Categories
Fréttir

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

Deila grein

16/11/2020

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni á Alþingi í liðinni viku að hollt væri að rifja upp allt það sem vel hefur tekist til í óvæntum aðstæðum. Fór hún sérstaklega yfir þær félagslegu aðgerðir sem farið hefur verið í vegna Covid.

„Stjórnvöld hafa nú þegar notað rúmlega 22 milljarða í úrræði til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þar vegur hlutabótaleiðin þyngst en alls hafa yfir 35.000 launþegar hjá 6.600 atvinnurekendum fengið greiddar hlutabætur frá því að lögin voru samþykkt en gera má ráð fyrir að 79% þeirra séu enn í ráðningarsamning við vinnuveitenda. Laun hafa verið greidd í sóttkví og tímabundin sumarstörf fyrir námsmenn orðið til hjá ríki og sveitarfélögum,“ sagði Líneik Anna.

Benti Líneik Anna á að framfærendur fatlaðra og langveikra barna hafi getað sótt um eingreiðslu vegna aukinnar umönnunar. Þá voru í vor settar 386 milljónir í ýmsar félagslegar aðgerðir, svo sem Hjálparsíma, 1717, unnið var með Móðurmáli, samtökum um tvítyngi, að fjarkennslu og heimanámsaðstoð og upplýsingar um Covid gerðar aðgengilegar á ýmsum tungumálum. Raunin varð að mikið var óskað eftir þessari þjónustu.

Sagði Líneik Anna ótal margar aðrar aðgerðir sem snúa sérstaklega að vernd heimila, vinnumarkaðsmálum, tómstundastarfi og innflytjendum hafi jafnframt heppnast vel.

„Það er ljóst að þegar allir leggjast á eitt finnast leiðir til að koma okkur í gegnum Covid. Mörg þessara verkefna og aðgerða þarf svo að þróa áfram meðan Covid stendur yfir og sumar eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum,“ sagði Líneik Anna að lokum.

  • Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins 5. nóvember 2020.
Categories
Greinar

Rann­saka þarf inn­flutning land­búnaðar­vara

Deila grein

22/10/2020

Rann­saka þarf inn­flutning land­búnaðar­vara

Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd hefur fjallað um misræmi í tölum ESB um útflutning á landbúnaðarvörum til Íslands og innflutningstölum Hagstofu Íslands á tveimur fundum, að frumkvæði þingmanna Framsóknarflokksins. Undirrituð situr í nefndinni fyrir hönd Framsóknarflokks og er verulega umhugað um þessi mál.

Umfjöllun nefndarinnar hefur nú þegar sýnt fram á að það þarf að bæta verklag við tollafgreiðslu matvöru, það þarf að yfirfara alla tollskrána fyrir matvæli og gæta betur að samræmi við alþjóðatollskrá því það er allra hagur að tollflokkun sé rétt. Allir tollasamningar byggja á því að alþjóðleg tollskrá tryggi samræmi milli landa. Það ætti því ekki að vera flókið að bæta verklag. Nefndin mun halda áfram umfjöllun um málið og kalla eftir frekari upplýsingum frá tollayfirvöldum um verklag og framkvæmd.

Ostur tollaður sem jurtaostur

Nefndinni barst minnisblað frá Bændasamtökum Íslands, þar kemur fram að árið 2019 hafi verið flutt inn mikið af jurtaosti og grunsemdir vöknuðu um að það væri vara þar sem uppistaðan væri mozarella ostur úr kúamjólk. Bændasamtök Íslands hafa snúið sér til fjármálaráðuneytisins sem nú hefur brugðist við. Fram til þessa hefur þessi ostur verið fluttur inn án tolla, en fjármálaráðuneytið hefur nú tekið af allan vafa um að ostur af þessu tagi fellur í tollflokk sem ber toll hér á landi.

Árið 2019 nam innflutningur á þessum osti 299 tonnum, til framleiðslunnar þarf um 3.000.000 lítra af mjólk en það svarar til ársframleiðslu 8-10 íslenskra kúabúa. Tollur af þessum osti gæti numið 200- 300 milljón kr. það árið þ.e. tekjur sem ættu að renna í ríkissjóð. Það hefur líka komið fram að yfirvöld tollamála hafa heimild til endurákvörðunar tolla allt að 6 ár aftur í tímann ef vara reynist hafa verið ranglega afgreidd. Ekki hefur verið staðfest hvað veldur þessu misræmi.

Yfirvöld tollamála þurfa að bregðast við

Skýringar geta vissulega legið í ýmsu, en ég legg mikla áherslu á yfirvöld tollamála bregðist við, rannsaki málin aftur í tímann og tryggi að hér eftir verði þessi ostur og önnur matvara sem flutt er til Íslands flokkuð í réttan tollflokk í samræmi við alþjóðlega tollskrá. Það verður að bregðast hratt við.

Áfram veginn og veljum íslenskt.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. október 2020.

Categories
Fréttir

Fólk um land allt er tilbúið í atvinnuþróun – útlánsvextir fjármálastofnana hamla

Deila grein

03/09/2020

Fólk um land allt er tilbúið í atvinnuþróun – útlánsvextir fjármálastofnana hamla

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði okkur hafa séð magnaða samvinnu og samstarf við úrlausn aðkallandi verkefna í gegnum Covid. Íslendingum hafi auðnast að byggja ákvarðanir á bestu fáanlegum upplýsingum á hverjum tíma í sóttvörnum og í viðspyrnu við kófinu. Enda hafi það sýnt sig að þær aðgerðir hafi skilað árangri. Þetta kom fram í ræðu hennar í umræðu um störf þingsins á Alþingi í gær.

„Verkefni stjórnvalda er áfram mikilvægt, að hlúa að einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu en einnig verður að tryggja rekstraraðilum viðunandi starfsumhverfi til að afla samfélaginu gjaldeyristekna. Við þurfum virka atvinnuþróun og nýsköpun,“ sagði Líneik Anna.

„Ný vísinda- og tæknistefna sem ríkisstjórnin kynnti í gær og yfirlýsing um 50% aukningu fjárveitinga til nýsköpunar næsta ár er mikið fagnaðarefni og grunnur framtíðartekna,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna sagði mjög vont að niðursveiflan í hagkerfinu magnist vegna þess að fyrirtæki hafi ekki lengur aðgang að lánsfjármagni. 

„Útlánsvextir fjármálastofnana til fyrirtækja hafa ekki lækkað í takt við vexti Seðlabankans og jafnvel virðist skorta vilja til lánveitinga. Ég álít að stjórnvöld verði að bregðast við. Til er fólk um land allt sem er tilbúið í atvinnuþróun og stjórnvöld verða að sjá til þess að sá möguleiki sé til staðar,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns:

„Virðulegi forseti. Síðastliðið hálft ár höfum við séð magnaða samvinnu á heimsvísu og innan lands. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að hvetja til samstarfs við úrlausn aðkallandi verkefna því með öflugu samstarfi getum við haldið samfélaginu í eins miklu jafnvægi og mögulegt er í gegnum Covid. Margar ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir og viðspyrnu við kófinu orka tvímælis á hverjum tíma en okkur hefur auðnast að byggja þær ákvarðanir sem við höfum tekið á grunni bestu fáanlegu upplýsinga hverju sinni. Það hefur svo ítrekað sýnt sig að þær aðgerðir skila árangri. Eins og staðan er núna fer innanlandssmitum fækkandi og ekki hefur dregið eins mikið úr landsframleiðslu og spáð var í vor.

Verkefni stjórnvalda er áfram mikilvægt, að hlúa að einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu en einnig verður að tryggja rekstraraðilum viðunandi starfsumhverfi til að afla samfélaginu gjaldeyristekna. Við þurfum virka atvinnuþróun og nýsköpun. Gott er að sjá fréttir af árangri einstakra fyrirtækja við að sækja sér erlent fjármagn til nýsköpunar. Ný vísinda- og tæknistefna sem ríkisstjórnin kynnti í gær og yfirlýsing um 50% aukningu fjárveitinga til nýsköpunar næsta ár er mikið fagnaðarefni og grunnur framtíðartekna. Á hinn bóginn er mjög vont að sjá fréttir um að niðursveiflan í hagkerfinu magnist vegna þess að fyrirtæki hafi ekki lengur aðgang að lánsfjármagni. Útlánsvextir fjármálastofnana til fyrirtækja hafa ekki lækkað í takt við vexti Seðlabankans og jafnvel virðist skorta vilja til lánveitinga. Ég álít að stjórnvöld verði að bregðast við. Til er fólk um land allt sem er tilbúið í atvinnuþróun og stjórnvöld verða að sjá til þess að sá möguleiki sé til staðar.“