Categories
Fréttir Greinar

Þing­menn verða að vita að Lilja segir satt

Deila grein

23/10/2024

Þing­menn verða að vita að Lilja segir satt

Frjáls og virk skoðanaskipti eru grundvöllur hins sterka lýðræðisþjóðfélags sem við búum í. Í gær birtist einmitt áhugaverð skoðanagrein eftir Björn B. Björnsson kvikmyndagerðarmann undir yfirskriftinni Þingmenn verða að vita að Lilja segir ekki satt. Björn fer þar mikinn í umræðunni um Kvikmyndasjóð og meintrar ,,slátrunar‘‘ undirritaðar á sjóðnum þar sem hann rekur hvernig framlög ríkisins til Kvikmyndasjóðs hafa lækkað að undanförnu. Um er að ræða lækkun sem skýrist að stærstum hluta af því að tímabundin framlög sem sett voru í sjóðinn vegna Covid heimsfaraldurs, á grundvelli kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030, eru fallinn niður, líkt og önnur slíkt Covid framlög í öðrum málaflokkum.

Tímabundin framlög eru tímabundin

Björn virðist ekki meðtaka það að tímabundin framlög vegna heimsfaraldurs eru tímabundin framlög ef marka má orð hans: ,,Lilja segir að þessi niðurskurður sé vegna þess að framlög í sjóðinn á árunum 2020 og 2021 hafi verið tímabundin framlög vegna covid. En þetta er því miður ekki satt. Aukin framlög í kvikmyndasjóð á þessum árum komu til vegna nýrrar kvikmyndastefnu sem ætlað var að stórefla greinina – eins og Lilja sagði margoft á þessum tíma í ræðum og riti. Hvergi sagði hún einu orði að þessi framlög væru tímabundin og vegna kóvid – og hvergi er stafkrókur um slíkt í opinberum skjölum.‘‘

Það er hinn eðlilegasti hlutur að berjast fyrir hagsmunum sínum í ræðu og riti, en það hlýtur að vera sanngjörn krafa að fara ekki með staðlausa stafi á þeirri vegferð – sér í lagi áður en menn fara að ásaka aðra um slátranir og lygar. Má ég því til með að benda Birni á þessa fréttatilkynningu frá ráðuneyti mínu þann 8. október 2020 svo dæmi sé tekið, þar sem farið var yfir hluta af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs. Þar stendur skýrum stöfum:

,,Samkvæmt nýrri Kvikmyndastefnu verður 412 milljónum kr. varið til að efla kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð en alls nema framlög vegna nýrrar kvikmyndastefnu 550 milljónum kr. í frumvarpinu. Framlagið er liður í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar.‘‘

Birni hefði verið í lófa lagið að nenna að leita stundarkorn eftir staðreyndum áður en hann reisti hús sitt á sandi, nema hann hafi einfaldlega kosið að líta fram hjá staðreyndum málsins. Leiðréttist þessi misskilningur og yfirsjón Björns hér með.

Hefur eitthvað verið gert fyrir kvikmyndagerð á Íslandi?

Af lestri greina eins og Björn ritar mætti halda að íslensk menning væri í dauðateygjunum. Því fer víðsfjarri. Staðreynd málsins er sú að mjög margt hefur áunnist á síðastliðnum árum til þess að efla kvikmyndagerð á Íslandi og er ég verulega stolt af því. Raunar er staðan sú að mörgum af þeim aðgerðum sem kynntar voru í kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030 hefur verið hrint til framkvæmdar, og enn eru 6 ár eftir af líftíma hennar. Hér eru nokkur dæmi um það sem hefur verið áorkað.

  • 1,3 milljarði króna, eitt þúsund og þrjú hundruð milljónum króna, hefur verið veitt í tímabundin viðbótarframlög í kvikmyndasjóð frá árinu 2020.
  • Endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð var hækkað úr 25% í 35%
  • Velta í kvikmyndagerð hefur stóraukist
  • Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar. Þar er nú boðið upp á 180 eininga BA nám með kjörsvið í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni.
  • Framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi voru hækkuð
  • Starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda verður að veruleika á næsta ári eftir breytingar á lögum um starfslaun listamanna
  • Löggjöf um nýjan fjárfestingarsjóð sjónvarpsefnis ( framleiðslustyrki til lokafjármögnunar) var kláruð
  • Frumvarp um menningarframlag sem unnið hefur verið að er á lokametrunum. Með því yrði lögfest ný skylda á hendur streymisveitum til að greiða fjárframlag, sem rennur til Kvikmyndasjóðs (áætlað allt að 260 m.kr. á ári) eða skyldu til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni.
  • Efnahagslegt mikilvægi kvikmyndagerðar á Íslandi kortlagt, sbr. úttekt Olsberg
  • Stutt hefur verið sérstaklega við að varðveislu og stafvæðingu á íslenskum kvikmyndaarfi
  • Stutt hefur verið myndarlega við sjálfsprottin verkefni eins og kynningu á íslenskum myndum erlendis, innlendar kvikmyndahátíðir og menningarleg kvikmyndahús
  • Stutt hefur Kvikmyndatengda fræðslu, til dæmis fyrir ungt fólk
  • Sjálfbærni í kvikmyndagerð hefur verið stutt með gerð handbókar þar um

Rúmir 7 milljarðar áætlaðir til kvikmyndamála árið 2025

Heildarframlög til kvikmyndamála á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins 2016-2025.

Áætluð fjárframlög til þeirra kvikmyndatengdu mála sem heyra undir menningar- og viðskiptaráðuneytið eru áætluð rúmir 7 milljarðar á næsta ári. Fellur þar undir, Kvikmyndasjóður, Kvikmyndamiðstöð, Kvikmyndasafn Íslands og endurgreiðslukerfi kvikmynda. Endurspeglar upphæðin þau auknu umsvif sem orðið hafa í kvikmyndagerð hér á landi á undanförnum árum, sem birtast meðal annars í hækkun á endurgreiðslum. Á undanförnum árum hafa upphæðir úr þeim skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna.

Lægri verðbólga stærsta forgangsmál samfélagsins

Lækkun verðbólgu og þar með vaxta er stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Jákvæð teikn eru á lofti þar en til að ná markmiði um lækkun verðbólgu þarf aðhald í ríkisfjármálum. Fyrir næsta ár birtist þetta meðal annars í sértæku aðhaldi á samkeppnissjóði hjá öllum ráðuneytum. Kvikmyndasjóður er var þar ekki undanskilinn, en hann er einn af 14 sjóðum á sviði menningarmála. Framlög í hann á næsta ári munu nema rúmum milljarði en áform um menningarframlag streymisveita er meðal annars ætlað að efla hann inn til framtíðar.

Þróun framlaga í Kvikmyndasjóð 2016-2025. Eftirstöðvum fjárfestingaráttaksins var dreift inn á árið 2024. Árið 2023 var sérstak 250 m.kr aukaframlag sett í sjóðinn til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði eða sjóðurinn var skuldbundinn gagnvart með samningi.

Þegar til framtíðar er litið, og þegar efnahagsástand og fjármál hins opinbera leyfa, hljótum við að líta til þess að bæta í Kvikmyndasjóð að nýju, enda er sjóðurinn einn af burðarásum íslenskrar menningar. Ég sé fyrir mér að fyrirsjáanleiki í fjármögnun sjóðsins yrði aukin, til að mynda með samkomulagi til fjögurra ára í senn. Slíkt yrði þó alltaf háð fjárveitingu hvers árs.

Kvikmyndagerð orðin heilsárs atvinnugrein

Meiri háttar breyting sem hefur orðið á kvikmyndagerð hér á landi er að hún er orðin heilsársatvinnugrein og verkefnum, stórum sem smáum, hefur fjölgað. Hér hefur byggst upp dýrmæt sérþekking á öllum sviðum kvikmyndagerðar, hvort sem það snýr að listræna þættinum eða hinum tæknilega og umsóknum í kvikmyndasjóð hefur fjölgað verulega. Í úttekt breska ráðgjafafyrirtækisins Olsberg kom til að mynda fram að 4.200 bein, óbein og afleidd störf hefðu verið til vegna kvikmyndagerðar hér á landi árið 2022 og að heildaratvinnutekjur þeirra sem störfuðu við kvikmyndaverkefni hér á landi hafi numið 48,9 milljörðum króna á árunum 2019 -2022Þá er gríðarlega ánægjulegt að sjá stór verkefni í kvikmyndagerð raungerast á landsbyggðinni sem styrkir stoðir greinarinnar og smærri byggðir á landinu. Þá hafa upphæðir úr endurgreiðslukerfinu skipst nokkuð jafnt á milli innlendra og erlendra verkefna undanförnum árum, eins og rakið er í úttekt Olsberg.

Skipting endurgreiðslna í kvikmyndagerð

Ég hef lagt mig alla fram við að efla menningarlífið á Íslandi og umhverfi kvikmyndagerðar þar á meðal. Í virkilega góðu samráði við haghafa greinarinnar höfum við náð að stíga stór framfaraskref skömmum tíma. Ég vil meina að ekki hefur jafnmikið gerst á jafn stuttum tíma frá því að Kvikmyndasjóður var settur á laggirnar árið 1979 og endurgreiðslukerfinu í kvikmyndagerð var komið á fót árið 1999. Til gamans má geta var hvorug tveggja komið á fót af ráðherrum úr Framsóknarflokknum, sem segir kannski ákveðna sögu. Það breytir því ekki að við viljum sjá enn frekari árangur, og kvikmyndasjóð eflast út líftíma kvikmyndastefnunnar til ársins 2030 og enn lengra inn framtíðar. Íslensk kvikmyndagerð getur treyst því að undirrituð verði áfram góður liðsmaður í því verkefni, sama hvað rangfærslum Björns B. Björnssonar líður.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stærsta hagsmunamálið

Deila grein

19/10/2024

Stærsta hagsmunamálið

Það er ábyrgðahluti að sitja í rík­is­stjórn Íslands. Á und­an­förn­um árum höf­um við í Fram­sókn ein­beitt okk­ur að því að horfa fram á veg­inn, vera á skófl­unni og vinna vinn­una í þágu ís­lenskra hags­muna. Við höf­um haldið okk­ur fyr­ir utan reglu­legt hnútukast milli annarra stjórn­mála­flokka og reynt að ein­blína frek­ar á verk­efn­in og finna á þeim hag­felld­ar lausn­ir fyr­ir land og þjóð.

Ég er stolt af þeim ár­angri sem náðst hef­ur á ýms­um sviðum þjóðlífs­ins á und­an­förn­um árum. Margt hef­ur áunn­ist þótt það séu fjöl­mörg tæki­færi til þess að gera bet­ur. Þannig er gang­ur lífs­ins.

Lægri verðbólga og lækk­un vaxta eru stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja um þess­ar mund­ir. Það voru já­kvæð tíðindi þegar Seðlabank­inn lækkaði vexti nú í byrj­un mánaðar. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér. Lyk­il­atriði á næstu vik­um er að tryggja að at­b­urðarás­in á næst­unni verði ekki til þess að tefja vaxta­lækk­un­ar­ferlið. Fram­sókn mun ekki láta sitt eft­ir liggja í þing­inu til að tryggja að skyn­sam­leg fjár­lög verði samþykkt, líkt og boðað er í því fjár­laga­frum­varpi sem fjár­mála- og efna­hags­ráðherra hafði mælt fyr­ir fyrr í haust. Leiðarljós þess eru að ná niður verðbólgu og bæta þannig kjör heim­ila og fyr­ir­tækja. Það er skoðun okk­ar að traust sam­spil pen­inga­stefnu Seðlabanka Íslands, op­in­berra fjár­mála og aðila vinnu­markaðar­ins sé lyk­il­for­senda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta. Í þágu þessa þarf for­gangs­röðun í op­in­ber­um fjár­mál­um sem kall­ast á við aðgerðir stjórn­valda í þágu lang­tíma­kjara­samn­inga á vinnu­markaði, sem snúa að því að fjár­festa í fólki.

Það eru áhuga­verðir tím­ar í ís­lensk­um stjórn­mál­um um þess­ar mund­ir. Það er skylda okk­ar sem störf­um á þeim vett­vangi að tak­ast á við stöðuna af ábyrgð og festu enda er til mik­ils að vinna að ná mjúkri lend­ingu í hag­kerf­inu. Það er heiður að starfa í umboði kjós­enda lands­ins og vinna í þágu ís­lenskra hags­muna. Í kom­andi kosn­ing­um munu flokk­arn­ir óska eft­ir end­ur­nýjuðu umboði til þess að sitja á Alþingi Íslend­inga. Við í Fram­sókn erum klár í bát­ana og vél­arn­ar hafa verið ræst­ar, til­bú­in til að leggja okk­ur öll áfram fram til þess að gera sam­fé­lagið betra en það var í gær.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Deila grein

14/10/2024

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Þegar reyn­ir á stoðir tungu­máls okk­ar og menn­ing­ar finn­um við til ábyrgðar. Mál­efni tungu­máls­ins hafa sjald­an verið eins áber­andi í umræðunni og síðustu ár. Íslensk­an skipt­ir okk­ur öll máli og okk­ur þykir öll­um raun­veru­lega vænt um tungu­málið okk­ar. Því í tungu­mál­inu býr menn­ing okk­ar, merk og alda­göm­ul saga; sjálf þjóðarsál­in. Mál­tækni­áætl­un stjórn­valda og at­vinnu­lífs hef­ur skilað undra­verðum ár­angri fyr­ir tungu­málið svo eft­ir er tekið um all­an heim. Enn frek­ari aðgerða er þörf á því sviði og ég mun beita mér fyr­ir því að komið verði á fót gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð á Íslandi, í áfram­hald­andi sam­vinnu við at­vinnu­lífið.

Mik­il­vægi ís­lensk­unn­ar

Hæfni barna í móður­mál­inu ræður oft för um tæki­færi þeirra til framtíðar. Ég finn vel fyr­ir áhyggj­um Íslend­inga af framtíð tungu­máls­ins. Í minni ráðherratíð, sem ráðherra menn­ing­ar­mála, er þetta lík­lega það mál sem ég er tíðast brýnd til að beita mér fyr­ir. Fólk gef­ur sig á tal við mig úti á götu með áhyggj­ur af stöðu barn­anna okk­ar sem hrær­ast í ensku mál­um­hverfi, í sím­un­um og allt of oft í sjálf­um skól­un­um þar sem sí­fellt fleiri starfs­menn og sam­nem­end­ur þeirra tala litla sem enga ís­lensku. Þegar fólk geng­ur um miðbæ Reykja­vík­ur blasa við því upp­lýs­inga­skilti, aug­lýs­ing­ar og mat­seðlar á ensku. Er­lendu af­greiðslu­fólki fjölg­ar sí­fellt sem tal­ar enga ís­lensku. Nýj­ustu tækni­lausn­ir hafa síðasta ára­tug aðeins verið aðgengi­leg­ar á ensku. Ég leyfi mér þó að horfa bjart­sýn­um aug­um til framtíðar og segja að okk­ur sé að tak­ast að snúa þess­ari þróun við.

Íslensk­an er víða í sókn

Fjöld­inn all­ur af lausn­um sem aðstoða inn­flytj­end­ur við að læra ís­lensku hef­ur birst á síðasta ári, sem all­ar njóta veru­legra vin­sælda. Ég nefni þar sem dæmi RÚV ORÐ, sem kenn­ir fólki ís­lensku í gegn­um afþrey­ing­ar­efni RÚV, og Bara tala, for­rit með sér­sniðinni ís­lensku­kennslu eft­ir orðaforða úr mis­mun­andi starfs­grein­um á Íslandi. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Upp­lýs­inga­skilti í Leifs­stöð gera nú loks­ins ís­lensku hærra und­ir höfði en ensku, líkt og eðli­legt er á ís­lensk­um flug­velli eins og ég hef bent á ít­rekað und­an­far­in ár. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér.

Stærstu mállíkön heims hafa á síðasta ári lært því sem næst lýta­lausa ís­lensku. Nýj­ustu fyr­ir­tækjalausn­ir, sem flest­ar eru byggðar ofan á þau líkön, eru því not­hæf­ar á ís­lensku. Áhrifa­mesta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims gum­ar af hæfni mállík­ans síns í tungu­máli sem um 350 þúsund manns tala, ís­lensku. Ekk­ert af þessu gerðist af sjálfu sér.

Sam­vinna at­vinnu­lífs og stjórn­valda skil­ar ár­angri

Far­sælt sam­starf stjórn­valda og at­vinnu­lífs í þróun á nýj­ustu tækni fyr­ir tungu­málið hef­ur sannað sig. Um­fangs­mik­il fjár­fest­ing stjórn­valda í þess­ari þróun, sem hófst árið 2018 með fyrstu mál­tækni­áætl­un, hef­ur borgað sig. Með söfn­un á gríðarlegu magni gagna á ís­lensku og þróun á gervi­greind­ar­tækni á ís­lensku hef­ur Ísland orðið leiðandi afl meðal smáþjóða í heimi mál­tækni og gervi­greind­ar. Fjár­fest­ing og þróun á tækni­leg­um innviðum sem þess­um í nafni tungu­máls og menn­ing­ar­arfs heill­ar þjóðar hef­ur vakið at­hygli út fyr­ir land­stein­ana. OpenAI, eitt stærsta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims, hef­ur viljað vinna náið með Íslandi á þess­um for­send­um: við deil­um áhuga með fyr­ir­tæk­inu á tungu­mál­inu og ger­um okk­ur grein fyr­ir að stærsta tækni­bylt­ing síðustu ára­tuga, gervi­greind­ar­bylt­ing­in, grund­vall­ast á sam­spili mann­legs tungu­máls og tölvu­tækni.

Áfram sækj­um við fram

Við erum hvergi af baki dott­in. Ég er þess full­viss að tækn­in muni á næstu árum, jafn­vel mánuðum, færa okk­ur lausn­ir við mörg­um af helstu vanda­mál­um sem nú ógna tungu­máli okk­ar. Tækni sem þýðir og tal­set­ur barna­efni með eins rödd­um og í upp­haf­legri út­gáfu þess er rétt hand­an við hornið. Fleiri tækni­lausn­ir sem auðvelda inn­flytj­end­um að læra ís­lensku eiga eft­ir að koma út. Nýj­ustu lausn­ir frá Microsoft og Google og fleiri tækn­iris­um verða aðgengi­leg­ar á ís­lensku. iP­ho­ne-sím­inn þinn mun á end­an­um geta talað ís­lensku. Ég er viss um það. En þetta ger­ist hins veg­ar ekki af sjálfu sér.

Við verðum að tryggja áfram­hald­andi þróun í ís­lenskri mál­tækni og gervi­greind og að mála­flokk­ar þess­ir tali sam­an. Um síðustu mánaðamót hrinti menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið ann­arri mál­tækni­áætl­un af stað, sem fel­ur í sér mikla fjár­fest­ingu og áfram­hald­andi sókn í mál­tækni. Þar er áhersl­an á hag­nýt­ingu þeirra innviða sem við höf­um smíðað síðustu ár og lausn­ir á ís­lensku sem gagn­ast al­menn­ingi og tungu­mál­inu.

Gervi­greind­ar- og mál­tækni­set­ur

Sýn okk­ar er að Ísland verði að koma á fót öfl­ugri ein­ingu, helst í sam­starfi stjórn­valda og at­vinnu­lífs, sem færi með mál­efni bæði gervi­greind­ar og mál­tækni. Slík ein­ing myndi vinna stöðugt að efl­ingu þess­ara greina á Íslandi, tryggja ný­sköp­un inn­an þeirra, hag­nýt­ar rann­sókn­ir há­skóla sem gagn­ast ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um og vera leiðandi afl á þessu sviði meðal smærri þjóða. Ísland hef­ur alla burði til að standa und­ir slíku starfi. Græn orka og nátt­úru­leg­ar aðstæður eru full­komn­ar fyr­ir fram­leiðslu á reikniafli, sem get­ur um­bylt tækniiðnaði og rann­sókn­ar­starfi á Íslandi. Íslenskt hug­vit og tækni geta staðið stolt á meðal fremstu þjóða heims, og efl­ing þessi verður reist á grund­velli menn­ing­ar og tungu­máls Íslend­inga. Við höf­um lagt til að ráðast í sam­starf við há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið um að gera þessa framtíðar­sýn að veru­leika og ég von­ast til að við get­um hafið þessa upp­bygg­ingu á allra næstu mánuðum. Mín von er að slík gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð yrði rek­in í sam­vinnu stjórn­valda og at­vinnu­lífs með ekki ósvipuðu fyr­ir­komu­lagi og Íslands­stofa. Hægt væri að sam­eina ýms­ar smærri stofn­an­ir og ein­ing­ar í mál­tækni, gervi­greind og ný­sköp­un und­ir ein­um hatti og auka hagræði í mála­flokk­un­um báðum á sama tíma og starf inn­an þeirra yrði eflt.

Bók­mennta­arf­ur Íslands þykir eitt af undr­um ver­ald­ar og er sann­ar­lega fram­lag okk­ar til heims­bók­mennt­anna. Að sama skapi hef­ur Ísland alla burði til að vera ein öfl­ug­asta gervi­greind­ar- og mál­tækniþjóð í heimi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Bókmenntastefna með ríka áherslu á ungt fólk

Deila grein

10/10/2024

Bókmenntastefna með ríka áherslu á ungt fólk

Í vik­unni mælti ég á Alþingi fyr­ir metnaðarfullri bók­mennta­stefnu til árs­ins 2030. Með henni vilj­um við efla ís­lenska rit­menn­ingu og tryggja að ís­lensk tunga dafni til framtíðar. Stefn­an legg­ur áherslu á marg­vís­leg atriði, en í kjarn­an­um er það að tryggja fjöl­breytta og kraft­mikla út­gáfu bóka á ís­lensku og auka lest­ur á öll­um aldri, en með sér­stakri áherslu á yngri kyn­slóðir. En hvað ger­ir út­gáfa bóka á ís­lensku svo mik­il­væga? Hvers vegna þarf þjóðfé­lagið að fjár­festa í henni?

Íslensk­ar bók­mennt­ir eru grund­völl­ur menn­ing­ar okk­ar. Þær varðveita sögu, þjóðsög­ur og hefðir og end­ur­spegla þróun sam­fé­lags­ins í gegn­um tíðina. Bæk­ur eru lyk­ill að því að skilja menn­ingu okk­ar, hug­mynda­fræði og sjón­ar­mið. Aðeins með því að skapa og varðveita ís­lensk­ar bók­mennt­ir get­um við tryggt að framtíðar kyn­slóðir fái að kynn­ast ríkri menn­ing­ar­arf­leifð okk­ar, skilja ræt­ur sín­ar bet­ur og viðhalda tungu­mál­inu.

Það er ekk­ert laun­ung­ar­mál að tungu­málið okk­ar stend­ur frammi fyr­ir áskor­un­um af völd­um snjall­tækja og stór­auk­ins aðgangs að ensku snemma á mál­töku­skeiði. Við sjá­um til að mynda að í ný­legri könn­un­um hef­ur áhugi barna á lestri stór­lega minnkað frá ár­inu 2000. Þetta eru slæm­ar frétt­ir sem þarf að bregðast við með fjöl­breytt­um ætti. Margt hef­ur áunn­ist á und­an­förn­um árum en það eru ýmis tæki­færi til þess að gera bet­ur í þess­um efn­um. Í bók­mennta­stefn­unni er lögð sér­stök áhersla á börn og ung­menni. Má þar til dæm­is nefna að starfs­um­hverfi höf­unda barna- og ung­menna­bóka verði styrkt sér­stak­lega og viðbótar­fjármagni verði tíma­bundið veitt til Barna­menn­ing­ar­sjóðs til að styrkja verk­efni sem byggj­ast á og stuðla að auk­inni miðlun á ís­lensk­um sagna­arfi til barna og ung­menna ásamt því að kannaðir verði mögu­leik­ar á því að styðja sér­stak­lega við þýðing­ar á er­lend­um bók­mennt­um eða sam­bæri­legu efni sem höfðar til barna og ung­menna á ís­lensku. Þá er einnig lagt til að stuðlað verði að auk­inni kynn­ingu og sýni­leika á hlut­verki og störf­um rit­höf­unda, mynd­höf­unda og þýðenda, meðal ann­ars í starfi grunn­skóla og fram­halds­skóla, vegna mik­il­væg­is þeirra fyr­ir ís­lenska tungu og sköp­un­ar­kraft kom­andi kyn­slóða.

Með því að gefa út fjöl­breytt­ar bæk­ur á ís­lensku fyr­ir börn og full­orðna auk­um við notk­un og skiln­ing á tungu­mál­inu. Um ald­ir höf­um við skrifað sög­una á ís­lensku og því ætl­um við að halda áfram um ókomna tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Neytendavernd viðkvæmra hópa

Deila grein

01/10/2024

Neytendavernd viðkvæmra hópa

Neyt­enda­mál hafa verið í for­gangi í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu á kjör­tíma­bil­inu. Þannig hef­ur viðskipta­bönk­un­um til að mynda verið veitt aðhald með út­tekt á gjald­töku þeirra og arðsemi, stutt hef­ur verið við verðlags­eft­ir­lit á dag­vörumarkaði, niðurstaða út­tekt­ar á trygg­inga­markaðnum er vænt­an­leg fyr­ir ára­mót og ný­verið mælti ég fyr­ir heild­stæðri stefnu í neyt­enda­mál­um til árs­ins 2030. Ein aðgerðanna í þeirri stefnu snýr að neyt­enda­vernd viðkvæmra hópa, en ákveðnir hóp­ar neyt­enda í til­tekn­um aðstæðum geta verið viðkvæm­ir fyr­ir markaðssetn­ingu og aug­lýs­ing­um og þurfa því sér­staka vernd, svo sem börn, eldri borg­ar­ar og fatlað fólk.

Við höf­um m.a. litið til sam­an­b­urðarríkja í þess­um efn­um þar sem ým­is­legt hef­ur verið til skoðunar, eins og t.d. end­ur­skoðun á stöðlum fyr­ir barna­vör­ur, fjár­málaráðgjöf til neyt­enda sem standa höll­um fæti fjár­hags­lega og aukið gagn­sæi og ráðgjöf til að nálg­ast upp­lýs­ing­ar. Á þing­mála­skrá minni er m.a. að finna frum­varp til markaðssetn­ing­ar­laga sem inni­held­ur ákvæði sem snúa að viðskipta­hátt­um sem bein­ast að börn­um og ung­ling­um und­ir 18 ára aldri. Ákvæðið bygg­ist á sam­bæri­leg­um ákvæðum í dönsku og norsku markaðssetn­ing­ar­lög­un­um sem byggj­ast að miklu leyti á siðaregl­um Alþjóðaviðskiptaráðsins um aug­lýs­ing­ar og markaðssetn­ingu að því er varðar vernd barna og ung­linga.

Á Íslandi hafa mál­efni smá­lána verið til sér­stakr­ar skoðunar und­an­far­in ár og hafa stjórn­völd, með Neyt­enda­stofu í broddi fylk­ing­ar, lagt tals­vert kapp á að koma smá­lána­starf­semi í lög­mætt horf. Þannig hef­ur smá­lána­starf­semi tekið mikl­um breyt­ing­um í kjöl­far eft­ir­litsaðgerða m.a. með skil­grein­ingu viðbót­ar­kostnaðar, út­gáfu raf­bóka, lána­starf­semi frá Dan­mörku o.s.frv. Eft­ir nauðsyn­leg­ar laga­breyt­ing­ar hef­ur ekki borið jafn mikið á ólög­mæt­um smá­lán­um og var fyr­ir breyt­ing­una. Hins veg­ar hafa viðskipta­hætt­ir tengd­ir smá­lán­um breyst og tekju­lind­in virðist hafa færst yfir í lög­inn­heimtu tengda smá­lán­um með til­heyr­andi vanda­mál­um fyr­ir viðkvæma neyt­end­ur. Neyt­end­ur, og sér­stak­lega neyt­end­ur í viðkvæmri stöðu, leita oft ekki rétt­ar síns þar sem þá skort­ir fjár­magn, tíma og þekk­ingu, auk þess sem mála­ferl­um fylg­ir oft óhagræði. Til skoðunar er að inn­heimtu­hætt­ir á þess­um markaði verði kortlagðir og að fyr­ir­komu­lag eft­ir­lits með frum-, milli- og lög­inn­heimtu verði end­ur­skoðað heild­stætt til að unnt sé að taka á órétt­mæt­um inn­heimtu­hátt­um.

Í neyt­enda­mál­um líkt og öðrum mál­um skipt­ir máli að huga sér­stak­lega að viðkvæm­ustu hóp­um sam­fé­lags­ins. Það vilj­um við gera með auk­inni fræðslu, aðhaldi og eft­ir­liti til þess að efla rétt neyt­enda á breiðum grunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Neytendamál í öndvegi

Deila grein

21/09/2024

Neytendamál í öndvegi

Í vik­unni mælti ég á Alþingi fyr­ir þings­álykt­un um stefnu í neyt­enda­mál­um til árs­ins 2030. Mik­il vinna hef­ur átt sér stað inn­an menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins á und­an­förn­um árum til þess að und­ir­byggja raun­veru­leg­ar aðgerðir í þágu neyt­enda. Aðdrag­anda þings­álykt­un­ar­til­lög­unn­ar má meðal ann­ars rekja til þess að í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar er lögð al­menn áhersla á efl­ingu neyt­enda­vernd­ar og að tryggja stöðu neyt­enda bet­ur, meðal ann­ars í nýju um­hverfi netviðskipta.

Það skipt­ir raun­veru­legu máli að huga vel að neyt­enda­mál­um, enda hafa þau víðtæka skír­skot­un til sam­fé­lags­ins og at­vinnu­lífs­ins og mik­il­vægt er að til staðar sé skýr stefnu­mót­un á því mál­efna­sviði, ásamt aðgerðaáætl­un til næstu ára. Þegar hef­ur verið unnið að ýms­um breyt­ing­um á sviði neyt­enda­mála með það að mark­miði að bæta lög­gjöf á því sviði, auka neyt­enda­vit­und og styrkja þannig stöðu neyt­enda.

Lög­gjöf á sviði neyt­enda­mála hef­ur að stærst­um hluta það mark­mið að leiðrétta aðstöðumun sem er milli fyr­ir­tækja og al­menn­ings, þ.e. neyt­enda, bæði al­mennt og vegna ein­stakra viðskipta. Í því felst m.a. að vernda neyt­end­ur gegn órétt­mæt­um viðskipta­hátt­um fyr­ir­tækja, upp­lýsa neyt­end­ur og veita þeim skil­virk úrræði til að leita rétt­ar síns.

Í þings­álykt­un­ar­til­lög­unni er einnig að finna aðgerðaáætl­un þar sem koma fram níu skil­greind­ar aðgerðir, með ábyrgðaraðilum og sam­starfsaðilum. Aðgerðirn­ar snúa meðal ann­ars að auk­inni neyt­enda­vernd á sviði fjár­málaþjón­ustu og áherslu á fjár­mála­læsi, neyt­enda­vernd viðkvæmra hópa, áherslu á ís­lensku við markaðssetn­ingu vöru og þjón­ustu, aukna neyt­enda­vernd við fast­eigna­kaup, áherslu á netviðskipti og staf­væðingu á sviði neyt­enda­mála sem og rann­sókn­ir, upp­lýs­inga­gjöf og fræðslu til að auka neyt­enda­vit­und.

Til viðbót­ar of­an­greind­um aðgerðum hef­ur menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið lagt sér­staka áherslu á að fylgj­ast náið með arðsemi og gjald­töku viðskipta­bank­anna til að veita þeim aðhald í þágu neyt­enda. Haustið 2023 var um­fangs­mik­il skýrsla þess efn­is birt og er von á þeirri næstu síðar í haust. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar þessi miss­er­in er að ná niður verðbólgu og þar með vöxt­um í land­inu, enda er það stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja. Í því verk­efni verða all­ir að taka þátt og vera á vakt­inni. Menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið tek­ur hlut­verk sitt í því verk­efni al­var­lega og hef­ur þess vegna sett neyt­enda­mál í önd­vegi í þágu sam­fé­lags­ins alls.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Öryggismál verða áfram á oddinum

Deila grein

12/09/2024

Öryggismál verða áfram á oddinum

Á und­an­förn­um 15 árum hef­ur ferðaþjón­usta átt stór­an þátt í því að renna styrk­ari stoðum und­ir ís­lenskt efna­hags­líf. Vöxt­ur henn­ar hef­ur aukið fjöl­breytni at­vinnu­lífs­ins um allt land og skapað ný tæki­færi fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki. Vexti nýrr­ar at­vinnu­grein­ar fylgja áskor­an­ir sem mik­il­vægt er að fást við. Þannig leiðir til að mynda fjölg­un ferðamanna af sér verk­efni sem snúa að ör­ygg­is­mál­um og slysa­vörn­um. Eitt af for­gangs­mál­un­um í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu á þessu kjör­tíma­bili hef­ur verið að styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar í víðum skiln­ingi og búa henni hag­felld skil­yrði til þess að vaxa og dafna með sjálf­bær­um hætti til framtíðar í sátt við nátt­úru, menn og efna­hag. Í þings­álykt­un um ferðamála­stefnu og aðgerðaáætl­un til 2030, sem samþykkt var í júní 2024 og unn­in var í breiðri sam­vinnu fjölda hagaðila, er á nokkr­um stöðum að finna áhersl­ur sem lúta að ör­ygg­is­mál­um í ferðaþjón­ustu. Öryggi ferðamanna snert­ir mála­flokka sem heyra und­ir ýmis ráðuneyti, stofn­an­ir og sam­tök, og úr­bæt­ur á því sviði krefjast sam­starfs og sam­hæf­ing­ar þvert á stjórn­völd og at­vinnu­líf.

Í aðgerðaáætl­un ferðamála­stefnu er að finna sér­staka aðgerð sem snýr að bættu ör­yggi ferðamanna.

Mark­miðið er skýrt: að tryggja ör­yggi ferðamanna um land allt, eins og kost­ur er, hvort sem um er að ræða á fjöl­sótt­um áfanga­stöðum eða á ferð um landið al­mennt. Sér­stak­ur starfs­hóp­ur mun á næstu vik­um taka til starfa til þess að fylgja þess­ari aðgerð eft­ir, en verk­efni hans er að greina ör­ygg­is­mál í ferðaþjón­ustu, vinna að fram­gangi þeirra og tryggja sam­tal á milli aðila. Í því sam­hengi mun hóp­ur­inn meðal ann­ars skoða upp­lýs­inga­gjöf, hvernig skrán­ingu slysa og óhappa er háttað, áhættumat á áfanga­stöðum, upp­færslu viðbragðsáætl­un­ar, fjar­skipta­sam­band, viðbragðstíma viðbragðsaðila og sam­ræmda og skýra upp­lýs­inga­gjöf til ferðamanna. Starfs­hóp­ur­inn starfar á víðum grunni en hann skipa full­trú­ar Ferðamála­stofu, menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is, dóms­málaráðuneyt­is, heil­brigðisráðuneyt­is, innviðaráðuneyt­is, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðuneyt­is og Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar. Miðað er við að starfs­hóp­ur­inn hafi víðtækt sam­ráð í starfi sínu, meðal ann­ars við aðrar stofn­an­ir, sveit­ar­fé­lög, fag­fé­lög, mennta­stofn­an­ir og ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki. Miðað er við að hóp­ur­inn skili til­lög­um sín­um í áföng­um og að fyrstu skil verði 1. des­em­ber 2024. Við erum staðráðin í því að efla Ísland sem áfangastað í víðum skiln­ingi þess orð, og byggja á þeim góða grunni sem hingað til hef­ur verið lagður. Alltaf má hins veg­ar gera bet­ur og það er mark­miðið með því að hrinda nýrri ferðamála­stefnu í fram­kvæmd, meðal ann­ars með ör­ygg­is­mál­in áfram á odd­in­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ofbeldið skal stöðvað

Deila grein

03/09/2024

Ofbeldið skal stöðvað

Þjóðin er harmi sleg­in eft­ir að frétt­ir bár­ust af því að eitt okk­ar, Bryn­dís Klara Birg­is­dótt­ir, 17 ára, lést í kjöl­far al­var­legra áverka sem henni voru veitt­ir. Það er þyngra en tár­um taki að þetta hafi gerst í okk­ar sam­fé­lagi. Sorg­in er enn erfiðari þar sem um er að ræða unga mann­eskju sem átti bjarta framtíð fyr­ir sér. Öll þjóðin finn­ur fyr­ir missin­um og sárs­auk­an­um í svona harm­leik.

Í gegn­um tíðina höf­um við búið í sam­fé­lagi þar sem tíðni al­var­legra glæpa er lág í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Hins veg­ar hafa á und­an­förn­um árum reglu­lega borist frétt­ir af al­var­leg­um at­vik­um hjá ungu fólki þar sem gróft of­beldi hef­ur fengið laus­an taum­inn og vopn­um er beitt, hvort sem það er inn­an veggja skóla, skemmti­staða eða á al­manna­færi. Það gef­ur auga­leið að þessi þróun er al­gjör­lega óviðun­andi og við verðum öll að stöðva hana. Að sama skapi verðum við að skilja hvað veld­ur þess­ari breyt­ingu til að geta breytt sam­fé­lag­inu til betri veg­ar. Að und­an­förnu hafa stjórn­völd í aukn­um mæli sett þunga í að mæta þess­um nýja veru­leika og munu gera það sem þarf til að stöðva þessa þróun. Þetta er eitt stærsta sam­fé­lags­verk­efni okk­ar og er ég sann­færð um að þjóðarátak gegn of­beldi muni skila okk­ur ár­angri og gera sam­fé­lagið ör­ugg­ara. Ísland er sterkt sam­fé­lag og hef­ur tek­ist á við mikl­ar áskor­an­ir í gegn­um tíðina. Við ætl­um okk­ur að vinna bug á þess­ari þróun og snúa henni við – og það get­um við. Slíkt hef­ur tek­ist í öðrum lönd­um og þangað þurf­um við meðal ann­ars að líta. Öll finn­um við hvernig harm­leik­ur sem þessi slær okk­ur og við vilj­um ekki að slíkt end­ur­taki sig. Sam­vinna fjöl­marga aðila mun skipta máli á þeirri veg­ferð sem er fram und­an. Hvort sem um er að ræða lög­reglu­yf­ir­völd, frí­stunda­heim­ili, skóla­sam­fé­lagið í víðu sam­hengi, for­eldra, fé­lags­miðstöðvarn­ar, heil­brigðis­kerfið, fé­lagsþjón­ust­una, barna­mála­yf­ir­völd, íþrótta­fé­lög, lista­fólkið okk­ar og síðast en ekki síst unga fólkið sjálft.

Tök­um hönd­um sam­an og snú­um þess­ari þróun við sem sam­fé­lag. Að því sögðu sendi ég fjöl­skyldu og vin­um Bryn­dís­ar mín­ar inni­leg­ustu samúðarkveðjur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Höfuðborg full af menningu

Deila grein

24/08/2024

Höfuðborg full af menningu

Haldið er upp á það í dag að Reykja­vík­ur­borg fékk kaupstaðarrétt­indi hinn 18. ág­úst 1786. Af því til­efni er venju sam­kvæmt blásið til Menn­ing­ar­næt­ur í Reykja­vík þar sem ís­lensk menn­ing í víðum skiln­ingi fær notið sín fyr­ir aug­um og eyr­um gesta. Í hug­um margra mark­ar Menn­ing­arnótt enda­lok sum­ars­ins og þar með upp­haf hausts­ins sem von­andi verður okk­ur öll­um gæfu­ríkt. Eitt af því sem er­lend­ir gest­ir nefna við mig í sam­töl­um um Ísland er hversu blóm­legt menn­ing­ar­líf fyr­ir­finnst í Reykja­vík. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér eins og við vit­um. Um ald­ir hafa Íslend­ing­ar verið fram­sýn­ir þegar kem­ur að því að styðja við lista­menn og búa menn­ing­unni sterka um­gjörð til þess að vaxa og dafna. Með hverju ár­inu sem líður njót­um við rík­ari ávaxta af þeirri stefnu, með hverj­um lista­mann­in­um sem stíg­ur fram á sjón­ar­sviðið og fang­ar at­hygli okk­ar sem hér búum, en ekki síður um­heims­ins.

Ragn­ar Kjart­ans­son, Lauf­ey, Björk, Kal­eo, Hild­ur Guðna­dótt­ir, Vík­ing­ur Heiðar og Of Mon­sters and Men hafa til dæm­is getið sér stór­gott orð er­lend­is og rutt braut­ina fyr­ir ís­lenska menn­ingu í heim­in­um. Okk­ur Íslend­ing­um leiðist ekki að fagna vel­gengni okk­ar fólks á er­lendri grundu. Árang­ur sem þessi sam­ein­ar okk­ur og fyll­ir okk­ur stolti. Fyrr­nefnd­ir lista­menn eiga það sam­merkt að hafa sprottið upp úr frjó­um jarðvegi lista- og menn­ing­ar sem hlúð hef­ur verið að ára­tug eft­ir ára­tug hér á landi. Á Menn­ing­arnótt í Reykja­vík gefst fólki kost­ur á að kynna sér þá miklu grósku sem grasrót menn­ing­ar­lífs hér á landi hef­ur upp á að bjóða. Mynd­list og tónlist, hönn­un og arki­tekt­úr, sviðslist­ir og bók­mennt­ir – það geta all­ir fundið eitt­hvað við sitt hæfi.

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd stigið veiga­mik­il skref á þeirri veg­ferð að styrkja um­gjörð menn­ing­ar­lífs­ins í land­inu enn frek­ar. Nýtt ráðuneyti þar sem menn­ing­ar­mál fengu aukið vægi varð loks­ins að veru­leika, stefn­ur og al­vöruaðgerðir til að styðja við hin ýmsu list­form hafa raun­gerst – og fleiri slík­ar eru á leiðinni. Ný tón­list­armiðstöð og ný sviðlistamiðstöð sem hafa tekið til starfa, unnið hef­ur verið að upp­bygg­ingu menn­ing­ar­húsa á lands­byggðinni, fjölg­un lista­manna­launa og auk­inn stuðning­ur við kynn­ingu á ís­lenskri menn­ingu hér­lend­is og er­lend­is eru aðeins örfá dæmi um það sem hef­ur verið áorkað. List­inn er lang­ur. Menn­ing­arnótt er eitt af þeim sviðum þar sem afrakst­ur vinn­unn­ar brýst fram og fram­kall­ar gleði og eft­ir­minni­leg­ar stund­ir hjá fólki. Ég óska Reyk­vík­ing­um og gest­um þeirra gleðilegr­ar Menn­ing­ar­næt­ur og hvet sem flesta til þess að mæta og taka þátt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stórmál sem þarf að klára

Deila grein

15/08/2024

Stórmál sem þarf að klára

Auðlind­ir og nýt­ing þeirra er eitt af stærstu hags­muna­mál­um hvers þjóðrík­is og gæta ber þeirra í hví­vetna. Það stytt­ist í að Alþingi komi sam­an að nýju eft­ir sum­ar­leyfi til þess að fjalla um hin ýmsu mál­efni. Fyr­ir þing­inu að þessu sinni mun meðal ann­ars liggja fyr­ir frum­varp um rýni á fjár­fest­ing­um er­lendra aðila vegna þjóðarör­ygg­is og alls­herj­ar­reglu. Með orðinu rýni í þessu sam­hengi er átt við grein­ing­ar og mat á því hvort að viðskiptaráðstaf­an­ir sem tryggja er­lend­um aðilum eign­araðild, veru­leg áhrif eða yf­ir­ráð yfir at­vinnu­fyr­ir­tækj­um eða fast­eigna­rétt­ind­um hér á landi, ógni þjóðarör­yggi eða alls­herj­ar­reglu.

Gild­andi lög­gjöf um þessi mál er kom­in til ára sinna og er for­gangs­mál að úr því verði bætt enda er Ísland orðið eft­ir­bát­ur helstu sam­an­b­urðaríkja í þess­um efn­um. Þannig hafa til að mynda flest ríki á Evr­ópska efna­hags­svæðinu og aðild­ar­ríki Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD) sett lög­gjöf sam­bæri­lega þeirri sem lögð er til með frum­varp­inu. End­ur­spegl­ar þessi þróun í sam­an­b­urðarlönd­um okk­ar meðal ann­ars fjöl­breytt­ar og sí­breyti­leg­ar áskor­an­ir í ör­ygg­is­mál­um sem opið og alþjóðlegt viðskiptaum­hverfi get­ur leitt af sér, meðal ann­ars ógn­um sem geta steðjað að grund­vall­ar ör­ygg­is­hags­mun­um ríkja og spretta af fjár­magns­hreyf­ing­um milli landa. Í tíð minni sem ut­an­rík­is­ráðherra árið 2016 fékkst samþykkt fyrsta þjóðarör­ygg­is­stefn­an fyr­ir Ísland sem stjórn­völd­um var falið að fylgja eft­ir, en í henni er meðal ann­ars lögð áhersla á að vernda virkni mik­il­vægra innviða og styrkja áfallaþol sam­fé­lags­ins gagn­vart hvers kyns ógn við líf og heilsu fólks, um­hverfi, eign­ir og innviði.

Leiðar­stefið í frum­varp­inu um rýni á fjár­fest­ing­um er­lendra aðila er samþætt­ing sjón­ar­miða um mik­il­vægi er­lendra fjár­fest­inga fyr­ir efna­hags­lífið ann­ar­s­veg­ar og hins veg­ar að er­lend­ar fjár­fest­ing­ar í mik­il­væg­um innviðum og ann­arri sam­fé­lags­lega mik­il­vægri starf­semi, sem skil­greind eru sem viðkvæm svið, séu í sam­ræmi við þjóðarör­yggi og alls­herj­ar­reglu. Þar und­ir falla meðal ann­ars innviðir sem tengj­ast orku, hita­veitu, vatns- og frá­veitu, sam­göng­um, flutn­ing­um, fjar­skipt­um, sta­f­ræn­um grunn­virkj­um, fjár­mála­kerfi, vörn­um lands­ins, stjórn­kerfi, land­helg­is­gæslu, al­manna­vörn­um, lög­gæslu, neyðar- og viðbragðsþjón­ustu, rétt­ar­vörslu og heil­brigðis­kerfi. Einnig út­veg­un eða fram­leiðsla á mik­il­væg­um aðföng­um, þ.m.t. í tengsl­um við orku eða hrá­efni eða vegna fæðuör­ygg­is. Að sama skapi nær frum­varpið yfir nýt­ingu vatns­orku, jarðvarma, vindorku, náma og annarra jarðefna í þjóðlend­um, en ýms­ar hindr­an­ir eru í nú­gild­andi lög­gjöf um nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, meðal ann­ars í gegn­um leyf­is­veit­inga­ferli og tak­mörk­un­um á er­lendu eign­ar­haldi, líkt og í sjáv­ar­út­vegi. Und­ir viðkvæm svið sam­kvæmt frum­varp­inu fell­ur einnig meðhöndl­un mik­il­vægra trúnaðar­upp­lýs­inga og veru­legs magns viðkvæmra per­sónu­upp­lýs­inga sem og þjón­usta á sviði netör­ygg­is í þágu mik­il­vægra innviða svo dæmi séu tek­in.

Mik­il­vægt er að fram­kvæmd rýn­inn­ar sé skil­virk og slái í takt við það sjón­ar­mið að er­lend fjár­fest­ing er mik­il­væg ís­lensku hag­kerfi. Það er brýnt að Alþingi klári þetta stór­mál á kom­andi þingi, þar sem ís­lensk­ir hags­mun­ir verða hafðir að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst 2024.