Sérhverjum fullveldisdegi þjóðarinnar ber að fagna. Í dag eru liðin 105 ár frá því að sambandslögin milli Íslands og Danmerkur tóku gildi og þannig viðurkennt að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki. Sá áfangi markaði upphafið að framfarasögu fullvalda þjóðar sem í dag skipar sér í röð meðal fremstu ríkja veraldar á fjölmörgum sviðum. Í amstri hversdagsins vill það stundum gleymast að við getum ekki tekið grundvallarhlutum í samfélagsgerð okkar sem sjálfsögðum. Frelsi og fullveldi, lýðræði og mannréttindi eru því miður fjarlægir og jafnvel framandi hlutir fyrir mörgum jarðarbúum. Í okkar eigin heimsálfu geisar til dæmis enn ólöglegt innrásarstríð þar sem sótt er að þessum gildum.
Íslenskan, þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi, er eitt af einkennum þjóðar okkar. Íslenskuna telja sennilega margir vera hið eðlilegasta og sjálfsagðasta mál sem fylgt hefur íbúum þessa lands í meira en 1.100 ár. Þannig var tungumálið til dæmis samofið baráttu þjóðarinnar fyrir fullveldi sínu þar sem hún þjónaði sem okkar helsta vopn, en hún var í senn álitin sameiningartákn og réttlæting íslensku þjóðarinnar fyrir sérstöðu sinni; sérstök þjóðtunga, sérstök menning.
Það er engum blöðum um það að fletta í mínum huga að íslenskan stendur á ákveðnum krossgötum. Hraðar og umfangsmiklar þjóðfélagsbreytingar undanfarinna ára hafa framkallað áskoranir af áður óþekktum stærðargráðum fyrir tungumálið okkar. Örar tæknibreytingar hafa gjörbylt því málumhverfi sem börn alast upp í og enskan er nú alltumlykjandi hvert sem litið er.
Við sem þjóðfélag getum ekki horft á tungumálið okkar þynnast út og drabbast niður. Í vikunni kynntu stjórnvöld 19 aðgerðir í þágu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta flest svið samfélagsins en í þeim er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur, aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar til hins betra en íslenskan er úti um allt í samfélagi okkar og því tekur það sinn tíma að stilla saman strengi í jafn fjölbreyttu verkefni og raun ber vitni.
Við getum öll gert okkar til þess að efla og þróa tungumálið okkar til framtíðar. Og það þurfa allir að gera – það er verkefni samfélagsins að tryggja framtíð íslenskunnar og þar er ekki í boði að skila auðu. Ég finn skilning á þessu mikilvæga viðfangsefni vaxa með viku hverri og við ætlum að tryggja að fullveldissaga þjóðarinnar verði áfram skrifuð á íslensku um ókomna framtíð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2023.
Ein markverðasta og hugljúfasta leiksýning sem ég hef séð er „Fúsi: Aldur og fyrri störf“ sem nú er til sýningar á Litla sviði Borgarleikhússins. Sýningin fjallar um Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson, Fúsa, og æviskeið hans með frænda sínum, Agnari Jóni Egilssyni leikara. Fúsi er reyndur leikari, þar sem hann hefur starfað með leikhópnum Perlunni í rúm fjörutíu ár.
Fúsi er fatlaður einstaklingur og er saga hans saga þjóðar og hvernig umgjörð samfélagsins var í tengslum við fatlað fólk. Sýningin rifjar upp atvik úr ævi Fúsa og er tvinnað inn í frásögnina tónlist frá systkinunum Ellý og Vilhjálmi Vilhjálmsbörnum. Hinar frábæru leikkonur Halldóra Geirharðsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir leika atriði tengd ævi Fúsa og svo er fimmti maðurinn á sviðinu Egill Andrason sem spilar á hljómborð.
Sýningin er, að því er ég best veit, ein sú fyrsta hjá atvinnuleikhúsi þar sem fatlaður einstaklingur er í burðarhlutverki. Leikritið er afar áhrifaríkt og tilkomumikið, þar sem sagan er einlæg og átakanleg en á sama tíma skemmtileg.
Þetta stórmerkilega verk sýnir fram á að fatlaðir einstaklingar þurfa stærra hlutverk í skapandi greinum. Ráðuneyti mitt hefur verið að styðja betur við þennan málaflokk, meðal annars í gegnum hátíðina List án landamæra. List án landamæra dregur þetta meðal annars fram, en allar götur frá stofnun hennar árið 2003 hefur hátíðin lagt áherslu á list fatlaðs fólks og sem slík skapað sér sérstöðu innan menningarlífsins á Íslandi. Hefur hátíðin meðal annars ýtt undir og stuðlað að samstarfi ólíkra hópa í góðu samstarfi við listasöfn, leikhópa og tónlistarlíf – og þannig skapað vettvang og ný tækifæri í menningarlífi þjóðarinnar. Ásamt því vinnur Listasafn Íslands ötullega að því að kynna list fatlaðs fólks á markvissari hátt en áður hefur þekkst. Margt annað áhugavert er á dagskrá hjá ráðuneyti menningar.
Hvernig samfélagið kemur fram við fatlaða einstaklinga er hinn sanni mælikvarði á siðferði þjóða, það er hver umgjörð þeirra er sem og tækifæri. Listir eru ein besta leiðin til þess að varpa ljósi á fjölbreytileika samfélagsins þar sem sköpunarkraftur fólks fær notið sín óháð bakgrunni og stöðu viðkomandi. Það er brýnt að halda áfram að tryggja jöfn tækifæri til listsköpunar með þeim hætti, því allir hafa sögu að segja. Það næmi og einlægni sem kemur fram í leiksýningunni Fúsa á erindi við okkur öll. Þetta er ein af þessum sýningum sem fylgja manni í marga daga og láta mann ekki vera fyrr en maður tekur afstöðu. Hjartans þakkir fyrir mig.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. nóvember 2023.
Stærsta hagsmunamál íslenskra heimila og fyrirtækja í dag er að ná verðbólgu niður. Það er gömul saga og ný að há verðbólga bitnar einna helst á þeim sem síst skyldi, það er þeim efnaminni. Fólk jafnt sem fyrirtæki finna vel fyrir háu vaxtastigi með tilheyrandi áhrifum á kaup- og fjárfestingagetu sína. Það er í mínum huga ljóst að glíman við verðbólgu verður ekki unnin af einum aðila heldur þurfa ríki og sveitarfélög, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnumarkaðarins að leggjast saman á árarnar til þess að ná henni niður.
Verðbólguþróunin varasöm en ljós við enda ganganna
Því miður hefur verðbólgan verið yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár. Verðbólgan var 7,9% í október og undirliggjandi 6,3%. Umfang hækkana er enn útbreitt og í október höfðu rúmlega 40% neyslukörfunnar hækkað um meira en 10% frá því á sama tíma í fyrra. Samkvæmt Seðlabanka Íslands hafa aðeins um 20% af neyslukörfunni hækkað um minna en 5% frá fyrra ári. Enn er mikil þensla á vinnumarkaði og atvinnuleysi minniháttar, því eru áhrif kostnaðarhækkana enn sjáanleg. Verð innlendrar vöru hefur hækkað um tæp 11%. Á sama tíma hefur verðbólga á heimsvísu verið að dragast saman og er skýringa einkum að leita í lægra hrávöru- og orkuverði. Þá var ánægjulegt að sjá í greiningu Seðlabankans í síðustu Peningamálum að aukin verðbólga virðist ekki tilkomin vegna hækkandi álagningarhlutfalls fyrirtækja.
Of háar verðbólgu- væntingar á Ísland
Verðbólguvæntingar markaðsaðila til eins og tveggja ára eru 5,5% eftir ár en 4,2% eftir tvö ár. Markaðsaðilar telja að til lengri tíma verði verðbólga 4% að meðaltali næstu fimm ár og 3,5% að meðaltali. Talið er að kjölfesta verðbólguvæntinga sé veikari á Íslandi, sem getur valdið því að óvæntar verðhækkanir hafi meiri og dýpri áhrif á verðbólgu en í ríkjum þar sem kjölfestan er meiri. Sögulega hefur verðbólga verð þrálát og veikt kjölfestuna.
Verðbólguvæntingar eru afar mikilvæg mælistærð, þar sem þær gefa vísbendingu um stig verðbólgu sem einstaklingar, fyrirtæki og fjárfestar búast við að sjá í næstu framtíð. Þessar væntingar hafa áhrif á efnahagslegar ákvarðanir, þ.e. eyðslu, sparnað og fjárfestingar, og geta þannig haft afgerandi áhrif á raunverulega verðbólgu. Innan hagfræðinnar á þáttur verðbólguvæntinga sér í raun ekki langa sögu, en það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum að hagfræðingarnir Milton Friedman og Edmund Phelps hófu hvor í sínu lagi að vekja athygli á mikilvægi þeirra til að skilja verðbólguþróun, en fram að því hafði athyglin beinst að svokallaðri „Phillips-kúrfu“ sem er í sinni einföldustu mynd samband verðbólgu og atvinnuleysis. Áttundi áratugurinn einkenndist einmitt af mikilli verðbólgu og var það undir forystu Volkers seðlabankastjóra Bandaríkjanna að seðlabankar fóru að taka mið af verðbólguvæntingum með það að markmiði að ná tökum á væntingum. Á þessum tíma voru stýrivextir í hæstu hæðum og með tímanum leiddi sú peningastefna ásamt kerfisumbótum á framboðshliðinni í hagkerfinu til viðvarandi lækkunar verðbólgu í flestum þróuðum hagkerfum. Íslendingar voru seinni til og náðist ekki árangur í glímunni við verðbólgu fyrr en með þjóðarsáttinni og í kjölfarið kerfisumbótum í hagkerfinu um áratug síðar.
Verðbólguvæntingar og peningastefna
Seðlabankar nota verðbólgumarkmið, stýritæki bankans og samskipti við almenning til að stýra væntingum. Ef almenningur á von á hærri verðbólgu í framtíðinni getur hann brugðist við með aðgerðum sem auka á verðbólguna, til dæmis með því að krefjast hærri launa. Ef einstaklingar búast við að verðlag hækki er jafnframt líklegra að þeir eyði frekar nú en seinna. Á sama hátt aðlaga fyrirtæki verðlags- og fjárfestingarákvarðanir sínar út frá væntingum um verðbólgu í framtíðinni. Verðbólguvæntingar hafa þannig áhrif á ákvarðanir neytenda og fyrirtækja. Þetta er hegðun sem eldri Íslendingar kannast við og má að sumu leyti líkja þeirri kauphegðun við viðvarandi „svartan föstudag“. Verðbólguvæntingar skipta því afar miklu máli við ákvörðun vaxta. Seðlabankar geta aðlagað vexti eftir því hvort þeir vilja örva efnahagsstarfsemi eða draga úr verðbólgu. Væntingar um meiri verðbólgu í framtíðinni geta leitt til hærri nafnvaxta, en væntingar um lægri verðbólgu geta hins vegar leitt til þess að vextir lækki fyrr en ella.
Óvissa um verðbólguhorfur til skamms tíma hefur aukist vegna veikingar krónunnar og jarðhræringa á Reykjanesi. Seðlabankinn hefur áhyggjur af því að áhrif nýlegra kostnaðarhækkana séu vanmetin, þar sem kjölfesta verðbólguvæntinga er veik.
Kjarasamningar losna í byrjun næsta árs og það er afar mikilvægt að öll hagstjórnin rói á sömu mið. Laun æðstu embættismanna hækkuðu í sumar um 2,5% og fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir ríkisvaldsins eru 3,5%. Ákveðið var að fara þessa leið til að vinna að því að minnka verðbólguvæntingar. Því er brýnt að fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir sveitarfélaganna séu afar hóflegar til að hægt sé að vinna að langtímakjarasamningum. Ef sveitarfélögin fara í miklar hækkanir, þá festast kostnaðarhækkanir í sessi og afar erfitt verður að ná niður verðbólgunni.
Samstillt hagstjórn er lykilatriði fyrir þjóðarbúið. Sterkar vísbendingar eru um að innlend umsvif hagkerfisins séu að kólna hratt. Einkaneysla hefur minnkað ásamt fjárfestingum. Jafnvægi er einnig að nást í utanríkisviðskiptum á ný. Ég er sannfærð um takist að sporna gegn frekari hækkunum muni nást árangur í glímunni við verðbólgu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
40 ára garðveisla íslenskrar tónlistar á erlendri grundu
Á þessu ári eru liðin 40 ár frá því að fyrsta íslenska dægurtónlistin náði inn á alþjóðlega vinsældalista þegar Mezzoforte náði hæst 17. sæti á breska vinsældalistanum. Fram að þeim tíma höfðu verið gerðar margvíslegar tilraunir til að afla vinsælda á erlendri grundu. Á lýðveldistímanum hefur orðið mikil þróun á íslenskri dægurtónlist. Gunnar Hjálmarsson hefur gert þessari sögu ágæt skil í bókum sínum og sjónvarpsþáttum þeim tengdum. Einhverjir íslenskir tónlistarmenn náðu að ferðast um og flytja tónlist sína á Norðurlöndunum og Norður-Evrópu á sjötta og sjöunda áratugnum, þ. á m. Ragnar Bjarnason, Haukur Morthens og KK-sextettinn. Þessi útrás var ekki einungis karllæg, þar sem upp úr miðjum sjötta áratugnum fór lagasmiðurinn og söngkonan Ingibjörg Þorbergs til Bandaríkjanna með lög sín. Aðrar tilraunir til útrásar voru gerðar á sjötta og sjöunda áratugnum og þekktustu dæmi þess líklega Thor’s Hammers og Change í Bretlandi. Það var þó ekki fyrr en með djassblendinni tónlist Mezzoforte árið 1983 að íslensk tónlist náði eyrum erlenda hlustenda og sautjánda sætinu á breska vinsældalistanum. Það leið síðan ekki á löngu þar til Sykurmolarnir fylgdu þessu eftir árið 1987 og náðu miklum vinsældum beggja vegna Atlantsála og hin einstaka Björk kom þar síðan í beinu framhaldi.
Við eigum frábæra tónlistarmenn á Íslandi og tónlist þeirra stendur fyrir sínu, en það gleymist stundum að horfa til vinnunnar baksviðs við að koma tónlistinni á framfæri og hafa margir í gegnum tíðina unnið ötullega að því með ágætum árangri. Hið opinbera hefur stutt við útrás íslenskrar tónlistar með margvíslegum hætti frá árinu 1995. Í nýstofnaðri Tónlistarmiðstöð hefur öllum öngum tónlistar verið safnað saman undir einn hatt og er þar meðal annars að finna Útón, sem stutt hefur við kynningu íslenskrar tónlistar á erlendri grund frá árinu 2006.
Frá þeim tíma að Mezzoforte náði inn á vinsældalista erlendis hefur fjöldi íslenskra dægurtónlistarmanna náð fótfestu erlendis og má þar meðal annars nefna Sykurmola, Björk, Emilíönu Torrini, Sigurrós, Gusgus, Jóhann Jóhannsson, OMAM, Kaleo, Hildi Guðnadóttur, ADHD, Víking Heiðar, Ásgeir Trausta, Ólaf Arnalds, Ásdísi, Daða Frey og nú síðast Laufeyju. Það sem vekur athygli er fjölbreytnin í þessum hópi listamanna og segir það til um þá miklu gerjun sem er að finna í tónlistarlífinu á Íslandi. Í þeim efnum ber sérstaklega að minnast á framlag þeirra tónlistarmanna sem kosið hafa að starfa einungis innanlands. Ef litið er til þessa hóps vekur styrkur kvenna jafnframt athygli.
Við tilnefningu til Grammy-verðlauna fyrr í þessum mánuði kom fram að tveir íslenskir listamenn auk Sinfóníu Nord á Akureyri voru tilnefndir til verðlauna, sem eru auðvitað frábærar fréttir, en þykir í raun ekki lengur mikið tiltökumál þar sem nokkur hópur íslenskra listamanna hefur áður fengið tilnefningar og jafnvel hreppt verðlaun. Það segir jafnframt ýmislegt að ef einungis er horft til streymisveitunnar Spotify nálgast fimm efstu íslensku listamennirnir nærri 40 milljónir mánaðarlegra hlustenda. Það er ekki slæmur árangur á 40 árum fyrir þjóð sem nú telur 400 þúsund manns.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. nóvember 2023.
Nú er vika íslenskunnar. Markmið með henni er að auka umræðu um málefni íslenskrar tungu og fagna því sem vel er gert í þágu tungumálsins. Við fögnum degi íslenskrar tungu í 28. skipti og munu hátíðarhöldin að þessu sinni fara fram í nýju húsi íslenskunnar – Eddu. Mörgu er að fagna en að þessu sinni er vika íslenskunnar einnig nýtt til þess að vekja máls á þróun tungumálsins og sýni- og heyranleika þess og höfum við þegar fengið frekar hressileg viðbrögð við þeirri vitundarvakningu. Markmið hennar er að spyrja hvar við viljum draga mörkin varðandi áhrif enskunnar í okkar daglega umhverfi. Ætlar Jón Johnsson að halda concert á Eagle Hill á næstu Culture Night?
Hið sjálfsagða mál
Þeim fjölgar ört sem benda á fáránleika þess að auglýsingum og markaðsefni á ensku sé beint að íslenskumælandi neytendum, að þjónusta sé ekki í boði á íslensku og að almannarými séu uppfull af skilaboðum á ensku og íslenskan þar í öðru sæti eða hreint ekki sýnileg. Ég hef sagt að við þurfum alvöru viðhorfsbreytingu gagnvart tungumálinu okkar – það er stórt samfélagslegt verkefni að vinda ofan af þeirri misskildu þjónustulund sem hefur orðið til þess að enska er álitin sjálfsagt mál svo víða í samfélaginu. Ég fagna öllum sem vilja leggjast á sveif með okkur í því verkefni að auka sýni- og heyranleika tungumálsins, þar á meðal fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar sem á dögunum stigu fram og lýstu yfir vilja til að stíga inn af krafti í það verkefni að vinna gegn þýðingu íslenskra örnefna yfir á ensku. Íslenska á alls staðarað vera sýnilegá opinberum vettvangiog upplýsingar alltaf aðgengilegar á íslensku. Þótt enska og önnur mál geti víða þurft að vera áberandi á það ekki að vera á kostnað íslensku.
Aðgerða er þörf
Við vitum að það er langtímaverkefni að tryggja verndun og þróun íslenskrar tungu. Það er samfélagslegt verkefni sem við náum árangri í með fjölþættum aðgerðum og breiðri samvinnu. Að vinna að framgangi íslenskunnar og tryggja stöðu hennar í heimi örra tæknibreytinga og fólksflutninga er samvinnuverkefni sem kallar ótal hendur til góðra verka. Unnið hefur verið að mótun aðgerða í þágu tungumálsins á vettvangi þeirra fimm ráðuneyta sem aðkomu eiga að ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu. Nefndin var sett á laggirnar að frumkvæði forsætisráðherra í nóvember í fyrra og á næstu dögum mun ég leggja fram þingsályktunartillögu um sameiginlega aðgerðaáætlun sem telur alls 19 aðgerðir. Aðgerðirnar snerta flest svið samfélagsins og eru misumfangsmiklar en í þeim er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar en áætlunin hefur tengsl við mörg önnur áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og aðgerðaáætlun ferðaþjónustu til 2030.
„Sorry með allar þessar slettur“
Við getum öll gert betur. Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki barnanna best þegar kemur að enskuskotnu málfari. Þetta er mjög lúmsk þróun. Slettur hafa vitanlega verið hluti af tungumálinu og sögulega höfum við aðlagað heilmikið af slettum og gert þær að hluta af okkar orðaforða, en þegar fólk – og þá er ég ekki síst að hugsa um börnin – fer að hugsa, skapa og leika sér á öðru tungumáli en sínu eigin móðurmáli verðum við að staldra við.
Tungumál eru mikilvægustu verkfæri hvers samfélags – án þess eru engin samskipti. Við eigum íslenskuna – notum hana, hún er málið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst á visir.is 16. nóvember 2023.
Á undanförnum árum hafa heimsbúskapurinn og alþjóðaviðskiptin þurft að takast á við áskoranir af risavöxnum toga. Heimsfaraldurinn sneri daglegu lífi fólks um allan heim á hvolf eins og við öll munum eftir. Neysluvenjur fólks breyttust og stjórnvöld víða um heim kynntu umfangsmikla efnahagspakka til stuðnings fólki og fyrirtækjum ásamt því að seðlabankar fjölmargra ríkja lækkuðu stýrivexti til að örva hagkerfi. Aðfangakeðjur víða um heim fóru úr skorðum með tilheyrandi hökti í alþjóðaviðskiptum og áhrifum á markaði. Í blálok faraldursins tók svo við innrás Rússlands í Úkraínu. Innrásin markaði þáttaskil í öryggis- og varnarmálum Evrópu og varpaði skýru ljósi á veigamikla veikleika hjá ríkjum Evrópu hvað viðkom orkuöryggi, enda voru mörg þeirra háð innflutningi á rússnesku gasi og olíu. Orkuverð tók að snarhækka á meginlandi Evrópu sem og verð á fjölmörgum vöruflokkum, til að mynda matvælum. Þar hafði áhrif að Úkraína er stór framleiðandi korns, en landið hefur oft verið kallað brauðkarfa Evrópu. Þá hafa auknar hindranir í alþjóðaviðskiptum, til að mynda viðskiptastríðið milli Bandaríkjanna og Kína, bætt gráu ofan á svart.
Verðbólguþróunin á heimsvísu fór ekki varhluta af fyrrnefndri þróun eins og við þekkjum einnig hér á landi. Á árinu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörgum samanburðarríkjum. Á tímabili mældist samræmd verðbólga á Íslandi sú næstlægsta í Evrópu, 6,4% í nóvember 2022, en var þá 11,5% hjá ríkjum Evrópusambandsins. Verðbólgan á Íslandi hefur reynst þrálátari og mælist nú 7,9%, hagvöxtur hér er kröftugri en víðast hvar. Efnahagsbatinn á heimsvísu er hins vegar hægfara og ójafn eftir svæðum. Þó að verðbólga á heimsvísu sé víða í rénun er of snemmt að fagna sigri. Verðbólgan í Bandaríkjunum er enn býsna treg enda gangur efnahagslífsins öflugur. Betur hefur gengið með verðbólguna víða í Evrópu, en þar eru önnur vandamál, t.d. mælist nú efnahagssamdráttur í Þýskalandi.
Íslensk stjórnvöld vinna að því hörðum höndum að lækka skuldir ríkissjóðs og ná heildarjöfnuði. Kjör á ríkisskuldum á heimsvísu hafa versnað verulega. Sérstaka athygli vekur hvað kjör bandarískra ríkisskulda hafa versnað og er krafan um 4,5% vextir til 10 ára. Meginástæðan fyrir þessari þróun er að fjárlagahallinn er mikill auk þess sem skuldastaðan heldur áfram að versna. Ásamt því er rekin aðhaldssöm peningastefna, þar sem vextir hafa hækkað mikið og bandaríski seðlabankinn hefur snúið við hinni umfangsmiklu magnbundnu íhlutun og hafið sölu á ríkisskuldabréfum. Margir telja að vegna þessa nái markaðurinn ekki að berjast gegn þessu mikla framboði og því hafi kjörin versnað mikið. Fyrir Ísland skiptir mestu í þessu kvika efnahagsumhverfi að halda vöku okkar og að hagstjórnin sé það styrk að verðbólgan lækki og vaxtakjörin batni hratt í kjölfarið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.
Á undanförnum árum hefur margt áunnist til að styrkja verulega umgjörð tónlistarlífsins í landinu. Tónlist er ekki einungis veglegur hluti af menningu landsins, hún er einnig atvinnuskapandi og mikilvæg útflutningsgrein þar sem tónlistarverkefni geta skapað mörg afleidd störf. Ný tónlistarstefna var samþykkt á síðasta þingi með það að markmiði að styðja við tónlist sem listgrein, tónlistarfólk og aðra sem starfa við tónlist. Tónlistarlífið hérlendis er undirbyggt af metnaðarfullu tónlistarnámi um allt land, samstarfi og þori til þess að fara ótroðnar slóðir. Þessum mikla krafti finnur maður sérstaklega fyrir í grasrót tónlistarlífsins, sem er óþrjótandi uppspretta frumsköpunar í tónlist. Hluti af umgjörð menningarmála í landinu snýr að aðstöðu til tónlistariðkunar og aðgengi að slíkri aðstöðu. Eitt markmiða í tónlistarstefnunni er að húsnæði til tónlistariðkunar verði greint og kortlagt, t.d. hvaða húsnæði í eigu hins opinbera, t.d. menningarhús eða félagsheimili um allt land, væri hægt að nýta undir sköpun, hljóðritun eða flutning tónlistar.
Eitt okkar helsta tónlistarhús, Harpa, starfar í samræmi við eigendastefnu ríkisins og Reykjavíkurborgar, þar sem m.a. er lögð áhersla á menningarlegt hlutverk Hörpu og það markmið eigenda að með rekstri hennar sé stuðlað að eflingu íslensks tónlistar- og menningarlífs. Í samræmi við eigendastefnuna hefur Harpa mótað sér dagskrárstefnu sem miðar að því að auka fjölbreytni tónleikahalds, styðja við nýsköpun í tónlist og auðvelda aðgengi ungs tónlistarfólks úr grasrótinni, þvert á tónlistarstefnur, að Hörpu sem tónlistarhúsi allra landsmanna.
Liður í þessu er t.a.m. samstarf Hörpu, Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur og Rásar 2 um sérstaka tónleikaröð tileinkaða grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á stefnur, sem kallast Upprásin og fer fram í Kaldalóni. Auglýst var eftir umsóknum um þátttöku í tónleikaröðinni sl. vor og bárust alls 134 umsóknir. Fjöldi og gæði umsókna fór fram úr vonum aðstandenda verkefnisins. Úr varð að 88 ungir einstaklingar munu koma fram á tónleikaröðinni, á mánaðarlegum tónleikum fram á vor þar sem fluttar verða fjölbreyttar tegundir tónlistar.
Harpa leggur til salinn Kaldalón auk tækja og vinnu í tengslum við tónleikana. Tónlistarborgin tryggir að flytjendur fái greitt fyrir að koma fram. Rás 2 annast kynningarstarf fyrir tónlistarfólkið og tekur tónleikana upp. Miðaverði er stillt í hóf en tónleikagestir eru hvattir til að styrkja tónlistarfólkið með frjálsu viðbótarframlagi. Það skiptir ungt tónlistarfólk máli að fá tækifæri líkt og þetta til þess að koma tónlist sinni á framfæri í glæsilegri aðstöðu líkt og Harpa hefur upp á að bjóða. Hér er aðeins um eina góða dæmisögu að ræða af mörgum um þá miklu gerjun sem á sér stað í menningarlífi þjóðarinnar, en þær eru mýmargar sem er fagnaðarefni fyrir íslenskt samfélag.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2023.
Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna
Claudia Goldin hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár fyrir að efla skilning okkar á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Hagrannsóknir Goldin ná yfir síðustu 200 ár og fjalla um stöðu kvenna á bandarískum vinnumarkaði og vegferðina að auknu launajafnrétti. Rannsóknir hennar hafa hrakið hefðbundnar ályktanir um hvaða breytur leiði til aukins jafnréttis. Fyrir rannsóknir Goldin var talið að aukinn hagvöxtur leiddi til aukins jafnréttis á vinnumarkaðinum. Í rannsóknum sem birtar voru árið 1990 sýndi Goldin fram á að það var ekki fyrr en á tuttugustu öldinni, þegar störfum í þjónustugeiranum fjölgaði og menntun á framhaldsskólastigi þróaðist, að launamunur kynjanna fór að minnka.
Væntingar um barneignir skýra launamun
Á tuttugustu öld jókst menntunarstig kvenna stöðugt og hafði áhrif á að minnka launamuninn fram af. Önnur stór skýribreyta er aðgangur kvenna að getnaðarvarnarpillunni árið 1961 í Bandaríkjunum, þar sem hún gerði konum kleift að skipuleggja náms- og starfsferilinn. Hefðbundin söguskýring á launamun kynjanna var sú að konur og karlar hefðu á unga aldri valið sér menntun, sem leiddi síðan til ákveðinna starfa sem væru misvel launuð. Goldin komst hins vegar að því að sá launamunur sem enn er við lýði skýrist að stærstum hluta af áhrifum barneigna. Hagrannsóknir Goldin sýna fram á að launamunur kynjanna minnkaði í nokkrum skrefum. Laun kvenna hækkuðu í hlutfalli við laun karla á árunum 1820-50, og svo aftur 1890-1930, áður en þau hækkuðu á árunum 1980-2005 (sjá mynd 1).
Mestu breytingarnar eiga sér stað á áttunda áratug síðustu aldar. Kynbundinn launamunur hefur haldist nokkuð stöðugur í Bandaríkjunum undanfarin 20 ár. Árið 2022 voru meðallaun kvenna 82% af því sem karlar höfðu að meðaltali. Meginútskýring á því að launamunurinn minnkar felst í væntingum, þ.e. ef ung kona stýrir því hvenær og hvort hún eignast barn og hefur meiri væntingar um að konur geti unnið fjölbreytt störf, þá fjárfestir hún meira í framtíð sinni. Á árunum 1967-1979 jókst hlutfall 20 og 21 árs kvenna sem væntu þess að vera í vinnu 35 ára úr 35% í 80%! Einn annar mikilvægur áhrifavaldur þessara umbreytinga, sem fylgdu pillunni, var að konur gátu frestað giftingu sem olli því samkvæmt Goldin að þær tóku háskólanám fastari tökum, gátu hugsað sér sjálfstæða framtíð og mótað sjálfsmynd sína fyrir hjónaband og fjölskyldu.
Leiðréttur launamunur karla og kvenna á Íslandi er 4,3%
Samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands var óleiðréttur launamunur karla og kvenna 9,1% árið 2022 og dróst saman frá fyrra ári úr 10,2%. Óleiðréttur launamunur kynjanna á Íslandi hefur minnkað hægt og bítandi síðustu áratugi. Launamunur á Íslandi eykst eftir aldri og er munurinn 0,7% á meðal 24 ára og yngri og 16,3% á meðal 55-64 ára. Þessi niðurstaða er í samræmi við rannsókn sem Hagstofan gerði árið 2021 en þar kom fram að launamunur karla og kvenna dróst saman frá 2008 til 2020. Kynbundin skipting vinnumarkaðar í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem er til staðar en áhrif menntunarstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin (sjá mynd 2).
Það er afar jákvætt að launamunur kynjanna haldi áfram að minnka enda er það hagur allra. Ísland er metið vera sá staður í veröldinni þar sem best er að vera útivinnandi kona, samkvæmt tímaritinu Economist og glerþaksvísitölunni.
Enn í dag hafa barneignir og hjúskapur mikil áhrif á launamun í Bandaríkjunum
Launamunur kynjanna út frá framhaldsnámi í Bandaríkjunum hefur ekki breyst mikið frá árinu 2005 og Goldin hefur verið að leita skýringa. Í bók sem hún gaf út árið 2021 kemur hún með þá kenningu að störfum sem fela í sér mikla yfirvinnu og óvissu sé um að kenna. Fram kemur í langtímagögnum þar sem fylgst er með lífi og tekjum einstaklinga í Bandaríkjunum að laun karla og kvenna eru áberandi svipuð strax eftir framhaldsnám eða háskólanám. Á fyrstu árum starfsferilsins er launamunur lítill hjá nýútskrifuðum háskólanemum og skýrist hann að mestu leyti af ólíku náms- og starfsvali karla og kvenna. Karlar og konur byrja nánast á sama tekjugrunni og hafa mjög svipuð tækifæri. Það er ekki fyrr en lengra er liðið á ævina, um tíu árum eftir að háskólanámi lýkur, að mikill launamunur kemur í ljós hjá körlum og konum, sérstaklega þeim konum sem eiga tvö börn.
Barneignir hafa ekki mikil áhrif á launamun á Íslandi en yfirvinna skýrir muninn
Þegar svokallaður leiðréttur launamunur er skoðaður var hann 4,3% á Íslandi árið 2019. Þetta þýðir að ef karlar og konur ynnu að jafnaði sömu störf, í sömu atvinnugreinum, þá stæði eftir að konur fengju að meðaltali um 4,3% lægri laun en karlar vegna kyns síns. Hins vegar þegar aðeins er leiðrétt fyrir lýðfræðilegum breytum, þ.e. aldri, hjúskaparstöðu og fjölda barna, var leiðréttur launamunur 10,9% árið 2019. Það gefur til kynna að breyturnar í líkaninu skýri einungis að litlu leyti óleiðrétta launamuninn. Niðurstöður gefa einnig til kynna að þessar breytur hafi marktækt ólík áhrif á karla og konur. Hjúskaparstaða á Íslandi hefur til að mynda engin áhrif á laun kvenna en það að einstaklingur sé í sambúð hefur jákvæð áhrif á laun karla. Slík áhrif eru þekkt í fjölmörgum löndum en nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum sýnir að áhrifin eru einkum vegna þess að karlmenn með hærri laun eru líklegri til þess að kvænast, þ.e. launin hafa áhrif á hjúskaparstöðu en ekki öfugt. Fjöldi barna undir tveggja ára aldri hefur samkvæmt rannsókninni ómarktæk áhrif á laun kvenna á Íslandi og lítil áhrif (til lækkunar) á laun karla.
Hagrannsóknir Goldin eru mjög áhugaverðar. Áður en Goldin hóf rannsóknir sínar töldu margir fræðimenn að spurningum um launamun kynjanna í sögulegu samhengi væri ósvarað vegna skorts á gögnum. Segja má að sú leið sem Ísland hefur farið í jafnréttismálum sanni hagfræðikenningar Goldin, þ.e. að með öflugri uppbyggingu leikskólastigsins ásamt 12 mánaða fæðingarorlofi hafi launamunurinn minnkað markvisst. Framsækin kvennabarátta í gegnum tíðina skiptir einnig sköpum. Þrátt fyrir það er launamunur og hann eykst eftir aldri. Þessu þarf að breyta ásamt því að efla leikskólastigið og starfsumhverfi kennara!
Ég óska samfélaginu til hamingju með daginn og hvet okkur öll til áframhaldandi góðra verka í þágu jafnréttismála.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2023.
Kastljós helstu stjórnmálaleiðtoga heimsins heldur áfram að beinast að ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs, sem stigmagnaðist mjög hratt í kjölfar grimmilegra árása Hamas-hryðjuverkasamtakanna í Ísrael. Svæðið er því miður aftur orðið púðurtunna þar sem hætta er á enn frekari stigmögnun og opnun nýrra víglína með slæmum afleiðingum. Vísbendingar í þessa veru birtast okkur meðal annars í átökum Ísraelshers og Hezbollah-samtakanna í Líbanon sem hafa skipst á skotum yfir landamærin í norðurhluta Ísraels. Augu margra beinast að Íran sem hefur um árabil stutt við Hezbollah- og Hamas-samstökin, ásamt öðrum vígahópum í Mið-Austurlöndum, með vopnum, þjálfun og hernaðarupplýsingum.
Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína á fimmtudagskvöld í framhaldi af heimsókn sinni til Mið-Austurlanda í vikunni. Fór ávarpið fram úr forsetaskrifstofunni sjálfri sem þykir til marks um alvarleika málsins, en þetta var aðeins annað ávarp forsetans til þjóðar sinnar með þeim hætti. Biden fór meðal annars yfir þá varhugaverðu stöðu sem er uppi í heiminum, þar sem stríð geisar í Evrópu vegna ólöglegrar innrásar Rússa í Úkraínu og hins vegar stríðið milli Ísraels og Hamas.
Þetta eru sannarlega viðsjárverðir tímar sem við lifum á og ekki síst í ljósi þess að enn skýrari skil í alþjóðastjórnmálunum virðast vera að teiknast upp, þar sem til að mynda hernaðarleg samvinna Rússlands, Írans og Norður-Kóreu hefur aukist til muna. Í því samhengi má nefna að Norður-Kórea hefur ákveðið að sjá Rússum fyrir vopnum og skotfærum fyrir stríðsrekstur þeirra í Úkraínu, líkt og Íranir hafa gert um talsvert skeið. Því hefur meðal annars verið velt upp hvort með þýðari samskiptum sínum við Norður-Kóreu séu Rússar að búa sér til sterkari stöðu á Kóreuskaganum, þar sem ástandið er nú þegar viðkvæmt milli Norður- og Suður-Kóreu.
Á hinn bóginn urðu vatnaskil í vestrænni samvinnu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og hefur hernaðarsamvinna Vesturlanda stóraukist í kjölfarið. Blað var brotið í sögu Evrópusambandsins þegar það stóð í fyrsta sinn fyrir beinum hernaðarstuðningi við Úkraínu og öflug ríki innan sambandsins, líkt og Þýskaland, hafa stóraukið framlög sín til varnarmála.
Ísland er lánsamt ríki að mörgu leyti. Nýverið var tilkynnt að Ísland væri öruggasta ríki heims samkvæmt Alþjóðlegu friðarvísitölunni (e. Global Peace Index), en það er 15. skiptið í röð sem það gerist. Það að búa við frið og öryggi er því miður ekki sjálfsagt í heiminum eins og nútíminn ber glögg merki um. Ísland hefur tekið réttar ákvarðanir í gegnum tíðina, til dæmis með stofnaðild sinni að Atlantshafsbandalaginu 1949 og samningi um tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin 1951. Við sem þjóð verðum að halda áfram að vera á tánum, á sama tíma og við stöndum með almennum borgurum, sem því miður fara alltaf verst út úr stríðsátökum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2023.
Síðasta vika á fjármálamörkuðum hefur einkennst af flótta fjárfesta úr áhættu í öryggi, þ.e. ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hefur lækkað meðan hlutabréfin hafa fallið í verði. Meginorsökin er að miklar væringar eru í alþjóðastjórnmálunum. Stríðin í Mið-Austurlöndum og Úkraínu hafa mest um þessa þróun að segja.
Horfurnar og hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Efnahagsbatinn á heimsvísu er hægfara og ójafn eftir svæðum. Hagvöxtur er minni hjá nýmarkaðs- og þróunarríkjum. Ýmsir þættir vega þungt, t.a.m. hafa vextir hjá ýmsum nýmarkaðsríkjum verið hærri vegna aukinnar verðbólgu, sem hefur dregið úr hagvexti. Sú verðbólga sem heimsbúskapurinn hefur verið að kljást við hefur verið drifin áfram af mörgum þáttum, en helst ber að nefna röskun á aðfangakeðjunni, umfangsmiklar stuðningsaðgerðar opinberra aðila til að styðja við eftirspurn vegna covid-19, stríðið í Úkraínu, vaxandi spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Kína ásamt aukinni verndarstefnu ríkja um heim allan. Verðbólga á heimsvísu er víða í rénun en það er of snemmt að fagna sigri. Verðbólgan í Bandaríkjunum er enn býsna treg enda öflugur gangur efnahagslífsins, en betur hefur gengið með verðbólguna víða í Evrópu, en þar eru önnur vandamál, t.d. mælist efnahagssamdráttur í Þýskalandi. Í efnahagsspá AGS sem birtist í síðustu viku er gert ráð fyrir að hagvöxtur á heimsvísu lækki úr 3,5% árið 2022, í 3% bæði árið 2023 og árið 2024. Hagspáin er undir sögulegum vexti á heimsvísu, sem var að meðaltali 3,8% fyrstu tvo áratugi aldarinnar. Hækkun stýrivaxta seðlabanka sem beinist gegn verðbólgu heldur áfram að hægja á efnahagsumsvifum. Gert er ráð fyrir að verðbólga á heimsvísu lækki úr 8,7% árið 2022 í 6,9% árið 2023 og 5,8% árið 2024. Áætlað er að undirliggjandi (kjarna)verðbólga lækki meira og smám saman og hafa spár um verðbólgu árið 2024 verið endurskoðaðar til hækkunar. Gert er ráð fyrir að verðbólga á heimsvísu nái jafnvægi árið 2025. Spár fyrir árið 2023 og 2024 eru hins vegar endurskoðaðar lítillega til lækkunar og ekki er gert ráð fyrir að verðbólga nái markmiði fyrr en árið 2025 í flestum tilvikum.
Áframhaldandi órói í heimshagkerfinu
Áhættan í alþjóðahagkerfinu heldur áfram að aukast og endurspeglast það á fjármálamörkuðum. Greina má þessa áhættuþætti í fimm þætti. Í fyrsta lagi hafa stríðin í Úkraínu og Mið-Austurlöndum verulega neikvæð áhrif á líf fólksins á svæðinu. Skelfileg stríð sem bitna verst á saklausu fólki. Í öðru lagi, þá hækkaði verðbólgan í Bandaríkjunum lítils háttar, sem gefur til kynna að hún er þrálátari en vonir stóðu til. Þetta þýðir að vextir verða hærri til lengri tíma í Bandaríkjunum en ýmsir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Í þriðja lagi ríkir stöðnun í Kína og hagkerfið þar er að mæta ýmsum nýjum áskorunum í fjármálakerfinu og á fasteignamarkaði. Þetta er ný staða fyrir kínverska hagkerfið, sem hefur vaxið gríðarlega síðustu áratugi og að mörgu leyti dregið vagninn varðandi hagvöxt í heimsbúskapnum. Að sama skapi skortir enn á gagnsæi á mörkuðum þar og því hafa fjárfestar meiri fyrirvara en ella. Í fjórða lagi hefur skuldastaða nýmarkaðs- og þróunarríkja versnað og í háu vaxtaumhverfi þurfa fleiri ríki á endurskipulagningu skulda að halda. Sömu lögmál ríkja um einkageirann sem ekki hefur farið varhluta af vaxtahækkunum eftir áratugi hagkvæmra vaxta. Að lokum má nefna að alþjóðavæðing hefur átt undir högg að sækja og hefur vöxtur alþjóðlegra viðskiptahindrana verið mikill. Sú þróun ýtir undir hækkanir á verðbólgu á heimsvísu.
Tíðar stýrivaxtahækkanir hafa ekki skilað tilætluðum árangri – hvað veldur?
Peningastefnan í Bandaríkjunum hefur verið afar aðhaldssöm í rúmt ár og verðbólgan hefur lækkað og nemur nú 3,7%. Stýrivextir hafa ekki verið jafnháir í Bandaríkjunum í 22 ár. Bandaríska hagkerfið er ekki að bregðast við stýrivöxtum með hefðbundnum hætti. Þrátt fyrir það hefur framleiðslutapið ekki verið mikið né heldur hefur atvinnuleysið aukist. Meginorsök verðbólgunnar er dýpri en að hægt sé að skýra hana út einvörðungu með efnahagsaðgerðum sem tengjast covid-19. Þó hafa margir talið að umframeftirspurnin í bandaríska hagkerfinu í kjölfar covid-19 sé rót vandans. Hins vegar er það svo að þessar efnahagsaðgerðir hafa aukið ójafnvægið sem kom vegna þeirra efnahagsaðgerða sem farið í í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar 2008-2010. Stýrivextir voru lækkaðir verulega og hin magnbundna íhlutun var afar umfangsmikil, þannig að kaup seðlabanka á skuldabréfum voru mikil og peningamagn í umferð jókst verulega eða sem nemur um 8 trilljónum bandaríkjadala. Augljóslega hefur þessi aukning mikil áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Peningamagn í umferð jókst frá því að vera um 500 milljarðar í 8 trilljónir frá 2007-2022. Bandaríski seðlabankinn hefur hafið áætlun um að draga úr skuldabréfakaupunum og draga úr þessu peningamagni í umferð. Að sama skapi hefur ríkisfjármálin skort aðhald enda er fjárlagahallinn í ár um 10% af landsframleiðslu þrátt fyrir kröftuga viðspyrnu hagvaxtar í kjölfar covid. Á árunum 2020 og 2021 var fjárlagahalli um 10-14% af landsframleiðslu. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur ekki verið einn í því að stækka efnahagsreikninginn sinn verulega, sama þróunin hefur verið í öllum helstu seðlabönkum veraldar.
Stærsta viðfangsefni íslensks samfélags
Ísland hefur ekki farið varhluta af þeirri verðbólguþróun sem hefur átt sér stað í heiminum. Á árinu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörgum samanburðarríkjum. Á tímabili mældist samræmd verðbólga á Íslandi sú næstlægsta í Evrópu, eða 6,4% í nóvember 2022 samanborið við 11,5% hjá ríkjum Evrópusambandsins. Verðbólgan hér á landi hélt áfram að hækka þar til hún náði hámarki í byrjun árs þegar hún mældist 10,2%. Síðan þá höfum við séð hana lækka en í dag stendur hún í 8%. Mikill þróttur hefur einkennt íslenska hagkerfið síðasta ár, sem skýrist af miklum viðsnúningi í ferðamennskunni og hagkvæmum viðskiptakjörum fyrir sjávarútveg og iðnað. Helsta stjórntæki Seðlabanka Íslands, stýrivextirnir, er farið að skila tilætluðum árangri til kælingar. Ríkisfjármálin hafa stigið skarpt til hliðar frá því í covid og nýlega hefur ríkisstjórnin kynnt aðhaldsamt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 þar sem lögð er áhersla á aðhald og aukna forgangsröðun í ríkisrekstrinum á sama tíma og staðinn er vörður um mikilvæga grunnþjónustu í landinu. Glíman við verðbólguna er stærsta viðfangsefni samfélagsins, en verðbólgan bitnar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnaminni. Það að ná niður verðbólgu er algjört forgangsmál ríkisstjórnarinnar, en á þeirri vegferð þurfa allir að ganga í takt; stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnumarkaðarins. Ég er bjartsýn á að við munum sjá verðbólguna lækka á komandi mánuðum ef við höldum rétt á spilunum, en það er til mjög mikils að vinna fyrir heimili og fyrirtæki landsins að ná tökum á henni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2023.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.