Categories
Fréttir Greinar

Afkastamikill þingvetur að baki

Deila grein

29/06/2024

Afkastamikill þingvetur að baki

Þinglok urðu á 154. lög­gjaf­arþingi Alþing­is um síðustu helgi. Þar með lauk viðburðarík­um þing­vetri þar sem fjöl­mörg mál komu til kasta lög­gjaf­ans. Sem menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra lagði ég fram 11 frum­vörp og þings­álykt­un­ar­til­lög­ur sem voru af­greidd. Má þar til dæm­is nefna þings­álykt­un­ar­til­lögu um nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 sem var samþykkt en með stefn­unni er leiðin fram á við mörkuð til þess að styrkja um­gjörð þess­ar­ar stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein­ar þjóðarbús­ins. Stjórn­völd eru staðráðin í styðja við þróun ferðaþjón­ust­unn­ar hér á landi, stuðla að sam­keppn­is­hæfni henn­ar og tryggja að hún vaxi í sátt við nátt­úru og menn. Þá samþykkti Alþingi einnig þings­álykt­un­ar­til­lög­ur mín­ar um aðgerðaáætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu og nýja mál­stefnu um ís­lenskt tákn­mál sem mun stuðla að auk­inni framþróun þess. Íslensk­an hef­ur mikið verið til umræðu á und­an­förn­um miss­er­um sem er fagnaðarefni. Það ligg­ur fyr­ir að tungu­málið okk­ar stend­ur frammi fyr­ir áskor­un­um af áður óþekktri stærð sem bregðast verður við með skipu­lögðum hætti.

Ýmsar laga­breyt­ing­ar urðu að veru­leika á sviði viðskipta­mála eins og til dæm­is breyt­ing­ar á lög­um um sam­vinnu­fé­lög sem snúa að því að ein­falda stofn­un sam­vinnu­fé­laga, þannig að lág­marks­fjöldi stofn­enda sam­vinnu­fé­laga fari úr 15 í þrjá og tryggja að eign­um sam­vinnu­fé­laga verði út­deilt til upp­bygg­ing­ar á starfs­svæðum þeirra komið til slita á fé­lög­un­um. Hert var á lög­um um rekstr­ar­leyf­is­skylda gisti­starf­semi þannig að hún skuli vera í samþykktu at­vinnu­hús­næði. Því er ekki leng­ur heim­ilt að gefa út leyfi til rekst­urs gisti­staða í íbúðar­hús­næði. Með breyt­ing­un­um er ekki leng­ur hægt að kaupa íbúðar­hús­næði í þétt­býli og gera það út sem gisti­stað um­fram 90 daga regl­una líkt og gerst hef­ur í miðborg­inni þar sem jafn­vel heilu íbúðablokk­irn­ar hafa breyst í hót­el. Með tím­an­um mun breyt­ing­in auka fram­boð af íbúðar­hús­næði í þétt­býli. Með breyt­ing­um á kvik­mynda­lög­um var tryggð heim­ild fyr­ir nýj­um styrkja­flokki inn­an Kvik­mynda­sjóðs til loka­fjár­mögn­un­ar á um­fangs­mikl­um leikn­um sjón­varpsþáttaröðum. Þannig verður mögu­legt að fjár­magna síðustu 15-20% í fram­leiðslu á stór­um leikn­um sjón­varpsþátt­um og fá hluta styrks­ins aft­ur inn til Kvik­mynda­sjóðs, skili verk­efnið hagnaði sam­kvæmt sett­um viðmiðum styrks­ins. Tíma­bær­ar breyt­ing­ar á lög­um um lista­manna­laun voru samþykkt­ar en fjöldi lista­manna­launa hef­ur staðið óbreytt­ur í 15 ár. Með breyt­ing­un­um verður um­fang lista­manna­launa aukið um 55% á fjór­um árum sem mun gefa fleiri lista­mönn­um tæki­færi til að efla ís­lenska menn­ingu, meðal ann­ars með tveim­ur nýj­um sjóðum; Launa­sjóði kvik­mynda­höf­unda og Veg­semd, sjóði lista­manna 67 ára og eldri.

Það er ánægju­legt og gef­andi að vinna mála­flokk­um menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins braut­ar­gengi en mál­efna­svið ráðuneyt­is­ins eru um­fangs­mik­il og snerta þjóðar­hag með fjöl­breytt­um hætti. Inn­an ráðuneyt­is­ins er und­ir­bún­ing­ur að mál­um næsta þing­vetr­ar þegar haf­inn, mál­um er verður er ætlað að gera gott sam­fé­lag enn betra.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sjálfsmynd þjóðarinnar endurspeglast í tungumálinu

Deila grein

19/06/2024

Sjálfsmynd þjóðarinnar endurspeglast í tungumálinu

Ný­af­staðið 80 ára lýðveldisaf­mæli mark­ar ákveðin tíma­mót í sögu þjóðar­inn­ar sem veit­ir til­efni til að líta yfir far­inn veg og horfa fram á við. Íslensk tunga er samof­in þjóðarsál­inni og lék lyk­il­hlut­verk í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar. Þá jafnt sem nú voru mál­efni tungu­máls­ins fólki hug­leik­in. Á tím­um sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar stóð ís­lensk­an frammi fyr­ir áskor­un­um vegna auk­inn­ar dönsku­notk­un­ar, sér­stak­lega í stjórn­kerf­inu og mennta­kerf­inu. Þannig komu til að mynda lög Íslands út bæði á dönsku og ís­lensku, en danska út­gáf­an ein var und­ir­rituð af kon­ung­in­um og hafði þannig meira vægi í stjórn­skip­an lands­ins. Þessu var harðlega mót­mælt af sjálf­stæðis­sinn­um lands­ins, þ.m.t. Jóni Sig­urðssyni for­seta. Með þessu fyr­ir­komu­lagi væri verið að taka af Íslend­ing­um þeirra nátt­úru­lega rétt, sem lif­andi þjóðtunga eins og ís­lensk­an hefði, og ættu lög­in því ein­göngu að vera á ís­lensku. Án ís­lensk­unn­ar byggi um sig í land­inu önn­ur þjóð og ókunn­ug eins og Jón for­seti hélt fram.

Líkt og á tím­um Jóns, þá stend­ur tungu­málið okk­ar í dag frammi fyr­ir um­fangs­mikl­um áskor­un­um af áður óþekkt­um toga. Í fyrsta lagi, þá er ensk­an mál tækn­inn­ar og hún er alls staðar. Börn eru kom­in í ná­vígi við ensku strax við mál­töku og sér mál­vís­inda­fólkið okk­ar breyt­ing­ar á mál­töku barna vegna þessa. Í öðru lagi hef­ur Ísland breyst mikið sem sam­fé­lag á síðasta ald­ar­fjórðungn­um en inn­flytj­end­ur voru um 1% fyr­ir 30 árum en eru í dag um 16%. Flest­ir hafa komið hingað í leit að betra lífi og jafn­vel ýms­ir sem hafa elt maka sinn hingað til lands og stofnað fjöl­skyldu. Meg­inþorri þessa fólks hef­ur eflt landið með nýrri þekk­ingu og straum­um. Í þriðja lagi, þá reiðir ein stærsta út­flutn­ings­grein­in okk­ar sig á enska tungu í viðskipt­um sín­um en það á reynd­ar líka við um hluta sjáv­ar­út­vegs og bygg­inga­starf­semi.

Til að ná utan um þess­ar áskor­an­ir þýðir ekk­ert annað en að sýna dugnað og metnað! Við get­um sótt fram en á sama tíma varið tungu­málið okk­ar, og náð ár­angri í þágu þess. Við höf­um náð ákveðnum ár­angri, þannig hef­ur ís­lensk­an sótt veru­lega í sig veðrið í heimi tækn­inn­ar. Stærstu tæknifyr­ir­tæki heims hafa tekið mál­tækni­lausn­um Íslands opn­um örm­um og ákveðið að inn­leiða ís­lensk­una í viðmót sín. Frum­kvæði okk­ar í þess­um mál­um hef­ur vakið at­hygli víða. Þá samþykkti Alþingi í vor nýja aðgerðaáætl­un í þágu ís­lensk­unn­ar – þar eru tutt­ugu og tvær aðgerðir sem all­ar miða að því að styrkja tungu­málið. Þá hef­ur umræða um tungu­málið og þróun þess verið lif­andi og al­menn á und­an­förn­um miss­er­um, sem er vel og sýn­ir fram á að okk­ur sem þjóð er virki­lega um­hugað um stöðu Íslensk­unn­ar – rétt eins og kann­an­ir sýna. Við vilj­um að hér verði töluð ís­lenska um ókomna framtíð, og því skipt­ir máli að við vinn­um heima­vinn­una okk­ar vel og höld­um áfram að hlúa að tungu­mál­inu okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Farsælt íslenskt lýðveldi í 80 ár

Deila grein

17/06/2024

Farsælt íslenskt lýðveldi í 80 ár

Ákvarðanir sem tekn­ar eru í dag skipta kom­andi kyn­slóðir máli. Kyn­slóðirn­ar í dag njóta góðs af þeim verk­um sem brautryðjend­ur fyrri tíma börðust fyr­ir. Því er fagnað í dag að lýðveldið Ísland fyll­ir 80 árin. Með stofn­un lýðveld­is­ins hinn 17. júní 1944 náðist loka­mark­miðið í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar eft­ir áfanga­sigra ára­tug­anna á und­an. Þeir sigr­ar voru born­ir uppi af eld­hug­um þeirra tíma, sem höfðu þá bjarg­föstu trú að ís­lenskri þjóð myndi farn­ast best á grund­velli sjálf­stæðis.

Í amstri hvers­dags­leik­ans og dæg­urþrasi stjórn­mál­anna vill það kannski stund­um gleym­ast hversu um­fangs­mikl­ar sam­fé­lags­breyt­ing­ar hafa orðið á Íslandi og hvernig Ísland hef­ur í fyll­ingu tím­ans farið úr því að vera eitt fá­tæk­asta ríki í Evr­ópu yfir í að verða að einu mesta vel­meg­un­arþjóðfé­lagi ver­ald­ar. Full­veldið árið 1918 og að lok­um sjálf­stæðið árið 1944 voru horn­stein­ar þeirr­ar framtíðar sem átti eft­ir að fylgja í kjöl­farið, sem byggð var á for­send­um og ákvörðunum Íslend­inga sjálfra um eig­in framtíð.

Viðskiptafrelsi grund­völl­ur póli­tísks frels­is

Stund­um er sagt að drop­inn holi stein­inn. Það er hægt að heim­færa upp á bar­áttu Íslend­inga fyr­ir sjálf­stæði lands­ins. End­ur­reisn Alþing­is árið 1845 skapaði vett­vang fyr­ir þá sem stóðu í stafni sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar til þess að setja á odd­inn gagn­vart Dana­kon­ungi ýmis þau fram­fara­mál sem skiptu fram­gang þjóðar­inn­ar máli. Í hug­um margra var versl­un­ar­frelsi samofið þjóðfrels­inu, enda var það mál­efni fyr­ir­ferðar­mikið á hinu end­ur­reista Alþingi – og skyldi eng­an undra í ljósi tæp­lega 200 ára af danskri ein­ok­un­ar­versl­un frá ár­inu 1602, sem var af­num­in með frí­höndl­un­ar­lög­um sem giltu í tæp 70 ár, og fólu í sér ákveðnar til­slak­an­ir sem mörkuðu upp­hafið að því að ís­lensk­ir kaup­menn komu fram á sjón­ar­sviðið, þó svo að þeir hafi verið í minni­hluta á tíma­bil­inu. Ríkt ákall var eft­ir fullu versl­un­ar­frelsi enda var það álitið grund­völl­ur póli­tísks frels­is þjóðar­inn­ar fram á veg­inn. Birt­ist þetta meðal ann­ars í orðum af­mæl­is­barns dags­ins, Jóns Sig­urðsson­ar, sem hann ritaði í bréfi nokkru sem stílað var á bróður hans þann 29. júní 1852, þar sem Jón rit­ar: „Ef verzl­un­ar­frelsi kæm­ist á, þá vildi eg helzt kom­ast heim að verða þar, því þá veit eg pólitiskt frelsi kem­ur á ept­ir.“ Það urðu því ákveðin vatna­skil hinn 1. apríl 1855 þegar rík­isþing Dan­merk­ur samþykkti lög um versl­un­ar­frelsi sem heim­ilaði kaup­mönn­um annarra ríkja að versla við Íslend­inga og inn­lend­um versl­un­ar­mönn­um gafst nú kost­ur á að leigja er­lend skip fyr­ir starf­semi sína. Hin nýju lög áttu eft­ir að leggja grund­völl að inn­lend­um pönt­un­ar- og versl­un­ar­fé­lög­um í land­inu, sem var vita­skuld mik­il breyt­ing.

Þjóð meðal þjóða

Um­turn­un hef­ur orðið á ís­lensku sam­fé­lagi frá þeim tím­um sem rakt­ir eru hér að ofan en þessi dæmi­saga geym­ir mik­il­væg­an lær­dóm. Stofn­un lýðveld­is­ins veitti Íslandi rödd í alþjóðasam­fé­lag­inu, bæði meðal þjóða og alþjóðastofn­ana. Sem sjálf­stætt ríki hef­ur Ísland látið rödd sína heyr­ast á alþjóðavett­vangi og yfir lýðveld­is­tím­ann hef­ur frjáls­ræði og mögu­leik­ar ís­lensks viðskipa­lífs auk­ist veru­lega, meðal ann­ars á grund­velli aðild­ar okk­ar að EES-samn­ingn­um sem trygg­ir frelsi í flutn­ingi vara, þjón­ustu, fjár­magns og vinnu­afls milli aðild­ar­landa samn­ings­ins, sem og fríversl­un­ar­samn­inga sem Ísland hef­ur gert á grund­velli EFTA en einnig tví­hliða við stórþjóðir í heim­in­um svo dæmi séu tek­in. Sam­hliða þessu hef­ur stoðum at­vinnu­lífs­ins fjölgað úr einni í fjór­ar og út­flutn­ings­tekj­ur þjóðarbús­ins marg­fald­ast sem skipt­ir miklu máli fyr­ir lítið og opið hag­kerfi eins og okk­ar. Þá er nán­ast sama hvar borið er niður í sam­an­b­urði á lífs­kjör­um og lífs­gæðum ým­is­kon­ar milli ríkja, Ísland mæl­ist þar nán­ast und­an­tekn­inga­laust meðal efstu ríkja í heim­in­um, sem er eft­ir­tekt­ar­verður ár­ang­ur fyr­ir fá­menna þjóð í Atlants­hafi. Þeim kyn­slóðum sem komu á eft­ir for­vígs­mönn­um sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar og tóku við sjálf­stæðiskefl­inu hef­ur þannig vegnað vel í að sækja fram í þágu ís­lenskra hags­muna á grund­velli sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ar þjóðar­inn­ar. Ekk­ert verður hins veg­ar til úr engu, en lands­menn hafa borið gæfu til að nýta auðlind­ir lands­ins á sjálf­bær­an hátt og styðja þannig við öfl­ugt vel­ferðarsam­fé­lag, þar sem all­ir eiga að fá tæki­færi til að lifa gæfu­ríku lífi óháð efna­hag. Ávallt þarf að huga að efna­hags­legu sjálf­stæði þjóðar­inn­ar, líkt og Jón gerði forðum daga, enda legg­ur það grunn­inn að fram­sókn lands og þjóðar.

Fögn­um lýðveld­inu

Það eru for­rétt­indi að búa í lýðræðis­sam­fé­lagi eins og okk­ar og geta fagnað lýðveldisaf­mæli sem þessu. Við sjá­um það víða er­lend­is að sótt er að þeim gild­um sem við grund­völl­um sam­fé­lag og stjórn­ar­far okk­ar á. Það er óheillaþróun sem þarf sporna við. Við Íslend­ing­ar þurf­um að halda áfram að rækta lýðveldið, fjör­eggið okk­ar, og allt það sem því fylg­ir. Það ger­um við meðal ann­ars með virkri þátt­töku þjóðfé­lagsþeg­anna, heil­brigðum skoðana­skipt­um, þátt­töku í kosn­ing­um og að fagna áföng­um eins og deg­in­um í dag um allt land. Ég óska lands­mönn­um öll­um til ham­ingju með 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins og megi Ísland vera frjálst og sjálf­stætt um ókomna tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin bitist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fögnum lýðveldinu

Deila grein

10/06/2024

Fögnum lýðveldinu

Hand­an við hornið er merk­is­áfangi í sögu ís­lensku þjóðar­inn­ar en þann 17. júní næst­kom­andi verða liðin 80 ár frá því að stofn­un lýðveld­is­ins átti sér stað hér á landi. Með því lauk sam­bandi milli Íslands og Dan­merk­ur sem staðið hafði yfir í ald­ir og stjórn­ar­far­inu sem við þekkj­um í dag var komið á. Á ferðum og fund­um mín­um und­an­farið bera þessi tíma­mót nokkuð reglu­lega á góma í sam­töl­um mín­um við fólk. Þökk sé góðu lang­lífi hér á landi er drjúg­ur hóp­ur núlif­andi Íslend­inga sem fædd­ist und­ir dönsk­um kóngi. Átta­tíu ár eru í raun ekki það lang­ur tími þegar maður hugs­ar út í það, en breyt­ing­arn­ar sem orðið hafa á ís­lensku sam­fé­lagi eru ótrú­leg­ar. Frá því að vera eitt fá­tæk­asta ríki Evr­ópu, yfir í það að vera í fremstu röð lífs­kjara í heim­in­um sam­kvæmt helstu mæl­ing­um. Þannig hef­ur sjálf­stæðið reynst bless­un í sókn okk­ar fram á við, blásið í okk­ur enn frek­ari kjarki til þess að gera bet­ur. Það er óbilandi trú mín að það stjórn­ar­far sem er far­sæl­ast bygg­ist á því að ákv­arðanir um vel­ferð fólks eru tekn­ar sem næst fólk­inu sjálfu.

Lýðveldið er hraust og sprelllifn­andi eins og ný­af­staðnar for­seta­kosn­ing­ar eru til vitn­is um. Öflug­ur hóp­ur fram­bjóðenda gaf þar kost á sér til að gegna embætti for­seta Íslands, fjöl­marg­ir sjálf­boðaliðar lögðu for­setafram­bjóðend­um lið með ýms­um hætti og kjör­sókn var sú besta í 28 ár. Allt upp­talið er mikið styrk­leika­merki fyr­ir lýðræðis­sam­fé­lag eins og okk­ar. Því miður er sótt að lýðræði og gild­um þess víða um heim í dag. Það er óheillaþróun sem sporna þarf við. Lýðræðið þarf nefni­lega að rækta og standa vörð um. Þar gegn­ir virkt þátt­taka borg­ar­anna lyk­il­hlut­verki, hvort sem það felst í að bjóða sig fram til embætta, skrifa skoðanap­istla, baka vöffl­ur í kosn­inga­bar­áttu, bera út kosn­inga­bæklinga eða mæta á kjörstað. Allt þetta er hluti af virku lýðræðisþjóðfé­lagi.

Mik­il­væg­ur hluti af því að rækta lýðveldið og lýðræðið er að fagna því og halda upp á mik­il­væga áfanga í sögu þess. Kom­andi lýðveldisaf­mæli er ein­mitt slík­ur áfangi en fjöl­breytt hátíðardag­skrá verður út um allt land í til­efni af 17. júní. Einnig hef­ur nefnd skipuð full­trú­um for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins, menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins, skrif­stofu Alþing­is, skrif­stofu for­seta Íslands og Þing­vallaþjóðgarðs. Nefnd­in hef­ur unnið að und­ir­bún­ingi viðburða til að halda upp á tíma­mót­in um allt land á næstu mánuðum.

Sjálf mun ég fagna þjóðhátíðar­deg­in­um vest­ur á Hrafns­eyri, fæðingastað Jóns Sig­urðsson­ar, þar sem verður skemmti­leg dag­skrá í til­efni lýðveldisaf­mæl­is­ins og einnig 1150 ára af­mæl­is Íslands­byggðar. Ég vil hvetja sem flesta til þess að taka þátt í að fagna 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins, enda er það fjör­egg okk­ar sem við verðum að hlúa að til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna

Deila grein

31/05/2024

Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustuna

Ferðaþjón­ust­an er í dag stærsti gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­veg­ur þjóðar­inn­ar og mik­il­væg­ur drif­kraft­ur hag­vaxt­ar í land­inu. Með til­komu henn­ar hef­ur orðið um­turn­un á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins á rúm­lega 10 árum. Sveifl­ur í at­vinnu­grein­inni geta þannig fram­kallað nokk­ur hröð áhrif á lyk­il­breyt­ur í efna­hags­líf­inu.

Fyrr á ár­inu var smíði á sér­stöku þjóðhags­líkani fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu lokið. Með líkan­inu verður hægt að skoða áhrif breyt­inga í starfs­um­hverfi ferðaþjón­ust­unn­ar á hag­kerf­inu. Um er að ræða fyrsta þjóðhags­lík­an fyr­ir at­vinnu­grein hér­lend­is. Ferðamála­stofa hef­ur haldið á fram­kvæmd verk­efn­is­ins fyr­ir hönd menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins en ann­ars veg­ar er um að ræða sér­stakt þjóðhags­lík­an fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu, eða svo­kallað geiralík­an, og hins veg­ar út­víkk­un á spálíkani Seðlabanka Íslands/​Hag­stofu Íslands, þannig að það taki til­lit til hlut­verks ferðaþjón­ust­unn­ar í þjóðarbú­skapn­um.

Til­koma þjóðhags­lík­ans­ins skipt­ir máli í um­gjörð ferðaþjón­ust­unn­ar og mun líkanið gera stjórn­völd­um og öðrum hagaðilum kleift að skoða með raun­hæf­um hætti áhrif breyt­inga á helstu for­send­um ferðaþjón­ustu á hag grein­ar­inn­ar sem og þjóðarbús­ins alls – og öf­ugt. Þannig verður hægt að meta áhrif­in af breyt­ing­um í þjóðarbú­skapn­um á hag grein­ar­inn­ar. Þar má nefna sem dæmi áhrif ferðaþjón­ust­unn­ar á þjóðhags­stærðir eins og VLF og at­vinnu­stig, s.s. við far­sótt­ir, mikl­ar breyt­ing­ar á flug­sam­göng­um eða ferðavilja, og áhrif geng­is, verðlags, at­vinnu­stigs og skatta á ferðaþjón­ust­una.

Unnið er að því að gera gagn­virka og ein­falda út­gáfu þjóðhags­lík­ans­ins aðgengi­lega á vefsvæði Ferðamála­stofu eða Mæla­borði ferðaþjón­ust­unn­ar, þannig að not­end­ur geti breytt meg­in­for­send­um og séð áhrif þeirra breyt­inga skv. líkan­inu á aðrar helstu hag­stærðir.

Sam­keppn­is­hæfni ferðaþjón­ust­unn­ar skipt­ir þjóðarbúið höfuðmáli og þurfa ákv­arðanir stjórn­valda að end­ur­spegla þá staðreynd í hví­vetna. Fleiri ríki sem við ber­um okk­ur sam­an við hafa á und­an­förn­um árum lagt aukna áherslu á að byggja upp ferðaþjón­ustu með mark­viss­um hætti. Ísland verður að vera á tán­um gagn­vart þeirri auknu alþjóðlegu sam­keppni sem af því leiðir. Hið nýja þjóðhags­lík­an mun hjálpa okk­ur að skilja hvaða áhrif fækk­un eða fjölg­un ferðamanna hef­ur á þjóðarbúið og und­ir­byggja enn bet­ur þær ákv­arðanir sem tekn­ar eru í mál­efn­um ferðaþjón­ust­unn­ar.

Ég er bjart­sýn fyr­ir hönd ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu sem hef­ur náð mikl­um ár­angri á und­an­förn­um ára­tug. Mikl­um vexti fylgja oft áskor­an­ir eins og við þekkj­um, en heilt yfir hef­ur okk­ur sem sam­fé­lagi tek­ist vel til við að tak­ast á við þær, enda eru mikl­ir hags­mun­ir í húfi fyr­ir þjóðarbúið í heild.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tímamót með nýrri ferðamálastefnu

Deila grein

22/05/2024

Tímamót með nýrri ferðamálastefnu

Ferðaþjón­ust­unni hef­ur vaxið fisk­ur um hrygg á und­an­förn­um árum en ferðamenn sem hingað koma hríf­ast af menn­ingu okk­ar og hinni stór­brotnu ís­lensku nátt­úru sem er ein­stök á heimsvísu. Mæl­ing­ar sýna ein­mitt að þeir ferðamenn sem hingað koma njóta veru sinn­ar mikið og gefa Íslandi afar góða um­sögn.

Í liðinni viku tók Alþingi til um­fjöll­un­ar til­lögu mína til þings­álykt­un­ar um nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 og aðgerðaáætl­un henni tengda. Þjóðhags­legt mik­il­vægi ferðaþjón­ustu hér á landi hef­ur auk­ist veru­lega sam­hliða vexti grein­ar­inn­ar. Ytri staða þjóðarbús­ins stóð oft á tím­um tæpt hér á árum áður en straum­hvörf urðu á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins fyr­ir rúm­lega tíu árum þegar ferðaþjón­ust­an fór á flug í kjöl­far eld­goss­ins í Eyja­fjalla­jökli. Ferðaþjón­ust­an er í dag stærsti gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­veg­ur þjóðar­inn­ar og mik­il­væg­ur drif­kraft­ur hag­vaxt­ar í land­inu.

Það skipt­ir máli að búa þess­ari stóru og þjóðhags­lega mik­il­vægu at­vinnu­grein sterka um­gjörð og marka skýra sýn á það hvert skal haldið. Þar mun ný ferðamála­stefna skipa veiga­mik­inn sess. Vinna við hina nýju ferðamála­stefnu hef­ur verið eitt af for­gangs­mál­um mín­um í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu. Sjö starfs­hóp­ar hafa unnið að ferðamála­stefn­unni, sem hafa verið skipaðir af 6-8 sér­fróðum aðilum. Ferðaþjón­ust­an er fjöl­breytt og skemmti­leg at­vinnu­grein, sem end­ur­spegl­ast ein­mitt í hóp­un­um en þeir náðu utan um sjálf­bærni og orku­skipti, sam­keppn­is­hæfni og verðmæta­sköp­un, rann­sókn­ir og ný­sköp­un, upp­bygg­ingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veit­inga- og hvata­ferðaþjón­ustu og svo menn­ing­ar­tengda ferðaþjón­ustu.

Framtíðar­sýn ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu er að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is. Í því felst að ferðaþjón­ust­an sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf, í sátt við nátt­úru, ís­lenska menn­ingu og tungu. Það skipt­ir miklu máli að hlúa að ferðaþjón­ust­unni um allt land og skapa þannig skil­yrði að hægt sé að lengja ferðamanna­tíma­bilið hring­inn um landið. Það rík­ir mik­il alþjóðleg sam­keppni í ferðaþjón­ustu og við verðum ávallt að vera á tán­um að tryggja að sam­keppn­is­hæfni ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu sé eins og best verði á kosið.

Það skipt­ir nefni­lega lítið opið hag­kerfi eins og okk­ar öllu máli að hér séu styrk­ar út­flutn­ings­stoðir eins og ferðaþjón­ust­una.

Sag­an kenn­ir okk­ur að þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, mynd­ar­leg­an gjald­eyr­is­forða sem og inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll í efna­hags­líf­inu. Þar mun ferðaþjón­ust­an skipta lyk­il­máli til framtíðar. Leikplanið sem felst í nýrri ferðamála­stefnu er metnaðarfullt, verk­efnið framund­an verður að hrinda því í fram­kvæmd og sækja fram fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tæknin sem breytir heiminum

Deila grein

13/05/2024

Tæknin sem breytir heiminum

Tækni­breyt­ing­arn­ar sem eru að eiga sér stað í gegn­um gervi­greind og mál­tækni eru þær mestu í ára­tugi. Tækni mun breyta því hvernig fólk vinn­ur, lær­ir, ferðast, nálg­ast heil­brigðisþjón­ustu og hef­ur sam­skipti sín á milli.

Eins og flest­um er kunn­ugt hafa mikl­ar breyt­ing­ar orðið á stöðu tungu­mála með til­komu gervi­greind­ar, alþjóðavæðing­ar og auk­inna fólks­flutn­inga. Stjórn­völd hafa á und­an­förn­um árum sett mál­efni ís­lensk­unn­ar í önd­vegi í þessu ljósi. Til að mynda samþykkti Alþingi Íslend­inga í síðustu viku aðgerðaáætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu til árs­ins 2026. Alls eru þetta 18 aðgerðir sem mótaðar eru í sam­starfi fimm ráðuneyta. Stjórn­völd hafa und­an­far­in ár einnig fjár­fest í mál­tækni fyr­ir ís­lensku með ver­káætl­un­inni Mál­tækni fyr­ir ís­lensku 2018-2022 og náð góðum ár­angri. Mark­miðið með henni er skýrt: að gera ís­lensk­una gild­andi í hinum sta­f­ræna heimi til framtíðar. Í heimi tækn­inn­ar þarf að tala máli ís­lensk­unn­ar gagn­vart þeim aðilum sem leiða tækniþróun í heim­in­um. Það þarf að minna á mik­il­vægi minni tungu­mála og koma á fram­færi þeim ís­lensku mál­tækni­lausn­um sem smíðaðar hafa verið hér á landi á und­an­förn­um árum sem er­lend tæknifyr­ir­tæki geta inn­leitt í vör­ur sín­ar með nokkuð greiðum hætti. Það var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir veg­ferð ís­lenskra stjórn­valda í mál­efn­um ís­lensk­unn­ar þegar banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI gaf út nýja upp­færslu á gervi­greind­ar-mállíkan­inu GPT í fyrra þar sem ís­lenska var val­in fyrst tungu­mála, utan ensku, í þró­un­ar­fasa þess. Var það afrakst­ur sam­tala og funda við full­trúa fyr­ir­tæk­is­ins.

Í vik­unni leiddi ég sendi­nefnd til Banda­ríkj­anna sem fundaði með stór­um tæknifyr­ir­tækj­um til að ræða stöðu smærri tungu­mála, sér­stak­lega ís­lensku, í sta­f­ræn­um heimi. Fyr­ir­tæk­in voru Microsoft, Allen Institt­u4e for AI, Ant­hropic, Google og OpenAI. Er það meðal ann­ars í sam­ræmi við nýja mál­tækni­áætl­un þar sem lagt er til að auk­inn þungi verði sett­ur í að kynna ís­lenska mál­tækni á er­lendri grundu. Jafn­framt er verið að kanna hug þess­ara fyr­ir­tækja til að koma á fót alþjóðleg­um sam­starfs­vett­vangi fyr­ir smærri tungu­mál heims. Skemmst er frá því að segja að okk­ur var vel tekið og áhugi er fyr­ir hendi á að auka veg ís­lensk­unn­ar enn frek­ar. Microsoft hef­ur til dæm­is hef­ur sýnt ís­lensku mik­inn áhuga og má nefna að ýmis for­rit á borð við Word og allt viðmót þess er hægt að nota al­farið á ís­lensku. Eft­ir heim­sókn ís­lenskr­ar sendi­nefnd­ar árið 2022, sem for­seti Íslands ásamt mér og fleir­um fór í, hef­ur Microsoft nú þegar inn­leitt ís­lenska mál­tækni í tækni­lausn­ir sín­ar til að auka gæði ís­lensk­unn­ar. Meðal þess sem við rætt var við fyr­ir­tækið í þess­ari um­ferð var ís­lenska for­ritið Copi­lot, sem vel var tekið í. Það skipt­ir framtíð ís­lensk­unn­ar öllu máli að hún sé aðgengi­leg og nýti­leg í tækj­um sem við not­um. Okk­ur hef­ur auðnast að vinna heima­vinn­una okk­ar vel hingað til í þess­um efn­um svo eft­ir sé tekið og það er að skila sér. Hins veg­ar er verk­efnið langt í frá klárað og ljóst að frek­ari ár­ang­ur kall­ar á breiða sam­vinnu með virkri þátt­töku al­menn­ings, vís­inda­fólks, fræðasam­fé­lags­ins, fyr­ir­tækja og frum­kvöðla á þessu sviði. Þannig liggja hags­mun­ir ís­lensk­unn­ar víða sem mik­il­vægt er að huga að.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Árangurssögur í efnahagsmálum

Deila grein

15/04/2024

Árangurssögur í efnahagsmálum

Sam­fé­lagið okk­ar er eitt sam­vinnu­verk­efni. Við í Fram­sókn leggj­um mikla áherslu á að fjár­festa í fólki vegna þess að fjár­fest­ing í mannauði skil­ar sér í auk­inni hag­sæld og vel­sæld í sam­fé­lög­um líkt og hagrann­sókn­ir sýna. Rík­is­stjórn Íslands hef­ur á und­an­förn­um árum sann­ar­lega fjár­fest í fólki, for­gangsraðað í þágu auk­inn­ar verðmæta­sköp­un­ar og náð ár­angri á fjöl­mörg­um sviðum, þar með talið efna­hags­mál­um, þrátt fyr­ir þau innri og ytri áföll sem á vegi henn­ar hafa orðið. Í því sam­hengi er áhuga­vert að skoða þróun nokkra lyk­il­stærða í þjóðarbú­skapn­um á und­an­förn­um árum. Í fyrsta lagi hef­ur hag­vöxt­ur á síðustu þrem­ur árum verið 20%, sem er það mik­ill vöxt­ur að það er ekki mögu­legt að bera hann sam­an við önn­ur ríki. Til dæm­is eru Dan­ir að horf­ast í augu við nei­kvæðan hag­vöxt, eng­inn hag­vöxt­ur er að ráði í Evr­ópu og helst er litið til Banda­ríkj­anna eft­ir ein­hverj­um hag­vexti í nán­ustu framtíð. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hef­ur ein­mitt ný­lega lýst því sem miklu áhyggju­efni að þessi ára­tug­ur muni ein­kenn­ast af stöðnun í heims­bú­skapn­um.

Í öðru lagi er at­vinnu­stig mjög hátt en at­vinnu­leysi nem­ur aðeins 3,5%. Auðlegð Íslands er mik­il og það eru fá þjóðríki þar sem fullt at­vinnu­stig er ráðandi yfir langt tíma­bil. Eitt það mik­il­væg­asta í sam­fé­lag­inu okk­ar er að all­ir geti fundið sér starf við hæfi og tekið þannig virk­an þátt í sam­fé­lag­inu okk­ar, eflt at­vinnu­lífið og und­ir­byggt aukna verðmæta­sköp­un sem nýt­ist meðal ann­ars til að fjár­festa enn frek­ar í fólki.

Í þriðja lagi hafa meðallaun verið að hækka og það skipt­ir gríðarlegu máli. Þannig eru meðallaun hér á landi með þeim hæstu á byggðu bóli. Þrátt fyr­ir verðbólgu und­an­far­inna miss­era höf­um við Íslend­ing­ar séð kaup­mátt launa aukast veru­lega und­an­far­in 10 ár. Nýir lang­tíma­kjara­samn­ing­ar eru góð tíðindi fyr­ir áfram­haldið og glím­una við verðbólgu, þar skipt­ir aðkoma stjórn­valda miklu máli.

Í fjórða lagi lang­ar mig til að benda á það að hrein er­lend staða þjóðarbús­ins er óvenju sterk eða sem nem­ur um 40% af lands­fram­leiðslu. Fyr­ir um 20 árum var staðan nei­kvæð um 80%. Við vor­um í gríðarleg­um erfiðleik­um með að halda já­kvæðum gjald­eyr­is­forða en hann var iðulega tek­inn að láni sem reynd­ist mik­il áskor­un fyr­ir þjóðarbúið. Kröft­ug ferðaþjón­usta hef­ur meðal ann­ars drifið þessa þróun áfram ásamt öfl­ug­um sjáv­ar­út­vegi, iðnaði, hug­verk­um og vexti í skap­andi grein­um sem hef­ur skilað sér inn í hag­kerfið okk­ar. Sam­hliða þessu hef­ur gjald­eyr­is­markaður­inn dýpkað á sama tíma og hef­ur dregið úr sveifl­um. Til dæm­is er það merki­legt að jarðhrær­ing­arn­ar á Suður­nesj­um hafi ekki orðið til þess að krón­an hafi sveifl­ast mikið þótt eitt­hvert flökt hafi verið í fyrstu. Of­an­greint ber vitn­is­b­urð um góður ár­ang­ur sem við get­um verið stolt af. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar fram á veg­inn verður að ná niður verðbólgu og skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta í þágu heim­ila og fyr­ir­tækja. Pen­inga­stefn­an, rík­is­fjár­mál­in og vinnu­markaður­inn eru far­in að ganga í takt, sem mun skila ár­angri fyr­ir sam­fé­lagið og und­ir­byggja betri lífs­kjör á Íslandi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vöxtur og vegsemd íslenskrar menningar

Deila grein

04/04/2024

Vöxtur og vegsemd íslenskrar menningar

Íslenskt menn­ing­ar­líf hef­ur átt góðu gengi að fagna og fer hróður þess um víða ver­öld. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér. Hér á landi hef­ur verið al­mennt breið sátt um það að hlúa að menn­ing­ar­líf­inu með því að fjár­festa í list­námi, tryggja aðgang að slíku námi, styðja við grasrót­ar­sam­tök í menn­ing­ar­líf­inu og skapa vett­vang fyr­ir lista­menn til þess að hlúa að frumsköp­un. Þar hafa starfs­laun lista­manna þjónað sem mik­il­vægt verk­færi til að efla menn­ing­ar­starf í land­inu. Lista­manna­laun í ein­hverju formi eru rót­grón­ari en marg­an grun­ar, en saga þeirra nær allt aft­ur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skálda­laun. Um­gjörð þeirra var fyrst form­gerð með laga­setn­ingu árið 1967 þegar lög um lista­manna­laun voru samþykkt og síðar voru upp­færð árin 1991 og 2009.

Árleg­ur kostnaður við lista­manna­laun er 978 millj­ón­ir króna. Til að setja þá tölu í sam­hengi er um að ræða 1,5% af út­gjöld­um til há­skóla­stigs­ins og 0,06% af fjár­lög­um árs­ins 2024.

Ný­verið voru kynnt­ar til­lög­ur til breyt­inga á lista­manna­laun­um þar sem lagt var upp með að fjölga þeim í skref­um til árs­ins 2028, en eng­ar breyt­ing­ar hafa átt sér stað á kerf­inu í 15 ár. Eru boðaðar breyt­ing­ar gerðar í sam­ræmi við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem fram kem­ur í stjórn­arsátt­mála, að unnið skuli að því að styrkja fag­lega starfs­launa- og verk­efna­sjóði lista­manna. Þær eru því eðli­legt skref og for­gangsraðað verður í þágu þeirra á mál­efna­sviði menn­ing­ar­mála inn­an menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins. Í breyt­ing­un­um felst meðal ann­ars að komið verði á fót tveim­ur nýj­um þverfag­leg­um sjóðum; Vexti sem er sjóður sem ætlaður er fyr­ir lista­menn und­ir 35 ára aldri, og Veg­semd, sjóði fyr­ir lista­menn yfir 67 ára aldri. Vexti er ætlað að styðja sér­stak­lega við unga lista­menn sem hafa ekki enn skapað sér styrka stöðu inn­an sinn­ar list­grein­ar og er m.a. ætlað að mæta þeirri gagn­rýni sem heyrst hef­ur, að lít­il nýliðun sé inn­an kerf­is­ins. Að sama skapi er Veg­semd sér­stak­ur, þverfag­leg­ur sjóður fyr­ir eldri lista­menn sem hafa varið sinni starfsævi til list­sköp­un­ar.

Ég tel eðli­legt að við stönd­um með lista­fólk­inu okk­ar í blíðu jafnt sem stríðu, enda er menn­ing eitt­hvað sem sam­ein­ar okk­ar – sér­stak­lega þegar vel geng­ur. Öll fyll­umst við til að mynda stolti þegar ís­lensk­um lista­mönn­um geng­ur vel á er­lendri grundu og kast­ljós um­heims­ins bein­ist að land­inu vegna þess. Dæmi er um lista­menn sem hlotið hafa eft­ir­sótt­ustu verðlaun heims á sínu sviði sem á ein­hverj­um tíma­punkti þáðu lista­manna­laun á ferli sín­um til þess að vinna að frumsköp­un sinni. Ísland er auðugra og eft­ir­sótt­ara land fyr­ir vikið, fyr­ir okk­ur sjálf sem hér búum og alla þá gesti sem hingað koma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Sagan geymir dýrmætan lærdóm

Deila grein

01/04/2024

Sagan geymir dýrmætan lærdóm

Í ágætri bók eft­ir Nicholas Waps­hott, sem ber titil­inn „The Sphinx“, er fjallað um bar­átt­una sem Frank­lin D. Roosevelt, fv. for­seti Banda­ríkj­anna, háði gegn ein­angr­un­ar­hyggju í aðdrag­anda seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar. Ein­angr­un­ar­sinn­ar voru al­farið á móti því að Banda­rík­in sendu herafla til að verja lýðræðis­ríki í Evr­ópu. Meðal helstu and­stæðinga Roosevelts var vin­ur hans Joseph P. Kenn­e­dy, viðskipta­jöf­ur og sendi­herra, ásamt ein­stak­ling­um á borð við Walt Disney og Henry Ford. Þeir töldu að Banda­rík­in, hið nýja heimsveldi, ætti ekk­ert er­indi í stríðsátök hand­an Atlants­hafs­ins. Þessi saga rifjaðist upp fyr­ir mér vegna þess að umræðan víða um heim í dag er af sama toga. Sterk öfl í Banda­ríkj­un­um tala fyr­ir ein­angr­un­ar­hyggju, sem er ekki já­kvætt fyr­ir frið, vel­sæld og alþjóðaviðskipti.

Blik­ur á lofti í alþjóðaviðskipt­um

Allt er í heim­in­um hverf­ult og tíma­bil alþjóðavæðing­ar, eins hún hef­ur birst eft­ir seinni heims­styrj­öld, virðist mögu­lega hafa runnið sitt skeið. Hlut­fall vöru- og þjón­ustu­út­flutn­ings á heimsvísu náði há­marki árið 2008 og hef­ur síðan þá farið lækk­andi. Heims­hag­kerfið hef­ur séð mik­inn vöxt í viðskipta­hindr­un­um síðastliðinn ára­tug. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hef­ur sýnt fram á að heims­fram­leiðsla geti dreg­ist sam­an um 7% á næst­unni, ef viðskipta­hindr­an­ir aukast. Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa aug­un á og sporna við til að stuðla að áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn í ver­öld­inni.

Auk­inn ófriður á heimsvísu og meiri skipt­ing viðskipta eft­ir póli­tískri hug­mynda­fræði hef­ur leitt af sér mikla fjölg­un í viðskipta­hindr­un­um. Sam­kvæmt Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum voru sett­ar alls 3.000 viðskipta­hindr­an­ir á síðasta ári, sem er þreföld­un frá ár­inu 2019. Saga hag­fræðinn­ar hef­ur kennt okk­ur að þegar viðskipti þjóða drag­ast sam­an, þá versna lífs­kjör. Ekk­ert þjóðríki hef­ur ávinn­ing af því að skipta hag­kerfi heims­ins í fylk­ing­ar. Þess vegna skipt­ir sam­vinna þjóða og alþjóðasam­starf svo miklu máli.

Hag­sæld Íslands grund­vall­ast á alþjóðaviðskipt­um

Íslend­ing­ar stunduðu um­fangs­mik­il viðskipti á sinni gull­öld (930-1262), fundu Norður-Am­er­íku og ferðuðust alla leið til Bakú í Aser­baís­j­an. Sagna­rit­ar­arn­ir varðveittu germanska menn­ing­ar­arf­inn og sam­in voru ein­stök bók­mennta­verk, líkt og Íslend­inga­sög­urn­ar og aðrar bók­mennta­perl­ur. Á þess­um tíma ríkti bók­mennta­leg há­menn­ing á Íslandi og segja má að landið hafið verið miðstöð viðskipta og skap­andi greina í Norður-Atlants­hafi. Mik­il viðskipti voru við Græn­land og þaðan komu dýr­grip­ir a borð við fálka, rost­ungstenn­ur og ná­hval­stenn­ur. Þetta blóma­skeið leið und­ir lok á 13. öld þegar inn­an­land­sófriður hófst og veðurfar kólnaði. Landið ein­angraðist frá Evr­ópu og á end­an­um glataði það sjálf­stæði sínu. Eft­ir svarta­dauða versnuðu lífs­skil­yrði veru­lega og náði sú þróun há­marki á 18. öld, þegar hver hung­urs­neyðin rak aðra ásamt erfiðum jarðhrær­ing­um. Dansk­ir ráðamenn töldu jafn­vel skyn­sam­legt að flytja alla Íslend­inga til Dan­merk­ur. Ein­angr­un lands­ins hafði gríðarleg áhrif á þessa nei­kvæðu þróun og eins það, að eign­ar­hald á ut­an­rík­is­viðskipt­um hvarf frá lands­mönn­um.

Sá mikli kraft­ur sem verið hef­ur í alþjóðaviðskipt­um und­an­farna ára­tugi hef­ur verið aflvaki þess að lífs­kjör hundraða millj­óna manna hafa batnað. Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í þess­ari þróun og er eng­um blöðum um það að fletta að efna­hags­leg­ur vöxt­ur lands­ins hef­ur byggst á opn­um alþjóðaviðskipt­um. Um leið og Ísland hóf aft­ur að stunda frjáls viðskipti og fór að nýta auðlind­ir lands­ins í eig­in þágu juk­ust hér lífs­gæði og auðsæld. Tækni­væðing sam­fé­lags­ins lagði sitt af mörk­um í þess­ari sam­felldu fram­fara­sögu, skilaði auk­inni skil­virkni og nýt­ingu fram­leiðsluþátta. Þannig störfuðu í upp­hafi 20. ald­ar­inn­ar um 80% af vinnu­afl­inu í land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi en 100 árum síðar er sam­svar­andi hlut­fall um 10%. Á sama tíma hef­ur verðmæta­sköp­un auk­ist um­tals­vert. Ut­an­rík­is­viðskipti hafa orðið mun fjöl­breytt­ari en þegar um 90% gjald­eyristekna komu frá sjáv­ar­út­vegi fyr­ir tæp­um fjór­um ára­tug­um. Meg­in­út­flutn­ings­stoðir hag­kerf­is­ins eru fjór­ar í dag; ferðaþjón­usta, sjáv­ar­út­veg­ur, iðnaður og skap­andi grein­ar.

Ein­angr­un­ar­sinn­ar sækja í sig veðrið

Á síðustu öld hafa Banda­rík­in verið leiðandi í frjáls­um viðskipt­um en síðustu miss­eri hafa stjórn­völd verið að hverfa af þeirri braut. Mik­il skaut­un hef­ur ein­kennt alla póli­tíska umræðu og óvenju­breið spjót hafa tíðkast milli Demó­krata og Re­públi­kana í umræðunni um rík­is­fjár­mál, jafn­rétt­is­mál og frjáls viðskipti. Ofan á það er ljóst að verka­fólk í Banda­ríkj­un­um hef­ur borið skarðan hlut frá borði vegna hnatt­væðing­ar, sem hef­ur fal­ist í því að mikið af banda­rísk­um störf­um flutt­ist til ríkja þar sem launa­kostnaður var mun lægri. Raun­laun þessa hóps hafa að mestu staðið í stað meðan kostnaður vegna hús­næðis og mennt­un­ar hef­ur vaxið mikið. Þessi þróun hef­ur leitt af sér óþol gagn­vart vax­andi hnatt­væðingu í Banda­ríkj­un­um. Hins veg­ar er hægt að láta alþjóðaviðskipt­in vinna fyr­ir allt sam­fé­lagið, ef vilj­inn er fyr­ir hendi. Stjórn­mál­in hafa því síðustu miss­eri ein­beitt sér að því að flytja störf aft­ur heim. Mun harðari inn­flytj­enda­stefna var tek­in upp og hef­ur sett þrýst­ing á vinnu­markaðinn, sem er að valda verðbólgu. Loft allt hef­ur verið lævi blandið í sam­skipt­um tveggja stærstu hag­kerfa heims­ins, Kína og Banda­ríkj­anna. Stjórn­völd beggja ríkja hafa mark­visst unnið að því að gera efna­hags­kerfi sín minna háð hvort öðru. Þessi þróun er ekki hag­stæð fyr­ir lítið opið hag­kerfi eins og Ísland er. Til að hag­sæld auk­ist áfram á Íslandi er afar mik­il­vægt að aðgengi að helstu mörkuðum sé greitt, hvort held­ur fyr­ir vör­ur eða þjón­ustu.

Í upp­hafi grein­ar­inn­ar fór ég aft­ur í sög­una og fjallaði um þá ein­angr­un­ar­hyggju sem ein­kenndi banda­ríska stjórn­má­laum­ræðu á 4. ára­tugn­um. Roosevelt var mik­ill vandi á hönd­um, því hann taldi úti­lokað annað en að styðja við for­sæt­is­ráðherr­ann og fé­laga sinn Winst­on Churchill og lýðræðis­rík­in í Evr­ópu. Öll vit­um við í dag að aðkoma Banda­ríkj­anna og liðsauki þeirra við banda­lags­ríki sín skipti sköp­um í að hafa sig­ur á Hitler og banda­mönn­um hans. Umræðan í Banda­ríkj­un­um í dag er keim­lík þeirri sem var á 4. ára­tugn­um og munu næstu for­seta­kosn­ing­ar ráða miklu um þróun ör­ygg­is- og varn­ar­mála í Evr­ópu og Mið-Aust­ur­lönd­um. Far­sæl sam­vinna ríkja varðar veg­inn fyr­ir áfram­hald­andi vel­sæld og ör­yggi á heimsvísu. Sag­an sjálf sýn­ir okk­ur það líkt og rakið hef­ur verið hér að ofan.

Pásk­arn­ir eru hátíð trú­ar og birt­unn­ar. Birtu­hluti sól­ar­hrings­ins er að verða lengri en hinn myrki. Þetta er einnig tími von­ar og upprisu. Von­andi fer að birta til í alþjóðamál­um. Gleðilega páska!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2024.