Categories
Fréttir Greinar

Þrálátar áskoranir í heimsbúskapnum

Deila grein

09/11/2023

Þrálátar áskoranir í heimsbúskapnum

Á und­an­förn­um árum hafa heims­bú­skap­ur­inn og alþjóðaviðskipt­in þurft að tak­ast á við áskor­an­ir af risa­vöxn­um toga. Heims­far­ald­ur­inn sneri dag­legu lífi fólks um all­an heim á hvolf eins og við öll mun­um eft­ir. Neyslu­venj­ur fólks breytt­ust og stjórn­völd víða um heim kynntu um­fangs­mikla efna­hagspakka til stuðnings fólki og fyr­ir­tækj­um ásamt því að seðlabank­ar fjöl­margra ríkja lækkuðu stýri­vexti til að örva hag­kerfi. Aðfanga­keðjur víða um heim fóru úr skorðum með til­heyr­andi hökti í alþjóðaviðskipt­um og áhrif­um á markaði. Í blálok far­ald­urs­ins tók svo við inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. Inn­rás­in markaði þátta­skil í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um Evr­ópu og varpaði skýru ljósi á veiga­mikla veik­leika hjá ríkj­um Evr­ópu hvað viðkom orku­ör­yggi, enda voru mörg þeirra háð inn­flutn­ingi á rúss­nesku gasi og olíu. Orku­verð tók að snar­hækka á meg­in­landi Evr­ópu sem og verð á fjöl­mörg­um vöru­flokk­um, til að mynda mat­væl­um. Þar hafði áhrif að Úkraína er stór fram­leiðandi korns, en landið hef­ur oft verið kallað brauðkarfa Evr­ópu. Þá hafa aukn­ar hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um, til að mynda viðskipta­stríðið milli Banda­ríkj­anna og Kína, bætt gráu ofan á svart.

Verðbólguþró­un­in á heimsvísu fór ekki var­hluta af fyrr­nefndri þróun eins og við þekkj­um einnig hér á landi. Á ár­inu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörg­um sam­an­b­urðarríkj­um. Á tíma­bili mæld­ist sam­ræmd verðbólga á Íslandi sú næst­lægsta í Evr­ópu, 6,4% í nóv­em­ber 2022, en var þá 11,5% hjá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Verðbólg­an á Íslandi hef­ur reynst þrálát­ari og mæl­ist nú 7,9%, hag­vöxt­ur hér er kröft­ugri en víðast hvar. Efna­hags­bat­inn á heimsvísu er hins veg­ar hæg­fara og ójafn eft­ir svæðum. Þó að verðbólga á heimsvísu sé víða í rén­un er of snemmt að fagna sigri. Verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um er enn býsna treg enda gang­ur efna­hags­lífs­ins öfl­ug­ur. Bet­ur hef­ur gengið með verðbólg­una víða í Evr­ópu, en þar eru önn­ur vanda­mál, t.d. mæl­ist nú efna­hags­sam­drátt­ur í Þýskalandi.

Íslensk stjórn­völd vinna að því hörðum hönd­um að lækka skuld­ir rík­is­sjóðs og ná heild­ar­jöfnuði. Kjör á rík­is­skuld­um á heimsvísu hafa versnað veru­lega. Sér­staka at­hygli vek­ur hvað kjör banda­rískra rík­is­skulda hafa versnað og er kraf­an um 4,5% vext­ir til 10 ára. Megin­á­stæðan fyr­ir þess­ari þróun er að fjár­laga­hall­inn er mik­ill auk þess sem skuld­astaðan held­ur áfram að versna. Ásamt því er rek­in aðhalds­söm pen­inga­stefna, þar sem vext­ir hafa hækkað mikið og banda­ríski seðlabank­inn hef­ur snúið við hinni um­fangs­miklu magn­bundnu íhlut­un og hafið sölu á rík­is­skulda­bréf­um. Marg­ir telja að vegna þessa nái markaður­inn ekki að berj­ast gegn þessu mikla fram­boði og því hafi kjör­in versnað mikið. Fyr­ir Ísland skipt­ir mestu í þessu kvika efna­hags­um­hverfi að halda vöku okk­ar og að hag­stjórn­in sé það styrk að verðbólg­an lækki og vaxta­kjör­in batni hratt í kjöl­farið.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Harpa spilar með tónlistarlífi þjóðarinnar

Deila grein

31/10/2023

Harpa spilar með tónlistarlífi þjóðarinnar

Á und­an­förn­um árum hef­ur margt áunn­ist til að styrkja veru­lega um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins í land­inu. Tónlist er ekki ein­ung­is veg­leg­ur hluti af menn­ingu lands­ins, hún er einnig at­vinnu­skap­andi og mik­il­væg út­flutn­ings­grein þar sem tón­list­ar­verk­efni geta skapað mörg af­leidd störf. Ný tón­list­ar­stefna var samþykkt á síðasta þingi með það að mark­miði að styðja við tónlist sem list­grein, tón­listar­fólk og aðra sem starfa við tónlist. Tón­list­ar­lífið hér­lend­is er und­ir­byggt af metnaðarfullu tón­list­ar­námi um allt land, sam­starfi og þori til þess að fara ótroðnar slóðir. Þess­um mikla krafti finn­ur maður sér­stak­lega fyr­ir í grasrót tón­list­ar­lífs­ins, sem er óþrjót­andi upp­spretta frumsköp­un­ar í tónlist. Hluti af um­gjörð menn­ing­ar­mála í land­inu snýr að aðstöðu til tón­list­ariðkun­ar og aðgengi að slíkri aðstöðu. Eitt mark­miða í tón­list­ar­stefn­unni er að hús­næði til tón­list­ariðkun­ar verði greint og kort­lagt, t.d. hvaða hús­næði í eigu hins op­in­bera, t.d. menn­ing­ar­hús eða fé­lags­heim­ili um allt land, væri hægt að nýta und­ir sköp­un, hljóðrit­un eða flutn­ing tón­list­ar.

Eitt okk­ar helsta tón­list­ar­hús, Harpa, starfar í sam­ræmi við eig­enda­stefnu rík­is­ins og Reykja­vík­ur­borg­ar, þar sem m.a. er lögð áhersla á menn­ing­ar­legt hlut­verk Hörpu og það mark­mið eig­enda að með rekstri henn­ar sé stuðlað að efl­ingu ís­lensks tón­list­ar- og menn­ing­ar­lífs. Í sam­ræmi við eig­enda­stefn­una hef­ur Harpa mótað sér dag­skrár­stefnu sem miðar að því að auka fjöl­breytni tón­leika­halds, styðja við ný­sköp­un í tónlist og auðvelda aðgengi ungs tón­listar­fólks úr gras­rót­inni, þvert á tón­list­ar­stefn­ur, að Hörpu sem tón­list­ar­húsi allra lands­manna.

Liður í þessu er t.a.m. sam­starf Hörpu, Tón­list­ar­borg­ar­inn­ar Reykja­vík­ur og Rás­ar 2 um sér­staka tón­leikaröð til­einkaða grasrót ís­lenskr­ar tón­list­ar, þvert á stefn­ur, sem kall­ast Upp­rás­in og fer fram í Kaldalóni. Aug­lýst var eft­ir um­sókn­um um þátt­töku í tón­leikaröðinni sl. vor og bár­ust alls 134 um­sókn­ir. Fjöldi og gæði um­sókna fór fram úr von­um aðstand­enda verk­efn­is­ins. Úr varð að 88 ung­ir ein­stak­ling­ar munu koma fram á tón­leikaröðinni, á mánaðarleg­um tón­leik­um fram á vor þar sem flutt­ar verða fjöl­breytt­ar teg­und­ir tón­list­ar.

Harpa legg­ur til sal­inn Kaldalón auk tækja og vinnu í tengsl­um við tón­leik­ana. Tón­list­ar­borg­in trygg­ir að flytj­end­ur fái greitt fyr­ir að koma fram. Rás 2 ann­ast kynn­ing­ar­starf fyr­ir tón­listar­fólkið og tek­ur tón­leik­ana upp. Miðaverði er stillt í hóf en tón­leika­gest­ir eru hvatt­ir til að styrkja tón­listar­fólkið með frjálsu viðbótar­fram­lagi. Það skipt­ir ungt tón­listar­fólk máli að fá tæki­færi líkt og þetta til þess að koma tónlist sinni á fram­færi í glæsi­legri aðstöðu líkt og Harpa hef­ur upp á að bjóða. Hér er aðeins um eina góða dæmi­sögu að ræða af mörg­um um þá miklu gerj­un sem á sér stað í menn­ing­ar­lífi þjóðar­inn­ar, en þær eru mý­marg­ar sem er fagnaðarefni fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna

Deila grein

24/10/2023

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna

Claudia Gold­in hlaut Nó­bels­verðlaun­in í hag­fræði í ár fyr­ir að efla skiln­ing okk­ar á stöðu kvenna á vinnu­markaði. Hagrann­sókn­ir Gold­in ná yfir síðustu 200 ár og fjalla um stöðu kvenna á banda­rísk­um vinnu­markaði og veg­ferðina að auknu launa­jafn­rétti. Rann­sókn­ir henn­ar hafa hrakið hefðbundn­ar álykt­an­ir um hvaða breyt­ur leiði til auk­ins jafn­rétt­is. Fyr­ir rann­sókn­ir Gold­in var talið að auk­inn hag­vöxt­ur leiddi til auk­ins jafn­rétt­is á vinnu­markaðinum. Í rann­sókn­um sem birt­ar voru árið 1990 sýndi Gold­in fram á að það var ekki fyrr en á tutt­ug­ustu öld­inni, þegar störf­um í þjón­ustu­geir­an­um fjölgaði og mennt­un á fram­halds­skóla­stigi þróaðist, að launamun­ur kynj­anna fór að minnka.

Vænt­ing­ar um barneign­ir skýra launamun

Á tutt­ug­ustu öld jókst mennt­un­arstig kvenna stöðugt og hafði áhrif á að minnka launamun­inn fram af. Önnur stór skýri­breyta er aðgang­ur kvenna að getnaðar­varn­arpill­unni árið 1961 í Banda­ríkj­un­um, þar sem hún gerði kon­um kleift að skipu­leggja náms- og starfs­fer­il­inn. Hefðbund­in sögu­skýr­ing á launamun kynj­anna var sú að kon­ur og karl­ar hefðu á unga aldri valið sér mennt­un, sem leiddi síðan til ákveðinna starfa sem væru mis­vel launuð. Gold­in komst hins veg­ar að því að sá launamun­ur sem enn er við lýði skýrist að stærst­um hluta af áhrif­um barneigna. Hagrann­sókn­ir Gold­in sýna fram á að launamun­ur kynj­anna minnkaði í nokkr­um skref­um. Laun kvenna hækkuðu í hlut­falli við laun karla á ár­un­um 1820-50, og svo aft­ur 1890-1930, áður en þau hækkuðu á ár­un­um 1980-2005 (sjá mynd 1).

Mestu breyt­ing­arn­ar eiga sér stað á átt­unda ára­tug síðustu ald­ar. Kyn­bund­inn launamun­ur hef­ur hald­ist nokkuð stöðugur í Banda­ríkj­un­um und­an­far­in 20 ár. Árið 2022 voru meðallaun kvenna 82% af því sem karl­ar höfðu að meðaltali. Meg­in­út­skýr­ing á því að launamun­ur­inn minnk­ar felst í vænt­ing­um, þ.e. ef ung kona stýr­ir því hvenær og hvort hún eign­ast barn og hef­ur meiri vænt­ing­ar um að kon­ur geti unnið fjöl­breytt störf, þá fjár­fest­ir hún meira í framtíð sinni. Á ár­un­um 1967-1979 jókst hlut­fall 20 og 21 árs kvenna sem væntu þess að vera í vinnu 35 ára úr 35% í 80%! Einn ann­ar mik­il­væg­ur áhrifa­vald­ur þess­ara umbreyt­inga, sem fylgdu pill­unni, var að kon­ur gátu frestað gift­ingu sem olli því sam­kvæmt Gold­in að þær tóku há­skóla­nám fast­ari tök­um, gátu hugsað sér sjálf­stæða framtíð og mótað sjálfs­mynd sína fyr­ir hjóna­band og fjöl­skyldu.

Leiðrétt­ur launamun­ur karla og kvenna á Íslandi er 4,3%

Sam­kvæmt rann­sókn Hag­stofu Íslands var óleiðrétt­ur launamun­ur karla og kvenna 9,1% árið 2022 og dróst sam­an frá fyrra ári úr 10,2%. Óleiðrétt­ur launamun­ur kynj­anna á Íslandi hef­ur minnkað hægt og bít­andi síðustu ára­tugi. Launamun­ur á Íslandi eykst eft­ir aldri og er mun­ur­inn 0,7% á meðal 24 ára og yngri og 16,3% á meðal 55-64 ára. Þessi niðurstaða er í sam­ræmi við rann­sókn sem Hag­stof­an gerði árið 2021 en þar kom fram að launamun­ur karla og kvenna dróst sam­an frá 2008 til 2020. Kyn­bund­in skipt­ing vinnu­markaðar í störf og at­vinnu­grein­ar skýr­ir að miklu leyti þann launamun sem er til staðar en áhrif mennt­un­arstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin (sjá mynd 2).

Það er afar já­kvætt að launamun­ur kynj­anna haldi áfram að minnka enda er það hag­ur allra. Ísland er metið vera sá staður í ver­öld­inni þar sem best er að vera úti­vinn­andi kona, sam­kvæmt tíma­rit­inu Econom­ist og glerþaks­vísi­töl­unni.

Enn í dag hafa barneign­ir og hjú­skap­ur mik­il áhrif á launamun í Banda­ríkj­un­um

Launamun­ur kynj­anna út frá fram­halds­námi í Banda­ríkj­un­um hef­ur ekki breyst mikið frá ár­inu 2005 og Gold­in hef­ur verið að leita skýr­inga. Í bók sem hún gaf út árið 2021 kem­ur hún með þá kenn­ingu að störf­um sem fela í sér mikla yf­ir­vinnu og óvissu sé um að kenna. Fram kem­ur í lang­tíma­gögn­um þar sem fylgst er með lífi og tekj­um ein­stak­linga í Banda­ríkj­un­um að laun karla og kvenna eru áber­andi svipuð strax eft­ir fram­halds­nám eða há­skóla­nám. Á fyrstu árum starfs­fer­ils­ins er launamun­ur lít­ill hjá ný­út­skrifuðum há­skóla­nem­um og skýrist hann að mestu leyti af ólíku náms- og starfs­vali karla og kvenna. Karl­ar og kon­ur byrja nán­ast á sama tekju­grunni og hafa mjög svipuð tæki­færi. Það er ekki fyrr en lengra er liðið á æv­ina, um tíu árum eft­ir að há­skóla­námi lýk­ur, að mik­ill launamun­ur kem­ur í ljós hjá körl­um og kon­um, sér­stak­lega þeim kon­um sem eiga tvö börn.

Barneign­ir hafa ekki mik­il áhrif á launamun á Íslandi en yf­ir­vinna skýr­ir mun­inn

Þegar svo­kallaður leiðrétt­ur launamun­ur er skoðaður var hann 4,3% á Íslandi árið 2019. Þetta þýðir að ef karl­ar og kon­ur ynnu að jafnaði sömu störf, í sömu at­vinnu­grein­um, þá stæði eft­ir að kon­ur fengju að meðaltali um 4,3% lægri laun en karl­ar vegna kyns síns. Hins veg­ar þegar aðeins er leiðrétt fyr­ir lýðfræðileg­um breyt­um, þ.e. aldri, hjú­skap­ar­stöðu og fjölda barna, var leiðrétt­ur launamun­ur 10,9% árið 2019. Það gef­ur til kynna að breyt­urn­ar í líkan­inu skýri ein­ung­is að litlu leyti óleiðrétta launamun­inn. Niður­stöður gefa einnig til kynna að þess­ar breyt­ur hafi mark­tækt ólík áhrif á karla og kon­ur. Hjú­skap­arstaða á Íslandi hef­ur til að mynda eng­in áhrif á laun kvenna en það að ein­stak­ling­ur sé í sam­búð hef­ur já­kvæð áhrif á laun karla. Slík áhrif eru þekkt í fjöl­mörg­um lönd­um en ný­leg rann­sókn frá Banda­ríkj­un­um sýn­ir að áhrif­in eru einkum vegna þess að karl­menn með hærri laun eru lík­legri til þess að kvæn­ast, þ.e. laun­in hafa áhrif á hjú­skap­ar­stöðu en ekki öf­ugt. Fjöldi barna und­ir tveggja ára aldri hef­ur sam­kvæmt rann­sókn­inni ómark­tæk áhrif á laun kvenna á Íslandi og lít­il áhrif (til lækk­un­ar) á laun karla.

Hagrann­sókn­ir Gold­in eru mjög áhuga­verðar. Áður en Gold­in hóf rann­sókn­ir sín­ar töldu marg­ir fræðimenn að spurn­ing­um um launamun kynj­anna í sögu­legu sam­hengi væri ósvarað vegna skorts á gögn­um. Segja má að sú leið sem Ísland hef­ur farið í jafn­rétt­is­mál­um sanni hag­fræðikenn­ing­ar Gold­in, þ.e. að með öfl­ugri upp­bygg­ingu leik­skóla­stigs­ins ásamt 12 mánaða fæðing­ar­or­lofi hafi launamun­ur­inn minnkað mark­visst. Fram­sæk­in kvenna­bar­átta í gegn­um tíðina skipt­ir einnig sköp­um. Þrátt fyr­ir það er launamun­ur og hann eykst eft­ir aldri. Þessu þarf að breyta ásamt því að efla leik­skóla­stigið og starfs­um­hverfi kenn­ara!

Ég óska sam­fé­lag­inu til ham­ingju með dag­inn og hvet okk­ur öll til áfram­hald­andi góðra verka í þágu jafn­rétt­is­mála.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ísland er lánsamt ríki

Deila grein

22/10/2023

Ísland er lánsamt ríki

Kast­ljós helstu stjórn­mála­leiðtoga heims­ins held­ur áfram að bein­ast að ástand­inu fyr­ir botni Miðjarðar­hafs, sem stig­magnaðist mjög hratt í kjöl­far grimmi­legra árása Ham­as-hryðju­verka­sam­tak­anna í Ísra­el. Svæðið er því miður aft­ur orðið púðurt­unna þar sem hætta er á enn frek­ari stig­mögn­un og opn­un nýrra víg­lína með slæm­um af­leiðing­um. Vís­bend­ing­ar í þessa veru birt­ast okk­ur meðal ann­ars í átök­um Ísra­els­hers og Hez­bollah-sam­tak­anna í Líb­anon sem hafa skipst á skot­um yfir landa­mær­in í norður­hluta Ísra­els. Augu margra bein­ast að Íran sem hef­ur um ára­bil stutt við Hez­bollah- og Ham­as-sam­stök­in, ásamt öðrum víga­hóp­um í Mið-Aust­ur­lönd­um, með vopn­um, þjálf­un og hernaðar­upp­lýs­ing­um.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti ávarpaði þjóð sína á fimmtu­dags­kvöld í fram­haldi af heim­sókn sinni til Mið-Aust­ur­landa í vik­unni. Fór ávarpið fram úr for­seta­skrif­stof­unni sjálfri sem þykir til marks um al­var­leika máls­ins, en þetta var aðeins annað ávarp for­set­ans til þjóðar sinn­ar með þeim hætti. Biden fór meðal ann­ars yfir þá var­huga­verðu stöðu sem er uppi í heim­in­um, þar sem stríð geis­ar í Evr­ópu vegna ólög­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu og hins veg­ar stríðið milli Ísra­els og Ham­as.

Þetta eru sann­ar­lega viðsjár­verðir tím­ar sem við lif­um á og ekki síst í ljósi þess að enn skýr­ari skil í alþjóðastjórn­mál­un­um virðast vera að teikn­ast upp, þar sem til að mynda hernaðarleg sam­vinna Rúss­lands, Írans og Norður-Kór­eu hef­ur auk­ist til muna. Í því sam­hengi má nefna að Norður-Kórea hef­ur ákveðið að sjá Rúss­um fyr­ir vopn­um og skot­fær­um fyr­ir stríðsrekst­ur þeirra í Úkraínu, líkt og Íran­ir hafa gert um tals­vert skeið. Því hef­ur meðal ann­ars verið velt upp hvort með þýðari sam­skipt­um sín­um við Norður-Kór­eu séu Rúss­ar að búa sér til sterk­ari stöðu á Kór­eu­skag­an­um, þar sem ástandið er nú þegar viðkvæmt milli Norður- og Suður-Kór­eu.

Á hinn bóg­inn urðu vatna­skil í vest­rænni sam­vinnu í kjöl­far inn­rás­ar Rússa í Úkraínu og hef­ur hernaðarsam­vinna Vest­ur­landa stór­auk­ist í kjöl­farið. Blað var brotið í sögu Evr­ópu­sam­bands­ins þegar það stóð í fyrsta sinn fyr­ir bein­um hernaðarstuðningi við Úkraínu og öfl­ug ríki inn­an sam­bands­ins, líkt og Þýska­land, hafa stór­aukið fram­lög sín til varn­ar­mála.

Ísland er lán­samt ríki að mörgu leyti. Ný­verið var til­kynnt að Ísland væri ör­ugg­asta ríki heims sam­kvæmt Alþjóðlegu friðar­vísi­töl­unni (e. Global Peace Index), en það er 15. skiptið í röð sem það ger­ist. Það að búa við frið og ör­yggi er því miður ekki sjálfsagt í heim­in­um eins og nú­tím­inn ber glögg merki um. Ísland hef­ur tekið rétt­ar ákv­arðanir í gegn­um tíðina, til dæm­is með stofnaðild sinni að Atlants­hafs­banda­lag­inu 1949 og samn­ingi um tví­hliða varn­ar­sam­starf við Banda­rík­in 1951. Við sem þjóð verðum að halda áfram að vera á tán­um, á sama tíma og við stönd­um með al­menn­um borg­ur­um, sem því miður fara alltaf verst út úr stríðsátök­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Taugatitringur á alþjóðamörkuðum en hægfara bati

Deila grein

19/10/2023

Taugatitringur á alþjóðamörkuðum en hægfara bati

Síðasta vika á fjár­mála­mörkuðum hef­ur ein­kennst af flótta fjár­festa úr áhættu í ör­yggi, þ.e. ávöxt­un­ar­krafa á rík­is­skulda­bréf hef­ur lækkað meðan hluta­bréf­in hafa fallið í verði. Meg­in­or­sök­in er að mikl­ar vær­ing­ar eru í alþjóðastjórn­mál­un­um. Stríðin í Mið-Aust­ur­lönd­um og Úkraínu hafa mest um þessa þróun að segja.

Horf­urn­ar og hagspá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins

Efna­hags­bat­inn á heimsvísu er hæg­fara og ójafn eft­ir svæðum. Hag­vöxt­ur er minni hjá ný­markaðs- og þró­un­ar­ríkj­um. Ýmsir þætt­ir vega þungt, t.a.m. hafa vext­ir hjá ýms­um ný­markaðsríkj­um verið hærri vegna auk­inn­ar verðbólgu, sem hef­ur dregið úr hag­vexti. Sú verðbólga sem heims­bú­skap­ur­inn hef­ur verið að kljást við hef­ur verið drif­in áfram af mörg­um þátt­um, en helst ber að nefna rösk­un á aðfanga­keðjunni, um­fangs­mikl­ar stuðningsaðgerðar op­in­berra aðila til að styðja við eft­ir­spurn vegna covid-19, stríðið í Úkraínu, vax­andi spennu í sam­skipt­um Banda­ríkj­anna og Kína ásamt auk­inni vernd­ar­stefnu ríkja um heim all­an. Verðbólga á heimsvísu er víða í rén­un en það er of snemmt að fagna sigri. Verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um er enn býsna treg enda öfl­ug­ur gang­ur efna­hags­lífs­ins, en bet­ur hef­ur gengið með verðbólg­una víða í Evr­ópu, en þar eru önn­ur vanda­mál, t.d. mæl­ist efna­hags­sam­drátt­ur í Þýskalandi. Í efna­hags­spá AGS sem birt­ist í síðustu viku er gert ráð fyr­ir að hag­vöxt­ur á heimsvísu lækki úr 3,5% árið 2022, í 3% bæði árið 2023 og árið 2024. Hagspá­in er und­ir sögu­leg­um vexti á heimsvísu, sem var að meðaltali 3,8% fyrstu tvo ára­tugi ald­ar­inn­ar. Hækk­un stýri­vaxta seðlabanka sem bein­ist gegn verðbólgu held­ur áfram að hægja á efna­hags­um­svif­um. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga á heimsvísu lækki úr 8,7% árið 2022 í 6,9% árið 2023 og 5,8% árið 2024. Áætlað er að und­ir­liggj­andi (kjarna)verðbólga lækki meira og smám sam­an og hafa spár um verðbólgu árið 2024 verið end­ur­skoðaðar til hækk­un­ar. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga á heimsvísu nái jafn­vægi árið 2025. Spár fyr­ir árið 2023 og 2024 eru hins veg­ar end­ur­skoðaðar lít­il­lega til lækk­un­ar og ekki er gert ráð fyr­ir að verðbólga nái mark­miði fyrr en árið 2025 í flest­um til­vik­um.

Áfram­hald­andi órói í heims­hag­kerf­inu

Áhætt­an í alþjóðahag­kerf­inu held­ur áfram að aukast og end­ur­spegl­ast það á fjár­mála­mörkuðum. Greina má þessa áhættuþætti í fimm þætti. Í fyrsta lagi hafa stríðin í Úkraínu og Mið-Aust­ur­lönd­um veru­lega nei­kvæð áhrif á líf fólks­ins á svæðinu. Skelfi­leg stríð sem bitna verst á sak­lausu fólki. Í öðru lagi, þá hækkaði verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um lít­ils hátt­ar, sem gef­ur til kynna að hún er þrálát­ari en von­ir stóðu til. Þetta þýðir að vext­ir verða hærri til lengri tíma í Banda­ríkj­un­um en ýms­ir markaðsaðilar gerðu ráð fyr­ir. Í þriðja lagi rík­ir stöðnun í Kína og hag­kerfið þar er að mæta ýms­um nýj­um áskor­un­um í fjár­mála­kerf­inu og á fast­eigna­markaði. Þetta er ný staða fyr­ir kín­verska hag­kerfið, sem hef­ur vaxið gríðarlega síðustu ára­tugi og að mörgu leyti dregið vagn­inn varðandi hag­vöxt í heims­bú­skapn­um. Að sama skapi skort­ir enn á gagn­sæi á mörkuðum þar og því hafa fjár­fest­ar meiri fyr­ir­vara en ella. Í fjórða lagi hef­ur skuld­astaða ný­markaðs- og þró­un­ar­ríkja versnað og í háu vaxtaum­hverfi þurfa fleiri ríki á end­ur­skipu­lagn­ingu skulda að halda. Sömu lög­mál ríkja um einka­geir­ann sem ekki hef­ur farið var­hluta af vaxta­hækk­un­um eft­ir ára­tugi hag­kvæmra vaxta. Að lok­um má nefna að alþjóðavæðing hef­ur átt und­ir högg að sækja og hef­ur vöxt­ur alþjóðlegra viðskipta­hindr­ana verið mik­ill. Sú þróun ýtir und­ir hækk­an­ir á verðbólgu á heimsvísu.

Tíðar stýri­vaxta­hækk­an­ir hafa ekki skilað til­ætluðum ár­angri – hvað veld­ur?

Pen­inga­stefn­an í Banda­ríkj­un­um hef­ur verið afar aðhalds­söm í rúmt ár og verðbólg­an hef­ur lækkað og nem­ur nú 3,7%. Stýri­vext­ir hafa ekki verið jafn­há­ir í Banda­ríkj­un­um í 22 ár. Banda­ríska hag­kerfið er ekki að bregðast við stýri­vöxt­um með hefðbundn­um hætti. Þrátt fyr­ir það hef­ur fram­leiðslutapið ekki verið mikið né held­ur hef­ur at­vinnu­leysið auk­ist. Meg­in­or­sök verðbólg­unn­ar er dýpri en að hægt sé að skýra hana út ein­vörðungu með efna­hagsaðgerðum sem tengj­ast covid-19. Þó hafa marg­ir talið að um­fram­eft­ir­spurn­in í banda­ríska hag­kerf­inu í kjöl­far covid-19 sé rót vand­ans. Hins veg­ar er það svo að þess­ar efna­hagsaðgerðir hafa aukið ójafn­vægið sem kom vegna þeirra efna­hagsaðgerða sem farið í í kjöl­far alþjóðlegu fjár­málakrepp­unn­ar 2008-2010. Stýri­vext­ir voru lækkaðir veru­lega og hin magn­bundna íhlut­un var afar um­fangs­mik­il, þannig að kaup seðlabanka á skulda­bréf­um voru mik­il og pen­inga­magn í um­ferð jókst veru­lega eða sem nem­ur um 8 trilljón­um banda­ríkja­dala. Aug­ljós­lega hef­ur þessi aukn­ing mik­il áhrif á eft­ir­spurn í hag­kerf­inu. Pen­inga­magn í um­ferð jókst frá því að vera um 500 millj­arðar í 8 trilljón­ir frá 2007-2022. Banda­ríski seðlabank­inn hef­ur hafið áætl­un um að draga úr skulda­bréfa­kaup­un­um og draga úr þessu pen­inga­magni í um­ferð. Að sama skapi hef­ur rík­is­fjár­mál­in skort aðhald enda er fjár­laga­hall­inn í ár um 10% af lands­fram­leiðslu þrátt fyr­ir kröft­uga viðspyrnu hag­vaxt­ar í kjöl­far covid. Á ár­un­um 2020 og 2021 var fjár­laga­halli um 10-14% af lands­fram­leiðslu. Seðlabanki Banda­ríkj­anna hef­ur ekki verið einn í því að stækka efna­hags­reikn­ing­inn sinn veru­lega, sama þró­un­in hef­ur verið í öll­um helstu seðlabönk­um ver­ald­ar.

Stærsta viðfangs­efni ís­lensks sam­fé­lags

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af þeirri verðbólguþróun sem hef­ur átt sér stað í heim­in­um. Á ár­inu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörg­um sam­an­b­urðarríkj­um. Á tíma­bili mæld­ist sam­ræmd verðbólga á Íslandi sú næst­lægsta í Evr­ópu, eða 6,4% í nóv­em­ber 2022 sam­an­borið við 11,5% hjá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Verðbólg­an hér á landi hélt áfram að hækka þar til hún náði há­marki í byrj­un árs þegar hún mæld­ist 10,2%. Síðan þá höf­um við séð hana lækka en í dag stend­ur hún í 8%. Mik­ill þrótt­ur hef­ur ein­kennt ís­lenska hag­kerfið síðasta ár, sem skýrist af mikl­um viðsnún­ingi í ferðamennsk­unni og hag­kvæm­um viðskipta­kjör­um fyr­ir sjáv­ar­út­veg og iðnað. Helsta stjórn­tæki Seðlabanka Íslands, stýri­vext­irn­ir, er farið að skila til­ætluðum ár­angri til kæl­ing­ar. Rík­is­fjár­mál­in hafa stigið skarpt til hliðar frá því í covid og ný­lega hef­ur rík­is­stjórn­in kynnt aðhald­samt fjár­laga­frum­varp fyr­ir árið 2024 þar sem lögð er áhersla á aðhald og aukna for­gangs­röðun í rík­is­rekstr­in­um á sama tíma og staðinn er vörður um mik­il­væga grunnþjón­ustu í land­inu. Glím­an við verðbólg­una er stærsta viðfangs­efni sam­fé­lags­ins, en verðbólg­an bitn­ar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnam­inni. Það að ná niður verðbólgu er al­gjört for­gangs­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar, en á þeirri veg­ferð þurfa all­ir að ganga í takt; stjórn­völd, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnu­markaðar­ins. Ég er bjart­sýn á að við mun­um sjá verðbólg­una lækka á kom­andi mánuðum ef við höld­um rétt á spil­un­um, en það er til mjög mik­ils að vinna fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki lands­ins að ná tök­um á henni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hannað hér – en sigrar heiminn

Deila grein

18/10/2023

Hannað hér – en sigrar heiminn

Hvern hefði órað fyrir því að íslenskir eikarvaðfuglar gætu flogið svo víða? Eða að íslenskt geimhagkerfi yrði til þess að tengja saman milljónir manna? Eða að íslenskt grjót yrði eftirsóknarvert í nytjahluti. Einhverja – en þó fæsta. Elja, áræði og stundum heppni hefur flutt íslenskt hugvit út fyrir landssteinana en aflið sem hefur skilað því hugviti lengst er góð hönnun. Íslensk hönnun er á heimsmælikvarða.

Sýnilegur árangur

Nú stendur yfir sýning á verkum 14 íslenskra hönnuða sem eiga það sammerkt að hafa hannað vörur og húsgögn sem eru þróaðar, framleiddar og seldar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Með sýningunni er varpað ljósi á íslenska húsgagna- og vöruhönnun; fagi sem í alþjóðlegu samhengi er tiltölulega nýtt hér á landi en hefur sannarlega vaxtarmöguleika. Sýningin „Samband“ var upphaflega sett upp í tengslum við hönnunarvikuna 3 days of Design í Kaupmannahöfn í sumar. Það er vel við hæfi að sýningin ferðist líka hingað „heim“ og góðum árangri íslenskrar hönnunar sé miðlað til almennings.

Sóknarfæri

Fagstéttir tengdar hönnunar og arkitektúr fara stækkandi og íslenskum hönnunarfyrirtækjum fjölgar ört. Áhugi á menntun og starfsþróun á sviði hönnunar eykst og til verða spennandi og eftirsóknarverð störf. Við vitum að það eru gríðarleg sóknarfæri til verðmæta- og atvinnusköpunar í hönnunargeiranum, þar er mannauður og hugvit sem við getum virkjað til hagsbóta fyrir samfélagið allt, ekki síst með aukinni hönnunardrifinni nýsköpun og þverfaglegu samstarfi. Það er enda leiðarstef í nýrri hönnunarstefnu sem gefin var út fyrr á þessu ári. Hönnun er okkur mikilvægt breytingaafl og tæki til nýsköpunar sem nýta má á fjölbreyttari hátt en marga órar fyrir.

Gefum hönnun gaum

Íslenskt hugvit er hreyfiafl framfara og íslensk hönnun á sannarlega erindi við heiminn. Hún er allt í kringum okkur, ýmist áþreifanleg og ósýnileg. Og góð hönnun getur verið sannkallaður leikbreytir fyrir árangur og velgengni hugmynda. Um þessar mundir er verið að kynna tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands sem að þessu sinni verða afhentar í þremur flokkum – fyrir verk, stað og vöru. Fjölbreytni þeirra verkefna sem hljóta tilnefningar að þessu sinni fylla mig stolti og bjartsýni, yfir íslenskri hugkvæmni, sköpunarkrafti og fagmennsku. Ég hvet alla til þess að kynna sér tilnefningarnar og gróskuna í íslenskri hönnun.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ófriðartímar í heiminum

Deila grein

12/10/2023

Ófriðartímar í heiminum

Tíðar frétt­ir af ófriði og átök­um um heim all­an hafa birst okk­ur á und­an­förn­um miss­er­um. Auk­inn ófriður í heim­in­um er óheillaþróun með til­heyr­andi slæm­um áhrif­um fyr­ir íbúa heims­ins. Bentu Sam­einuðu þjóðirn­ar meðal ann­ars á fyrr á ár­inu að fjöldi átaka hef­ur ekki verið meiri síðan á tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar en um 2 millj­arðar manna, fjórðung­ur mann­kyns­ins, búa á svæðum sem hafa orðið fyr­ir áhrif­um af átök­um. Það má segja að sjald­an hafi reynt jafn­mikið á þau helstu grund­vall­ar­gildi sem Sam­einuðu þjóðirn­ar voru reist­ar á; að viðhalda alþjóðleg­um friði og ör­yggi.

Far­ald­ur vald­arána í Afr­íku, þar sem vald­arán hafa verið fram­in í átta ríkj­um á þrem­ur árum og bæt­ist við ófrið sem þar var fyr­ir, deil­ur Aser­baís­j­an og Armen­íu, ólög­legt inn­rás­ar­stríð Rússa í Úkraínu og nú síðast; stríð Ísra­ela og Ham­as-liða í kjöl­far grimmi­legra árása Ham­as-liða í Ísra­el um liðna helgi.

Það sem þessi átök eiga sam­eig­in­legt er að ekki sér fyr­ir end­ann á þeim. Deil­an fyr­ir botni Miðjarðar­hafs er ára­tuga löng en full­yrða má að at­b­urðir síðustu helg­ar séu mesta stig­mögn­un henn­ar í ára­tugi. Hætta er á enn frek­ari stig­mögn­un átak­anna, en viðvör­un­ar­ljós í þá veru eru þegar far­in að blikka með skær­um á landa­mær­um Ísra­els og Líb­anon milli Ísra­els­hers og Hez­bollah-sam­tak­anna. Svæðinu öllu svip­ar til púðurtunnu. Það þarf fyr­ir alla muni að kom­ast hjá frek­ari stig­mögn­un á svæðinu, með til­heyr­andi óstöðug­leika fyr­ir alþjóðasam­fé­lagið.

Að sama skapi sér ekki enn fyr­ir end­ann á árás­ar­stríði Rússa í Úkraínu, sem haft hef­ur skelfi­leg áhrif á millj­ón­ir í Úkraínu og Rússlandi. Mikið mann­fall hef­ur verið hjá báðum lönd­um, á sama tíma og Rúss­ar eru langt frá því að ná upp­haf­leg­um hernaðarmark­miðum sín­um. Efna­hag­ur beggja landa hef­ur gjör­breyst og skaðast mikið með til­finn­an­leg­um áhrif­um á alþjóðahag­kerfið. Hækk­an­ir á orku- og mat­væla­verði í kjöl­far stríðsins smituðust í alþjóðleg­ar virðiskeðjur og urðu helsti or­saka­vald­ur­inn í hærri verðbólgu margra ríkja og eins og gjarn­an ger­ist eru það þeir sem minnst mega sín sem helst finna fyr­ir þessu. Það er mik­il­vægt að Vest­ur­lönd standi áfram af full­um þunga með Úkraínu og tryggi land­inu nauðsyn­lega aðstoð til þess að vernda frelsi og sjálf­stæði sitt.

Við erum lán­söm á Íslandi. Það að búa við frið og ör­yggi er því miður ekki sjálfsagt í heim­in­um eins og við þekkj­um hann líkt og millj­arðar jarðarbúa finna á eig­in skinni. Bless­un­ar­lega hafa heilla­drjúg­ar ákv­arðanir verið tekn­ar í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um Íslands í gegn­um tíðina sem við búum að í dag. Þá stefnu þarf að rækta áfram af alúð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Auðlegð þjóða snýst um opin alþjóðaviðskipti

Deila grein

03/10/2023

Auðlegð þjóða snýst um opin alþjóðaviðskipti

Þökk sé þeim mikla krafti sem verið hef­ur í alþjóðaviðskipt­um und­an­farna ára­tugi hafa lífs­kjör hundraða millj­óna manna batnað veru­lega með aukn­um kaup­mætti. Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í þess­ari þróun og er eng­um blöðum um það að fletta að efna­hags­leg­ur vöxt­ur lands­ins hef­ur byggst á opn­um alþjóðaviðskipt­um – þar sem hugað hef­ur verið að greiðslu­jöfnuði þjóðarbús­ins.

Hag­saga Íslands er saga fram­fara en um leið og Ísland hóf aft­ur frjáls viðskipti og fór að nýta auðlind­ir lands­ins í eig­in þágu juk­ust hér lífs­gæði og vel­meg­un. Á þeirri veg­ferð hef­ur tækni­væðing sam­fé­lags­ins lagt sitt af mörk­um og skilað auk­inni skil­virkni og nýt­ingu fram­leiðsluþátta. Þannig störfuðu í upp­hafi 20. ald­ar­inn­ar um 80% af vinnu­afl­inu í land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi en 100 árum síðar er sam­svar­andi hlut­fall um 10%. Á sama tíma hef­ur verðmæta­sköp­un auk­ist um­tals­vert. Ut­an­rík­is­viðskipti hafa á sama tíma orðið mun fjöl­breytt­ari en þegar um 90% gjald­eyristekna komu frá sjáv­ar­út­vegi. Meg­in­út­flutn­ings­stoðir hag­kerf­is­ins eru fjór­ar í dag; ferðaþjón­usta, sjáv­ar­út­veg­ur, iðnaður og skap­andi grein­ar.

Á und­an­förn­um árum hafa ýms­ar áskor­an­ir birst í heimi alþjóðaviðskipt­anna. Eft­ir að Brett­on-Woods-gjald­miðlaum­gjörðin leið end­an­lega und­ir lok á átt­unda ára­tugn­um tók við tíma­bil sem ein­kennd­ist af efna­hags­legri stöðnun og hárri verðbólgu. Réðust til að mynda Banda­rík­in og Bret­land í um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar til að snúa þeirri þróun við sem fólust meðal ann­ars í því að losa um eign­ar­hald rík­is­ins á ýms­um þátt­um hag­kerf­is­ins, skatt­ar voru lækkaðir, ein­blínt var á fram­boðshliðina og létt var á reglu­verki.

Eft­ir gríðarlegt póli­tískt umrót í Kína ára­tug­ina á und­an náðist samstaða um að hefja mikið efna­hags­legt um­bóta­skeið sem hóst með valda­töku Deng Xia­op­ing 1978. Í kjöl­far þess að Banda­rík­in og Bret­land fóru að styrkj­ast efna­hags­lega ásamt Kína fóru mörg önn­ur ríki að þeirra for­dæmi. Þegar nær er litið eru bestu dæm­in auk­in viðskipti inn­an EFTA, ESB og EES sem styrktu hag­kerfi inn­an þeirra vé­banda og ekki síst þeirra ríkja sem opnuðust eft­ir fall ráðstjórn­ar­ríkj­anna. Að sama skapi skipti sköp­um fyr­ir þróun heimsviðskipta inn­ganga Kína í Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ina árið 2001. Í kjöl­farið urðu breyt­ing­ar á sam­keppn­is­hæfni og út­flutn­ingi Kín­verja með til­heyr­andi aukn­ingu í alþjóðaviðskipt­um.

Við höf­um séð viðskipta­hindr­an­ir og -höml­ur aukast tölu­vert und­an­far­inn ára­tug. Í því sam­hengi hef­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn bent á að heims­fram­leiðsla geti dreg­ist sam­an um 7% en það jafn­gild­ir sam­an­lagðri stærð franska og þýska hag­kerf­is­ins! Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa aug­un á til að stuðla að áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn í heim­in­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólga og neytendavernd

Deila grein

25/09/2023

Verðbólga og neytendavernd

Langa­tíma­af­leiðing­ar hárr­ar verðbólgu eru slæm­ar fyr­ir sam­fé­lög. Verðbólg­an hitt­ir einkum fyr­ir þá sem minnst eiga. Hóp­ur­inn sem verst fer út úr verðbólgu­hremm­ing­un­um er sá sem ný­verið kom inn á hús­næðismarkaðinn.

Í riti Seðlabank­ans Fjár­mála­stöðug­leiki 2023/​2, sem kom út í vik­unni, er staða heim­ila og fyr­ir­tækja rýnd í sam­hengi við aukið aðhald pen­inga­stefn­unn­ar að und­an­förnu. Verðbólga og hækk­andi vext­ir hafa þyngt greiðslu­byrði heim­ila og fyr­ir­tækja þó skuld­setn­ing sé lít­il í sögu­legu sam­hengi og eig­in­fjárstaðan góð. Þannig hef­ur hækk­andi vaxta­stig dregið úr um­svif­um á íbúðamarkaði en veru­lega hef­ur dregið úr nýj­um lán­veit­ing­um til heim­ila á ár­inu. Hrein ný íbúðalán fyrstu sjö mánuði árs­ins námu aðeins rúm­um 58 mö.kr., sam­an­borið við 111 ma.kr. á sama tíma­bili á síðasta ári.

Nokk­ur hluti úti­stand­andi óverðtryggðra íbúðalána sem veitt voru á ár­un­um 2020 og 2021 ber fasta vexti sem brátt losna og verða end­ur­skoðaðir með til­heyr­andi hækk­un á greiðslu­byrði lán­anna. Seðlabank­inn ger­ir ráð fyr­ir því að hald­ist vaxta­stig áfram hátt megi að öðru óbreyttu gera ráð fyr­ir að greiðslu­byrði heim­il­anna þyng­ist veru­lega. Hag­kerfið okk­ar má ekki verða eitt­hvert gæfu­hjól, þ.e. að gæf­an ákv­arðist ein­göngu út frá því hvenær komið er inn á hús­næðismarkaðinn. Öruggt þak yfir höfuðið er eitt stærsta vel­ferðar­mál sam­tím­ans.

Staða stóru viðskipta­bank­anna er sterk, eig­in­fjár­hlut­föll þeirra há og arðsemi af reglu­leg­um rekstri góð. Það er í takt við þróun und­an­far­inna ára, sem var meðal ann­ars rak­in í skýrslu starfs­hóps sem ég skipaði um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna og kynnt var ný­lega. Það er eðli­legt að viðskipta­bank­arn­ir nýti þessa stöðu til þess að koma til móts við þau heim­ili sem glíma við og munu glíma við þyngri greiðslu­byrði en áður.

Ein af til­lög­um starfs­hóps um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna var að efla þyrfti neyt­enda­vernd á fjár­mála­markaði. Ég hef þegar komið vinnu við hana í far­veg en haf­in er grein­ing­ar­vinna á veg­um míns ráðuneyt­is í tengsl­um við ákveðna þætti fast­eignalána til neyt­enda og neyt­endalána til að efla neyt­enda­vernd á sviði fjár­málaþjón­ustu. T.a.m. hvernig staðið er að upp­lýs­inga­gjöf og leiðbein­ing­um til neyt­enda í tengsl­um við lán­veit­ing­ar út frá mis­mun­andi lána­form­um, áhrif­um vaxta, verðbólgu o.s.frv. Skoðað verður eft­ir­lits­hlut­verk Neyt­enda­stofu og Seðlabanka Íslands gagn­vart lán­veit­end­um við fram­kvæmd lán­veit­ing­ar til neyt­enda og eft­ir að lán er veitt, þ.m.t. við skil­mála­breyt­ing­ar og van­skil. Þá verður einnig skoðað hvaða upp­lýs­ing­um og leiðbein­ing­um þarf að koma á fram­færi til neyt­enda um mis­mun­andi lána­form, áhrif vaxta, verðbólgu o.s.frv. og hvernig þeim verði miðlað með sem skil­virk­ust­um hætti.

Verðbólga er marg­slungið fyr­ir­bæri og bar­átt­an við hana krefst sam­taka­mátt­ar sam­fé­lags­ins. Þar skipt­ir stuðning­ur við heim­il­in miklu máli og öfl­ug neyt­enda­vakt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tungumálið og tæknin

Deila grein

18/09/2023

Tungumálið og tæknin

Við sem samfélag verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja stöðu íslenskrar tungu inn í framtíðina, ekki aðeins til að forða því að hér verði rof í merkri menningarsögu þjóðarinnar heldur einnig til að koma í veg fyrir að hér alist upp kynslóðir sem eru ófærar um að tjá sig vel á eigin móðurmáli. Þróun sem þessi er lúmsk, hún á sér stað hægt og rólega með minnkandi meðvitund okkar – og áður en við vitum af gæti sú staða komið upp að þróuninni verði ekki aftur snúið.

Sókn er besta vörnin

Ég tel að breið pólitísk sátt sé um það verkefni að snúa vörn í sókn – fyrir íslenska tungu. Fjölbreytt starf hefur verið unnið á vegum ráðherranefndar um málefni íslenskunnar og ráðuneytanna í vetur og birtist afrakstur þeirrar vinnu í aðgerðaáætlun sem kynnt var í samráðsgátt í sumar. Fjölmargar gagnlegar umsagnir bárust sem bæta munu þær aðgerðir og ljóst af fjölda þeirra og inntaki að margir eru viljugir að leggjast á árarnar með okkur. Aðgerðaáætlunin verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi nú í haust.

Eitt stærsta verkefnið fram undan er að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í hinum stafræna heimi og það verkefni er langhlaup. Öflug innviðauppbygging á sviði máltækni hefur átt sér stað á síðustu 5 árum, fyrir tilstilli fyrstu máltækniáætlunar íslenskra stjórnvalda, og hefur það framtak og sú sýn vakið töluverða athygli út fyrir landssteinana. Ég vil fullyrða að sú vinna sem þegar hefur verið unnin, af íslenskum háskólum og nýskapandi fyrirtækjum í máltækni sé á heimsmælikvarða.

Áfram verður fjárfest í tungu og tækni

Nú þegar fyrstu máltækniáætluninni lokið er unnið að því að móta framtíðarfyrirkomulag fyrir áframhaldandi þróun og viðhald íslenskrar máltækni, svo sú þekking, mannauður og tækni sem orðið hefur til megi nýtast okkur sem best til framtíðar. Lykilverkefni í því samhengi er að stuðla að hagnýtingu tækninnar og innleiðingu. Starfshópur með alls 15 sérfræðingum úr atvinnulífi, stjórnkerfi og menntakerfi hefur að undanförnu kortlagt áskoranir og tækifæri sem þessu tengjast og munu niðurstöður hans nýtast við tillögugerð sem skilað verður á næstu vikum.

Fjármögnun fyrir næstu máltækniáætlun er tryggð og er gert ráð fyrir 360 milljónum króna á ári í málaflokkinn árlega út árið 2026 auk 160 milljóna til viðbótar á ári í gegn um samkeppnissjóðinn Markáætlun í tungu og tækni. Í heildina er því um að ræða um tveggja milljarða króna fjárfestingu í máltækni á tímabilinu.

Íslensk máltækni eykur lífsgæði fólks

Notkun íslenskrar máltækni getur nýst á ótal sviðum og orðið ein lykilbreytan í því að efla íslenska tungu til framtíðar. Nú þegar er íslensk máltækni nýtt til að aðstoða fjölda fólks með sjónskerðingu í daglegu lífi, einfalda upplýsingagjöf fyrirtækja og stofnana og í tungumálakennslu fyrir nýja Íslendinga.

Möguleika tækninnar þarf að kynna og byggja brú á milli vísindasamfélagsins, nýsköpunargeirans og stjórnkerfisins svo við getum nýtt þessa nýju inniviði – þessa stafrænu vegagerð – til hagsbóta fyrir alla. Nú er mikilvægt að við tökum öll höndum saman við að vinna þessum málum brautargengi. Það á við um okkur í stjórnmálunum, fólk í atvinnulífinu sem og okkur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. september 2023.