri ætti að leiða til lægra raun­vaxta­stigs sem ætti síðan að ýta und­ir meiri fjár­fest­ing­ar. Þar með verða til aukn­ar fjár­magn­s­tekj­ur, sem mynd­ast við meiri fjár­fest­ingu, sem er ein helsta upp­spretta fram­leiðni vinnu­afls. Þetta skap­ar svo grunn­inn að hærri raun­laun­um og þannig má segja að minni fjár­laga­halli sé óbein leið til að auka raun­laun og bæta lífs­kjör. Staðreynd­in er sú að ef rík­is­sjóður er rek­inn með halla, þá þarf hann að fjár­magna þann halla með út­gáfu nýrra skulda­bréfa. Þannig eykst fram­boð rík­is­skulda­bréfa á markaði, sem aft­ur lækk­ar verð þeirra og leiðir til þess að vext­ir hækka. Eitt skýr­asta dæmið um að til­tekt í rík­is­fjár­mál­um og trú­verðug stefna hafi skilað vaxta­lækk­un var að finna í for­setatíð Bills Cl­int­ons, fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna. Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar í rík­is­fjár­mál­um und­an­farna mánuði vinna ein­mitt að því að styðja við lækk­un vaxta og hef­ur ávöxt­un rík­is­skulda­bréfa verið á niður­leið.

Fram­boðshlið hag­kerf­is­ins

Ég hef áður ritað um að meira þurfi að gera á fram­boðshliðinni í hag­kerf­inu til að koma til móts við eft­ir­spurn­ina til að milda högg aðhaldsaðgerða og leysa úr læðingi krafta í hag­kerf­inu. Það má gera með aðgerðum í hús­næðismál­um og aðgerðum á at­vinnu­markaðnum, t.d. gera auðveldra að fá sér­fræðinga til lands­ins og með því að hækka ald­ur þeirra sem vilja vinna. Það má einnig liðka til frek­ar í al­manna­trygg­inga­kerf­inu til að fá fólk frek­ar út á at­vinnu­markaðinn, en rík­is­stjórn­in hef­ur verið að fram­kvæma ým­is­legt í þessa veru á und­an­förn­um mánuðum.

Já­kvæð teikn á lofti í bar­átt­unni gegn verðbólgu

Hag­vöxt­ur árið 2022 mæld­ist 6,4% og hef­ur ekki verið meiri en síðan 2007 og Seðlabank­inn spá­ir nærri 5% hag­vexti á þessu ári. Þessi mik­il þrótt­ur í hag­kerf­inu er já­kvæður en verðbólg­an er enn of há. Hag­vöxt­ur­inn var knú­inn áfram af mikl­um vexti inn­lendr­ar eft­ir­spurn­ar en hún óx á síðasta ári um 8,6%. Allt bend­ir til þess að það hæg­ist á vexti einka­neyslu, meðal ann­ars vegna versn­andi aðgeng­is heim­ila og fyr­ir­tækja að láns­fé. Teikn eru á lofti um að það sé að raun­ger­ast, þar sem einka­neysla jókst hóf­lega á fyrsta árs­fjórðungi eða um 2,5%. Að sama skapi hef­ur at­vinnu­vega­fjár­fest­ing dreg­ist sam­an um 14%. Að lok­um má nefna að korta­velta hef­ur dreg­ist sam­an að raun­v­irði og er það í fyrsta sinn í lang­an tíma. Það er jafn­framt mik­il­vægt að halda því til haga að gengi krón­unn­ar hef­ur verið stöðugt og held­ur að styrkj­ast. Það er meðal ann­ars vegna öfl­ugra út­flutn­ings­greina og ekki síst vegna ferðaþjón­ust­unn­ar. Af þeim sök­um ætti hjöðnun verðbólgu á er­lend­um mörkuðum að skila sér beint inn í ís­lenska hag­kerfið. Mik­il­vægt er að all­ir taki hönd­um sam­an um að svo verði.

Loka­orð

Verðbólg­an er mesti vand­inn sem stjórn­völd standa frammi fyr­ir og mik­il­vægt er að ná niður verðbólgu­vænt­ing­um. Ólíkt því sem áður gerðist er Ísland hins veg­ar ekki ey­land þegar kem­ur að verðbólgu um þess­ar mund­ir. Verðbólg­an í Evr­ópu er á bil­inu 3-24%, en það eru ákveðin merki um að verðbólga fari hjaðnandi er­lend­is þótt langt sé í að ástandið verði aft­ur ásætt­an­legt. Það sem skil­ur Ísland frá öðrum þróaðri hag­kerf­um er þessi mikli þrótt­ur sem er í hag­kerf­inu og ger­ir hann hag­stjórn að sumu leyti flókn­ari. Rík­is­stjórn­in og Seðlabank­inn hafa tekið hönd­um sam­an um að taka á þess­um vanda með þeim tækj­um sem þau ráða yfir. Einn liður í því að er vext­ir end­ur­spegli verðbólg­una. Það er ljóst að Seðlabanki Íslands hef­ur farið mjög bratt í hækk­un vaxta og var m.a. fyrsti bank­inn til að hækka vexti á Vest­ur­lönd­um. Það má færa rök fyr­ir því að seðlabank­ar beggja vegna Atlantsála hafi haldið vöxt­um of lág­um of lengi. Christ­ine Lag­ar­de lýsti því yfir við síðustu vaxta­hækk­un hjá ECB að bank­inn væri hvergi nærri hætt­ur vaxta­hækk­un­um. Í Banda­ríkj­un­um hafa vext­ir náð verðbólg­unni. Hér er það sama að ger­ast og eru vext­ir Seðlabank­ans mjög nærri verðbólg­unni. Með því hef­ur ákveðnum tíma­mót­um verið náð. Það er sann­fær­ing mín að aðgerðir í rík­is­fjár­mál­um muni leggja sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar í bar­átt­unni við verðbólg­una.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Íslensk ferðaþjónusta leiðandi á heimsvísu

Deila grein

02/06/2023

Íslensk ferðaþjónusta leiðandi á heimsvísu

Hér áður fyrr stóð ytri staða þjóðarbús­ins oft og tíðum tæpt, þar til straum­hvörf á viðskipta­jöfnuðinum áttu sér stað fyr­ir rúm­lega tíu árum með til­komu sterkr­ar ferðaþjón­ustu hér á landi. Fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa styrk­ar út­flutn­ings­stoðir. Viðskipta­af­gang­ur­inn vegna ferðaþjón­ust­unn­ar hef­ur einnig gert líf­eyr­is­sjóðum kleift að dreifa sparnaði fé­laga og byggja mynd­ar­lega sjóði er­lend­is. Á tím­um kór­ónu­veirunn­ar kom glöggt í ljós hversu hag­fellt var að vera með gjald­eyr­is­forða sem gat jafnað mestu sveifl­ur.

Það skipt­ir miklu máli að skapa ferðaþjón­ust­unni, stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein lands­ins, hag­felld skil­yrði til þess að vaxa og dafna með sjálf­bær­um hætti, með það fyr­ir aug­um að skapa auk­in verðmæti og lífs­gæði fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.

Eitt helsta for­gangs­verk­efnið í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfl­uga aðgerðaáætl­un á sviði ferðamála á grunni Framtíðar­sýn­ar og leiðarljóss ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu til 2030. Und­ir­bún­ing­ur þeirr­ar vinnu hef­ur staðið yfir af full­um þunga inn­an ráðuneyt­is­ins en í vik­unni skipaði ég sjö starfs­hópa, sem hver og einn er skipaður 6-8 sér­fróðum aðilum, og verður þeim falið að vinna til­lög­ur að aðgerðum en miðað er við að þeir skili drög­um að aðgerðum fyr­ir 1. októ­ber næst­kom­andi og loka­til­lög­um fyr­ir 15. des­em­ber 2023. Hóp­arn­ir ná utan um sjálf­bærni og orku­skipti, sam­keppn­is­hæfni og verðmæta­sköp­un, rann­sókn­ir og ný­sköp­un, upp­bygg­ingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veit­inga- og hvata­ferðaþjón­ustu og svo menn­ing­ar­tengda ferðaþjón­ustu. Stefni ég að því að leggja fram nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 ásamt aðgerðaáætl­un fyr­ir vorþing 2024, eins og kom fram í nýrri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem kynnt var í mars.

Framtíðar­sýn ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu er að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is. Í því felst að ferðaþjón­ust­an sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf, í sátt við nátt­úru, ís­lenska menn­ingu og tungu. Þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, stönd­ug­an gjald­eyr­is­forða og góðan inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri láns­kjara á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum. Þar mun ferðaþjón­ust­an skipta lyk­il­máli til framtíðar og því er gríðarlega mik­il­vægt að styrkja um­gjörð henn­ar enn frek­ar til framtíðar, með skýr­um aðgerðum til að hrinda til fram­kvæmda.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

126 milljarða tekjur í menningu

Deila grein

23/05/2023

126 milljarða tekjur í menningu

Ný­verið samþykkti Alþingi til­lög­ur mín­ar til þings­álykt­an­ir um mynd­list­ar­stefnu og tón­list­ar­stefnu til árs­ins 2030 ásamt því að samþykkja frum­varp um fyrstu heild­ar­lög­gjöf um tónlist á Íslandi. Mark­miðið er skýrt; að efla um­gjörð þess­ara list­greina til framtíðar.

Með mynd­list­ar­stefn­unni er sett framtíðar­sýn mynd­list­ar­um­hverf­is­ins til árs­ins 2030 með meg­in­mark­miðum um að á Íslandi ríki kraft­mik­il mynd­list­ar­menn­ing, að stuðnings­kerfi mynd­list­ar á Íslandi verði ein­falt og skil­virkt, að ís­lensk mynd­list verði sýni­leg og vax­andi at­vinnu­grein og að ís­lensk mynd­list skipi alþjóðleg­an sess.

Lagðar eru til mark­viss­ar aðgerðir til að ein­falda en að sama skapi styrkja stofn­ana- og stuðnings­kerfi mynd­list­ar og hlúa mark­viss­ar en áður að innviðum at­vinnu­lífs mynd­list­ar. Með því má bæta sam­keppn­is­hæfni fyr­ir­tækja og efla út­flutn­ing og markaðssetn­ingu á ís­lenskri mynd­list.

Ný tón­list­ar­stefna og heild­ar­lög­gjöf um tónlist er af sama meiði; að efla um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins á Íslandi. Með lög­un­um hill­ir und­ir nýja Tón­list­armiðstöð sem stofnuð verður í ár og er ætlað að sinna upp­bygg­ingu og stuðningi við hvers kon­ar tón­list­ar­starf­semi sem og út­flutn­ings­verk­efni allra tón­list­ar­greina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skrán­ingu, um­sýslu og miðlun ís­lenskra tón­verka. Með stofn­un Tón­list­armiðstöðvar er stigið stórt skref í átt­ina að því að veita list­grein­inni aukið vægi og til að greiða leið ís­lensks tón­listar­fólks, inn­an lands sem utan. Nýr og stærri Tón­list­ar­sjóður verður einnig að veru­leika. Mun hann sam­eina þrjá sjóði sem fyr­ir eru á sviði tón­list­ar. Lyk­il­hlut­verk hans verður að efla ís­lenska tónlist, hljóðrita­gerð og þró­un­ar­starf í tón­list­ariðnaði. Með til­komu sjóðsins verður styrkjaum­hverfi tón­list­ar ein­faldað til muna og skil­virkni og slag­kraft­ur auk­in veru­lega!

Í lög­un­um er sömu­leiðis að finna ákvæði um sér­stakt tón­list­ar­ráð sem verður stjórn­völd­um og tón­list­armiðstöð til ráðgjaf­ar um mál­efni tón­list­ar. Tón­list­ar­ráði er ætlað að vera öfl­ug­ur sam­ráðsvett­vang­ur milli stjórn­valda, Tón­list­armiðstöðvar og tón­list­ar­geir­ans enda felst í því mik­ill styrk­ur að ólík og fjöl­breytt sjón­ar­mið komi fram við alla stefnu­mót­un­ar­vinnu á sviði tón­list­ar.

Of­an­greint mun skipta miklu máli til að styðja enn frek­ar við menn­ingu og skap­andi grein­ar á land­inu og styðja vöxt þeirra sem at­vinnu­greina. Til marks um um­fang þeirra þá birti Hag­stof­an ný­verið upp­færða Menn­ing­ar­vísa í annað sinn. Sam­kvæmt þeim voru rekstr­ar­tekj­ur í menn­ingu og skap­andi grein­um rúm­lega 126 millj­arðar króna árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári. Þá starfa um 15.400 ein­stak­ling­ar á aldr­in­um 16-74 við menn­ingu, eða um 7,3% af heild­ar­fjölda starf­andi, sam­kvæmt vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stof­unn­ar.

Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja und­ir­stöður þess­ara greina þannig að þær skapi auk­in lífs­gæði og verðmæti fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag til framtíðar. Ég vil einnig þakka þeim kraft­mikla hópi fólks úr gras­rót­inni sem kom að fyrr­nefndri stefnu­mót­un, fram­lag þess skipti veru­legu máli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2023.

Categories
Greinar

Ný vallarsýn í þágu myndlistar

Deila grein

15/05/2023

Ný vallarsýn í þágu myndlistar

Mik­il­vægt skref fyr­ir menn­ingu og skap­andi grein­ar var tekið í vik­unni á Alþingi Íslend­inga er þing­menn samþykktu til­lögu mína til þings­álykt­un­ar um mynd­list­ar­stefnu til árs­ins 2023. Stefn­an hef­ur verið lengi í far­vatn­inu og því sér­lega já­kvætt að hún sé kom­in í höfn.

Mynd­list­ar­stefn­unni er ætlað að efla mynd­list­ar­menn­ingu lands­ins ásamt því að stuðla að auk­inni þekk­ingu og áhuga al­menn­ings á mynd­list. Í henni birt­ist framtíðar­sýn mynd­list­ar­um­hverf­is­ins til árs­ins 2030 með meg­in­mark­miðum um að á Íslandi ríki kraft­mik­il og and­rík mynd­list­ar­menn­ing, stuðnings­kerfi mynd­list­ar á Íslandi verði ein­falt og skil­virkt og að ís­lensk mynd­list verði sýni­leg og vax­andi at­vinnu­grein. Er einnig fjallað sér­stak­lega um að ís­lensk mynd­list skipi alþjóðleg­an sess.

Hvert og eitt þess­ara mark­miða skal stuðla að um­bót­um og já­kvæðum breyt­ing­um svo framtíðar­sýn stefn­unn­ar geti orðið að veru­leika.

Stefn­unni fylg­ir aðgerðaáætl­un í 16 liðum, en aðgerðirn­ar verða end­ur­skoðaðar ár­lega í tengsl­um við gerð fjár­mála­áætl­un­ar og fjár­laga til að greiða götu nýrra verk­efna og efla mynd­list­ar­starf­semi hér á landi enn frek­ar næsta ára­tug. Menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti mun fylgj­ast með fram­vindu aðgerða og birta upp­lýs­ing­ar þar að lút­andi með reglu­bundn­um hætti. Má þar til dæm­is nefna aukið aðgengi að Lista­safni Íslands, átaks­verk­efni í kynn­ingu mynd­list­ar gagn­vart al­menn­ingi, stofn­un Mynd­list­armiðstöðvar sem taki við hlut­verki Kynn­ing­armiðstöðvar ís­lenskr­ar mynd­list­ar og fái víðtæk­ara hlut­verk, end­ur­skoðun á skattaum­hverfi mynd­list­ar og áfram verði unnið að krafti að alþjóðlegu sam­starfi á sviði mynd­list­ar.

Mynd­list­ar­líf á Íslandi er í mikl­um blóma og fram und­an er til­efni til að beina sjón­um að frek­ari tæki­fær­um til vaxt­ar. Ný mynd­list­ar­stefna til árs­ins 2030 er leiðarljósið á þeirri veg­ferð. Sköp­un ís­lenskra lista­manna hef­ur um lang­an tíma fangað at­hygli fólks hér á landi sem og er­lend­is. Árang­ur­inn birt­ist í fleiri tæki­fær­um ís­lenskra lista­manna til þátt­töku í kraft­mik­illi safn­a­starf­semi og vönduðum sýn­ing­um um allt land. Einnig end­ur­spegl­ast ár­ang­ur­inn í þátt­töku á virt­um alþjóðleg­um viðburðum og sýn­ing­um. Eft­ir­spurn eft­ir kaup­um á ís­lensk­um lista­verk­um er um­tals­verð. Sí­fellt fleiri lista­verk spretta úr ís­lensk­um veru­leika eða af sköp­un ís­lenskra lista­manna og fanga at­hygli fólks hér á landi og er­lend­is.

Ég vil óska mynd­list­ar­sam­fé­lag­inu á Íslandi til ham­ingju með þenn­an áfanga og vil þakka þeim öfl­uga hópi fólks sem kom að gerð stefn­unn­ar fyr­ir vel unn­in störf. Ég er staðráðin í því að halda áfram að vinna með hagaðilum að því að tryggja und­ir­stöður menn­ing­ar og skap­andi greina þannig að þær skapi auk­in lífs­gæði og verðmæti fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag til framtíðar – ný sókn í þágu mynd­list­ar­inn­ar er hluti af því verk­efni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Væntingar um traust ríkisfjármál vinna á verðbólgu

Deila grein

07/05/2023

Væntingar um traust ríkisfjármál vinna á verðbólgu

Opinber fjármál hafa verið mikið í umræðunni í tengslum við þróun verðbólgu. Innan hagfræðinnar eru ýmsar kenningar uppi um hvaða þættir efnahagskerfisins hafi mest áhrif á þróun verðlags og eru um það skiptar skoðanir. Meginorsakirnar liggja víða í hagkerfinu og því þarf enn sterkara samspil peningamála, fjármála hins opinbera og vinnumarkaðarins til að ná tökum á verðbólgunni.

Ljóst er að Covid-19 aðgerðir bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, áhrif framleiðsluhnökra í alþjóðahagkerfinu og stríðið í Úkraínu hafa haft mikil áhrif á verðbólgu síðasta árs. Hins vegar sjáum við að áhrif stríðsins fara dvínandi á verðbólgu, þar sem hækkanirnar hafa þegar komið fram. Í stjórnmálaumræðunni er kastljósið er í auknum mæli að beinast að þætti opinberra fjármála. Því er við hæfi að fara yfir nýlega kenningu hagfræðingsins John F. Cochrane en í nýútgefinni bók sinni Fiscal Theory and the Price Level beinir hann spjótum sínum að verðbólguvæntingum á sviði ríkisfjármála.

Ríkisfjármálakenningin og verðbólga

Kjarni ríkisfjármálakenningarinnar er að verðlag ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefnu, þar með talið útgjalda-og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör.

Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

Staðreyndin er sú að ef ríkissjóður er rekinn með halla, þá þarf hann að fjármagna þann halla með útgáfu nýrra skuldabréfa. Þannig eykst framboð ríkisskuldabréfa á markaði, sem aftur lækkar verð þeirra og leiðir til þess að vextir hækka. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

„Minni fjárlagahalli skapar störf!”

„Minni fjárlagahalli býr til störf“! Þetta var eitt af því sem hagfræðingateymi Clintons, sem leitt var af fjármálaráðherra hans Robert Rubin, sögðu við hann þegar var verið að kljást við mikinn halla á fjárlögum.

Í heimi hagfræðinnar voru þeir Stephen Turnovsky og Marcus Miller (1984), ásamt Olivier Blanchard (1984), byrjaðir að þróa hagfræðikenningar sem færðu rök fyrir því hvernig trúverðugur samdráttur á væntum fjárlagahalla í framtíðinni gæti aukið heildareftirspurn í hagkerfi dagsins í dag.

Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.

Grunnhugmynd þeirra var sú að ef fjárfestar væru sannfærðir um að skuldir ríkisins yrðu lægri í framtíðinni, þá myndu langtímavextir í dag lækka og örva þannig núverandi eftirspurn. Líkön þeirra sýndu hins vegar ekki fram á að lækkun á núverandi fjárlagahalla yrði þensluhvetjandi þá stundina. Með öðrum orðum að margfeldi skatta væri neikvætt. Turnovsky-Miller-Blanchard-kenningin gaf samt fræðilega útskýringu á efnahagslegum uppgangi á Clinton-tímabilinu. Ríkissjóðurinn fór úr methalla í góðan afgang á örskömmum tíma.

Heimild: Fiscal Theory and Price Level, Kafli 4, Debt, Deficits, Discount Rates, and Inflation, bls 84.

Frumjöfnuður ríkissjóðsins fór úr því að vera í jafnvægi um 1990 í 6% afgang af vergri landsframleiðslu árið 2001. Á sama tíma fór skuldir ríkissjóðs úr því að vera um 50% af landsframleiðslu í 30%. Þessi miklu umskipti þýddu meðal annars að vaxtaálag lækkaði og á sama tíma var verðbólga lág. Eins og sá má á ofangreindri mynd, þá er sterk fylgni á milli afgangs á frumjöfnuði, lækkun ríkisskulda og lágrar verðbólgu. 

Fjármálaráðherrann Rubin hefur iðulega fengið lof í lófa fyrir að hafa stýrt því að þessi leið yrði farin enda skildu fáir skuldabréfamarkaðinn eins vel og hann. Stjórnvöld settu fram trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum og fjárfestar keyptu hana og því skiluðu aðhaldssöm ríkisfjármál lægra vaxtastigi!

Ríkisfjármálakenningin og mikilvægi væntinga

Grunnhugmyndin á bak við kenningu John Cochrane er að aðhald fjármála hins opinbera ákvarði verðlag í hagkerfinu. Ríkisfjármálakenningin hans snýst að auki um hvert virði ríkisskulda sé. Virði ríkisskuldabréfa annars vegar og almennra hlutabréfa og skuldabréfa hins vegar er metið að jöfnu. Á sama hátt og hlutabréf- eða skuldabréfaverð skila arði og/eða verðbótum á núvirði, þá jafngildir raunvirði ríkisskulda núvirtum afgangi ríkisfjármála. Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.

Að mati Cochrane á að vera hægt að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila bæði er varðar vænt ríkisfjármál og peningastefnu.

Hvað með Ísland?

Verðbólga mældist 9,9% á ársgrundvelli í apríl. Verðbólga er of há. Þessi mæling var hærri en flestir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Í kjölfarið hækkaði ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hratt en jafnaði sig þó þegar líða tók á daginn. Baráttan við verðbólguna er á vandasömum tímapunkti. Ljóst er að allar aðgerðir Seðlabanka Íslands og ríkisfjármálanna þurfa að miða að því að ná böndum á verðbólgunni áður en upphefst víxlverkun launa og verðlags. 

Hægt er að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila

Trúverðugleikinn er allt á þessum tímapunkti og má með sanni segja að núverandi ríkisstjórn hafi kappkostað við að minnka skuldir ríkissjóðs til að auka lánshæfi ríkissjóðs Íslands. Skuldir ríkissjóðs nema um 33% af landsframleiðslu og við lok ríkisfjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að þær nemi um 30%.

Lokaorð

Í þessari grein hef ég lagt út með hagfræðikenningar sem eiga við Bandaríkin. Ljóst er að mikill munur er hagkerfum Íslands og Bandaríkjanna. Hins vegar eru það ákveðin lögmál hagfræðinnar sem eiga ávallt við. Sterk skuldastaða lækkar ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréf. Sjálfbær ríkisfjármál lækka verðbólgu. 

Lítið hagkerfi þarf ávallt að hafa borð fyrir báru í efnahagsmálum. Skuldir þurfa að vera lágar, gjaldeyrisforði hár og viðskiptajöfnuðurinn þarf að skila afgangi. Náist þessi árangur á næstunni munu vextir lækka og staða heimila og fyrirtækja batna. Ísland hefur skapað ein bestu lífskjör sem völ eru á og hefur alla burði til að auka enn frekar jöfnuð og fjárfesta í velferðarkerfinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á Innherji á visir.is 4. maí 2023.