Categories
Fréttir Greinar

Innlend greiðslumiðlun: Spörum 20 milljarða

Deila grein

18/02/2024

Innlend greiðslumiðlun: Spörum 20 milljarða

Greiðslumiðlun er einn af grunn­innviðum hag­kerf­is­ins. Það fer ekki mikið fyr­ir greiðslumiðlun dags­dag­lega en henni má líkja við pípu­lagn­ir fyr­ir greiðslur. Það fer ekki mikið fyr­ir lagna­kerf­inu, eins og fyr­ir hefðbundn­um pípu­lögn­um, en það stuðlar að því að pen­ing­ar kom­ast frá punkti A til punkts B þegar ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki greiða fyr­ir vör­ur og þjón­ustu svo dæmi sé tekið. Greiðslumiðlun er þannig grund­vall­ar­stoð í sam­fé­lag­inu og telst vera mik­il­væg al­manna­gæði.

Það er því hlut­verk stjórn­valda að tryggja að hér landi sé starf­rækt traust og ör­ugg greiðslumiðlun. Seðlabank­inn rek­ur svo­kallað milli­banka­kerfi sem er vett­vang­ur fyr­ir jöfn­un og upp­gjör á milli fjár­mála­stofn­ana. Einnig fer fram í þessu kerfi upp­gjör fyr­ir greiðslu­kort og viðskipti sem tengj­ast verðbréf­um. Á und­an­förn­um tveim­ur ára­tug­um hef­ur verið unnið tals­vert að bættu fyr­ir­komu­lagi greiðslumiðlun­ar hér á landi. Á Alþingi ný­verið var til að mynda mælt fyr­ir frum­varpi um inn­lenda greiðslumiðlun sem myndi auka efna­hags­legt þjóðarör­yggi Íslands. Já­kvæð hliðaráhrif slíkra breyt­inga væru um­tals­verður sparnaður fyr­ir þjóðfé­lagið, sem ætti að skila sér í lægra vöru­verði til neyt­enda.

Rík þjóðarör­ygg­is­sjón­ar­mið í breytt­um heimi

Það er eng­um blöðum um það að fletta að greiðslumiðlun­in er órjúf­an­leg­ur hluti af nú­tíma­sam­fé­lagi. Árið 2019 vakti Seðlabanki Íslands at­hygli þjóðarör­ygg­is­ráðs á því að ís­lensk stjórn­völd þyrftu að sjá til þess að traust inn­lend ra­f­ræn smá­greiðslumiðlun væri til staðar. Vanda­málið var að ra­f­ræn greiðslumiðlun var háð er­lend­um aðilum og tækni­innviðum. Eft­ir hrun bank­anna haustið 2008 var ráðist í stefnu­mót­un til að tryggja fulla virkni inn­lendr­ar greiðslumiðlun­ar. Á þeim tíma tóku inn­lend­ir aðilar ábyrgð á innviðum ra­f­rænn­ar greiðslumiðlun­ar og þar með gátu er­lend­ir aðilar ekki haft áhrif á kerf­is­læga virkni henn­ar. Á síðustu árum hef­ur orðið mik­il breyt­ing á hvernig greiðslur með greiðslu­kort­um, bæði de­bet- og kred­it­kort­um, eru fram­kvæmd­ar. Nú til dags fara yfir 90% af öll­um de­bet- og kred­it­korta­greiðslum fram í gegn­um alþjóðleg korta­fyr­ir­tæki sem eru staðsett utan Íslands. Í út­tekt­um sín­um á ár­inu 2022 tók þjóðarör­ygg­is­ráð Íslands fyr­ir ábend­ing­ar og hætt­ur sem tengj­ast þjóðarör­yggi, með áherslu á greiðslumiðlun. Það benti meðal ann­ars á mik­il­vægi þess að hafa í boði áreiðan­leg­ar inn­lend­ar greiðslu­lausn­ir sem ekki eru háðar er­lend­um fjar­skipt­um. Áhersla var lögð á að hafa fleiri en eina slíka lausn, þar sem bæði greiðslur og upp­gjör eiga sér stað inn­an kerfa sem eru und­ir inn­lendri stjórn. Einnig var lagt til að auka eft­ir­lit með net- og fjar­skipta­ógn­un­um sem steðja að fjár­mála­kerf­inu, bæta skil­virkni boðleiða í til­felli netárása og skipu­leggja til­búnað við slík­um ógn­um. Þar gegn­ir Seðlabanki Íslands lyk­il­hlut­verki. Á síðustu árum hef­ur áhætta vegna greiðslu­kerfa á Íslandi auk­ist. Vax­andi hætta í heim­in­um, bæði hvað varðar netör­yggi, ástand stríðs í Evr­ópu og alþjóðlega sundr­ung, hef­ur enn frek­ar und­ir­strikað mik­il­vægi þess að styrkja viðnám og ör­yggi greiðslu­kerfa. Ísland, eins og aðrar þjóðir, þarf einnig að bregðast við þess­ari þörf.

Hag­kvæm­ara kerfi fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki

Verði fyrr­nefnt frum­varp um inn­lenda greiðslumiðlun samþykkt á Alþingi mun Seðlabank­inn öðlast skýr­ar heim­ild­ir til að koma á fót inn­lendri greiðslumiðlun. Til viðbót­ar við bætt þjóðarör­yggi yrðu já­kvæð hliðahrif þeirra breyt­inga að kostnaður fyr­ir neyt­end­ur og ís­lenska söluaðila myndi lækka. Með frum­varp­inu yrði sköpuð for­senda fyr­ir nýj­um innviðum á sviði greiðslumiðlun­ar sem gerðu neyt­end­um kleift að greiða fyr­ir vöru og þjón­ustu með milli­færslu milli tveggja banka­reikn­inga með skil­virk­um hætti. Má ráðgera að slíkt myndi stuðla að auk­inni sam­keppni á greiðslu­markaði og skapa tæki­færi til hagræðing­ar í kerf­inu og þar með lægri kostnaði fyr­ir söluaðila og neyt­end­ur.

Það er ljóst að nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag greiðslumiðlun­ar er allt of dýrt. Í skýrslu um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna sem ég lét vinna á síðasta ári kom meðal ann­ars fram að Seðlabank­inn áætlaði að kostnaður sam­fé­lags­ins af notk­un greiðslumiðla hér á landi á ár­inu 2021 hefði verið um 47 ma.kr. eða um 1,43% af vergri lands­fram­leiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslu­korta ríf­lega 20 ma.kr.

Lít­um til Nor­egs – og spör­um!

Í grein­ingu Seðlabank­ans kem­ur fram að Nor­eg­ur sé eina landið sem telja má sam­an­b­urðar­hæft við Ísland sem ný­lega hef­ur birt niður­stöður úr kostnaðargrein­ingu í greiðslumiðlun. Í Nor­egi var sam­fé­lags­kostnaður á ár­inu 2020 um 0,79% af vergri lands­fram­leiðslu. Væri kostnaðar­hlut­fallið það sama hér á landi og í Nor­egi væri kostnaður­inn tæp­ir 26 millj­arðar eða 21 millj­arði króna lægri. Það ligg­ur í aug­um uppi að hægt er að gera bet­ur í þess­um mál­um hér heima og í nýju fyr­ir­komu­lagi fel­ast tæki­færi til að bæta hag fólks og fyr­ir­tækja á Íslandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Íslensku táknmáli gert hærra undir höfði

Deila grein

15/02/2024

Íslensku táknmáli gert hærra undir höfði

Það var hátíðleg stund hinn 11. fe­brú­ar síðastliðinn, þegar dag­ur ís­lenska tákn­máls­ins var hald­inn með metnaðarfullri dag­skrá. Íslenskt tákn­mál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tján­ing­ar og sam­skipta og barna þeirra. Þannig er ís­lenskt tákn­mál eina hefðbundna minni­hluta­málið á Íslandi og eina málið sem á sér laga­lega stöðu utan ís­lenskr­ar tungu, líkt og kem­ur fram í lög­um um stöðu ís­lenskr­ar tungu og ís­lensks tákn­máls. Á Íslandi er orðið döff notað um heyrn­ar­laust fólk sem tal­ar tákn­mál, en það að vera döff er að líta á tákn­mál sem sitt fyrsta mál og til­heyra sam­fé­lagi heyrn­ar­lausra.

Frá­bært starf er unnið í þágu ís­lensks tákn­máls á hverj­um degi, eins og glögg­lega kom fram á degi ís­lensks tákn­máls. Ein­stak­ling­arn­ir í döff sam­fé­lag­inu eru framúrsk­ar­andi og fékk ég þann heiður að af­henda Önnu Jónu Lár­us­dótt­ur sér­staka heiður­sviður­kenn­ingu Sam­skiptamiðstöðvar heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra (SHH) fyr­ir fram­lag til varðveislu ís­lensks tákn­máls, en Anna hef­ur verið öfl­ug í fé­lags­starfi og hags­muna­bar­áttu döff fólks en hún gegndi for­mennsku í Fé­lagi heyrn­ar­lausra um ára­bil og sat í stjórn fé­lags­ins og fé­lagi Döff 55+ í fjölda ára. Þá hlaut Val­gerður Stef­áns­dótt­ir viður­kenn­ingu dags ís­lensks tákn­máls fyr­ir hönd Mál­nefnd­ar um ís­lenskt tákn­mál. Viður­kenn­ing­una hlaut hún fyr­ir ómet­an­legt fram­lag sitt til ís­lensks tákn­máls og mál­sam­fé­lags þess en þetta var í fyrsta skipti sem viður­kenn­ing­in er af­hent. Val­gerður varði í des­em­ber síðastliðnum doktors­rit­gerð í mann­fræði við Há­skóla Íslands sem er frum­kvöðlarann­sókn og fyrsta heild­stæða yf­ir­litið hér­lend­is yfir ís­lenskt tákn­mál og þróun döff menn­ing­ar. Mun rit­gerðin þjóna sem mik­il­væg heim­ild fyr­ir kom­andi kyn­slóðir um upp­runa og þróun ís­lensks tákn­máls og fólkið sem bjó það til, döff Íslend­inga.

Það er skylda ís­lenskra stjórn­valda að hlúa að ís­lensku tákn­máli og styðja við það. Nú hef­ur Alþingi til meðferðar þings­álykt­un og aðgerðaáætl­un í mál­stefnu ís­lensks tákn­máls sem ég mælti fyr­ir á Alþingi á yf­ir­stand­andi þingi. Mál­stefn­an, sem er sú fyrsta fyr­ir ís­lenskt tákn­mál, tek­ur til sex meg­in­stoða sem skipta máli fyr­ir mál­stefnu minni­hluta­máls­ins og áhersluþætti inn­an hverr­ar meg­in­stoðar, en þær eru: mál­taka tákn­máls­barna, rann­sókn­ir og varðveisla, já­kvætt viðhorf, fjölg­un um­dæma ís­lensks tákn­máls, lagaum­hverfi og mál­tækni. Aðgerðaáætl­un­in inni­held­ur aðgerðir sem miðast við að koma þurfi til fram­kvæmda á næstu þrem­ur árum og hafa stjórn­völd nú þegar tryggt fjár­muni til að fylgja þeirri áherslu eft­ir. Við get­um gert ís­lensku tákn­máli hærra und­ir höfði og það ætl­um við að gera með ýms­um hætti. Í þings­álykt­un­inni er meðal ann­ars lagt til að dag­ur ís­lensks tákn­máls verði fánadag­ur, líkt og tíðast fyr­ir dag ís­lenskr­ar tungu. Það er viðeig­andi fyr­ir dag ís­lensks tákn­máls. Ég vil þakka döff sam­fé­lag­inu fyr­ir virki­lega ánægju­legt sam­starf og ég lít björt­um aug­um til framtíðar þegar kem­ur að ís­lensku tákn­máli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2024.

Categories
Greinar

Fern Grammy-verðlaun á fjórum árum

Deila grein

06/02/2024

Fern Grammy-verðlaun á fjórum árum

Það var gam­an að fylgj­ast með sjö­tug­ustu og sjöttu Grammy-tón­list­ar­verðlauna­hátíðinni í fyrra­kvöld. Þar hlaut söng­kon­an Lauf­ey Lín Jóns­dótt­ir Grammy-verðlaun fyr­ir plötu sína Bewitched í flokki hefðbund­inn­ar popp­tón­list­ar, sung­in tónlist. Lauf­ey hef­ur átt glæsi­legu gengi að fagna á und­an­förn­um miss­er­um en tón­leik­ar henn­ar um all­an heim selj­ast upp á mettíma og tug­ir millj­óna hafa hlustað á hana mánaðarlega á Spotify.

Grammy-verðlauna­hátíðin í ár var sér­stak­lega ánægju­leg fyr­ir okk­ur Íslend­inga, því ekki nóg með að Lauf­ey hafi hlotið verðlaun­in í sín­um flokki held­ur var tón­list­armaður­inn Ólaf­ur Arn­alds einnig til­nefnd­ur til Grammy-verðlauna fyr­ir Some Kind of Peace (e. Piano Reworks) en Ólaf­ur hlaut einnig tvær til­nefn­ing­ar árið 2022 fyr­ir verk sín! Íslend­ing­ar komu einnig við sögu í fleiri til­nefn­ing­um í ár en tölvu­leik­ur­inn Stríðsguðinn Ragnarök hlaut til­nefn­ing­ar fyr­ir besta hljóðritið í flokki tölvu­leikja, og fyr­ir bestu hljóðplöt­una fyr­ir hljóðupp­tök­ur, en Sin­foN­ord á Ak­ur­eyri sá um þær upp­tök­ur.

Það fylg­ir því mik­il upp­hefð að vera til­nefnd­ur til Grammy-tón­list­ar­verðlaun­anna en verðlaun­in eru af mörg­um tal­in þau eft­ir­sótt­ustu í tón­list­ar­heim­in­um. Árang­ur Íslend­inga er því stór­kost­leg­ur en á und­an­förn­um fjór­um árum hafa ís­lensk­ir lista­menn hlotið 10 Grammy-til­nefn­ing­ar, og unnið fjór­um sinn­um; Hild­ur Guðna­dótt­ir fyr­ir tónlist í þátt­un­um Cherno­byl og kvik­mynd­inni Jókern­um, Dísella Lár­us­dótt­ir fyr­ir bestu óperu­upp­tök­una í verk­inu Ak­hna­ten og nú síðast Lauf­ey.

Marg­ir kynnu að spyrja sig að því hvað sé eig­in­lega í vatn­inu hérna á Íslandi, ár­ang­ur­inn er slík­ur miðað þá tæp­lega 400.000 íbúa sem byggja þetta góða land. Að mín­um dómi er þetta hins veg­ar eng­in til­vilj­un. Það rík­ir metnaður til þess að halda úti öfl­ugu menn­ing­ar­lífi, framúrsk­ar­andi tón­list­ar­kenn­ar­ar og góður aðgang­ur að tón­list­ar­námi og þrot­laus vinna og metnaður tón­list­ar­mann­anna sjálfra er að skila sér með glæsi­leg­um hætti.

Sól­ar­sýn­in er skýr og það er mik­il­vægt að standa með lista­mönn­un­um okk­ar í blíðu jafnt sem stríðu. Aflvak­inn er að haldið verði áfram að styrkja um­gjörð menn­ing­ar­lífs­ins í land­inu. Í næstu fjár­mála­áætl­un mun­um við kynna ný áherslu­atriði sem styðja við þann metnað. Við finn­um það á stund­um sem þess­um hversu stolt við verðum þegar fólk­inu okk­ar geng­ur vel á er­lendri grundu – það er ávöxt­ur þess að fjár­festa í menn­ingu og skap­andi grein­um. Ég óska Lauf­eyju inni­lega til ham­ingju með Grammy-verðlaun­in og Ólafi og Sin­foN­ord sömu­leiðis með sinn ár­ang­ur. Ég er stolt af ykk­ur fyr­ir fram­lag ykk­ar til ís­lenskr­ar menn­ing­ar og hvet ykk­ur áfram til dáða í sköp­un ykk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Efnahagurinn á réttri leið en tryggja verður nægt framboð á húsnæði

Deila grein

04/02/2024

Efnahagurinn á réttri leið en tryggja verður nægt framboð á húsnæði

Veiga­mesta hags­muna­mál ís­lenskra heim­ila og fyr­ir­tækja er að verðbólg­an haldi áfram að minnka. Mik­il verðbólga bitn­ar ávallt á þeim sem síst skyldi, það er þeim efnam­inni. Fólk jafnt sem fyr­ir­tæki hafa jafn­framt fundið vel fyr­ir háu vaxta­stigi. Með sam­stilltri stefnu­mót­un rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins – gæt­um við loks­ins náð að sjá til lands í glím­unni við verðbólg­una.

Vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis um 5,2%

Verðbólg­an hef­ur verið yfir 2,5% verðbólgu­mark­miði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár. Vísi­tala neyslu­verðs hef­ur hækkað um 6,7% og vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis um 5,2%. Verðbólg­an hef­ur því lækkað um 1,3 pró­sentu­stig á tveim­ur mánuðum. Því miður var það reiknaða húsa­leig­an sem hafði mest áhrif til hækk­un­ar og jókst um 0,9%. Þetta sýn­ir áfram, svart á hvítu, hvar helsta upp­spretta frek­ari verðbólguþrýst­ings er í hag­kerfi okk­ar. Markaðsaðilar gera ráð fyr­ir að verðbólga haldi áfram að hjaðna og afar mik­il­vægt er að sú verði raun­in. Því er ekki hægt að leggja nægj­an­lega mikla áherslu á mik­il­vægi þess að lang­tíma­kjara­samn­ing­ar séu sniðnir á þá vegu að verðbólgu­mark­mið Seðlabanka Íslands ná­ist á næst­unni.

Hús­næðisliður­inn end­ur­skoðaður

Gleðileg tíðindi bár­ust í vik­unni um að Hag­stofa Íslands hefði um hríð unnið að því að end­ur­skoða aðferðir við mat á reiknaðri leigu í vísi­tölu neyslu­verðs. Sam­kvæmt Hag­stof­unni eru for­send­ur að skap­ast fyr­ir því að breyta um aðferð við mat á hús­næðisliðnum með það að mark­miði að búa til betri gögn. Afar brýnt er að mæl­ing­ar Hag­stof­unn­ar end­ur­spegli sem best raun­veru­lega þróun á hús­næðismarkaði. Breyt­ing­arn­ar munu hafa það í för með sér ann­ars veg­ar að sveifl­ur í reiknuðum hús­næðislið munu minnka og hins veg­ar mun þróun stýri­vaxta Seðlabanka Íslands ekki hafa sömu áhrif og verið hef­ur. Um er að ræða löngu tíma­bæra breyt­ingu.

Horf­ur í heims­bú­skapn­um hafa batnað

Upp­færð spá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins um horf­ur í heims­bú­skapn­um sem birt­ist í vik­unni er bjart­ari en spár að und­an­förnu. Gert er ráð fyr­ir meiri hag­vexti, eða rúm­um 3%, árin 2024-25. Hagspá­in hef­ur hækkað vegna auk­ins viðnámsþrótt­ar í Banda­ríkj­un­um og hjá stór­um ný­markaðs- og þró­un­ar­ríkj­um. Verðbólga á heimsvísu hef­ur hjaðnað hraðar en bú­ist var við, sem er já­kvætt upp á hagþróun, en á móti koma skell­ir á fram­boðshliðinni og hef­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn áhyggj­ur af áhrif­um af vax­andi hafta­stefnu. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga í heim­in­um lækki í 5,8% árið 2024 og í 4,4% árið 2025, en verðbólgu­spá­in fyr­ir árið 2025 er end­ur­skoðuð til lækk­un­ar. Með minnk­andi verðbólgu og stöðugum hag­vexti hafa lík­ur á mjúkri lend­ingu auk­ist veru­lega. Þessi hag­fellda þróun get­ur leitt til þess að vext­ir lækki hraðar en gert hef­ur verið ráð fyr­ir. Skila­boð banda­ríska Seðlabank­ans hafa þó verið afar skýr eða að vaxta­lækk­un­ar­ferli muni ekki hefjast fyrr en mjög traust­ar vís­bend­ing­ar liggja fyr­ir um lækk­un verðbólgu. Vinnu­markaður­inn í Banda­ríkj­un­um held­ur áfram að vera sterk­ur og störf­um fjölg­ar ört. Markaðir hafa brugðist við vænt­ing­um um mjúka lend­ingu heimbú­skap­ar­ins und­an­farn­ar vik­ur og hafa hluta­bréfa­vísi­töl­ur tekið við sér og vext­ir á skulda­bréfa­mörkuðum al­mennt lækkað. Það eru áfram skipt­ar skoðanir um hvort verðhækk­an­ir nú séu skamm­vinn­ar eða vís­bend­ing um viðvar­andi þróun. Seðlabank­ar beggja vegna Atlantsála hafa gefið til kynna að ein­hver bið kunni að verða á vaxta­lækk­un­um.

Póli­tísk spenna og átök vega áfram þungt

Viðskipta­spenna, svæðis­bund­in átök og póli­tísk­ur óstöðug­leiki skap­ar áskor­an­ir í alþjóðlegu sam­starfi og mun áfram lita spár um framþróun efna­hags­mála. Vax­andi póli­tísk­ur órói í Mið-Aust­ur­lönd­um og árás­ir á flutn­inga­skip í Rauðahafi geta þó hæg­lega leitt til hækk­un­ar á hrávöru, sem aft­ur eyk­ur verðbólguþrýst­ing. Þröng staða á kín­verska fast­eigna­markaðnum er lík­leg til að draga úr þrótti hag­kerf­is­ins þar en vegna stærðar markaðar­ins geta áhrif­in verið mun víðtæk­ari. Bú­ast má við að Kín­verj­ar leggi auk­inn kraft í út­flutn­ing, sem gæti aft­ur haft áhrif á viðskipta­höft og vernd­artolla víða um heim. Útlitið á heimsvísu horf­ir þó í heild til betri veg­ar og það eru einkum þrír þætt­ir sem eru þar veiga­mest­ir. Aðfanga­keðja heims­ins er að ná betra jafn­vægi, verðbólga er að hjaðna hraðar en spár gerðu ráð fyr­ir og að lok­um þá gera markaðsaðilar ráð fyr­ir að vaxta­lækk­un­ar­ferlið hefj­ist fyrr en ella. Hag­vöxt­ur hef­ur verið kröft­ugri en bú­ist var við þrátt fyr­ir háa vexti. Hins veg­ar er hag­vaxt­ar­spá­in fyr­ir næstu ár nokkuð lægri en meðaltal síðustu 20 ára og vega þar vænt­an­lega mest háir raun­vext­ir, minnk­andi stuðning­ur rík­is­fjár­mála, m.a. í ljósi hærri rík­is­skulda, og spár um að fram­leiðni muni minnka.

Mesta áskor­un­in að tryggja nægt fram­boð á hús­næði

Áhrif hús­næðismarkaðar hafa verið viðamik­il í verðbólgu und­an­far­inna ára. Mik­il­vægt er að stjórn­völd bregðist við því að hús­næðismarkaður­inn verði ekki til þess að snúa við hag­stæðri verðbólguþróun. Stjórn­völd eiga að styðja við fram­boðshlið hús­næðismarkaðar­ins og ráðast í aðgerðir sem auka fram­boð. Mitt ráðuneyti hef­ur sent frá sér frum­varp um tak­mörk­un á rekstr­ar­leyf­is­skyldri gisti­starf­semi við at­vinnu­hús­næði. Mark­mið frum­varps­ins er að losa íbúðir sem nýtt­ar eru í skamm­tíma­leigu og or­lofs­í­búðir í þétt­býli. Frek­ari skref stjórn­valda í þessa átt gætu verið að koma íbúðum sem eru í svo­kölluðu „stoppi“ í upp­bygg­ingu af stað á ný. Þá má vinna að því að skapa skil­yrði fyr­ir aukna íbúðaupp­bygg­ingu til lengri tíma með fjár­hags­leg­um hvöt­um og síðast en ekki síst að tryggt verði nægt fram­boð bygg­ing­ar­hæfra lóða til framtíðar. Skref­in sem Reykja­vík­ur­borg hef­ur þegar tekið eru já­kvæð og verða til þess fall­in að auka fram­boð á hús­næðismarkaði.

Í litlu opnu hag­kerfi eins og hér á Íslandi skipta bæði ytri og innri þætt­ir miklu máli í hag­stjórn. Það er já­kvætt að sjá heims­bú­skap­inn þró­ast í rétta átt, bæði hvað varðar hag­vöxt og verðbólgu. Á tím­um eins og þess­um, þegar stjórn­völd standa frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um inn­an­lands, er ákveðinn létt­ir að þurfa ekki nauðsyn­lega að glíma við inn­flutta þætti sem gætu haft nei­kvæð áhrif, t.d. inn­flutt verðlag. Hins veg­ar er það áhyggju­efni til lengri tíma fyr­ir út­flutn­ingsþjóð, ef út­lit er fyr­ir að alþjóðaviðskipti muni í aukn­um mæli ein­kenn­ast af höft­um og toll­múr­um. Ein­ar Bene­dikts­son, skáld og frum­kvöðull, sagði eitt sinn: „Þeim sem vilja, vakna og skilja – vaxa þúsund ráð.“ Þess vegna ríður á að sam­stillt átak stjórn­valda, sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka og aðila vinnu­markaðar­ins – fólks jafnt sem fyr­ir­tækja – verði far­sælt og skili okk­ur sem best­um ár­angri.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stór­aukið fram­boð af ís­lensku­námi

Deila grein

01/02/2024

Stór­aukið fram­boð af ís­lensku­námi

Lykillinn að hverju samfélagi er tungumálið. Eitt af því sem ráðherranefnd um íslenskt mál hefur lagt ríka áherslu á er að stórauka aðgengi að menntun í íslensku. Fjarnám í íslensku á BA-stigi, sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli og háskólabrú fyrir innflytjendur eru meðal aðgerða í aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu sem ráðherranefndin kynnti í desember sl. Framangreindar aðgerðir eru á ábyrgð háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og hafa þær þegar verið fjármagnaðar í gegnum Samstarf háskóla, en samstarf til eflingar íslensku og máltækni var eitt af áhersluatriðum í Samstarfi háskóla þegar það var kynnt á síðasta ári. Aðgerðirnar hafa það að markmiði að bæta aðgengi að námi í íslensku og að undirstrika samfélagslegt mikilvægi háskóla.

Nú þegar er byrjað að vinna að nokkrum verkþáttum í aðgerðaráætlun sem kynnt var í lok síðasta árs og er nú til umfjöllunar sem þingsályktunartillaga á Alþingi. Það er fagnaðarefni hvernig háskólarnir hafa tekið höndum saman í þessu mikilvæga samfélagslega verkefni að bæta aðgengi að íslenskukennslu fyrir fjölbreytta nemendahópa. Það er sérstök ástæða til að hrósa háskólamálaráðherranum fyrir hversu góður gangur eru í málefnum íslenskunnar á hennar ábyrgðarsviði.

Ein aðgerðin snýr að sameiginlegu fjarnámi í íslensku sem öðru máli sem þróað er í samvinnu Háskóla Íslands, Háskólans á Bifröst, Háskólans á Akureyri og Háskólaseturs Vestfjarða. Innflytjendum gefst með þessu tækifæri til að stunda fjarnám í hagnýtri íslensku sem öðru máli og kennsla á hluta námsleiðarinnar hófst haustið 2023.

Aðgengi að íslenskunámi á háskólastigi verður bætt með því að bjóða upp á fjarnám í íslensku til BA-prófs, samstarf Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Háskólann á Akureyri. Fyrstu námskeið voru kennd síðasta haust og stefnt er á að námsbrautin verði að fullu starfandi síðar á þessu ári.

Í haust verður svo farið af stað með nýja námsleið fyrir nemendur sem hafa grunn í íslensku máli en þurfa stuðning til þess að sækja frekara háskólanám á íslensku. Með þessu verður aðgengi innflytjenda að almennu háskólanámi bætt til muna en að þessu koma Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst.

Tunga hverrar þjóðar er spegill og andlit hennar er menntun. Orðin eru undirstaða tungumálsins en orðin geta ekki verið án einhverrar hugmyndar eða skilnings, viljum við sjá framfarir. Af því orðin leiða hugmyndir fólks í ljós, geta þau hvorki verið fleiri eða öðruvísi en hugmyndunum er samboðið. Séu hugmyndirnar þróttlitlar, óskýrar og á reiki, hljóta orðin að vera það líka. Þannig stendur mál hverrar þjóðar í nauðsynlegu hlutfalli við þá menntun sem hún hefur öðlast. Sé mál hennar orðfátt, má ganga að því vísu að sú þjóð sé ekki komin langt í menntun. Því hefur verið haldið fram að engin þjóð getur átt fagurt og vandað mál sem ekki leggi mikla alúð við menntun. Þannig skrifaði Þórður Jónasson, ritstjóri og dómstjóri, í fyrstu blaðgreininni um íslenskt mál, sem rituð var árið 1847 í Reykjavíkurpósti. Þessar hugleiðingar eru sígildar og eiga enn við í dag. Við verðum að halda áfram að auka framboðið að menntun í íslensku til þess að við sjáum Ísland þróast í þá átt sem við viljum, sem er hiklaust að allir hafi jöfn tækifæri í lífinu.

Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. febrúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

11,5 milljarðar komnir í loftið

Deila grein

29/01/2024

11,5 milljarðar komnir í loftið

Fyrr í mánuðinum fór í loftið við frá­bæra dóma fjórða serí­an af sjón­varpsþátt­un­um True Detecti­ve sem fram­leidd­ir eru af am­er­ísku sjón­varps­stöðinni HBO max, en stöðin er ein af dótt­ur­fyr­ir­tækj­um einn­ar stærstu afþrey­ing­ar­sam­steypu heims, Warner Bros Disco­very. Þar með op­in­beraðist ár­ang­ur þrot­lausr­ar vinnu hér á landi en þáttaröðin, með Jodie Foster í broddi fylk­ing­ar, var að lang­stærst­um hluta fram­leidd hér á landi af ís­lenska fram­leiðslu­fyr­ir­tæk­inu True North. Aðstand­end­ur verk­efn­is­ins hafa hlaðið Ísland og ís­lenska kvik­mynda­gerð miklu lofi í banda­rísk­um fjöl­miðlum.

Um er að ræða stærsta kvik­mynda- og sjón­varps­verk­efni sem ráðist hef­ur verið í hér á landi og um hreina er­lenda fjár­fest­ingu að ræða, en heild­ar­kostnaður verk­efn­is­ins nam um 11,5 millj­örðum króna. Að meðaltali voru um 600 manns að vinna að verk­efn­inu á degi hverj­um en á stærstu dög­un­um vor­um um 1.000 manns á setti. Í heild­ina fengu um 1.200 manns greitt fyr­ir aðkomu sína að verk­efn­inu og átti verk­efnið í viðskipt­um við 2.000 fyr­ir­tæki og ein­stak­linga á töku­tím­an­um, en töku­tíma­bilið varði í rúm­lega hálft ár og fóru tök­ur fram í kvik­mynda­ver­um í Reykja­vík ásamt úti­tök­um á Ak­ur­eyri, Kefla­vík, Vog­un­um, Dal­vík, við Stífl­is­dals­vatn og í Bláfjöll­um.

Stærst­ur hluti þeirra sem störfuðu beint við verk­efnið voru Íslend­ing­ar í hinum ýmsu störf­um. Má þarf nefna kvik­mynda­töku- og tækni­fólk ým­is­kon­ar, fram­leiðslu­stjóra, förðunar-, bún­inga- og leik­mynd­ar­sér­fræðinga, auka­leik­ara og svo lengi mætti áfram telja.

Það er mik­il viður­kenn­ing fyr­ir Ísland sem tökustað að fá verk­efni af þess­ari stærðargráðu hingað og er það ber­sýni­leg staðfest­ing þess að stefna stjórn­valda í mál­efn­um skap­andi greina virk­ar, en til að mynda hef­ur kvik­mynda­stefnu frá ár­inu 2020 verið hrint skipu­lega í fram­kvæmd með fjöl­mörg­um aðgerðum. Einni slíkri var hrint í fram­kvæmt árið 2022 sem fólst í að hlut­fall end­ur­greiðslu af fram­leiðslu­kostnaði í kvik­mynda­gerð sem til fell­ur hér á landi var hækkað úr 25% í 35% fyr­ir verk­efni sem upp­fylla ákveðin skil­yrði hvað varðar stærð, fjölda töku­daga og fjölda starfs­fólks. Árang­ur þeirra breyt­inga fór strax að skila sér líkt og of­an­greint verk­efni sann­ar.

Það er hins veg­ar mik­il­vægt að hafa hug­fast að grunn­ur­inn að hinum mikla ár­angri í kvik­mynda­gerð hér á landi er allt hið magnaða inn­lenda kvik­mynda­gerðarfólk sem hef­ur rutt braut­ina í gegn­um ára­tug­ina. Án þess væri Ísland lít­il­fjör­leg­ur tökustaður í dag, en hróður ís­lensks kvik­mynda­gerðarfólks fer víða enda er það þekkt fyr­ir framúrsk­ar­andi fag­mennsku, vinnu­semi, græn­ar áhersl­ur og lausnamiðað hug­ar­far. Ég mun halda áfram að beita mér af full­um krafti til að efla kvik­myndaiðnaðinn hér á landi í góðu sam­starfi við grein­ina. Það er til mik­ils að vinna að auka verðmæta­sköp­un í hinum skap­andi grein­um enn frek­ar og ég er þess full­viss að framtíðin sé björt á þeim vett­vangi. Ég óska öll­um þeim sem komu að verk­efn­inu True Detecti­ve til ham­ingju með áfang­ann og hvet ykk­ur áfram til góðra verka.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sterkt samfélag nær utan um Grindavík

Deila grein

25/01/2024

Sterkt samfélag nær utan um Grindavík

Með vakn­ingu þeirra nátt­úru­afla sem búa í iðrum jarðar á Reykja­nesi blas­ir við nýr veru­leiki fyr­ir kyn­slóðir okk­ar tíma á suðvest­ur­horni lands­ins. Með eld­gos­inu í Geld­inga­döl­um við Fagra­dals­fjall hinn 19. mars 2021 hófst nýtt eld­gosa­tíma­bil á Reykja­nesskag­an­um sem átti sér und­an­fara með jarðskjálfta­hrin­um allt frá ár­inu 2019. Líkt og við þekkj­um er helsta verk­efni sam­fé­lags­ins að ná utan þá stöðu sem skap­ast hef­ur í Grinda­vík vegna eld­goss­ins og styðja við Grind­vík­inga. Síðustu ára­tugi hef­ur ís­lenska hag­kerfið skapað mik­il verðmæti og því er ljóst að við sem sam­fé­lag náum utan um þá áskor­un sem blas­ir við. Hins veg­ar skipt­ir efna­hags­stjórn miklu máli um hvort vel tak­ist til!

Jarðhrær­ing­ar

Að mati vís­inda­manna er á Reykja­nes­inu að finna sex eld­stöðva­kerfi sé Hengil­s­kerfið talið með, en hin kerf­in á Reykja­nes­inu eru frá vestri til aust­urs; Reykja­ne­s­kerfið, Eld­vörp/​Svartsengi, Fagra­dals­fjall, Krýsu­vík­ur­kerfið og Brenni­steins­fjalla­kerfið. Hafa þessi kerfi mótað hið ægifagra langslag sem birt­ist okk­ur á Reykja­nes­inu og set­ur ein­kenn­andi svip á lands­hornið. Sam­kvæmt gögn­um og rann­sókn­um sem líta aft­ur til síðustu 3.500 ára hafa vís­inda­menn getið sér til um að gosskeið hafi staðið í um 400-500 ár, með 600-800 ára gos­hlé­um þar á milli, þó svo að gos­hlé í stöku eld­stöðva­kerfi vari að meðaltali í um 1.000 ár. Sem dæmi um hversu lif­andi svæðið get­ur orðið hafa vís­inda­menn meðal ann­ars bent á að gos­virkni geti flust milli eld­stöðva­kerfa með 30-150 ára milli­bili sé miðað við síðasta gosskeið á svæðinu. Að frá­tal­inni þeirri gos­hrinu sem hófst árið 2021 hef­ur ein meiri hátt­ar gos­hrina átt sér stað á Reykja­nesi frá land­námi sem hófst með Bláfjalla­eld­um um árið 950 og lauk með Reykja­neseld­um árið 1240, en þar á milli gaus í Krýsu­vík­ur­kerf­inu með Krýsu­víkureld­um en einu hraun­in sem hafa nálg­ast höfuðborg­ar­svæðið á sögu­leg­um tíma runnu ein­mitt úr Krýsu­vík­ur­kerf­inu og standa sunn­an við Hafn­ar­fjörð.

Hús­næðisaðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir Grind­vík­inga

Ljóst er að eld­gosið í Grinda­vík hinn 14. janú­ar síðastliðinn gjör­breytti stöðu mála í bæn­um. Það var lands­mönn­um öll­um mikið áfall að sjá seinni gossprungu opn­ast sunn­an þeirra varn­argarða sem risið höfðu ofan við bæ­inn og horfa á hraun renna yfir íbúðar­hús í bæn­um. Í kjöl­farið virt­ist staðfest að ekki yrði búið í bæn­um næstu mánuði og miss­eri og hófu því stjórn­völd að fram­lengja gild­andi aðgerðir ásamt því að kynna nýj­ar aðgerðir sem ætlað er að tryggja ör­yggi Grind­vík­inga þegar kem­ur að hús­næði, af­komu og verðmæt­um. Með þeim mun ríkið skapa for­send­ur fyr­ir Grind­vík­inga til að koma sér upp ör­uggu heim­ili til lengri tíma á eig­in for­send­um. Sam­hliða þessu ætla stjórn­völd að tryggja fram­boð á var­an­legu hús­næði með ýmsu móti, þar á meðal með upp­bygg­ingu á hús­næði á til­tekn­um svæðum, með kaup­um á sam­tals 260 íbúðum í gegn­um íbúðafé­lög­in Bríeti og Bjarg. Þá verður lagt fram frum­varp á næstu dög­um sem unnið hef­ur verið að í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu og snýr að þreng­ingu skil­yrða varðandi al­menna skamm­tíma­út­leigu íbúða og er ætlað að stuðla að auknu fram­boði á íbúðar­hús­næði. Sér­stak­ur hús­næðisstuðning­ur verður jafn­framt fram­lengd­ur til loka júní ásamt því að verða út­víkkaður til að styðja bet­ur fjár­hags­lega við fólk. Aldrei hef­ur verið jafn­brýnt að stór­auka fram­boð af hús­næði á Íslandi.

Af­koma og verðmæti var­in

Stjórn­völd hafa einnig lagt kapp á að tryggja af­komu­ör­yggi Grind­vík­inga og stuðla að verðmæta­björg­un eigna. Launastuðning­ur til þeirra sem ekki geta sótt at­vinnu í bæn­um vegna ástands­ins verður fram­lengd­ur til loka júní, og leng­ur ef þörf kref­ur. Þá hef­ur áhersla verið lögð á, eft­ir því sem aðstæður leyfa, að kom­ast hjá verðmæta­tjóni. Það verður áfram unnið að því að gera Grind­vík­ing­um kleift að bjarga verðmæt­um í sam­vinnu við helstu viðbragðsaðila. Í því sam­hengi er vert að nefna að unnið er að sam­starfi við flutn­inga­fyr­ir­tæki til að styðja við þá Grind­vík­inga sem ekki hafa tök á að sækja verðmæti á eig­in spýt­ur ásamt því að aðstoða fólk við að fá ör­uggt geymslu­hús­næði til að geyma inn­bú og önn­ur verðmæti eins og þarf. At­vinnu­lífið í Grinda­vík er merki­lega fjöl­breytt og viðamikið og skipt­ir máli í ut­an­rík­is­viðskipt­um lands­ins. Stærstu at­vinnu­grein­arn­ar snúa að ferðaþjón­ustu og sjáv­ar­út­vegi, en ýms­ar teg­und­ir greina hafa náð að koma sér vel fyr­ir, auk starfa á veg­um sveit­ar­fé­lags­ins og hins op­in­bera. Það verður mik­il­vægt að tryggja að þau verðmæti sem sköpuð hafa verið í Grinda­vík verði áfram til að styðja við þjóðarbúið. Það hef­ur gengið bet­ur en á horfðist varðandi sjáv­ar­út­veg­inn, þar sem sam­starf og samstaða í grein­inni hef­ur komið til góða við að bjarga verðmæt­um. Gengi ferðaþjón­ust­unn­ar hef­ur verið mis­jafnt. Lok­un Grinda­vík­ur hef­ur komið þungt niður á minni fyr­ir­tækj­um. Eitt öfl­ug­asta fyr­ir­tækið á svæðinu, Bláa lónið, hef­ur búið við mikla óvissu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Afar brýnt er að klára áhættumat al­manna­varna á svæðinu til að draga úr þeirri óvissu. Bláa lónið er sá ferðamannastaður sem hef­ur einna mest aðdrátt­ar­afl fyr­ir þá sem heim­sækja landið. Tæp­lega 900 manns starfa hjá Bláa lón­inu og af­leidd eru störf afar mik­il­væg fyr­ir Reykja­nesið og alla ferðaþjón­ust­una.

Mót­vægisaðgerðir skipta öllu um efna­hags­fram­vind­una

Það er meira en að segja það að koma heilu byggðarlagi fyr­ir í nýju hús­næði, en það hef­ur ekki staðið á rík­is­stjórn­inni að gera sitt besta í þeim efn­um. Hins veg­ar er afar brýnt að gæta að þjóðhags­leg­um stærðum þegar horft er fram á veg­inn. Glím­an við verðbólg­una hef­ur verið ein helsta áskor­un­in frá því að heims­far­aldri lauk. Leik­ur­inn í þeirri bar­áttu hef­ur verið að snú­ast í rétta átt á allra síðustu vik­um og mánuðum. Hús­næðisliður­inn er afar þung­ur í verðbólgu­mæl­ing­um hér á landi. Á síðasta ára­tug hef­ur óvíða verið jafn mik­ill efna­hags­leg­ur upp­gang­ur eins og á Íslandi. Vegna hins opna vinnu­markaðar hef­ur fram­boðsvand­inn í hag­kerf­inu á síðustu miss­er­um einna helst birst á vett­vangi hús­næðismarkaðar. Það er því mik­il­vægt að öll­um árum sé róið að því að styrkja fram­boðshliðina á hús­næðismarkaði, hvort sem það er á sviði fram­boðs lóða eða bygg­ing­ar­gerðar. Hús­næðismarkaðnum verður þó ekki breytt á einni nóttu og má vænt­an­lega bú­ast við tíma­bundn­um þrýst­ingi, en mik­il­vægt verður að taka á fram­boðshliðinni sem allra fyrst til hags­bóta fyr­ir framtíðina. Stjórn­völd þurfa jafn­framt að horfa til hús­næðisliðar vísi­tölu neyslu­verðs, t.d. með sam­an­b­urði á fyr­ir­komu­lagi hans í ná­granna­lönd­un­um. Þessi umræða hef­ur verið uppi á borðum hér á landi í nær 20 ár og því tíma­bært að skoða það nán­ar með framtíðina í huga. Hér er ekki verið að tala um að taka hús­næðisliðinn út úr vísi­tölu neyslu­verðs held­ur að láta hann verða sam­an­b­urðar­hæf­ari. Vera kann að einnig þurfi að grípa til annarra þjóðhags­varúðar­tækja til að draga úr spennu á hús­næðismarkaði, líkt og var gert á Nýja-Sjálandi eft­ir stóra jarðskjálft­ann í Christchurch árið 2011.

Á síðustu viku hef ég orðið þeirr­ar gæfu aðnjót­andi að vera í dag­leg­um sam­skipt­um við íbúa í Grinda­vík. Það sem ein­kenn­ir hóp­inn er dugnaður, sam­kennd, þraut­seigja og vilj­inn til að ráða sín­um ör­lög­um sjálf­ur. Á þess­ari stundu er óljóst hver framtíð Grinda­vík­ur verður og verður það í hönd­um okk­ar fær­asta vís­inda­fólks að meta aðstæður af kost­gæfni og taka svo upp­lýsta ákvörðun í sam­vinnu við íbúa og fyr­ir­tæk­in. Þrátt fyr­ir alla þá óvissu sem ein­kenn­ir stöðuna, þá er eitt ljóst, en það er að stjórn­völd standa með Grind­vík­ing­um og munu mál­efni þeirra áfram njóta for­gangs við rík­is­stjórn­ar­borðið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

1,7 milljarða tekjur ferðaþjónustunnar á dag

Deila grein

18/01/2024

1,7 milljarða tekjur ferðaþjónustunnar á dag

Ferðaþjón­ustu­vik­an stend­ur yfir þessa dag­ana en mark­mið henn­ar er að auka vit­und um mik­il­vægi ferðaþjón­ustu og efla sam­starf og fag­mennsku í grein­inni með fróðlegri og skemmti­legri dag­skrá. Íslenskri ferðaþjón­ustu hef­ur vaxið fisk­ur um hrygg frá upp­hafi síðasta ára­tug­ar. Þannig hef­ur fjöldi er­lendra ferðamanna vaxið úr tæp­um 460 þúsund árið 2010 í rúm­ar 2,2 millj­ón­ir á síðasta ári. Ferðaþjón­ust­an hef­ur verið að ná aft­ur styrk sín­um, eft­ir áföll síðustu ára. Síðasta ár var næst­stærsta árið í ferðaþjón­ustu hér á landi, en stærsta árið var 2018 þegar rúm­ar 2,3 millj­ón­ir heim­sóttu landið. Sam­hliða hef­ur ferðaþjón­ust­an orðið að þeim burðarási í ís­lensku efna­hags­lífi sem skap­ar mest­ar gjald­eyris­tekj­ur. Þannig skapaði grein­in 448 millj­arða í gjald­eyris­tekj­ur árið 2022 en heild­ar­neysla inn­lendra og er­lendra ferðamanna hér á landi sama ár nam 635 millj­örðum kr., sem ger­ir um 1,7 millj­arða í tekj­ur á dag, en hlut­ur beggja hópa hef­ur vaxið mikið.

Sá mikli gjald­eyr­is­straum­ur sem ferðaþjón­ust­an skap­ar skipt­ir lítið, opið hag­kerfi eins og okk­ar gríðarlegu máli. Hann styður við gengi krón­unn­ar og stuðlar þannig að lægri verðbólgu en ella ásamt því að þjóna sem ör­ygg­is­sjóður ef stór og óvænt áföll eiga sér stað sem haft geta nei­kvæð áhrif á gjald­eyrisöfl­un. Um­turn­un varð á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins með til­komu og vexti ferðaþjón­ust­unn­ar, sem skap­ar stöðugan straum gjald­eyristekna, vel á ann­an millj­arð króna á degi hverj­um. Það má meðal ann­ars greina í stöðu gjald­eyr­is­varðaforða Seðlabank­ans og vax­andi eign­um líf­eyr­is­sjóða á er­lendri grundu.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur að sama skapi bætt bú­setu­skil­yrði í land­inu öllu, en um er að ræða stærstu sjálfsprottnu byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar. Hærra at­vinnu­stig hring­inn um landið sem og stór­aukið fram­boð af þjón­ustu í afþrey­ingu, gist­ingu, mat og drykk eða aðgengi að nátt­úruperl­um er eitt­hvað sem íbú­ar lands­ins jafnt sem er­lend­ir gest­ir njóta góðs af. Vissu­lega hafa fylgt vaxt­ar­verk­ir þeim öra vexti sem var á fyrri árum í komu er­lendra ferðamanna til lands­ins. Hins veg­ar hef­ur mjög margt áunn­ist á síðustu árum í að byggja upp nauðsyn­lega innviði til að taka á móti þess­um aukna fjölda.

Fjöl­mörg sókn­ar­tæki­færi eru til staðar til þess að gera enn bet­ur í þess­um efn­um til að stuðla að sjálf­bær­um vexti. Í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu er unnið af full­um krafti að gerð nýrr­ar ferðaþjón­ustu­stefnu til árs­ins 2030 ásamt aðgerðaáætl­un. Meg­in­stefið í henni er að ís­lensk ferðaþjón­usta verði leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is. Í því felst að ferðaþjón­ust­an sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf í sátt við land og þjóð. Við vilj­um styrkja um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar og skapa henni betri skil­yrði til að vaxa og dafna í takt við fyrr­nefnda framtíðar­sýn. Ferðaþjón­ustu­vik­an er ein­mitt góður vitn­is­b­urður um þann ár­ang­ur, kraft og viðnámsþrótt sem ein­kenn­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu. Ég óska grein­inni til ham­ingju með vik­una og hlakka til að kynna mér alla þá fjöl­breytni sem ferðaþjón­ust­an hef­ur að geyma á Manna­móti ferðaþjón­ust­unn­ar sem fram fer í Kórn­um í Kópa­vogi í dag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Deila grein

09/01/2024

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Það hef­ur ekki dulist nein­um að há verðbólga og vext­ir hafa komið illa við fólk og fyr­ir­tæki á síðustu miss­er­um. Það er því til mik­ils að vinna að ná verðbólg­unni niður og skapa þannig skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta. Há verðbólga gerði vart við sig í kjöl­far heims­far­ald­urs­ins í fjöl­mörg­um ríkj­um með til­heyr­andi áskor­un­um fyr­ir hag­stjórn. Ísland fór ekki var­hluta af þeirri þróun í heims­bú­skapn­um þar sem hnökr­ar í aðfanga­keðjum, aukn­ar höml­ur og viðskipta­hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um ásamt stríðsátök­um hafa fram­kallað mikl­ar áskor­an­ir fyr­ir stjórn efna­hags­mála og enn sér ekki fyr­ir end­ann á þeim.

Hér hef­ur há verðbólga hins veg­ar reynst þrálát­ari en í lönd­un­um í kring­um okk­ur, þó svo að hún hafi fram­an af mælst sú næst­lægsta í Evr­ópu.

Það er göm­ul saga en ekki ný að há verðbólga bitn­ar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnam­inni. Helsta keppikefli efna­hags­stjórn­ar­inn­ar hér­lend­is er að ná tök­um á verðbólg­unni. Hún hef­ur vissu­lega lækkað frá því að hún mæld­ist hæst 10,2% í fe­brú­ar­mánuði 2023, en í dag mæl­ist hún 7,7%. Sterk­ar vís­bend­ing­ar eru um að háir stýri­vext­ir Seðlabank­ans séu farn­ir að bíta en á ár­inu 2023 slógu þeir á inn­lenda eft­ir­spurn á sama tíma og mik­ill kraft­ur var í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem skýrðist aðallega af um­svif­um í ferðaþjón­ustu. Þá var sam­drátt­ur í einka­neyslu á þriðja árs­fjórðungi eft­ir nokkuð kröft­ug­an vöxt árs­fjórðung­ana þar á und­an. Hag­kerfið kom af mikl­um krafti út úr far­aldr­in­um og mæld­ist hag­vöxt­ur ríf­lega 7% á ár­inu 2022 og fór viðskipta­jöfnuður úr skorðum. Á þessu ári er spáð meira jafn­vægi í þess­um efn­um með tæp­lega 3% hag­vexti og já­kvæðum viðskipta­jöfnuði.

Næstu vik­ur skipta höfuðmáli í glím­unni við verðbólg­una en ör­lög verðbólguþró­un­ar­inn­ar eru nú að stór­um hluta í okk­ar eig­in hönd­um. Þar er stóra breyt­an kom­andi kjara­samn­ing­ar sem nú er unnið að. Þar mun ábyrgð, raun­sæi og góð sam­vinna rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins ráða úr­slit­um. Rík­is­stjórn­in stóð fyr­ir aðhalds­söm­um fjár­lög­um, þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og gjald­skrár­hækk­an­ir taka­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi. Það hef­ur einnig verið já­kvætt að sjá fleiri sveit­ar­fé­lög draga úr boðuðum gjald­skrár­hækk­un­um, nú síðast Hvera­gerðis­bær sem mun hækka gjald­skrár um 2,5% í stað 8% eins og boðað hafði verið.

Í þessu verk­efni verða all­ir að leggja sitt af mörk­um enda mikið í húfi. Það er samt sem áður til­efni til bjart­sýni í ljósi þess já­kvæða tóns sem kveður við í samn­ingaviðræðum aðila vinnu­markaðar­ins. Það er mik­il­vægt að vinna áfram í þeim anda og stuðla að því að skrifað verði und­ir lang­tíma­kjara­samn­inga sem skapa hag­felld skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta, en í því felst stærsta kjara­bót­in fyr­ir okk­ur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Horfur í heimsbúskapnum 2024 og íslenska hagkerfið

Deila grein

06/01/2024

Horfur í heimsbúskapnum 2024 og íslenska hagkerfið

Heims­bú­skap­ur­inn stend­ur á mik­il­væg­um tíma­mót­um um þess­ar mund­ir eft­ir tals­verðan darraðardans und­an­far­in fjög­ur ár. Mikl­ar vend­ing­ar hafa orðið í alþjóðahag­kerf­inu á þeim tíma sem á einn eða ann­an hátt hafa snert öll ríki í heim­in­um. Heims­far­ald­ur, hnökr­ar í aðfanga­keðjum, aukn­ar höml­ur og viðskipta­hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um ásamt stríðsátök­um hafa þannig fram­kallað stór­ar áskor­an­ir fyr­ir stjórn efna­hags­mála og enn er ekki séð fyr­ir end­ann á þeim. Þrátt fyr­ir þetta eru góð teikn á lofti með hækk­andi sól.

Já­kvæð þróun í heims­bú­skapn­um …

Það er ánægju­legt að sjá vís­bend­ing­ar um að áhrif fyrr­nefndra at­b­urða séu í rén­un. Þannig hef­ur verg heims­fram­leiðsla tekið bet­ur við sér en bú­ist var við og mæld­ist á þriðja árs­fjórðungi 2023 rúm­lega 9% meiri en fyr­ir heims­far­ald­ur, sam­kvæmt alþjóðlegri sam­an­tekt Fitch Rat­ings.

Það er einkum þrennt sem skýr­ir þessa þróun. Í fyrsta lagi hef­ur hin alþjóðlega aðfanga­keðja náð betra jafn­vægi eft­ir heims­far­ald­ur­inn, ásamt því að fyr­ir­tæki í Evr­ópu hafa getað brugðist bet­ur við verðhækk­un­um á orku frá Rússlandi en leit út fyr­ir í fyrstu.

Í öðru lagi hef­ur verðbólga hjaðnað hraðar en fyrstu spár bentu til. Verðbólga á heimsvísu var 8,9% í fyrra og spáð er að hún verði kom­in niður í 5,1% í árs­lok 2024. Hrávara hef­ur verið að lækka en óstöðugt orku­verð held­ur áfram að vera áskor­un. Verðbólga í mat­væl­um, allt frá hveiti til eld­unar­ol­íu, hef­ur hjaðnað.

Í þriðja lagi hafa vænt­ing­ar markaðsaðila verið mikl­ar um að alþjóðleg­ir vext­ir fari að lækka, sem myndi óneit­an­lega létta und­ir með heim­il­um og fyr­ir­tækj­um. Þetta er að ger­ast þrátt fyr­ir fall svæðis­bund­inna banka í Banda­ríkj­un­um og fall Cred­it Suis­se sem vakti áhyggj­ur um fjár­mála­stöðug­leika. Á und­an­förn­um vik­um hafa fjár­mála­markaðir tekið veru­lega við sér. Þannig voru helstu vísi­töl­ur ná­lægt eða náðu nýj­um met­hæðum í lok árs 2023 og birt­ist það jafn­framt í sterkri stöðu skulda­bréfa­markaða.

Í Banda­ríkj­un­um eru all­ar lík­ur á að hag­kerfið nái mjúkri lend­ingu á þessu ári. Þannig tók banda­ríska hag­kerfið kröft­ug­lega við sér og virðist lítið lát þar á þrátt fyr­ir um­tals­verðar vaxta­hækk­an­ir, en vinnu­markaður og eft­ir­spurn í land­inu fór fram úr vænt­ing­um. Þannig voru hag­töl­ur fyr­ir þriðja árs­fjórðung vest­an­hafs mun sterk­ari en flest­ir markaðsaðilar gerðu var ráð fyr­ir, en um mitt síðasta ár var það ein­róma skoðun sér­fræðinga að vaxta­hækk­an­ir myndu leiða til stöðnun­ar á þessu ári.

Í Evr­ópu hef­ur vöxt­ur­inn verið minni, en þar setti orkukreppa strik í reikn­ing­inn. Þar hef­ur þó ríkt nokk­ur upp­gang­ur þrátt fyr­ir vaxta­hækk­an­ir. Hins veg­ar hafa ný­leg­ar töl­ur bent til stöðnun­ar eða sam­drátt­ar m.a. í Þýskalandi og er það áhyggju­efni fyr­ir evru­svæðið. Ný­markaðsríki og fá­tæk­ari lönd virðast koma bet­ur und­an áföll­um síðustu ára en nokk­ur þorði að vona, en bú­ist var við greiðslu­erfiðleik­um í kjöl­far far­ald­urs­ins og vaxta­hækk­ana í Banda­ríkj­un­um.

… en blik­ur halda áfram að vera á lofti

Alþjóðlega efna­hags­kerfið stend­ur engu að síður á mik­il­væg­um tíma­mót­um. Heims­bú­skap­ur­inn mót­ast af sam­spili stjórn­mála­legra og efna­hags­legra áhrifa. Síðustu miss­eri hafa ein­kennst af spennu á milli stór­velda og al­var­leg­um svæðis­bundn­um átök­um í Úkraínu, Mið-Aust­ur­lönd­um og Afr­íku. Í sam­skipt­um stór­velda skap­ar umrót á banda­lög­um áhættu fyr­ir heims­bú­skap­inn. Meðal helstu svæða sem horft er til eru Aust­ur-Evr­ópa, Mið-Aust­ur­lönd og Suður-Kína­haf, þar sem at­b­urðir á þess­um svæðum gætu mögu­lega raskað aðfanga­keðjum á ný, haft áhrif á viðskipta­stefnu og grafið und­an efna­hags­leg­um stöðug­leika í heims­bú­skapn­um.

Hag­vöxt­ur í Kína hef­ur verið und­ir vænt­ing­um eft­ir los­un covid-hafta og kunna þar að vera á ferðinni kerf­is­læg vanda­mál eft­ir mik­inn vöxt und­an­farna ára­tugi. Það er áhyggju­efni fyr­ir heims­bú­skap­inn þar sem Kína er með stærstu ríkj­um. Á sama tíma þarf að fást við lýðfræðileg­ar breyt­ing­ar í stór­um lönd­um þar sem ald­ur íbúa fer vax­andi. Á síðasta ári spratt fjórða iðnbylt­ing­in fram í öllu sínu veldi meðal ann­ars með gervi­greind­inni. Í því fel­ast gríðarleg tæki­færi en að sama skapi áskor­an­ir sem ríki heims verða að ná utan um í sam­ein­ingu. Þessu tengt er staða fjöl­miðla áfram erfið og hætta á að upp­lýs­inga­óreiða kunni að hafa áhrif á fram­vindu stjórn­mála og lýðræðis.

Síðustu vik­ur hafði ríkt bjart­sýni um að verðbólga væri í rén­un og að vext­ir yrðu lækkaðir hratt beggja vegna Atlantsála sem eins og áður seg­ir mátti greina á mikl­um upp­gangi skulda- og hluta­bréfa­markaða. Á allra síðustu dög­um hafa von­ir um hraða lækk­un vaxta hins veg­ar dvínað og má bú­ast við því að ekki hafi verið full inn­stæða fyr­ir þeirri bjart­sýni sem ríkt hef­ur á mörkuðum og lengri tíma gæti tekið að ná verðbólg­unni í mark­mið en markaðsaðilar hafa reiknað með, og gæti það sett strik í reikn­ing­inn varðandi hag­vöxt á þessu ári. Stjórn­völd og seðlabank­ar standa því enn frammi fyr­ir þeirri áskor­un að tak­ast á við að skapa jafn­vægi í ein­stök­um lönd­um í kjöl­far far­ald­urs­ins.

Þró­un­in hér­lend­is í okk­ar eig­in hönd­um

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af fyrr­nefnd­um darraðardansi í heims­bú­skapn­um. Hér hef­ur há verðbólga hins veg­ar reynst þrálát­ari en í lönd­un­um í kring­um okk­ur, þó svo að hún hafi fram­an af mælst sú næst­lægsta í Evr­ópu. Hef­ur þetta meðal ann­ars birst okk­ur í hækk­andi stýri­vöxt­um sem eru helsta stjórn­tæki Seðlabanka Íslands gagn­vart verðbólgu.

Á ár­inu 2023 slógu hækk­andi stýri­vext­ir á inn­lenda eft­ir­spurn á sama og mik­ill kraft­ur var í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem skýrðist aðallega af um­svif­um í ferðaþjón­ustu. Sam­drátt­ur varð í einka­neyslu á þriðja árs­fjórðungi eft­ir nokkuð kröft­ug­an vöxt árs­fjórðung­ana þar á und­an. Spáð er að jafn­vægi ná­ist í viðskipt­um við út­lönd sem sag­an kenn­ir okk­ur að sé mik­il­vægt fyr­ir þjóðarbúið. Það skipt­ir miklu máli að út­flutn­ings­grein­arn­ar verði ekki fyr­ir frek­ari áföll­um, en jarðhrær­ing­ar á Reykja­nesskaga fela vissu­lega í sér áskor­un. Gríðarleg­ar út­flutn­ings­tekj­ur eru skapaðar í Grinda­vík og ná­grenni! Hag­vaxt­ar­horf­ur sam­kvæmt spám eru ásætt­an­leg­ar eft­ir mik­inn vöxt 2022 og 2023. Brýn­asta hags­muna­mál þjóðfé­lags­ins er að ná niður verðbólgu og vöxt­um en það er mesta kjara­bót­in fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki í land­inu. Þó svo að Ísland sé ekki ónæmt eyríki í alþjóðahag­kerf­inu hvíla ör­lög verðbólguþró­un­ar­inn­ar nú að stór­um hluta í okk­ar eig­in hönd­um. Þar mun ábyrgð, raun­sæi og góð sam­vinna rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins ráða úr­slit­um.

Rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt aðhalds­samt fjár­laga­frum­varp, þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og gjald­skrár­hækk­an­ir tak­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi. Hag­felld­ir kjara­samn­ing­ar til langs tíma munu ráða miklu um þróun verðbólg­unn­ar.

Það gleður mig að sjá þá breiðu sam­stöðu og þann já­kvæða tón sem kveður við í samn­ingaviðræðum aðila vinnu­markaðar­ins, enda er mikið í húfi fyr­ir okk­ur öll. Sé rétt haldið á spil­un­um er ég bjart­sýn á að við mun­um sjá verðbólgu og vexti lækka tals­vert á ár­inu 2024, sem mun gera okk­ur bet­ur í stakk búin til þess að halda áfram þeirri lífs­kjara­sókn sem við vilj­um sjá í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. janúar 2024.