Categories
Fréttir

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

„Stjórnvöld hafa nú þegar notað rúmlega 22 milljarða í úrræði til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þar vegur hlutabótaleiðin þyngst en alls hafa yfir 35.000 launþegar hjá 6.600 atvinnurekendum fengið greiddar hlutabætur frá því að lögin voru samþykkt en gera má ráð fyrir að 79% þeirra séu enn í ráðningarsamning við vinnuveitenda. Laun hafa verið greidd í sóttkví og tímabundin sumarstörf fyrir námsmenn orðið til hjá ríki og sveitarfélögum,“ sagði Líneik Anna.

Deila grein

16/11/2020

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni á Alþingi í liðinni viku að hollt væri að rifja upp allt það sem vel hefur tekist til í óvæntum aðstæðum. Fór hún sérstaklega yfir þær félagslegu aðgerðir sem farið hefur verið í vegna Covid.

„Stjórnvöld hafa nú þegar notað rúmlega 22 milljarða í úrræði til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þar vegur hlutabótaleiðin þyngst en alls hafa yfir 35.000 launþegar hjá 6.600 atvinnurekendum fengið greiddar hlutabætur frá því að lögin voru samþykkt en gera má ráð fyrir að 79% þeirra séu enn í ráðningarsamning við vinnuveitenda. Laun hafa verið greidd í sóttkví og tímabundin sumarstörf fyrir námsmenn orðið til hjá ríki og sveitarfélögum,“ sagði Líneik Anna.

Benti Líneik Anna á að framfærendur fatlaðra og langveikra barna hafi getað sótt um eingreiðslu vegna aukinnar umönnunar. Þá voru í vor settar 386 milljónir í ýmsar félagslegar aðgerðir, svo sem Hjálparsíma, 1717, unnið var með Móðurmáli, samtökum um tvítyngi, að fjarkennslu og heimanámsaðstoð og upplýsingar um Covid gerðar aðgengilegar á ýmsum tungumálum. Raunin varð að mikið var óskað eftir þessari þjónustu.

Sagði Líneik Anna ótal margar aðrar aðgerðir sem snúa sérstaklega að vernd heimila, vinnumarkaðsmálum, tómstundastarfi og innflytjendum hafi jafnframt heppnast vel.

„Það er ljóst að þegar allir leggjast á eitt finnast leiðir til að koma okkur í gegnum Covid. Mörg þessara verkefna og aðgerða þarf svo að þróa áfram meðan Covid stendur yfir og sumar eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum,“ sagði Líneik Anna að lokum.

  • Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins 5. nóvember 2020.