Handan við hornið er merkisáfangi í sögu íslensku þjóðarinnar en þann 17. júní næstkomandi verða liðin 80 ár frá því að stofnun lýðveldisins átti sér stað hér á landi. Með því lauk sambandi milli Íslands og Danmerkur sem staðið hafði yfir í aldir og stjórnarfarinu sem við þekkjum í dag var komið á. Á ferðum og fundum mínum undanfarið bera þessi tímamót nokkuð reglulega á góma í samtölum mínum við fólk. Þökk sé góðu langlífi hér á landi er drjúgur hópur núlifandi Íslendinga sem fæddist undir dönskum kóngi. Áttatíu ár eru í raun ekki það langur tími þegar maður hugsar út í það, en breytingarnar sem orðið hafa á íslensku samfélagi eru ótrúlegar. Frá því að vera eitt fátækasta ríki Evrópu, yfir í það að vera í fremstu röð lífskjara í heiminum samkvæmt helstu mælingum. Þannig hefur sjálfstæðið reynst blessun í sókn okkar fram á við, blásið í okkur enn frekari kjarki til þess að gera betur. Það er óbilandi trú mín að það stjórnarfar sem er farsælast byggist á því að ákvarðanir um velferð fólks eru teknar sem næst fólkinu sjálfu.
Lýðveldið er hraust og sprelllifnandi eins og nýafstaðnar forsetakosningar eru til vitnis um. Öflugur hópur frambjóðenda gaf þar kost á sér til að gegna embætti forseta Íslands, fjölmargir sjálfboðaliðar lögðu forsetaframbjóðendum lið með ýmsum hætti og kjörsókn var sú besta í 28 ár. Allt upptalið er mikið styrkleikamerki fyrir lýðræðissamfélag eins og okkar. Því miður er sótt að lýðræði og gildum þess víða um heim í dag. Það er óheillaþróun sem sporna þarf við. Lýðræðið þarf nefnilega að rækta og standa vörð um. Þar gegnir virkt þátttaka borgaranna lykilhlutverki, hvort sem það felst í að bjóða sig fram til embætta, skrifa skoðanapistla, baka vöfflur í kosningabaráttu, bera út kosningabæklinga eða mæta á kjörstað. Allt þetta er hluti af virku lýðræðisþjóðfélagi.
Mikilvægur hluti af því að rækta lýðveldið og lýðræðið er að fagna því og halda upp á mikilvæga áfanga í sögu þess. Komandi lýðveldisafmæli er einmitt slíkur áfangi en fjölbreytt hátíðardagskrá verður út um allt land í tilefni af 17. júní. Einnig hefur nefnd skipuð fulltrúum forsætisráðuneytisins, menningar- og viðskiptaráðuneytisins, skrifstofu Alþingis, skrifstofu forseta Íslands og Þingvallaþjóðgarðs. Nefndin hefur unnið að undirbúningi viðburða til að halda upp á tímamótin um allt land á næstu mánuðum.
Sjálf mun ég fagna þjóðhátíðardeginum vestur á Hrafnseyri, fæðingastað Jóns Sigurðssonar, þar sem verður skemmtileg dagskrá í tilefni lýðveldisafmælisins og einnig 1150 ára afmælis Íslandsbyggðar. Ég vil hvetja sem flesta til þess að taka þátt í að fagna 80 ára afmæli lýðveldisins, enda er það fjöregg okkar sem við verðum að hlúa að til framtíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2024.
Ferðaþjónustan er í dag stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur þjóðarinnar og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar í landinu. Með tilkomu hennar hefur orðið umturnun á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins á rúmlega 10 árum. Sveiflur í atvinnugreininni geta þannig framkallað nokkur hröð áhrif á lykilbreytur í efnahagslífinu.
Fyrr á árinu var smíði á sérstöku þjóðhagslíkani fyrir íslenska ferðaþjónustu lokið. Með líkaninu verður hægt að skoða áhrif breytinga í starfsumhverfi ferðaþjónustunnar á hagkerfinu. Um er að ræða fyrsta þjóðhagslíkan fyrir atvinnugrein hérlendis. Ferðamálastofa hefur haldið á framkvæmd verkefnisins fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins en annars vegar er um að ræða sérstakt þjóðhagslíkan fyrir íslenska ferðaþjónustu, eða svokallað geiralíkan, og hins vegar útvíkkun á spálíkani Seðlabanka Íslands/Hagstofu Íslands, þannig að það taki tillit til hlutverks ferðaþjónustunnar í þjóðarbúskapnum.
Tilkoma þjóðhagslíkansins skiptir máli í umgjörð ferðaþjónustunnar og mun líkanið gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að skoða með raunhæfum hætti áhrif breytinga á helstu forsendum ferðaþjónustu á hag greinarinnar sem og þjóðarbúsins alls – og öfugt. Þannig verður hægt að meta áhrifin af breytingum í þjóðarbúskapnum á hag greinarinnar. Þar má nefna sem dæmi áhrif ferðaþjónustunnar á þjóðhagsstærðir eins og VLF og atvinnustig, s.s. við farsóttir, miklar breytingar á flugsamgöngum eða ferðavilja, og áhrif gengis, verðlags, atvinnustigs og skatta á ferðaþjónustuna.
Unnið er að því að gera gagnvirka og einfalda útgáfu þjóðhagslíkansins aðgengilega á vefsvæði Ferðamálastofu eða Mælaborði ferðaþjónustunnar, þannig að notendur geti breytt meginforsendum og séð áhrif þeirra breytinga skv. líkaninu á aðrar helstu hagstærðir.
Samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar skiptir þjóðarbúið höfuðmáli og þurfa ákvarðanir stjórnvalda að endurspegla þá staðreynd í hvívetna. Fleiri ríki sem við berum okkur saman við hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á að byggja upp ferðaþjónustu með markvissum hætti. Ísland verður að vera á tánum gagnvart þeirri auknu alþjóðlegu samkeppni sem af því leiðir. Hið nýja þjóðhagslíkan mun hjálpa okkur að skilja hvaða áhrif fækkun eða fjölgun ferðamanna hefur á þjóðarbúið og undirbyggja enn betur þær ákvarðanir sem teknar eru í málefnum ferðaþjónustunnar.
Ég er bjartsýn fyrir hönd íslenskrar ferðaþjónustu sem hefur náð miklum árangri á undanförnum áratug. Miklum vexti fylgja oft áskoranir eins og við þekkjum, en heilt yfir hefur okkur sem samfélagi tekist vel til við að takast á við þær, enda eru miklir hagsmunir í húfi fyrir þjóðarbúið í heild.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2024.
Ferðaþjónustunni hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum en ferðamenn sem hingað koma hrífast af menningu okkar og hinni stórbrotnu íslensku náttúru sem er einstök á heimsvísu. Mælingar sýna einmitt að þeir ferðamenn sem hingað koma njóta veru sinnar mikið og gefa Íslandi afar góða umsögn.
Í liðinni viku tók Alþingi til umfjöllunar tillögu mína til þingsályktunar um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030 og aðgerðaáætlun henni tengda. Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hér á landi hefur aukist verulega samhliða vexti greinarinnar. Ytri staða þjóðarbúsins stóð oft á tímum tæpt hér á árum áður en straumhvörf urðu á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins fyrir rúmlega tíu árum þegar ferðaþjónustan fór á flug í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Ferðaþjónustan er í dag stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur þjóðarinnar og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar í landinu.
Það skiptir máli að búa þessari stóru og þjóðhagslega mikilvægu atvinnugrein sterka umgjörð og marka skýra sýn á það hvert skal haldið. Þar mun ný ferðamálastefna skipa veigamikinn sess. Vinna við hina nýju ferðamálastefnu hefur verið eitt af forgangsmálum mínum í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Sjö starfshópar hafa unnið að ferðamálastefnunni, sem hafa verið skipaðir af 6-8 sérfróðum aðilum. Ferðaþjónustan er fjölbreytt og skemmtileg atvinnugrein, sem endurspeglast einmitt í hópunum en þeir náðu utan um sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu.
Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf, í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Það skiptir miklu máli að hlúa að ferðaþjónustunni um allt land og skapa þannig skilyrði að hægt sé að lengja ferðamannatímabilið hringinn um landið. Það ríkir mikil alþjóðleg samkeppni í ferðaþjónustu og við verðum ávallt að vera á tánum að tryggja að samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu sé eins og best verði á kosið.
Það skiptir nefnilega lítið opið hagkerfi eins og okkar öllu máli að hér séu styrkar útflutningsstoðir eins og ferðaþjónustuna.
Sagan kennir okkur að þjóðríki sem hafa miklar útflutningstekjur, myndarlegan gjaldeyrisforða sem og innlendan sparnað eru í mun sterkari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll í efnahagslífinu. Þar mun ferðaþjónustan skipta lykilmáli til framtíðar. Leikplanið sem felst í nýrri ferðamálastefnu er metnaðarfullt, verkefnið framundan verður að hrinda því í framkvæmd og sækja fram fyrir íslenska ferðaþjónustu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí 2024.
Tæknibreytingarnar sem eru að eiga sér stað í gegnum gervigreind og máltækni eru þær mestu í áratugi. Tækni mun breyta því hvernig fólk vinnur, lærir, ferðast, nálgast heilbrigðisþjónustu og hefur samskipti sín á milli.
Eins og flestum er kunnugt hafa miklar breytingar orðið á stöðu tungumála með tilkomu gervigreindar, alþjóðavæðingar og aukinna fólksflutninga. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum sett málefni íslenskunnar í öndvegi í þessu ljósi. Til að mynda samþykkti Alþingi Íslendinga í síðustu viku aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu til ársins 2026. Alls eru þetta 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta. Stjórnvöld hafa undanfarin ár einnig fjárfest í máltækni fyrir íslensku með verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022 og náð góðum árangri. Markmiðið með henni er skýrt: að gera íslenskuna gildandi í hinum stafræna heimi til framtíðar. Í heimi tækninnar þarf að tala máli íslenskunnar gagnvart þeim aðilum sem leiða tækniþróun í heiminum. Það þarf að minna á mikilvægi minni tungumála og koma á framfæri þeim íslensku máltæknilausnum sem smíðaðar hafa verið hér á landi á undanförnum árum sem erlend tæknifyrirtæki geta innleitt í vörur sínar með nokkuð greiðum hætti. Það var mikil viðurkenning fyrir vegferð íslenskra stjórnvalda í málefnum íslenskunnar þegar bandaríska tæknifyrirtækið OpenAI gaf út nýja uppfærslu á gervigreindar-mállíkaninu GPT í fyrra þar sem íslenska var valin fyrst tungumála, utan ensku, í þróunarfasa þess. Var það afrakstur samtala og funda við fulltrúa fyrirtækisins.
Í vikunni leiddi ég sendinefnd til Bandaríkjanna sem fundaði með stórum tæknifyrirtækjum til að ræða stöðu smærri tungumála, sérstaklega íslensku, í stafrænum heimi. Fyrirtækin voru Microsoft, Allen Instittu4e for AI, Anthropic, Google og OpenAI. Er það meðal annars í samræmi við nýja máltækniáætlun þar sem lagt er til að aukinn þungi verði settur í að kynna íslenska máltækni á erlendri grundu. Jafnframt er verið að kanna hug þessara fyrirtækja til að koma á fót alþjóðlegum samstarfsvettvangi fyrir smærri tungumál heims. Skemmst er frá því að segja að okkur var vel tekið og áhugi er fyrir hendi á að auka veg íslenskunnar enn frekar. Microsoft hefur til dæmis hefur sýnt íslensku mikinn áhuga og má nefna að ýmis forrit á borð við Word og allt viðmót þess er hægt að nota alfarið á íslensku. Eftir heimsókn íslenskrar sendinefndar árið 2022, sem forseti Íslands ásamt mér og fleirum fór í, hefur Microsoft nú þegar innleitt íslenska máltækni í tæknilausnir sínar til að auka gæði íslenskunnar. Meðal þess sem við rætt var við fyrirtækið í þessari umferð var íslenska forritið Copilot, sem vel var tekið í. Það skiptir framtíð íslenskunnar öllu máli að hún sé aðgengileg og nýtileg í tækjum sem við notum. Okkur hefur auðnast að vinna heimavinnuna okkar vel hingað til í þessum efnum svo eftir sé tekið og það er að skila sér. Hins vegar er verkefnið langt í frá klárað og ljóst að frekari árangur kallar á breiða samvinnu með virkri þátttöku almennings, vísindafólks, fræðasamfélagsins, fyrirtækja og frumkvöðla á þessu sviði. Þannig liggja hagsmunir íslenskunnar víða sem mikilvægt er að huga að.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. maí 2024.
Samfélagið okkar er eitt samvinnuverkefni. Við í Framsókn leggjum mikla áherslu á að fjárfesta í fólki vegna þess að fjárfesting í mannauði skilar sér í aukinni hagsæld og velsæld í samfélögum líkt og hagrannsóknir sýna. Ríkisstjórn Íslands hefur á undanförnum árum sannarlega fjárfest í fólki, forgangsraðað í þágu aukinnar verðmætasköpunar og náð árangri á fjölmörgum sviðum, þar með talið efnahagsmálum, þrátt fyrir þau innri og ytri áföll sem á vegi hennar hafa orðið. Í því samhengi er áhugavert að skoða þróun nokkra lykilstærða í þjóðarbúskapnum á undanförnum árum. Í fyrsta lagi hefur hagvöxtur á síðustu þremur árum verið 20%, sem er það mikill vöxtur að það er ekki mögulegt að bera hann saman við önnur ríki. Til dæmis eru Danir að horfast í augu við neikvæðan hagvöxt, enginn hagvöxtur er að ráði í Evrópu og helst er litið til Bandaríkjanna eftir einhverjum hagvexti í nánustu framtíð. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur einmitt nýlega lýst því sem miklu áhyggjuefni að þessi áratugur muni einkennast af stöðnun í heimsbúskapnum.
Í öðru lagi er atvinnustig mjög hátt en atvinnuleysi nemur aðeins 3,5%. Auðlegð Íslands er mikil og það eru fá þjóðríki þar sem fullt atvinnustig er ráðandi yfir langt tímabil. Eitt það mikilvægasta í samfélaginu okkar er að allir geti fundið sér starf við hæfi og tekið þannig virkan þátt í samfélaginu okkar, eflt atvinnulífið og undirbyggt aukna verðmætasköpun sem nýtist meðal annars til að fjárfesta enn frekar í fólki.
Í þriðja lagi hafa meðallaun verið að hækka og það skiptir gríðarlegu máli. Þannig eru meðallaun hér á landi með þeim hæstu á byggðu bóli. Þrátt fyrir verðbólgu undanfarinna missera höfum við Íslendingar séð kaupmátt launa aukast verulega undanfarin 10 ár. Nýir langtímakjarasamningar eru góð tíðindi fyrir áframhaldið og glímuna við verðbólgu, þar skiptir aðkoma stjórnvalda miklu máli.
Í fjórða lagi langar mig til að benda á það að hrein erlend staða þjóðarbúsins er óvenju sterk eða sem nemur um 40% af landsframleiðslu. Fyrir um 20 árum var staðan neikvæð um 80%. Við vorum í gríðarlegum erfiðleikum með að halda jákvæðum gjaldeyrisforða en hann var iðulega tekinn að láni sem reyndist mikil áskorun fyrir þjóðarbúið. Kröftug ferðaþjónusta hefur meðal annars drifið þessa þróun áfram ásamt öflugum sjávarútvegi, iðnaði, hugverkum og vexti í skapandi greinum sem hefur skilað sér inn í hagkerfið okkar. Samhliða þessu hefur gjaldeyrismarkaðurinn dýpkað á sama tíma og hefur dregið úr sveiflum. Til dæmis er það merkilegt að jarðhræringarnar á Suðurnesjum hafi ekki orðið til þess að krónan hafi sveiflast mikið þótt eitthvert flökt hafi verið í fyrstu. Ofangreint ber vitnisburð um góður árangur sem við getum verið stolt af. Stærsta verkefni hagstjórnarinnar fram á veginn verður að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta í þágu heimila og fyrirtækja. Peningastefnan, ríkisfjármálin og vinnumarkaðurinn eru farin að ganga í takt, sem mun skila árangri fyrir samfélagið og undirbyggja betri lífskjör á Íslandi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2024.
Íslenskt menningarlíf hefur átt góðu gengi að fagna og fer hróður þess um víða veröld. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Hér á landi hefur verið almennt breið sátt um það að hlúa að menningarlífinu með því að fjárfesta í listnámi, tryggja aðgang að slíku námi, styðja við grasrótarsamtök í menningarlífinu og skapa vettvang fyrir listamenn til þess að hlúa að frumsköpun. Þar hafa starfslaun listamanna þjónað sem mikilvægt verkfæri til að efla menningarstarf í landinu. Listamannalaun í einhverju formi eru rótgrónari en margan grunar, en saga þeirra nær allt aftur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skáldalaun. Umgjörð þeirra var fyrst formgerð með lagasetningu árið 1967 þegar lög um listamannalaun voru samþykkt og síðar voru uppfærð árin 1991 og 2009.
Árlegur kostnaður við listamannalaun er 978 milljónir króna. Til að setja þá tölu í samhengi er um að ræða 1,5% af útgjöldum til háskólastigsins og 0,06% af fjárlögum ársins 2024.
Nýverið voru kynntar tillögur til breytinga á listamannalaunum þar sem lagt var upp með að fjölga þeim í skrefum til ársins 2028, en engar breytingar hafa átt sér stað á kerfinu í 15 ár. Eru boðaðar breytingar gerðar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stjórnarsáttmála, að unnið skuli að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna. Þær eru því eðlilegt skref og forgangsraðað verður í þágu þeirra á málefnasviði menningarmála innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Í breytingunum felst meðal annars að komið verði á fót tveimur nýjum þverfaglegum sjóðum; Vexti sem er sjóður sem ætlaður er fyrir listamenn undir 35 ára aldri, og Vegsemd, sjóði fyrir listamenn yfir 67 ára aldri. Vexti er ætlað að styðja sérstaklega við unga listamenn sem hafa ekki enn skapað sér styrka stöðu innan sinnar listgreinar og er m.a. ætlað að mæta þeirri gagnrýni sem heyrst hefur, að lítil nýliðun sé innan kerfisins. Að sama skapi er Vegsemd sérstakur, þverfaglegur sjóður fyrir eldri listamenn sem hafa varið sinni starfsævi til listsköpunar.
Ég tel eðlilegt að við stöndum með listafólkinu okkar í blíðu jafnt sem stríðu, enda er menning eitthvað sem sameinar okkar – sérstaklega þegar vel gengur. Öll fyllumst við til að mynda stolti þegar íslenskum listamönnum gengur vel á erlendri grundu og kastljós umheimsins beinist að landinu vegna þess. Dæmi er um listamenn sem hlotið hafa eftirsóttustu verðlaun heims á sínu sviði sem á einhverjum tímapunkti þáðu listamannalaun á ferli sínum til þess að vinna að frumsköpun sinni. Ísland er auðugra og eftirsóttara land fyrir vikið, fyrir okkur sjálf sem hér búum og alla þá gesti sem hingað koma.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.
Í ágætri bók eftir Nicholas Wapshott, sem ber titilinn „The Sphinx“, er fjallað um baráttuna sem Franklin D. Roosevelt, fv. forseti Bandaríkjanna, háði gegn einangrunarhyggju í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Einangrunarsinnar voru alfarið á móti því að Bandaríkin sendu herafla til að verja lýðræðisríki í Evrópu. Meðal helstu andstæðinga Roosevelts var vinur hans Joseph P. Kennedy, viðskiptajöfur og sendiherra, ásamt einstaklingum á borð við Walt Disney og Henry Ford. Þeir töldu að Bandaríkin, hið nýja heimsveldi, ætti ekkert erindi í stríðsátök handan Atlantshafsins. Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér vegna þess að umræðan víða um heim í dag er af sama toga. Sterk öfl í Bandaríkjunum tala fyrir einangrunarhyggju, sem er ekki jákvætt fyrir frið, velsæld og alþjóðaviðskipti.
Blikur á lofti í alþjóðaviðskiptum
Allt er í heiminum hverfult og tímabil alþjóðavæðingar, eins hún hefur birst eftir seinni heimsstyrjöld, virðist mögulega hafa runnið sitt skeið. Hlutfall vöru- og þjónustuútflutnings á heimsvísu náði hámarki árið 2008 og hefur síðan þá farið lækkandi. Heimshagkerfið hefur séð mikinn vöxt í viðskiptahindrunum síðastliðinn áratug. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sýnt fram á að heimsframleiðsla geti dregist saman um 7% á næstunni, ef viðskiptahindranir aukast. Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa augun á og sporna við til að stuðla að áframhaldandi lífskjarasókn í veröldinni.
Aukinn ófriður á heimsvísu og meiri skipting viðskipta eftir pólitískri hugmyndafræði hefur leitt af sér mikla fjölgun í viðskiptahindrunum. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum voru settar alls 3.000 viðskiptahindranir á síðasta ári, sem er þreföldun frá árinu 2019. Saga hagfræðinnar hefur kennt okkur að þegar viðskipti þjóða dragast saman, þá versna lífskjör. Ekkert þjóðríki hefur ávinning af því að skipta hagkerfi heimsins í fylkingar. Þess vegna skiptir samvinna þjóða og alþjóðasamstarf svo miklu máli.
Hagsæld Íslands grundvallast á alþjóðaviðskiptum
Íslendingar stunduðu umfangsmikil viðskipti á sinni gullöld (930-1262), fundu Norður-Ameríku og ferðuðust alla leið til Bakú í Aserbaísjan. Sagnaritararnir varðveittu germanska menningararfinn og samin voru einstök bókmenntaverk, líkt og Íslendingasögurnar og aðrar bókmenntaperlur. Á þessum tíma ríkti bókmenntaleg hámenning á Íslandi og segja má að landið hafið verið miðstöð viðskipta og skapandi greina í Norður-Atlantshafi. Mikil viðskipti voru við Grænland og þaðan komu dýrgripir a borð við fálka, rostungstennur og náhvalstennur. Þetta blómaskeið leið undir lok á 13. öld þegar innanlandsófriður hófst og veðurfar kólnaði. Landið einangraðist frá Evrópu og á endanum glataði það sjálfstæði sínu. Eftir svartadauða versnuðu lífsskilyrði verulega og náði sú þróun hámarki á 18. öld, þegar hver hungursneyðin rak aðra ásamt erfiðum jarðhræringum. Danskir ráðamenn töldu jafnvel skynsamlegt að flytja alla Íslendinga til Danmerkur. Einangrun landsins hafði gríðarleg áhrif á þessa neikvæðu þróun og eins það, að eignarhald á utanríkisviðskiptum hvarf frá landsmönnum.
Sá mikli kraftur sem verið hefur í alþjóðaviðskiptum undanfarna áratugi hefur verið aflvaki þess að lífskjör hundraða milljóna manna hafa batnað. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessari þróun og er engum blöðum um það að fletta að efnahagslegur vöxtur landsins hefur byggst á opnum alþjóðaviðskiptum. Um leið og Ísland hóf aftur að stunda frjáls viðskipti og fór að nýta auðlindir landsins í eigin þágu jukust hér lífsgæði og auðsæld. Tæknivæðing samfélagsins lagði sitt af mörkum í þessari samfelldu framfarasögu, skilaði aukinni skilvirkni og nýtingu framleiðsluþátta. Þannig störfuðu í upphafi 20. aldarinnar um 80% af vinnuaflinu í landbúnaði og sjávarútvegi en 100 árum síðar er samsvarandi hlutfall um 10%. Á sama tíma hefur verðmætasköpun aukist umtalsvert. Utanríkisviðskipti hafa orðið mun fjölbreyttari en þegar um 90% gjaldeyristekna komu frá sjávarútvegi fyrir tæpum fjórum áratugum. Meginútflutningsstoðir hagkerfisins eru fjórar í dag; ferðaþjónusta, sjávarútvegur, iðnaður og skapandi greinar.
Einangrunarsinnar sækja í sig veðrið
Á síðustu öld hafa Bandaríkin verið leiðandi í frjálsum viðskiptum en síðustu misseri hafa stjórnvöld verið að hverfa af þeirri braut. Mikil skautun hefur einkennt alla pólitíska umræðu og óvenjubreið spjót hafa tíðkast milli Demókrata og Repúblikana í umræðunni um ríkisfjármál, jafnréttismál og frjáls viðskipti. Ofan á það er ljóst að verkafólk í Bandaríkjunum hefur borið skarðan hlut frá borði vegna hnattvæðingar, sem hefur falist í því að mikið af bandarískum störfum fluttist til ríkja þar sem launakostnaður var mun lægri. Raunlaun þessa hóps hafa að mestu staðið í stað meðan kostnaður vegna húsnæðis og menntunar hefur vaxið mikið. Þessi þróun hefur leitt af sér óþol gagnvart vaxandi hnattvæðingu í Bandaríkjunum. Hins vegar er hægt að láta alþjóðaviðskiptin vinna fyrir allt samfélagið, ef viljinn er fyrir hendi. Stjórnmálin hafa því síðustu misseri einbeitt sér að því að flytja störf aftur heim. Mun harðari innflytjendastefna var tekin upp og hefur sett þrýsting á vinnumarkaðinn, sem er að valda verðbólgu. Loft allt hefur verið lævi blandið í samskiptum tveggja stærstu hagkerfa heimsins, Kína og Bandaríkjanna. Stjórnvöld beggja ríkja hafa markvisst unnið að því að gera efnahagskerfi sín minna háð hvort öðru. Þessi þróun er ekki hagstæð fyrir lítið opið hagkerfi eins og Ísland er. Til að hagsæld aukist áfram á Íslandi er afar mikilvægt að aðgengi að helstu mörkuðum sé greitt, hvort heldur fyrir vörur eða þjónustu.
Í upphafi greinarinnar fór ég aftur í söguna og fjallaði um þá einangrunarhyggju sem einkenndi bandaríska stjórnmálaumræðu á 4. áratugnum. Roosevelt var mikill vandi á höndum, því hann taldi útilokað annað en að styðja við forsætisráðherrann og félaga sinn Winston Churchill og lýðræðisríkin í Evrópu. Öll vitum við í dag að aðkoma Bandaríkjanna og liðsauki þeirra við bandalagsríki sín skipti sköpum í að hafa sigur á Hitler og bandamönnum hans. Umræðan í Bandaríkjunum í dag er keimlík þeirri sem var á 4. áratugnum og munu næstu forsetakosningar ráða miklu um þróun öryggis- og varnarmála í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Farsæl samvinna ríkja varðar veginn fyrir áframhaldandi velsæld og öryggi á heimsvísu. Sagan sjálf sýnir okkur það líkt og rakið hefur verið hér að ofan.
Páskarnir eru hátíð trúar og birtunnar. Birtuhluti sólarhringsins er að verða lengri en hinn myrki. Þetta er einnig tími vonar og upprisu. Vonandi fer að birta til í alþjóðamálum. Gleðilega páska!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. mars 2024.
Upp, upp mín sál og allt mitt geð, upp mitt hjarta og rómur með, hugur og tunga hjálpi til, herrans pínu ég minnast vil.
Páskahátíðin er hafin þar sem við njótum samvista með fjölskyldu og vinum. Passíusálmarnir hafa fylgt þjóðinni í nærri 365 ár og eru meistaraverk bæði frá listrænu og trúarlegu sjónarmiði og ein af mörgum birtingarmyndum þess ríka bókmenntaarfs sem Ísland býr að. Bókmenntir eru samofnar sögu þjóðarinnar eins og við þekkjum. Þannig er bókmenntaarfur Íslendinga okkar merkasta framlag til heimsmenningar en handritasafn Árna Magnússonar er til dæmis á verðveisluskrá UNESCO.
Á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref til þess að efla umgjörð menningar og skapandi greina á Íslandi. Fyrsta heildstæða kvikmyndastefnan fyrir Ísland leit dagsins ljós árið 2020 og síðan þá hefur myndlistarstefna, tónlistarstefna, stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs verið gefnar út og hrint í framkvæmd. Unnið er að stefnu í málefnum sviðslista og gær samþykkti ríkisstjórn tillögu mína um nýja bókmenntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Nýrri bókmenntastefnu er ætlað að hlúa enn betur að bókmenntamenningu okkar til framtíðar. Í stefnunni er birt framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og jafnframt þrjú meginmarkmið sem aðgerðirnar skulu styðja við. Meginmarkmiðin snúast um fjölbreytta útgáfu á íslensku til að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu; um aukinn og bættan lestur, ekki síst meðal ungra lesenda; og hvatning til bókasamfélagsins um nýsköpun sem taki mið af tækniþróun og örum samfélagsbreytingum.
Aðgerðaáætlunin hefur að geyma 19 aðgerðir sem skipt er upp í fjóra flokka: Umgjörð og stuðningur; Börn og ungmenni; Menningararfur, rannsóknir og miðlun; og Nýsköpun og sjálfbærni. Aðgerðirnar leggja ekki síst áherslu á börn og ungmenni annars vegar og íslenska tungu hins vegar en víða er komið við.
Ein stærsta aðgerðin sem boðuð er í áætluninni snýst um endurskoðun á því regluverki og þeirri umgjörð sem hið opinbera hefur komið upp í tengslum við bókmenntir og íslenskt mál. Þar eru undir lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, lög um bókmenntir, lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, bókasafnalög o.fl. Í þeirri endurskoðun er brýnt að hugað verði að breyttu landslagi tungu og bóka vegna tilkomu gervigreindar, máltækni, streymisveitna og annarrar tækni sem er í hraðri þróun þessi misserin.
Bókmenntastefnan er gerð í mikilli samvinnu við hagsmunaaðila sem lögðu til grundvöllinn í stefnunni og aðgerðunum. Það er viðeigandi að bókaþjóðin Ísland fái nýja bókmenntastefnu sem mun leggja grunninn að enn metnaðarfyllra menningarlífi hér á landi. Ég óska öllum gleðilegra páska.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2024.
Ísland státar af öflugu tónlistarlífi sem eftir er tekið á erlendri grundu. Slík þróun gerist ekki á einni nóttu heldur liggur þar að baki afrakstur mikillar vinnu í gegnum áratugina. Það er til að mynda áhugavert að kynna sér sögu Tónlistarfélags Reykjavíkur sem stofnað var árið 1932. Félagið ruddi mikilvægar brautir í menningarlífinu en tilgangur þess var að bæta aðstöðu íslenskra tónlistarmanna bæði til náms og starfs en alls almennings til tónnautnar. Félagið á sér í raun lengri sögu, en undanfarar þess eru Hljómsveit Reykjavíkur, stofnuð 1925, og Tónlistarskólinn í Reykjavík, stofnaður 1930. Saga félagsins veitir innsýn í þann mikla metnað sem ríkti í tónlistarlífinu vel fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, en Tónlistarfélagið kom til dæmis að því að fá eina virtustu tónlistarmenn samtímans til landsins að spila á tónleikum. Með tíð og tíma efldist tónlistarstarf víða um land með stofnun fleiri tónlistarfélaga og tónlistarskóla, má þar nefna Tónlistarskóla Akureyrar sem stofnaður var árið 1946 og Tónlistarskóla Ísafjarðar sem var settur á laggirnar árið 1948. Þannig hefur í áratugi ríkt metnaður fyrir tónlistarnámi, með frábærum kennurum í broddi fylkingar og góðu aðgengi að slíku námi sem skipt hefur sköpum fyrir menningarlíf þjóðarinnar.
Á Íslensku tónlistarverðlaununum í vikunni endurspeglaðist meðal annars sá mikli kraftur sem býr í tónlistarlífinu hér á landi. Við höfum einnig fylgst með glæsilegum árangri íslenskra tónlistarmanna á alþjóðlegum vettvangi undanfarið. Má þar nefna eftirtektarverðan árangur Íslendinga á Grammy-verðlaunahátíðinni í febrúar síðastliðnum, þar sem söngkonan Laufey Lín Jónsdóttir hlaut verðlaunin eftirsóttu fyrir plötu sína Bewitched, og tilnefningu tónlistarmannsins Ólafs Arnalds til verðlauna í sínum flokki. Á fjórum árum hafa Íslendingar unnið fern Grammy-verðlaun af tíu tilnefningum. Það verður að teljast afbragðsgott fyrir þjóð sem telur tæplega 400.000. Í samhenginu við mannfjöldann má einmitt geta þess að í vikunni bárust fregnir af því lagið Little Talks eftir íslensku hljómsveitina Of Monsters and Men náði að rjúfa eins milljarðs múrinn í hlustunum á streymisveitunni Spotify.
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið stór skref til þess að efla umgjörð tónlistarlífsins í landinu enn frekar með nýrri löggjöf og stefnu um tónlist, nýrri Tónlistarmiðstöð sem og Tónlistarsjóði. Ég er sannfærð um að breytingarnar muni treysta enn frekar þann góða grunn sem er til staðar og verði til þess að okkar hæfileikaríku tónlistarmenn fái enn meiri byr í seglin með nýjum tækifærum til framtíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2024.
Hagsæld þjóða byggist á samspili fjölmargra þátta sem huga þarf að og stilla saman. Þar spila kjarasamningar meðal annars veigamikið hlutverk. Íslenska hagkerfið er þróttmikið og sagan kennir okkur að það á til að bregðast hratt við þegar áföll ríða yfir. Viðspyrna hagkerfisins í framhaldi af heimsfaraldrinum er enginn undantekning. Hagvöxtur hefur verið meiri en víða í nágrannaríkjunum frá því að draga tók úr áhrifum heimsfaraldursins á árinu 2022.
Samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar mældist hagvöxtur 8,9% árið 2022 og 4,1% 2023. Þessar tölur voru talsvert hærri en jafnvel nýjustu spár gerðu ráð fyrir og hefur hagvöxtur hér á landi verið með hæsta móti hjá OECD-ríkjum.
Ísland var fljótt að jafna sig eftir heimsfaraldurinn vegna þess þróttar sem er í íslensku efnahagslífi. Að sama skapi virkuðu stuðningsaðgerðir stjórnvalda vel, eða eins og efnahagsleg loftbrú. Nýlegar leiðréttingar Hagstofunnar á mannfjöldatölum sýna jafnframt að hagvöxtur á mann hefur verið mikill og meiri en fyrstu tölur gerðu ráð fyrir, eða um 5,9% á árinu 2022 og 2,1% á árinu 2023, þannig að þær umræður sem urðu um að hagvöxtur á mann væri lítill áttu sér ekki stoð í raun. Hagkerfið hefur því í raun verið mun heitara en búist var við.
Nýlegar hagtölur benda hins vegar til þess að jafnvægi sé að nást, en samkvæmt nýjustu tölum Seðlabanka Íslands var afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd eftir nokkurra ára hlé og hagkerfið virðist vera að kólna hratt ef horft er til einkaneyslu. Aukinn þjónustuútflutningur, sem skýrist aðallega af framlagi ferðaþjónustu, hélt uppi hagvexti á síðasta ári. Á síðustu vikum og mánuðum hafa verið teikn uppi um að mögulega sé að hægja á starfsemi ferðaþjónustu og má einkum rekja það til áhrifa af eldsumbrotunum a Reykjanesi. Þrátt fyrir þetta eru verðbólga og verðbólguvæntingar áfram þrálátar. Það er ljóst að það mun hægjast á hagvexti á komandi misserum eins og víða í nágrannalöndunum. Til að byggja undir almenna hagsæld er nauðsynlegt að fara í aðgerðir sem snúa að hagvexti til framtíðar og orkuskiptunum. Hagkerfið býr yfir mun meiri fjölbreytni en á árum áður og þarf ekki að vera áhyggjuefni þótt dragi tímabundið saman í hagvexti. Hins vegar til að byggja undir almenna hagsæld fer að verða tímabært að hefja samtal um að huga að aðgerðum sem snúa að hagvexti til framtíðar.
Langtíma kjara- samningar í höfn
Nýir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru til fjögurra ára skipta hagkerfið miklu máli. Með þeim er leiðin fram á við mörkuð í átt að bættum lífskjörum, en stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum, sem mun skila sér í auknum kaupmætti fólks. Eina raunhæfa leiðin til þess að ná því markmiði er samstillt átak hins opinbera, vinnumarkaðarins og peningastefnunnar í landinu. Það er jákvætt að samkomulag hafi náðst til fjögurra ára en tímalengd samninganna stuðlar að auknum fyrirsjáanleika á vinnumarkaði. Aðgerðir sem stjórnvöld kynntu til að greiða fyrir gerð kjarasamninganna eru margþættar og er markmið þeirra að stuðla að vaxandi velsæld í landinu. Um er að ræða umfangsmiklar aðgerðir sem nema allt að 80 milljörðum króna á samningstímanum. Þannig hafa stjórnvöld tekið ákvörðun um að forgangsraða fjármunum ríkisins með skýrum hætti í þágu stöðugleika á vinnumarkaði næstu árin. Á sama tíma er mikilvægt að ríkið rýni í eigin rekstur, til dæmis með því að nýta fjármuni betur, stuðla að aukinni hagkvæmni hjá hinu opinbera og tryggja samkeppnishæfa umgjörð um atvinnulífið til þess að standa undir verðmætasköpun fyrir samfélagið.
Verulegur stuðningur á húsnæðismarkaði
Aðgerðir stjórnvalda snerta lífskjör fólks með beinum hætti. Þannig er aðgerðunum ætlað að auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna um að allt 500 þúsund krónur á ári. Þannig verður sjö milljörðum varið í ár í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán til að koma til móts við aukinn vaxtakostnað, en stuðningurinn kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Gert er ráð fyrir að sérstakur vaxtastuðningur greiðist beint inn á höfuðstól húsnæðisláns en heimilt verði að óska eftir að nýta hann til lækkunar á afborgunum í tiltekinn tíma. Að sama skapi verður dregið úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda með hærri húsnæðisbótum en grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25% þann 1. júní næstkomandi og aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að 6 heimilismenn í stað 4 áður. Kostnaður vegna þessa er um 2,5 milljarðar króna á ársgrundvelli. Að sama skapi verður húsnæðisöryggi leigjenda aukið og skýrari rammi settur um ákvörðun og fyrirsjáanleika leigufjárhæðar með breytingum á húsaleigulögum auk bættrar ráðgjafar og upplýsinga til leigjenda. Að sama skapi verður settur enn meiri kraftur í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á samningstímanum með stofnframlögum og hlutdeildarlánum til uppbyggingu 1.000 íbúða á ári. Sveitarfélögin munu leggja til byggingarhæfar lóðir og stofnframlög til að mæta uppbyggingarþörf og lífeyrissjóðum verða veittar rýmri heimildir til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði.
Stutt við barnafjölskyldur
Ráðist verður í umfangsmiklar aðgerðir til þess að styðja betur við barnafjölskyldur á samningstímanum. Þannig verða barnabætur hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum, sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Framlög til barnabóta verða aukin um 18 milljarða króna á samningstímanum. Þá verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum, þann 1. apríl 2024 úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr., frá og með 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr. Það er um tímabæra breytingu að ræða sem mun ýta undir auknar samvistir barna með báðum foreldrum. Ráðist verður í samhent átak til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með það að markmiði að tryggja öllum börnum pláss á leikskólum. Þá verða skólamáltíðir grunnskólabarna gerðar gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans.
Samfélag er samvinnuverkefni
Heimsókn nóbelsverðlaunahafans Jósefs Stiglitz í síðustu viku minnti okkur á hvað sú efnahagsskipan sem við búum við á Íslandi hefur reynst gæfurík. Þó að okkur greini á um ýmis mál varðandi stjórn efnahagsmála og skiptingu gæða höfum við sem þjóðfélag náð samstöðu um fjárfestingu í almannagæðum, menntun, sjúkratryggingum og félagslega kerfinu og með samvinnu náð að skapa grundvöll fyrir framsækið markaðshagkerfi þar sem frelsi einstaklingsins er í forgrunni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.