Categories
Greinar

Þjóðarleikvangar fyrir þjóðina

Deila grein

23/09/2020

Þjóðarleikvangar fyrir þjóðina

Tími innviðafjár­fest­inga er runn­inn upp. Slík­ar fjár­fest­ing­ar snú­ast um fleira en vegi og brýr, því innviðir sam­fé­lags­ins eru marg­ir og sam­fléttaðir. Hug­mynd­ir um langþráðar fram­kvæmd­ir við Mennta­skól­ann í Reykja­vík eru loks­ins að raun­ger­ast, grein­ing á hús­næðisþörf fyr­ir iðn- og tækni­mennt­un er á loka­metr­un­um og und­ir­bún­ing­ur vegna nýs Lista­há­skóla er í full­um gangi. Unnið er að framtíðar­skip­an Nátt­úru­m­inja­safns Íslands og Hús ís­lensk­unn­ar hef­ur þegar tekið á sig mynd.

Um ára­tuga­skeið hef­ur þjóðin átt sér þann draum að byggja þjóðarleik­vanga fyr­ir íþrótt­astarf í land­inu. Slíkt er löngu tíma­bært, enda nú­ver­andi mann­virki úr sér geng­in og stand­ast ekki kröf­ur alþjóðlegra íþrótta­sam­banda. Þannig upp­fyll­ir ekk­ert íþrótta­hús hér­lend­is lág­marks­kröf­ur sem gerðar eru í alþjóðakeppn­um í hand­knatt­leik eða körfuknatt­leik. Laug­ar­dals­höll­in kemst næst því, en þar er gólf­flöt­ur of lít­ill, rými fyr­ir áhorf­end­ur of smátt og auka­rými fyr­ir ýmsa þjón­ustu ekki til staðar. Alþjóðasam­bönd hafa þegar gefið okk­ur gula spjaldið vegna aðstöðuleys­is, og ef ekk­ert verður að gert gæti það rauða fylgt í kjöl­farið.

Svipaða sögu er að segja um Laug­ar­dalsvöll­inn, sem er einn elsti þjóðarleik­vang­ur í Evr­ópu. Líkt og hand­bolta- og körfu­bolta­fólkið okk­ar hef­ur knatt­spyrnu­landsliðið náð undra­verðum ár­angri, bæði í kvenna- og karla­flokki. Það er þó ekki vell­in­um að þakka, sem líkt og Laug­ar­dals­höll­in stenst ekki kröf­ur sem gerðar eru í alþjóðleg­um mót­um. Aðfinnsl­urn­ar eru svipaðar; völl­ur­inn er lít­ill, áhorf­endaaðstaða óviðun­andi og skort­ur er á rým­um fyr­ir ýmsa þjón­ustu. Þá hafa keppn­is­tíma­bil í alþjóðleg­um mót­um lengst og þörf­in fyr­ir góðan völl því brýnni en nokkru sinni fyrr.

Eft­ir ára­tuga draum­far­ir sést nú til lands. Tveir starfs­hóp­ar – ann­ar vegna inn­iíþrótta og hinn vegna knatt­spyrnuiðkun­ar – hafa skilað grein­ingu á ólík­um sviðsmynd­um, kost­um, göll­um, ávinn­ingi og áhættu af ólík­um leiðum. Þannig er stór hluti und­ir­bún­ings­vinn­unn­ar kom­inn vel á veg og hægt er að taka næstu skref. Fram und­an er að tryggja fjár­mögn­un, ráðast í hönn­un og grípa skófl­una og byggja framtíðarleik­vanga fyr­ir landslið Íslend­inga.

Þótt meg­in­mark­miðið sé að byggja utan um og yfir íþrótt­a­starfið er mik­il­vægt að þjóðin öll finni sig í nýj­um þjóðarmann­virkj­um. Að hún sé vel­kom­in í mann­virk­in árið um kring, en þau standi ekki tóm og safni bæði kostnaði og ryki. Það má gera með ýms­um hætti; 1) bjóða sér­sam­bönd­um, stök­um fé­lög­um og skól­um vinnu- og æf­ingaaðstöðu, 2) hugsa fyr­ir viðburðahaldi strax á hönn­un­arstigi og tryggja að al­menn­ing­ur, sér í lagi börn, geti notið og prófað ólík­ar íþrótt­ir. Þjóðarleik­vang­ar eiga að iða af lífi frá morgni til kvölds, eigi þeir að standa und­ir nafni.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. september 2020.

Categories
Greinar

Hugsum stórt

Deila grein

12/09/2020

Hugsum stórt

Í upp­hafi árs­ins var slaki tek­inn að mynd­ast í efna­hags­kerf­inu og blik­ur voru á lofti eft­ir sam­fellt langt hag­vaxt­ar­skeið á Íslandi. Fregn­ir af COVID-19 voru farn­ar að ber­ast frá Kína, en fáir sáu fyr­ir hversu al­var­leg­ar af­leiðing­arn­ar yrðu af hinni áður óþekktu veiru. Smám sam­an breytt­ist þó heims­mynd­in og í byrj­un mars raun­gerðist vand­inn hér­lend­is, þegar fyrstu inn­an­lands­smit­in greind­ust. Höggið á efna­hags­kerfi heims­ins var þungt og enn eru kerf­in vönkuð.

Efna­hags­horf­ur um all­an heim munu hverf­ast um þróun far­ald­urs­ins og hvernig tekst að halda sam­fé­lags­legri virkni, þar til bólu­efni verður aðgengi­legt öll­um eða veir­an veikist. Við þess­ar aðstæður reyn­ir á grunnstoðir sam­fé­laga; heil­brigðis­kerfi, mennta­kerfi og efna­hagsaðgerðir stjórn­valda. Hér­lend­is er eitt mik­il­væg­asta verk­efnið að ráðast í fjár­fest­ing­ar, grípa þau tæki­færi sem fel­ast í krefj­andi aðstæðum og leggja grunn­inn að hag­sæld næstu ára­tuga.

Sam­fé­lags­leg virkni tryggð

Bar­átt­an við veiruna hef­ur um margt gengið vel hér­lend­is. Heil­brigðis­kerfið hef­ur staðist álagið, þar sem þrot­laus vinna heil­brigðis­starfs­fólks og höfðing­legt fram­lag Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar hafa varðað leiðina. Mennta­kerfið hef­ur einnig staðist prófið og Ísland er eitt fárra landa sem hef­ur ekki lokað skól­um. Þá hafa um­fangs­mikl­ar efna­hagsaðgerðir skilað góðum ár­angri og lagt grunn­inn að næstu skref­um.

Skil­virk efna­hags­stjórn­un og framtíðar­sýn er lyk­il­inn að vel­sæld. Gert er ráð fyr­ir tæp­lega 6% sam­drætti í lands­fram­leiðslu á þessu ári, en viðsnún­ing­ur verði á því næsta með 4% hag­vexti. Sam­drátt­ur upp á 9,3% á öðrum árs­fjórðungi 2020 er sögu­leg­ur, en þó til marks um varn­ar­sig­ur í sam­an­b­urði við ríki á borð við Frakk­land (-14%) og Bret­land (-20%). Þótt óviss­an um þróun far­ald­urs­ins og þeirra at­vinnu­greina sem verst hafa orðið úti sé mik­il, geta stjórn­völd ekki leyft sér að bíða held­ur verða þau að grípa í taum­ana. Vinna hratt og skipu­lega, veita fjár­mun­um í innviðaverk­efni af ólík­um toga og skapa aðstæður fyr­ir fjölg­un virðis­auk­andi starfa til skemmri og lengri tíma.

Rík­is­stjórn­ir grípa bolt­ann

Þróuð hag­kerfi heims­ins gripu flest til rót­tækra efna­hagsaðgerða til að örva hag­kerfi sín í upp­hafi heims­far­ald­urs, með kenni­setn­ing­ar John M. Keynes að leiðarljósi. Sterkt sam­spil rík­is­fjár­mála, pen­inga­stefnu og fjár­mála­kerf­is varð leiðarljós rík­is­stjórna í sam­an­b­urðarlönd­un­um, sem hafa tryggt launþegum at­vinnu­leys­is­bæt­ur og fyr­ir­tækj­um stuðning, svo at­vinnu­lífið kom­ist fljótt af stað þegar heilsu­far­sógn­in er afstaðin. Lang­tíma­vext­ir í stærstu iðnríkj­um eru í sögu­legu lág­marki og viðbúið að svo verði um nokk­urt skeið, ekki síst í ljósi spár Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins sem ger­ir ráð fyr­ir 5% sam­drætti á heimsvísu í ár og efna­hags­bat­inn verði hæg­ari en talið var í fyrstu. Í því felst auk­in áskor­un fyr­ir lítið og opið hag­kerfi, eins og það ís­lenska, sem er um margt háð þróun á alþjóðamörkuðum og fólks­flutn­ing­um milli landa. Á hinn bóg­inn verður áfram mik­il eft­ir­spurn eft­ir helstu út­flutn­ings­vör­um Íslend­inga, mat­væl­um og grænni orku.

Op­in­ber­ar fjár­fest­ing­ar gegn sam­drætti

Í árs­byrj­un var staða rík­is­sjóðs Íslands sterk­ari en flestra ríkja Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD). Hrein­ar skuld­ir rík­is­sjóðs voru aðeins um 20% af lands­fram­leiðslu, sem end­ur­spegl­ar styrka stjórn og niður­greiðslu skulda und­an­far­in ár sam­hliða mikl­um hag­vexti. Upp­gjörsaðferðir og lög frá 2015 um stöðug­leikafram­lög frá slita­bú­um fall­inna banka lögðu grunn­inn að þeirri stöðu, auk þess sem ferðaþjón­ust­an skapaði mikið gjald­eyr­is­inn­flæði. Stjórn­völd hafa því verið í kjör­stöðu til að sníða fjár­veit­ing­ar að þörf­inni og munu laga fram­haldsaðgerðir að raun­veru­leik­an­um sem blas­ir við. Op­in­ber­ar fjár­fest­ing­ar munu vega á móti sam­drætti árs­ins og núna er tím­inn til að hugsa til framtíðar. Fjár­festa í metnaðarfull­um innviðaverk­efn­um, mennt­un, ný­sköp­un, rann­sókn­um og þróun. Við eig­um að fjár­festa í veg­um og brúm, upp­bygg­ingu nýrra at­vinnu­greina og stuðningi við þær sem fyr­ir eru. Við eig­um að efla inn­lenda mat­væla­fram­leiðslu, byggja langþráða þjóðarleik­vanga fyr­ir íþrótt­ir og fjár­festa í nýj­um fyrsta flokks gagna­teng­ing­um Íslands við um­heim­inn. Við eig­um að kynna Ísland bet­ur fyr­ir er­lend­um lang­tíma­fjár­fest­um, fyr­ir­tækj­um og laða til lands­ins hæfi­leika­fólk á öll­um sviðum. Við eig­um að setja okk­ur mark­mið um íbúaþróun og sam­fé­lags­leg­an ár­ang­ur, sem bæði er mæld­ur í hag­vexti og al­mennri vel­ferð fólks sem hér býr. Auka þarf sam­starf hins op­in­bera og at­vinnu­lífs­ins í fjár­fest­ing­um og höfða til þeirra sem sjá framtíð í skap­andi grein­um.

Vext­ir í sögu­legu lág­marki 1%

Vaxta­stig er í sögu­legu lág­marki og hef­ur Seðlabanki Íslands ráðist í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til að spyrna við slaka í hag­kerf­inu. Raun­vext­ir Seðlabank­ans hafa lækkað sam­hliða lækk­un nafn­vaxta og eru nú -1,7%. Þessi skil­yrði hafa leitt til þess að heim­il­in í land­inu hafa end­ur­fjármagnað óhag­stæðari lán og um leið aukið ráðstöf­un­ar­fé sitt. Aðstæður hafa einnig leitt af sér, að ávöxt­un­ar­krafa skulda­bréfs­ins sem rík­is­sjóður Íslands gaf út á alþjóðamörkuðum í vor nam aðeins tæp­lega 0,7%. Þrátt fyr­ir sögu­lega lága vexti eru fjár­fest­ing­ar at­vinnu­lífs­ins litl­ar og stjórn­valda bíður það verk­efni örva þær. Minnka óvissu og stuðla að efna­hags­leg­um stöðug­leika sem ýtir und­ir fjár­fest­ing­ar at­vinnu­líf­is­ins, á meðan vaxta­kjör eru hag­stæði. Vext­ir á heimsvísu eru líka sögu­lega lág­ir og pen­inga­prentvél­ar stærstu seðlabank­anna hafa verið mjög virk­ar. Hér­lend­is höf­um við tekið meðvitaðar ákv­arðanir um að gera meira en minna, nýta slak­ann til fulls og fjár­festa til framtíðar svo sam­fé­lagið verði sam­keppn­is­hæft til lengri tíma.

Fjár­mála­kerfið stór þátt­ur í viðspyrnu

Eig­in- og lausa­fjárstaða ís­lenska fjár­mála­kerf­is­ins er býsna sterk og bank­arn­ir því í góðri stöðu til að styðja við heim­il­in og fyr­ir­tæk­in í land­inu. Vita­skuld rík­ir í augna­blik­inu ákveðin óvissa um raun­v­irði út­lána­safna, en með sjálf­bæru og fram­sæknu at­vinnu­lífi skap­ast verðmæti fyr­ir þjóðarbúið sem eyk­ur stöðuleika og getu lán­tak­enda til að standa við skuld­bind­ing­ar sín­ar. Með hag­kvæmri fjár­mögn­un at­vinnu­lífs­ins geta fyr­ir­tæki skapað störf og verðmæti fyr­ir allt sam­fé­lagið, sem er for­senda þess að rík­is­sjóður geti staðið und­ir sam­neysl­unni. Með op­in­ber­um aðgerðum og stuðningi rík­is­ins við at­vinnu­lífið – hluta­bóta­leiðinni, brú­ar- og stuðningslán­um og fjár­veit­ing­um til ótal verk­efna – er stutt við út­lána­vöxt til fyr­ir­tækja, sem verða á brems­unni þar til óvissa minnk­ar. Það má því segja, að mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­valda sé að draga úr óviss­unni.

Sjálf­bær viðskipta­jöfnuður

Fyr­ir þjóðarbúið er fátt mik­il­væg­ara en sjálf­bær greiðslu­jöfnuður. Það er því sér­takt gleðiefni, að þrátt fyr­ir áföll­in er bú­ist við af­gangi af viðskipta­jöfnuði á ár­inu, sem nem­ur um 2% af lands­fram­leiðslu. Megin­á­stæðan er hag­felld þróun út­flutn­ings­grein­anna, að frá­tal­inni ferðaþjón­ust­unni. Þannig hef­ur ál­verð farið fram úr vænt­ing­um og horf­ur á mörkuðum fyr­ir sjáv­ar­af­urðir eru betri en ótt­ast var. Tekju­fall ferðaþjón­ust­unn­ar dreg­ur sann­ar­lega mikið úr heild­ar­gjald­eyris­tekj­um þjóðarbús­ins, en sök­um þess að sam­drátt­ur á þjón­ustu­jöfnuði er bæði í inn- og út­flutn­ingi mynd­ast minni halli en ætla mætti. Ferðaþjón­ust­an mun taka við sér og skapa aft­ur mik­il verðmæti, en framtíðar­verk­efni stjórn­valda er að fjölga stoðunum und­ir út­flutn­ings­tekj­um þjóðar­inn­ar og tryggja að hag­kerfið þoli bet­ur áföll og tekju­sam­drátt í einni grein.

Sam­vinna er leiðin

Að feng­inni reynslu um all­an heim er ljóst, að stjórn­völd fá það verk­efni að tryggja vel­ferð, hag­sæld og at­vinnu­stig þegar stór áföll ríða yfir. Kost­ir hins frjálsa markaðskerf­is eru marg­ir, en þörf­in á virku sam­spili rík­is og einkafram­taks­ins er bæði aug­ljós og skyn­sam­leg. Hér­lend­is hef­ur þjóðin öll lagst á eitt við að tryggja sem mesta sam­fé­lags­virkni í heims­far­aldr­in­um og ríkið hef­ur fum­laust stigið inn í krefj­andi aðstæður. Því ætl­um við að halda áfram og kveða niður at­vinnu­leys­is­draug­inn, með nýj­um störf­um, sjálf­bær­um verk­efn­um og stuðningi við fyr­ir­tæki, þar sem það á við. At­vinnu­leysið er helsti óvin­ur sam­fé­lags­ins og það er siðferðis­leg skylda okk­ar að auka verðmæta­sköp­un sem leiðir til fjölg­un­ar starfa. Við vilj­um að all­ir fái tæki­færi til að láta reyna á hæfi­leika sína, hrinda hug­mynd­um í fram­kvæmd og skapa sér ham­ingju­samt líf. Með sam­hug og vilj­ann að vopni mun það tak­ast.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2020.

Categories
Greinar

Nemendur eru lykillinn

Deila grein

12/09/2020

Nemendur eru lykillinn

Leik- og grunnskólar voru opnir í um 90% tilfella. Kennsla á framhalds- og háskólastigi fór alfarið í fjarkennslu. Almennt voru skólastjórnendur, kennarar, nemendur og foreldrar ánægð með hvernig staðið var að skólahaldi. Stór hópur kennara segir að tæknin hafi nýst vel og að allur aðbúnaður hafi staðist kröfur. Að sama skapi sé ljóst að álag hafi aukist vegna stöðunnar.

Fulltrúar allra skólastiga voru sammála um að hlúa þurfi sérstaklega að hópi barna og ungs fólks sem hefur veikt bakland. Það ætlum við að gera og verður það eitt af okkar forgangsmálum á komandi vetri.

Við ætlum að lágmarka neikvæð félagsleg áhrif af faraldrinum. Við ætlum að forgangsraða í þágu menntunar og tryggja að sem mest staðnám sé í boði, til að minnka brotthvarfshættu. Rannsóknir sýna að þegar skólahald er takmarkað, þá skerðist þjónustan mest hjá þeim sem þurfa mestan stuðning.

Ég er bjartsýn á að við finnum leiðir til þess að stuðla að öflugu skólastarfi í vetur. Það gerum við með því að vera í góðu samstarfi við skólastjórnendur, kennara og nemendur. Samband íslenskra framhaldsskólanema og Landssamtök íslenskra stúdenta eru okkar helstu samstarfsaðilar. Í bígerð er að efla enn frekar samstarf við nemendur til þess að ákvarðanir séu í auknum mæli teknar, þar sem þeirra mat og viðhorf hafa skýra aðkomu. Ég hlakka til samstarfsins. Í sameiningu náum við betur utan um velferð samfélagsins til lengri tíma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. september 2020.

Categories
Greinar

Vegabréf til framtíðar

Deila grein

03/09/2020

Vegabréf til framtíðar

Það er mark­mið mitt að tryggja börn­um hér á landi mennt­un sem stenst alþjóðleg­an sam­an­b­urð. Það er skylda stjórn­valda að rýna vel mæl­ing­ar og bregðast við, ef aðrar þjóðir búa sín börn bet­ur und­ir framtíðina.

Náms­fram­vinda ræðst af ýms­um þátt­um. Góður námsorðaforði og hug­taka­skiln­ing­ur, álykt­un­ar­hæfni, færni í rök­hugs­un, ánægja af lestri og fjöl­breytni les­efn­is vega mjög þungt í því að nem­end­ur nái tök­um á náms­efn­inu. Til að skilja vel og til­einka sér inni­hald náms­efn­is án aðstoðar þarf nem­andi að þekkja 98% orða í texta. Ef hlut­fallið lækk­ar í 95% þurfa flest­ir nem­end­ur aðstoð, t.d. hjálp frá kenn­ara, sam­nem­end­um eða úr orðabók­um.

Alþjóðleg­ar sam­an­b­urðar­rann­sókn­ir hafa leitt í ljós að ís­lensk­ir nem­end­ur virðast ekki hafa sömu færni og nem­end­ur ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um hvort sem litið er til lesskiln­ings, stærðfræði eða nátt­úru­læsis. Það kall­ar á menntaum­bæt­ur sem fel­ast meðal ann­ars í því að rýna nám­skrár, náms­gögn og viðmiðun­ar­stunda­skrár. Slík rýni hef­ur meðal ann­ars leitt í ljós, að móður­máls­tím­ar á miðstigi í Svíþjóð eru 35% fleiri en á Íslandi. M.a. þess vegna stend­ur nú til að auka vægi móður­máls­kennslu hér­lend­is. Mark­miðið með því er ekki að fjölga mál­fræðitím­um á kostnað skap­andi náms­greina, held­ur skapa kenn­ur­um svig­rúm til að vinna með tungu­málið á skap­andi og skemmti­leg­an hátt. Þeim treysti ég full­kom­lega til að nýta svig­rúmið vel, svo námsorðaforði ís­lenskra skóla­barna og lesskiln­ing­ur auk­ist. Það er for­senda alls náms og skap­andi hugs­un­ar, enda er gott tungu­tak nauðsyn­legt öll­um sem vilja koma hug­mynd­um sín­um í orð. Með auk­inni áherslu á móður­máls­notk­un er því verið að horfa til framtíðar.

Á und­an­förn­um þrem­ur árum hafa stoðir mennta­kerf­is­ins verið styrkt­ar með ýms­um hætti. Ný lög um mennt­un og hæfi kenn­ara og skóla­stjórn­enda hafa orðið að veru­leika og við höf­um ráðist í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til að fjölga kenn­ur­um. Við höf­um stutt við út­gáfu bóka á ís­lensku með mjög góðum ár­angri, þar sem aukn­ing­in hef­ur verið mest í flokki barna- og ung­menna­bóka. Þá samþykkti Alþingi þings­álykt­un um efl­ingu ís­lensk­unn­ar, sem fel­ur í sér 10 aðgerðir sem snúa að um­bót­um í mennta­kerf­inu. Marg­ar eru þegar komn­ar í fram­kvæmd og ég er sann­ar­lega vongóð um góðan afrakst­ur.

Íslenskt skóla­kerfi er til fyr­ir­mynd­ar og hef­ur unnið þrek­virki á tím­um kór­ónu­veirunn­ar. Mik­ill metnaður ein­kenn­ir allt skólastarf og vilj­um við stuðla að frek­ari gæðum þess. Mark­mið stjórn­valda er að veita framúrsk­ar­andi mennt­un með áherslu á þekk­ingu, vellíðan og þraut­seigju. All­ir nem­end­ur skipta máli og ég hef þá trú að all­ir geti lært. Góð mennt­un er helsta hreyfiafl sam­tím­ans og hún er verðmæt­asta vega­bréf barn­anna okk­ar inn í framtíðina.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.